Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, mars 2010

Írland - Finnland - Grikkland - Þýskaland - Lettland - Litháen - Eistland. Svo eru það Spánn - Portúgal - Ítalía. . . og Gylfi

 
Evruhagkerfi Írlands á langri niðurleið 
 
Það sem Gylfi veit ekki 
 
1. Írland ennþá á leiðinni niður og á heljarþröm

Írska hagstofan kynnti á fimmtudaginn fyrstu niðurstöður mælinga á frammistöðu írska evruhagkerfisins á síðasta ári. Árið 2009 í heild kom út með 7,1 prósent samdrætti í landsframleiðslu og 11,3 prósent samdrætti í þjóðarframleiðslu. Þetta er mesti samdráttur á einu ári í sögu Írlands, segir hagstofan. Á síðasta fjórðungi 2009 féll landsframleiðsla Írlands um 5,1 prósent miðað við sama tímabil á árinu 2008. Samdráttur landsframleiðslu á milli þriðja og fjórða ársfjórðungs 2009 var 2,3 prósent, þannig að samdrátturinn heldur áfram á Írlandi. Á síðustu 11 ársfjórðungum hefur hagkerfið haldið áfram að dragast saman alla ársfjórðunga nema einn. Samtals á þessu tímabili er 13,2 prósent af írska hagkerfinu horfið; hagstofa Írlands | Børsen
 
Þá vitum við eftirfarandi

2. Við vitum að ERM landið Lettland sem tengt hefur mynt landsins fasta við evru hefur sett nýtt heimsmet í efnahagshruni. Í skýrslu Center for Economic and Policy Research í Washington í febrúar kom fram að afleiðing gengisbindingarinnar sé sú að heimsmet í hruni landsframleiðslu nokkurs ríkis, síðan sögur hófust, er nú verið að setja með 30% hruni landsframleiðslu Lettlands inni í ERM-pyntingarklefa Evrópusambandsins. Samdrátturinn í landsframleiðslu Lettlands á þremur árum verður yfir 30%. Þetta er meira en landsframleiðsla Bandaríkjanna féll í stóru kreppunni frá 1929-1933 | Mánudagur 15. febrúar 2010
 
3. Við vitum að finnska hagstofan gerði grein fyrir árinu 2009 í heild þann 1. mars. Landsframleiðsla Finnlands féll um hvorki meira né minna en 7,8% á árinu í heild. Þetta er mesta hrun í landsframleiðslu Finnlands á einu ári frá því að mælingar hófust árið 1975. Í frægu finnsku kreppunni 1991-1993, þegar Finnland upplifði erfiða bankakreppu samhliða hruni Sovétríkjanna, þá féll landsframleiðsla Finnlands "aðeins" um 6% á árinu 1991 þegar verst lét. Til að fá fram tölur um svipað hrun og varð á árinu 2009, þurfa Finnar að leita aftur til áranna 1917-1918. Þetta er hin svo kallaða finnska leið sem mikið hefur verið í ríkisfjölmiðlum á Íslandi og kynnt þar sem fyrirmynd fyrir Ísland | Þriðjudagur 2. mars 2010
 
4. Við vitum að Grikkland er orðið gjaldþrota í evrum inni í Evrópusambandinu. Alþjóða Gjaldeyrissjóðurinn er á leiðinni þangað. 
 
5. Við vitum að það er hægt að hafa svo kallaðan sterkan gjaldmiðil í veikum hagkerfum. Það sjáum við á Japan og evrusvæðinu. Þetta eru tvö veikustu hagkerfi heimsins og sem einnig munu þjást mest næstu árin, áratugina og aldirnar - þ.e íbúar þessara hagkerfa.

6. Við vitum líka að gjaldþrotahætta ríkisjóða í Evrópu er hærri hjá þeim löndum sem hafa ekki sína eigin mynt. Þetta vitum við núna.

Ekkert af þessu virðist viðskiptaráðherra Íslands vita. Hann hlýtur að lifa og anda í lokuðu ERM-herbergi inni við sundin blá. Já, hann er heppinn að búa á Íslandi, því framtíð íslenska hagkerfisins var að minnsta kosti öfundsverð þegar hann settist sæll og glaður í ráðherrastól viðskiptaráðuneytisins. Þetta tilfelli er greinilega verra viðureignar en nokkurn tíma hefur mælst frá upphafi. Hvað gerðist?

Írland - Finnland - Grikkland - Þýskaland - Lettland - Litháen - Eistland. Svo eru það Spánn - Portúgal - Ítalía. . . og Gylfi - sterkasti hagfræðingurinn í evru-líkkistunni 
 
Hve mikið meira þurfum við að vita? Hvenær verðum við loksins upplýst? 
 
Eftirmáli
 
Furðufugl virðist sitja á í fuglahreiðri fyrrverandi viðskipta- og bankamálaráðherra Íslands. Einn og vel einangraður í musteri forvera síns. En fyrirrennari Gylfa var þó miklu verri. Hér eru samt tveir þungavigtarmenn Samfylkingarinnar komnir saman í eitt - og útkoman er núll. 

Merkilegt hvað 0,1% er miklu betra en núllið hann Gylfi. Það er líka furðulegt að Bandaríkjamenn skuli ekki hafa svona Gylfa og Björgvini til að bjarga sér eftir að mynt þeirra, Bandaríkjadalur, hefur misst 95% af verðgildi sínu gagnvart sumum gjaldmiðlum heimsins, eftir að hann sem betur fór var tekinn af gullfæti. Svona gullfótur er núna að trampa myntbandalagslönd Evrópusambandsins í spað.  

Endirinn á framsögu ráðherrans varð sá að hagfræðingar Seðlabanka Íslands enduðu inni á salernum bankans til að komast hjá því að þurfa að pissa í buxurnar af hlátri fyrir framan viðskiptaráðherra Íslands. Það tókst rétt svona sæmilega. Dapurlegt og sennilega satt; MBL
 
Fyrri færsla
 

Evruþátttaka hefur djúpfryst ítalska hagkerfið

 
Hagvöxtur síðustu 9 ár 
 
Er Evrópujökull að myndast?
 
Þið munið öll eftir hinum sjúka manni Evrópu (e. the Sick Man of Europe). Frá 1990 varð Þýskaland hinn sjúki maður Evrópu. Sameining Þýskalands kostaði mikið og hagvöxtur varð ömurlegur. Hefur þetta batnað núna? Nei Þýskaland er ennþá fárveikt. Meðalhagvöxtur á ári í Þýskalandi hin síðustu 10 ár er næstum enginn, eða 0,2-0,5 prósent á ári síðustu 9-12 ár. Þetta er þá tæplega 30% af hagkerfi evrusvæðis, sem ennþá er fárveikt.

En það eru fleiri sjúklingar sem liggja á öldrunardeildinni. Ítalía er alveg meðvitundarlaust hagkerfi. Ekkert bifast á Ítalíu. Skegg- og hagvöxtur í ítalska hagkerfinu er alveg hættur og hárin fara bráðum að draga sig inn undir húðina og hverfa. Frá árslokum 2001 til ársloka 2009 hefur ítalska hagkerfið vaxið um það bil 0,0000%. Þetta er verra en Japan og er þá mikið sagt. Ítalía er rúmlega 17% af evru hagkerfinu. Þá höfum við 17+30 eða um það bil 47% af evruhagkerfinu sem er orðinn jökull.

Nú fer Þýskaland fram á að restin af evrusvæði setji frystivélarnar í gang og frysti sig niður í þýsk-ítalska jöklakerfið. Þetta er kölluð aðlögun. En hve skemmtilegt verður að fylgjast með þessu náttúrufyrirbæri. Ég mæli með pistlinum á Financial Times Alphaville, sjá slóð hér að ofan.

Neikvæðir raunstýrivextir á Spáni
Byggingarbólan á Spáni hefur forðað Spáni frá jöklafrosti. Ástæðan fyrir því að bólan varð til á Spáni sést vel hér á mynd Edward Hugh; neikvæðir raunstýrivextir seðlabanka Evrópusambandsins á Spáni. Segið svo að vaxtavopnið virki ekki !
 
Írland er svipað, þ.e. rjúkandi rústir eftir ranga stýrivaxtastefnu seðlabanka Evrópusambandsins, með 7,1 prósent samdrætti í landsframleiðslu á árinu 2009 og 11,3 prósent samdrætti í þjóðarframleiðslu. Þetta er mesti samdráttur á einu ári í sögu Írlands, segir írska hagstofan  Á síðustu 11 ársfjórðungum hefur írska hagkerfið haldið áfram að dragast saman alla ársfjórðunga nema einn. Samtals á þessu tímabili er 13,2 prósent af írska hagkerfinu horfið 
 
Meira efni og fréttir hér í glugganum á tilveraniesb.net 
 
Fyrri færsla 
 

ESB, evran og friður

Eurokrataþvættingur
 
Í frétt Bloomberg, sem ég skrifaði um í gær, kom fram að Martin Feldstein álítur að sameiginleg mynt komi ekki í veg fyrir ófriðar- og styrjaldarhættu á milli þeirra landa sem nota myntina. Þetta hefur lengi verið mitt álit líka. Ef menn hugsa dýpra þá munu þeir alltaf komast að þeirri niðurstöðu að það eina sem hindar ófrið og styrjaldir er öflugt lýðræði. Lýðræðisþjóðir fara ekki í stríð við aðrar lýðræðisþjóðir. Það gera þær bara ekki. Fundnar eru lausnir. En þær geta þó þurft að heyja hernaðarlega baráttu við andlýðræðisleg öfl, þ.e. berjast fyrir varðveitingu lýðræðis.
 
Þess vegna er það að mínu mati þvættingur að halda því fram að tilkoma Evrópusambandsins hafi stuðlað að og varðveitt frið í Evrópu. Það er lýðræðið sem hefur gert það, ekki ESB. Hinsvegar hefur ESB og Brussel á margan hátt gert sitt ýtrasta til að grafa undan lýðræðinu í Evrópu. Nú er einnig að koma í ljós að Evrópusambandið er að verða frystikista efnahagsmála. Hagsæld, velmegun, massíft atvinnuleysi og ömurleg frjósemi eru að frjósa föst og þekja Evrópu með ís. Hvar endar þetta? Með nýjum ófrði? 
 
Færslan í gær
 

Stjórnmálamenn hlusta ekki alltaf á hagfræðinga (áfall?)

 
Martin Feldstein segir að fyrirhugaðar efnahaglegar niðurskurðar- og aðhaldsaðgerðir Grikklands muni mistakast 
 
. . og evrusvæðið er ekki Bandaríki Norður Ameríku
 
Bandaríski hagfræðingurinn Martin Feldstein segir að fyrirhugaðar efnahaglegar niðurskurðar- og aðhaldsaðgerðir Grikklands muni mistakast og landið muni vel hugsanlega yfirgefa myntbandalag Evrópusambandsins (EMU), svo það geti þar með fengið sína eigin mynt og unnið sig út úr vandamálunum.

Martin Feldstein er prófessor við Harwardháskóla og fyrrverandi ráðgjafi Ronalds Reagan Bandaríkjaforseta. Hann þótti líklegastur til að verða seðlabankastjóri Bandaríkjanna áður en George W. Bush valdi Ben S. Bernanke til þess starfs.

Þegar ákveðið var að setja EMU á fót sagði Martin Feldstein að evrusvæðið hefði ekki hinar réttu forsendur til að verða ákjósanlegt myntsvæði fyrir sameiginlega mynt ESB-landa. Martin Feldstein benti á að húsmóðir í Róm hefði engan áhuga á að vita hvað brauðið kostaði í Finnlandi, hún myndi áfram kaupa það í næsta bakarí og hún talaði ekki Finnsku. Það sama gliti fyrir trésmiðinn frá Barcelona, hann myndi ekki sækja vinnu til Berlínar, hann talar ekki þýsku og mun ekki læra þýsku bara til þess að geta stundað vinnu á þýsku.

Lesist: staðbundin áföll og bólur munu myndast á myntsvæðinu því hreyfanleiki vinnuafls er svo að segja enginn. Staðbundnar þenslubólur munu því mjög auðveldlega verða til á myntsvæðinu og sem ekki er hægt að stýra eða laga með stýrivöxtum, því þeir eru stilltir á meðaltalsverðbólgu í kjarnalöndum EMU. Þegar bólurnar springa mun það leiða til vandræða fyrir ríkissjóði viðkomandi landa, því engar yfirfærslur á milli ríkisfjárlaga landanna eru leyfðar innan EMU og löndin hafa takmarkaða möguleika á að verða samkeppnishæf á ný (e. asymmetric shocks within the eurozone; hér)

Svona bólur myndu ekki skapast svo auðveldlega í Bandaríkjunum því nýtt vinnuafl myndi streyma til staða þar sem mikil eftirspurn er eftir því - og þannig halda tímalaunum niðri. En skyldi skaðinn þó verða, gerði það ekki svo mikið til því þá myndu fjármunir til greiðslna atvinnuleysisbóta og heilsugæslu koma frá Washington, því fjárlög sambandsríkisstjórnar Bandaríkjanna eru hátt í 30% af landsframleiðslu BNA. Svona sameiginleg fjárlög eru ekki til í EMU. Hagfræðingurinn Poul Krugman benti einnig nýlega á hið sama.
 
Now, if Spain were an American state rather than a European country, things wouldn’t be so bad. For one thing, costs and prices wouldn’t have gotten so far out of line: Florida, which among other things was freely able to attract workers from other states and keep labor costs down, never experienced anything like Spain’s relative inflation. For another, Spain would be receiving a lot of automatic support in the crisis: Florida’s housing boom has gone bust, but Washington keeps sending the Social Security and Medicare checks; hér
 
 
Árið 2005 benti Martin á að þær breytingar sem þá voru gerðar á reglum myntbandalagsins myndu opna fyrir að ríki myntbandalagsins myndu koma sér inn í vítahring krónísks fjárlagahalla (það sama sagði seðlabanki Þýskalands, sjá; mánudagur 1. mars 2010). Í nóvember 2008 sagði Martin Feldstein að aðstæður á ríkisskuldabréfamarkaði EMU segðu fjárfestum að hætta væri á að myntbandalagið myndi brotna upp.

Nemandi Martins Feldstein, Charles WyploszCharles Wyplosz, segir að spár fyrrverandi kennara síns muni sanna sig sem rangar. Ef Grikkland yfirgæfi myntbandalagið þá myndi efnahagur þess fara í rúst. Athugið; það er vinsælt meðal ESB-hagfræðinga að segja að það sé betra að verða gjaldþrota innan myntbandalagsins en utan þess.

Martin Feldstein stendur við ályktun sína og segir að það sé alls ekki óhugsanlegt að lönd yfirgefi EMU. Stjórnmálamenn hlusta ekki endilega á það sem hagfræðingar segja. (sjá; Þá voru 155 hagfræðingar sammála um eitt - en ekki var hlustað á þá)

Glenn Hubbard við háskólann í Columbíu fylki segir að munurinn á Martin Feldstein og mörgum öðrum hagfræðingum sé sá, að það sem Martin segir, hefur oft praktíska þýðingu í raunveruleikanum. "Feldstein er mjög þýðingarmikill hagfræðingur", segir Hubbard; Bloomberg | Sjá einnig grein Martin Feldstein í Vox EU janúar 2009: Reflections on Americans’ views of the euro ex ante
 
Þýskaland líka?

Martin Wolf
Martin Wolf á Financial Times er farinn að halda að hugsanlegt sé að Þýskaland sé á leiðinni út úr myntbandalaginu. Að Þýskaland nenni ekki að vera í myntbandalagi með löndum sem fara á hausinn - og sem geta ekki keppt á sama máta og eftir sömu efnahagsstefnu og Þýskaland keppir við umheiminn. Evran sé einnig of hátt verðlögð til að Þýskaland geti haldið áfram að keyra hagkerfi sitt áfram á útflutningsstefnu sem byggist á innfluttri eftirspurn frá umheiminum, sökum þess hve innanlands eftirspurn í Þýskalandi sé krónískt ónóg fyrir þýska hagkerfið.

Martin Wolf óttast enn fremur að heimurinn geti verið á leið inn í efnahagslegt verndarkapphlaup vegna þrálátrar og einstrengilegrar kröfu Þýskalands og Kína á massífum eigin hagnaði á viðskiptum sínum við útlönd. Við seljum þér og kaupum ekki neitt af þér í staðinn (“beggar-my-neighbour” stefnu). Þýskaland er ekki sammála og segir að mikill hagnaður á utanríkisviðskiptum Þýskalands við umheiminn sé merki um velgengni, dugnað og gæði; FT
 
Tvær fyrri færslur
 

Hvað er eiginlega að gerast í EMU? - Já í myntbandalaginu?

 FT
Eilífðarverkenfið og haugalygin 
Eilífðarverkefnið og haugalygin
 
Þeir sem hafa fylgst með, vita að um þessar mundir er verið að reyna að bjarga myntbandalaginu í sinni núverandi mynd. Hvorki meira né minna. En þetta er gert með hangandi hendi, og ekki af ástæðulausu. Grikkland er bara eitt af einkennunum á fársjúku myntbandalagi ESB. Flestum er nú orðið ljóst að myntbandalagið gengur ekki upp með svona ólík lönd innanborðs. Myntbandalag með 16 löndum var glapræði. Sumir eru þó ekki viljugir til að viðurkenna þetta ennþá. Þar fremstir í flokki eru skriffinnar Brussel, sem nú óttast um áhrif og framtíð sína. Í sama flokki eru líka nokkrir fáráðlingar á Íslandi.

Það er þó að mínu mati búið að viðurkenna einn stóran og mikilvægan hlut: myntbandalagið virkar ekki eins og til var ætlast. Á einni nóttu kom kviksyndið í ljós og opinberaði sig, svart og kalt. En það er þó mjög mikilvægt að hafa viðurkennt þetta. Um það bil 20 mikilvæg ár Evrópu hafa farið í ekki neitt. Framfarir og hagsæld hafa sem afleiðing siglt fram hjá þessu efnahagssvæði. Árin hafa farið í formsatriði og skriffinnsku á meðan efnahags- og lýðræðislegir landvinningar hafa farið forgörðum. Nú er ekki mikið sem getur spornað við hnignuninni lengur. Spornað við hinni efnahagslegu og demógrafísku hnignun mannfjöldans sem bara mun halda áfram að taka til hendinni í ESB.

  • Sameining Þýskalands er misheppnuð. Stór tækifæri fóru þar forgörðum.
 
  • Hræðslan við sterkt Þýskaland hefur eyðilagt mest.
 
  • Sem afleiðing er Þýskaland orðið rekald sem verður að halda áfram að byggja á efnahagsstefnu sem krefst að haldið sé fast í núverandi útflutningsstefnu Þýskalands og sem hin ríkin þola ekki í gegnum sameiginlegu myntina
 
  • Þýskaland hefur haldið ESB uppi, fjárhaglega séð. Einungis vegna slæmrar samvisku eftir seinni heimsstyrjöldina. Þýskaland hefur borgað þennan brúsa og verið góður þegn og gert mest. En ekki er hægt að refsa nýjum kynslóðum endalaust fyrir syndir feðranna. Það gengur ekki.

Ég giska á að Þýskaland sé búið að fá nóg. Að ætla sér að láta önnur lönd borga fyrir ógöngur annarra landa í myntbandalaginu er ekki hægt. Þetta er hvorki mögulegt í framkvæmd, hagfræðilega, né fjármálalega - og allra síst stjórnmála- og lýðræðislega séð. Þetta hafa menn nú viðurkennt með gríska klúðrinu. Grikklandi verður ekki bjargað. Hvorki er hægt að berja Suður-Evrópu til þess að passa inn í myntbandalagið - og ekki er hægt að berja Þýskaland til þess að umturna hagkerfi og þjóðinni allri, svo Þýskaland passi betur inn í myntbandalag með hinum löndunum.
 
Þýskaland mun ekki fórna útflutningsknúna hagkerfi sínu, það mun ekki fórna stjórnarskrár lögfestum markmiðum um hámarks 0,35% fjárlagahalla frá og með árinu 2016. Það mun ekki fórna sér og ekki koma Evrópu til bjargar með stóraukinni eftirspurn sem bæta ætti innri spennu hagkerfanna. Að biðja Þýskaland um að hætta að vera samkeppnishæft er sprenghlægilegt.
 
The first is that a monetary union comprising 16 or more EU members will ultimately require a fully fledged fiscal union, or fail
 
 
Þegar ég fór að skrifa um það að myntbandalagið myndi aldrei getað þrifist án samruna ríkisfjármála landanna, þá var hlegið að mér á Íslandi. Þetta virkaði svo afskaplega vel, héldu sumir á Íslandi - og halda jafnvel enn. En nú vitum við að þetta var rétt. ESB verður annað hvort að fara áfram eða afturábak. Það getur ekki verið eins og það er núna.

Bráðum munu Þjóðverjar leggja til að lönd eins og Grikkland yfirgefi myntbandalagið. Útgöngudyr verða smíðaðar og í endanum munu mörg lönd notfæra sér þá leið. En þessar dyr verða einstefnudyr. Enginn mun komast inn um þær aftur. Á endanum verður það Þýskaland, Frakkland, Benelux-löndin og Austurríki sem verða einu löndin í myntbandalaginu. Finnar munu t.d. fá markið sitt aftur. Fjármálaráðherra Þýskalands hefur nú þegar viðrað þessa hugmynd um útgöngudyr. En um leið er verið að setja endahnútinn á veru margra landa í EMU.
 
The second conclusion is that a rules-based monetary union is still possible, but only among a group of similar countries – in terms of their economic development, and their fundamental political attitudes towards economic policy
 
 
Tilvist svona útgönguleiðar mun líklega fá markaðinn til að knýja löndin út í gegnum dyrnar. Þetta vita Þjóðverjar mjög vel. En ekki er um annað að ræða. Þetta er eina raunverulega björgunarleiðin til fyrir alla Suður-Evrópu. En svo er hin leiðin, að Þýskaland sjálft segi sig úr myntbandalaginu. Það gæti líka gerst.
 
The Schäuble proposal tells me that Germany’s conservative establishment longs for the second option. They should be careful what they wish for. One way or the other, they might eventually get it.
 
 
Að ætla sér að troða Íslandi þarna inn, er svo heimskulegt að menn ættu að skammast sín fyrir yfir höfuð að láta sér detta það í hug. Það lýsir algerri vanþekkingu á málunum. Þetta er sama vanþekkingin og bjó til tímasprengju-bankakerfið á Íslandi.

Það er þó vel hægt að fyrirgefa Íslandi því Ísland var að lenda á flugvelli opinna frjálsra hagkerfa í fyrsta sinn í sögu landsins. Íslandi fipaðist því miður lendingin, en það mun ekki gerast aftur. Flestar þjóðir þurfa að brotlenda til að geta lært af biturri reynslunni. Nú er hins vegar kominn tími á að seinna tímasettu sprengjur ESB springi. Það er gott að fyrirbærið tími er til. Ef tíminn væri ekki til þá myndi allt gerst samtímis allsstaðar;
 
 
Meira efni og fréttir hér í glugganum á tilveraniesb.net 
 
Fyrri færsla
 

Sameiginleg mynt hefur ekki leitt til meiri viðskipta á milli evrulanda

Myntbandalagið gagnslaust og hinn "innri markaður" aðeins kenning á blaði

Joao M C Santos Silva prófessor í hagfræði
Samkvæmt frétt netútgáfu fréttablaðs háskólans í Bergen, Forskning Norge, sem fjallar um rannsóknir í Noregi og á alþjóðavettvangi, hafa viðskipti á milli evrulanda ekki aukist neitt umfram það sem gerst hefur hjá öðrum löndum heimsins frá því sameiginlegur myntvafningur myntbandalagsins, evra, kom í umferð fyrir 11 árum. Forskning Norge vitnar í rannsókn hagfræðinganna Joao M. C. Santos Silva við University of Essex og Silvana Tenreyro við London School of Economics (ég hef ekki lesið skýrsluna ennþá)

Silvana Tenreyro hagfræðingur
Auknum viðskiptum á milli evrulanda var lofað þegar myntvafningnum evru var komið á fót. Eins átti evran að vera vopn í alþjóðasamkeppninni og þá sérstaklega við Bandaríkin og Asíu. En samkvæmt rannsókninni hefur aukning í viðskiptum á milli evrulanda ekki verið meiri en aukningin var á milli annarra landa heimsins á sama tímabili (aukin hnattvæðing almennt). Verslun og viðskipti á milli evrulanda hefur ekki aukist meira en viðskiptin á milli evrulanda, EES-landa og ESB-landa sem nota ekki evru sem gjaldmiðil.

Rannsóknin tekur til hóps OECD-landa og leggur til grundvallar, EES-lönd (athugið, Ísland er í EES) sem eru ekki með evru, ESB-lönd án evru og svo sjálfra evrulandanna. EES-lönd sem hafa ekki tekið upp evru hafa aukið viðskiptin við evrulönd og ESB-lönd án evru jafn mikið og evrulöndin hafa upplifað sín á milli, segir Joao M. C. Santos Silva prófessor.

Forskning.no bendir einnig á hina frægu rósarskýrslu eftir hagfræðinginn Andrew K. Rose sem sagði að verslun og viðskipti á milli evrulanda myndi þrefaldast þegar löndin fengju sameiginlega mynt. En raunveruleikinn, samkvæmt þessari og fleiri rannsóknum, er sem sagt núll, hvað varðar verslun og viðskipti.

Jan Tore Klovland prófessor við verslunarháskóla Noregs segir að evran sé meira pólitískt verkfæri en efnahagslegt verkfæri. Um efnahagslega ávinninga séu fáir sammála segir hann. Steinar Holden prófessor við Óslóarháskóla segir að  erfitt sé að sanna neitt í þessum efnum. Hann álítur að viss ávinningur og samhæfing hafi náðst á fjármálasviðinu
 
[já, t.d. opnað á möguleika á sameiginlegu gjaldþroti evruríkja sem nú hugsanlega stendur fyrir dyrum. Eftir að internetið kom með verðsamanburðarvélar handa öllum þá er sameiginleg mynt orðin nánast fornaldargripur, afsakið. Það þurfti t.d. ekki sameiginlega mynt til að erlendir ferðmenn uppgötvuðu verðfall á Íslandi]
 
En í núverandi kreppu, segir Steinar, að það sé augljóst að þau lönd sem hafa sjálfstæða mynt hafi notið mikils góðs af þeim sveigjanleika sem því fylgir; Forskning Norge
 
Sama sagan í Danmörku? Hinn innri markaður ESB, engin áhrif

Skuffende effekt af EUs indre marked på eksporten
Síðasta haust kom einnig út dönsk rannsókn sem sýndi að vera Danmerkur í hinum svo kallaða innri markaði ESB og í ERM hefur ekki leitt til neinnar aukningar í utanríkisviðskiptum Danmerkur við evrulönd né ESB lönd. Tilgangur rannsóknarinnar var ekki að sanna né afsanna neitt í þessum efnum, en lesa mátti þetta út úr skýrslu þjóðhagfræðistofnunar viðskiptadeildar Árósarháskóla, sem kom út í júní 2009. Þar kom í ljós að eftir að Danmörk gerðist aðili að hinum svo kallaða innri markaði ESB hefur útflutningsfyrirtækjum fækkað. Það hefði ekki skipt neinu máli fyrir Danmörku að standa utan við þennan innri markað ESB, skrifaði rannsóknarvefurinn "Videnskab DK" í þessu tilefni; Videnskab
 
20% raunvextir á útlánum á Írlandi (lögleiddir okurvextir?)

Samkvæmt vef Money Guide Ireland eru vextir á yfirdráttarheimildum á venjulegum bankareikningum á Írlandi um það bil 14-15%. Sé bætt við þeirri 4-6% neikvæðu verðbólgu sem ríkir á Írlandi núna, eru raunvextir á svona lánum um og yfir 20%. Ofaní þetta kemur í mörgum tilfellum 25 evru gjaldtaka. Mynt Írlands er evra; MGI
 
Fyrri færsla
 


Hvað gerist þegar unga fólkið missir vonina?

Atvinnuleysi ungmenna í Evrópusambandinu 
Atvinnuleysi ungmenna í Evrópusambandinu - "tifandi tímasprengja"
 
Norska dagblaðið Dagsavisen var með grein um atvinnuástand hjá ungmennum Evrópusambandsins undir fyrirsögninni "tifandi tímasprengja Evrópu". Eins og er standa 20% af ungmennum Evrópusambandsins án atvinnu og eru heldur ekki í skóla. Þetta er aldurshópurinn frá 15 ára og til 25 ára. Þetta þýðir að einn af hverjum fimm í þessum aldurshóp er hvorki í vinnu né skóla. Samtals er um 5,5 milljón ungmenni að ræða. Þetta er skuggalega há tala því um sögulega litla árganga er að ræða, hlutfallslega séð.

Atvinnuleysi ungmenna í Evrópusambandinu síðustu 10 árin
Blaðið bendir á að atvinnuleysi þessa hóps sé að aukast. Þetta er alveg rétt hjá blaðinu en málið er mun verra en þetta því atvinnuleysi evrópskra ungmenna hefur verið mjög hátt síðastliðin 10 ár og jafnvel miklu lengur. Það var aðeins í bóluástandi síðustu fárra ára að atvinnuleysi þessa hóps mjakaðist undir 15% í ca. eitt ár. Frá árinu 2000 hefur það verið mun hærra mestan hluta tímans.
 
– På 30-tallet opplevde vi at både brunskjortene, svartskjortene, men også rødskjortene marsjere i gatene i Tyskland. Historien viser at slike politiske reaksjoner kan slå begge veier. Høyere kriminalitet er ofte en direkte konsekvens av høy ledighet blant unge, noe de baltiske landene er et eksempel på, sier Aarebrot.
 
 
Ástandið er grafalvarlegt í Suður- og Austur-Evrópu. Tölurnar eru hvergi sæmilegar nema í Noregi og Hollandi. Einn af frammámönnum norsku verkalýðshreyfingarinnar, Knut Arne Sanden, bendir á að stór hluti Evrópu hafi misst mikið af sínu unga fólki í styrjöldum á síðastliðnum 100 árum. En í dag er það atvinnuleysið sem kemur í veg fyrir að unga fólkið komist inn á vinnumarkaðinn. Þetta er fólkið sem fær síðast atvinnu í uppsveiflum og það fyrsta sem sagt er upp þegar niðursveiflur koma.

Atvinnuleysi í Þýskalandi og kosningafylgi öfgahóps nasista
Þetta er einnig pólitískt vandamál, segir Frank Aarebrot prófessor við háskólann í Bergen. "Það afl og þau áhrif sem svona stór hópur fólks getur haft má ekki vanmeta. Brúnstakkar, svartstakkar o.fl. komust til áhrifa í Þýskalandi 1930. Sagan segir okkur að pólitískir vindar geta blásið til beggja átta. Að hafa atvinnu er það sama og að tilheyra samfélaginu" | Dagsavisen
 
Mynd; kosningafylgi nasista og atvinnuleysi í Þýskalandi 1920-1932, Brad DeLong
 
Meira efni og fréttir hér í glugganum á tilveraniesb.net
 
Fyrri færsla
 

Imba Lances - hin framlengjandi

Hin framlengjandi kreppufyrirkomulög Evrópusambandsins
 
Fæðingar- og erfðagallar myntbandalags Evrópusambandsins. The Economist desember 1996
Myntbandalagið (EMU) kom vegna þess að EMS/ERM I virkaði ekki. Það hrundi árið 1992 í svarta september og gerði George Soros ríkan. Þá sáu menn að þetta EMS virkaði ekki. EMS var oft kallað e. The extended recession mechanism. Það þyrfti heila og áþreifanlega mynt í umferð til að losna við ágallana.  

Svo kom myntin fræga. En þá kemur þetta nýja, já þið vitið, - sjálft ójafnvægið (e. imbalances). Og allt er uppí loft eina ferðina enn. Nú standa menn eiginlega ráðþrota. EMS'inn dugði ekki og myntin dugar greinilega ekki heldur.
 
Nú hefur skyndilega komið í ljós að það vantar einn sameiginlegan ríkissjóð. Einn full hertan skattgreiðanda sem myntin fræga þyrfti að komast í himneskt jarðsamband við. Skattgreiðanda sem dettur ekki í sundur. Sem raknar ekki upp eins og myntslangan EMS gerði - og sem er ekki hægt að fletta í sundur eins og um vafning væri að ræða (subprime skuldabréf eða þvílíkt).

"Hvað er þetta þarna innan í myntinni ykkar? Er þetta Grikkland, þarna í geira 36 til 37 gráður austur af miðju? Við höldum að Grikkland sé að fara á hausinn og það muni tosa fleiri lönd með sér í fallinu - og mest allt bankakerfi myntbandalagsins með sér í leiðinni. Þannig að við höldum að það muni rakna ofan af myntvafningnum ykkar. Getið þið ekki prjónað eitthvað betra en þetta?" Fullt stopp. 
 
 
Fyrri færsla
 

Imba Lances

Vinsælasta orð meðal efnahagsmálamanna ESB í dag er orðið ójafnvægi eða e. imbalances. Þessu orði var fyrst skotið af fallbyssuhlaupum Brussels þegar myntbandalagið var stofnað. Það, myntbandalagið, átti nefnilega að laga ójafnvægið. En núna er myntbandalagið komið og búið að spilast hér í samfleytt 11 ár. Maður skyldi ætla að við þetta hefði hugtakið ójafnvægi fallið um sig sjálft, því lækningin væri komin. Það myndi því ekki lengur ríkja hér ójafnvægi, heldur jafnvægi.

Ríkir hér jafnvægi Gunnar? Láttu ekki svona maður.
 
 
Jafnvægi evrusvæðis í hnotskurn smáræðis

Ábyrgðarlausir stjórnmálamenn ESB. Grikkland er eins gjaldþrota og hægt er að verða

 
Ábyrgðarlausir stjórnmálamenn ESB 
 
Simon Johnson og Peter Boone birtu í síðustu viku grein sína um Grikkland - og vandamál þess fyrir Grikki og evrusvæðið. Simon Johnson var áður yfirhagfræðingur AGS og er nú prófessor við MIT og "senior fellow" við Peterson stofnunina og situr í stjórn fjárlaganefndar bandaríska þingsins. Peter Boone er við London School of Economics. Greinin birtist bæði í New York Times og á bloggsíðu höfunda, The Baseline Scenario.

Ef sumum finnst ég vera neikvæður út í þau vandamál sem myntbandalag ESB stendur frammi fyrir, þá eru það smámunir miðað við þær staðreyndir sem Simon ber á borð fyrir lesendur.

Gróf þýðing; Grikkland er eins gjaldþrota og hægt er að verða. Evrópskir stjórnmála- og embættismenn eru jafn ábyrgðarlausir og fjárglæframenn. Þeir stunda fjárhættuspil. Þeir eru að lokka fjárfesta í píramídaspil (Ponzi scheme; að borga fjárfestum með peningum nýrra fjárfesta í stað þess að borga þeim með peningum frá þeim hagnaði sem fjárfestingin skilar). Það væri óafsakanlegt ef fjárfestar á borð við lífeyrissjóði séu að fjárfesta í grískum ríkisskuldabréfum.

Tölurnar: Árið 2011 mun Grikkland skulda 150% af landsframleiðslu sinni. Um 80% af þessu skuldar landið til erlendra fjárfesta og þeir eiga flestir heima í Þýskalandi og Frakklandi. Fyrir hvert 1 prósentustig sem vextir hækka þarf Grikkland að senda 1,2 prósentustigi meira af landsframleiðslunni til útlanda. Ef vextir hækka til dæmis í 10%, sem er ekki ólíklegt og reyndar mjög varfærið mat fyrir land sem getur ekki greitt einn aur niður af höfuðstól skuldanna - rúlla þarf skuldunum endalaust áfram - þá þarf Grikkland að senda 12% af landsframleiðslu sinni til lánadrottna erlendis, á hverju einasta ári. Helming skulda landsins þarf að endurfjármagna á nýjum vaxtakjörum innan þriggja næstu ára.

Þetta er gersamlega óheyrð og óþekkt staða sem Grikkland er í. Stríðsskaðabóta greiðslur Þýskalands voru 2,5% á ári af þjóðartekjum Þýskalands frá 1925-1932. Suður-Ameríku skuldavandamálin frá og með árinu 1982 þýddu 3,5% greiðslur af landsframleiðslu (1/6 af útflutningstekjum) landanna til erlendra kröfuhafa. Hvorugt þessara tilfella var skemmtileg reynsla.

Grikkland er algerlega gjaldþrota án ennþá meiri niðurskurðar en nú þegar hafa verið auglýstir. Svo þarf landið hjálp frá ESB. Reyndar þarf landið á báðu að halda samtímis. Og ennþá eru stjórnmála og embættismenn Evrópusambandsins að hvetja fjárfesta til að stuðla að frekari lánum til Grikklands og að gríska ríkið taki á sig ennþá meiri skuldir. Þetta er að blekkja illa upplýst fólk segir Simon, t.d. lífeyrissjóði, sem eiga peninga á meðan þeir sem eru vel upplýstir flýja öskrandi burt; t.d. stórir bankar sem vita hvað er að gerast.

Þetta er að gerast með aðstoð klappliðs ESB. Komið til okkar og fjárfestið í gjaldþrota ríki. Þetta er sama liðið og er að berja á vondum spekúlöntum með annarri hendinni á meðan hin höndin ginnir saklausa nýja fjárfesta í netið. Hvað er hægt að gera, spyr Simon:

1) Gikkir og ESB verða að ákveða hvort þeir vilji halda evrunni eða ekki.

2) Ef þeir vilja halda evrunni í Grikklandi þá þarf að senda peninga. Ekki bara smá vasapeninga upp á 20 miljarða evrur, eins og stjórnmálamenn eru að gæla við. Nei, það þarf að senda alvöru peninga. Minnst 180 miljarða evrur. ESB þarf að fjármagna skuldasúpu Grikklands 100% í nokkuð mörg ár.

3) Ef þeir vilja ekki halda evrunni, þá þarf að útbúa áætlun fyrir úrsögn úr myntbandalaginu, strax. Þá þurfa Norður Evrópubúar að bjarga eigin bönkum fyrst (bail them out) vegna þess að afskrifa þarf miklar grískar skuldir. Það verður að gefa Grikkjum þennan skuldaafslátt - eða - breyta þeim yfir í nýja drachma mynt Grikklands og samþykkja að Grikkir komi verðbólgu nægilega mikið af stað til að brenna hluta skuldanna af.

Innistæðum og skuldum bankakerfis Grikklands yrði breytt í drachma; endursamið yrði um skuldasamninga. Þetta verður erfitt og sóðalegt, en því lengur sem tíminn líður án aðgerða þá mun þetta verða betri og betri lausn.

Svo þarf að kalla á Alþjóða Gjaldeyrissjóðinn. Það er eini trúverðugi aðilinn sem eftir er í þessu máli og sem hefur getu til að glíma við vandamálið. En jafnvel AGS er að sumu leyti að klúðra trúverðugleika sínum með laumulegum athugasemdum á meðan gríska skuldablaðran þenst út.

Ef þessi skref verða ekki tekin þá fáum við járnbrautar-stórslys. Búið er að að sannreyna og þrautprófa evrópska stjórnmálamenn í þessu máli. Við þekkjum útkomuna úr því prófi núna: þeir eru ekki varkárir*, þeir eru tillitslausir og kærulausir (reckless).
 
*Þeir höfðu lofað fjármálaráðherra Bandaríkjanna, Tim Geithner, "varkárri lausn" (a careful solution, sjá Mánudagur 15. febrúar 2010)

Lesendur; hafið þið nokkurn tíma séð risaolíuflutningaskip með 27 skipstjórum í brúnni. Jæja ekki það. En þið sjáið það núna. Það er M/S ESB. Skip sem lagði upp í siglingu en mun aldrei ná hvorki áfangastað né neinni höfn nokkurn tíma. Draugaskip. Og nú er farmurinn farinn að gerjast; The Baseline Scenario
 
Fyrri færsla
 
 

Næsta síða »

Höfundur

Gunnar Rögnvaldsson
Gunnar Rögnvaldsson

Búseta: Ísland.
Reynsla: 25 ára búseta í ESB og fyrirtækja-rekstur í DK/ESB frá 1985 til 2010. Samband:
tilveraniesb hjá mac.com

Ég er hvorki skráður á Facebook, Twitter, Linkedin né á neinum öðrum "félags-vefjum". Aðsetur skrifa minna er einungis að finna hér á þessari síðu og á tilveraniesb.net og í blöðum og tímaritum

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband