Leita í fréttum mbl.is

Að tryggja sig gegn hagsæld

 
Evrópa hefur ekki efni á að bjarga Grikklandi 
 
Þetta átti bara að verða örstutt vangavelta, en svo varð ekki. Það er hægt að tryggja sig gegn því að verða fyrir hagsæld. Auðveldasta leiðin til að komast hjá hagsæld í dag virðist vera sú að ganga bara beint í myntbandalag Evrópusambandsins. Þetta er lærdómurinn af málum myntbandalags Evrópusambandsins.

Fyrir nokkrum árum horfði ég á sænskan sjónvarpsþátt. Hann fjallaði um þann klofning sem varð í sænska samfélaginu þegar vindar jafnaðarmennsku blésu hvað harðast í því þjóðfélagi - og þegar sænskir jafnaðarmenn lögðu stóran hluta gamla bændasamfélags Svíþjóðar í rúst með nýjum áætlunarbúskap og nýju samfélagsskipulagi. Margir áttu um sárt að binda mjög lengi. Um 500 smábýli voru leyst upp á hverjum degi.

Rætt var við fyrrverandi nemendur í skóla nokkrum í einu af fátækari hverfum Stokkhólms. Þeir lýstu skólagöngu sinni á þessum tímum á átakanlegan hátt. Það sem skapaði samstöðu og samheldni meðal nemenda í skólanum var sú hefndarlega "samhygð" að sýna ekki betri árangur en sá lélegasti gat sýnt í bekknum. Þeir tóku sig af sínum á þennan hátt. Þarna datt mér eftirfarandi í hug: þetta er kjörin leið til að tryggja sig gegn hagsæld (e. hedge against prosperity). Síðan þetta var er Svíþjóð dálítið breytt. En margir þessara nemenda urðu þó neðanveltu í því sænska samfélagi sem varð seinna meir.

Í dag virðist svipað vera í gangi í myntbandalagi Evrópusambandsins. Þýskaland er skammað fyrir að vera samkeppnishæft. Skömm Þýskalands felst í því að Portúgal, Ítalía, Írland, Grikkland og Spánn eru orðin ósamkeppnishæf lönd innan þess myntbandalags sem þau eru í með Þýskalandi. Þetta, segja menn, gerðist vegna þess að Þýskaland lagði sig fram. Þetta gerðist líka vegna þess að þau lönd sem eru ekki eins og Þýskaland, gátu ekki lengur lagfært samkeppnisaðstöðu sína með því að breyta verðmiðanum á sjálfum sér. Breyta honum með gengisbreytingu á sinni eigin mynt, eins og þau svo oft gerðu áður en þau köstuðu gömlu myntinni fyrir borð. 

Þau hafa því  enga sjálfstæða mynt og ekkert gengi gagnvart Þýskalandi lengur. Svo aðstoðaði seðlabanki myntsvæðisins við að magna upp vandamálin með því að ausa peningum á neikvæðum raunstýrivöxtum yfir þau lönd sem pössuðu ekki við kjarnaverðbólguna í kjarnalöndum myntbandalagsins. Miklar bólur urðu til á vakt þessa seðlabanka Evrópusambandsins.

Það var þetta sem sölumenn myntbandalagsins sögðu okkur upphaflega að ætti að lagast með tilkomu þessa sameiginlega gjaldmiðils. Hann, nýi gjaldmiðillinn, átti að jafna út efnahagslegu ójafnvægi, innri spennu og mismun í samkeppnisaðstöðu á milli landanna. Þessi útgáfa af sannleiknaum gildir ekki lengur í ESB. Þar er allt á hvínandi hvolfi núna. Vandamálin geisa innbyrðis í myntbandalaginu eins og flugeldur í lokaðri tunnu. Mennirnir eru að verða sótsvartir ofaní tunnunni. Svartir af reiði. 

Tunnuverksmiðjan á Siglufirði brann þegar ég var polli, hún logaði í þrjá daga. Tunnur loga yfirleitt vel og lengi. Nægur var því tíminn til að ná góðri mynd. Því stærri verksmiðja, því lengur logar, nema náttúrlega ef um púðurtunnuverksmiðju sé að ræða. 

Í reiðinni og vandræðunum þeysast þessir menn nú um á sínum pennum og prikum og gleyma alveg öllu því sem þeir voru búnir að segja og skrifa undanfarin mörg ár. Nú er verið að reyna að finna smugu. Sama hversu lítil hún er, það vantar smá smugu til að svindla á öllu því sem þeir sögðu um forsendur þessa blessaða myntbandalags Evrópusambandsins. Þeir segja að þýska þjóðin skilji ekki vandamálin og sýni enga samúð. Þeir segja að Grikkland skilji heldur ekki neitt og geri of lítið sem aukið gæti skilning manna hinum megin í myntbandalaginu.

Við þurfum að leyfa Þjóðverjum að vera Þjóðverjar, Svíum að vera Svíar og Grikkjum að vera Grikkir. Það hentar öllum best. Það er óðs manns æði að ætla að reyna að breyta og mublera um á heimilum heilla þjóðfélaga: FT | FT
 
Að ganga ekki í takt

Að ganga ekki í takt
Konan mín sagði mér að það hefði komið heimspekingur í danska ríkissjónvarpið (já, ríkis). Hann var að gefa út bók. Hann sagði að Adolf Hitler hefði orðið mjög ánægður með samfélagið í dag. Hvað meinarðu?, spurði fréttamaðurinn vandræðalega. Jú hann vildi að við gengjum öll í takt. Lýðræðið væri sett til hliðar sagði heimspekingurinn Søren Gosvig Olesen. Í dag hlýða menn og gera eins og þeim er sagt. Til dæmis fer öll þjóðin eftir því sem heilbrigðisyfirvöld segja. Spinn doktorar stjórnvalda gegna hlutverki áróðursráðuneytis.

"Þetta er rétt hjá honum Gunni, enginn hefur lengur góðan rétt á að segja neitt sem brýtur í bága við pólitískan rétttrúnað í dag", bætti konan mín svo við. "Sjáðu bara umhverfismálið" sagði hún. Það er hið svo kallaða hlýnunarmál sem hún á við - og fjölmiðlana. "Hmm já, þetta er kannski rétt hjá honum," sagði ég við konuna mína. Svo labbaði ég burt. Á leiðinni að skrifborðinu datt mér í hug að vandamálið í myntbandalagi Evrópusambandsins núna væri það að Grikkland gengi ekki í takt - bara alls ekki í takt.
 
 
 
Meira úr sömu skúffu hér í glugganum á tilveraniesb.net
 
Fyrri færsla
 
 

Gjaldeyrishöft innleidd á evrusvæði

Þriðjungur allra fasteignalána í evrulandinu Austurríki eru í erlendri mynt. Mest í svissneskum frönkum eða japönskum jenum. Seðlabanki Austurríkis segir að almennir Austurríkismenn skuldi nú um 35 miljarða evrur í erlendum fasteigna- bíla- og spákaupmennskulánum.

Þessar lántökur fóru fram í gegnum austurríska bankakerfið á meðan gengi franka og jens gagnvart myntvafningnum evru var lágt á árunum fyrir hrunið 2008. Nú hefur gengi þessara erlendu gjaldmiðla hækkað mikið eða um 13% til 30% og fer hækkandi í takt við að myntvafningurinn evra fellur í gengi og myntbandalagið þar á bak við fer inn í sinn endanlega upplausnarfasa. Sá fasi getur orðið langur og strangur.

Það eru fjármálayfirvöld í Austurríki sem eru orðin hrædd. Þau ætla því að banna svona lán og loka fyrir aðgengi almennings að lánum í erlendri mynt. Aðeins ríkt og mikilvægt fólk mun fá að nota þessa þjónustu framvegis. Ef evran mun hrynja verulega hratt á næstu árum þá mun það hafa slæmar afleiðingar fyrir bankakerfið og lánþiggjendur þess í Austurríki.

Hypo Adria
Evrubankakerfi Austurríkis hefur átt erfiða daga og hafa tveir af sex kerfislega mikilvægum bönkum landsins þegar verið þjóðnýttir. Síðast var það Hypo Group Alpe Adria sem var þjóðnýttur þann 14. desember síðastliðinn. Þá þurfti Fransmaðurinn og seðlabankastjórinn Jean-Claude Vigilant Trichet að eyða helginni í Austurríki.

Þeir sem áttu þennan nú þjóðnýtta banka voru að mestu leyti þýskir þegnar og stjórnmálmenn sem stýra ennþá í Bayern Landesbank í Þýskalandi. BLB átti 67% í HGAA. Forstjóri Bayern Landesbank sagði af sér um leið.

Fyrri bankinn sem þjóðnýttur var í evrumyntvafnings landinu Austurríki hét Kommunalkredit Austria AG, sem þýðir eiginlega Bæjarútgerð Austurrísku Sveitafélaganna. Mikið af útlánum bankakerfis Austurríkis hefur farið til Austur-Evrópu og landa á Balkanskaga.

SNB
Svissneski seðlabankinn hefur verið að reyna að gera sitt besta til að halda gengi svissneska frankans niðri með aðgerðum á gjaldeyrismörkuðum. Hátt vanskilahlutfall lántakaenda í Austurríki, Austur-Evrópu og á Balkanskaga vegna gengisáhættu mun ekki gagnast svissneskum bönkum sérstaklega vel. Gert er ráð fyrir að reglur fjármálayfirvalda Austurríkis verði kynntar þann 22. mars næstkomandi og settar í framkvæmd án tafar.

Ef fjármálaeftirlit Íslands hefði haft augun framan á höfðinu hefði mátt sporna við miklum vandræðum á Íslandi. Svona augu framan á höfðinu virðast Þjóðverjar hafa haft því lítil sem engin lán eru þar tekin né veitt í myntum sem Þjóðverjar fá laun sín ekki greidd í. Bloomberg | FTD | WSJ
 
Meira um málefni ESB og Íslands hér í glugganum á tilveraniesb.net
 
Fyrri færsla
 


Danskir hagfræðingar: Danir munu ekki taka upp myntvafninginn evru

Mikill meirihluti bankahagfræðinga í úrvalshópi "Ritzaus og RB-Børsens Økonomiske Panel" segja að Danmörk muni ekki taka upp myntvafninginn evru á næstu 10 árum og eigi heldur ekki að gera það.

Aðalhagfræðingur Sydbank, Jacob Graven, segir líklegt að evrusvæðið muni ekki verða til eftir 10 ár, að minnsta kosti ekki í núverandi mynd. Eitt eða fleiri lönd munu þá hafa yfirgefið myntbandalagið.

"Í ljósi vandamála Grikklands með skuldir og fjárlagahalla langt umfram það sem leyfilegt er, og með Spán og Portúgal á sömu leið, er víst óhætt að segja að það braki og bresti hressilega í sökklinum undir myntbandalaginu."

Danir hrylla sig yfir því sem er að gerast í Grikklandi og álíta að ekki sé sniðugt að ganga í þennan vandamálaklúbb, segir Jacob Graven.

"Hinir efnahagslegu ávinningar við að taka upp evru eru svo að segja engir. Ástæðurnar væru eingöngu stjórnmálalegs eðlis."

Í tilefni fréttarinnar á Børsen er lesendum gefinn kostur á að kjósa um hvort þeir vilji taka upp evru í Danmörku eða ekki: Tæp 60% þeirra 2841 lesenda sem kusu voru andvígir evruupptöku. Tæplega 60 af 4450 lesendum voru orðnir meira neikvæðir út í myntvafninginn evru eftir að vandamál Suður-Evrópu og Írlands opinberuðust þeim; Børsen

Meira um málefni ESB og Íslands hér í glugganum á tilveraniesb.net

Fyrri þrjár færslur:


Hjónin Honecker snúa aftur og stórframkvæmdir hefjast loks á Íslandi: Berlínarmúr umhverfis Stjórnarráðið settur í byggingu

Ekkert gerðist
 
ERICH HONECKER
 
Það þarf öflugri múr til að halda fólkinu lengra burtu frá ríkisstjórninni. Múrinn gegn fókinu var ekki nógu sterkur og nýr er strax settur í byggingu - núna, schnell, immed, 5 mínútur eftir kosningar. Við byggjum ótrauð áfram. Við byggjum. Við byggjum.  

Úr frétt RÚV (ríkisstjórnarútvarpinu)

Íslendingar hafna, 93% segja nei.  

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra segir þetta ekki koma á óvart. Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra segir þó merkilegt hve margir segi já við þessar aðstæður. (1.5%)

Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra segist ekki hafa kosið um Icesave í dag. (kosningar eru bara til að svíkja kjósendur, það var lagið Steingrímur! Gott hjá þér!) 

Hann beri meiri virðingu fyrir þjóðaratkvæðagreiðslum en svo. (já, einmitt. Gott hjá þér!)

Steingrímur og Jóhanna segja ekkert samhengi á milli niðurstöðu atkvæðagreiðslunnar og lífs ríkisstjórnarinnar. (auðvitað, ríkisstjórnin lifir í öðrum heimi, langt langt burtu frá fólkinu.)

Jóhanna segist ekki sjá eftir því að hafa gefið út yfirlýsingar þess efnis að hún ætlaði ekki greiða atkvæði. (barn, sem enginn tekur mark á)

Jóhanna og Steingrímur sögðu enga hættu á stjórnarslitum, pólitísk óvissa myndi ekki bæta ástandið. (engin hætta?, er allt með felldu?)

Steingrímur benti á að það væru fáir sem vildu taka að sér að vera fjármálaráðherra á Íslandi á þessum tímum. (Er þetta brandari? Steingrímur er ekki fjármálaráðherra. Hann er skuldaráðherra. Maðurinn sem sveik allt frá degi númer eitt. Einfaldur kosningasvikari. Gunga og drusla)

Nú þyrfti að endurreisa landið og klára Icesave málið því fyrr kæmi fjármagn ekki inn í landið. (endurreisa landið??? Með því að drekkja því í skuldum???. Brenna hálfri til heilli þjóðarframleiðslu!)

Jóhanna sagði þessa töf á málinu vera dýra og tilefni væri til að rannsaka hversu mikið hún hefði kostað. (barn, sem enginn tekur mark á. Það þyrfti frekar að rannsaka heilabúið á henni.)

Íslensk stjórnvöld munu áfram vinna að farsælli lausn Icesave-málsins á sömu forsendum. Þjóðirnar hafa einsett sér að halda viðræðum áfram og leita lausnar í málinu. (farsælli!!! Þjóðin var að segja nei við farsældinni frá Honecker ríkisstjórn Íslands. Það eina sem þessi ríkisstjón hugsar um er að troða skuldum og ESB ofaní þjóðina - og að halda völdum valdanna vegna)

http://www.ruv.is/frett/islendingar-hafna-93-segja-nei
 
Á maður að hlægja - eða gráta?? Þetta er svo sorglegt. Mikið hefði þetta getað orðið öðruvísi. Bráðum tvö ár í absalút ekki neitt.
 
VESALINGAR !
 

Notbremsenresistent

Something will have to give in the long run
 
Sumar kreppur eru notbremsenresistent 
 
Herra evrumaður númer eitt í Þýskalandi og Brussel, Wolfgang Münchau - og sem áður var einn af ritstjórum Financial Times í Þýskalandi - hefur kastað handklæðinu í hringinn. Oft hefur þessi greindi maður haft rétt fyrir sér, en sjaldan eins mikið og síðasta sumar, þegar hann skrifaði að eina leiðin til að fá evruna til að virka væri að fórna þyrfti sjálfstæði ríkjanna. Þá var hann farinn að efast alvarlega um að leyst yrði úr málunum.

Núna er Wolfgang Münchau sannfærður um að hrun myntbandalagsins sé óstöðvanlegt (notbremsenresistent). Hrun myntbandalagsins sé orðið ónæmt fyrir neyðarbremsunni. Ekkert geti bjargað því nema einskonar ný Sambandsríki Evrópu - og sem eru svo að segja óframkvæmanleg. "Menn héldu að ef pókerspilið um þetta myntbandalag myndi standa yfir í nógu langan tíma, þá myndu menn á endanum standa upp frá spilinu til að gera það sem menn þurfa að gera. Þá myndi allt lagast." En þessu trúir Munchau ekki lengur. Sumar kreppur eru notbremsenresistent og ekkert getur stoppað þær. Myntbandalagið er búið að byggja upp slíkan innri haug af sprengiefni að ekkert mun geta stöðvað eyðilegginguna; FTD
 
Fyrri færsla
 

Vilt þú að Ísland endi eins og Nýfundnaland? Segðu nei við skuldaklafa sem gæti bundið enda á tilveru Íslands

Þorskur Nýfundnalands á frímerki á meðan landið var sjálfstætt ríki. 
 
Nýfundnaland varð sjálfstætt ríki árið 1855. En sjálfstæðið missti það vegna ríkisskulda.
 
Í kjölfar mikilla skulda sem Nýfundnaland tók á sig á árunum 1914-1918 vegna þátttöku í fyrri heimsstyrjöldinni, lenti landið seinna í greiðsluerfiðleikum. Árið 1933 var Nýfundnalandi hótað að lokað yrði á fjármagn til landsins vegna hættu á greiðsluþroti ríkisins. Í vandræðum sínum leituðu Nýfundalendingar til breska ríkisins. Það samþykkti að hjálpa, en aðeins með því skilyrði að nýfundalenska þingið kysi sig sjálft út úr heiminum og að allt vald þess yrði fært yfir til sex manna nefndar. Þrír nefndarmenn voru frá Nýfundnalandi og þrír frá Bretlandi. 

Vegna fjárhagsvandamála í kjölfar mikilla ríkisskulda var lýðræðislega kjörið þing og þjóðríkisyfirvald lagt niður. Lýðræði var heldur ekki sérstaklega mikið í tísku á árunum 1933 og þar á eftir. Þið þekkið öll eftirleikinn. 

Hvað varðar Nýfundnaland þá er það ekki lengur til sem sjálfstætt ríki. Héraðið eins og það heitir núna er 111.000 ferkílómetrar að flatarmáli og þar búa 500.000 manns - og þeim fer fækkandi. Héraðið er hluti af Kanada. Nýfundnaland er litla landið sem hætti að vera land og þjóðríki árið 1949 vegna ríkisskulda.   

Nýfundnaland var leyst upp lagt niður sem sjálfstætt ríki vegna skulda ríkissjóðs
 
Vilt þú koma íslenska ríkinu í svona aðstöðu? Ef ekki, þá skaltu segja nei á morgun við forsendunum sem gætu þýtt endalok íslenska lýðveldisins. Gefðu þjóðríkinu okkar atkvæði þitt. Segðu nei við möguleikanum á endalokum sjálfstæðis Íslands. Segðu nei við aumingjahætti stjórnvalda. Þau vinna ekki fyrir Ísland.  Ekki gangast í ábyrgð fyrir ábyrgðalausa stjórnmálamenn aðeins til þess að þeir eigi fyrir næsta sjúss. Ekki skrifa undir þessa skuldaviðurkenningu. 
 
Nú þegar hafa komið fram tillögur um að Grikklandi verði veitt sama meðferð og Nýfundnaland fékk.  

Kvikmynd: Nýfundnaland og Ísland; hver er munurinn?
 
Fyrri færsla:
 

Fréttatilkynning til samtaka iðnaðarins: ekkert er verra fyrir hagvöxtinn en evran

 
Hagvöxtur Finnlands árið 2009 
 
Landsframleiðsla Finnlands 2009:   mínus 7,8%

Finnska hagstofan kom með tölur yfir landsframleiðslu á síðasta fjórðungi ársins 2009 í vikunni. Enginn hagvöxtur varð í heild á síðasta fjórðungi ársins í Finnlandi.

Finnska hagstofan gerði einnig grein fyrir árinu 2009 í heild. Landsframleiðsla Finnlands féll um hvorki meira né minna en 7,8% á árinu í heild. Þetta er mesta hrun í landsframleiðslu Finnlands á einu ári frá því að mælingar hófust árið 1975. Í frægu finnsku kreppunni 1991-1993, þegar Finnland upplifði erfiða bankakreppu samhliða hruni Sovétríkjanna, þá féll landsframleiðsla Finnlands "aðeins" um 6% á árinu 1991, þegar verst lét. Til að fá fram tölur um svipað hrun og varð á árinu 2008-2009, þá þurfa Finnar að leita aftur til áranna 1917-1918.
 
Það er víst óþarft að segja frá því hér að mynt Finnlands er því miður myntvafningur myntbandalags Evrópusambandsins sem heitir evra. En ég segi það samt, já einu sinni enn.

Útflutningur Finnlands hrundi alls um 24% frá 2008-2009, fjárfestingar hrundu um 13%, innflutningur hrundi um 22% og einkaneysla féll um 2,1%. Rekstrarafkoma fyrirtækja hrundi um 39%. Þau greiddu því 44% minna í skatta og greiddu út 34% minna í arð; Hagstofa Finnlands 

Landsframleiðsla Danmerkur 2009:   mínus  5,1%

Hagstofa Danmerkur birti á föstudaginn í síðustu viku tölur yfir landsframleiðslu Danmerkur á seinasta fjórðungi síðasta árs. Hagvöxtur var lítill sem enginn frá 3. til 4. ársfjórðungs, eða 0,2%. Miðað við sama tíma á árinu 2008 hafði landsframleiðsla fallið um 3,4% á fjórðungnum. Útflutningur féll um 0,4% á milli 3. og 4. ársfjórðungs. Innflutningur féll einnig um 1,7% á tímabilinu. Það sem framkallaði 0,2% hagvöxt á síðasta fjórðungi ársins 2009 var birgðasöfnun (0,6%), innflutningur nýrra bifreiða og önnur neysla sem lyfti einkaneyslu um 0,6%. Neysla á þjónustu dróst saman um 0,5%.

Ef litið er á árið 2009 í heild, þá dróst landsframleiðsla Danmerkur saman um 5,1% á árinu. Útflutningur hrundi um 10,7% og innflutningur um 13,2%. Fjárfestingar drógust saman um 11,9%. Einkaneysla féll um 4,6% (kaup á nýjum bifreiðum um 29,8%). Það eina sem jókst á árinu 2009 var neysla hins opinbera sem blés út um 2,2 prósentu stig á milli ára; DST

Landsframleiðsla Svíþjóðar 2009:   mínus  4,9%

Sænska krónu hagkerfið dróst tæplega 40% minna saman er evru hagkerfi Finnlands gerði á árinu 2009 í heild. Samdráttur heldur þó áfram í Svíþjóð því landsframleiðslan féll um 0,6% frá þriðja til fjórða tímabils ársins 2009 og um 1,5% á milli ára.

Útflutningur Svíþjóðar hrundi um 12,5% á árinu 2009. Smámunir miðað við Finnland. Innflutningur hrundi um 13,5%. Fjárfestingar hrundu um 15,3%. Einkaneysla dróst saman um 0,8%. Fjöldi fólks í atvinnu fækkaði um 2,6% og vinnustundum fækkaði um 2,6%. Þetta er mesta hrun í landsframleiðslu Svíþjóðar frá lokum seinni heimsstyrjaldar 1945; Hagstofa Svíþjóðar

Landsframleiðsla Noregs 2009:  mínus  1,5%

Eins og boðað var kom hagstofa Noregs með tölur yfir landsframleiðslu norska fastlandsins og hagkerfisins í heild í gær. Samdráttur á árinu 2009 í heild var aðeins 1,5%. Þetta gildir bæði um norska hagkerfið með eða án olíuiðnaðarins. Útflutningur dróst saman um 4,3%, innflutningur um 9,7%, fjárfestingar um 7,9% og einkaneysla um 0,1%. Neysla hins opinbera blés hins vegar út um 5,2%. Fólki með atvinnu fækkaði um 0,4% og fjöldi vinnustunda í hagkerfinu voru 1,5% færri en á árinu 2008. Heil 20 ár eru liðin frá því að síðast varð samdráttur í landsframleiðslu Noregs; Hagstofa Noregs
 
Landsframleiðsla Íslands:  á morgun
 
Þá er bara að bíða spenntur eftir hagstofu Íslands á morgun. Þá getum við borið Norðurlöndin fimm saman. Hvort er verra; algert bankahrun eða myntvafningur myntbandalags Evrópusambandsins? Ég veðja á evran sé verri en íslenska bankahrunið, þ.e.a.s fyrir hagvöxtinn - og enn verri fyrir Samtök Iðnaðarins, þ.e. þegar menn þar innan dyra fara loksins að nota heilabúið eins og á að nota það => til að hugsa með því. Allt þjóðarbúið þarf að hugsa.  
 
Lífskjör Slóvaka 

Þriðjungur Slóvaka finnst að lífskjör þeirra hafi fallið á síðustu fjórum árum, þ.e. frá árinu 2006. Aðeins fimmtungur Slóvaka finnst að lífskjör þeirra hafi batnað á þessu tímabili. Meira en helmingi íbúa Slóvakíu finnst að stjórnvöldum hafi mistekist að glíma við neikvæðu hliðar yfirstandandi efnahagskreppu. Slóvökum finnst að spilling og frændsemispot séu helstu gallar þjóðfélagsmála landsins; Slovak Spectator 

Slóvakía tók upp evru þann 1. janúar 2009. Atvinnuleysi í Slóvakíu í desember mældist það fimmta mesta í 27 löndum Evrópusambandsins, eða 13,6%. Aðeins Lettland (22,8%), Spánn (19,5%), Eistland (15-16%) og Litháen (14-16%) höfðu meira atvinnuleysi í desember en Slóvakía; Atvinnuleysi í ESB núna
 
Meira úr sömu skúffu hér í glugganum á tilveraniesb.net
 
Fyrri færsla
 

mbl.is Frjór jarðvegur fyrir hefnigirni og hatur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Myntbandalagið: Kirkjugarður ríkisstjórna Evrópu

 

Kirkjugarður ríkisstjórna í Evrópu  

Portúgalski hagfræðingurinn og blaðamaðurinn Domingos Amaral skrifar í Correio da Manhã að myntbandalagið sé spennitreyja fyrir Portúgal og að hagvöxtur landsins hafi aldrei verið eins lélegur hin síðustu 50 ár og undir evrunni. Allt sé orðið of dýrt. Ef það var velmegun og hagsæld sem myntbandalagið átti að leiða af sér þá höfum við uppskorið akkúrat hið gagnstæða, segir hann. Hrikalegar reglur myntbandalagsins hafa breytt Evrópu í kirkjugarð fyrir ríkisstjórnir. Það er kominn tími til að gera sér grein fyrir því að evran virkar ekki og að það verður að koma breyting. Að yfirgefa myntbandalagið yrði hrikalegt, en það sama gildir ef ekkert er gert. Evran refsar þeim saklausu og lokar á allar útgönguleiðir út úr óförunum, segir Amaral; CM

Meira úr sömu skúffu hér í glugganum á tilveraniesb.net

Fyrri færsla

The Euro does not work. Bara við hefðum aldrei tekið upp evru 


The Euro does not work. Bara við hefðum aldrei tekið upp evru

To be, or not to be relatively á hausnum 

Hvernig brjóta á upp myntbandalag 

Ég man núna hvað það var sem kallaði fram hroll og gerði mig óttasleginn yfir ESB umræðunni á Íslandi vorið 2008. Það var sú snilld einfaldra manna að ekkert mál væri fyrir Ísland að taka upp evru. Ef Íslendingum líkaði ekki myntin, þá væri bara að skila henni aftur og taka krónuna í notkun á ný. Ég varð skelfingu lostinn. Þessi ótti minn fæddi af sér tvær greinar í tímaritinu Þjóðmálum: 1) Þrífst frelsið í faðmi ESB og evru? (hér) - og 2) Seðlabankinn og þjóðfélagið (hér).

Allt þetta mál er svipað því að sjá borgarísjaka í fyrsta sinn á ævinni. Ef það væri ekki búið að sýna manni á teikningu að 11 sinnum meira af jakanum er neðan sjávarborðs en ofan þess, þá myndi maður aldrei trúa því að óreyndu. Að taka upp annarra þjóða mynt er svipað. Á myntinni hangir stór hluti sjálfstæðis landsins, stór hluti lífsafkomu landsins og stór hluti lífsafkomu þjóðarinnar sjálfrar um alla framtíð.

Fari málið illa, sérstaklega ef um örsmáa þjóð er að ræða, þá getur þessi nýja mynt bundið enda á líf fólksins í landinu sem verandi sjálfstæð þjóð í eigin ríki. Í stuttu máli sagt. Fyrir Ísland getur málið í hæsta máta þýtt endalokin fyrir íslensku þjóðina. Við gætum misst landið okkar og hætt að vera þjóð. Þetta hefur gerst annars staðar í heiminum og gerist þar ennþá. Hvað munar heiminum um einn örsmáan ættbálk á eyðieyju í Norður Atlantshafi? Smápeð sem engin önnur lönd myndu sakna nógu mikið.

Þetta mál á Íslandi er þó nokkuð erfiðara viðureignar nú en oft áður, því Ísland hýsir nú í fyrsta sinn í sögu landsins heila kynslóð sem hefur ekki kynnst neinu öðru en velmegun og velferð - og jafnvel ekki þurft að dýfa hendinni í kalt vatn alla æfi. Nú liggur því fyrir sú staða að töluverð hætta er á því að hluti af áhöfninni geti fundið upp á því óvitaverki að selja vélina úr bátnum okkar. Eingöngu til þess að eiga fyrir næsta sjúss.

Notwithstanding the fact that we think the Euro survives intact, it is relatively clear that (in economic terms) the Euro does not work. That is to say, parts of the Euro area would have been better off (economically) if they had never joined     

 

Nú er þetta að birtast okkur í frekar óþægilegri mynd. Fjögur Miðjarðarhafslönd, eitt Írland og þrjú Eystrasaltslönd eiga mjög um sárt að binda núna. Komið er í ljós að myntbandalag þeirra í Evrópusambandinu virkar ekki. Nákvæmlega eins og efasemdarmennirnir vöruðu við. En málið er miklu verra en þetta. Það er ekki hægt að komast út úr myntbandalaginu aftur. Engin útgönguleið er út úr þessum efnahagslega pyntingarklefa þjóðanna án sjálfsmorðs þeirra sjálfra í leiðinni.

Á leiðina til hagvaxtar fyrir þessi lönd er líka búið að loka fyrir næstu áratugina. Hagvöxtur er það sem alla vantar tilfinnanlega núna. Í góðærinu gerðu sumir grín að hugtakinu "hagvexti" og þóttust vel geta lifað án hans. Annað væri mikilvægara. En ekki lengur. Núna öskra menn á hagvöxt. En hann mun bara ekki birtast í myntbandalagi Evrópusambandsins aftur. Aldrei aftur. Ekki nema að myntbandalaginu verði fórnað. Bandalagið drepur hagvöxt því forsendur myntbandalagsins eru þannig að þær útiloka hagvöxt, atvinnusköpun og framfarir. Þetta er hin dimma hlið myntbandalagsins.

"Indeed, fourteen years ago UBS economists concluded that “a monetary union extending beyond the core six [European] economies would not work properly in economic terms.”

 

Hvernig brjóta á upp myntbandalag

How to break up a monetary union: 16 síður 

Það var því ekki seinna vænna en að einn af yfirhagfræðingum svissneska stórbankans UBS kæmi út með 16 síðna skýrslu sem segir að evran virki ekki og passi fáum. Evran er ónýt sem gjaldmiðill og hagstjórnartæki fyrir mörg lönd myntbandalagsins. Passar* ekki vel fyrir neinn nema kjarnalöndin fimm eða sex, segir Paul Donovan hjá UBS. Best hefði verið að mörg lönd bandalagsins hefðu aldrei gengið í það. (*efnahags- fjármála- og stjórnmálalega)

En: Nú munu brátt "sérfróðir menn" koma og segja að það eina sem getur fengið evruna til að virka sé í stuttu máli það að stofna þarf Sambandsríki Evrópu. United States of Europe með sameiginlegum fjárlögum og sameiginlegri skattheimtu. Sameignlegum skuldum og sameiginlegum öxlum sem sameiginlega eiga að bera byrðar og borga brúsann fyrir þá sem hafa ekki efni á honum. Borga þarf líka fyrir stóra elliheimilið. Ungir og duglegir skattgreiðendur verða sérstaklega velkomnir á elliheimilið ESB. Hentu svo sjálfstæði þjóðar þinnar í okkur í leiðinni.

Fiscal transfers are the price that has to be paid for a monetary union of any meaningful size

 

Þetta er ekkert nýtt. Þetta gátu allir vitað sem hugsa. En það er bara einn rosastór og óyfirstíganlegur hængur hér. Engin af 27 löndum Evrópusambandsins gengu í Sambandsríki Evrópu. Þau gengu öll í tolla- og efnahagsbandalag. Til þess að fá evruna til að virka þarf því fyrst að há eina til tvær borgarastyrjaldir, vopnaðar eða óvopnaðar. Svo þarf nýjar kynslóðir til sem þekkja ekki gömlu og flugbeittu tennur sjálfstæðis þjóðar sinnar. Þekkja ekki virka vöðva frelsisins. Sjálfstæðið og fullveldið er hin sívirka auðlind Íslands, eins og Ragnar heiðursmaður Arnalds segir í bók sinni.

Þetta var númer eitt. Númer tvö er svo að leyfa fólki í öðrum löndum að kjósa sig til auðæfa þinna. Kjósa sig til auðæfa annarra landa. Númer þrjú: það mun Jón Baldvin Hannibalsson og hans líkar væntanlega skaffa okkur, eins og venjulega, alveg gratís; FT Alphaville

Meira úr sömu skúffu hér í glugganum á tilveraniesb.net

Fyrri færsla

Má bjóða þér írska evru að láni? 


Má bjóða þér írska evru að láni?

Þú getur fengið hana á 10% raunvöxtum á Írlandi í dag. Það er mínus 4 til 5% verðbólga á Írlandi núna. Írski hagfræðingurinn David McWilliams vill alls ekki þessa írsku evru.
 
Má bjóða þér einn írskan banka? Þeir eru allir liðnir og náfölir sem lík. Líkfylgdin er írska þjóðin sem nú er bundin á skuldaklafa um komandi kynslóðir. Hinir fáu græddu á því fjármálasukki sem seðlabanki Evrópusambandsins jós yfir í aska nokkurra feitra írskra evruvíkinga.
 
Nú er tapinu þurrkað yfir á þjóðina. Þetta er kjarninn í grein David McWilliams á bloggsíðu hans. David vann áður hjá seðlabanka Írlands.

Atvinnuleysi ungra karlmanna á Írlandi er yfir 30%, og eykst hratt, segir David. Fólksflótti er að aukast. Hrikalegur samdráttur er í útlánum úr dauða-bönkum Írlands. Mismunurinn á milli innlána og útlána er 100% af landsframleiðslu. Yfir 300.000 manns eru með neikvæða eign í fasteignum sínum. Landið er gersamlega ósamkeppnishæft. Allt er of dýrt. Smásala fellur, atvinna minnkar, skattatekjur ríkisins falla, vinnuafl flýr landið og þrýstir fasteignaverði ennþá lengra niður.

Þetta var á árunum 1980 kallað "misheppnuð tilraun til jafnvægis í ríkisfjármálum". Reynt er að stoppa í tekjugöt ríkissjóðs með niðurskurði, svo er farið út í skattahækkanir. Þegar þær mistakast og skattatekjurnar halda áfram að falla, þá hvolfist þjóðarskútan og ríkisstjórnirnar gefast upp og falla. Þá hættir fjármálamarkaðurinn að sinna liðnu líkinu. Nýjar ríkisstjórnir koma og fara. Fjármagnið flýr svo sköttun og ríkisgjaldþrotaáhættu í senn. 

Næst flýr svo fjármagnið það óhjákvæmilega. Allir vita að á endanum verður hið læsta gengisfyrirkomulag landsins að bresta. Fjötrar evru munu þá falla eins gullfóturinn féll. Fyrst var það bara Keynes sem talaði einn í eyðimörkinni gegn frosnu gengisfyrirkomulagi frosinna manna. En í tak með að armæða ríkjanna jókst, vissu þau öll innra með sér að Keynes hafði rétt fyrr sér. Gengisfelling kom. Írland yfirgefur myntbandalagið og rífur af sér evruhandjárnin. Það er ósk Davids McWilliams;

Innlánsvextir í ERM landinu Danmörku

Daninn Kurt Nøhr Pedersen er viðskiptavinur í Lån & Spar Bank í Danmörku. Hann er þar með "hávaxta bankareikning". Innlánsvextirnir á þessum hávaxtareikningi eru núll komma núll prósent á ári. Í Danmörku hafa sjö bankar skrúfað innlánsvexti niður í núll. Þetta þýðir að þú borgar bankanum peninga fyrir að geyma peningana þína. Ódýrara væri að grafa þá niður úti í garði.

Já en menn verða að muna, segir John Christiansen bankastjóri Lån & Spar bankans, að við bjóðum 0,25% ársvexti ef þú setur 100 þúsund danskar krónur inn og lætur þær standa þar kyrrar. Svona virkar Dansave; Børsen

Það er eins gott að hinn svo kallaði "innri þjónustumarkaður" Evrópusambandsins virki ekki. Þá væri fjármagnið flúið yfir í verðtryggða íslenska krónu. Gengi íslensku krónunnar væri þá komið þangað sem íslenskir ESB-menn vilja hafa það; ein á móti öllum 
 
Fyrri færsla
 

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Gunnar Rögnvaldsson
Gunnar Rögnvaldsson

Búseta: Ísland.
Reynsla: 25 ára búseta í ESB og fyrirtækja-rekstur í DK/ESB frá 1985 til 2010. Samband:
tilveraniesb hjá mac.com

Ég er hvorki skráður á Facebook, Twitter, Linkedin né á neinum öðrum "félags-vefjum". Aðsetur skrifa minna er einungis að finna hér á þessari síðu og á tilveraniesb.net og í blöðum og tímaritum

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband