Leita í fréttum mbl.is

Leiðtogar almúgans hérlendis og aginn sem auðvitað er erlendis

Það er tilgangslaust að tala um leiðtoga landsins. Hér eru engir leiðtogar við völd.
 
Vol og væl margra Íslendinga yrði stimplað sem versta vanþakklæti og ofdekur í flestum ríkjum Evrópusambandsins. Þar hafa svo margir engu að tapa og þannig hefur það verið síðustu 30 ár. Engri vinnu að tapa því þeir hafa aldrei á ævinni haft neina vinnu til að tapa. Engri íbúð að tapa því svo margir hafa aldrei átt neina íbúð til að tapa. Engum bíl að tapa því hann hefur aldrei verið í augsýn. Engum sparnaði að tapa því hann hefur aldrei verið til. Fólk sem hefur ekkert til að missa rífur ekki kjaft í Evrópu. Það gengur bara í öfgasamtök. 
 
Athugasemdir sumra Íslendinga um "agaða hagstjórn" og "agaðar þjóðir" virðast byggðar á eftirfarandi staðreyndum um aga í flestu nema þessu:
 

• Launþegar í Þýskalandi hafa ekki fengið launahækkun í 15 ár. Þetta náttúrlega viss agi. 

• Raunverð húsnæðis er fallið um 25 prósent í Þýskalandi frá aldamótum. Þú borgar og borgar, en sífellt stærri hluti lækkandi eða staðnaðra launa þinna fer í afborganir, en þú átt sífellt minna. Hér er aginn til fyrirmyndar. Eitt herbergi íbúðar þinnar hverfur á hverjum 10 árum.   

• Um 30 ára skeið hefur atvinnuleysi í Þýskalandi marrað í kringum 8-10 prósentin. Sem sagt næstum því fullkominn stöðugleiki. 

• Frá 1977 hefur atvinnuleysi í Danmörku ekki farið niður fyrir það sem það er núna á Íslandi, nema í 5 ár. Semsagt hrun-atvinnustig í 29 ár af 35 mögulegum í Danmörku. 

Stýrivextir, verðbólga og atvinnuleysi í Danmörku 1978-2008

Engin stýrivaxtabreyting í 7 ár (blindravinafélag hagfræðinga) 

• Frá 1985 hefur danskur húsnæðismarkaður hrunið tvisvar, með allt að 1600 nauðungaruppboðum yfir heimilum fólks í hverjum mánuði. Samfelldur terror var þá í átta ár. Ekkert var gert neinum til aðstoðar. Ekkert, enda bjóst enginn við því. Þar er fólk sumt enn að greiða skuldir af húsnæði sem það missti árið 1987. Þetta gerðist vegna þess að Danmörk tók upp fastgengi 1982. Danska krónan var bundin við agaðan staur niðri í Þýskalandi. Þetta var mjög öguð ákvörðun sem eingöngu byggðist á pólitík, sem auðvitað alltaf er mjög öguð, eins og þið vitið.

• Og nú eru nauðungaruppboð í Danmörku á leið upp aftur og komin yfir 400 talsins á mánuði. Og húsnæðisverð enn einu sinni í frjálsu falli. Þetta er svo agað.

• Smá yfirdráttarlán kostar þar í öguðum banka um 18 prósent í ársvexti í 2 prósent árverðbólgu, það er að segja, ef bankinn vill lána þér eftir að hafa röntgenmyndað allan fjárhag fjölsyldu þinnar fyrst - og beðið svo um belti og axlabönd. 

• Hér heima halda víst margir að innheimtustofnanir gangi hart til verks. Ég ráðlegg þessum sumum að prófa innheimtuaðgerðir erlendis.

• Á Ítalíu hefur enginn hagvöxtur verið í 10 ár. Fullkominn agaður stöðugleiki þar.

• Atvinnuleysi í Frakklandi hefur legið fast (já, aftur stöðugleiki) á 10 prósentum í meira en 30 ár.

• Grikkland er gjaldþrota, eftir 30 ár í esb.

• Írland er á skurðaborðinu

• Portúgal er í öndunarvél

• Spánn er sprunginn

• Lettland er horfið og þjóðin þar er að hverfa. 

• Eistland er að deyja.

• Lúx er skattaskjól.

• Og Austurríki er afdalir; þar sem konur virðast læstar inni í skápum upp í dal. Þannig er atvinnuleysinu haldið niðri. Atvinnuþátttaka kvenna þar í landi er undir 50 prósent. Og samt eignast þær færri en 1,4 barn á ævilengd hverrar konu í skáp. En samt er atvinnuleysi í Austurríki næstum það hæsta frá lokum seinni heimsstyrjaldar. Ég er hræddur um að það heyrðist hljóð úr kút ef atvinnuleysi á Íslandi ætti að leysa með því að reka konur heim af vinnumarkaði eins og í Austurríki.

Í Hollandi er lágum atvinnuleysistölum náð með því að 40 prósent þeirra sem eru á vinnumarkaði vinna aðeins hlutastörf. Þetta er heimsmet, samkvæmt tölum OECD. Svo litla vinnu er að hafa í Hollandi.
 
 
Þetta er svo agalega agað! - ekki satt?
 
Hvar fékk ég heimildir, er ég svo spurður um. Ég er alltaf krafinn um heimildir, því svo margir virðast vera afar heimildarlausir. 
 
Ég bjó í ESB í 25 ár, stundaði þar atvinnurekstur, og horfði á eftir helmingi iðnaðar- lanbúnaðar- og matvælafyrirtækja Danmerkur flýja niður til Þýskalands og til annarra landa, þar sem launin eru oft orðin aðeins helmingur af því sem þau eru í Danmörku. Það eru engin lágmarkslaun í Þýskalandi. Fólk stendur þar á verksmiðjugólfum oft fyrir minna en eina evru á tímann, jafnvel 60 cent.

Danir geta ekkert gert við þessu annað en leggja niður og rústa velferðarsamfélagi sínu. En þeir ösnuðust til að binda gengi dönsku krónunar fast við evruna og þýksa markið árið 1982. Agi: Danmörk er með gengi gjaldmiðils síns læst fast við efnahagslegt svarthol eða niðurfall. 
 
Figure 1. Unit labour costs in selected EU nations (nánar hér)
 
mickey_fig1
Í samfellt 15 ár og jafnvel lengur hefur Þýskaland stundað innvortis gengisfellingu gagnvart þeim löndum sem eru í læstu gengisfyrirkomulagi við það í gegnum myntbandalag Evrópusambandsins. Þýskaland er Kína Evrópu.
 
 
Þ.e.a.s launum í Þýskalandi er haldið niðri með járnhnefa og þau jafnvel lækkuð. Þýskir launþegar hafa ekki fengið neitt meira í pokann sinn síðustu 15 árin og litla sem enga kaupmáttaraukningu. Og svo er kostnaður lækkaður niður í það óendanlega. Keppa þarf nefnilega hin lönd evrusvæðisins í kaf. Þau mega ekki geta keppt við Þýskaland. Ef þau lækka sig, þá lækkar Þýskaland sig bara enn meira. Spírall niður á hinn samfélagslega botn. Hvert væri öryggisráð Ingibjargar til evrulanda í þessari stöðu? Peningastjórn og vopn farin. Vald og stjórn í ríkisfjármálum farið. Hvernig á að búa til vöxt þegar búið er að taka næstum öll mikilvæg stjórntæki af þjóðríkjunum? Á kannski að búa til vöxt með því að prumpa yfir landamærin?

Þróun fólksfækkunnar í Þýskalandi sem hófst árið 2004 nf
Þýska þjóðin er að verða fátækari og fátækari og eldri og eldri því þar þora svo allt of fáir að eignast börn og þannig hefur það verið síðustu 40 árin. Mæli með gleðifréttum úr gamla heiminum í ESB.
 
Þjóðinni fækkrar nú um ca. 250.000 til 400.000 manns á ári og hraðinn á fólksfækkuninni eykst. Milljónir þýskra fjölskyldna þurfa fátæktarhjálp þó svo að bæði séu í fullri vinnu hvern dag ársins.
 
"Since 2000, productivity-adjusted wages have increased only 5% in Germany (they actually declined from 2000-2008)."  

Ef þú vissir aðeins eitt grjón af sannleika um Evrópusambandið þá væri þetta eitt af því fyrsta sem þú vissir.
 
Fyrri færsla
 
 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta tal um "agaða hagstjórn" í Evrópu er merkilegt.

Annars vegar vegna þess, eins og þú bendir á, að helmingurinn af henni er tóm ímyndun. Hin "agaða hagstjórn" í Þýskalandi stafar af því að þar er fólksfjöldaþróun neikvæð og offramboð af húsnæði. Það er engin eftirspurn innanlands til að keyra áfram launaskrið.

Hins vegar vegna þess að hinn helmingurinn af hinni "öguðu hagstjórn", sá helmingur sem Þýskaland vill bjóða öðrum þjóðum Evrópu upp á, fellst í því að taka samdrátt út í atvinnuleysi, niðurskurði og almennri og langavarandi eymd frekar en að rýra gildi gjaldmiðilsins og fara svo að byggja upp.

Þingmaður nokkur gerði sig að fífli í gær með tali um fjölda sjálfsvíga hér á landi vegna kreppunnar sem hvergi finnast. Það ætti einhver að benda honum (og fleirum) á að sjálfsvígstíðni í Grikklandi hefur nær tvöfaldast í kreppunni! Grikkir eru umvörpum að drepast úr agaðri hagstjórn.

Hans Haraldsson (IP-tala skráð) 8.3.2012 kl. 03:37

2 Smámynd: FORNLEIFUR

Þakka þér fyrir góða grein. Ég bý enn í Danmörku. Danir ættu flestir að ganga með blindramerki.

FORNLEIFUR, 8.3.2012 kl. 09:07

3 Smámynd: Jón Frímann Jónsson

Það eina niðurfall sem ég sé hérna er höfundur þessar bloggfærslu. Það er Gunnar Rögnvaldsson. Það er efnahagskreppa í Danmörku eins og restinni í Evrópu. Það er líka efnahagskreppa á Íslandi. Gunnar Röngvaldsson er bara í afneitun varðandi þá staðreynd, og líka þá staðreynd að íslenska krónan er búin að lækka um 70% (yfir 100% miðað við aflandsgengi) síðan árið 2008. Það gengur ekki allt upp hjá fólki. Hvort sem það er í Danmörku eða annarstaðar. Það er einnig líka þannig að helsta búsetuformið í Danmörku og Þýskalandi er að leigja, aðeins í kringum 20% eiga húsnæði í þessum löndum.

Þegar menn gera ekki einu sinni tilraun til þess að fara rétt með staðreyndir. Þá er vont í efni. Sérstaklega þegar viðkomandi láta eins og þeir kunni eitthvað í því efni sem þeir fjalla um.

Hérna er frétt um þessa staðreynd frá The Telegraph.

Brits buy homes, the Germans rent – which of us has got it right?

Það að taka bara til hluti sem hentar málflutningi viðkomandi er einnig afskaplega óheiðarlegt í umræðunni.

Jón Frímann Jónsson, 8.3.2012 kl. 20:05

4 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Þakka ykkur innlitið

Samúð mín er djúp með þér í Danmörku Vilhjálmur. Sendi þér kveðjur.

Það er nú svo kæri Jón Frímann að á milli 60-70 prósent af íbúðarhúsnæðismassa Danmerkur er í eigu einstaklinga og fjölskyldna. Vegna skorts á húsnæði fyrir þá sem þurfa að sækja framhaldsnám fjarri heimili sínu, þá eiga sumar fjölskyldur oft eina litla íbúð til viðbótar því húsnæði sem fjölskyldan sjálf býr í. Dóttir eða sonur koma þá inn í tölur sem búandi í leiguhúsnæði sem einhver annar en einmitt sá sem býr í húsnæðinu á. Húsnæðið er samt í einkaeigu.

Um það bil 80 prósent íbúa Íslands búa í eigin húsnæði. Bilið á milli Danmerkur er ekki það stórt í reynd. En það fer þó vaxandi. Því miður fyrir Dani og Danmörk. 

En þó svo að það sem þú heldur hér að þú vitir en veist ekki væri rétt, þá batnar staðan ekki við það. Það er alltaf einhver sem á allt það húsnæði sem stendur ofan- og jafnvel neðanjarðar í öllum löndum. Húsnæðið stendur ekki þarna eins og farfugl sem flýgur á milli landa.

Ef eigendur húsnæðisins leigja það út eins og þeir gera mikið í Þýskalandi, þá þýðir 25 prósent fall í raunvirði eigna þeirra frá aldamótum einungis það, að hækka þarf húsaleiguna hjá leigutökum. Það er eina leiðin til að fá dæmið til að ganga upp. Sama hver á húsnæðið. 

Það er rétt að Þjóðverjar hafa hætt að vilja eiga sjálfir það húsnæði sem þeir búa í. Það er alveg rétt hjá þér. Hvaða maður með fullu viti vill fjárfesta í deyjandi eignum?

Þjóðverjar hafa brennt sig illilega á húsnæðismarkaði lands síns. Þeir vilja ekki snerta á honum. Vilja ekki snerta á deyjandi eignum. Enginn fjárfestir með fullu viti kýs að binda fé sitt fast í deyjandi eignum.

Kveðjur

Gunnar Rögnvaldsson, 8.3.2012 kl. 21:18

5 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Já kæri Hans Haraldsson

Þessi furðulegi þingmaður hérlendis sem þú kallar nokkurn, en er nú nánast ekkert, hefur ekki farið fram hjá mér.

Kveðjur

Gunnar Rögnvaldsson, 8.3.2012 kl. 21:31

6 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Aftur 

Það er mitt prinsipp að heimili mitt er heimili. Það er og á ekki að vera spákaupmennksuvara.

Þeir sem leigja út húsnæði til búsetu krefjast alltaf hærri ávöxtunar á eignum sín en til dæmis ég, sem lít á heimili mitt sem heimili en ekki tölu á blaði.

Það eru mjög margir innréttaðir eins og ég í tölum mannfjöldans. Því munum við alltaf gera lægri kröfur til arðsemi íbúðarhúsnæðis okkar en þeir sem líta á það sem tölu í ársreikningum útleigufélags.  

Það er enn geðbilaðra að hugsa út í það að stærsta þjóð myntbandalags Evrópusambandsins, og sem sjálf vill ekki eiga sitt húsnæði, sé sú evru-þjóð sem stjórnar peningamálastenfu þeirra myntar sem fólk eins og Írar eiga að nota.

Írar vilja enn fjárfesta í samfélagi sínu og eignast því margfalt fleiri börn á hverja þúsund íbúa en Þjóðverjar geta nokkurn tíma vonast til að eignast, því þýska þjóðin er einfaldlega að verða líkamlega geld af elli. Þýskir eru önnum kafnir við að útýma sjálfum sér með því að vilja hvorki eignast börn né fjárfesta í samfélagi sínu. M.ö.o. Þýskaland er orðið öldrunarhagkerfi. Og það stjórnar peningapólitk 17 landa!

Aðeins sannir fábjánar kjósa sjálfviljugir að innrétta íbúðarhúsnæði sitt í svona heimskulegu peningafyrirkomulagi.

Gunnar Rögnvaldsson, 8.3.2012 kl. 22:06

7 Smámynd: Jón Frímann Jónsson

Gunnar Röngvaldsson, Þessi fullyrðing þín um eign á húsnæði í Danmörku er röng. Enda er það svo að íbúðareign í Danmörku er aðeins meiri en í Þýskalandi, þar munar ekki miklu á heildinni.

Samkvæmt þessari hérna rannsókn þá er 64% húsa í Danmörku í eigu einkaaðila. Hinsvegar er tala þeirra sem síðan búa í sínu eigin húsnæði mun minni en 64%, og er í dag væntanlega eitthvað vel undir 50% yfir heildina.  Enda er það svo að íbúðareign er minnst hjá þeim sem eru fæddir eftir 1970 í Danmörku. Árið 2000 var þessi tala 51% fyrir Danmörku, og síðan aðeins 42% fyrir Þýskaland árið 2002. Gögnin eru fengin héðan.

Það sem hefur ekki gerst á Íslandi. Þá sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu er að húsnæðismarkaðurinn hefur ekki ennþá hrunið í verði. Það á eftir að gera, og í kjölfarið dýpkar kreppan mun meira. Þetta er sama kreppa og Gunnar hérna neitað að sjá.

Jón Frímann Jónsson, 8.3.2012 kl. 23:58

8 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Nú Jón!

Og ég sem stóð í þeim skilningi að það hefði verið bankakerfið á Íslandi sem hrundi, en ekki í ESB.

Þetta passar hjá þér; húsnæðismarkaður í Damörku er í  frjálsu falli og hrun húsnæðismarkaðs Danmerkur hefur hækkað húsaleigu hjá þeim sem leigja ("Boligkrak gør det dyrere at leje")

Þetta er mjög rökrétt afleiðing, þegar sjálfseignarhlutfall íbúa kemst á undanhald, eins og er að gerast í ESB-Danmörku, þar sem enginn getur nú orðið fengið húsnæðislán nema við sérstakar eignaaðstæður.

Um 40 prósent húsnæðiseigenda undir 35 ára aldri í Danmörku skulda meiri peninga í fasteign sinni en hægt er að selja hana á.

Alls er hver fimmti fasteignaeigandi í Danmörku eignalaus (staða 22/04/2010). Mörg ár munu líða þar til hægt er að komast úr þessum festum.

Fari allt á versta veg mun skuldari verða eltur uppi með rest-skuldina þar til yfir lýkur. Þess ber auðvitað að geta að Danmörk er í Evrópusambandinu og er norrænt velferðarsamfélag, stundum.

Þar fást líka vínarbrauð. Allir Danir vita að ekkert verður gert þeim til aðstoðar, því Danmörk er jú í Evrópusambandinu - og getur því ekkert gert.

Gott er að íslenskir húsnæðiseigendur þurfa ekki að glíma við ESB-verðhrun og ESB lánastofnanir.

Hér er nánar Jón: Nauðungaruppboð í Danmörku - september

Kveðjur

Gunnar Rögnvaldsson, 9.3.2012 kl. 00:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Gunnar Rögnvaldsson
Gunnar Rögnvaldsson

Búseta: Ísland.
Reynsla: 25 ára búseta í ESB og fyrirtækja-rekstur í DK/ESB frá 1985 til 2010. Samband:
tilveraniesb hjá mac.com

Ég er hvorki skráður á Facebook, Twitter, Linkedin né á neinum öðrum "félags-vefjum". Aðsetur skrifa minna er einungis að finna hér á þessari síðu og á tilveraniesb.net og í blöðum og tímaritum

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband