Leita í fréttum mbl.is

Sukkbergið Facebook og múrinn

Stærsta dópsalamiðlun og glæpamannatorg veraldar, Facebook Inc, er komin í vandræði vegna hins sokkna bergs stofnandans, sem er atvinnuskrumari. Hann hvatti vörur sínar, sem eru notendur Facebook Inc, til mótmæla gegn "múrnum" sem ríkisstjórn landsins ætlar sér að klára við suðurenda heimsálfu hans. En þar flæða ólöglegheitin inn í bandaríska réttarríkið og grafa undan því samfélagi sem ól af sér hérastubbinn Facebook Inc, sem hefur engar vörur á boðstólum, nema borgarana sem borga honum fyrir að láta nota og misnota sig

En þetta endaði frekar illa fyrir þennan piparsteikta hérastubb kvakara. Borgararnir sem halda sundurfélagsmiðli sökkta bergsins uppi, já þeir tóku sig til og efndu til mótmæla við múrinn sem furstinn af Facebook hefur byggt í kringum einkaeign sína á meginlandi Bandaríkjanna, og sem staðsett ku vera í San Francisco,- já hvar annars staðar en einmitt þar. En þar á undan höfðu íbúar Hawaii mótmælt byggingu múrs hins sama djúpt sokkna bergs í kringum landaregin hans þar

Steve Jobs lést í kjallaraherbergi á heimili sínu í venjulegu einbýlishúsi í venjulegu hverfi meðal venjulegra borgara landsins. Engan múr reisti hann gegn þeim sem hann átti svo mikið að þakka. En það var náttúrlega fyrir tíma sokkna bergsins, sem rústa vill þjóðríkinu sem ól hann af sér. Og aldrei fór Steve til Washington. Engin ástæða var því fyrir mig að selja heiðskýru -unclouded- bréfin í honum og starfsmönnum hans

Ég hef aldrei verið notandi á Facebook og mun aldrei verða það. Bölvað sé þetta hettuklædda fyrirbæri hins stafræna heims. Það er að eyðileggja alla þá opnu almenningsgarða sem Veraldarvefurinn átti að vera (e. the commons). Ef bjarga á vefnum úr klóm svona skrumara þá þarf að banna hettuklæddu fólki á borð við þessu sokkna bergi að eyðileggja alla stafræna Austurvelli veraldar. Aðeins þjóðríkin geta gengist í ábyrgð fyrir því að lög og reglur séu virt á Austurvöllum hins stafræna heims. Annars mun þeim öllum verða lokað - já

L O K A Ð !

Bandaríkin eru nú að vega og meta hvort að bæta eigi IRGC lífvarðardeild klerkaveldisins í Íran á listann yfir hryðjuverjasamtök veraldar. Og að öllu óbreyttu, held ég, mun Facebook Inc verða bætta á þann sama lista áður en langt um líður. Hvað skyldi markaðurinn segja við því?

Fyrri færsla

Myntin sem krefst að kosningar séu helst bannaðar


Myntin sem krefst að kosningar séu helst bannaðar

Hinn peningalegi Frankenstein Evrópusambandsins, evran, er komin í þá stöðu að helst þyrfti að banna kosningar í öllum löndum Evrópusambandsins ef hún á að lifa af. Sú er staðan á þessu minnismerki sérfræðingaveldis esb-elíta í dag

Menn spyrja: heldurðu að evran lifi kosningarnar í Frakklandi af? Eða - mun gereyðingarmáttur hennar koma þriðju borgarastyrjöld Evrópu af stað? Hvort mun gerast á undan, efnahagsleg gereyðing Grikklands eða Ítalíu?

Einn þriðji hluti gríska hagkerfisins er horfinn. Heimsmet í efnahagslegri misþyrmingu fer þar fram undir fána og merkjum evrunnar og esb

Enginn talar lengur um að evran átti að lækna það sem menn segja nú að þurfi að læknast til að hún lifi af. Enginn spyr hvers vegna það þurfi að drepa sjúklinginn svo að lyfið við honum skemmist ekki

Það verður spennandi að fylgjast með málum þegar teymi Donalds J. Trump sest í stjórnarsæti sín í Alþjóða gjaldeyrissjóðnum. Það verður fróðlegt, svo ekki sé minna sagt

Fyrri færsla

Tilboð Bandaríkjanna um passlegt NATO


Tilboð Bandaríkjanna um passlegt NATO

DoD 170214-D-GO396-0075

Mynd: Varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna: James Mattis talar við blaðamenn um borð í E-4B á leið sinni til meginlands taparanna

James Mattis vararnmálaráðherra Bandaríkjanna neyddist í gær til að heimsækja skræksjoppu Stoltenbergs í Evrópu til að horfa þar upp á Norðmann-inn rúlla skræk eftir skræk út yfir heimsbyggðina. Stoltenberg er talin ríkasta þjóð veraldar sem hefur ekki efni á sjálfri sér

Að skrækjum hans loknum kom þurrt tilboð að vestan. Tilboð sem ekki er hægt að hafna. Bandaríkjamenn bjóðast frá og með nú til að rústa NATO það mikið að það kosti Evrópu lítið sem ekkert að vera í því. Þeir komu með tilboð um NATO sem passar pyngju Evrópu: að þeir fái loksins það sem þeir borga fyrir

Og ef að allir væru jafn duglegir og Íslendingar, þá myndi NATO ekki kosta nokkurn mann neitt. Það væri einfaldlega ekki til. Ég hef því ákveðið að krefja ekki sjálfan mig lengur um leigutekjur af sjálfum mér. Því ég er ekki til

Vesalingar

Fyrri færsla

Donald J. Trump kann ekki að vera forseti


Donald J. Trump kann ekki að vera forseti

Og það er það góða við kjör hans. Enginn sem verður forseti Bandaríkjanna ætti að kunna að vera forseti. Og það sem meira er, enginn ætti að kunna að verða forseti. Það kunni Donald Trump ekki heldur, en hann gat það samt. Hann gerði það samt. Fólkið kaus hann meðal annars vegna þess að hann kann ekki að vera forseti

Þetta er eitt af því sem sjálfsákvörðunarréttur þjóða byggir tilvist sína á. Að einn venjulegur úr þjóðinni, einn venjulegur ekki-sérfræðingur, sé forseti og leiðtogi hennar. Sérfræðingar í því að vera forsetar eiga ekki að vera forsetar. Þetta er ekki staða fyrir sérfræðinga

Þegar í embættið er komið þá verður forsetinn að ráða til sín sérfræðinga. Og það hefur hann gert. Ég elska þetta. Bara hreint út sagt elska þetta. Þetta er svo glæsilegur vitnisburður um frum-mikilvægi sjálfsákvörðunarréttar þjóða. Að einn sem kann ekki að vera forseti geti orðið forseti og verði það

Auðvitað sýnist þetta vera subbulegt. En það á það líka að vera. Þetta er framkvæmdavald þjóðarinnar og það á að vera subbulegt, því annars er það bara sérfræðiveldi

Til hamingju Bandaríkjamenn, að hafa loksins fengið alvöru forseta en ekki sérfræðing

Donald J. Trump segir að Rússland verði að skila Krím til Kænugarðs. Það saggði blaðafulltrúi hans í gær. Þetta er ekki beint það sem menn áttu von á. Sérstaklega ekki í Rússlandi. Þessi afstaða forsetans útilokar þó engan veginn samvinnu við Rússland um tilvistarleg málefni Vesturlanda. Rússland er Vesturland, því það hefur Ritningarnar, hinar heilögu

Fyrri færsla

Afsögn þjóðaröryggisráðgjafa Trumps Bandaríkjaforseta


Afsögn þjóðaröryggisráðgjafa Trumps Bandaríkjaforseta

Furðulegar fréttir berast af afsögn Michael T. Flynn, þjóðaröryggisráðgjafa forsetaembættisins. Flynn er fyrrum yfirmaður upplýsinga- og leyniþjónusta bandaríska hersins og snýr sú þjónusta að heiminum utan landamæra Bandaríkjanna. Flynn gagnrýndi stefnu bandaríska hersins varðandi stefnumörkun gagnvart þeim óvini sem Bandaríkin hafa staðið í styrjöld við í 15 ár: ISIS og íslam og í reynd allar útgáfur íslam. Ofboðslega margir gleyma því að Bandaríkin heyja styrjöld. Hún er sú lengsta í sögu landsins

Flynn sagði að þeir sem mótað hefðu stefnuna gegn óvinunum gerðu sér rangar hugmyndir um hið sanna eðli hans. Leita mætti frekar upplýsinga og dýpri þekkingar á óvininum í bókum og fræðiritum, en í höfðum þess lifandi hluta hans sem borað væri í. Fyrir þetta vék Obama honum burt

Engin hætta er á að Flynn hafi ekki þekkt öll lög og allrar reglur um allt í sambandi við umgengni við alla óvini og vini Bandaríkjanna. Lítil hætta er á að hann hafi gert neitt sem brýtur í bága við lög og reglur að neinu leyti

Það sem hins vegar hefur gerst er að stefnumörkunarálit varnarmálaráðherrans og utanríkisráðherrans og hins vegar þjóðaröryggisráðgjafans stangast á. Og svo það að Flynn hefur líklega verið kominn með stefnu í varnarmálum upp á skotpall, áður en samkomulag um heildstæði hennar hafi getað náð að myndast í ríkisstjórn Trumps. Donald Trump er þekktur fyrir trygglyndi við sína menn. Hraðinn í heild er ef til vill of mikill, eða þá að Flynn hefur farið of hratt upp á sitt einsdæmi

Flynn var sennilega kominn framúr hinum með framkvæmd stefnu, og þegar þeir uppgötva það þá eru þetta afleiðingarnar. Um er því að ræða ósamkomulag innan ríkisstjórnarinnar. Þetta hefur ekkert með Rússa að gera, frekar en Siggu Jóns. Öll valdaskiptateymi í Bandaríkjunum hefja samskipti við þau erlendu ríki og aðila sem þau þurfa að hafa samband við, áður en í embættin er komið. Þessi óformlegu samskipti hefjast strax eftir kosningar og jafnvel fyrir þær, eins og þegar teymi Reagans var komið í samband við Teheran vegna gíslatökumálsins, fyrir kosningar. Þetta er gert svona og hefur ávallt verið gert svona til þess að nýja ríkisstjórnar-teymið mæti frá fyrsta vinnudegi verkefnum embættisins á fullum vinnuhraða 

Ekkert er að marka það sem flokkleiðtogar þingsins segja um málið. Hægt væri að tala um málið við karlinn í tunglinu og fá réttari niðurstöðu, en með því að hlusta á þingmenn tjá sig um það. Og enn minni botn er hægt að fá í málið með aðstoð fjölmiðla, því þeir eru að mestu orðnir ein samfelld pólitísk hreyfing, og það eiga þeir alls ekki að vera

Restin er gas og DDRÚV

Fyrri færsla

Evrópusambandið verður að tryggja að Bretland skaddist


Evrópusambandið verður að tryggja að Bretland skaddist

Evrópusambandið verður að tryggja að Bretland sé verr sett þegar það yfirgefur sambandið, allt annað er uppgjafaryfirlýsing að hálfu Evrópusambandsins

"EU må sikre, at Storbritannien er i en dårligere situation, når landet forlader unionen, ellers ville det være en falliterklæring, siger Østrigs kansler"

Þetta sagði kanslari Austurríkis, Christian Kern, við blaðamenn í Brussel í gær. Meðlimir í klúbb eiga að hafa það betra en þeir sem eru ekki meðlimir í honum. Bretland verður að gera sér grein fyrir því að ekkert annað en þetta getur komið út úr brottför landsins úr Evrópusambandinu, sagði kanslarinn

Þá vitum við það. Þá vitum við hver hinn sameiginlegi nefnari er sem skilgreinir Evrópusambandið. Sá lægsti. Þeir sem yfirgefa fangabúðirnar lifandi, þá verður að limlesta. ESB er sem sagt gúlag

Krækjur: Berlingske - Independent - Bloomberg, þar má einnig horfa á Dombrovskis trúð ESB-gúlagsins blaðra á gúlögsku. Að þetta ESB stóð skuli líðast enn, er til marks um það sem í vændum er fyrir Evrópu. Óveðursskýin hrannast upp yfir meginlandi álfunnar

- Berlingske 14. febrúar 2017 -

Østrigs kansler: EU må sikre, at Storbritannien bliver dårligere stillet af Brexit:
EU må sikre, at Storbritannien er i en dårligere situation, når landet forlader unionen, ellers ville det være en "falliterklæring", siger Østrigs kansler. Medlemmer af en klub skal have bedre vilkår end dem, der ikke er medlem af klubben - vores britiske venner skal være opmærksomme på, at der ikke kan komme andet udfald af disse forhandlinger, sagde Christian Kern til reportere i Bruxelles mandag. "Alt andet ville være en falliterklæring af Europa."

Fyrri færsla

Eitt-Kína - eða hvað?


Eitt-Kína - eða hvað?

Donald Trump forseti Bandaríkjanna og Xi Jinping aðalritari kínverska kommúnistaflokksins og forseti alþýðulýðveldis Kína, ræddu saman í síma að kvöldi fimmtudags. Í fréttatilkynningu frá Hvíta húsinu segir að Trump hafi að beiðni kínverska forsetans samþykkt að viðurkenna hans Kína sem hið eina rétta Kína. En Taívan er ef til vill lýðræðislega séð enn hið eina rétta Kína. Það fer eftir því hvernig menn líta á það mál (með "alternative facts") að rétt niðurstaða fengist fyrir kviðdómi. Ákefð kínverska einræðisherrans var því mikil að fá diplómatískt rétta staðfestingu á að Kínastefna Nixons stæði enn

En hvað um það. Donald J. Trump minntist hins vegar ekkert á það við kínverska aðalritarann að í fyrsta skiptið í sögunni eru hergagnamál og varnarmál Taívan komin á fjárlög í bandaríska þinginu, þ.e. á þau fjárlög sem ákveða fjármál bandaríska varnarmálaráðuneytisins 2017

Í Hvíta húsinu eru menn ekki sammála um stefnuna gagnvart Kína. Forsetinn Trump, þjóðaröryggismálaráðgjafi hans Michael T. Flynn og varnarmálaráðherrann James Mattis, hafa þrjár skoðanir á málinu og hafa sennilega talið best að hafa það svo, fyrst um sinn. Á meðan er Eitt-Kína stefnan látin standa en Mattis látinn um að vinna sitt þögla bolverk við að byggja upp gerræðislega yfirþyrmandi hernaðarmátt og bandalög í túnfæti Kína, og slíkt tekur sinn tíma. Sá máttur verður svo látinn tala sínu þögla máli gagnvart Kína, Norður-Kóreu og öðrum hvorum valdapól sterks íslam, ásamt til hughreystingar áhyggjufullum bandamönnum Bandaríkjanna í Asíu, þegar ein rétt skoðun Hvíta hússins á Kína og íslam undir Donald J. Trump, kemur til framkvæmda

Látið er líta svo út að símtal Trumps við forsætisráðherra Ástralíu hafi farið í vaskinn. En það er alls ekki víst að svo sé, því ástralski forsætisráðherrann var stuðningsmaður Trumps í kosningabaráttunni og fékk bágt fyrir það heima. Ekki er því útilokað að um heimabrúksendir símtals hafi verið að ræða. Eitt símtal mun ekki breyta tryggu bandalagi þessara ríkja

Donald J. Trump hefur nú ort sitt frumkvæði og kveðskapur hans endurómar um alla veröld. Frumkvæðið orti hann frá 16. júní 2015 til og með 9. nóvember 2016. Þetta frumkvæði er nú allt í hans höndum og engra annarra um alla veröld. Og það verður ekki kveðið aftur. Kosturinn við frumkvæði er að það getur bara verið á einum stað í einu, af því að það er bara til í einu eintaki. Handhafi þess hefur því frumkvæðið. Allir aðrir í heiminum, já, þeir hafa ekki frumkvæðið, eins og sést á uppnámi þeirra

Fyrri færsla

Merkilegt hve allt þýðir ekki neitt


Merkilegt hve allt þýðir ekki neitt

Merkilegt að síðustu 25 ár hafi allt í einu ekkert flutt sig frá Vesturlöndum -fyrst með viðkomu í Suður-Evrópu og síðan Austur-Evrópu- til Kína og slíkra ríkja

Þegar maður segir frá því að til dæmis Bandaríkin hafi misst 1/3 af iðnaðargrunni sínum úr landi síðan 1997, þá er manni bara sagt að aldrei hafi framleiðslan verið meiri í þeim löndum sem misstu frá sér það sem flutti burt. Þessi fyrirtæki voru sem sagt ekkert að gera neins staðar nema ekkert. Þau fóru bara svona sér til skemmtunar. Ekkert sem skiptir máli

Merkilegt hvað manni er líka sagt að innflytjendur í dag séu eitthvað annað en þrælar nútímans

Merkilegt hve margir í sínu landi álíta að það sé gott fyrir önnur lönd að missa fólkið sitt úr landi. Að það sé bara gott að því sé rænt frá sínum löndum með yfirboðum eða undirboðum. Alveg furðulegt

Merkilegt hversu afrískir þrælar sem fluttir voru frá heimalöndum sínum hafa aðlagast svo ofboðslega vel að þeir eru ennþá svartir. Og að margt sé því enn þann dag í dag á öðrum endanum útaf því. Það innflytjendamál gekk nú ekki sérstaklega vel, er það. Halda menn að þetta gangi eitthvað betur í dag. Það mun það svo sannarlega ekki gera. Af hverju skyldi ganga eitthvað betur með það fólk sem er þrælar nútímans

Hvenær ætlar fólk að hætta að stinga hausnum í 300 ára gamlan sand fullan af slæmri reynslu

Ef þjóðir nenna ekki að eignast sín eigin börn, þá ættu þær bara að segja það strax og kála sér í stað þess að heimta þræla til að hugsa um sig á meðan þær eru að deyja út

Einu sinni fóru menn sjálfir til tunglsins. Í dag komast þeir í mesta lagi á klósettið. Þetta eru kallaðar framfarir. Það er búið að úthýsa þessu. Aðrir munu sjá um þetta

Sears var stærsta smásöluverslun veraldar árið 1920 og hafði fyrirtækið þó enga verslun. Og svo kalla menn Amazon fyrir nýsköpun! Ekkert nýtt er þar skapað - þvert á móti, það var hægt að skoða gömlu katalógana við kertaljós og póstþjónustan var betri. Hér má ef til vill tala um þróun eða jafnvel vanþróun, en ekki um nýsköpun

Já á meðan ég man: heil 92 prósent af vinstrisinnuðum "aðgerðarsinnum" fram að þrítugu, búa heima hjá pabba og mömmu. Þá vantar meiningu með lífinu og grípa því til þessara "aðgerða"

Mikið er nú þetta gott og miklar framfarir. Fáum því fleiri þræla!

Doanld Trump og Co eru farnir að minna mig óþyrmilega á það sem einu sinni var kallað "abolitionism" - út með þrælaveldið!

Hvað skyldi Abe segja við þessu?

Fyrri færsla

Donald J. Trump gengur vel og samkvæmt áætlun


Donald J. Trump gengur vel og samkvæmt áætlun

Donald J Trump

Kosningabarátta hans snérist að miklu leyti um að alþjóða-(universal-imperíalista)-kerfið væri orðið rammskakkt, öfugsnúið, illa meinandi og illa þjónandi fyrir þjóðríki á borð við Bandaríkin, og það sett þannig upp, að það ynni gegn hagsmunum kjósenda bandaríska þjóðríkisins. Punktur

Donald Trump er greinilega að ná miklum árangri hér með því að setja þetta kerfi allt í uppnám. En uppnám er forsenda þess að breytingar geti orðið. Hann setur alla alþjóða-(universal-imperíalista)-elítuna algerlega úr jafnvægi með því að gera einmitt það sem hann sagðist ætla að gera. En það má ekki samkvæmt kokkabókum alþjóðavitringa. Elítan stendur og skelfur og getur bara alls ekki ímyndað sér hvað Donald J. Trump muni gera næst, því hún kann hvorki að lesa né hlusta

Kína skelfur á brauðfótum Kommúnistaflokksins, sem flokkurinn hélt að væru komnir til að vera. Flokkurinn skelfur af ótta við að verða lokaður inni í eigin búri með útflutningsfíklinum sjálfum sér. Alveg hroðaleg staða að þurfa kannski að fara framleiða eitthvað ofna í 1,3 milljarða fátæklingaveldi landsins. Það gæti endað með velmegun sem kollvarpar kúgunarkerfi flokksins. Alveg skelfilega tilhugsun. Og svo eru þeir logandi hræddir við að lenda í því að þurfa að beita einu beinagrindinni að eina flugmóðurskipi landsins áður en það verður sjóklárt og bardagahæft árið 2023, og jafnvel að beita einnig hluta af sjálfum kínverska hernum sem flokkurinn má ekki missa úr hlutverki sínu sem innvortis einkalífvarðarherafli flokksins gegn fólkinu. Tíu bandarísk flugmóðurskip með ótakmarkaða drægni og sem þurfa ekki að leita hafnar nema á 25 ára fresti og þeirra ellefu ballett-dansandi hersveitir á heimshöfunum (carrier strike groups) standa andspænis hinni einu beinagrind kommúnistaflokksins, í höndum fávita, ásamt strategískum sprengjuflugsveitum Bandaríkjanna á Diego Garcia og Guam, svo ég tali nú ekki um flotastöð þeirra í Japan. Þessu getur Trump siglt af stað og lokað Kína inni í sjálfu sér án þess að þeir fái neitt við ráðið

Þýskaland er einnig í einu allsherjar uppnámi og heldur skjálfandi um peningapoka landsins sem fylltur hefur verið upp með gengisfölsun. Stærsti poki í heimunum. Stærri en svindlpoki Kína. Fallbyssurnar hans Péturs Navarro, viðskiptavaktstjóra Trumps, eru nefnilega að undirbúa ósamhverft 360 gráðu fallbyssuskot á poka Þýskalands, því landið uppfyllir með 100 prósent öryggi þrjú af þeim fjórum skilyrðum sem ríkisstjórn Óbama setti, en þorði ekki að gera neitt í, til að hægt sé að finna og stimpla heil ríki sem gengisfalsara. Fjórða skilyrðið mun Trump sjá um að opinbera sem fúpp og fídus Þýskalands (þ,e. dagsgengi evru eða raungengið).

Þegar Þýskaland brasar saman og þarf að fara í útflutningsafvötnun og búa til innlenda neytendur, sem á fagmáli kallast börn eða afkvæmi, þá detta þýsku og kínversku gengisfalsararnir í gagnkvæma depurð, ESB lognast útaf og verksmiðjur beggja landa í Mexíkó fara á hausinn, samtímis

Andspænis alþjóða-(universal-imperíalista)-kerfinu stendur Donald Trump, tundurspillirinn sjálfur, sem enginn veit hvað gerir næst. Þetta er strategísk staða sem enginn annar forseti Bandaríkjanna hefur getað skapað til að nýta sér, síðan að Richard Nixon sat í Hvíta húsinu. Og eins og það sé ekki nóg, þá nýtur Donald Trump einnig gæfu sama fávitastimpils og Ronald Reagan naut næstum öll sín átta ár í sama embætti. Að hann hefði ekki vit til setu í þessu Hvíta húsi kjósenda Bandaríkjanna

Donald J. Trump gengur sem sagt vel og samkvæmt áætlun

Fyrri færsla

"Kostir" fjölmenningar: Sýrland brennur


"Kostir" fjölmenningar: Sýrland brennur

Une_carte_des_communautés_religieuses_et_ethniques_de_la_Syrie_et_du_Liban_(1935)

Mynd: Sýrland og Líbanon 1935; trúarlegt þjóðarbrota-yfirlit á fjölmenningarkorti

Að ekki skuli settur réttur stimpill á það sem er að gerast þarna, er alveg furðulegt. Þarna er fjölmenningarsamfélagið á hátindi sínum án þess að nokkur hirði um að nefna að þetta er hin stóra lokaútgáfa hennar; tortíming

Í Evrópu hefur Evrópusambandið í óþökk þjóðanna unnið hörðum höndum að því að leysa ríki Evrópu sem mest upp svo að þar geti myndast tómarúm (vakúm) fyrir áætlanir sambandsins til að flæða inn í og taka yfir sem flest og byggja þar nýtt imperíal-ríki. Þetta hefur hins vegar farið á annan veg eins og alltaf gerist þegar leysa á þjóðir passlega upp til að auka varnarleysi þeirra gegn því sem að ofan og utan kemur og á að troða upp í þær

Stóra ESB-planið er farið í vaskinn og inn í hið stóra vakúm varnar- og stjórnlítilla og laskaðra þjóða Evrópusambandsins, hefur kanslari Þýskalands nú hleypt inn hesti sem tekur á sig ömurlegan lit þess sem gefið afhent var ólögmætt vald yfir fjórða hluta jarðarinnar. Fimmtán milljón manns eru því á leið einmitt þangað sem girðingin hennar er lægst. Og svo er Evrópa orðin svo veikburða vegna Evrópusambandsins, að hún getur ekki lyft litla fingri til að koma á lögum og reglu í Sýrland, frekar en hún gat það er suð-austurhluti hennar logaði. Þetta mun því allt brenna til ösku. Evrópa er á síðasta snúningi, vegna þeirra sem sóttust eftir "valdi yfir fjórða hluta jarðarinnar"

Þegar lambið lauk upp fjórða innsiglinu, heyrði ég rödd fjórðu verunnar, er sagði: "Kom!" Og ég sá, og sjá: Bleikur hestur, og sá er á honum sat, hann hét Dauði, og Hel var í för með honum. Þeim var gefið vald yfir fjórða hluta jarðarinnar, til þess að deyða með sverði, með hungri og drepsótt og láta menn farast fyrir villidýrum jarðarinnar.

Þetta er líklega það sem koma skal í Evrópu. En Evrópuútgáfan verður að sjálfsögðu önnur, því sagan endurtekur sig aldrei eins. En koma skal hún, fjölmenningin

Fyrri færsla

Brjéf til: Hæstvirtrar Janet L. Yellen formanns seðlabanka


mbl.is Aftökur í leynifangelsum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Gunnar Rögnvaldsson
Gunnar Rögnvaldsson

Búseta: Ísland.
Reynsla: 25 ára búseta í ESB og fyrirtækja-rekstur í DK/ESB frá 1985 til 2010. Samband:
tilveraniesb hjá mac.com

Ég er hvorki skráður á Facebook, Twitter, Linkedin né á neinum öðrum "félags-vefjum". Aðsetur skrifa minna er einungis að finna hér á þessari síðu og á tilveraniesb.net og í blöðum og tímaritum

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband