Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, október 2011

36 stunda neyðaráhrif neyðarfundar evruríkja

Hann kom, sá og sökk; neyðarpakkinn sem kynntur var kl 04:00 síðasta fimmtudagsmorgun. Og markaðir eru loksins að skilja það sem Simon Johnson sagði í Kredithörpunni, 101 eitthvað annað. Það eru engir öruggir pappírar til.
 
Ríkispappírar evrulanda eru ekki það sem menn héldu að þeir væru. Skyndilega blasir við að eignasafn banka á borð við stóra franska BNP Paribas bankann, sem samanstendur að miklum hluta til af ríkispappírum evrulanda, er að færast í annan flokk en þann sem við gerðum ráð fyrir að eignasafnið væri í. Þessi nýborna ályktun markaðarins gæti leitt til þess að eigiðfé bankans sé aðeins 2 prósent. Enda féll hann næstum 10 prósent í markaði dagsins. Sömu sögu er að segja um Société Générale. Markaðurinn óttast þjóðnýtingu í kjölfar vel hugsanlegrar lækkunar á lánshæfnismati franska ríkisins á næstu mánuðum

Hér er kínverskur lúxusbátur sjósettur af fjárfestum, sekkur auðvitað samstundis. Þarna eru ervulöndin að leita sér að fé, en munu þó tómhent koma heim. Kína á enga peninga. Bráðum gæti evrusvæðið orðið alveg alelda
 
 
 
Fróðlegar vangaveltur hér; Europe’s Dying Bank Model    


Húsnæðislán í Danmörku skorin niður. Þýskt mark aftur?

Skoðanakönnun - Vilt þú fá þýska markið aftur

Þýskaland 

Skoðanakönnun þýska Financial Times: Vilt þú fá þýska markið aftur sem gjaldmiðil? Já svara 55 prósent. Nei svara 33 prósent. Þeim sem er sama eða taka ekki afstöðu eru 12 prósent. 10.828 höfðu svarað. Könnunin hófst 25. eða 26. október 2011: krækja 

Bensíngufan frá maraþon-neyðarfundi evruríkja í Brussel aðfararsólarhring fimmtudagsmorguns í síðustu viku, er gufuð upp og markaðir Evrópu snarfalla nú frá morgunstundinni, eftir að markaðir Asíu héldust neikvæðir í alla nótt. Vísitalan yfir U.S. equity futures fyrir viðskipti nú á mánudag lýsir rautt. Þetta bendir til þess að hrifning markaða vegna samkomulagsins á fimmtudag sé ekki lengur þar sem hún sást síðast á föstudag. Það skyldi engum koma á óvart

Noregur

Andstaðan við ESB aðild eykst í Noregi því nú segjast 72 af hverjum 100 Norðmönnum vera andvígir aðild Noregs að Evrópusambadninu. Aðeins 12 af hverjum 100 Norðmönnum eru hlynntir aðild, skrifar danska dagblaðið Børsen í dag    

Erfiðara að fá lán í Danmörku 

Í Danmörku hafa húsnæðislán verið skorin niður miðað við heimilistekjur þeirra sem sækja um lán og kröfur til lántakenda hertar. Fyrir fimm árum var hægt að fá húsnæðislán sem svaraði til fjórum sinnum heimilistekna umsækjenda á ári og oft án þess að eiga handbært fé. Sjaldan var beðið um miklar upplýsingar um fjárhag umsækjenda.

Í dag er þetta lánshlutfall komið niður í 2,5 til 3 sinnum heimilisárstekjur umsækenda. Eigin sparnaður þarf að nema 5-10 prósent af kaupverði og lánastofnanir vilja fá að vita allt um fjárhag og aðra hagi umsækenda ásamt lífrænu rekstraröryggi lántakanda; hefur þú sjúkratryggingu hjá vinnuveitanda? Áttu ellilifeyrissparnað? Hefur þú keypt þér atvinnuleysisbótatryggingu? og svo framveigs. Skoðað er undir allar kommóður heimilisins; krækja

Talið er að um 40 prósent húsnæðiseigenda undir 35 ára aldri í Danmörku skuldi meiri peninga í fasteign sinni en hægt er að selja hana fyrir

Tvisvar hrun 

Á síðustu 25 árum hefur fasteignamarkaður í Danmörku hrunið tvisvar sinnum. Í fyrra skiptið frá 1987 til 1994 vegna innleiðingar fastgengis og niðurskurðar á greiðslu- og fjárlagahalla til þess að halda mætti Danmörku á sporbraut umhverfis kjarna ESB. Þá fóru  nauðungaruppboð upp í 1700 uppboð á mánuði. Það fólk sem þá missti húsnæði sitt á nauðungaruppboðum þar sem ekki fékkst inn fyrir öllum skuldum, mátti oft halda áfram að greiða af lánum mörg næstu árin, þó svo að húsnæði þeirra væri fyrir löngu farið.

Seinna skiptið á þessum síðustu 25 árum er svo þessi núverandi kreppa, sem hófst á dönskum fasteignamarkaði fyrir fjórum til fimm árum. Um þessar mundir eru haldin um 450 nauðungaruppboð á fasteignum í hverjum mánuði í Danmörku.

Um það bil 830 þúsund Danir á vinnualdri eru að fullu leyti á framfrælslu hins opinbera. Hægt er að segja að atvinnuleysi í Danmörku hafi í raun aldrei farið undir 10 prósent síðan 1979. Það er það fyrsta sem nemendur á fyrsta ári í þjóðhagfræði læra þar í landi, þó svo að þokukenndar tölur hins opinbera segi stundum annað

Landsfundur 

Landsfundur dönsku þjóðarhreyfingarinnar gegn ESB aðild Danmerkur (Folkebevægelsen mod EU) var haldinn um helgina. Ítrekað var að til væri heimur fyrir utan múra ESB og var andstaðan við evruaðild Danmerkur undirstrikuð enn fastar. Rifjuð voru upp nokkur rök danskra evrusinna úr síðustu herferð þeirra fyrir upptöku evru árið 2000. Þar sögðu þeir að miklu betra væri að vera um borð í stóru skipi þegar veður versna, heldur en að vera einn á litlum báti. Þá var þess ekki getið að stóra skipið hét allan tímann ESB Titanic; krækja

Í Danmörku eru þrír af hverjum fjórum kjósendum á framfærslu hins opinbera; að fullu leyti, að hluta til, eða eru opinberir starfsmenn.


Passið ykkur; Lilja Lýðræði kemur

Sjá frétt Mbl. hér að neðan. 

Comparative Monthly Avg. Exchange Rates- Relative to US Dollar

Mynd; Gengi krónu og evru miðað við Bandaríkjadal frá 1. október 2001. Eins og sjá má á myndinni á evran eftir að hrynja. Það er hið nokkuð vel þekkta náttúrufyrirbæri, tíminn, sem hér hindrar að allir hlutir gerist samtímis alls staðar. Oft gagnlegur.

Já. Hérna kemur þetta frá frú Lilju Mósesdóttur:

"þetta snýst um að ná í skattstofna sem hafa orðið til eftir hrun og þá á ég við ofurhagnað útflutningsfyrirtækja sem hefur skapast vegna veikrar krónu.“

Já við skattleggjum þá sem "græddu" vegna gengisbreytinga. Ok, þessi helför hefst þá svona;

a) Þið kæra fólk sem "grædduð" á hækkun krónunnar og keyptuð ykkur t.d. bifreiðar og húsnæði á of háu Liljugengi krónunar, já, þið fáið heim til ykkar sendan eitt stykki reikning frá frú Lilju Lýðræði

b) Þið sem fóruð í 5-15 utanlandsferðir á ári á bóluárunum, þið fáið heimsendan reikning frá Lilju Lýðræði

c) Og þið sem sögðuð okkur sem þáverandi bjuggum erlendis að pressa bara 5 ára "eldgamlar" bifreiðar okkar (mín var 15 ára og ópressuhæf), þið fáið extra bónus frá Lilju Lýðræði fyrir íslensku ráðgjöfina sem með glotti var veitt til erlendra fyrirtækja sem húktu í púkalegum órekstri sínum þar. Þá stóðu Íslendingar fyrir utan dönsk fyrirtæki og sungu ölvaðir hæðinssöngva. Nú skríður þetta sama fólk hins vegar heim til Lilju og biður um "réttlæti" (þó mest sem læti fyrir utan réttinn)

d) Þau íslensku innflutningsfyrirtæki sem fluttu inn vörur á of sterku gengi, þið fáið sendan stóran reikning frá Lilju Lýðræði. Og þeir neytendur sem keyptu vörur þeira fá einnig reikning frá Lilju Lýðræði 

e) Þau útflutningsfyrirtæki sem fengu að blæða og blæða og blæða vegna of hás gengis árum saman, þið fáið fyrsta kossinn til að mýjka ykkur upp fyrir punggripið sem frá frú Lilju Lýðræði kemur nú

f) Þeir Íslendingar sem nú eru flúnir til Noregs vegna þess að þeir — samkvæmt Lilju Lýðræði —  eru svo áfjáðir í að borga háa og hærri skatta (já þetta sagði hún í salarkynnum VIB, hvað svo sem þetta VIB er) þið fáið stóran stóran reikning sendan heim til ykkar frá Lilju Lýðræði, því þið eruð að senda peninga heim til fjölskyldunnar á Íslandi á allt of hagstæðu gengi. Þið eruð samkvæmt frú Lilju Lýðræði að svindla gróft og nýta ykkur neyð annarra.

Hvenær ætlar þessari heimsku að linna? Hvað er að?

Ekki þýðir að senda svona fólk í skóla aftur því það er búið að vera þar mestan hluta æfinnar. Einn túr á togara norður í ballarhaf gæti kannski, en bara kannski, hjálpað. Ef hann dugar ekki þá gæti svona eins og einn 10 ára túr til Danmerkur ef til vill reynst gagnlegur.

En hvernig á að skattleggja það fólk sem með skrílslátum komst til valda vegna gengishruns krónunnar og bankanna og engu öðru? Hvernig eigum að að útfæra skattlagningu ofurhagnaðs stjórnmálafyrirtækja á borð við Lilju Mósesdóttur A/Þm og flestra (en ekki allra) fyrrum flokksmanna hennar, sem skapast hefur vegna einnar veikrar krónu og eins bankahruns? Öllu fögru var lögmætum eigendum lýðveldisins lofað af þessu fólki. En líitð annað en kosningasvik hefur þetta fólk afhent. Þetta fólk er greinilega svikin vara.

Þegar Lilja Mósesdóttir sagði já við því að senda svona eins og eina óumbeðna umsókn fyrir hönd okkar Íslendinga inn í Evrópusambandið, þá framdi hún það sem kallað er krosseignatengd pólitísk innherjaviðskipti með lögmæt atkvæði kjósenda. Kosningasvik. Hvernig getur þetta fólk á vinstri vængnum ennþá staðið og bent með fingrum? Það er mér óskiljanlegt. Þau eru algerlega umboðslaus - og alls nakin.

Beljur á svelli eru ekki skemmtileg sjón

Takið ykkur saman þingmenn!

 

PS; (uppfært) nú hefur mér verið sagt hvað "VÍB" er; VÍB er "eignastýringarþjónusta Íslandsbanka" og hún, væni minn, er til húsa þar sem fæðingardeild Íslandsálags sérfræðinga að sunnan er, en sem reyndist þó bara vera bankaálagið


mbl.is Vill lýðræði í atvinnulífið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eitthvað annað er komið

Eitthvað annað í ESB: 

Loksins er búið að finna endanleg endalok 30 ára niðurrifs Evrópusambandsins á hagkerfum sambandsins. Jú. Það á að breyta ríkissjóðum 17 evrulanda í banka sem borinn verður uppi af engu sem neinn veit hvað ekki er. Þessi vegferð út í óvissuna er nú þegar hafin með því að ætla að "gíra upp" þá peninga sem sumir halda að séu í hinum svo kallaða "björgunarsjóði evrulanda" - og sem bjarga á 17 evrulöndum frá ókostum sameiginlegrar myntar sem flestir þekkja undir nafninu Evran sem þarf að bjarga. Gott að halda þessu svona einföldu. 

Þetta verður gert með svo kölluðu vogarstangarafli, eða uppgírun peninga (e. gearing/leverage). Sett er ein evra í kassann og hún veðsett nokkrum sinnum fyrir nýjum lánum sem sett eru aftur í kassann til að lána út úr honum til evruríkja sem eru á leið í ríkisgjaldþrot - og sem hafa ekkert aðgengi að alþjóðlegu fjármagni nema á okurvöxtum. Þessum evruríkjum fjölgar. Þrátt fyrir galdrapappírinn sem á að bjarga. 
 
Hinn nýi forseti Sovésb-ráðstjórnarinnar í Brussel, herra Herman Van Rompuy, segir að ekkert sé athugavert við þetta. "Málið líti kannski svolítið flókið út gagnvart almenningi, en þetta sé í raun einungis það sem bankar hafa verið að gera öldum saman". Bankar já.   

Það er hér sem vandamálið hefst og endar ekki. Bankar hafa getað gert þetta "öldum saman" vegna þess að þegar þeir klessukeyra gírkassann sinn og geta ekki gírað efnahagsreikninga sína niður aftur án þess að hagkerfið hrynji ofan á þá í leiðinni, þá hafa þeir hingað til getað hrunið í fangið á skattgreiðendum, öldum saman, þ.e.a.s. þeir hafa hrunið í fangið á ríkissjóðum eða ríkisstjórnum ríkjanna þar sem þeir eiga heima. 

En nú er sem sagt búið að finna lausn á þessu: Bjarga á bönkunum í evrulandi með því að gera ríkin að bönkum sem eiga að bjarga bönkunum sem eru gangandi gjaldþrota í svo mörgum evrulöndunum vegna einmitt evrunnar. Stóra spurningin er hins vegar þessi; í hverra fang eiga ríkissjóðir evrulandanna að falla þegar gírkassi björgunarsjóðsins brasar saman og þeir sem lögðu honum til peninga vilja fá þá aftur, vegna þess að öll ríkin eru að verða gjaldþrota vegna óstjórnar og skaðlegra áhrifa myntarinnar sem á að bjarga með því að bjarga bönkunum og þegar gangandi gjaldþrota ríkissjóðum evrulanda sem eru það vegna einmitt evrunnar. Þetta er einfaldlega brilliant; ESB ætlar að keyra þetta áfram á gufunni úr bensíntanknum. Þetta er eitthvað annað; Eldum saman.

En hvaða rétt á að elda saman? Það er stóra spurningin sem ég þykist vita svarið við, en segi það ekki hér.
 
Eitthvað annað en CDO?
 
Það var alls ekki undarlegt né vægt til orða tekið þegar Simon Johnson notaði orðið "brjálæði" um það sem nú fer fram í Evrópusambandinu, þegar hann talaði í Kredithörpunni í eitthvað annað póstnúmerinu í Reykjavíkinni í gær. 
 
Já: Only the paranoid survives

Björgunardagurinn mikli; Standard & Poor's lækkar lánshæfnismat Kýpur

S&P lækkaði í dag lánshæfnismat ríkissjóðs evrulandsins Kýpur vegna versnandi stöðu í ríkisfjármálum þessa litla evruríkis. Matið er nú tveimur þrepum fyrir ofan rusl. Landinu er haldið á neikvæða bekknum og frekari lækkun er yfirvofandi. 

Kýpur er talið eiga sem svarar til of mikils af ASÍ, Gylfa & Gylfa, Norður-Kóreu og RÚV öryggissætum í rafmagnsstólasamstæðu Evrópusambandsins. En þar var þrýst á þrítugasta og áttunda neyðarhnappinn klukkan 04:00 síðustu nótt. Verið er að virkja Evrópusambandið og því er unnið nótt sem nýtan dag.  

Bankakerfi Kýpur er sagt svo flækt inn í umpólun Grikklands yfir í Ítalíu áður en árið 2020 rennur upp, að óvíst er hvort það og þar með ríkissjóður landsins þoli ferðalagið yfir í paradís. 

Kýpur sem telur undir eina miljón íbúa gekk í ESB árið 2004 og tók upp evru svo seint sem árið 2008, eftir fyrst að hafa verið í ERM-pyntingarklefa Evrópusambandsins frá því í apríl 2005. 

En nú er ESB-öryggið sem sagt loksins komið í evrutöflu Gylfa & Gylfa á Kýpur. Það þriðja sem af er ársins og sem samkvæmt RÚV þýðir þriggja fasa fyrsta flokks ESB-rafmagn í stólana þar í landi
 
 

Björgun!! ESB stefnir að því Grikkland verði orðið að Ítalíu árið 2020

Ég kynni hér með málgagn Willem Buiter frá árinu 2002

Viðauki við hörpusláttinn - hlýnun smjörfjalls - skemmtiatriði frá 2002

WHY BRITAIN SHOULD JOIN THE EURO

Að njóta ókosta sameiginlegs gjaldmiðils 

Eftir: Willem Buiter,  Willem Buiter  og  Willem Buiter

WHY BRITAIN SHOULD JOIN THE EURO

Tralla lallla la

Ísland gæti orðið Grikkland svo hratt sem innan 5 ára segir Gylfi & Gylfi

Gylfi Gengisfelling; Tvennt er hægt að fella. Þrennt reyndar. Fella tár. Fella gengið. Fella heimilin.

Tralla lallla la

Beina útsending AGS frá Kredithörpunni er hér

Takk til Paul Krugman og Simon Johnson


mbl.is Sameiginleg sturlun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Til hamingju Íslendingar: Nýr Þór sigldi inn til Vestmannaeyja í gær

Hið nýja varðskip Landhelgisgæslu Íslands, Þór, siglir til hafnar í Vestmannaeyjum

Þór siglir inn til Vestmannaeyja 26 okt 2011

Eyjafréttir; Varðskipið Þór í Eyjum 2011 

Morgunblaðið 20. maí 1944

1944: 17. júní í ár gefum vjer oss sjálfir lýðveldisstjórnarskrána.

Engir vitar engar brýr"Að baki þeirri niðurstöðu, sem nú er að verða í stjórnmálum, liggur hörð barátta og mikil frægðarsaga Íslendinga. Í far hinna mörgu stjórnmálasigra kom hin öra framför á öllum sviðum.

Fjárlagafrumvarpið, sem danska ráðherrabrotið lagði fyrir Alþingi 1875, var þannig: tekjur kr. 247.906,00, gjöld kr. 203.788,00. Tekjur samkvæmt núgildandi fjárlögum eru 94 miljónir. 

1874 var engin brú og enginn brautarstúfur á Íslandi. Sjávarútvegurinn var aðallega rekinn á smá bátum. I Hafnarfirði voru að vísu skútur 15 til 40 lesta og hákarlaskip á Eyjafirði. Engir vitar voru hjer á landi."

2011: Nýtt varðskip í flotann

Mikilvægi sjávarútvegs fyrir Ísland miðað við önnur lönd

Mikið hefur unnist frá því að samtaka íslensk þjóð varð sjálfstæð í eigin málum. Það gerðist á Þingvöllum þann 17. júní 1944. Um 700.000 ferkílómetra landhelgi Íslands er vitnisburður um mátt þess að vera sjálfstæð og fullvalda þjóð í eigin landi. Þetta er ekki sjálfgefið.

Lýðveldi Íslands lifi!

Megi varðskipið Þór verða happafleyta lýðveldis okkar. Hamingjuóskir til Landhelgisgæslunnar sem vakta þarf stærsta hafsvæði heimsins miðað við þann mannfjölda sem að baki henni stendur. 


Græningjar í Frakklandi: 30 ára atvinnuleysi og óöryggi er rót vandamála Evrópu

atvinnuleysi_1980-2010
Krísuna á evrusvæðinu má rekja til viðvarandi mikils atvinnuleysis síðustu 30 ára segir Pierre Larrouturou stjórnmálamaður græningja í Frakklandi. "Þettar er ekki kreppa, þetta er rán", segir hann. Fjöldaatvinnuleysi og atvinnuóöryggi síðustu 30 ára hafa þýtt launalækkanir. Það er vegna þessa mikla atvinnuleysis, mini-starfa og lágra launa að landið hefur þurft að skuldsetja sig meira og meira. Atvinnuleysið er ekki afðeiðing kreppunnar heldur er það helsta orsök hennar.
 
Mikið er ég sammála Pierre Larrouturou - og mikið eru þeir sem ég þekki í Frakklandi honum sammála um ástandið og orsakir þess.

ESB => drepur hagvöxt => sem eykur atvinnuleysi => sem minnkar velmegun og velferð => ESB þvingaði svo evruna inn á þjóðir => og allt varð bara ennþá og miklu verra við það. ESB er að drepa Evrópu. Hún er að fara í þrot.

Hér er mynd af þessu aðalsmerki Evrópusambandsins; 30 ára atvinnuleysinu, sem þýðir aukna fátækt, meiri skuldir, þyngri byrðar og sífellt færri og færri banrseignir ungs fólks. Ekkert gengur, allt verður bara verra og verra í ESB. Kolanáma famtíðarinnar er orðin Evrópusambandið sjálft.
 
Í Brussel og á kontorum hinna háu herra út um allar lendur ESB, er þeim háu herrum þjónað af ungu fólki sem engin launin fá. Það er þarna í svo kallaðri "praktík" árum saman og má þakka fyrir ef því tekst að fá launaða vinnu fyrir fertugt.
 
 
Atvinnuleysi í Frakklandi frá 1983
 
30 ár á milli 7-prósent ESB-ömurleika
og 12-prósenta ESB-svartnætti
Það besta sem bauðst á þessu 28 ára tímabili
var 7,3 prósent atvinnuleysi árið 1983.
Allt eftir það varð bara verra og verra og verra og verra
 
 
Fyrri færsla
 

Er Evrópa best geymd á safni? Bankaáhlaup hafið í Grikklandi

Evrópsambandsfáni
1 Grikkland AP október 2011
2 Grikkland Reuters október 2011
3 Grikkland Reuters október 2011
4 Grikkland EPA október 2011
5 Grikkland Reuters október 2011
6 Grikkland Reuters október 2011
7 Grikkland EPA október 2011
Bankaáhlaup hafið í Grikklandi 25 okt 2011
Almennt bankaáhlaup er nú hafið í Grikklandi, skrifar Bild Zeitung í dag. Fólk tekur út peningana, grefur þá niður, felur þá í veggjum eða fiski, skrifar fréttaritari blaðsins í Aþenu. Traust fólksins á landi sínu og stjórnvöldum er horfið. Það eru erlend yfirvöld landsins í Brussel sem hafa komið þessu áhlaupi af stað með neyðarfundahöldum sínum.

Jæja. Þá eru menn að verða búnir að tæma gamla Grikkland. Hundruðir miljarðar af evrum hafa flúið landið. Ríkir skipta grískum evrum landsins yfir í "örugga peninga" og senda þá úr landi í gegnum útibú banka og fyrirtækja. Hamingjusamir erlendir bankar á bræðraborgarstígum Evrulanda og Tortólum LuxKýpur taka við þeim og halda þannig genginu uppi. Fátækir og minna efnaðir eru stöðvaðir á flugvöllum og í bifreiðum við landamæri með fullar töskur af seðlum. Nunnur jafnvel líka, að sögn breska Daily Mail. Flóttagengið er hátt og afar gott, en samt á ríkissjóður Grikklands ekki peninga til að greiða fyrirtækjum fyrir blekið sem notað er til að prenta út álagningarseðlana. Lyf er farið að skorta í heilbrigðiskerfi þessa evrulands. Ítalía, Portúgal og Spánn feta sig inn á stíginn íklædd bræðraborgarstígvélum evrunnar. 
 
Það var þessi leið fjármagnsins til bræðraborgarstíga Tortóla og LuxKýpur sem Seðlabanki Íslands lokaði á með því að standast stóra álagsprófið þegar 11. september í efnahagslífi Íslands fann sér slæman stað í byrjun október mánaðar árið 2008. Með hruni bankana og af því leiddu falli í gengi krónunnar gagnvart útlöndum, skullu ægisöldur á varnargarðana. Þá sat ég við vinnu mína úti í Danmörku og fylgdist grátklökkur með hamförunum. Í fjármála sjónvarpi heimsins sat yfirmatsmaður Moody's og hrósaði Seðlabanka Íslands fyrir að hafa ekki látið freistast til að grípa inn í fall krónunnar. Þeirri freistingu hefðu margir seðlabankar í heiminum fallið fyrir, sagði hann. Freistingin var þrúgandi þung og algerlega ógnvænleg fyrir Seðlabankann. En hann stóðst prófið.

Þetta er dálítið merkilegt. En hvað er merkilegt við þetta? Jú, talsmaður Moody's sagði það vera Seðlabanka Íslands til hróss að hann freistaðist ekki til þess að grípa inn með stuðningskaupum á krónu með því að fossflæða gjaldeyrisforðanum út eins og þegar hann var tæmdur í Argentínu á tuttugu mínútum. Þessi maður frá Moody's vissi ofur vel að þetta er freisting sem hefur orðið mörgum gjaldeyrisforðanum að falli, því í hita hins þrúgandi augnabliks er svo auðvelt að missa skynsemina og fara að ímynda sér að hægt sé að verja myntina gegn ofuráföllum eins og þessum. Endalaus röð af seðlabönkum heimsins hafa reynt þetta í erfiðum aðstæðum og hefur hausinn oft verið blásinn af þeim. Gjaldeyrisforðar þjóða hafa gufað upp í örvæntingaraðgerðum tryllingsins. Tvisvar árið 2001 reyndi seðlabanki Evrópusambandsins að stöðva 30 prósent fall evrunnar í blíðskaparveðri með stuðninguppkaupum, en algerlega án árangurs. 

Þjóðin getur því þakkað mönnum sem stóðu fast í Seðlabanka Íslands fyrir að hún á ennþá gjaldeyrisforða. Honum var ekki eytt til að halda uppi háu flóttagengi handa hinum vonlausu sem grafið höfðu bankahólfin út innan frá. Hann endaði ekki í bankahólfi þeirra á Tortóla eða LuxKýpur og þeir fengu ekki leyfi til að gera áhlaup á forðann. Hann var geymdur handa þjóðinni. Geymdur ef til harðinda kæmi og ef Ísland hefði þurft að halda út og þrauka eitt og yfirgefið í óvinveittri baráttu og ef þurft hefði að semja illvíga samninga við umheiminn, algerlega án utanaðkomandi hjálpar. Það hefði því verið hægt. Seðlabankinn sá fyrir því. Styrkleiki í samningum er nauðsynlegur en hann hverfur þó oftast ef þjóðin sveltur. En svo kom Samfylkingin, fararbroddgöltur niðurrifsins. 

Gengið í Grikklandi er ekki fallið heldur féll landið ofan á gengið og framdi þannig harakiri á evruspjótinu.

Mér finnst gott að búa í landi þar sem þjóðinni er ekki fórnað fyrir gengi hinna útvöldu. 

Í raun er Evrópusambandið gott dæmi um rústaða stjórnsýslu, rústaða stjórnarhætti, rústaðar reglur og rústuð lög. Þar ríkir neyðarástand í stjórnsýslunni. Þar eru stjórnmálin orðin eins og innan í seðlabanka sambandsins; dulstjórn. Þessu pólitíska, lýðræðislega og stjórnarfraslega rusli ætlar Samfylkingin og Vinstri grænir að smygla inn á Íslendinga. Setja okkur á vaxmyndasafn Evrópu og í stjórnarfarslegt öngþveiti dulstjórnar ESB til langframa. 
 
Um "Discretionary political leadership"
 
Um stjórnsköpun Evrópumennis eða skorti á hinu sama undir dulstjórn ESB 
 

For years, we have been told in endless academic papers, books, symposia – mostly funded, however, by the EU in its one-way ratchet of ideological integration – that the EU is indeed a constitutional order, but of a special kind, a new phenomenon in the world, one that has the best of all possible worlds – polis creating its own demos, simultaneously a supranational order but also a merely multilateral collection of sovereignties, etc., etc.  My reaction as an academic was, well, maybe, let’s wait and see; I understand that political leaders can’t wait on academic history but must make their choices and act.  But when push comes to shove, the constitutive rules didn’t prove to bind even the leading principals, as Cowen points out, and discretionary political leadership prevailed instead.  And apparently it prevails now.

 
Öll greinin eftir Kenneth Anderson; Law, Governance, and the Eurozone (munið að smella á slóðina inn á grein Tyler Cowen, sem Kenneth Anderson krækir í)
  

Hanna þarf 17 þjóðir að myntinni. Framleidd í Brussel

Viðbragð
 
Þetta bragð þekkja stjórnmála- og embættismenn Evrópusambandsins best og nota það óspart. Þetta er bragðið af okkur. Viðbragðið. Nú er svo komið að myntbandalag Evrópusambandsins hefur verið afhjúpað sem verandi mjög skaðlegt fyrir þau 17 þjóðríki sem nota mynt þess. Stórskaðlegt og jafnvel banvænt. 

Hvað gera menn þá? Jú, þeir fara ókjörnir bakdyramegin inn í byggingar í borginni Brussel — en koma síðan sem kosnir framdyramegin út — og segja öllum sem hlusta, að það þurfi að hanna 17 þjóðríki myntbandalagsins upp á nýtt, svo þau og þjóðir þeirra passi að myntinni. Þetta bragð er í fleirtölu viðbrögð þeirra stjórnmála- og embættismanna sem skáluðu á sínum tíma fyrir myntinni sem gangandi kraftaverki í Evrópu. Kraftaverkið er svo öflugt að gríska ríkið á ekki lengur peninga fyrir bleki til að prenta út innheimtuseðla ESB eftir 30 ára aðild landsins að Evrópusambandinu og evru.

Myntin og bandalag hennar eru nú bæði að þrotum komin, því allt það sem hálf milljón hagfræðingar vöruðu þessa menn við, hefur reynst rétt. Fullbyrðing spádóma þeirra er runnin upp. Evrópa stendur á barmi þess helvítis sem svo ákaft var varað við. Stofna þarf Bandaríki Evrópu í einum grænum hvelli ef myntin evra á að ganga upp. 17 ríki þurfa að skila fullveldinu næstum alfarið af sér inn til Brussel ef myntin á ekki að tortíma efnahag þeirra. Svo mikið er búið að flækja þessi lönd í kökuboðið og lyfjagjöfina úr evrópska apótekinu. 

Þér er sagt að þú sért veikur. Yfirvöld skipa lækni þínum að gefa þér pillu. Hún virkar ekki. Hún reynist hins vegar skaðleg fyrir heilsu þína. Þá segja yfirvöld þér að þú þurfir fyrst að verða heilbrigður til að geta þolað lyfin sem áttu að lækna sjúkdóminn. Lyfið er evran og myntbandalag hennar. Yfirvöldin sem stýra læknaliðinu eru stjórnmála- og embættismenn Evrópusambandsins; ESB-öfgamennin, eins og til dæmis Jóhanna Sigurðardóttir og Össur Skarphéðinsson, sem er vottaður atvinnumaður í hundsviti peningamála, samkvæmt rannsóknarskýrslu Alþingis. 

Viðbjóður
 
Þetta fyrirbæri notuðu stjórnmála- og embættismenn sem sessu á boðstólum sínum á Íslandi þegar þeir eftir framsvikinn kosningaárangur lugu því beint og óbeint upp í opið geðið á saklausum Íslendingum, að umsókn Íslands inn í Evrópusambandið þýddi aðeins að kíkja ætti í pakka og skoða hvað bjóða mætti okkur úr honum. Þetta boðskort reyndist viðbjóður, eins og við fyrirfram vissum flest. Um helgina staðfesti formaður Sjálfstæðisflokksins, Bjarni Benediktsson, að þetta væri svona. Hann á sessulaust sæti á boðstól í utanríkismálanefnd Alþingis og þar kom stækkunarstjóri Evrópusambandsins og sagði mönnum eftirfarandi; 

Stefán Fühle, stækkunarstjóri ESB, sagði á fundi með utanríkismálanefnd Alþingis að hann liti svo á að ekki væri hægt að sækja um aðild að Evrópusambandinu í þeim tilgangi að sjá hvað út úr því kæmi. Umsókn þyrfti að byggjast á skýrum vilja til að fá inngöngu í sambandið og viðræðurnar fara fram á þeim forsendum

Í stuttu máli: það er ekki hægt að sækja um inn í Evrópusambandið til að skoða hvað í boði er. Það er einungis hægt að ganga í Evrópusambandið eins og það er. Allir vita hvernig það er. Í lögum og reglum ESB segir enn fremur að enginn geti sótt um aðild nema að einlægur vilji mikils meirihluta þjóðarinnar standi þar á bak við og lengi. Íslendingar hafa aldrei haft einlægan áhuga á að láta innlima Ísland í Evrópusambandið. Um innlimun er að ræða, því engin leið er út úr Evrópusambandinu aftur, nema sem reykur rústa í gegnum skorsteina.

"Einlægur vilji" framkallaður með áróðri er viðbjóður

Sumir gera ennþá grín að aflátsbréfasölu miðalda. En hún var ekki neitt miðað við það sem frá Evrópusambandinu kemur. Nú, eftir að Sovét Moskva féll, býr almætti Evrópu í Brussel. Þar ganga óttaslegnir þjóðhöfðingjar bakdyramegin inn og koma síðan frelsaðir framdyramegin út. Frelsaðir af almætti hjarðarinnar. Mennin sem ganga í byggingar Brussels.

Taka þarf völdin af þessari ríkisstjórn Íslands, því hún sótti ekki umboð sitt til kjósenda. Hún starfar í umboðsleysi.
 
Andspænis okkur andstæðingum Evrópusambandsaðildar Íslands, standa Jóhanna Sigðurðardóttir og Össur Skarphéðinsson með aflátsbréf Evrópusambandsins sem fjármálaráðherrann Steingrímur J. Sigfússon, kosningasvikari kjósenda Vinstri grænna prentaði. Á okkar höndum eru öll rökin og heiðarleikinn. Á þeirra höndum eru öll svikin, óheiðarleikinn og andvirði bréfanna, Brusselgullið. Lyfin þeirra þekkjum við; þau eru kosningasvik og 213 milljón krónur í áróður úr apóteki Evrópusambandsins. Nú á einu sinni enn að sannfæra okkur Íslendinga um að gangast enn einum konungnum á hönd - og umfram allt, einn aðframkominn gullfót.

Næsta síða »

Höfundur

Gunnar Rögnvaldsson
Gunnar Rögnvaldsson

Búseta: Ísland.
Reynsla: 25 ára búseta í ESB og fyrirtækja-rekstur í DK/ESB frá 1985 til 2010. Samband:
tilveraniesb hjá mac.com

Ég er hvorki skráður á Facebook, Twitter, Linkedin né á neinum öðrum "félags-vefjum". Aðsetur skrifa minna er einungis að finna hér á þessari síðu og á tilveraniesb.net og í blöðum og tímaritum

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband