Bloggfærslur mánaðarins, september 2008
Þriðjudagur, 30. september 2008
OMG - Hvað á ég að gera? Danska krónan fellur 3,16% í dag
Harðir vindar blása nú á gjaldeyrismörkuðum. Danska krónan er fallin um 3,16% gagnvart dollar á einum degi. Hvernig skyldi standa á þessu? Jú, það skyldi þó ekki vera að evran hafi fallið svona mikið á einum degi ? Jú það er víst tilfellið því við hérna í Danmörku erum beintengd við evru og hefur evran því fallið svipað. 1 DKK = 0.188 USD -0.0061 (-3.162%) Sep 30, 4:00PM
Standard & Poor's felldu í dag lánshæfniseinkunn þriðja stærsta banka Danmerkur, Jyske Bank, úr A+ í A- (jákvætt í neikvætt). Fylgir sögunni að ástæðurnar séu þær sömu og gilda fyrir hagkerfi evrusvæðis í heild. Neikvæðar efnahagslegar horfur í heild og hækkandi atvinnuleysi.
Ég ráðlegg þér Gunnar að hætta að horfa á gengið eins og hjartalínurit. Loka augum, loka eyrum, hvorki sjá né heyra því þú getur ekkert við þessu gert, annað en að koma auga á þau tækifæri sem svona breytingar þrátt fyrir allt skapa
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Þriðjudagur, 30. september 2008
Evrópskir bankar falla nú eins og spilaborgir
11 Hlemmur-Féll
Í gær féll Fortis í Belgíu, Hollandi og Lúxemburg. Glitnir á Íslandi, Bradford & Bingley í Bretlandi. Í Þýskalandi var Hypo Real Estate fjármálastofnuninni bjargað, en hún er einn af hornsteinum þýska fjármálakerfisins. Í Danmörku voru þrír minni bankar sameinaðir í eins dags hraðferð leiðar 11 Hlemmur-Féll. Írski hlutabréfamarkaðurinn datt dauður niður um 12.7% á einum degi. Írskir bankar urðu illa úti t.d. féll Anglo Irish Bank um 46%.
Það sem af er þessum degi er komið að fransk-belgíska stórbankanum Dexia að leggjast í öndunarvel á sjúkrahúsi peningamarkaða. Sögur herma að ítalskir og grískir bankar séu einnig að hugsa um að taka þátt í svona bólför. Ef svona heldur áfram munu margir athafnamenn einnig leggjast í rúmið. Þá getum við öll eytt tímanum í að bora í nefið á okkur allann daginn - á launum frá "hinu opin-bera". Þú veist - H I N U O P I N B E R A
Flestir hlutir falla hratt í verði núna. Korn, matvæli, málmar og olía. Ef olíuverð hrynur þá mun norska krónan verða tekin í karphúsið eina ferðina enn, sem svo mun þýða hærri stýrivexti og þar með hærri vexti fyrir norska húseigendur og þar með aukin hætta á hinu og þessu fyrir banka. Gengi gjaldmiðla sveiflast eins og lauf í vindi. Stærstu hreyfingar hafa verið t.d. á japönsku yeni og ástralska dollar, 11,3% breyting á 30 dögum. Evra og yen 6,3% - ástralskur dollar og bandarískur dollar 6,8%.
Gereyðingarvopnin sem allir hafa verið að leita að segja gárungarnir nú að séu fundin, þau fundust í bandaríska þinginu í gær og fyrsta tilraunasprengingin náði að þurrka út 1.3 trilljón dollara af verðmati á hlutabréfamörkuðum Bandaríkjanna í gær.
Njótið þessarar sýningar. Næsta sýning er nefnilega fyrst eftir 100 ár
Er komið að þessu?
Flestir bankar eru fullir af peningum en þeir þora ekki að lána þá út til annarra banka. En þeir myndu þó þora að lána þessa peninga til seðlabankana því það er eina traustið sem er eftir í markaðinum. Menn hafa ennþá traust á seðlabönkum vegna þess að þeir eru beintengdir við vasa skattgreiðenda, og allir vita að svoleiðis vasar eru ótæmandi auðlind því ríkið hefur ótakmarkaðan einka-aðgang að þessu forðabúri peninga, svo framarlega að það sé einhverja at-vinnu eða neyslu hægt að hafa af þegnunum. Er ekki hægt að leyfa seðlabönkum að greiða fyrir vexti á innlánum? Þá gætu seðlabankar lánað þessa peninga aftur út til viðskiptabanka sem fá ekki fjármagn sökum ótta í markaði ? - eða er þetta kanski alger vitleysa hjá mér?
Hvenær mun traustið koma aftur? Það er traustið sem er grundvöllur allra viðskipta
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 28. september 2008
Duglausasti forseti allra tíma
Kæru lesendur
Nokkur lykilorð lausnar fármálakreppunnar
- BNA-ríkið fjárfestir, en eyðir ekki
- Fjárfesta peningum til að kaupa frosnar eignir í bókhaldi fjármálastofnana
- BNA-ríkið -> kaupir eignir -> heldur eignum -> selur eignir
- Nýyrði: vandræðaeignir
- Ríkið tekur svarta pétur (vandræðaeignir) út úr bókhaldi fjármálastofnana, heldur þeim, og selur þær síðan aftur, með hagnaði þegar heilbrigð verðmyndun kemst aftur í lag og áhlaup á fjármálakerfi heimsins mun því stoppa
- Sjúkdómseinkenni fármálakreppunnar hófu feril sinn í Þýskalandi, svo í Frakklandi, svo í Bretlandi, svo í Bandaríkjunum
- Markaðir eru skilvirkir til lengri tíma litið, en geta verðið óskilvirkir til skamms tíma litið
Duglausasti forseti allra tíma
Núna fer "duglausasti forseti" allra tíma út og tekur til hendinni í markaðinum á 15 dögum. Þetta er fjárfesting Bandaríkjanna í framtíð sinni, og ekki neysla eða eyðsla. Ríkið fer út með innkaupavagninn á brunaútsölu skuldapappíra heimsins - kaupir upp þessar vandræðaeignir á brunaútsöluverði og skapar þar með nýjan verðlagsgrundvöll sem, eins og er, því miður er horfinn í öngþveiti, skelfingu og áhlaupi á velreknar og stöndugar fjármálastofnanir um allan heim. Þetta er áhlaup á fjármálakerfi heimsins (run on the financial system). Enginn banki, fjármálastofnun eða fjármálakerfi í heild sinni þola svona áhlaup, sama hversu vel þau eru fjárvædd og vel rekin. Traustið verður að vera grundvöllur viðskipta. En hér er það traustið sem er horfið á bálkesti óvissunnar. Heildar skuldsetningarhlutfall (leverage ratio / gearing) hjá stærstu bandarísku fjármálastofnunum er þó mun lægra en hjá stærstu fjármálastofnunum í Evrópu. En þessar aðgerðir Bandaríkjamanna munu vonandi einnig koma þeim til góða.
Upphæðin sem bandaríska ríkið ætlar að nota til að kaupa upp vandræðaeignir, halda þessum eignum, - og bíða eftir að eðlileg verðmyndun þessara eigna komi aftur í markaðinn, til þess svo að geta selt þær aftur, og vonandi með hagnaði, - er dálítið stór, enda eru þessar eignir í eigu alls heimsins. Þetta er þó ekki nema ca. 68% meira á hvern þegna í Bandaríkjunum en sú upphæð sem danska ríkið tók á sig (á hvern íbúa hér í Danmörku) við yfirtöku danska ríkisins á Roskilde Bank núna um daginn. En þegnarnir í Bandaríkjunum verða þó mun fljótari að vinna fyrir þessu, ef til kemur, því þjóðartekjur á mann í BNA eru mun hærri en í Danmörku. Þessir 700 miljarðar dollara eru um það bil 2.310 dollarar á hvert mannsbarn í Bandaríkjunum. En hér í Danmörku hóstaði enginn alvarlega yfir þessu, því hér er ríkið svo stórt hvort sem er, að hverjum er ekki sama um að enn einn bitinn sé rekinn ofaní hálsa okkar skattgreiðenda hér í himnaríki risa-ríkisútgjalda ESB-landa.
Vonandi virkar þetta, en það eru þó ekki allir sannfærðir um það. En þetta er þó sennilega betra en að gera ekki neitt. Að fjárfesta í sjálfum sér og í sinni eigin framtíð. Borga til baka til þegnana. "Pay back time".
Sjúkdómseinkenni fjármálakreppunnar hófust í Þýskalandi, svo í Frakklandi, svo í Bretlandi og ná svo hámarki í Bandaríkjunum og verða nú vonandi einnig barin niður í Bandaríkjunum. En svo er Evrópa eftir, með fasteignamarkaði í frjálsu falli, og seðlabanka ESB sem er næstum verri en enginn, og með efnahag ESB á leiðinni inn í enn eina kreppuna í viðbót. ECB horfir bara á og getur lítið aðhafst. Hvað mun gerast með Fortis, Deutsche Bank og Barclays á næstunni? Það verður fróðlegt að sjá. Mun þetta einnig redda þeim?
Uppfært: mánudags morgun: Belgíski Fortis bankinn hefur nú verið þjóðvæddur að 49% hluta til. Ríkisstjórnir Belgíu, Hollands og Luxemburg taka á sig 49% af skuldbindingum bankans. Fortis hefur ástamt dótturfélaginu ABN Amro rekið 2500 útibú í Evrópu í samvinnu við Royal Bank of Scotland. Financial Times skrifaði í gær að á meðan fjármálaráðherra Þýskalands, Peer Steinbrück, jarðaði Bandaríkin í skál-ræðu sinni í síðustu viku, þá væri sú staða komin upp í Evrópu að ESB og ECB hefur ekkert kerfi til staðar til að bjarga risafílunum sem standa fastir í kjafti fjármálageira Þýskalands og Frakklands - of stórir til að bjarga. FT skrifar einnig að þegar flugvélar fjármálaráðherra evrusvæðis munu loksins ná að lenda á hausnum fyrir framan bygginguna í Brussel verða fjármálakerfi evrusvæðis löngu hrunin saman. H. Paulson bauð Evrópumönnum að vera með í BNA-pakkanum, en nei, því máttu Evrópumenn ekki vera að, þeir voru svo uppteknir við að skála fyrir jarðarför Bandaríkjamanna. Nú eru því tímar hankí pankí lausna runnir upp fyrir fjármálakerfi evrusvæðis og ESB. (Paulsons problem presents lessons for us all)
Glöggir bloggarar á Morgunblaðs-bloggi
Glöggir bloggarar hér á okkar kæra Morgunblaðs-bloggi hafa bent á að þetta fordæmi Bandaríkjamanna gæti hugsanlega skapað grundvöll fyrir næstu stóru bólu í hagkerfum okkar, nefnilega risavaxinni RÍKISBÓLU. Ef svona bóla myndi skapast á Íslandi þá er mikil hætta á að sá mikli framgangur sem hefur átt sér stað undir verndarvæng frjálslyndra stjórnmálaafla á Íslandi, og sem hófst með fyrstu ríkisstjórn Davíðs Oddssonar, verði stöðvaður og hagkerfi Íslands sett í afturábak gírinn. Gírinn sem myndi vinda ofan af stórglæsilegum árangri íslenska hagkerfisins. Hér er um að ræða stórkostlega aukingu í tekjum þjóðarinnar í gegnum mikinn hagvöxt. Þessi hagvöxtur hefur skapað grundvöll fyrir 50% aukningu í einkaneyslu á síðustu 10 árum - og það á meðan Danmörk upplifði 20% aukningu og Þýskaland 0.00% aukningu í einkaneyslu á þessum síðustu 10 árum. Þessu hefur svo fylgt heil 80% aukning í kaupmætti hvers einasta þegna á Íslandi frá árinu 1994 til 2007 (verðbólga hreinsuð út)
Og svo eru menn að kvarta? Kæru stjórnmálamenn, vinsamlegast spinnið ekki pólitískt gull á þessum vandræðum frjálsra markaða. Markaðir eru nefnilega skilvirkir til lengri tíma litið, en geta verðið óskilvirkir til skamms tíma litið. Þetta "til skamms tíma" þarf því að lagfæra.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 29.9.2008 kl. 08:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Þriðjudagur, 23. september 2008
Staksteinar spyrja hvað sé eðlilegt
Kæru lesendur. Staksteinar spyrja hér hvað sé eðlilegt og óeðlilegt.
Er óeðlilegt að fólk vilji tala um gjaldmiðilinn, þegar hann hoppar og skoppar í ólgusjó fjármálamarkaðarins?
Já það er óeðlilegt þar sem það var þjóðfélagið sem kom hoppinu og skoppinu af stað, einnig með hjálp hins hnattvædda fjármálakerfi heimsins. Það var ekki krónan sem fór að hoppa og skoppa af sjálfsdáðum, var það? Hefur krónan sitt eigið líf eða er það þjóðin sem hefur sitt eigið líf? Það líf sem hefur skapað verðmætin sem bera krónuna og sem hefur gert Ísland að þriðja ríkasta landi Evrópu, beint fyrir framan nefið á Brussel og gjaldmiðli þess, henni evru og ecu. Mörgum til mikillar gremju hérna í útlöndum því þeir vilja láta líta svo út fyrir að enginn geti þrifist án Brussel. En Ísland er ekki undantekning. Norðmenn eru þarna einnig ásamt Sviss. Þrjár af ríkustu þjóðum Evrópu, svo er einnig allur heimurinn í víðbót. Hérna erlendis hefur engum dottið í hug sú abstrakt hugmynd að efnahagsmálin á Íslandi séu undir því komin hvað gjaldmiðillinn heitir. Hér horfa menn á hagstærðir Íslands, og á sjálft efnahagslíf þjóðarinnar
Það er því óeðlilegt að tala ekki um hamar sem hamar og um skóflu sem skóflu. Þetta er alveg eins og Davíð Oddsson sagði: "hér heima segja snillingarnir að þetta sé gjaldmiðlinum að kenna". Og nú eru Staksteinar að segja að það sé eðlilegt. Þjóðhagfræði er ekki sálfræði. Það vinna því engir sálfræðingar í Seðlabankanum. Það væri nefnilega óeðlilegt
Er óeðlilegt að fólk vilji tala um möguleikana á evru og ESB-aðild í góðan tíma, einkum og sér í lagi vegna þess að það tæki einhver ár að sækja og semja um aðild? Margir, sem vilja ræða þann möguleika, eru ekki haldnir þeirri firru að hann sé lausn til skemmri tíma
Já það er óeðlilegt því við vorum einmitt að útiloka gjaldmiðilinn sem ástæðu fyrir vanda þjóðarinnar, vanda sem einnig virðist vera vandi alls heimsins núna. Allir Íslendingar hafa alltaf vitað að úti í Evrópu væri til eitthvað sem héti Kola & stálsambandið, EB, EF, EU og allt þar á milli. Þjóðin hefur samt aldrei haft áhuga á að ganga í eitt eða neitt af þessum E-merkjum því hún er ekki landfræðilega bundin meginlandi Evrópu og þarf því ekki að búa við 80 milljón Þjóðverja og 60 miljón Frakka í túnfæti Íslands. Það er þarna hálft Atlantshaf og heill Norðursjór á milli. Þetta kom sér því vel í heilum tveim heimsstyrjöldum háðum á meginlandi Evrópu á síðustu 100 árum. Þetta veit þjóðin vel þó svo að Staksteinar séu búnir að gleyma því. Þjóðin hefur alltaf samið sig til þeirra hluta sem henni vantaði. Samið við aðrar þjóðir um nauðsynleg mál. Þetta er því ömurleg umræða og líkist helst herför gegn því sjálfstæða Íslandi sem ákvað að byggja framtíð sina á eigin forsendum sem byggja á eigin sjálfstæði. Það er til líf fyrir utan ESB, og það gengur bara ansi vel fyrir sig
Eru Staksteinar ekki þornaðir á bak við eyrun ennþá? Eða skvettist úr glösunum við erfidrykkjuna? Nema kanski að þetta hafi verið yfirskot - eða jafnvel hopp og skopp?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 07:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
Sunnudagur, 21. september 2008
Lætur fólk í friði en hjálpar því í nauð
Þegar þetta er skrifað sitja stjórnvöld í Bandaríkjunum á fundum. Þau eru að setja saman pakka sem á að forða amerísku þjóðfélagi og restinni af heiminum frá frekari skaða af völdum kreppu í fjármálakerfi Bandaríkjanna og raunar alls heimsins í heild.
Í vikunni sem leið bjargaði bandaríski seðlabankinn stærsta tryggingafélagi heimsins undan þeirri fjármagnsþurrð sem nú er búin að ríkja í stórum hluta heimsins frá því í ágúst á síðasta ári. Þetta tryggingafélag tryggði einnig skuldbindingar flestra evrópskra stórbanka. Ef til gjaldþrots hefði komið þá hefðu evrópskir stórbankar þurft að fjárvæðast á ný eða leita sér nýrra samstarfsaðila til að geta tryggt skuldbindingar sínar áfram. Ný fjárvæðing bankana hefði verið nær óhugsandi í því ástandi sem nú ríkir. Hvar hefðu þeir átt að sækja fjármagn?
En hvaða evrópsku stórbankar hefðu þurft að finna sér nýjan tryggingaraðila? Hefði það til dæmis getað orðið hinn þýski Deutsche Bank, sem núna hefur skuldbundið bankann fyrir kröfum sem nema um 2.000 miljarða af evrum, sem er meira en 80% af landsframleiðslu Þýskalands? Þetta er meira en Fannie Mae stóð fyrir. Eða breski stórbankinn Barclays sem hefur skuldbundið bankann fyrir meira en allri þjóðarframleiðslu Bretlands, 1.300 miljarða punda? Kanski hefði það getað orðið belgíski bankinn Fortis sem hefur skuldbundið bankann fyrir margfaldri landsframleiðslu Belgíu?
En hvernig hefði seðlabanki Þýskalands farið að því að bjarga Deutsche Bank? Með því að yfirtaka skuldbindingar Deutsche Bank? Láta þýska ríkissjóðinn um málið? Nei, það hefði ekki verið hægt því þá hefði rekstur ríkissjóðs Þýskalands þverbrotið alla stöðugleikasáttmála ESB. Svo það hefði alls ekki verið hægt, ekki einu sinni bara pínulítið hægt. En hvað hefðu Þjóðverjar þá getað gert? Orðið gjaldþrota? Nei varla. Hefðu þeir ekki bara hent kröfunum inn í seðlabanka Evrópusambandsins? Jú auðvitað. En hver borgar þær á endanum?
En vandamálið er bara það að seðlabanki Evrópusambandsins (ECB) er búinn að pumpa út fossi fjármagns í bankakerfi evrusvæðis á undanförnum mörgum mánuðum, gegn því að taka sumar eignir viðskiptabankanna sem veðtryggingu fyrir greiðann, og gegn miklum afslætti. En það er bara eitt vandamál í viðbót kæru lesendur. Þessar eigur ECB eru núna að rotna eins og víða er að gerast annarsstaðar, og munu því enda sem eiturefnaúrgangur eigna í bókhaldi evrópska seðlabankans, þ.e.a.s. ef allt fer ekki vel í Bandaríkjunum núna um helgina. Núna ríður því mikið á að Bandaríkjamenn standi sig í stykkinu fyrir skattgreiðendur í ESB.
Á meðan Bandaríkjamenn eru að funda um aðgerðir, þá hrannast upp skoðanir á vinstri og miðjuvæng stjórnmála sem segja: aha, aha, hvað sagði ég! Frjálshyggjan spilaði þarna rassinn úr buxunum!
En þá segi ég: frjálshyggjan undir stjórnartíð repúblikana undanfarin ár gékk alltaf útá einmitt þetta. Að láta fólk sem mest í friði en koma því svo til hjálpar í nauð, ef þörf krefur. Þetta er að gerast núna og ætti ekki að koma neinum á óvart.
Forræðishyggjumenn í ESB ættu því að fara að biðja bænir sínar til Bandaríkjamanna, einu sinni enn, því það er ekki víst að þeir megni sjálfir að koma þegnum sínum til hjálpar því efnahagur ESB hefur dregst svo mikið aftur úr efnahag Bandaríkjamanna á undaförnum mörgum árum einmitt vegna forræðishyggju ESB hugmyndarinnar. En sjáum nú til hvað verður. Kanski hef ég rétt fyrir mér og kanski hef ég rangt fyrir mér. Ég vona svo sannarlega að eignasöfn evrópskra banka muni þola þann niðurtúr sem er í gangi á húsnæðismörkuðum víða í ESB, því það er ekki á vandræðin bætandi eftir að hafa keypt undirmálslána-mistökin af Bandaríkjamönnum, og það undir eigin ESB-forræði. Góðir sölumenn þeir þarna í Bandaríkjunum, en við lélegir kaupmenn hérna í ESB
Kínverjar ættu einnig að fara með bænir sínar því hér er besti útflutningsmarkaður þeirra í húfi.
Allar stofnanir sem áttu að forræðast um þessi mál eru mannaðar með mönnum - og allir menn gera mistök. Stofnanir eru því menn og ekki æðri máttur. Þær geta forráðist eins og þeim sýnist, en þær verða aldrei betri en þeir menn sem eru þar innanborðs. Var einhver sem sagði að Bandaríkin skiptu okkur ekki máli lengur?
Mun ECB ráða við vandann hérna megin Atlantsála ? Það vona ég svo sannarlega því þetta er mikið leiðindamál fyrir okkur öll.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Fimmtudagur, 18. september 2008
Hvar er seðlabanki Kína núna ?
Fyrst Kína á að vera orðið svona voldugt, hvar eru þá aðgerðir kínverska seðlabankans í dag? Hvar er þáttur kínverska seðlabankans í sameignlegum aðgerðum dagsins?
Í dag eru það nefnilega seðlabankar Bandaríkjanna, Bretlands, ESB, Sviss, Japan og Kanada sem pumpa andvirði 180 miljarða dollara (leiðrétt tala) inn í peningakerfi heimsins. Gróft reiknað mun í alt koma 180 miljarðar frá seðlabanka Bandaríkjanna, 60 miljarðar fara til seðlabanka Japans, 55 miljarðar til ECB sem svo einnig bætir öðru eins við, 40 miljarðar fara til seðlabanka Bretlands og 15 miljarðar til seðlabanka Sviss sem svo næstum tvöfaldar uppí 27 miljarða, og 10 miljarðar fara til Kanada. Þetta er stærsta sameiginlega aðgerð seðlabanka í heiminum nokkurn tíma.
Þetta fjármagn verður notað til að leysa um þá lánsfjárþurrð sem nú ríkir í bankakerfum heimsins. Mun þetta fé kanski sogast ofaní komma-kistuna í Peking? Erum við að fóðra kommana í Kína ? Hvernig er hægt að losa heiminn undan afskærmandi og eyðileggjandi handafls-bindingu Kínverja við dollar?
Er ekki kominn tími til að Kína komi uppúr kjallarahagkerfinu og leyfi frjálsa verðmyndun á gengi gjaldmiðils Kína, og leyfi einnig þegnunum af fjárfesta utan landamæra Kína?
Í gær var dagur númer tvö þar sem viðskipti voru stöðvuð með handafli í kauphöll Moskvu. Stöðvuð vegna mikils verðfalls. Má einungis leyfa miklar hækkanir ?
Uppfært: viðskipti í kauphöll Moskvu hafa nú verið stöðvuð aftur, þriðja daginn í röð! Uppfært aftur: . . og mun ekki opna aftur fyrr en á föstudag.
Einhver sem á fastfrosin bréf í Moskvu? Hmm, þjóðnýtt bréf í 24 stundir?
Global redningsaktion fra verdens centralbanker
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Miðvikudagur, 17. september 2008
Kastljós-viðtal við Tryggva Þór Herbertsson
Sigðurður Sigurðsson var svo vinsamlegur að benda mér hér (neðst í umræðunni) á kastljós-viðtal við Tryggva Þór Herbertsson efnahagsráðunaut forsætisráðherra Íslands. Ég er flestu sammála sem Tryggvi sagði og fannst það einnig vel sagt. Ég þakka Sigurði fyrir ábendinguna
Mitt álit
1) Það er loksins verið að taka til í fjármálakerfum heimsins. Lætin verða mikil meðan á þessu stendur og hávaðinn langt fyrir ofan þolmörk eyrna flestra. Því munu margir verða svo hræddir að þeir halda að heimurinn sé að farast. En svo er alls ekki. Þeir sem þola ekki hávaðann ættu að taka svefnpillu eða halda sig burtu frá eldhúsinu.
2) Viðskiptalíkan svokallaðra fjárfestingabanka er rotnað samkvæmt mati margra bankamanna sem nú telja að um 1/3 þeirra þurfi að hverfa af yfirborði jarðar. Starfsemi fjárfestingabanka mun þrífast best innan venjulegrar bankastarfsemi því annars er hætta á að hið gallaða viðskiptalíkan fjárfestingabanka muni óbeint þvinga þá út í ótímabærar tilraunir til að vinda ofan af möguleikum heilbrigðra viðskipta í fjármálaheiminum, sem síðan mun leiða af sér að enginn mun þora að taka áhættu lengur, og því leiða heiminn inn í nýtt 1930, þ.e. fái markaðurinn ekki leyfi til að bregðast rétt við
3) Íslenska krónan hefur ekki gert neitt af sér. Hún er alsaklaus. En það datt því miður heil tunna af vaxtarhormónum ofaní pottinn í mötuneyti fjármálageirans sem breytti mús í fíl í munninum á peningakerfinu. Það þarf því að temja sér betri umgengni í nærveru vaxtarhormóna. Kokkurinn hefur verið sendur á námskeið í öryggismálum á vinnustöðum og nýr matseðill er í vinnslu
Ef einhver skyldi efast um að Bandaríkin séu ekki ennþá stærsta dráttarvél í efnahagsmálum heimsins þá ætti viðkomandi að taka niður eyrnahlífarnar og opna dagblað, kveikja á tölvu eða útvarpsviðtæki. Það eru akkúrat engar líkur á að Bandaríkin haldi ekki áfram að vera dráttarvél heimsins í efnahagsmálum, númer eitt og um langa ókomna tíð.
Hversvegna ? Jú vegna þess að frelsið er ennþá virkt vöðvabúnt heilans í Bandaríkjunum og skapar því ennþá mun meiri velmegun og ríkidæmi en í flestum öðrum hagkerfum í heiminum. Til að ná Bandaríkjamönnum þarf t.d Kína að hætta við kommúnismann og taka upp virkt lýðræði og fullt frelsi. En um leið og ófrelsi kommúnismans hverfur í Kína þá er hætta á að það fari eins fyrir Kína eins og fór fyrir Sovétríkjunum, sem þá brotnaði upp í smærri einingar. Evrópusambandið mun aldrei ná Bandaríkjunum í velmegun og ríkidæmi því Evrópusambandið er lamað og dregst einungis meira og meira aftur úr Bandaríkjunum - ár frá ári. En þá segja menn: "já en BNA eru með svo mikinn viðskiptahalla na na ni na na". En þá segi ég: ekki þegar litið er til lengri tíma. Bandaríkin fjármagna sig alveg ágætlega til lengri tíma litið og hafa alltaf gert það. Menn þurfa einungis að hætta að hugsa um þjóðarhagkerfi á sama hátt og þeir hugsa um rekstur sjoppu, þar sem bókhaldið sýnir ekki alltaf plús á hverju kvöldi. Þetta gildir einnig um Ísland og það var þessvegna sem Alþjóða Gjaldeyrissjóðurinn sagði um daginn að framtíðarhorfur Ísland væru "öfundsverðar".
Forstöðukona greiningadeildar á sviði gjaldeyrismarkaða hjá Jyske Bank kom í fjölmiðla hér í Danmörku í gær því allir héldu að heimurinn væri að farast. Greiningadeild gjaldeyrismarkaða hjá Jyske Bank þykir góð í sínu fagi og því er talað við þau. Hún segir að evra muni falla 15% í viðbót gegn dollar á örskömmum tíma. Þetta kemur ofaní það 12% fall sem nú þegar hefur átt sér stað á síðustu 8 vikum, aðeins - þannig að fallið verður lik-lega 27% á nokkrum mánuðum. Hún segir ennfremur að seðlabanki Evrópusambandsins (ECB) sé nær getulaus miðað við Bandaríska seðlabankann (The Fed) og það sé því seðlabanki Bandaríkjanna sem er dráttardýr númer eitt að flestu leyti. Her get ég víst einungis verið henni sammála. Mér finnst því að ESB ætti að taka upp nýjan gjaldmiðil eða leggja niður evru, sem er náttúrlega handónýt sem gjaldmiðill, ekki satt?
Ef til vill nær evra því að falla 40% á innan við 12 mánuðum, hver veit, stöðugleikurinn er svo mikill í Brussel. Bandarískir fjárfestar eru núna að draga sig út úr fjárfestingum erlendis og munu sækja í vöxt í heimalandi sínu á næstu árum. Peningarnir leita í þangað sem sólin mun koma upp á morgun. Það er einnig stórútsala í gangi í Bandaríkjunum núna. Gegni gjaldmiðla stendur því aldrei kyrrt og heimurinn er stór, miklu stærri en ESB.
Rússneski hlutabréfamarkaðurinn hefur nú misst 40% af verðmæti sínu á þrem mánuðum. Svo er öll Evrópa eftir . . en það er svo annar handleggur
Fyrri pistill
Banki Lehman bræðra hverfur af vettvangi samkeppninnar
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Þriðjudagur, 16. september 2008
Banki Lehman bræðra hverfur af vettvangi samkeppninnar
Stærsta gjaldþrot mannkynssögunnar fór fram í gær. Hin 158 ára gamla bankastarfsemi Lehman bræðra er nú hætt að vera til. Hlutabréfamarkaðir trúðu ekki á verðgildi eigna Lehman Brothers Holdings Inc og neituðu að skjóta inn meira fé. Hið sama gerði seðlabanki Bandaríkjanna. 25.000 manns missa vinnuna. Flest störf Lehmans munu tapast í Bandaríkjunum og 6.000 munu hverfa í Evrópu, þar af 4.500 störf í London
Staða eignasafna fjármálageira heimsins er undir stöðugri endurskoðun markaða. Það er afar erfitt að setja rétt og raunhæft verð á eignir fjármálafyrirtækja við ríkjandi aðstæður. En allir aðilar markaða krefjast stanslaust endurmats á eignastöðu allra, og krefjast að fá að vita hver sé með Svarta Pétur á hendi.
En því verkefni má í raun líkja við aðstöðu húseiganda sem er skipað að selja húseign sína fyrir kvöldmat sama dag. Hvert er markaðsverð eignarinnar? Undir svona þrýstingi er "rétt" markaðsvirði fasteignarinnar nánast ekki neitt. Þetta er aðstaða fjármálafyrirtækja í dag og hún er ekki öfundsverð. Þessvegna er svo erfitt að stilla upp kröfum um að geirinn "geri hreint fyrir sínum dyrum" og komi með "raunhæft" mat á eignasafni sínu. Því hver mun raunveruleikinn verða? Það veit enginn
Eitt er þó víst. Hvarf bankastarfsemi Lehman bræðra af vettvangi samkeppni á fjármálamörkuðum mun þýða að þeir sem eftir sitja á markaðinum munu þurfa að glíma við minni samkeppni en áður. Fyrir vikið mun hagur þeirra vænkast hraðar og þeir munu fá betra aðgengi að fé. En svo mun samkeppnin aukast aftur - en þó ekki einum degi fyrr en hagur þeirra núlifandi hefur vænkast á ný
Taugakerfi kapítalismans er hlutabréfa- og fjármálamarkaðirnir. Þetta taugakerfi er alltaf mjög viðkvæmt og ef það virkar ekki vel þá mun heldur ekki neitt annað virka vel meðan á leiðréttingu stendur. Það er í gegnum þetta taugakerfi að fyrirtæki nútímans og framtíðarinnar munu sækja sér fjármagn til að geta búið til velmegun í þjóðfélögum okkar, og til að geta keppt á mörkuðum nútíðar og framtíðar. Það sem markaðirnir eru að upplifa í dag er svo einstakt að það mun varla koma fyrir á meira en 100 eða jafnvel 1000 ára fresti. Við lifum því á einstökum tímum kæru Íslendingar
En markaðirnir eru samt að leiðrétta sig og munu einnig ljúka því erfiða verkefni. Enginn er hér of stór til að falla. Svo mun lífið halda áfram, taugakerfið komast í samt lag aftur og skjálftinn mun stoppa
Fyrri pistill
Frjálst fall skoðana á efnahagsmálum
Viðauki - mestu föll síðustu 30 daga á gjaldeyrismörkuðum
AUD/USD -10.35 % ástralskur dalur gagnvart BNA dal
AUD/JPY -7.57 % ástralskur dalur gegn yen
EUR/USD -7.22 % evra gegn BNA dal
GBP/USD -6.63 % pund gegn BNA dal
NZD/USD -6.54 % Nýja Sjálands dalur gegn BNA dal
EUR/JPY -4.35 % evra gegn yen
CHF/JPY -4.09 % svissneskur frank gegn yen
GBP/JPY -3.73 % pund gegn yen
CAD/JPY -2.37 % kanadískur dalur gegn yen
EUR/GBP -0.68 % evra gegn pundi
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 14. september 2008
Frjálst fall skoðana á efnahagsmálum
Sælir kæru lesendur
Eiginlega átti þetta aðeins að verða smá pistill um ummæli seðlabankastjóra Kanada því G. Tómas Gunnarsson skrifaði mjög svo athyglisverðan pistil um ummæli þessa manns (Fyrrverandi seðlabankastjóri). En eftir lestur Morgunblaðsins í dag sé ég að margir virðast haldnir ofurtrú á mátt spámanna og forræðis í hugsun manna,- eftirá! - því lengdist pistillin.
En áður en ég byrja pistilinn langar mig að benda mönnum á nýja grein sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra Íslands. Einar Kristinn Guðfinnsson segir margt gott hér í: Rétturinn til að nýta eigin fiskistofna. Takið vinsamlegast eftir þessari setningu Einars -
Nálægð í tíma við sjálfstæðisbaráttuna og hugsjónir hennar átti mikinn þátt í því hversu víðtæks stuðnings almennings naut sú ákvörðun ráðamanna árið 1958 að færa fiskiveiðilögsögu Íslendinga út í tólf mílur
Orðið nálægð er hér afar mikilvægt, því nú er það fjarlægðin sem er að leika sjálfstæðishugsun margra Íslendinga grátt.
Seðlabankar geta ekki séð fyrir kreppur og krísur
Hjá Tómasi skrifaði ég þetta: Ég er ansi hræddur um að þetta sé ekki rétt hjá seðlabankastjóranum og að gamla lögmálið gildi áfram. Seðlabankar geta ekki séð svona kreppur fyrir því þá væru þær ekki kreppur heldur einungis verkefni á borð við annan daglegan rekstur. Raunverulekinn er sá að enginn gat séð þetta fyrir, því ef allir hefðu séð þetta fyrir þá værum við öll betur sett í dag og það væri engin fjármálakreppa í gangi núna, en svo er alls ekki. Þetta er alltaf sagt um allar kreppur og krísur sem koma. En það sem kanski á betur við hér er það að seðlabankastjórinn ÓTTAÐIST kreppu. En það er allt annað en að sjá hlutina fyrir. Hann hefði aldrei getað tekið upp mótvægisaðgerðir byggðar á ótta sínum einum því þá hefði hann verið kominn út í spámennsku. Það er í raun miklu erfiðaða að spá fyrir um næstu 3 mínúturnar í fjármálaheiminum en að spá fyrir um veðrið, því veðrinu er alveg sama um hverju þú munt spá. En á fjármálamörkuðunum þá munu allir bregðast við spám og 900 miljón heilar, hver um sig með miljarða af hugsanamöguleikum, og sem hugsa á 400 tungumálum samtímis, munu einnig hefja aðgerðir einmitt byggðar á spá um framtíðina. Það var vegna þessa sem Isaac Newton gafst upp á hlutabréfabraski sínu í gamla daga því hann sagðist geta reiknað út gang himintungla og pláneta af miklu öryggi fyrir næstu þúsundir ára, en hann gat ekki reiknað út aðgerðir "hálf-brjálaðra öskrandi" manna í kauphöllum næstu þrjár mínúturnar. Svo Isaac Newton yfirgaf markaðinn og fór út í svartagaldur.
Þetta er víst svipuð saga í fleiri löndum. Hér í Danmörku eru sömu raddir uppi um að léttur aðgangur að lánsfé og lágir vextir hafi pumpað upp verð á húsnæði. Það er örugglega rétt. En fólk virðist ekki spá svo mikið í verðið þegar vextir eru lægri og verð er hærra því það horfir einungis á hvað það þarf að greiða af lánunum í hverjum mánuði. Svo þetta kom út á eitt. En svo hækka vextir aftur, sem þýðir að verðið fellur, og þá geta þeir sem keyptu á lágum vöxtum varla selt nema að tapa á kaupunum. Fasteignir eru eiginlega alveg gerómögulegar sem spákaupmennsku vara (speculation object) því þær geta orðið svo illa seljanlegar, og kostnaður við sölu svo afar hár (high transcation cost) að besta lausnin að mínu mati er að kaupa sér, eftir efni og aðstæðum, húsnæði til að búa í og gleyma svo verðinu og markaðinum og bara hafa það gott og hætta að hugsa um fasteignir. Þetta jafnar sig.
En þetta var alls ekki svona hérna í Danmörku því lætin urðu svo mikil þegar hækkanir voru í gangi að margir keyptu sér 2-3 íbúðir til að "græða" á þeim. En núna situr þetta sama fólk með 2-3 óseljanlegar íbúðir því markaðurinn er frosinn fastur og því í frjálsu falli. Þetta er ekki gott mál. En svona er þetta alltaf. Markaður er markaður og verðin breytast. En þessi kreppa sem er á fjármálamörkuðum hefði alls ekki þurft að verða svona slæm ef allt annað hefði ekki einnig komið fljúgandi í hausinn í fjármálaheiminum á sama tíma: sprenging í hrávöruverði, olíuverði, málmum og matvælum plús allt það lausa og svo kom stóra loka-sleggjan og kýldi verðhrun á hlutabréfum ofan í hausinn á verðbréfamörkuðum. Það var summan af þessi öllu sem gerði þetta svona slæmt. Og svo er það sálfræðin, hún er stór þáttur hverrar krísu og sennilega einn af stærstu þáttum hverrar kreppu. Sálræn kreppa sem einnig Íslendingar upplifa í dag.
Það var enginn sem hafði jarðneskan möguleika á að sjá þetta allt fyrir. En já, svo sannarlega óttuðust menn að eitthvað svona myndi koma. En raunveruleikinn er þó 100 sinnum verri en svartsýnustu menn þorðu að "óttast".
Í Morgunblaðinu í dag skrifar Sveinn Halldórsson að Hagstjórn sé á villigötum
"við þurfum á öllu okkar besta fólki að halda til að finna lausnir á því að einstaklingar og fyrirtæki fái efnahagsumhverfi eins og best gerist í Evrópu"
Það er því ekki langt að leita fyrir Íslendinga því efnahagsumhverfi finnst varla betra en á Íslandi. Það er vegna þessa góða umhverfis að fjárfestingar hafa verið miklar á Íslandi, atvinnuleysi lægst af öllum löndum, atvinnuþáttaka mest miðað við öll lönd Evrópusambandsins, hagvöxtur sterkastur og kaupmáttaraukning mest undanfarin mörg mörg ár. Einnig eru framtíðarhorfur Íslands "öfundsverðar", eins og alþjóða-gjaldeyrissjóðurinn komst að orði við síðustu heimsókn sjóðsins til Íslands fyrir aðeins nokkrum vikum. Já öfundsverðar framtíðarhorfur. Ég vildi að þessu væri eins farið hérna hjá okkur í Evrópusambandinu, því hér er framtíðin alls ekki öfundsverð. Hér mun ESB eiga fullt í fangi með að koma í veg fyrir að sólarlag stærstu hagkerfa sambandsins dragi öll sæmilega heilbrigð lönd sambandsins með sér niður í niðurfall 25 ára getuleysis Evrópusambandsins í einmitt efnahagsmálum. Þó skal tekið fram að ESB hefur, mörgum til mikils léttis, ákveðið að leikskólabörn í ESB megi fá ókeypis eitt epli á dag, en eplin verða þó að koma frá ESB og fjármögnuð af ESB. Dönskum foreldrum er því mikið létt því hér sýnir ESB hversu gott sambandið er við þegnana. Án ESB var þetta ekki hægt.
Í Morgunblaðinu í dag skrifar Ragnar Önundarson
Um bókstafstrú og mistök í hagstjórn Sagt hefur verið að það sé hlutverk seðlabanka að fjarlægja veisluföngin þegar loks er farið að vera fjör í partíinu. Það brást og telst til mistaka
Já þetta er oft sagt. En það eru þó markaðirnir sjálfir sem munu leiðrétta sig innan ramma peningastefnunnar og þeir VERÐA einnig að gera það því seðlabankar geta ekki séð fyrir kreppur á mörkuðum. Seðlabankar vinna samkvæmt markmiðum og þau markmið eru að berjast gegn verðbólgu með öllum tiltækum vopnum. Markmið seðlabanka eru ekki að hugsa fyrir fólk. Þessvegna hafa fyrirtæki í Bandaríkjunum varla orðið kreppunnar vör því þau lærðu svo mikið í dot.com kreppunni. Þau eru með fulla kassa af eigin fé til umráða. Þau lærðu á hinn harða máta, en þau lærðu samt. Þetta verða fyrirtæki á Íslandi að læra, því bankar eru eins og regnhlífaleigur, þeir lána þér regnhlíf þegar sólin skín, en vilja fá hana aftur þegar það byrjar að rigna. Það er því best að eiga regnhlífina sjálfur - a.m.a.k. eina regnhlíf.
Ríkisstjónir eiga því ekki að freistast til að hjálpa veikustu þáttum atvinnulífs- og efnahagsmála almennt, því það tryggir aðeins að fjármunir munu renna til þeirra sem minnst hafa vit á rekstri og efnahagsmálum, sem minnst hafa fengið út úr peningunum og sem minnst kunna með þá að fara. Því ber að varast að fara í leik "sterka forsætisráðherrans" sem freistast til að sýna "aðgerðir og þrótt í verki" í stað þess að sýna þrótt aðgerðarvits og þrótt aðgerðarleysis þegar við á, því bestu verk sögunnar eru oft þau verk sem aldrei voru unnin. Góður hag- og fyrirtækjarekstur felst oft í því að hægt er að vera ákaflega stoltur að því sem aldrei var gert. Það er ekki nóg að vera "duglegur og sterkur" ef allur dugnaðurinn fer í að vinna efnahag og fyrirtæki sínu illa og ef til vill einnig landi sínu miður vel með því að sýna "þrótt aðgerða" sem á að bjarga "þeim veiku".
Í Morgunblaðinu í dag skrifar Þröstur Ólafsson
"að Íslendingar hefðu ekki átt að fara út í nýtingu orkuauðlinda sinna - og það eina sem þeir geti gert til að koma stöðugleika á gengi íslensku krónunnar sé að gefa út yfirlýsingu um að Ísland gangi í Evrópusambandið. Hann segir ennfremur að "Ef stjórn- málamenn treysta sér ekki til þess (GR; að ganga í ESB), verður að afnema frjálst gengi krónunnar og takmarka frjálsa fjármagnsflutninga milli Íslands og útlanda."
Þetta er hægt að þýða svona:
1) Norðmenn hefðu aldrei átt að fara út í nýtingu orkuauðlinda sinna. Það sé að koma þeim í koll núna og það eina sem þeir geta gert til að koma stöðugleika á gengi norsku krónunnar sé að gefa út yfirlýsingu um að ganga í Evrópusambandið. Mamma galdraðu !
En hvað með gengi evru? Hvað ætti Evrópusambandið að gera til að koma á stöðugleika í gengismálum evru? Eins og flestir gera sér EKKI grein fyrir þá er evra búin að vera leiksoppur spákaupmennsku gjaldeyrismarkaða undanfarin ár. Evra er bóla gjaldeyrismarkaða. Eftir að hafa fallið 30% þá hækkaði hún um meira en 100% gangvart stærsta gjaldmiðli heimsins. Hvar er stöðugleikinn? Jú, hann er að finna í atvinnuleysistölum Evrópusambandsins og í stöðugleika afburða lélegs hagvaxtar í ESB í 25 ár. Hvoru tveggja ömurlegar hagstærðir og gersamlega óviðunandi ástand fyrir þegna ESB sem núna eru alltaf að verða fátækari og fátækari miðað við Bandaríkjamenn og Íslendinga. Þetta er stöðugleikinn. 25 ár full af engu. Vilja Íslendinga tak þátt í þessu engu?
2) Handafl í gengisskráningu krónu (gamla aðferðin): Verðbólgan er þarna og það er verið að vinna að því að ná henni niður með háum stýrivöxtum. Hvernig hún kom skiptir ekki máli því hún er hér, hefur einnig komið til allra annarra landa sem hafa verið að aðhafast eitthvað að ráði, og til allra þeirra landa sem eru ekki að fækka sér í mannfjölda eða sem eru stöðnuð. Ef Íslendingar fjölga sér um 2% á ári þá má allavega gera ráð fyrir að verðbólga verði að minsta kosti 2%. Það er enn mikið púður i tunnunni á Íslandi, og meira en víðast annarsstaðar í hinum vestræna heimi, verið þrátt fyrr allt ánægð með það.
Lettland, er núna með 16,5% verðbólgu, Búlgaría með 14,4%, Litháen með 12,4% (ESB lönd). Kína, Indland, Brasilía og Tyrkland eru einnig með mikla verðbólgu. Brasilía er með 13% stýrivexti og stýrivextir í Tyrklandi eru enn hærri en á íslandi eða 16,75%. Lúxemburg og Belgía eru með um 6% verðbólgu og því neikvæða vexti eins og er því þau hafa jú ekkert að segja um stýrivexti myntbandalagsins. Sjálft elliheimilið ESB er með 4% verðbólgu í heild.
Að taka handaflið í notkun mun þýða flótta allra fjármuna úr þjóðfélaginu. Þið þyrftuð því einnig að loka dyrunum til umheimsins. Þá gætuð þið labbað um á lakkskónum um tóma kauphöll, kassar allra væru eins galtómir og á hausnum eins og þeir voru á handaflsárunum. Þetta yðri sannkölluð handsprengja eins og Eyþór Arnalds svo réttilega nefnir á blogg sínum.
Það er ekkert atvinnuleysi á Íslandi, það er ennþá meiri hagvöxtur á Íslandi en í flestum öðrum löndum, kaupmáttur er góður þrátt fyrir rýrnun vegna gengisfalls. Allar afurðir frá Íslandi eru eftirspurðar á mörkuðum, og útflutningur blómstrar vegna þeirra góðu fræja sem sáð var á undanförnum árum. Eina sem er að er verðbólga og afleiðingar alþjóðlegrar fjármálakreppu. Þið vilduð kanski óska ykkur verðhruns á fiskmörkuðum sem kallaði alltaf á hand- og heimagerðar gengisfellingar á handaflsárunum og væruð kanski fegin endurkomu Fjallfossa Bæjarlækja fjármagns skattgreiðenda í ekki neitt. Núna er virk mynt landsins að afrugla of hátt gengi krónunnar, það tekur smá tíma, en árangurinn verður vonandi góður. Þetta kemur.
Já Seðlabankinn er með verðbólgumarkmið. Þetta er markmið og ekki náttúrulögmál. Þýski seðlabankinn náði í 50% tilfella markmiðum sínum á 20 árum frá 1980-1999. Seðlabanki evrópusambandsins er núna með verðbólgu 100% yfir markmiðum bankans og mun verða yfir þeim næstu 2 árin. Íslenska krónan var sett frjáls árið 2001. Stöðugleiki gengismála er langhlaup og ekki spretthlaup. Þetta kemur.
Í Morgunblaðinu í dag skrifar Gauti Kristmannsson um það sem hann kallar Krónuskatturinn. Að þetta sé auka skattur á Íslendinga og refsing fyrir að standa utan Evrópusambandsins - og að launþegar sitji í súpunni með hæstu vexti á Vesturlöndum og hæsta verðlag á Vesturlöndum.
Þó svo að vextir séu lægri núna viða í ESB, vegna þess að verðbólga er lægri, þá þýðir það ekki sjálfkrafa lága vexti til atvinnulífs og almennings. Bankar þurfa núna að vinna inn það sem tapast hefur og sem er að tapast og á eftir að tapast í formi aukins vaxtamismunar á innlánum og útlánum. Þessir lægri stýrivextir skila sér alls ekki alltaf út í smásölubankana því bankar hafa frjálsar hendur um verðlagningu peninga. Þessvegna þurfa byggingameistarar og verktakar í Danmörku t.d. að greiða allt að 12-14% vexti á rekstrarlánum í þessum 4,25% stýrivöxtum. Þetta hefur oft verið enn verra. Árið 1992 var verðbólga 2,1% í Danmörku. Stýrivextir voru 9,5-11,5%. Vextir á húsnæðislánum voru allt að 7-10%. Ekkert fjármagn var að fá neinsstaðar. Þetta var svona af tillitssemi við fastgengisstefnu dönsku krónunnar því einkaseðlabanki Þýskalands í Evrópu (Deutsche Bundesbank a la ECB) var í vondu skapi og stjórnaði stýrivöxtum alls ESB svæðisins með fjarstýringu. Þetta voru gleðiár fastgengisins og brjálsemishugmynda ESB um myntbandalag framtíðarinnar. Atvinnuleysi var þarna um 12% og stýrivextir sænsku krónunnar voru hækkaðir upp í 500% til að verja einhliða bindingu brjálseminnar við ECU, sem er fyrirrennari EURO. Já 500% stýrivextir í Svíþjóð í nóvember 1992. Þá var nú gaman.
Tengt efni:
The Bank must act to end the euros wild rise
Staða Lissabon 2000 markmiða Evrópusambandsins
German Bundesbank annual target ranges missed around fifty percent of the time in Germany in the 1980s and 1990s
Gullna hliðið lokast - gengishrun evru yfirvofandi?
Stjórnmál og samfélag | Breytt 15.9.2008 kl. 16:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Föstudagur, 12. september 2008
Um móðir allra fjármálakreppu. Ný haustútgáfa Þjóðmála
Sælir kæru lesendur. Ég leyfi mér að vekja athygli á nýútkominni haustútgáfu Þjóðmála. Þar skrifa ég átta blaðsíðna grein um evruna og tilurð hennar
Yfirskriftir greinarinnar
Þrífst frelsið í faðmi ESB og evru?
Fyrsta og annað farrými hagkerfa
- Visna vöðvar frelsisins ef þeir eru ekki notaðir?
- Vöxturinn er ekki hér
- Afturljós hagkerfanna
- Var evran nauðsynleg, eða var hún pólitískt verkfæri?
- Móðir allra fjármálakreppu
- Skammsýni og múgsefjun evruumræðu
Brot úr greininni fer hér
Enginn hefur enn svarað grundvallarspurningunni um evru, en hún er þessi: Af hverju? Álíka fáir hafa þó rætt afleiðingar evru fyrir evrulöndin sjálf: Hver er árangurinn? Eða eins og Kaninn segir: Show me the money? (Hvar eru peningarnir?) Sjálf framkvæmdin hefur vissulega tekist framar vonum, en hvernig hefur sjúklingurinn það? Hver er árangurinn? Engin áþreifanleg aukning í verslun og viðskiptum á milli evrulanda, lítill sem enginn hagvöxtur á 65% af evrusvæðinu og viðvarandi mikið atvinnuleysi öll árin. Jú, það er komið pólitískt svar við stóru spurningunni um af hverju, en það er væntanlega ekki það svar sem hefur stýrt þeirri örþrifaumræðu sem við höfum orðið vitni að undanfarna mánuði á Íslandi. Umræðan á Íslandi hefur eingöngu verið efnahagslegs eðlis, en í þeim efnum er nákvæmlega ekkert að sækja fyrir Ísland með upptöku evru, því evran er fyrst og fremst pólitískt verkfæri
Ég hvet þá sem vilja landi og þjóð sinni vel að lesa þessa grein í Þjóðmálum, því þar er komið inn á hluti sem alls ekki hafa verið uppi í þeirri örþrifaumræðu sem hefur geisað um málefni ESB og evru á Íslandi. Samkvæmt þessari umræðu er evra líklega ekki það sem þú heldur að hún sé
Sjálfur hlakka ég mikið til að lesa grein Vilhjálms Eyþórssonar, blaðamanns, en hann skrifar ádrepu um það sem hann kallar flathyggju. Magt fleira athyglisvert er í Þjóðmálum að þessu sinni. Meira og betur er fjallað um þessa haust-útgáfu Þjóðmála í Vef-þjóðviljanum
Ritið Þjóðmál fæst í öllum bókabúðum Pennans og Eymundsson, bensínstöðvum Olís og nokkrum fleiri stöðum. Einnig er hægt að kaupa einstök hefti og gerast áskrifandi í Bóksölu Andríkis (Vef-Þjóðviljinn). Þá er hægt að gerast áskrifandi og kaupa einstök hefti í síma 698-9140.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 13.9.2008 kl. 00:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Nýjustu færslur
- Lánshæfnismat Frakklands lækkað. Heil 25-35 ár af hergagnafra...
- Frakkland gæti gengið í Evrópusambandið og tekið upp evru
- Samfylkingin fékk 3,4 prósentum meira en Vinstri grænir
- "Stórgögn" og "gervigreind" hafa lítið fært okkur
- Ísrael er búið að vinna stríðið í Líbanon
- Natópóleon beinapartur
- Rússland nú fjórða stærsta hagkerfi veraldar. Lánshæfnismat F...
- Ég óska Bjarna Ben til hamingju og velfarnaðar
- Víkingar unnu ekki. Þeir "þáðu ekki störf"
- Engir rafbílar segir Apple
- Grafa upp gamlar sprengjur og senda áleiðis til Úkraínu
- Geðsýki ræður NATÓ-för
- "Að sögn" háttsettra í loftbelg
- Skuldir Bandaríkjanna smámunir miðað við allt hitt
- Forsetinn og meiri-hluta-þvættingurinn
Bloggvinir
- Heimssýn
- Samtök Fullveldissinna
- ÞJÓÐARHEIÐUR - SAMTÖK GEGN ICESAVE
- Guðmundur Jónas Kristjánsson
- Ragnhildur Kolka
- Hannes Hólmsteinn Gissurarson
- Haraldur Hansson
- Haraldur Baldursson
- Páll Vilhjálmsson
- Halldór Jónsson
- Valan
- Samstaða þjóðar
- Frjálshyggjufélagið
- Sigríður Laufey Einarsdóttir
- Eyþór Laxdal Arnalds
- Jón Valur Jensson
- Samtök um rannsóknir á ESB ...
- Kolbrún Stefánsdóttir
- Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson
- Jón Baldur Lorange
- Guðjón E. Hreinberg
- Jón Ríkharðsson
- Anna Björg Hjartardóttir
- Loftur Altice Þorsteinsson
- Valdimar Samúelsson
- Fannar frá Rifi
- Bjarni Jónsson
- Sigurður Þorsteinsson
- Gunnar Ásgeir Gunnarsson
- Haraldur Haraldsson
- Örvar Már Marteinsson
- Kristin stjórnmálasamtök
- Gestur Guðjónsson
- Ingvar Valgeirsson
- Predikarinn - Cacoethes scribendi
- Guðsteinn Haukur Barkarson
- Guðmundur Helgi Þorsteinsson
- Lísa Björk Ingólfsdóttir
- Bjarni Kjartansson
- Bjarni Harðarson
- Guðrún Sæmundsdóttir
- Sveinn Atli Gunnarsson
- gudni.is
- Gústaf Adolf Skúlason
- Tryggvi Hjaltason
- ESB
- Marinó G. Njálsson
- Baldvin Jónsson
- Elle_
- Sigurbjörn Svavarsson
- Emil Örn Kristjánsson
- Johnny Bravo
- Jón Finnbogason
- Rýnir
- Þórarinn Baldursson
- P.Valdimar Guðjónsson
- Már Wolfgang Mixa
- Ívar Pálsson
- Júlíus Björnsson
- Guðjón Baldursson
- Baldur Fjölnisson
- Ingibjörg Álfrós Björnsdóttir
- Einar Ólafsson
- Sigríður Jósefsdóttir
- Vilhjálmur Árnason
- gummih
- Sveinn Tryggvason
- Helga Kristjánsdóttir
- Jóhann Elíasson
- Baldur Hermannsson
- Kristinn D Gissurarson
- Magnús Jónsson
- Ketill Sigurjónsson
- Birgitta Jónsdóttir
- Axel Jóhann Axelsson
- Þorsteinn Helgi Steinarsson
- Aðalsteinn Bjarnason
- Magnús Þór Hafsteinsson
- Erla Margrét Gunnarsdóttir
- Sigurður Sigurðsson
- Þorsteinn H. Gunnarsson
- Haraldur Pálsson
- Sveinbjörn Kristinn Þorkelsson
- Bjarni Benedikt Gunnarsson
- Jakobína Ingunn Ólafsdóttir
- Ægir Óskar Hallgrímsson
- Helgi Kr. Sigmundsson
- Óskar Sigurðsson
- Tómas Ibsen Halldórsson
- Axel Þór Kolbeinsson
- Kjartan Pétur Sigurðsson
- Hörður Valdimarsson
- Adda Þorbjörg Sigurjónsdóttir
- Þorsteinn Valur Baldvinsson
- Margrét Elín Arnarsdóttir
- Ásta Hafberg S.
- Erla J. Steingrímsdóttir
- Helena Leifsdóttir
- Agný
- Brosveitan - Pétur Reynisson
- Jón Árni Bragason
- Jón Lárusson
- Högni Snær Hauksson
- Kristján P. Gudmundsson
- Kristinn Snævar Jónsson
- Sigurður Ingólfsson
- Rakel Sigurgeirsdóttir
- Sigurður Þórðarson
- S. Einar Sigurðsson
- Pétur Steinn Sigurðsson
- Vaktin
- Sigurjón Sveinsson
- Dóra litla
- Arnar Guðmundsson
- Jörundur Þórðarson
- Rafn Gíslason
- Hjalti Sigurðarson
- Kalikles
- Vésteinn Valgarðsson
- Bjarni Kristjánsson
- Egill Helgi Lárusson
- Gunnar Skúli Ármannsson
- Halldóra Hjaltadóttir
- Jón Pétur Líndal
- Guðmundur Ásgeirsson
- Reputo
- Gunnar Helgi Eysteinsson
- Sigurður Sigurðsson
- Ólafur Als
- Friðrik Már
- Gísli Sigurðsson
- Sigurður Einarsson
- Rauða Ljónið
- Sumarliði Einar Daðason
- Gísli Kristbjörn Björnsson
- Kári Harðarson
- Sigurður Antonsson
- Valdimar H Jóhannesson
- Rósa Aðalsteinsdóttir
- Dagný
- Guðmundur Pálsson
- Jakob Þór Haraldsson
- Birgir Viðar Halldórsson
- Magnús Ragnar (Maggi Raggi).
- Tíkin
- Jón Þórhallsson
- Íslenska þjóðfylkingin
- Erla Magna Alexandersdóttir
- Óskar Kristinsson
- Dominus Sanctus.
- Ingólfur Sigurðsson
- Jón Þórhallsson
Tenglar
Hraðleiðir
- www.tilveraniesb.net www.tilveraniesb.net Vefsetur Gunnars Rögnvaldssonar
- www.mbl.is
- Donald J. Trump: Blogg - tilkynningar og fréttir Donald J. Trump: Blogg - tilkynningar og fréttir
- Bréf frá Jerúsalem - Yoram Hazony Yoram Hazony er einn fremsti stjórnmálaheimspekingur Vesturlanda í dag
- NatCon Þjóðaríhaldsstefnan
- Victor Davis Hanson bóndi og sagnfræðingur Victor Davis Hanson er einn fremsti sagnfræðingur Vesturlanda í klassískri sögu og hernaði
- Bruce Thornton sagnfræðingur Bruce Thornton er sagnfræðingur - klassísk fræði
- Geopolitical Futures - geopólitík Vefsetur George Friedmans sem áður hafi stofnað og stjórnað Stratfor
- Strategika Geopólitík
- TASS
- Atlanta Fed EUR credit & CDS spreads
- N.Y. Fed EUR charts
- St. Louis Fed USD Index Federal Reserve Bank of St. Louis - Trade Weighted U.S. Dollar Index: Major Currencies
- Atvinnuleysi í Evrópusambandinu núna: og frá 1983 Atvinnuleysi í Evrópusambandinu núna: og frá 1983
Þekkir þú ESB?
Greinar
Lestu mig
Lestu mig
• 99,8% af öllum fyrirtækjum í ESB eru lítil, minni og millistór fyrirtæki (SME)
• Þau standa fyrir 81,6% af allri atvinnusköpun í ESB
• Aðeins 8% af þessum fyrirtækjum hafa viðskipti á milli innri landamæra ESB
• Aðeins 12% af aðföngum þeirra eru innflutt og aðeins 5% af þessum fyrirtækjum hafa viðskiptasambönd í öðru ESB-landi
• Heimildir »» EuroChambers og University of LublianaSciCenter - Benchmarking EU
Bækur
Á náttborðunum
-
: EU - Europas fjende (ISBN: 9788788606416)
Evrópusambandið ESB er ein versta ógn sem að Evrópu hefur steðjað. -
: World Order (ISBN: 978-1594206146)
There has never been a true world order, Kissinger observes. For most of history, civilizations defined their own concepts of order. -
: Íslenskir kommúnistar (ISBN: ISBN 978-9935-426-19-2)
Almenna bókafélagið gefur út. -
Velstandens kilder:
Um uppsprettu velmegunar Evrópu
: - Paris 1919 :
- Reagan :
- Stalin - Diktaturets anatomi :
-
Penge
Ungverjinn segir frá 70 ára kauphallarreynslu sinni
: -
: Gulag og glemsel
Um sorgleik Rússlands og minnistap vesturlanda - Benjamín H. J. Eiríksson :
- : Opal
- : Blár
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.12.): 12
- Sl. sólarhring: 72
- Sl. viku: 428
- Frá upphafi: 1389048
Annað
- Innlit í dag: 6
- Innlit sl. viku: 244
- Gestir í dag: 6
- IP-tölur í dag: 6
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- September 2024
- Júní 2024
- Apríl 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Júlí 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Apríl 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Febrúar 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008