Leita í fréttum mbl.is

Lætur fólk í friði en hjálpar því í nauð

Þegar þetta er skrifað sitja stjórnvöld í Bandaríkjunum á fundum. Þau eru að setja saman pakka sem á að forða amerísku þjóðfélagi og restinni af heiminum frá frekari skaða af völdum kreppu í fjármálakerfi Bandaríkjanna og raunar alls heimsins í heild.

Ben S. Bernanke - formaður seðlabankastjórnar Bandaríkjanna

Í vikunni sem leið bjargaði bandaríski seðlabankinn stærsta tryggingafélagi heimsins undan þeirri fjármagnsþurrð sem nú er búin að ríkja í stórum hluta heimsins frá því í ágúst á síðasta ári. Þetta tryggingafélag tryggði einnig skuldbindingar flestra evrópskra stórbanka. Ef til gjaldþrots hefði komið þá hefðu evrópskir stórbankar þurft að fjárvæðast á ný eða leita sér nýrra samstarfsaðila til að geta tryggt skuldbindingar sínar áfram. Ný fjárvæðing bankana hefði verið nær óhugsandi í því ástandi sem nú ríkir. Hvar hefðu þeir átt að sækja fjármagn?

En hvaða evrópsku stórbankar hefðu þurft að finna sér nýjan tryggingaraðila? Hefði það til dæmis getað orðið hinn þýski Deutsche Bank, sem núna hefur skuldbundið bankann fyrir kröfum sem nema um 2.000 miljarða af evrum, sem er meira en 80% af landsframleiðslu Þýskalands? Þetta er meira en Fannie Mae stóð fyrir. Eða breski stórbankinn Barclays sem hefur skuldbundið bankann fyrir meira en allri þjóðarframleiðslu Bretlands, 1.300 miljarða punda? Kanski hefði það getað orðið belgíski bankinn Fortis sem hefur skuldbundið bankann fyrir margfaldri landsframleiðslu Belgíu?

En hvernig hefði seðlabanki Þýskalands farið að því að bjarga Deutsche Bank? Með því að yfirtaka skuldbindingar Deutsche Bank? Láta þýska ríkissjóðinn um málið? Nei, það hefði ekki verið hægt því þá hefði rekstur ríkissjóðs Þýskalands þverbrotið alla stöðugleikasáttmála ESB. Svo það hefði alls ekki verið hægt, ekki einu sinni bara pínulítið hægt. En hvað hefðu Þjóðverjar þá getað gert? Orðið gjaldþrota? Nei varla. Hefðu þeir ekki bara hent kröfunum inn í seðlabanka Evrópusambandsins? Jú auðvitað. En hver borgar þær á endanum?

En vandamálið er bara það að seðlabanki Evrópusambandsins (ECB) er búinn að pumpa út fossi fjármagns í bankakerfi evrusvæðis á undanförnum mörgum mánuðum, gegn því að taka sumar eignir viðskiptabankanna sem veðtryggingu fyrir greiðann, og gegn miklum afslætti. En það er bara eitt vandamál í viðbót kæru lesendur. Þessar eigur ECB eru núna að rotna eins og víða er að gerast annarsstaðar, og munu því enda sem eiturefnaúrgangur eigna í bókhaldi evrópska seðlabankans, þ.e.a.s. ef allt fer ekki vel í Bandaríkjunum núna um helgina. Núna ríður því mikið á að Bandaríkjamenn standi sig í stykkinu fyrir skattgreiðendur í ESB.

Á meðan Bandaríkjamenn eru að funda um aðgerðir, þá hrannast upp skoðanir á vinstri og miðjuvæng stjórnmála sem segja: aha, aha, hvað sagði ég! Frjálshyggjan spilaði þarna rassinn úr buxunum!

En þá segi ég: frjálshyggjan undir stjórnartíð repúblikana undanfarin ár gékk alltaf útá einmitt þetta. Að láta fólk sem mest í friði en koma því svo til hjálpar í nauð, ef þörf krefur. Þetta er að gerast núna og ætti ekki að koma neinum á óvart. 

Forræðishyggjumenn í ESB ættu því að fara að biðja bænir sínar til Bandaríkjamanna, einu sinni enn, því það er ekki víst að þeir megni sjálfir að koma þegnum sínum til hjálpar því efnahagur ESB hefur dregst svo mikið aftur úr efnahag Bandaríkjamanna á undaförnum mörgum árum einmitt vegna forræðishyggju ESB hugmyndarinnar. En sjáum nú til hvað verður. Kanski hef ég rétt fyrir mér og kanski hef ég rangt fyrir mér. Ég vona svo sannarlega að eignasöfn evrópskra banka muni þola þann niðurtúr sem er í gangi á húsnæðismörkuðum víða í ESB, því það er ekki á vandræðin bætandi eftir að hafa keypt undirmálslána-mistökin af Bandaríkjamönnum, og það undir eigin ESB-forræði. Góðir sölumenn þeir þarna í Bandaríkjunum, en við lélegir kaupmenn hérna í ESB 

Kínverjar ættu einnig að fara með bænir sínar því hér er besti útflutningsmarkaður þeirra í húfi.

Allar stofnanir sem áttu að forræðast um þessi mál eru mannaðar með mönnum - og allir menn gera mistök. Stofnanir eru því menn og ekki æðri máttur. Þær geta forráðist eins og þeim sýnist, en þær verða aldrei betri en þeir menn sem eru þar innanborðs. Var einhver sem sagði að Bandaríkin skiptu okkur ekki máli lengur? 

Mun ECB ráða við vandann hérna megin Atlantsála ? Það vona ég svo sannarlega því þetta er mikið leiðindamál fyrir okkur öll.   


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Predikarinn  -  Cacoethes scribendi

Sæll kæri Gunnar.  Þökk fyrir góða samantekt. Gefur okkur minni spámönnum góða innsýn og skilning á þessu flókna (þó einfalda) gangverki.

Predikarinn - Cacoethes scribendi , 21.9.2008 kl. 19:31

2 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Takk fyrir innlitið Scribendi


Það kom til fjöldauppsagna hjá danska Saxo Bank hér í Danmörku í dag. Um það bið 1/3 af 1000 starfsmönnum var sagt upp á einu bretti. Seðlabanki Danmerkur tók yfir einn smá-bankann í viðbót í dag. Olíuverð hækkar um 25 USD á einu bretti. Þetta er mesta hækkun olíu á einum degi frá upphafi. Sem afleiðing fellur dollar 1,6% á einum degi. Þetta hlýtur því að kalla á að einverir skipti yfir í einhverja aðra mynt. Þá lagast þetta nefnilega allt saman, segja sérfræðingar.

Kveðjur

Gunnar Rögnvaldsson, 22.9.2008 kl. 19:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Gunnar Rögnvaldsson
Gunnar Rögnvaldsson

Búseta: Ísland.
Reynsla: 25 ára búseta í ESB og fyrirtækja-rekstur í DK/ESB frá 1985 til 2010. Samband:
tilveraniesb hjá mac.com

Ég er hvorki skráður á Facebook, Twitter, Linkedin né á neinum öðrum "félags-vefjum". Aðsetur skrifa minna er einungis að finna hér á þessari síðu og á tilveraniesb.net og í blöðum og tímaritum

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband