Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2011

Ríkisútvarpið finnur upp nýjan veruleika. Evrusvæðið orðið "hættusvæðið"

Kynningarbæklingur ferðaskrifstofu Sovétríkjanna
Mynd; upplýstur "upplýsingabæklingur" ferðaskrifstofu

Þið hafið eflaust hlustað á minnstu fréttastofu heimsins, hún er minni en Disneyútvarpið, en heitir samt Ríkisútvarpið. Undanfarna daga hafið þið heyrt þessa fréttastofu tala um "skuldavanda evruríkja". Þetta hugtak, "skuldavandi", er alfarið uppfinning fréttastofu RÚV. Umrædd evruríki skulda í sumum tilfellum það sama eða jafnvel minna en þau hafa gert undanfarna áratugi, án sérstakra vandamála.
 
Það sem hins vegar hefur gerst er það, að markaðurinn hefur að gefnu mikilvægu tilefni ákveðið að evrusvæðið sé ekki bara myntsvæði, heldur einnig hættusvæði. Peningalegt hættusvæði fyrir ríkin sem þar eru. Einnig lýðræðislegt hættusvæði, stjórnarfarslegt hættusvæði og stjórnmálalegt hættusvæði. Það eru þessar hættur sem markaðurinn er að verðleggja upp á ný og krefst nú miklu hærri áhættuþóknunar fyrir að lána til dæmis ríkissjóði Ítalíu peninga. Miklu hærri vaxta en krafist er af Íslandi með krónuna.    

Til skuldanna var stofnað, þeim viðhaldið og þær endurfjármagnaðar á röngum forsendum í skjóli myntar sem enginn vissi í raun hvað var, nema við evruefasemdarmenn. Við vissum þetta. 

Ítalía lét blekkjast af ESB-glingri og tók upp evru. Það hefði landið aldrei átt að gera því Ítalía gaf þar með frá sér hið peningalega fullveldi þjóðarinnar og stendur því algerlega varnarlaust nú. Landið getur ekki varist á neinn hátt. Það tók upp evru og gaf frá sér fullveldið í peningamálum. Ekkert kom í stað fullveldisins nema mynt sem er hættuleg þeim ríkjum sem nota hana. Hættumynt. Skaðvaldur.

Stundum hefur Ríkisútvarpið talað íslensku krónuna niður með því að segja að hún sé minnsta mynt veraldar. Það er ekki rétt. Margar myntir eru minni en íslenska krónan. Um það bil 90 hagkerfi heimsins eru minni en það íslenska. Mörg þeirra nota sína eigin mynt. Sum hagkerfi minni en það íslenska, hafa íbúatölu sem er allt að 14 milljón manns.

Ástæðan fyrir því að hver Íslendingur býr við 46 sinnum ríkara hagkerfi á hvern íbúa en til dæmis hagkerfi sem telur 14 milljón manns, er sú að Ísland varð sjálfstætt fullvalda ríki og hætti þar með að vera nýlenda. Og svo er einnig sú staðreynd að Ísland gekk aldrei í Sovétríkin á sínum tíma. Þó svo að margur kommúnistinn hér heima hafi óskað landi okkar þess. Eins og þeir óska Íslandi inn á evruhættusvæðið í hinum nýju Sovétríkjum Evrópusambandsins núna. RÚV er eitt og annað af þessu fólki.
 

Evruaðild Ítalíu lokar á fjármögnun ríkissjóðs landsins

Skuldir ríkissjóða nokkurra landa sem hlutfall af landsframleiðslu þeirra
 
Því hefur margsinnis verið haldið fram hér á landi að aðild að næturmyntklúbbi Evrópusambandsins í reykfylltum bakherbergjum víðs fjarri og sem lengst frá kjósendum evruríkja, ali af sér sérstaka uppsprettu lánsfjármagns á þeim vildarkjörum sem komið hafa Grikklandi, Portúgal og Írlandi inn á gjörgæslu Alþjóða Gjaldeyrissjóðsins, sem er undir næstum fullri yfirumsjón setuliðs Brussels og seðlabankalings Evrópusambandsins

Nýtt land hefur nú bætst í hóp hinna heppnu sem dansa naktir um sviðin svið næturmyntklúbbs Evrópusambadnsins. Þetta land heitir Ítalía. Hún skuldar nákvæmlega jafn mikið og hún gerði þegar hún gekk í myntklúbbinn, dansaði þar og tók svo upp evru. Reyndar dönsuðu öll löndin sama súludansinn sem dáleiddi alþjóðlega fjárfesta svo, að fé þeirra sat um tíma ekki nærri eins fast og það áður hafði gert. En nú hafa ljósin verið kveikt, gardínur dregnar frá og við blasir fjársvikamylla evrulanda liggjandi á dansgólfinu umhverfis súluna. Fullir öskubakkar í yfirfylltu húsi tómra pizzukassa blasa við umheiminum. Og eldar loga. Ítalía getur því ekki lengur fjármagnað ríkissjóð landsins því fjárfestar treysta sér ekki lengur til að takast á við þær dansmeyjar klúbbsins sem nú eru í sviðsljósinu

Heitasta ósk margra Íslendinga er að komast í kynni við dansmeyjar evruklúbbsins. En þeir vilja þó ekki ganga svo langt að taka þær alveg í eina sæng. Þeir biðja því bara um að vissum hluta "samstarfsins" sé einungis kastað beint í bólstað. Þolin mæði þeirra er að verða alþekkt

Fregnir berast einnig frá Danmörku um að þar séu bankar að miklu leyti hættir að lána út peninga, því aðgengi þeirra að alþjóðlegum peningamörkuðum sé svo gott sem lokað og læst. Þeir kjósa því að halda efnahagsreikningi sínum á floti með því að sitja sem fastast á þeim peningum sem þeir hafa að láni frá þeir sem lögðu þá inn í skjóli ríkisábyrgða frá bankapakka númer eitt, tvö, þrjú, fjögur og kannksi fimm.

Magnað: Jón Leifs, íslenskir þjóðdansar og tveir söngvar

Í flutningi Synfóníuhljómsveitar Íslands

Hvað segið þið við þessu? Þetta er hreint ótrúlegt, finnst mér. Sjá einnig; Hljóðrit Jóns Leifs (til dæmis; Litla Jörp með lipran fót)

Og svo tveir söngvar hér . . 

Synfóníuhljómsveit Íslands og Ingveldur Ýr Jónsdóttir


Danmörk á eyðimerkurgöngu í Evrópusambandinu

Efnahagshorfur Danmerkur eru svartar samkvæmt nýrri skýrslu ráðs hinna vísu manna þar í landi. "Vismandsrapporten", svo kallaða, er nýútkomin og hún er ekki skemmtileg lesning. Í besta falli stendur Danmörk frammi fyrir þurri eyðimerkurgöngu án nokkurs vaxtar og í versta falli stendur Danmörk frammi fyrir nýrri djúpri kreppu sem mun leiða til enn verra atvinnuástands og þar af leiðandi sögulegs halla á rekstri ríkisins, sem er ekki nein smásmíði þar í landi. Ásæðan er bundin tilvera landsins við Evrópusambandið og þess sem þar fer fram og ekki fram. 

Atvinnuleysi í Danmörku mælist nú 7,1 prósent og er þetta 5,4 milljón manna ESB-ríki nú með 830 þúsund Dani á vinnualdri á fullri framfærslu hins opinbera. Ofaní þá tölu koma 1,2 milljón ellilífeyrisþegar og síðan allir hinir mörgu opinberu starfsmenn, sem engu hafa nokkru sinni bjargað, námsmenn og börn. Allt þetta hvílir á herðum þeirra fáu skattpíndu Dana sem búa til verðmætin sem afla tekna í soltinn kassa ríkisins. Ofaní þetta bætist svo við fasteignamarkaður í frjálsu falli sem mun ekki botna á næstu árum, samkvæmt skýrslu ráðsins.

"Þetta er hræðileg efnahagsleg staða sem við erum í og horfurnar eru mjög neikvæðar. Við getum ekkert aðhafst sem komið getur efnahag okkar á rétta braut á ný. Enda nefnum við þann möguleika ekki. Við fjöllum aðeins um hvað hægt er að gera til að þrauka af", segir Nína Smith sem er einn af sérfræðingum ráðsins og prófessor í þjóðhagfræði við háskólann í Árósum

Já: Svona er að missa öll völd yfir eigin málum og flest skörpu verkfærin úr kistunni. Gengið er farið, vaxtavopnið er farið, peningapólitíkin er farin, ráðrúm og virkni ríkisfjárlaga er farið. Öll verkfærin sem stuðlað geta að hagvexti og bata hafa verið afhent til foringjaráðs Evrópusambandsins í Brussel. Trésmiðir sem mæta á vinnustað með tóma verkfærakistu eru ei líklegir til stórræðanna.

"Hvernig á maður að geta skapað vöxt án verkfæra", sagði prófessor einn við Copenhagen Business School um daginn (tískunafn yfir viðskiptaháskólann í Kaupmannahöfn)
 
Tvær krækjur;

17 ríkja miðilsfundur evrusvæðis [u]

Grikkland settist í gærkveldi niður við borðið á miðilsfundi gjaldsins sem samanstendur af súrkáli og osti. Þetta er hlaðborðið sem Samfylkingin þráir svo heitt. Grikkland hafði í gær tilkynnt umheiminum að þetta fullhlaðna spregnjuklára evruríki hyggðist halda svona eins og eina þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort eyðileggja ætti landið alveg með þeim Hans & Grétu þensluskapandi niðurskurðaraðgerðum sem súrkálið í ostasósunni hefur krafist að framkvæmd verði á lýðveldi Grikkja

Hefst nú miðilsfundur evrulanda og orðfærandi súrkálið á ostapylsunni fær auðvitað eina orðið sem til er, og það fyrirskipar yfir andaglasinu sitjandi Grikklandi um hvað hin svo kallaða þjóðaratkvæðagreiðsla í ríki Grikkja megi vera um. Hún má bara snúast um evruaðild Grikklands, sem án nokkurrar ráðfræslu við grísku þjóðina var troðið ofan í hana þegar gjaldmiðillinn í andaglasinu hófst á loft um aldamótin

Nú fá Grikkir loksins að kjósa um evruna sem búin er að eyðileggja landið. Vöggur lýðræðisins á miðilsfundi gjaldsins vagga sætt og rótt í öndunarvél Evrópusambandsins. Viðrekstrarkálið og ostaborgarinn hafa talað. 

Kálhausarnir í ríkisstjórn Íslands hljóta að fagna þessari lýðræðislegu niðurstöðu og samstundis tilkynna okkur að þeirra tími sé nú loksins kominn. Grikkland er orðið skjaldborgari
 
Síðasta þjóðaratkvæðagreiðsla sem haldin var í Grikklandi var haldin árið 1974. Þá ákvað þjóðin að leggja niður konungsembættið. Í þjóðaratkvæðagreiðslunni þar á undan, 1973, var ákveðið að leggja konungsveldið niður og stofna lýðveldi. Í þjóðaratkvæðagreiðslunni þar á undan, 1968, samþykktu 92% kjósenda nýju stjórnarskrá herstjórnar Grikklands. Síðan 1974 hafa ekki verið haldnar neinar þjóðaratkvæðagreiðslur í Grikklandi
 
Uppfært kl 18:17; það verður engin þjóðaratkvæðagreiðsla haldin í Grikklandi. Henni er hér með aflýst, herma nýjustu fréttir úr varðskýli vöggustofu lýðhræðslunnar í ESB. Þessi frá 1974 er því enn sú síðasta.

Vangaveltur um herstjórn í Grikklandi

Samkvæmt upplýsingum úr pappírssafni varnarmálaráðherra Grikklands, Panos Beglitis, hefur fjórum af æðstu yfirhershöfðingjum í gríska hernum verið skipt út með nýjum mönnum. Þetta segir franska blaðið Le Figaro. Blaðið hefur eftir sérfræðingum að þetta gerist oft þegar ríkisstjórnir óttist að þær séu í yfirvofandi fallhættu og séu því í hraði að reyna að setja síðasta fingrafar sitt á herinn áður en þær missa völdin. Tímasetningin og atburðarásin sé hins vegar þannig að meira hafi þó í raun legið hér undir steinum. Á Le Monde bloggi sínu segir Georges Ugeux að gríska ríkisstjórnin hafi hér í raun verið að reyna að koma í veg fyrir valdatöku hersins, en tekur þó fram að þetta séu einungis hans eigin vangaveltur.
 
Sjá einnig bloggfærslu Einars Björns Bjarnasonar um sama efni.
 
Fyrri færsla
 

Pólitísk áhætta ræður ríkjum á Evru-Víetnamsvæðinu

Evrusvæðið nötrar og skelfur vegna þeirra skelfinga sem myntbandalag Evrópusambandsins hefur fært Evrópu og heiminum öllum. Norður-Evru-Víetnam á móti Suður-Evru-Víetnam er landslag sem öllum er að verða kunnugt. Flest er orðið mun verra í Evrópu eftir að pólitískum áhrifamönnum úr elítu ESB í Brussel og aðildarlöndunum tókst að troða geðklofinni pólitískri mynt Evrópusambandsins eins og handjárnum upp á 17 þjóðir Evrópu. Neyðarástand ríkir nú í Evrópu af völdum myntarinnar. Fjármálamarkaðir heimsins finna 1931 lyktina frá 2011 Kreditgaleanstaltinu í Evrópu.
  • Evran fallin um 5 prósent á nokkrum sólarhringum
  • Þýski Deutsche Bank‎ fallinn sem spýta um 9 prósent bara í dag
  • Franski Societe Generale um rúmlega 17 prósent í dag
  • Franski BNP Paribas (PAR)‎ um tæp 13,5 prósent í dag
Bandaríkin, þó ljót séu, eru öruggasti staður í heiminum.

Rauða herdeildin
Atvinnumálaráðherra Ítalíu, Maurizio Sacconi, aðvarar land sitt vegna þeirra fyrirskipana sem Silvio Berlusconi bárust í bréfi frá seðlabankaríkisstjórn Brussels um að umbylta í hvelli atvinnumarkaði Ítalíu. Sacconi segir að þetta geti sett bylgju hryðjuverka af stað í landinu á ný. Einhver hér sem man eftir rauðu herdeildinni (the red brigade)? Hún gæti kannski tekið sér nýtt nafn: blágula herdeildin.

Setulið Evrópusambandsins í Aþenu sá rautt þegar neista af lýðræði sló niður í Grikklandi með því að imprað var á hugsanlegu þjóðaratkvæði um eitthvað sem enginn veit enn sem komið er hvað er eða hvort verður. 

Nýjustu spekúlasjónir í evrurústum Evrópusambandselítunnar ganga út á það að Silvio Berlusconi geti fundið upp á því að hoppa út úr evrunni og endurnefna skuldir landsins í lírum þegar bankakerfið er undir áhlaupi. Að Ítalía sé eina landið sem gæti þetta vegna þess að megnið af eigendum ríkisskulda landsins eru hvort sem er búsettir í ítalska hagkerfinu.
 
Svarti pétur færist nær og nær Þýskalandi - og Austurríki líka sem skreið yfir 10 prósent líkum á ríkisgjaldþroti á skuldatryggingamörkuðum í dag. Næsta skref fyrir Austurríki, nú þegar með nokkra þjóðnýtta evru-banka í maganum, eru 25 prósent líkurnar á ríkisgjaldþroti.
 
Ný Marshall áætlun þyrfti að fara í smíði handa Evrópu eftir ESB 

Ekki annað hægt en að dást að Silvio í Ríki Ítalíu

393px-Silvio_Berlusconi_(2010)
 
Eitt sinn, fyrir all mörgum árum, stóð ég á hallandi eldhúsgólfinu í ríki Dana og var að elda ég man ekki hvað, sem varla voru makkarónur. Í útvarpinu var verið að fjalla um Ítalíu og Silvio Berlusconi. Maðurinn sem talaði bjó alfarið á Ítalíu og var að útskýra fyrir Dönum hvers vegna Silvio Berlusconi væri "eina von Ítalíu". Þá fór ég að leggja dýpri hlustun á viðtækið. Maður hafði jú heyrt sitt af hverju. "Ef hann stýrir fjölmiðlunum, hvers vegna tala þeir þá svona illa um hann alla daga", sagði maðurinn. Hann sagði líka margt fleira fróðlegt um stjórnmálin á Ítalíu.

Í dag er það að segja að í Ríki Ítalíu gerist ennþá sitt af hverju - og líklega mest vegna Silvio. Kannski hafið þið heyrt um bréfið sem hann fékk frá ríkisstjórn seðlabanka Evrópusambandsins í Frankfurt. Það hefur lítil áhrif haft á manninn Silvio. Ennþá er kurteislega tekið við öllu sem frá seðlum bankans kemur, en ekkert er samt gert sem glatt getur fólin í turni hans, nema þykjustan. Það er ekki hægt annað en að dást að manninum sem Brussel er að reyna að þvinga til að fremja trúarathöfn Evrópusambandsins á Ítalíu, sem kallast Hans & Grétu þensluskapandi niðurskurðaraðgerðir (e. Emu's Expansionary Austerity Fairy Tail Ritual).

Þessi athöfn fer fram svona; þú stingur hníf í hagkerfið og býst við að blæðandi hag þess vaxi kraftur. Þegar árangurinn kemur til þín í formi hrynjandi landsframleiðslu, minnkandi tiltrú markaðarins, versnandi lánskjörum og súgþurrkun skattatekna ríkisins, þá endurtekur þú athöfnina þangað til kenning Einsteins um heimsku mannanna er að fullu sönnuð. Svona fara Hans & Grétu þensluskapandi niðurskurðaraðgerðir Evrópusambandsins fram.

En hér segir Silvio í Ríki Ítalíu að þetta sé rangt: það sé ekkert að í sjálfu Ríki Ítalíu annað en það að landið sé með svo lélega mynt sem heitir evra og það sé hún, já hún, sem sé að eyðileggja forsendur tilvistar Ítalíu á lánsfjármörkuðum. Það sé sjálfri myntinni að kenna að vaxtakjör ríkissjóðs Ítalíu á 10 ára bréfum séu komin yfir sex prósentin. Sem er alveg þráðbeint hárrétt hjá Silvio.

Þess vegna hefur Silvio ekki hugsað sér að gera neitt sem glatt getur fólin í púðurkökuhúsi seðlabanka Hans & Grétu, né þeirra í Brusselgarði. Þetta mál með ömurlegt aðgengi Ítalíu að alþjóðamörkuðum fjármagns, hefur Sivlio hugsað sér að leysa með því að biðja skuldastofu ítalska ríksins um að gangsetja on-line viðskiptakerfi á netinu með ríkisskuldabréf Ítalíu; ætlað heimilum og fyrirtækjum landsins. Sådan! Ekki er enn vitað hvort boðið verður upp á heima-partý kynningu líka. Þau gætu farið þannig fram að flottur maður með skjalatösku kemur og raðar bréfum ríkissjóðs á borðstofuborðið, sem þannig gætu orðið miðpunktur fegurðarsamkvæmis ríkissjóðs á heimilum landsmanna. Athyglisvert. 

Þetta kallar á virðingu. Og svei mér ef þetta tekst ekki bara aldeilis ágætlega hjá Silvio. En það verður fróðlegt að fylgjast með viðbrögðum Hans & Grétu í Berlín.


« Fyrri síða

Höfundur

Gunnar Rögnvaldsson
Gunnar Rögnvaldsson

Búseta: Ísland.
Reynsla: 25 ára búseta í ESB og fyrirtækja-rekstur í DK/ESB frá 1985 til 2010. Samband:
tilveraniesb hjá mac.com

Ég er hvorki skráður á Facebook, Twitter, Linkedin né á neinum öðrum "félags-vefjum". Aðsetur skrifa minna er einungis að finna hér á þessari síðu og á tilveraniesb.net og í blöðum og tímaritum

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband