Leita í fréttum mbl.is

Sveik NATO Rússland?

SUNNUDAGUR

Svik?

Sumir segja það, því þegar verið var að reyna að komast til botns í því hvað fyrirvara- og umsvifalaust fall Sovétríkjanna myndi hafa í för með sér, þá minna sumir okkur á að Vesturveldin lofuðu því að Rússland þyrfti ekki að óttast NATO í túnfæti sínum. Í leiðinni má minna á að Helmut Kohl lofaði Bandamönnum því að þýsku löndin tvö, yrðu ekki eitt sameinað ríki, heldur ríkjasamveldi

Útópía

En hvað gerðist svo. Jú hin gamalkunna útópía bjartsýnismanna tók við. Nú átti hinn eilífi-friður, frelsandi og pelsklæðandi hnattvæðing að taka við og Kína skyldi meira að segja einnig mótað til, samkvæmt útópíu hins nýja eilífðar-friðar. Evrópusambandið notaði tækifærið til að breyta sér úr tollabandalagi í yfirríki, og fékk til þess verks hluta úr gömlu stjórnarskrá Sovétríkjanna að láni, þar sem kommúnismi var hið eina löglega lífsskipulag, innan landamæra þess ríkis. Evrópusambandið breytti þeim köflum hennar í að; innan hins nýja Evrópusambands væri það Evrópu-samruni sem væri hið eina löglega lífsskipulag innan landamæra þess. Að ýmsu öðru leyti var stór hluti sovéska réttakerfisins tekinn upp í ESB og hæstiréttur þeirra líka. Þetta ferli endaði sem Maastrichtsáttmálinn, sem aðeins 51 prósent Frakka samþykktu. Það var þarna sem flestir kommar Evrópu stukku um borð í ESB, því verandi þeir kerfiskarlar sem þeir eru, þá sáu þeir þarna mikla og nýja möguleika komandi ESB-ofríkis í nýju ljósi. Í ljósi nýs totalitarian alræðis með gúrkuaðferð. Allt þetta vissu og skildu ekki þau lönd í Austur-Evrópu sem flúðu öskrandi þegar Sovétríkin hrundu. Þau vildu því ganga í Evrópusambandið. En þau skilja þetta samt núna, en komast að sjálfsögðu ekki út aftur

En svo kom það

En svo gerist þetta: Rússar drepa 300 þúsund manns í Téténíu, sem í tvígang reyndi að komast undan hinu nýja Sambandsríki Rússlands. Þetta skelfir löndin í Austur-Evrópu sem um þær mundir voru rétt svo að sleppa undan rússneskum áhrifum. Og þær ríkisstjórnir í Austur-Evrópu sem skildu og studdu ekki óskir og áhyggjur borgara sinna um aðild að varnarbandalaginu NATO, voru einfaldlega kosnar út. Þær voru kosnar frá völdum. Átti þá nýfenginn sjálfsákvörðunar-réttur þeirra kannski bara að vera upp á punt? Ég spyr. Þegar Jeltsin og Pútín ganga svona til verks heima hjá sér, hverju megum við þá ekki eiga von á hér heima, í túnfæti svona manna, hugsaði fólkið sem þekkti Rússland bara af slæmu. Segja má að sá svo kallaði fjölbreytileiki sem háskólareykt uxahalamenni dýrka á Vesturlöndum í dag, sé risavaxið vandamál í Sambandsríki Rússlands sbr. 300 þúsund manna slátrun í Tjéténíu. Og hamingja fjölbreytileikans í Sýrlandi sem Rússland hefur nú stokkið til að bjarga, er ekki beint það sem menn hoppa hæð sína af hamingju yfir þar. Sama má segja um Tyrkland sem hoppar ekki um af hamingju yfir því að hafa líka Kúrda í sínu ríki. Við skulum ekkert vera að minnast á sjálft Evrópusambandið í þessum efnum. Tölum frekar um fjölbreytileika í steinsteypu, til dæmis um hin yfirþyrmandi jákvæðu áhrif alkalívirkni sem beina afleiðingu fjölbreytileika

Hrunið

Og svo eru það Mið-Austurlönd: Það var múr Sovétríkjanna sem skildi að þau ríki. Það var sovéski múrinn frá Balkanskaga til Indlands sem hélt þeim ríkum aðskildum sem frosnum einingum. Og þegar hann féll rann ríkjaskipan þeirra inn í upplausnarferli sem ekki sér enn fyrir endann á. Við fall sovétmúrsins hófust íslamistar handa við að reyna að mynda jihadistaríki og kveiktu í Bandaríkjunum, til að reyna að efla samstöðuna um málstað sinn innan hins íslamíska heims. Bandaríkin brugðist við með því að reyna að koma á einhverskonar lýðræði eins og þau gerðu í Þýskalandi, Japan og Suður-Kóreu. Það mistókst að miklu leyti, en samt ekki að öllu. Staðan í Mið-austurlöndum er því enn frekar óbreytt. Tuggan um að Bandaríkin hafi "sáð þessum fræjum" er byggð á vanþekkingu. Varla eru menn búnir að gleyma innrás Sovétmanna í Afganistan á hátindi olíuverðs á aðfangadag jóla 1979. Þá stóð olíuverð í 110 dölum á 2013-verðlagi og Sovétmenn héldu að þeir gætu keypt heiminn. Svo tók verðið upp á því að hrynja viðstöðulaust næstu tíu árin. Þetta hrun olíuverðs átti stóran og oft vanmetinn þátt í hruni Sovétríkjanna tíu árum síðar. En olíuverðið heldur svo áfram að hrynja og skolar bæði Gorbachev og Jeltsin út á öskuhauga sögunnar og kallar Pútín til valda rétt fyrir aldamót. Vill svo til að þá byrjar olíuverð Eyjólfs að braggast og Vladímír Pútín ríður á hækkun olíuverðs frá árinu 2000 og fram til sumarsins 2014, þegar það byrjar að hrynja á ný, og er enn að hrynja í dag. Þarna klessir Rússland á vegg og hugsanleg innrás í Úkraínu verður að minnsta kosti að bíða betri tíma og olíuverðs. Peningarnir eru búnir í bili. Þetta er staða Rússlands í dag. Rússneski ríkiskassinn er er næstum tómur. Landið er hætt að geta greitt opinberum starfsmönnum laun, langt fjarri Moskvu og það sem verra er, það er hætt að geta sent lífsnauðsynlega peninga út í jaðrana (stuðpúðana). Alveg þveröfugt við Þýskaland, þá sendir Rússland aðstoðarfé út í jaðarríkin, á meðan Þýskaland mergsýgur sín jaðarríki í Evrópusambandinu

Móðgandi?

Hvort að þetta hafi verið móðgandi framkoma við Rússland, þetta með NATO-aðild Austur-Evrópu, er spurning sem á frekar lítinn rétt á sér. Rússar sviku alla samninga við alla í Síðari heimsstyrjöldinni. Það var til dæmis olía frá Rússum sem knúði loftárásir Nasista á Bretland. Rússland neitaði löndum Austur-Evrópu um að kjósa um sína eigin framtíð eftir stríð. Þá sögðu þau sínu eigin fólki, til heimabrúks, að þeir væru enn að berjast gegn fasisma Vesturlanda í Evrópu, vel vitandi það að Nasistar voru ekki fasistar heldur sósíalistar. Rússum féll illa að Bandaríkin og Bretland skyldu bjóða Þýskalandi og Ítalíu sem nýjum vinum inn í samfélag vestrænna þjóða og fyrir að þvinga Frakka til að samþykkja það. Fyrri heimsstyrjöldin hafði nær kostað Frakkland lífið, og enginn hirti um að standa með hamar yfir Þýskalandi í kjölfar Versalasamninganna. Því fór sem fór. Bandamenn hefðu átt að setjast ofna á Þýskaland þá og láta það éta Weimarlýðveldi næstu 80 árin. Fara alla leið til Berlínar. Þess vegna kom ekkert annað til greina í Síðari heimsstyrjöldinni en skilyrðislaus uppgjöf og hernám

Landfræðilegar staðreyndir lífsins

Rússland verður alltaf Rússland, því það getur einfaldlega aldrei orðið annað en það sem landfræðileg staðsetning landsins þvingar það til að vera. Rússland er hart, landlæst og risavaxið ríki sem mun aldrei geta notað stóran hluta landsvæðis síns til neins annars en sem stuðara, því Rússland skortir náttúrleg landamæri, sérstaklega í suðri og vestri. Síberíu er haldið sem óplægðu feni til að torvelda innrásarherjum yfirferð til Moskvu. Dreifing matvæla í þessu tröllvaxna ríki er næstum ómöguleg sökum víðfeðmi og innviða sem geta ekki orðið góðir sökum skorts á náttúrulegum landamærum. Þeim verður að halda fumstæðum og litlum, svo að illa gangi fyrir innrásarheri að komast fram. Rússland á mörgum sinnum auðveldara með að flytja út matvæli til annarra landa en að fæða og klæða sína eigin borgara fjarri Moskvu, sökum innvortis fjarlægða á vísvitandi lélegum innviðum. Og að stjórna þessu ríki pólitískt séð, er ekki hægt nema með terror, hörðu eftirliti og litlu frelsi, sem kallar á enn meiri terror til að koma í veg fyrir að heilu stuðarasvæðin í jöðrum Rússlands yfirgefi ríkið. Það er náttúran sem mótar rússneskt stjórnarfar og lítið annað

Dæmi

Sem einstakt útskýringardæmi er hægt að taka Bandaríkin. Ef að landnámsmenn hefðu komið að því landi úr vestri, Kyrrahafsmegin, þá hefðu þeir rekist beint á hin hrikalegu Klettafjöll. Sú ríkisstjórn sem þar hefði myndast og mótast hefði þurft að vera miklu harðari og óvægari sem stjórnvald í þannig landfræðilegum aðstæðum. Vatnsskortur, eyðimerkur, illa klífanlegir fjallgarðar og harðneskja kallar á harða ríkisstjórn. En Bandaríkin voru sem betur fer numin frá austri til vesturs. Stigið er á land sem er opið og að stórum hluta til siglanlegt á ofboðslegum og lygnum fljótum. Stigið er svo að segja beint inn í stærsta samhangandi og frjósamasta landbúnaðarsvæði jarðar í einu ríki, sem er svo stórt og gjöfult að það eitt og sér gæti brauðfætt allan heiminn í dag. Bóndi inn í miðju landi, þúsundum kílómetra frá sæ, getur skipað afurðum sínum út til annarra landa, ef honum þóknast það. Meira en sex hundruð milljón tonn eru flutt um þessi 40 þúsund kílómetra löngu siglanlegu fljót á ári, fyrir bara smábrot af því sem það kostar með járnbrautum. Lengd siglanlegra fljóta Bandaríkjanna er meiri en lengd allra annarra siglanlegra fljóta heimsins samanlagt. Allar ár renna í réttar áttir, til sjávar úthafa, og einstaklingsfrelsið blómstrar því Bandaríkin eru eyja, með bæði Atlantshaf og Kyrrahaf sér til varnar og verndar. Þau eru því örugg og með veika og milda ríkissstjórn eins og sést svo vel í dag. Það eina sem koma þurfti stjórn á var Karabíska hafið. Ef að norður-endinn á Bandaríkjunum væri ekki einn risavaxinn frosinn tappi, þá væri Kanada ekki sjálfstætt ríki í dag. En vegna þessa frosna norðurenda, fær Kanada meira að segja að tala frönsku í einu fylki. Annars myndi ríkisstjórn Kanada ekki heimila slíkt. Kanada er ríkt vegna þess að það er vinur Bandaríkjanna og Ísland er ríkt vegna þess að það er vinur Bandaríkjanna. Og Rússland er fátækt af því að það er staðsett þar sem það er. Og það er oftast óvinur of margra, vegna landfræðilegrar legu þess. Þar er allt frosið fast mestan hluta ársins og landið er of norðarlega staðsett fyrir of margt, og flest fljót þess renna til vitlausra staða

Hart kallar á hart

Rússland verður aldrei annað en Rússland, vegna þess að það er staðsett þar sem það er. Þetta þarf að virða, því landið verður aldrei annað en það sem það er í dag; harðstjórnarríki. En þau ríki sem búa við hlið Rússlands verður landið einnig að virða. Og Rússland þarf að muna að það var fyrir tilstilli Bandamanna að þeir urðu stórveldi á sínum tíma. Geopólitísk staða Rússlands árið 1945, var bein afleiðing stuðnings og trausts Bandaríkjanna og Bretlands. Og Síðari heimsstyrjöldin var að miklum hluta til bein afleiðing svika Rússlands. Þeir sviku bestu banamenn sína og þeir sviku sitt eigið fólk. Ávallt þarf að mæta hörðu Rússlandi með hörðu. Annars tekur útópían völdin og milljónir manna missa frelsi sitt og líf. Hið sama á við um Stór-Þýskaland. Hin gamla pólitíska villimennska Þýskalands sést nú þegar á Evrópu í dag. Sú staða hefði þótt óhugsandi á tímum Margrétar Thatcher. Algerlega óhugsandi. Þess vegna kemur friðþægingarstefna af hálfu Vesturlanda gagnvart Rússlandi ekki til greina. En það var þannig stefna sem gaf Þýskalandi banvænar hugmyndir í aðdraganda Síðari heimsstyrjaldarinnar. Aðeins öflugur fælnimáttur kemur í veg fyrir að ríki fái þannig hugmyndir

Fyrri færsla

Pantaðir þú þessa jarðýtu? 


Bloggfærslur 9. september 2018

Höfundur

Gunnar Rögnvaldsson
Gunnar Rögnvaldsson

Búseta: Ísland.
Reynsla: 25 ára búseta í ESB og fyrirtækja-rekstur í DK/ESB frá 1985 til 2010. Samband:
tilveraniesb hjá mac.com

Ég er hvorki skráður á Facebook, Twitter, Linkedin né á neinum öðrum "félags-vefjum". Aðsetur skrifa minna er einungis að finna hér á þessari síðu og á tilveraniesb.net og í blöðum og tímaritum

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband