Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2017

Auðvitað er NATO úrelt - eins og það er núna

Mikið, ákaflega flott og tilætlað fjaðrafok í kjallaraholum meginlands Evrópu hefur orðið vegna ummæla Donalds Trump um NATO. Hann segir að NATO sé úrelt. Þrjú orð: NATO er úrelt og menn svitna í ESB. Svitna bókstaflega

En það er ekki þar með sagt að hann hafi sagt að sjálft hlutverk NATO sé úrelt. Hann er að segja að NATO eins og það er núna, er ófært um að gegna því hlutverki sem það á að gegna í þerri stöðu sem ríkir núna. Og sú staða er einungis algerlega dæmigerð. Hún er á engan hátt einstæð né hvað þá sérstæð

Menn hafa beintengt NATO um of við (bölvunar) þróun Evrópusambandsins. En það samband hefur verið í upplausnarferli frá því að tilvist þess byrjaði að reyna á það. Það er vonlaus góðvirðisstofnun sem á engan hátt er hægt að tengja við NATO á neinn hátt. En samt hefur það verið gert. Og það er ekki gott. Það er slæmt

NATO sjálft hefur engan her. Það eru meðlimir þess sem hafa her, en það eru í reynd einungis Bandaríkin og Bretland sem hafa raunverulegan her. Hvort að Frakkland er með eða ekki með, veit enginn fyrir víst fyrir utan sex mánaða fyrirvara

Grundvöllur NATO eru útgjöldin sem skapa bandalagið. Og útgjöldin koma frá fullvalda ríkjum sem vilja verjast. Bandaríkin borga 650 milljarða dala af grundvelli NATO sem í heild er 900 miljarðar á verðlagi ársins 2016. Bretland borgar 60 milljarða dala. Kanada borgar 16 milljarða dala. Restin af öllu NATO, þ.e allt meginland Evrópu, borgar 170 milljarða dala. Bandaríkin, Kanada og Bretland halda NATO uppi með því að borga 80,5 prósent af þeim útgjöldunum sem mynda afl NATO - og sennilega borga þau 200 prósent af getu þess inn í framtíðina. Það er að segja: 430 milljón manns á meginlandi Evrópu borgar svo að segja mjög mjög lítið og Ísland borgar að því ég best veit ekki neitt, sem er alger skandall, ef rétt er. Við eigum að minnsta kosti ekki neitt okkur til varna nema loft

Við Íslendingar erum næstum því að helmingi til jafn fjölmenn þjóð og Ísraelsríki var við stofnun þess 1948 og sem barðist þá eitt fyrir sjálfstæði sínu gegn fimm ríkjum samtímis og sigraði: Egyptalandi, Jórdaníu, Írak, Sýrlandi og Sádi Arabíu. En við! já við, eigum ekkert til að verjast með; ekkert! Við getum ekki einu sinni löggað loftrými okkar. Þetta er svo skammarlegt að varla er hægt að segja neinum manni frá þessu. Við ættum nú þegar að hafa fjórar væng-stöðvar á landinu til að lögga lofthelgi okkar með orrustuþotum. En hér er bara hola ofan í jörðina. Tóm hola. Af hverju er þetta svona aumingjalegt!

Ef ég væri Donald Trump þá myndi ég hugsa svona: Helsta ríkið á meginlandi Evrópu er Þýskaland. Þetta ríki þykist eiga Evrópu núna, en gallinn við þetta ríki er að það er svarthol. Og það er ekki hægt að byggja sólkerfi umhverfis svarthol. Það hagar sér þannig. Og af hverju slær þetta ríki þá ekki einnig eignahaldi sínu á vandamál meginlandsins og leysir þau með því að borga fyrir þau. Af hverju hefur meginland Evrópu ekki séð um varnir á austur"strönd" þess, gagnvart Rússum?, sem þess utan eru á brauðbótum eins og er. Af hverju ver Þýskaland ekki Austur-Evrópu gegn Rússlandi? Hvað er að? Jú það sem í raun og veru er að, og þegar til kastanna kemur, er að Þýskaland veit ekki í hvorn fótinn það á að stíga. Það hefur í reynd gamla drauma um að stofna stórveldi saman með Rússlandi, sem storkað getur Bandaríkjunum á veraldarvísu. Þýskaland er geðklofið ríki í þessum málum og það er fæðingargallað 1871-veldi sem enn er að ryðja sér til rúms á meginlandinu, með mestmegnis ömurlegum afleiðingum. Það er enn óþekkt stærð. Og vegna þessa, þá eru það auðvitað ennþá Bandaríkin sem eru ábekingur Austur-Evrópu, en ekki NATO. Allar þær varnaraðgerðir sem gripið hefur verið til í Austur-Evrópu eru á beinum vegum Bandaríkjanna sjálfra og Intermarium ríkjanna (Pilsudski), en ekki NATO, þar sem einróma samþykki allra meðlima þarf til aðgerða

Vegna þessa mun ég, Donald Trump, senda shock, awe og terror skilaboð til meginlands Evrópu og henda mönnum þar sofandi úr söðli sínum. Hrista upp í aulaveldi Evrópu og sjá hvað gerist. Í leiðinni vil ég helst losna við Evrópusambandið sem stofnun, því það stendur í vegi fyrir því að NATO geti orðið það sem það var, og ESB býr samtímis til vandamál sem eru óleysanleg

.."the right of all peoples to choose the form of government under which they will live" - sáttmálaörkin frá 1941

En NATO var frá meira en upphafi þess varnarbandalag fullvalda ríkja - þið munið þetta kannski enn; Atlantshafssáttmálaörk (e. Atlantic Charter) Roosevelts og Churchills frá árinu 1941, sem um borð í skipi á flóa við Nýfundnaland, meitluð var í þeirra daga steintöflur sem staðfesting á Gamla testamentinu um þjóðfrelsið. Hófst þar með samstillt barátta bandalags frjálsra fullvalda þjóðríkja gegn heimsveldi (imperial-state-hönnun) Adolfs Hitlers kanslara Þýskalands, sem var uber-imperialisti og ætlaði sér að ráða yfir öðrum ríkum og vera konungur yfir mörgum ríkjum og hneppa þjóðir þeirra í þrældóm. Þessum tilgangi NATO hafa hinir frjálslyndu, þ.e. imperíalistar nútímans, algerlega gleymt. Og það sem verra er; hinir "frjálslyndu" fatta ekki hvernig þeir eru orðnir sjálfir; þ.e. ný-imperíalistar

Eftir þessi ummæli Trumps, skemmti ég mér konunglega við að horfa á kínverja Evrópu, Þýskaland, svitna við að halda utanum illa feginn gróða sinn af því Evrópusambandi sem er að rústa Evrópu. En rústuð Evrópa þarf ekki NATO, hún þarf leiðtoga eins og Donald Trump til að byggja upp handfestu og staðfestu. Mann sem veður í gegnum sýnilega sem ósýnilega múra á hverjum andskotans degi og tekst það! Hann er líklega öflugasti leiðtogi sem Bandaríkin hafa átt síðan ég veit bara ekki hvenær. En auðvitað sjá menn það ekki núna, því þeir eru svo önnum kafnir við að baktryggja sjálfa sig gegn því að líta úr sem bjálfar, ef leiðtoganum skyldi nú ekki takast það sem takast þarf: að byggja upp Vesturlönd á ný

Eins og James Mattis sagði: "Ef NATO væri ekki til í dag, þá yrðum við að finna það upp". Já, NATO er ekki til í dag. Trump er að finna það upp. Það gengur sennilega svona fyrir sig, subbulega

Stofnun Evrópusambandsins byggðist á því að láta sambandið líta út sem gjafabúð í augum asna til að verða ríkur á. Allir áttu að geta tekið út, en enginn átti að þurfa að leggja neitt inn. Þetta drasl er allt saman algerlega gjaldþrota í dag. ESB er búið að vera. Það er eitrað svarthol, stofnað til höfuðs fullvalda ríkjum. Út með það - og aftur inn með þá ríkjaskipan Gamla testamentisins sem Roosevelt og Churchill meitluðu út í stein og börðust svo hart fyrir; þjóðfrelsi og fullveldi þjóða. Ekkert annað afl en bandalag þeirra geta ráðið niðurlögum ófreskja. Án þeirrar ríkjaskipunar mun heimurinn fara aftur til fjandans

Fyrri færsla

Donald J. Trump segir satt


Donald J. Trump segir satt

Donald Trump að snæðingi 500 px

Um helgina birtist viðtal við Donald J. Trump í bresku dagblaði. Financial Times hefur birt glefsur úr því og þær hef ég séð, en þó ekki viðtalið í heild. Ég leyfi mér að líma hér inn smá:

Mr Trump told Mr Gove: "You look at the European Union and it is Germany. Basically a vehicle for Germany. That is why I thought the UK was so smart in getting out."

Trump segist vilja gera fríverslunarsamninga við Bretland. En Bretland er þó ekki fullvalda ríki af því að það er enn lokað og læst fast inni í Evrópusambandinu, en samt á leið út, og það getur því ekki og má ekki gera fríverslunarsamninga við önnur ríki á meðan það er enn læst ófullvalda og ósjálfbjarga inni í Evrópusambandinu. Það getur fyrst gert slíka samninga við Bandaríkin þegar fullveldi Bretlands er endurheimt með útgöngu þess af yfirríkislandsvæði Evrópusambandsins sem varð sjálfstætt ríki með tilkomu Marðarspelkusáttmálans 1992. Fyrst þá hefur fullveldi Bretlands endurheimst úr klóm ESB. Og með fullveldinu kemur rétturinn til samningagerða við önnur fullvalda ríki, en þó ekki við nein ríki Evrópusambandsins því þau eru, eins og áður er sagt, ei fullvalda, heldur bara krypplingar og húmbúkk-einingar í aulaveldi

Þetta er það sem Evrópusambands aulabárðar Íslands vilja að ástkæra og ylhýra landið okkar lendi í og þeir segja ávallt ósatt um málefnið. En sem Bjarni okkar formaður Sjálfstæðisflokksins stoppaði þá svo flott af í að geta. Þeir vilja að Ísland missi sjálfsákvörðunarréttinn aftur af því að þeir eru imperíalistar. Í dag eru það hinir svo kölluðu "frjálslyndu" sem eru imperíalistar heimsins. Þeir fara að gráta á 17. júní og þeir grenja úr sorg þann 4. júlí. Og þegar 14. júlí rennur upp, þá grenja þeir enn meira og tárin fossa stjórnlaust úr þeim þegar að fullveldis-brexitdegi Bretlands kemur, því þeir halda að það sé "frjálslyndi" að vera alþjóðlegur imperíalisti

Þetta halda þeir af því að þeir eru orðnir alþjóðaasnar og trúa á alþjóðakeisarann sem enginn kaus. En Hinar heilögu ritningar Vesturlanda segja hins vegar að maður eigi að skála, fagna og grilla og senda upp flugelda á þessum dögum. Sjálfsákvörðunarréttur þjóða er undirstaða farsældar og friðar í heiminum. Menn fagna frelsinu en gráta ei á þessum dögum og einn af þessum dögum var einmitt brexit. Áður en þessir imbar snéru heiminum á hvolf þá var það sjálfsákvörðunarréttur þjóða sem var sjálft frjálslyndið í heiminum. Hinum Heilögu ritningum vesturlanda eigum við flest að þakka í dag. Þeim hafa alþjóðaimbarnir einnig snúið á hvolf

He also revealed that Mr Trumps team had called EU leaders to ask "what country is to leave next". (ha ha ha ha ha! frábært!)

Trump segir að Evrópusambandið sé öskubifreið Þýskalands sem gúffar í síg ríki Evrópu. Til þess auðvitað að hagnast á þeim og ráða yfir þeim, segi ég. Það er líka rétt hjá honum. Og hann segir líka að allt Evrópusambandið sé að verða eitt Þýskaland. Það er líka rétt hjá honum, því að öllu Frakklandi er að blæða út í þeim dundurskassa sem það hélt að ESB gæti orðið að til halda Þýskalandi önnum köfnu við dundur í. En nú er Þýskaland búið að éta kassann og er byrjað að gúffa Frakkland í sig. Það sést vel á efnahag, stjórnmálum og þjóðfélagsástandinu í Frakklandi í dag. Næstum enginn hagvöxtur í 20 ár og gerræðislegt massíft atvinnuleysi áratugum saman og þjóðfélagsleg ólga sem sjaldan fyrr. Því fyrr sem keisaralegt Evrópusambandið drepst, því betra fyrir þjóðir Evrópu. Hmpf!

Í morgun lækkaði kanadíska matsfyrirtækið DBRS lánshæfnismat sitt á skuldabréfum ríkissjóðs ófullvalda Ítalíu, niður í BBB. Ítalía missti eina A-ið sem það hafði. Evran, mynt Evrópusambandsins, hefur lagt allt bankakerfi Ítalíu í rúst og allir í því hagkerfi eru að verða ólánshæfir -í ýtrasta skilningi orðsins- því útilokað er að koma hagvexti í gang undir mynt Þýskalands. Ítalía er fangi röngu megin við rimla evru-fangaklefans. Það er á bak við rimlana, en ekki fyrir framan þá. Ítalía hefur ekki kjarnorkuvopn til að brjótast út úr mynt Þýskalands, eins og Frakkland þögult hefur

Krækja

FT: Donald Trump takes swipe at EU as "vehicle for Germany"

Fyrri færsla

Gladrabrennur: Karl gat ekki orðið ráðherra vegna þess að hann er ekki kona


Gladrabrennur: Karl gat ekki orðið ráðherra vegna þess að hann er ekki kona

Þær eru orðnar ansi margar galdrabrennurnar sem kyntar eru í dag undir heilbrigðri skynsemi manna. En segja má að Stalínisminn um kynjakvóta sé eitt það hallærislegasta um þessar mundir - fyrir utan kommúnismann í vísitölusjóðum sem fjárfesta í öllu því drasli sem viðurvist hefur í vísitölum, bara vegna þess að það er í vísitölunni. Hreinn og tortímandi Marx-Lenín sósíalismi af verstu gerð

Mér þykir leitt að maðurinn sem ég kaus í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins og sem sigraði stórt í mínu kjördæmi, Norðvestur, Haraldur Benediktsson, skuli ekki hafa getið orðið ráðherra vegna þess að hann er ekki kona. Þetta er hreint brjálæði

Hverslags endemis galdraþvæla og Stalínismi er þetta eiginlega. Eru menn gengnir af göflunum. Hvað verður næst? Ef menn halda að þeir séu að vinna góðum málstað gagn með svona rugli, þá get ég upplýst þá um að þetta er það versta sem hægt er að gera konum og jafnréttismálum yfir höfuð. Þetta eru bara nýjar galdrabrennur. Hafið þið ekkert lært? Er það þetta sem kemur út úr þeim hluta landsframleiðslunnar sem varið er til menntamála. Tóm þvæla!

Ísland barðist ekki fyrir fullveldi og sjálfstæði til að geta orðið skrifræðisríki. Alþingi Íslendinga var ekki stofnað til þess að verða sovésk matrixa. Og embætti forsætisráðherra -hins pólitíska höfuðs lýðveldisins- var ekki hugsað sem bókfærsluembætti

Fyrri færsla

Meginland taparanna: "Evrópusambandið aldrei sundraðra"


Meginland taparanna: "Evrópusambandið aldrei sundraðra"

Perspektíf Þýskalands

Mynd: geopólitískt perspektíf Þýskalands á landmassa evrasíu. Svona sér Þýskaland heiminn sinn og Evrópusambandsins. Þessari sýn deilir Austur- og Suður-Evrópa ekki með Þýskalandi, sem á orðið allt ESB

Já þetta er mikið rétt hjá honum Sigmari Gabríel þarna í Þýskalandi (sjá frétt Morgunblaðsins að neðan); Þýskaland þénar mikið og stórt á óförum annarra. Enda var það alltaf tilgangurinn með evrunni og myntbandalagi Evrópusambandsins

Evrusvæði Evrópusambandsins er núna haldið saman með peningapólitísku ofbeldi án skriðdreka til að komið sé í veg fyrir að Þýskaland verði gjaldþrota. Þýskaland er því miður öfugsnúið öldrunarhagkerfi, sögulega ólæst á efnahagsmál og jafnframt vestur-kína Evrópu, sem getur ekki staðist vegna þess að 50 prósent útflutningsfíkn þess af landsframleiðslu þolir ekki að missa neinn gísl úr því gíslatökubúri sem búið er að gera Evrópusambandið að handa Þýskalandi

Þýskaland þolir ekki að neitt land yfirgefi útflutningsmarkað þess sem er hinn svo kallaði "innri markaður" og sem hönnunarlega séð er fyrst og fremst til fyrir Þýskaland, alveg eins og allt ERM dótið sem sprakk 1992 var, og gerði um leið Þýskaland þá að hinum sjúka manni Evrópu. Evran átti hins vegar að halda þessu búri saman

Helmingur alls útflutnings Þýskalands fer til hins svo kallaða innri markaðar. Útflutningsfíkn upp á tæp 50 prósent af landsframleiðslu í fjórða stærsta hagkerfi veraldar með 18 lönd hlekkjuð við sig í læstu gengisfyrirkomulagi, er stærð sem startað getur heimsstyrjöld. Og það er einmitt það sem líklega mun gerast, með dyggri aðstoð frá austur-kína í Kína. Það er ekki hægt að byggja sólkerfi með 18 plánetum í kringum svarthol. Þýska hagkerfið er svarthol. Eyðileggjandi massíft svarthol

Vanti Þýskalandi enn lægra gengi gagnvart umheiminum, þá kveikir það bara í einu landi evrusvæðis í viðbót. Dugi það hins vegar ekki til, þá er milljón manna massa af geimverum með handsprengjur frá öðrum plánetum rétt í þessu sleppt lausum á hin handjárnuðu leppríki sem læst eru föst inni í Evrópusambandinu með evrum undir pervertri peningastefnu, sem einungis er tandurhrein heimsvaldastefna (e. imperialism) í nýjum klæðum

En það er alrangt hjá Sigmari Gabríel að þá myndu "börnin okkar og barnabörn fordæma okkur" fyrir að frelsa Evrópu frá oki evru og ESB með því að leggja sambandið niður. Þau munu hins vegar fordæma foreldra sína fyrir að hafa búið til þann Frankenstein peningamála sem evra Evrópusambandsins er. Fordæma þá eins og heimsvaldasinnaðir nasistar voru fordæmdir fyrir að tortíma Evrópu með imperialisma sem stúta átti öllum þjóðríkjum Evrópu, Mið-Austurlöndum og Norður-Afríku með líkamlegu ofbeldi. Sagan er að endurtaka sig, en bara í nýju formi. Þetta munu börn Gabríels ekki fyrirgefa. Ekki þarf að hafa neinar áhyggjur af börnum þýska kanslarans, því hún á engin sjálf, nema þau sem hún reynir að kaupa ást frá með brjálæðislegum tilraunum til að drekkja Þýskaland í tifandi tímasprengjum og geimverum

Þegar hrun fjármálabólunnar skall á, og sem í Evrópu var sköpuð með rotnum ECB-seðlabanka Evrópusambandsins sem átti þann veginn --framhjá þýska seðlabankanum og innlendri löggjöf frá Bandamönnum-- að skaffa dauðvona Þýskalandi dulbúinn örvunarpakka með gerræðislegum óábyrgum lánveitingum og peningapólitík sem drekkti gíslum evrusvæðis í suðri í skuldum undir neikvæðum raunstýrivöxtum til þess að búa á þann hátt til eftirspurn eftir þýskum vörum úr norðri, á hinum innri markaði, þar sem gíslar Þýskalands eru læstir inni í, já, þá kom auðvitað í ljós að hagsmunum þjóðríkjanna varð að fórna fyrir yfirríðandi hagsmuni Evrópusambandsins

Á fagmáli heitir þetta heimsveldisstefna e. imperialism. Þetta er jú hún gamla Evrópa og hún er ávallt söm við sig. Evrópumennin hafa langa reynslu í svæsnum pólitískum perraskap. Þau menni hennar blikkuðu ekki einu auga er hálf milljón manna misstu lífið á fyrstu viku Fyrri heimstyrjaldar. Hefði álfan haft kjarnorkuvopn þá og allar götur síðar, þá hefðu villimenn Evrópu notað þau án þess að blikka einu auga

Í frámálakreppunni sem enn blússar á meginlandi Evrópu var þjóðríkjunum fórnað á altari evrunnar til þess að hún gæti lifað af. Ef Þýskaland missir evruna, þá fer það í þrot. Miklu betra er því fyrir það að láta önnur ríki um að bjarga því og um leið leggja sjálf sig niður svo að vér í Þýskalandi getum sest ofan á alla álfuna einu sinni enn. Þetta er sá hvati sem lá að baki stofnun myntbandalagsins og Evrópusambandsins og einnig sjálfs Þýskalands 1871; samkeppnisfyrirkomulag og ekkert annað. Restin var sölugas sem hálfvitar Evrópulanda keyptu

Nú er 30-50 prósent af öllum lánasöfnum ítalska bankakerfisins í vanskilum. Skuldararnir geta ekki borgað því þeir hafa verið lagðir í rúst með evrum. Vel rekin fyrirtæki og heimili geta ekki einu sinni borgað né hvað þá flokkast sem lánshæf til að hægt sér að framlengja lengur og útilokað er að búa til hagvöxt. Þau eru varanlega lögð í rúst með evru. Þessi lánasöfn eru allar þær eignir sem bankarnir hvíla á. Allt hlutafé bankanna er löngu brunnið til ösku og nýtt algerlega ófáanlegt vegna fullkomins vantrausts. Lánasöfnin eru ekki bara í vanskilum, heldur eru þau algerlega brunnin rúst sem rýkur ekki einu sinni úr lengur. Þeim hefur verið framlengt svo lengi og ástandinu haldið leyndu svo lengi til að reyna að blekkja heiminn svo hann farist hreinlega ekki úr evrum

En nú er tíminn svo gott sem úrbrunninn líka og staðreyndirnar á jörðu niðri, teppasprengjugígar evrunnar, fara að tala sínu máli. Orðaforði ECB-seðlabankalings Evrópusambandsins yfir ástandið er algerlega tómur og eiginfé hans mun brátt fara sömu leið og eignasafn ítalska bankakerfisins; í þrot. Þessi seðlabankalingur hefur rústað öllu meginlandi Evrópu, enda var hann og myntbandalagið stofnanaleg hönnun algerra vitfirringa í peningamálum frá upphafi. Algerlega lúnatikk stofnun út í gegn frá upphafi

Þjóðir þjóðríkja Evrópu eru því að hoppa í gömlu björgunarbátana, gamla þjóðríkið sitt sem fyrri heimsveldi reyndu að útrýma. Hoppa í gömlu landamærin sín, fullveldi sitt í peningamálum og sjálfsákvörðunarréttinn. Hægfara en algerlega geigvænleg vatnaskil hafa orðið - og framhaldið verður ekki skemmtiferð því að heimsvaldastefna elur aldrei af sér annað er hörmungar. Það stendur ritað svart á hvítu í Hinum heilögu ritningum sem Vesturlönd voru byggð upp með

En sannleika og mörg þúsund ára reynslu Hinna heilögu ritninga var varpað fyrir róða og tandurhreinn imperialismi eins og þeir kalla ekki hina glötuðu stefnu sína var tekinn upp í staðinn, og þetta er árangurinn: Já, árangurinn er þessi ESB-imperial-state-hönnun sem er að fara með Evrópu og heiminn til andskotans, í stað fullvalda og blómstrandi þjóðríkja. Og síðan alþjóðavæðing hinna "frjálslyndu" sem varð því miður og fljótlega að ferlegum alheims-imperialisma og sem þar með hefur gert hina "frjálslyndu" sjálfa að algerum uber-imperialistum, en sem þeir gera sér þó ekki enn grein fyrir sjálfir. Nýr stóri-ófriður blasir því við. Til hamingju hálfvitar Evrópu, ykkur tókst þetta einu sinni enn!

Það verður fróðlegt að skoða þetta úr þeirri góðu fjarlægð sem Atlantshafið og íslenska krónan veitir okkur svo giftusamlega. Því bráðum, já bráðum, sest eini forseti Bandaríkjanna, sem að sögn fróðra, vit hefur haft á peningamálum í embætti sitt. Þá mun munkaklaustur klikk-fræðimenna seðlabankalings Evrópusambandsins kannski verða enn fróðlegra stjarnfræðilegt fyrirbæri næturhimnum Vesturlanda til að skoða í austri, frá öruggu Vestri

Fyrri færsla

Þess vegna sigraði Sjálfstæðisflokkurinn með Bjarna


mbl.is Evrópusambandið aldrei sundraðra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þess vegna sigraði Sjálfstæðisflokkurinn með Bjarna

Í síðustu kosningum var ESB-liðið svælt út úr Sjálfstæðisflokknum og almenningur ákvað þar með að gefa formanninum Bjarna uppreisn icesave-æru og vegna þess hversu ákaflega vel hann stóð sig sem fjármálaráðherra

Það var eins og við manninn mælt, að um leið og ESB-sundrungarsamfylkingin var horfin úr flokknum að þá byrjuðu kjósendur að treysta honum aftur og þökkuðu pent fyrir sig með því að lýsa yfir stórauknu trausti á honum. Hann sigarði í  kosningunum. Þetta var merkur tímamóta áfangi og sýnir að stefnufesta í fullveldismálum er alger forsenda fyrir flokkinn, enda sjálft erfðaefni hans

Ég hef ekki viljað vera að skipta mér af stjórnarmyndunarviðræðum flokksforystunnar því ég taldi víst að þetta væri meitlað fast inn í stjórnmálavitund hennar. Flokkurinn þarf ekki að hræðast neitt í komandi kosningum um að ná aftur upp gamla 40 prósent fylginu, svo lengi sem þessi staðfesta um algerlega og skilyrðislausa hollustu við frjálst fullvalda og sjálfstætt Ísland um aldur og ævi, er starfrækt og viðhöfð 24 stundir á dag alla daga ársins um alla eilífð, og að hvergi sér vikið frá stýrinu í þeim málum. Þetta er forsenda farsældar allra annarra mála

En svona til öryggis, eftir sorpblaðadaginn í gær, þá minni ég á þetta. Stattu eins og klettur Bjarni. Stattu eins og klettur. Ekki víkja eina eina eina tommu. Taktu frekar tímabundnu stjórnarmyndunar-strandi en að gefa millímetra eftir í þessum kjarnamálum. Geri þú það, standir fast, þá er framtíðin flokksins og um leið þín. Gangi þér vel

Fyrri færsla

Kólestról veldur hækkun hitastigs jarðar


Kólestról veldur hækkun hitastigs jarðar

Time Magazine logo

Sífellt kaldara veðurfar síðustu þrjá áratugi

Í gær, 2017 e.Kr. kom sanntrúaður andaglass-vísindamaður á skjá landsmanna og sagði að við ættum að sniðganga vörur frá Danmörku og Þýskalandi vegna þess að Danir búa rafmagn sitt til með kolum og búa einnig við hliðina á Þýskalandi sem á kol til rafmagnsframleiðslu næstu hundrað árin, eða svo. Var þetta ekki svona? Neihh, bíddu aðeins væni minn, það var víst Kína sem hann átti við

Taldi veðurfræðingurinn í andaglasinu að hitastig jarðar færi hækkandi vegna þess að rækjurnar sem hann borðaði innihéldu kólesteról, sem útskýra má með súperstrengjakenningu eðlisfæðinga og gatinu í ózonlaginu sem kálaði Jörðinni árið 1995, - með hárlakki. Allt saman Ajax tandurhreint þvaður

En súperstrengjakenningin og ózonlagið-LP var notað til að skaffa fé til rannsókna í þvaðri. Í dag er hitastigið notað til að skaffa peninga til rannsókna á mataræði íkorna í ljósi þvaðurstrúarbragða - og til að hefja nýja "umræðu" um galdra. Því fleiri sem vinna við galdra því meira fé vantar í greinina

Árið 1974 lá við síðustu ísöld samkvæmt álíka spámönnum um það sem ekki er hægt að spá um. Þá voru samfélagsmiðar ekki til, enda eins gott, og íslenskir veðurfræðingar frekar ómengaðir af showbiz-blaðri og varð því lítið úr því fóstri í andaglösum þeirra. Það dó út. Þeir komu með veðrið á skjáinn, en ekki hótanir, og stóðu ekki fyrir kortunum vegna þess að þeir voru svo vel menntaðir og snjallir að þeir notuðu bendil (e. pointing device)

Í dag eru veðurfréttir orðnar að skemmtiatriði sem Austur-Berlínarútvarp DDRÚV í Reykjavíkuralbaníu geymir þar til síðast, svo að hægt sé að kúga kúgaða áhorfendur til að horfa á íþróttafréttir í millitíðinni. Endalausar kynningar eru þó fyrst keyrðar til að fylla út dagskrártómarúmið þannig að allir hafi nú misst þolinmæðina þegar loksins kemur að einum kínverja sem springur út, og sem hann vegna smæðar sinnar nær ekki einu sinni að standa alveg fyrir, heldur skýlir sér á bak við með titlinum "veðurfræðingur"

Nú vitum við að galdrabrennur miðalda voru hörku Nóbelsverðlaunavísindi þeirra tíma, fyrst að kólesterólið úr rækjunum höfðu þessi áhrif á heilabú manna í veðurfræðinni í dag. En auðvitað var ekkert kólesteról í rækjum frekar en vit í því sem þarna kom fram

Nú ætla ég fyrir alvöru að hefja viðskipti við Kína og búa til stórveður úr því

Fyrri færsla

Spá mín fyrir árið 2017 - næsta ár


mbl.is Íslendingar hætti að kaupa vörur frá Kína
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Höfundur

Gunnar Rögnvaldsson
Gunnar Rögnvaldsson

Búseta: Ísland.
Reynsla: 25 ára búseta í ESB og fyrirtækja-rekstur í DK/ESB frá 1985 til 2010. Samband:
tilveraniesb hjá mac.com

Ég er hvorki skráður á Facebook, Twitter, Linkedin né á neinum öðrum "félags-vefjum". Aðsetur skrifa minna er einungis að finna hér á þessari síðu og á tilveraniesb.net og í blöðum og tímaritum

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband