Leita í fréttum mbl.is

Mattis hættir hjá Trump

James Mattis varnarmálaráðherra er á förum úr ríkisstjórn Donalds Trump. James Mattis semur greinilega ekki við Trump, eða öfugt, og skoðanir þeirra í varnarmálum fara ekki saman. Ástæðan að sögn dagblaða á borð við til dæmis Wall Street Journal, er sögð vera brottför Bandaríkjahers frá Sýrlandi, sem Trump fyrirskipaði í fyrradag. Þar eru tvö þúsund bandarískir sérsveitarmenn með stuðningi frá lofther og sjóher. Mattis var búinn að segja að hann myndi ekki hætta sjálfur og að forysta hersins mætti aldrei setja sig upp á móti kjörnum fulltrúum fólksins, þ.e. fólkinu sem herstjórnin á að vernda. Mattis hinn fyrrverandi hershöfðingi, er þó ekki æðsti yfirmaður hersins, heldur er hann settur varnarmálaráðherra Bandaríkjanna

Trump forseti lýsir því nú yfir að með Bandaríkin í forystuhlutverki hafi Ríki íslams verið sigrað. Hann hafði lofað bandarískum kjósendum þessum sigri og honum sé náð. Markmiðinu hafi verið náð. Bandaríkin dragi sit því hér með út. Pólitískir andstæðingar Donalds Trump (vinstrihreyfing glóbalista => imperíalistar) með lyklaboð, síma og tístforrit í hönd, skrifa að fjarlæga verði forsetann úr embættinu fyrir að draga Bandaríkin út úr hernaðarátökum í Sýrlandi, hvorki meira né minna. Hvers krafist verður er Trump á næstunni dregur Bandaríkin út úr Afganistan, eftir 17 ára viðurvist, getur varla orðið annað en krafa um umsvifalausa opinbera aftöku hans

En þó svo að borgarastyrjöldin í Sýrlandi og upprisa Ríkis íslam hafi grasserað á dyraþrepum Tyrklands, en ekki á dyraþrepum Bandaríkjanna, þá hefur Tyrkland ekki viljað -né heldur pólitískt séð getað- blanda sér of mikið í málið, fyrr en nú. Og það er sennilega það sem fær Bandaríkin til að segja bless við helsta bandamann sinn í þessari baráttu; Verndarherlið Kúrda. Segja sumir að hér séu Kúrdar hengdir út á snúru, sem skotmark fyrir Tyrkland, því að tyrkneska ríkisstjórnin hefur stimplað Verndarherlið Kúrda sem hryðjuverkasamtök er starfi þvers yfir landamæri Tyrklands, Sýrlands og Íraks. Á því landsvæði ásamt í vesturhluta Írans, líta Kúrdar á sig sem 30 til 45 milljón manna þjóð. Stærsta landsvæði þess sem Kúrdar segja að sé Kúrdistan, liggur þó í Tyrklandi, þar sem 20 milljónir Kúrda búa

Líklegt má telja að Trump hafi gert samning við Tyrklandsforseta um að hann fái að vissu marki að berjast gegn Kúrdum, en þó bara að vissu marki. Fari hann yfir þann þröskuld þá falli Bandaríski hamarinn og verndarhönd Bandaríkjanna yfir Tyrkjum sem NATO-landi, sé þá ekki í sambandi við símalínu til hvíts húss

Bandaríkin geta ekki stöðvað ris Tyrklands lengur, því að það og Íran eru einu löndin sem koma til greina sem heimshlutaáhrifavald í Austurlöndum nær og þar með upp Balkanskaga. Borið saman við Íran, þá er nýtt Tyrkjaveldi skárri kosturinn. Betra sé að hafa Tyrkland sem bandamann, en sem andstæðing. Þarna geta þá Tyrkir, ásamt Ísrael og Sádi-Arabíu, haldið Íran í skák með baktryggingu Bandaríkjanna. Og Tyrkland er hér með látið um að halda þeim herskáum öflum sem stóðu að upprisu Ríkis íslam niðri. Bandaríkin hafa hér sennilega gert taktískt úrlausnarsamkomulag við Tyrkland um áframhaldið, þar sem baráttunni við liðsafla Ríkis íslam er að mestu lokið. Tyrkland verður vörður. Kúrdar tapa hér að vissu marki, en gangi Tyrkir of langt gegn Kúrdum, þá taki Bandaríkin á ný upp sitt tímabundna bandalag við þá. Fulltrúi Bandaríkjanna í Sýrlandi sagði í ræðu sinni í Atlantic Council á mánudaginn, að Bandaríkin hafi ekki og geti ekki haft varanlegt samstarf við ekki-ríkis einingar

Mér finnst þó ólíklegt að Sýrland sé aðalástæðan fyrir afsögn bandaríska varnarmálaráðherrans. Mig grunar að um stærra mál sé hér að ræða og það sé Evrópa og NATO-aðild ESB-ríkja sem sinna ekki umsömdum skyldum sínum í varnarbandalaginu. Trump, að ég held, er staðráðinn í að taka það mál lengra, því Rússland er á tröppunum og gæti farið að hugsa sig til frekari hreyfinga. Ég spái því að á næsta ári muni Trump ganga harðar að ESB-ríkjunum vegna NATO og sérstaklega Þýskalandi vegna viðskiptamála. Þýskaland er með stærsta viðskiptahagnað nokkurs ríkis í heiminum og hann er tvöfalt hærri en sáttmálar ESB leyfa. Og svo er það WTO. Munu Bandaríkin yfirgefa þá stofnun? Það voru Bandaríkin sem stofnuðu til GATT 1947 (Alhliða samkomulag um tolla og viðskipti), sem síðar leiddi til WTO 1995 (Alþjóða viðskiptastofnunin)

Hlutabréfin í fjármálaflaggskipi Þýskalands, Deutsche Bank, héldu áfram að hrynja í gær og féllu um meira en sjö prósent. Þau kosta aðeins 6,94 evrur í dag, en kostuðu tæplega 90 evrur í janúar 2007. Þetta er 92 prósent hrun á þvi  tímabili, og 60 prósent hrun á þessu ári. Og ekki lagast verðið á olíu fyrir Rússland, frá þeirra bæjardyrum séð

Og svo er það staðan varðandi Kína og Norður-Kóreu. Sýrlands-ákvörðun Trumps skilar sér umsvifalaust sem fyrirvaralausum hreyfingum á pólitískum jarðskjálftamælum þar. Ef Trump getur gert þetta, þá getur hann líka gert (okkur) hitt, fyrirvaralaust, hugsa þeir. Þarna er engin bandarísk hersveit fyrirsjáanlegrar friðþægingar á ferð.. ..stimplast inn í bakhöfuð þeirra. Sjáið bara tollamálin miðað við sama tíma fyrir aðeins ári síðan

Fyrri færsla

Trúverðugleiki Trumps og Fed-seðlabankans


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Antonsson

Fróðleg umræða hjá þér um óróann sem Trump hefur vakið upp á árinu. Hann ætlar greinilega að hrista til heimsbyggðina með því að fá fleiri störf inn í landið. Of mikill breytingahraði gæti orðið honum að falli. Atvinna eykst hjá tiltölulega fáum, en lífskjörin eru álíka og áður?

Sá á Netflix mynd um Hitler á hans uppgangsárum. Hilling almennings á honum á fjöldafundum og í skrúðgöngum var dæmalaus og óhugnanleg, en harkan í bakgarðinum ótrúleg. Kallinn var tiltölulega rólegur með höndina upp og sperrta. Staðan í Þýskalandi nú er andstæðan við uppgang Hitlerstímabilsins. 

Ungverjinn Soros fær lof hjá FT. Eitthvað hlýtur sá 88 ára öldungur að hafa gert rétt fyrst markaðsblöðin lofa hann. Það á ekki við Trump, nær tveimur árum í embætti. Seðlabankamenn hljóta að vera óttaslegnir eða er of mikið gert úr tiltölulega lágum vöxtum, 2.5% í USA?

Sigurður Antonsson, 21.12.2018 kl. 12:19

2 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Þakka þér Sigurður. 

Þetta er skelfilegt. Að hlusta á fólk tala um Hitler þegar talað er um Trump. Það er verra en að hlusta á hrafn krunka mannamál. Hitler var ekki að draga sig út úr neinu. Hitler var imperíalisti sem reyndi að leggja Vesturlönd undir sig, lýsti stríði á hendur Bandaríkjunum, þoldi ekki fullveldi ríkja og þoldi ekki þjóðir og sjálfstæði þeirra. Hann var 100 prósent þveröfugur við hugsjónir þjóðernissinna. Hann var glóbalisti eins og kommúnistar voru líka.

Trump leggur áherslur á fullveldi ríkja og sjálfstæði þeirra og að þjóðir hugi að sínu fólki og byggi upp þjóðríki sín og virði sjálfstæði og fullveldi annarra þjóða ríkja. 

Það er ekki Tom sem er Jerry. Það er Jerry sem er Jerry og Tom sem er Tom. 

Hvaðan fær fólk þessar hugmyndir? Þegar talað er um Evrópusambandið þá ætti fólk að hugsa um Hitler og Stalín og Maó og Pol Pot.

Imperíalisti = vill leggja heiminn undir sig. Virðir ekki þjóðríkin (heimsvaldasinni)

Nationalisti = vill tryggja fullveldi réttindi þjóðar sinnar. Segir að enginn megi ráða yfir öðrum þjóðum (þjóðernissinni)

Kveðjur

Gunnar Rögnvaldsson, 21.12.2018 kl. 12:47

3 Smámynd: Sigurður Antonsson

Sæll Gunnar

Afsögn farsæls varnamálráðherra Mattis er vegna ágreinings um leiðir? Tíð mannaskipti í mikilvægum embættum hjá Trump stjórninni er ávísun á áframhaldandi óróleika í heimsmálum og á mörkuðum. Sýrland má varla við meiri valdabaráttu eins illa og fólkið í landinu er leikið eftir margra ára stríð.

Forystuhlutverk Bandaríkjanna er ekki sama og áður. Tíð umskipti skapa óvissu og umbrot umfram það sem er æskilegt. Trump kann að finnast ýmislegt þurfa breytinga við en væntir of skjótra breytinga. 

Friðurinn í Evrópu hefur haldist í meir en 70 ár fyrir utan stríðin og eftirleik einræðisafla á Balkanskaga. ESB er tilraun til að sameina og halda verslun innan tollabandalaga. Frjáls lönd hljóta að finna leiðir. Ólík vinnubrögð sem voru hjá einræðisstjórnum í Austur-Evrópu. EBS er ekki hægt að bera saman við Hitler eða Stalín?

Sigurður Antonsson, 21.12.2018 kl. 13:57

4 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Friðurinn hefur haldist í Evrópu vegna Bandaríkjanna sem halda NATO uppi. NATO var stofnað til að halda Bandaríkjunum inni í Evrópu svo það gæti haldið Rússum úti frá Evrópu og Þýskalandi skyldi haldið niðri. Það sagði Ismay lávarður þegar NATO var stofnað. 

Núna er Rússland hins vegar við dyrnar á ný og Þýskaland er hálft í vösum þess. Og Þýskaland er strax og það gat byrjað að berja á ESB-nýlendum sínum á ný og Bandaríkin eru að miklu leyti komin út, vegna andúðar kjarnaríkja ESB á þeim.

Sannleikurinn með forystuhlutverk Bandaríkjanna er sá að það eru aðeins Bandaríkin sjálf sem ákveða það. Kjósendur þeirra. Og þeir kjósendur hafa í nú 30 ár fengið að heyra það að forystuhlutverk þeirra er illa séð og þeir  hataðir fyrir að halda friðinn sem þeir komu á frá og með 1945.

Þýskaland gæti glatt alla og sent pappírsskutlur á kústsköftum til að skakka leikinn í Sýralandi, í stað þess að halda Tyrklandi uppi með peningagjöfum fyrir að vera tappi.

En þar sem hvorki Austur-Evrópa né Balkanskagi eru í Evrópu, samkvæmt kokkabókum ESB-glóbalistanna í Berlín og Brussel, þá getur það varla skipt máli að það land sem einhent hefur varið Evrópu gegn jihadistum íslams í 17 ár, pakki saman og fari heim og að jihadistar taki Evrópu yfir og gleðji hana smástund. Það er jú það sem ítalski ungliðakomminn Mogherini utanríkismálakommmizzar ESB segir að sé svo gott fyrir lönd ESB.

ESB er imperíal hönnun Sigurður. Musteri imperíalista  segjast alltaf hafa sínar ástæður. Aðeins fífl kaupa þær. Ekki verða fífl Sigurður, það myndi fara þér ákaflega illa.

Kveðjur

Gunnar Rögnvaldsson, 21.12.2018 kl. 14:30

5 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Tja.

Kannski að Hugleiðingar Markúsar Árelíusar hafi verið að þvælast fyrir James Mattis. Hann er sagður hafandi þær sér meðferðis í töskunni hvert sem hann fer. Trump er jú nationalisti, en ekki Imperíal Rómverji.

Bad Deal er a Bad Deal.

Gunnar Rögnvaldsson, 21.12.2018 kl. 14:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Gunnar Rögnvaldsson
Gunnar Rögnvaldsson

Búseta: Ísland.
Reynsla: 25 ára búseta í ESB og fyrirtækja-rekstur í DK/ESB frá 1985 til 2010. Samband:
tilveraniesb hjá mac.com

Ég er hvorki skráður á Facebook, Twitter, Linkedin né á neinum öðrum "félags-vefjum". Aðsetur skrifa minna er einungis að finna hér á þessari síðu og á tilveraniesb.net og í blöðum og tímaritum

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband