Leita í fréttum mbl.is

Kostuleg Costco koma

Nú get ég ekki lengur orða bundist vegna skítkasts svo margra yfir stétt íslenskra verslunarmanna. Þeim er útstillt sem glæpamönnum. En það eru þeir ekki

Sjáið nú til góða fólk. Costco og þannig versalnir, eins og til dæmis WalMart, stunda ekki fyrst og fremst verslunarrekstur. Efst á tilvistar og tilgangslista þeirra er að pressa framleiðendur í verði. Tilvist þeirra byggir á því að pressa framleiðendur. Og út á það gengur öll tilvist þeirra. Costco er þess utan heildverslun og miðað við heildverslun er vöruverð þeirra ekkert sérstakt

Þegar manns helsta starf er að pressa framleiðendur í krafti stærðar, þá gerist ýmislegt sem ekki endilega er neytendum í hag. Þetta þarf ekki nauðsynlega að fara saman. Það er ekki lögmál. Framleiðendur geta til dæmis brugðist við með því að nota ódýrari og verri hráefni í þær vörur sem fara til svona samstæða. Og þeir gera það. Neytandinn veit ekki af þessu en kaupir samt. Hér er ég ekki að benda á neinn sérstakan því þetta hafa framleiðendur á Íslandi mátt sætta sig við um visst skeið. Svo er það hin brennandi spurning hvort að maður fái ekki bara á endanum það sem maður borgar fyrir

Spurt er til dæmis hvernig hægt sé að lækka verð á dekkjum um svo og svo marga tugi prósenta. Fyrir það fyrsta verða menn að bera epli saman við epli en ekki hnetur. Er það gúmmí sem notað er í dekkin sambætilegt? Er það hálfónýtt gúmmí frá til dæmis Kína sem verður að grjóti í kulda? Dekk eru ferskvara. Þau, seld sem óseld og notuð sem ónotuð, eru ónýt eftir fimm ár. Þá er mýktin farin úr þeim. Og dekkin eru eina sambandið sem bifreið þín hefur við veginn. Þau verða því að vera góð. Án góðra dekkja er góður bíll lítils virði

Dæmi: íslenskur dekkjasali skrifar birgi sínum og segir að Costco sé komið á markaðinn með 60 prósent lægra verð á dekkjum. Og hann segir; ef við fáum ekki betra innkaupsverð hjá þér þá munum við ekki geta selt nein dekk frá þér. Nú er úr vanda að ráða hjá birginum. Hann gerir sér grein fyrir að lækki hann ekki verð sitt til heildsölu- eða smásöluaðilans á Íslandi þá er markaður hans horfinn ekki seinna en ári síðar. Hann kemur því með tilboð sem segir að þú kæri smásöluaðili minn lækkar þig ef við lækkum okkar verð til þín. Úr getur orðið töluverð verðlækkun. En samtímis geta þeir ákveðið að hækka verð á ýmsu öðru sem fer á milli þeirra. Útkoman getur orðið meiri dekkjasala og verri þjónusta eða jafnvel engin þjónusta. Við búum jú í svo kölluðu "þjónustu-samfélagi", ekki satt, þar sem enginn hefur lengur efni á að nota þjónustuna, vegna þess hversu dýr hún er. Laun eru ekki smáræðispóstur í rekstri hér á landi. Og skattar!

Costco er ekki með neina þjónustu til að hrópa húrra yfir svo þeir geta byggt stórbragga og hent þar inn vörum á pöllum þar sem þeir segjast vera heildsali. Kostnaðurinn hjá þeim er lægri. Vilji menn versla í grafhvelfingum, þá þeir um það. Ekki skipti ég mér af því. En menn munu náttúrlega ekki nenna því nema að hluta til. Þegar æðið er svo runnið af þeim þá hættir þessi della að vera fréttnæm frétt um vel þekkta fífla frá nýrri heildsölu. Fínt að fá Costco hingað, virkilega fínt, en hvað með það! Þetta er bara Costco og þeir eru þarna til að græða peninga eins og allir aðrir, en áherslur þeirra eru einungis aðrar

Ég veit fyrir víst að íslenska verslunarstéttin er alveg ágæt. Hún er alls ekki verri en í útlöndum þar sem ég bjó í tæp þrjátíu ár. Alls ekki verri, en hins vegar að mörgu leti betri, því hér er fákeppnin minni en víðast hvar í ESB. Þetta veit ég. Þar er einokunin í dreifingarliðnum alveg skelfileg. EES hefur bundið okkur við þetta ESB-bákn og það er slæmt fyrir Ísland. Mjög slæmt

Ergo: enginn smásölumarkaður neins lands í Evrópu er eins dýnamískur og sá íslenski. Það er staðreynd sem ekki er hægt að horfa fram hjá. Hér er búið að umturna flestu á þessum markaði á meðan frostjökull ESB hefur búið til frosinn markað elíta á meginlandi Evrópu. Á meðan hafa íslenskir kaupmenn hér heima þurft að hafa sig alla við til að halda sér á baki skepnu samkeppninnar. Ekkert er hér lengur eins og það var árið 1987. Öllu hefur verið umturnað á þessum markaði. Og ekki endilega til hins betra, en umturnað samt

Svo vinsamlegast látið renna af ykkur. Sovét-Ísland er og veður bara til í ESB. Þar er manni gert skylt, með hattinn í hendinni, að biðja um rakvélablöðin við búðarkassann, því það er ekki hægt að hafa þau í hillum. Þeim er bara stolið því verð þeirra er svo Sovét-hátt

Sem sagt, eins og svo oft áður. Hér heima er ekki allt verst. Ónýta Ísland er ekki til. Það er bara til í Evrópusambandinu

Ég sakna gömlu íslensku sjoppanna, með sjaldgæfar tegundir karamella í boði á búðarborðinu - og göfugrar sálfræðiþjónustu þeirra

Fyrri færsla

OPEC ágætis dæmi um svo kölluð "samkomulög"


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Það verður fróðlegt að fylgjast með því hvort að Costco flýr land eins og McDonalds gerði þegar verðmiðinn í íslenska hagkerfinu breyttist árið 2008. Þegar verðið gagnvart þeim-sjálfum breyttist þá pökkuðu þeir bara saman. Fáir trúðu því þá að þeir flyttu inn allt kjöt og allt annað frá einum ömurlegum stað í Evrópu í dótið sem þeir seldu hér heima. Þeir pökkuðu bara saman þegar á móti blés. Það geta neytendur líka gert. 

Erlent Skólp-Coca-Cola í Costco minnir mig dálitið á það fyrirbæri. Frekar hætti ég að drekka kók (pakka saman) en að láta bjóða mér svoleiðis skólp, miðað við vatnið okkar hér heima. Á þetta virkilega að vera svona hjá Costco? Skólp á boðstólum í landi besta vatnsins?

Og Vífilfell er að hætta að framleiða kók á dósum. Hér er komið tækifæri fyrir Íslending til að finna upp og framleiða besta kók á dósum í heimi. Það gerði Apótek Siglujarðar á sínum tíma þegar það fann upp og setti svaladrykki sína á markað hér. Ekki kaupi ég eina einustu dós af útlensku skólpi frá Vífilfelli. Þeir eru greinilega að veða uppleystir aumingjar af öllum peningunum sem við látum þá fá.

Kveðjur til allra

Gunnar Rögnvaldsson, 12.6.2017 kl. 15:41

2 Smámynd: Jóhann Kristinsson

Það spretta upp sögur um að Bónus feðgar og aðrir kaupmenn stóru verzlanana hafi notað pressuaðferðir við framleiðendur.

Sagan segir að framleiðendur hafi verið pressaðir niður í næstum kostnaðarverð framleiðandans og svo lagt 40% á vöruna umfram obinber gjöld. Til að kóróna það, þá urðu framleiðendur að taka vöruna til baka, sérstaklega ef það var matvara ef hún seldist ekki.

Það var sem sagt umboðsölur sem þessar verzlanir voru, með 40% garenteraðan hagnað.

Þessir kaupmenn neita þessu, en þar sem er reykur er yfirleitt eldur.

Kveðja frá Houston

Jóhann Kristinsson, 12.6.2017 kl. 16:29

3 Smámynd: Theódór Norðkvist

Mjög góðir punktar. Ég setti inn Facebook stöðu þar sem ég sagðist telja að Costco væru risavaxnar þrælabúðir. Vissulega stór orð, en ég fékk þá einkunn frá einum að ég væri persona non grata fyrir að dýrka ekki Costco.

Þetta eru hálfgerð trúarbrögð, menn telja Costco vera einhvern frelsara sem frelsi alla þjóðina undan okri.

Eins og þú, Gunnar, bendir á, kemur lága verðið einhvers staðar frá, í lélegri gæðum, magnframleiðslu og -innkaupum, innflutningi frá svitasjoppum o.m.fl. Í tilviki Costco að stórum hluta frá meðlimagjöldum.

Costco er kaupfélagsformið, eins og gamla SÍS, sem varð enn verri ófreskja en nokkur af hlutafélögunum sem voru á þeim tíma og hrundi að lokum undan eigin spillingu.

Stundum verður dýrt ódýrt og ódýrt dýrt. Ef þú kaupir ódýrasta hlutinn sem er ónýtur eftir nokkra mánuði, eða virkar illa og neyðist síðan til að kaupa dýrari hlutinn, ertu búinn að tapa meiri peningum en ef þú hefðir keypt dýra hlutinn strax.

Það kann vel að vera að hægt væri að hafa álagningu lægri víða, en að útmála alla verslunareigendur sem slefandi blóðsugur, eins og sumir gera, tekur út yfir allan þjófabálk.

Theódór Norðkvist, 12.6.2017 kl. 17:19

4 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Þakka ykkur Jóhann og Theódór.

Smá edrúsaft er oft gott með brauðinu.

Eins og þú veist Theódór þá er kjörtímabilið á Facebook max fjórir sólarhringar. Þannig að þú ætti að bjóða þar fram á ný skoðanir sem kosnar verða annað hvort til himins eða helvítis, án álagningar. Svo kemur nýtt kjörtímabil eftir fjóra daga. Svona gengur þetta og álagning hins opinbera tekur við. Furðulegt að enginn skuli minnast á þá blóðsugu-álagningu.

Góðar kveðjur

Gunnar Rögnvaldsson, 12.6.2017 kl. 23:17

5 identicon

Þrælabúðirnar eru búnar að vera hér alllengi og heita Hagar(áður Baugur) - Bónus mest áberandi en margt margt fleira þar innanborðs.

Margt af þvi sem menn hér eru að saka Costco um eru Hagar búinir að vera gera í áratugi, með þeim ágæta árangri að við borgum allt of mikið fyrir flesta neysluvöru (nema mjólk; Högum hefur ekki tekist að stýra verði og afsláttarkjörum hjá MS).

Bráðfyndið að lesa um að verð í ÁTVR hefði lækkað við tilkomu Costco, ÁTVR er nefninlega með fasta álagninu en heildsalarnir (sem nú fá samkeppni sumir hverjir) ráða verðinu.

Það er því nauðsynlegt fyrir okkur neytendur að Ægivald Haga yfir markaðinum hér minnki.

Það var reyndar athyglisvert að lesa viðtal við innlendan birgja þegar hann bar saman samskipti við Haga og Costco. Hvet ykkur til að lesa það í Viðskiptablaðinu.

Og Costco er ekkert að selja neitt drasl, Michelin dekk eru Michelin dekk, ferskvara er fersk o.s.frv.

Auðvitað veit maður að maður er að kaupa á annan hátt í Costco, og maður hættir ekkert að kaupa í öðrum búðum, og stundum er of langt í Garðabæinn að taka bensín (eða maður hefur ekki hálftíma til að bíða í biðröð), en það var kominn tími til að yfirmenn stóru verslanakeðjana og bensínsalanna þyrftu að fara að hafa fyrir því að fá viðskiptavini inn í búiðina sína til að versla (með aðeins betra samspili verðs og gæða).

En almennir kaupmenn eru flest hið ágætasta fólk, hefur bara sig ekki getað hrært vegna ægivalds Haga (og að einhverju leyti hinna stóru verslanakeðjanna) yfirr markaðnum.

ls (IP-tala skráð) 13.6.2017 kl. 08:54

6 identicon

ps. Starfsfólk olíufélganna er hið ágætasta fólk sem hefur það hlutverk að gera fyrirtækinu sínu sem mest gagn. Fákeppnismarkaður býður hins vegar upp á að verðið verður hærra en ef alvöru samkeppni ríkti, og því ekkert hægt að áfellast starfsfólkið fyrir að sinna vinnunni sinni.

Það sem hefur vantað er nógu fjársterkur aðili sem er tilbúinn að leggja minna á eldsneytið en hinir til að komast inn á markaðinn og gera hann fjölbreyttari og nær því að virk samkeppni ríki.

ls (IP-tala skráð) 13.6.2017 kl. 09:50

7 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Vona að Costco gangi vel hér á landi. Annað er reyndar ólíklegt eins nýjungagjörn og við erum, eins og eyjabúar eru oftast, þ.e. opnari en meginlandsþjóðir.

Nú tekur ríkið um 60 prósent af bensínverðinu til sín niður í sinn sísoltna offeita og síbruðlandi maga, svo aðeins 40 prósent eru eftir til:

    • Þeirra sem eiga olíuna (framleiðendur)

    • Olíufélögin sem kaupa hana af framleiðendum og flytja hana

    • Þeir sem hreinsa olíuna

    • Og svo loks þeir sem selja olíuna til neytenda, þ.e. bensínstöðvar

    Ég tel líklegt að bensínstöðvar fái um 3-5 prósent af bensínverðinu. Það er ekki mikið. Í nágrannalöndunum fá bensínstöðvarnar 3-4 prósent af verðinu og eru þau þó í meiri alfararleið í hafinu en Ísland. Þetta eru að verða hrein Sovétríki allt saman og ekki mun staðan verða önnur á aðra orkugjafa í framtíðinni. Ef allir hættu að aka þá myndi ríkið fara á höfuðið. 

    Það er náttúrlega ekki hægt að staglast á því að allir séu svona vondir, nema ef væri Costco. Þannig er markaðurinn nú ekki skrúfaður saman.

    Gunnar Rögnvaldsson, 13.6.2017 kl. 12:15

    8 identicon

    http://www.mbl.is/frettir/innlent/2017/05/30/telur_costco_leggja_15_kr_a_litrann/

    Ef þú ert annars að svara mér, skil ég ekki af hverju þú ert að stönglast á að aðrir séu vondir.  Hér hefur hins vegar vantað samkeppni (með tilheyrandi afleiðingum fyrir neytendur).

    Og markaðsráðandi smásölurisinn hefur (mis)notað þá aðstöðu sína sem mest hann má.

    ls (IP-tala skráð) 13.6.2017 kl. 13:18

    9 identicon

    Áhugavert hvað síðuhöfundur er að verja verslunarmenn og heildsala yfir gröf og dauða.

    Maður þarf ekki að fara langt til að sjá hvað verslanirnar eru að græða á viðskiptavininum daginn út og inn. Ég tek hér tvö dæmi af handahófi, en kannski hefur síðuhöfundur það á hreinu afhverju viðkomandi vara sé svona dýr á íslandi.

    1. Húsasmiðjan var að selja  bútsög í maí 2016 á 23.857.- sem var mjög gott verð. Í dag einu ári síðar er þessi sama vél á nákvæmlega sama verði. Hvar er mismunurinn? Vænatanlega hefur verslunarmaðurinn stungið meiri hagnaði í vasann í staðinn fyrir að láta viðskiptavininn njóta þess.

    2. Ég þurfti að kaupa varahlut í bílinn minn. Hjá Stillingu kostar hann 17.992.-  í Bílanaust 16.183.- og í Kistufelli 15.849.-. Ég keypti þetta erlendis frá og hingað komið með sendingarkostnaði og 24% VSK 9.153.-    Hvað kallast svona? Græðgi?

    Reyndu ekki að verja þessa aðila, það fer þér ekki vel.

    thin (IP-tala skráð) 13.6.2017 kl. 17:38

    10 Smámynd: Þóra Guðmundsdóttir

    Sérkennileg lesning þetta, hef ekki tíma til að fara yfir allt en vissulega eru dekk ferskvara en hafa ekki verið meðhöndluð hér sem slík. Ef maður er ekki á verði er allt eins líklegt að manni verði seld nánast útrunnin dekk eða allavega dekk sem eru komin á síðasta snúning. Allavega hef ég ítrekað lent í því. Kannski halda menn að auðvelt sé að blekka kvenfólk í þessum efnum.
    Annað er að kaupmenn hér hafa bara upp til hópa ekkert staðið sig sérstaklega vel og eðlilegt að það fari um þá núna.

    Það er til dæmis með hreinum ólíkindum hvað menn eru tregir til að borga til baka hafi maður mireiknað sig í innkaupum eða bara skipt um skoðun. 
    Að lokum þá er ágætt að benda á hagnaðinn af verslun hér á landi og í öðrum löndum en það er enginn smá munur þar. 

    Þóra Guðmundsdóttir, 13.6.2017 kl. 17:46

    11 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

    Þakka ykkur, Þóra, thin og ls fyrir innlit og skrif.

    Kveðjur

    Gunnar Rögnvaldsson, 14.6.2017 kl. 13:58

    Bæta við athugasemd

    Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

    Höfundur

    Gunnar Rögnvaldsson
    Gunnar Rögnvaldsson

    Búseta: Ísland.
    Reynsla: 25 ára búseta í ESB og fyrirtækja-rekstur í DK/ESB frá 1985 til 2010. Samband:
    tilveraniesb hjá mac.com

    Ég er hvorki skráður á Facebook, Twitter, Linkedin né á neinum öðrum "félags-vefjum". Aðsetur skrifa minna er einungis að finna hér á þessari síðu og á tilveraniesb.net og í blöðum og tímaritum

    Bloggvinir

    Innskráning

    Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

    Hafðu samband