Leita í fréttum mbl.is

Spurt er: Er ekki hægt að fá sannar fregnir úr Danmörku?

Bloggvinur minn og pólitískur samherji, Halldór Jónsson verkfræðingur, varpaði eftirfarandi spurningu yfir mig. Eins og Halldór, vann ég einu sinni ungur í mörg ár í steypu og líka í múr.

Halldór Jónsson, verkfræðingur

Halldór skrifar: "Aftur þakkir Gunnar ármaður. Er ekki hægt að fá sannar fregnir með dæmum úr Danmörku frá því fólki sem upplifir ranveruleikann þar og lífskjörin.Hvad koster en öl,pölse og bröd? Hvad er skatten?"

Svar

Jæja í kvöld fékk ég línuþorsk með fullt af hamsatólg og mínu eigin gullauga úr garðinum. Og okkar eigin bláber úr dalnum í eftirrétt.

Sannar fregnir úr Danmörku Halldór?

Jhá þar bjó ég í 25 ár frá 1985 til 2010. Svo það ætti að vera hægt. En því miður Halldór minn kæri. Skattakerfið í Danmörku er svo flókið að enginn einn lögmaður er fær um að sjá það fyrir sér.

Í stjórn fyrirtækis míns í DK á tíunda áratug síðustu aldar sat einu sinni færasti skattasérfræðingur í Danmörku sem stjórnarformaður. Hann var lektor í skattarétti með meiru og rak mikla stofu. Skattayfirvöld landsins komu, og koma sennilega enn, í heimsókn til hans til þess að fá að skoða laga- og málasafnið á stofu hans. Altsaa, skattayfirvöld komu til hans til þess að reyna að fá botn í hvað þau sjálf yfirvöldin ættu að segja borgunum landsins um skatt og skattakerfi þeirra - áður en fólkinu er síðan stefnt upp á von og óvon með gratís skatta-skammbyssum yfirvalda. Það kostar ríkið aldrei neitt að hefja þessa byssu á loft gagnvart skattborgunum. Þessi lögmaður kallaði þingmenn Folketingets "bjørnebanden" (löggjafarvaldið). Að þeir/það væru eins og örvita fólk sem fær hríðskotabyssur í jólagjöf um leið og það tekur sér sæti á þinginu. Kerfið er svo ógagnsætt, ófyrirsjáanlegt og interaktíft að þegar lög númer 100.125.698 um skatta eru sett, þá er eins og að rafstraumi sé hleypt á dauðan kolkrabba. Og túlkun laganna fyrir dómstólum er háð stund og stað.

Í landinu er gildandi stighækkandi tekjuskattur upp í max 56 til 64 prósent. En það segir svo lítið því svo margt annað spilar þarna inn fyrir launþega og alla sem anda í landinu.

Stýrivextir, verðbólga og atvinnuleysi í Danmörku 1978-2008

Í Danmörku eru gjöld á nánast öllu sem neytt er og einnig því sem aldrei er neytt. Þegar seðlabanki Danmerkur missti hið peningapólitíska vald undir ríkisstjórn grasasnanna Paul Schluters og Uffe Ellemann-Jensen, með fastbindingu dönsku krónunnar við svarthol Þýskalands árið 1986, þá þýddi það að stýra varð öllu í hagkerfinu með gjöldum, sköttum og skatta sköttum. Gjöld, þ.e. hinar svo kölluðu "punktafgifter" héldu þá fyrir alvöru innreið sína og tröllriðu öllu og hafa gert það æ síðan. Afborganakaup voru t.d. bönnuð að hluta til og mörg lög sett um þau, til þess að reyna að stýra greiðslujöfnuði og verðbólguþróun. Eins var gert með matvæli, heimilistæki og flest annað. Hið peningapólitíska vald í hagkerfinu (stýrivextir) hvarf með gengisbindingunni og það þýddi að einu stjórntækin sem danska ríkið réði þar eftir yfir, var sovésk neyslu- og hegðunarstýring. Sjálfir segja Danir að land þeirra sé orðið DDR-Light.

Nú er svo komið að skattayfirvöld í Danmörku hafa byggt múr gegn borgurum landsins umhverfis hina svo kölluðu starfsemi sína. Það er ekki lengur hægt að hitta sjálft fólkið sem heimtar af þér skattinn. Það er allt falið á bak við "endurskipulagðan" múr af síma-biðraðakerfi og "gerðu það sjálfur" (tast selv) köngulóarvef af illa gerðum vefsíðum á internetinu í endalausum runum. Skattafólkið þarf því aldrei að hitta skattborgana. Þeir bíða bara endalaust hálfu og heilu dagana í biðraðakerfi í símanum og er þar vísað á milli Pontísurar og Pílatusar á meðan enginn kann þar neitt né veit neitt um skattakerfið og skattana og skattamálin nema akkúrat um þann smásjárstól sem það sjálft situr á. Þetta er orðið ein stór málalengingaskrifstofa Dickens, Halldór. Hreinn hryllingur.

Fasteignamarkaður Danmerkur er í frjálsu falli, í annað sinn á síðustu 27 árum. Þessi fasteignamarkaður landsins —sem allur er í óverðtryggðum lánum og sem að meðaltali er skuldbreytt á þriggja ára fresti og er þá við það tækifæri höfuðstólshrært upp fyrir skorsteinstopp í hvert sinn er nýr höfuðstóll afmyndast með nýjum lánakostnaði og nýjum gjöldum til Realkreditten, sem einu sinni var í eigu húskaupenda en er nú eign í/á barmi gjaldþrota banka— hefur hrunið tvisvar sinnum síðan 1987 með hörmulegum afleiðingum. Verðhrunið varð allt að 40 prósent í fyrra skiptið. 1800 nauðungaruppboð fóru fram í hverjum mánuði. Fólks sat uppi með óseljanlegar eignir á lægri launum, en með hærri greiðslubyrði miðað við ráðstöfunartekjur.

Frá og með árinu 2007 hefur fasteignamarkaðurinn aftur verið í frjálsu falli. Um 40 prósent húsnæðiseigenda undir 35 ára aldri í Danmörku skulda nú meiri peninga í fasteign sinni en hægt er að selja hana fyrir.

Alls er hver fimmti fasteignaeigandi í Danmörku orðinn eignalaus. Skuldar meira en hægt er að selja fyrir. Kemst ekki út. Þetta (boom-bust volatility) eru helstu einkenni óverðtryggðra fasteignamarkaða. Þeir sveiflast meira og í hverri sveiflu er fólkinu hent úr úr húseignum sínum. Ekkert lát er á fallinu til lengri tíma litið. Og sjálfum litla fingri stjórnvalda verður ekki lyft neinum til aðstoðar, frekar en fyrri ferðina. Og heilum FJÓRUM björgunarpökkum hefur nú verið hent til bankakerfisins á kostnað skattgreiðenda. Það er enn á leið til fjandans, með nýjasta gjaldþroti Tønder Bank, sem fór í þrot í þar síðustu viku, eftir að yfir- og fullmannað fjármálaeftirlitið hafði blástimplað bankann í bak og fyrir sem fyrirmyndarbanka, aðeins nokkrum vikum áður. Fjármálaeftirlitið (finansiel stabilitet) er ruslatunnuselskab þeirra 50 fjölskyldna sem eiga Danmörku og sem hafa mest og réttast eftirnafn. Þarna misstu margir litlir það sem átti að tryggja tilveru þeirra í ellinni. Þeir treystu á gamla góða bankann sinn sem alltaf hafði verið þarna fyrir það frá árinu 1913, sem stolt héraðsins. Þar á undan hafa meðal annars eftirfarandi fjármálaeftirlits-blástimplaðir danskir bankar orðið gjaldþrota. Eignasafn Roskilde Bank sem fór fyrst, rotnaði niður í rúst á aðeins nokkrum vikum beint fyrir framan nefið á fjármálaeftirlitinu, og aðeins munaði hársbreidd að Danske Bank færi í þrot. En þetta er bara byrjunin á því sem koma skal: 

  • Max Bank
  • Fjordbank Mors
  • Amagerbanken
  • Eik Bank Danmark
  • Capinordic
  • Fionia Bank
  • Løkken Sparekasse
  • Ebh Bank 
  • Roskilde Bank

Í Danmörku búa nú um 5,45 milljón sálir

Danmörk er skattpíndasta OECD-land veraldar. Og ekki af ástæðulausu. 

840 þúsund manns gera ekki neitt. Eru annað hvort atvinnulausir eða komið fyrir í kassageymslum ríkisins eða stimplaðir út fyrir-tímann-öryrkjar (førtidspensionister) sem frá 1985-2002 var þannig komið fyrir í kassageymslum ömurleikans utan atvinnumarkaðs vegna þess króníska mikla atvinnuleysis sem ríkt hefur í landinu á 30 af síðastliðnum 35 árum. Það hefur aldrei öll þessi ár borgað sig fyrir ungu giftu eða einstæðu konuna með tvö börn að hafa fyrir því að vinna á búðarkassa í danska Hagkaupi, eftir fyrst að hafa hjólað með þau í pössun á rándýrum og niðurníddum ríkisreknum barnaheimilum, vegna þess að það eru 180 prósent gjöld á bifreiðum (hver bílkróna FOB frá útlandinu kostar um það bil þrjár krónur út úr bílabúð í DK). Svo hún vinnur ekki lengur og eignast helst engin börn lengur Halldór minn, því það gengur ekki upp. Frjósemi kvenna (fertility) er þó miklu lægri í flestum öðrum löndum Evrópusambandsins á leið þeirra til ESB-heljar. En hver á að kaupa íbúðirnar og húsin af þessu fólki í framtíðinni? Geimverur?

1200 þúsund manns eru ellilífeyrisþegar eða fólk á eftirlaunum, að mestu leyti á framfærslu skattgreiðenda sem fækkar ört.

700 þúsund manns eru opinberir starfsmenn á fullri framfærslu þeirra peninga sem verðmætasköpun einkageirans skaffar þeim (opinberir starfsmenn búa ekki til verðmæti; þeir eyða þeim). Velmegun er ekki það sama og velferð. Það þarf sem sagt einn opinberan starfsmanna til að hugsa fyrir og um hverja 7,8 Dani, þ.e.a.s ef opinberir starfsmenn geta þá talist hugsandi verur sem hugsa um aðra án þess að hugsa um sjálfa sig samtímis. Því á ég erfitt með að trúa. Ef opinberir starfsmenn eru dregnir frá, þá þarf einn opinberaðan starfsmann til að halda í höndina á hverjum 6,7 Dönum. Svo aumt er ástandið orðið.  

900 þúsund eru börn undir 14 ára aldri

300 þúsund eru námsmenn eða álíka

Og atvinnuleysi í Danmörku hefur sem sagt ekki farið niður fyrir íslenkst bankakreppuhlutfall í samfellt 35 ár, að fimm árum undanskildum; þ.e. á fjármálabóluárum sogrörs ECB-aukaseðlabanka Þýskalands í Evrópusambandinu. Það er nú um 8 prósent.

Þrír af hverjum fjórum kjósendum eru á framfærslu hins opinbera, að fullu leyti, að hluta til, eða eru opinberir starfsmenn. Þetta er nokkurs konar dópsala stjórnmálamanna. Hver kýs undan sér þennan kassa Halldór. Ekkert lýðræði getur þrifist í svona sovétríki. Allir kjósendur landsins eru með annan fót tilveru sinnar fast depóneraðan í ríkiskassann. 

Svo ert þú að spyrja um verðið á pylsum!!!

Hvernig pylsum Halldór minn? Pylsu sem framleidd er úr úrgangs beinamjöli af grís sem óx upp í Danmörku? og sem síðan er keyrt niður fyrir landamærin til að slátrast þar, því þar eru launin aðeins helmingur á við dönsk laun í sláturhúsum landsins sem flest eru horfin úr landi til ESB-landa sem borga lægri og lægri og lægri laun í handjárnuðu gengisfyrirkomulagi þeirra við hvort annað. Eða viltu pylsu úr grís frá Austur-Evrópu frá landflótta dönskum bónda sem einhvernvegin tekst enn að kalla pylsur sínar "danskar"? Allar pylsur í Danmörku eru algerlega óætar Halldór. Alveg 100 prósent rusl. Og ekki skaltu heldur spyrja mig um ísinn, því hann er ennþá verri. Síðasti ísinn sem ég át í Danmörku, honum henti ég. Ís þar á ekkert skylt við ís lengur. Danir eru heimsmeistarar í matvælasmínki. Þeir neyðast til að vera það. Að dulbúa drasl sem mat. Svona er að missa gengið! Svona er að missa hin peningapólitísku völd!; þá er það blóðug samkeppni niður á kostnaðarbotninn í Evrópusovétsambandinu sem gildir. Þá þarf maður að keppa með því að smínka drasl; Hérna sérðu að matur í sjálfu landbúnaðarlandinu Danmörku er sá dýrasti í öllu Evrópusambandinu. Hvernig gat þetta gerst Halldór? En, þannig er það að vera bóla á rassinum á Þýskalandi; svartholi Evrópu. Við Íslendingar erum heppin að þurfa ekki að deila túnfæti okkar með neinum. Því það er virkilega erfitt að vera bara Danmörk í Evrópusambandi Þjóðverja og de Gaulle, sem sagði: "Frakkland og Þýskaland er Evrópa. Restin er grænmeti."

Svona færi með sjávarútveg Íslands ef elsku elsku Lýðveldið okkar myndi nokkru sinni leggjast svo lágt að láta troða sér í Evrópusovétsambandið. Þá þyrftum við að flytja inn fisk okkur til matar. Til fjandans með ríkisstjórn sósíalista og Marx–Lenínista í NiðurÍslands leshring þeirra umhverfis ítroðsluumsókn sömu sósíalista og kommúnista inn í sovétríki Evrópusambandsins.

Ef þú vilt fjárfesta þig í bremsuklossum Halldór, þá er bara að ganga í helvítis Evrópusambandið? Og fá þér þar eina pylsu úr beinamjölsúrgangi sem kostar einhvern andskotann.

Og takk fyrir kaffið kæri Halldór

Fyrri færsla

Honecker-hagdeild DDRÚV í Austur-Berlín Reykjavíkur 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Björn Emilsson

Suður Jótland er paradís ellilífeyrisþeganna, því þeir geta keypt matinn margfalt ódýrari í Þýskalandi. Taka bara strætó yfir landamærin.

Björn Emilsson, 13.12.2012 kl. 06:31

2 Smámynd: Kristján P. Gudmundsson

Ágæti Gunnar, ég bjó í Danmörku í 4 ár (1959-1963) bæði vegna náms og vinnu. Danir eru yndislegt fólk að mínu mati. Mig hryllir við lýsingu þinni á ástandinu nú ! Danmörk "minna daga" var nær dögum H.C.Andersens, a.m.k. var hluta bjórsins frá Carlberg verksmiðjunum ennþá ekið á hestvögnum !

Þakka fyrir gott blogg.

Kveðja, KPG.

Kristján P. Gudmundsson, 13.12.2012 kl. 07:01

3 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Þakka ykkur

Já Björn: Suður-Jótland er eitt af mörgum deyjandi svæðum þess sem Danir nefna Undir-Danmörku; en hún nær frá Norður-Jótlandi, niður alla Vesturströndina, yfir Suður-Jótland, allt Langeland, yfir Suður-Fjón og Suður-Sjáland. Þarna er allt að deyja eða er þegar dautt. Landbúnaðurinn sem að miklu leyti hefur haldið samfélögum þessara landshluta uppi er að deyja og að hverfa úr landi og á hausnum. Sjávarútvegurinn er allur þegar steindauður og horfinn.

Þeir Íslendingar sem halda að það gangi upp að búsetja sig á Suður-Jótlandi í hinu svo kallaða velferðarríki Danmerkur til þess að geta verslað "ódýrt" á kostnað danskra skattgreiðenda í matinn fyrir neðan landamærin, hugsa líklega ekki út í það hversu undangrafandi það er fyrir samfélagið að leggja peninga sína þar á meðan þeir gera ráð fyrir að fá skattafjármagnaða þjónustu heima fyrir, fyrir ofan landamærin, fyrir ekki neitt. 

Ég skil ekki af hverju þeir flytja ekki alveg inn í svarthol Þýskalands og deili kjörum sínum með þeim sem eru þar á hálfum og stundum engum launum. En hvert eiga Þjóðverjar þá að aka til að kaupa "ódýrt" í sinn mat; til Rúmeníu? En hvert ættu þá Rúmenar að aka?; til Norður-Kóreu? eða Grikklands? Þetta er dauðfætt. Og þetta er að rústa samfélagi Dana, þ.e. þessi nábúskapur við sjálft svartholið Þýskaland, þar sem engin lágmarkslaun eru í gildi. Þar standa menn gólfið fyrir bara brot af þeim launum sem eru lágmark í DK.

Þýskaland er í eilífri innvortis gengisfellingu gagnvart öllum nágrönnum sínum undir læstu gengisfyrirkomulagi. Þeir svelta sig hel ef þess er þörf og þegar þess er óskað, samkvæmt skipunum.

Já Danir eru gott fólk Kristján. En þetta er ekki sama landið og þú þekktir. Sú breyting sem varð á mínum 25 árum þar í landi er dapurleg. Hreint skelfileg. Sósíalkrataismi er sjúkdómur dauðans. Allir stjórnmálaflokkar í Danmörku eru svo að segja sama yfirsoðna súpan. Gunguflokkar veifandi sósíalkrata-druslna. Málamiðlunarflaggið. Það stjörnuhlandgula.

Kveðjur 

Gunnar Rögnvaldsson, 13.12.2012 kl. 09:35

4 Smámynd: Ómar Geirsson

Gunnar.

Hafðu mikla þökk fyrir þessa grein.

Það sorglega í málinu að fólk tengir þennan skatt og reglufrumskóg við sam- eitthvað eða félags- eitthvað.  

Og kæfa samfélagið þegar þeir ná völdum.

En ofreglun hefur fylgt manninum frá elstu menn muna og alltaf tengst forréttindum og auðsöfnun af einhverju tagi.  

Þá eins hóps á kostnað annars.

Hverjir skyldu vera ánægðastir með regluveldið í Danmörku í dag???

Það eru útgerðarmennirnir, þeir sem gera út á reglurnar og svo hið falda vald einokunar sem vill drepa alla samkeppni frá einstaklingnum og fyrirtækjum hans.

Frelsi Gunnar, frelsi, það er sam.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 13.12.2012 kl. 10:38

5 Smámynd: Hrólfur Þ Hraundal

Takk fyrir Gunnar Rögnvaldsson: 

Þó ég hafi komið nokkrum sinnum til Danmerkur þá þekki ég pólitíkina þar ekki í neinu því Danir tala aldrei um hanna og Danskir þegnar frá Færeyjum bara í hálfum hljóðum.

 Í litlu þorpi á Jótlandi rétt við landamærin, þar fóru íbúarnir reglulega rétt suður yfir landamærin til að kaupa matt og annað þarflegt til heimilis.  Það merkilega var að í þessum verslunum var mikið af dönskum vörum og viðskipta aðilarnir flestir Danskir.  Flutninga bílarnir sem fluttu vörur til að fylla á hillurnar í þessum verslunum komu margir frá Danmörku og fóru svo tómir til baka.

Mér þótti þetta merkilegt og spurði en svörin voru venjulega stutt og í léttum dúr og ég skyldi að þetta væri ekki vinsælt umæðu efni.

Hrólfur Þ Hraundal, 13.12.2012 kl. 21:19

6 Smámynd: Halldór Jónsson

Gunnar Ármaður!

Takk fyrir þessa yndislegu færslu og fræðslu. Þú veist hvað þú ert að tala um, það veit maður. Og þú segir þann sannleika sem sem er hundeltur í okkar þjóðfélagi af þjóðlygurum og þjóðrægjendum Samfylkingarinnar og ámóta villuráfandi liði. Þetta er blátær ritsnilld til viðbótar við boðskapinn.

Ég vildi að ég gæti kosið þig á þing. En þér yrði ekki líft þar vegna afbrýðissemi samþingmanna eins og mér finnst stundum að hafi skeð fyrir Pétur Blöndal. Hans eigið fólk og frændfólk meira að segja var svo komplexerað gagnvart honum að þeir sniðgengu hann og hlustuðu ekki. Það er eins og boðberar vondra tíðinda fái alltaf keisaralega afgreiðslu. Menn vilja hafa lygina fyrir sinn Guð.

Kærar þakkir aftur.

Halldór Jónsson, 14.12.2012 kl. 07:52

7 Smámynd: Kristján P. Gudmundsson

Kærar þakkir Gunnar fyrir fróðleg og greinagóð svör! Ég las nýlega á netinu, að vinir okkar og frændur ættu orðið erfitt með að krækja sér í þorsk fyrir nýárið vegna ofveiði ESB. Þær tölur, sem fylgdu fréttinni voru geigvænlegar (allt að 90% horfið) og annað eftir því ?

Ég vil óska öllum á þessu bloggi Gleðilegra Jóla og farsæls komandi árs, með þökk fyrir hið liðna kæru bloggvinir. Guð blessi ykkur!

Kveðja, KPG.

Kristján P. Gudmundsson, 24.12.2012 kl. 07:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Gunnar Rögnvaldsson
Gunnar Rögnvaldsson

Búseta: Ísland.
Reynsla: 25 ára búseta í ESB og fyrirtækja-rekstur í DK/ESB frá 1985 til 2010. Samband:
tilveraniesb hjá mac.com

Ég er hvorki skráður á Facebook, Twitter, Linkedin né á neinum öðrum "félags-vefjum". Aðsetur skrifa minna er einungis að finna hér á þessari síðu og á tilveraniesb.net og í blöðum og tímaritum

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband