Leita í fréttum mbl.is

Leikurinn í Kína að verða búinn

Apollo 11 Saturn V  - Bandaríki Norður Ameríku 16 júlí 1969

Mynd: Apollo-11 á skotpallinum árið 1969. 64 milljón hestöfl. Enginn annar en Bandaríkjamaður hefur tekið sér frí frá Jörðu á öðrum hnetti

****

Í síðustu bloggfærslu kom Sigurður Antonsson í heimsókn og minntist á Kína - og eftirfarandi eru hugleiðingar mínar um það mál. Nýjasta tiltak kínverskra stjórnvalda virðist samkvæmt frétt Reuters á fimmtudaginn vera það að banna eigi fréttir frá útlöndum í Kína, sérstaklega frá Vesturlöndum og flest afþreyingarefni þaðan. Höfum við séð þetta áður? Já það höfum við

Í Kína er leikurinn að verða búinn fyrir vesturlensk fyriræki. Eins og eldri en pelagjafamenn muna, þá geisaði kalt stríð við Sovétríkin áratugum saman. "Heimsveldi mannvonskunnar" voru þau á endanum kölluð, og var það meira en réttnefni á Sovétríkjunum og þeim isma sem þau stóðu fyrir. Og hollt er að leiða hugann að þeim nýju ismum sem eru að festa sig í hugum fólks í dag. Má þar nefna umhverfisisma sem allur kemur frá þeim vinstri væng stjórnmála sem aðhylltist Heimsveldi mannvonskunnar hve mest síðast. Svo hér þurfa menn að vera á vopnuðum verði

Kalda stríðið kostaði Bandaríkin ofboðslega fjármuni. Það var þó ekki sjálfgefið að það stríð skyldi yfir höfuð vera háð, né hvað þá unnið. Um tíma reyndu "sérfræðingar" í Bandaríkjunum að segja við bandarísku þjóðina að Sovétríkin væru komin til að vera og að Bandaríkin yrðu að sætta sig við tilvist þeirra, völd þeirra, áhrifa- og hernaðarmátt, sem á tímabili taldi 12 milljón manns undir vopnum og hafði 200 herdeildir miðandi á Vestur-Evrópu. En bandaríska þjóðin vildi það ekki. Hún vildi ekki sætta sig við Sovétríkin og lokaði fyrir þennan boðskap sérfræðinganna, fyrst og fremst vegna Guðleysis Sovétríkjanna og alls þess vonda sem þau stóðu fyrir. Afstaða bandarísks almennings gegn Guðleysi mótaðist ekki af krónum, aurum né viðskiptum, heldur af siðferðislegum ástæðum

Ný útópía svipaðs sérfræðingaveldis varð til á ný þegar múrinn féll og hún var sú að halda það að Kína myndi verða eitthvað annað en öflugt Guðlaust (sovét)ríki, væri það fóðrað á nógu miklu fé og viðskiptum við Vesturlönd. Það tók einungis vissan tíma að komast að þeim erfiða og kalda sannleika, að slíkt myndi aldrei gerast. Nú er að renna upp fyrir bandarísku þjóðinni, sem er Kristni-trúaðasta þjóð Vesturlanda, að hún var göbbuð. Sífelldur straumur frétta af ofsóknum kínverskra stjórnvalda á hendur Kristnum og útlegð manna úr opinberu lífi og samfélagi vegna hverskyns trúarskoðana í Kína, eru að blasa meira og meira við bandarísku þjóðinni. Sérstaklega þeim stóra hluta þjóðarinnar sem býr ekki í glóbalista-mannþyrpingar-bólunum tveimur við norðaustur-ströndina og suðvestur-ströndina. Það er að segja; allt meginland Bandaríkjanna hefur fært ofboðslegar fórnir vegna útskipunar atvinnulífs til Kína og þar á undan til Japans. Detroit lítur í dag út eins og Hirosima gerði 1945, á sama tíma og vissir hlutar Kína við sjávarsíðuna í suðri líta út eins og Detroit leit út árið 1945

Bandaríkin hjálpuðu Evrópu, Japan og Suður-Kóreu að komast á fætur á ný eftir Síðari heimsstyrjöldina. Og þau höfðu ekki ásælst né tekið land neinna þjóða þó svo að þau stæðu þá sem sigurvegarinn. Slík framkoma gagnvart hinum sigruðu hafði aldrei áður sést í sögu mannkyns. Bandaríkin vildu einfaldlega ekki verða heimsveldi

Það var þetta fólk sem kaus Trump. Það er búið að fá nóg og það segir; við fórnum ekki meiru af Bandaríkjunum fyrir hvorki Kína né bandarísk fyrirtæki í Kína. Þetta verður að stoppa og við verðum að tæknivæða okkur út úr þessu hér heima, eins og þegar við fórum til tunglsins í Apollo-11 prógramminu. Það krafðist 400 þúsund verkfræðinga. Við getum sjálf. Við höfum allt sem til þarf, en við þurfum pólitíska forystu á borð við þá sem byggðu Bandaríkin upp eftir borgarastyrjöldina sem lauk 1865. Þess vegna er Donald J. Trump forseti Bandaríkjanna núna

Risaeðlan Bandaríkin er að vakna. Síðast þegar hún sló halanum til, var það vegna Spútnik. Sovétríkin hentu Spútnik í hausinn á Bandaríkjunum og fengu hið gerræðislega Apollo-11 svar í haus sinn til baka og gátu ekkert annað gert en blaffrað eftir það sem blautur þvottur á forhertri Lenín-snúru í sovétvindum og þornað upp að innan og steingerst. Öllu var umbylt í Bandaríkjunum, menntakerfinu líka. Svarið var algerlega hrikalega massíft

Ég er orðinn nokkuð sannfærður um að tímar bandarískra tæknifyrirtækja í Kína séu brátt á enda og hið sama gildir um hagkerfi WalMart í Kína, sem er sjötti hver gámur sem fer frá landinu. Leikurinn er að verða búinn

Þetta snýst ekki bara um botnlínur fyrirtækja. Heldur snýst þetta um líf fólksins í Bandaríkjunum. Þau þola ekki meira af glóbalisma sem fór úrskeiðis. Forsendan fyrir frjálsum viðskiptum á milli landa var alltaf sú að viðskiptajöfnuðir milli landa væru í jafnvægi. Sú forsenda er heldur betur brostin, áratugum saman, og það er ekki bara Kína sem verður tekið fyrir, heldur Þýskaland líka, Japan og Suður-Kórea og Mexíkó

Þetta sem Reuters skrifaði á fimmtudaginn um að Kína væri að undirbúa bann á fréttum frá útlöndum, ásamt erlendu skemmtiefni, kemur ekki á óvart. Xi forseti Kína veit að landið hans er við það að renna inn enn eitt upplausnarferlið vegna innvortis mótsagna, eins og svo oft áður hefur gerst í sögu Kína þegar sjávarsíðan opnar sig gagnvart erlendum áhrifum og auði frá umheiminum og innlandið er ekki þátttakandi í því. Þá rifnar landið í sundur og splittast upp í landshluta sem falla frá og inn í önnur ríki. Kannski tekst honum að hindra upplausn Kína. En kostnaðurinn við það verður hrikalegur. Hann verður líklega eins konar ný Norður-Kórea á -vonandi- mýkri nótum fyrir alla íbúa Kína

Fyrri færsla

Google-KGB gæti aðstoðað


Bloggfærslur 23. september 2018

Höfundur

Gunnar Rögnvaldsson
Gunnar Rögnvaldsson

Búseta: Ísland.
Reynsla: 25 ára búseta í ESB og fyrirtækja-rekstur í DK/ESB frá 1985 til 2010. Samband:
tilveraniesb hjá mac.com

Ég er hvorki skráður á Facebook, Twitter, Linkedin né á neinum öðrum "félags-vefjum". Aðsetur skrifa minna er einungis að finna hér á þessari síðu og á tilveraniesb.net og í blöðum og tímaritum

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband