Leita í fréttum mbl.is

ER þetta það sem koma skal?

 
Vaxtakostnaður - skuldatryggingar
Krona’s Anti-Euro Appeal Makes Sweden the Best Bet 
 
Er engin vörn né gagn í myntbandalagi Evrópusambandsins? Hvernig gat þetta gerst!

Um daginn var tilkynnt að það væri ódýrara að tryggja sænskar ríkisskuldir gegn greiðslufalli en þýskar ríkisskuldir. Ergo; markaðurinn segir að það sé betra að vera sænsk ríkisskuld í sænskum krónum en ríkisskuld allra landa í myntbandalagi Evrópusambandsins. Hvernig gat þetta gerst!

Þar áður var tilkynnt að ódýrara væri að tryggja danskar ríkisskuldir gegn greiðslufalli en þýskar. Nú er þessi styrkleika-veiki sem sagt líka hlaupin í sænsku ríkisskuldirnar. Ef Ísland hefði ekki verið með svona hrikalega ofvaxið og djarft bankakerfi hefði þetta hugsanlega getað átt við um skuldir íslenska ríkisins núna. En því miður: Íslandsálagið fræga breyttist í bankaálagið. Við skulum ekki minnast á Voldemort þetta meira. 

En hvað gerir smærri lönd eða ríkissjóði þeirra að góðum skuldurum? Hvað byggir grunninn undir greiðslugetu svona landa, þ.e. lánstraust þeirra? Jú það eru skattatekjur ríkissjóðs. Þær meiga helst ekki þorna upp því þá eyðileggst greiðslugetan=lánstraustið. Það gerist miklu frekar í löndum sem eiga erfitt með atvinnusköpun. Tekjur ríkissjóðs koma frá atvinnu. Þær falla ekki af himnum ofan. Og lönd sem eiga erfitt með atvinnusköpun eru lönd sem ráða ekki yfir eigin gjaldmiðli og vaxtastigi og sem geta ekki varið sig gegn áföllum. 

Skilgreining: greiðslugeta; það er það að geta borgað lán til baka með vöxtum og staðið undir skuldbindingum. Til þess þurfa lönd að hafa tekjur. Engar tekjur = engin greiðslugeta = ekkert lánstraust. Tekur smærri landa undir evru þorna frekar upp og þau eiga frekar á hættu að fara í þrot. Þess vegna verðlaunar markaðurinn Svíþjóð. Tekjur Svíþjóðar munu ekki þorna upp undir krónu. Og Danir GETA ýtt á eject hnappinn og rifið sig lausa úr evrubindingu. Þetta veit markaðurinn. 

EN; markaðurinn veit líka að á sama tíma þarf einnig vera til staðar góð ríkis-stjórnun. Það þarf alls staðar, sama hvað myntin heitir. En góð ríkisstjórnun getur samt ekki bætt upp vandræðin sem koma þegar lönd skortir sjálfstæða mynt og eigin peningapólitík. Það getur enginn hlutur bætt upp. Það vitum við núna. Bloomberg | Børsen | FT/Alphaville | WSJ
 
Grikkland varð varnarlaust land árið 2001

Frá þeim degi sem Grikkland kastaði Drachma myntinni sinni fyrir róða og tók upp evru hefur landið eðlilega verið leiksoppur ákvarðana manna í öðrum löndum fyrir önnur lönd. Frá árinu 2000 hefur verðbólga í Grikklandi ekki fallið inn undir einnar-skóstærðar peningapólitík þess seðlabanka í Frankfurt sem stýrir verðinu á peningum í Grikklandi. Ekki eitt einasta ár frá árinu 2000 til 2010, nema kannski eitt ár, þ.e. hugsanlega árið 2009.   
 
September 2007: Now as of the turn of the century the Bank of Greece effectively lost control over monetary policy, as a zone-wide rate of interest was applied from the ECB. One of the impacts of this policy has been - as we can see in the chart below - that Greece has not for a single year since the introduction of the common currency had an inflation rate which falls within the ECBs much vaunted 2% target.
 
 
Hver skyldi árangurinn af þessari utanaðkomandi peningapólitík í Grikklandi vera? Hvaða áhrif hafa neikvæðir raunstýrivextir frá árinu 2001 til 2007 haft á efnahag Grikklands? Jú nú blasir þetta við okkur. Efnahagur landsins er í rúst. Það er orðið ósamkeppnishæft. Eins og á Írlandi þar sem það sama gerðist. Sagan er líka sú sama á Spáni og ef til vill í fleiri löndum Suður-Evrópu. Neikvæðir raunstýrivextir virka. Þeir sprengja lönd í loft upp.  
 
September 2007: This situation, however, does seem to be rather inbuilt into a one size fits all monetary policy. I reproduce below, courtesy of the kind data collection efforts of the bank of Greece, a chart comparing the overnight Eonia loans rate offered by the bank (which is effectively the ECB refi rate plus a few BPs) with the Greek CPI on a monthly basis since January 2001. As will be seen the rate dropped below the Greek CPI in early 2002(hardly an advisable state of affairs for a country with an inflation problem and a twin deficits one) and effectively remained there till the late summer of 2006. The big question is, what is the long term consequence of such a long period of above capacity growth? (Edward Hugh - The Greek Economy Under The Microscope)
 
 
Fyrri færsla
 
 

Búlgaría hættir við evru-upptöku. Er orðin hrædd eftir evru-upplausn Grikklands [uppfært]

 
Der Todeskuss von Frankfurt  
 
Ríkisstjórn Búlgaríu hefur hætt við evru-upptöku og viðurkennt að hafa logið til um fjárlagahalla. Nú þora þeir ekki lengur að ganga í Skulda- og Gjaldþrotabandalg Evrópusambandsins.
 
Lánshæfnismat Grikklands var einnig lækkað enn frekar í dag og er nú hið sama og hjá ríkissjóð Búlgaríu og Panama.
(uppfært) Eftir að hafa skert lánshæfnismat gríska ríkisins um tvö tíu vatta Samfylkingaröryggi skar Fitch líka niður pottþéttu evruvörn gríska bankakerfisins og var ástæðan sögð sú að bankakerfi Grikklands á heima í evrulandi sem er að fara á hausinn. Það er því nú í ruslinu (BB).       
 
Nú byrjar hugsanlega söguleg helgi í gjaldþrotabandalagi Evrópusambandsins. Grikkland er aðeins einu símtali frá AGS - og einni evruupptöku of langt.
 
Þjóðverjar segja að "koss dauðans" hafi sest að í aðalstöðvum seðlabanka Evrópusambandsins í landi þeirra í borginni Frankfurt. Mynd af brennandi 50 evru seðli birtist á forsíðu dagblaðs þar í landi. Mynt Þjóðverja er nú ónýt, segja þeir. Koss dauðans heitir Jean-Claude Trichet sem er evrupólitíkus stórríkisdraumalandsins Frakklands - og nú seðlabankastjóri gjaldþrotabandalags Evrópusambandsins.   
 
Mr Steingart concludes: ”For his predecessors, the line to follow was that of Otmar Emminger, the former Bundesbank president. ‘Those who flirt with inflation, will become married to it’. Trichet yesterday kissed it. For the spirit of the Bundesbank, this kiss was deadly.
 
 
 
Leiðari Handelsblatt 9 apríl 2010 - Koss dauðans frá Frankfurt 
 
FT 
 

Evran var tálsýn frá byrjun. Euro Trashed

A grand illusion
 
Grein eftir Joachim Starbatty hagfræðiprófessor við háskólann í Tübingen í Suður-Þýskalandi birtist þýdd frá þýsku í New York Times á sunnudaginn næst síðasta. Greinin segir (stuttur úrdráttur):
 
THE European Monetary Union, the basis of the euro, began with a grand illusion
 
 
Evran var tálsýn frá byrjun. Á annarri hlið jöfnunnar voru Austurríki, Finnland, Holland og Þýskaland. Virði gjaldmiðla þessara landa hækkaði að jafnaði innan Evrópu og á heimsmarkaði. Á hinni hlið jöfnunnar voru; Belgía, Frakkland, Grikkland, Ítalía, Portúgal og Spánn. Virði gjaldmiðla þessara landa lækkaði að jafnaði. Samt var myntbandalag Evrópusambandsins klætt á alla fætur allra landanna í einni skóstærð. Sem afleiðing þurftu sum löndin að fegra heimilisbókhaldið svo þessi eina skóstærð EMU passaði þeim.
 
Die Euro-Klage
Bjartsýnismenn í Þýskalandi sem og aðrir bjartsýnir evrukratar vonuðu að sameiginleg mynt myndi ala af sér aukna samkeppnishæfni á alþjóðavettvangi og koma í gang stormsveip af efnahags- og samfélagsumbótum í öllu Evrópusambandinu. En reyndin varð hin algerlega gagnstæða. Í stað þess að toga og hvetja löndin áfram, hefur ódýrt lánsfé seðlabanka ESB laðað ríkisstjórnir og heimili landanna inn í svefnálmuna þar sem þau liggja ennþá í makindum ofneyslu og skuldasöfnunar, sérstaklega lönd Suður-Evrópu.    
 
Kostir evrunnar voru málaðir fölskum litum frá byrjun. Ólíkt löndum Norður-Evrópu eiga lönd Suður-Evrópu erfitt með að selja ríkisskuldabréf og þar með fjármagna ríkisrekstur sinn áfram. Suður-Evrópa er þess utan ósamkeppnishæf. Vandamál þessara landa hafa bara versnað við að ganga í myntbandalagið. 

Skuldatryggingaálag á ríkisskuldir Grikklands er nú orðið hærra en á skuldum ríkissjóðs Íslands
Ef Grikkland væri ekki í EMU þá gæti það fellt gengið, gert sig samkeppnishæft og samið betur um sínar skuldir á vettvangi alþjóðasamfélagsins. En í staðinn þá læsa evruhandjárnin Grikkland á höndum og fótum, hvetur landið til fjármálalegra feluleikja, hækkar skatta og lækkar laun opinberra starfsmanna. Aðgerðir sem munu þvinga Grikkland inn í ennþá meiri kreppu sem á endanum mun lækka lánshæfni landsins ennþá meira. Að láta hin lönd myntbandalagsins um að borga þetta mun aðeins senda röng skilaboð til annarra landa EMU í svipaðri aðstöðu og loks knýja allt myntbandalagið niður á kné.
 
Það stutta í því langa er það að evran er á leiðinni í algert hrun. Núna er verið að reyna að smygla vandamálunum fram hjá upphaflegu reglum myntbandalagsins.  
 
Ef Þýskaland myndi notfæra sér þetta tækifæri til að segja sig úr myntbandalaginu þá myndi landið ekki verða eitt á báti. Sömu útreikninga myndu Austurríki, Finnland og Holland gera - og hugsanlega Frakkland líka. Þau myndu yfirgefa skuldakónga EMU og ganga í nýtt bandalag með Þýskalandi. Hugsanlega gæti einnig komið ný og betri mynt út úr því. Þetta yrði sársaukaminnsta aðferðin og hún endurspeglar einungis hina raunverulegu stöðu mála í dag; tvískipt myntbandalag; NYT - Euro Trashed
 
Það var nefnilega það. Joachim Starbatty var einn þeirra fjórmenninga sem upphaflega fóru með evruaðild Þýskalands fyrir stjórnaskrárdómstól landsins. Þeir töpuðu málinu. Nú vígbúast þeir á ný.
 
Fyrri færsla
 
 
Uppfært
 

Samfylkingin leiðréttir leiðinlegan misskilning

Framanámenn Samfylkingar leiðrétta hér með misskilning sem kom óvart upp við tilraunaupptökur 

Komið hefur í ljós að mynt Evrópusambandsins, evra, var ekki þrautarvörn, heldur var hún getnaðarvörn.

Þessi misskilningur leiðréttist hér með og mun ekki koma fyrir né verða tekinn upp eða í notkun aftur.

Virðingarfyllst

Samfylkingin (og Malta)

 

 

Reisn Evrusvæðis - met slegið í dag: 7,1% vörn gegn hagsæld

Vaxtakostnaður evrulandsins Grikklands var 7,1% í dag

Mynd; Bloomberg - 10 ára ríkisskuldabréf (Grikklands)

Vaxtakostnaður á 10 ára ríkisskuldabréfum í dag.

Greece7,10%
Portugal4,21%
Italy3,92%
Spain3,87%
Norway3,78%
Canada3,68%
Belgium3,60%
Austria3,52%
France3,46%
Denmark3,40%
Netherlands3,38%
Finland3,37%
Sweden3,23%
Germany3,13%
Switzerland1,96%
Japan1,41% 

 

Núna er verra að vera Grikkland en Mexíkó og mörg nýmarkaðslönd. 

 

Fyrri færsla

EMU-RÍKISGJALDÞROTA-DAGBÓK STOFNUÐ 3. APRÍL 

 

Slóðir

Greek Bond Yields Soar to 7.1%

Greek bonds break records, mostly just break 


EMU-RÍKISGJALDÞROTA-DAGBÓK STOFNUÐ 3. APRÍL

Gríski harmleikurinn. Er stærsta ríkisgjaldþrot mannkynssögunnar að hefjast í evrum í myntbandalagi Evrópusambandsins?

Ég hef stofnað EMU-ríkisgjaldþrotadagbók. Eins og sakir standa, eru sterkar líkur á því að lýðveldið Grikkland muni verða gjaldþrota inni í myntbandalagi Evrópusambandsins. Allir sem hlut eiga að máli vona að til þessa muni ekki koma.

Málið er stórt og mjög flókið. Ef gríska lýðveldið mun fara í þrot, þá yrði um stærsta ríkisgjaldþrot mannkynssögunnar að ræða. Peningalega séð eru tæplega hálf billjón evrur í húfi. Þetta yrði stærra en samanlagt ríkisgreiðslufall Argentínu og Rússlands. Og það sem verra er, það mun eiga sér stað inni í miðju myntbandalagi Evrópusambandsins. Það yrði verst hugsanlegi staðurinn til að fara í ríkisgjaldþrot. Afleiðingarnar yrðu geigvænlegar fyrir alla aðila. Tilgangurinn með þessari síðu er að fylgjast sérstaklega með þróun þessa máls. Við skulum þó vona það besta, Grikklands vegna.  

Dagbókin er hér: EMU-Ríkisgjaldþrotadagbók á tilveraniesb.net og verður uppfærð í takt við þróun atburðarásar þessa máls. 

 

Fyrri færsla:

Skoðanakönnun: Þjóðverjar vilja út úr evru


Skoðanakönnun: Þjóðverjar vilja út úr evru

Dauðadæmt myntbandalag hvort sem er?
 
Financial Times og Harris Interactive framkvæmdu skoðanakönnun í Þýskalandi, Ítalíu, Frakklandi og á Spáni. Þar kom fram að meirihluti þýsku þjóðarinnar vill yfirgefa myntbandalagið og þar af leiðandi fá þýska markið aftur. Meirihlutinn vill að Grikkland yfirgefi myntbandalagið og er einnig algerlega á móti því að koma Grikklandi til aðstoðar með fjármunum Þýskalands.
 
Þjóðverjar vilja úr myntbandalaginu
Í grein á FT segir Wolfgang Munchau að núverandi staða mála myntbandalagsins, stjórnmálalega séð, sé ekki samrýmanleg áframhaldandi tilveru evru og myntbandalagsins [sem er það sama og að segja að stjórnarskrá Þýskalands sé ekki samrýmanleg því sem farið er fram á við Þjóðverja að gert verði - eða í sanni öfugt]. Við séum að horfa á byrjunina á endalokum evrunnar ef núverandi staða festi sig í sessi segir Munchau.

Hann segist hafa heyrt því hvíslað að eina hugsanlega málamiðlunin í þessari glímu myntbandalagsins við Þýskaland sé sú, að gegn einnota (one off) aðstoð við Grikki - og svo aldrei aftur til neinna annarra landa - fái Þýskaland innleitt nýja, herta og ógnvekjandi skilmála fyrir veru og þátttöku landanna í myntsamstarfinu. Og svo einnig, að hægt verði að reka lönd úr myntbandalaginu gegn vilja þeirra. En Munchau bindur ekki miklar vonir við að svona málamiðlun sé raunverulega í boði. Hann telur að Angela Merkel ætli sér greinilega ekki að fara á skjön við stjórnarská Þýskalands og vilji einnig túlka anda stofnsáttmála myntbandalagsins samkvæmt upphaflegum tilgangi hans.

En hver sem ákvörðunin verður, þá marka þessir atburðir þáttaskil og upphafið á endalokum myntbandalagsins eins og við þekkjum það í dag, segir Munchau. Þetta sé hið sögulega mikilvægi ákvörðunar Angelu Merkel kanslara, sem greinilega ætlar sér að taka stjórnarskrá Þýskaland alvarlega - og sem sagt - taka hana fram yfir tilveru myntbandalagsins [og sem mig grunar að hún, úr þessu, álíti dauðadæmt hvort sem er]
 
 
Fyrri færsla
 

Mynd af svartri framtíð: lífið eftir japönsku. Hugskot um fjölskyldu- og ættarsamfélagið

Mannfjöldaspá Japans 
 
Mynd af svartri framtíð. Lífið eftir japönsku
 
Mannfjöldaspá fyrir Japanska hagkerfið næstu 95 árin. Þessi spá jafngildir því að Íslendingar allir yrðu aðeins um 100.000 talsins eftir 95 ár. Þegar faðir minn góði og nú sálugi fæddist árið 1921 voru Íslendingar um það bil 94.000 talsins. Þetta var fyrir aðeins 89 árum. Þegar ég fæddist árið 1956, eða 35 árum seinna, voru Íslendingar orðnir 159.000 talsins. Í dag eru þeir um 315.000. Þetta kallar maður framfarir og að eiga bjarta framtíð.
 
Það leiðinlega við þessa japönsku mynd er eðlilega það, að fyrir Japani þýðir þetta endalok velmegunar. En svona eða álíka verður ástandið í flestum ríkjum Evrópusambandsins einnig. Ömurlegt framtíð er í vændum fyrir flest ríki ESB. Það er ógerningur að snúa þessari þróun við nema á hundruðum ára. Þannig virkar útsæðislíkan bænda (e. farmers seed model) fyrir Homo Sapiens. Að finna eina konu á frjósemisaldri á þessari mynd mun kosta mikla leit. Ef þær geta flúið svona samfélag þá munu þær örugglega gera það. Þær munu að minnsta kosti ekki vilja fæða börn inn í svona ruglað samfélag. Þær fara í verkfall. Japanskar konur fóru í verkfall. Nútíminn kom aldrei til þeirra; Life After Japanese (uppfært: það er sennilega nauðsynlegt að taka það fram að þessi færsla er ekki 1. aprílgabb
 
Vísitala raunverðs húsnæðis frá 1. ársfj 1970 = 100  til 4. ársfj. 2008 Japan - Þýskaland - OECD lönd 
Mynd; raunverð húsnæðis í ÞÝS, JAP og OECD frá 1970
 
Hugskot um ættarsamfélagið

Mannfjöldi á Íslandi 1. desember hvert ár frá árinu 1703
Ég sá þessa bloggfærslu hjá Sigurði Ingólfssyni fyrir nokkrum dögum. Þarna rifjaðist upp fyrir mér samtal sem ég átti við hagfræði-dóttur mína sem býr (því miður fyrir mig:) í París í Frakklandi eins og er. Við vorum að ræða saman um hið hrikalega lága frjósemishlutfall sem er í næstum öllum löndum ESB - og hvernig standi á þessu. "Pabbi, þú skilur þetta ekki alveg," sagði hún. "Ég hef séð fólk á götunni hérna í París með smábörnin sín. Þetta er ömurlegt að horfa uppá. Þú ert alinn upp á Íslandi og skilur ekki að hér eignast fólk ekki börn nema að það sé alveg 1000% öruggt um að lenda ekki á götunni með barnið. Þið á Íslandi þurfið ekki að hugsa út í þetta. Þið eignist bara börn án þess að hugsa út í það, vel vitandi að þið munuð ekki lenda á götunni með barnið, sama á hverju dynur." 

Frjósemishlutfall og atvinnuþátttaka kvenna
Þetta hafði ég auðvitað ekki hugsað út í. En svo fór ég að hugsa nánar; já þetta er rétt hjá henni, en það er meira, miklu meira. Af hverju er fólk á Íslandi ekki hrætt við að eignast börn? Jú fyrir það fyrsta þá er þar auðvitað hið svo kallaða "velferðarsamfélag". En sú skýring ein dugar ekki nándar nærri alveg. Hún er alls ekki næg, því jafnvel í "velferðarsamfélögum" eignast fólk ekki börn, eða a.m.k ekki nógu mörg börn til í það minnsta að viðhalda samfélagi sínu. Það er eitthvað meira hér. Já það er meira og það er; 1) sterk fjölskyldubönd og 2) sterkt ættarsamfélag.
 
Frjósemi í Svíþjóð frá 1960
Þegar RÍKIÐ yfirtekur hlutverk fjölskyldunnar þá endar líf ættarsamfélagsins. Því þá eyðileggur ríkið hvatana sem búa til þær aðstæður sem fær ættarsamfélagið til að þrífst vel og blómstra. Blóð er næstum alltaf þykkara og haldbetra en vatn hins opinbera. Ég enda þó alltaf á þeirri lokaniðurstöðu sem bæði ég og konan mín komumst næstum alltaf að, þegar við ræðum þessi mál; í endanum er það alltaf atvinnumarkaðurinn sem knýr fólk til góðra gjörninga á þessu sviði. Full atvinna, tækifæri fyrir alla, menntaða sem minna menntaða, er það sem hefur úrslitaþýðingu fyrir framtíð samfélagsins. 

Stærð hins opinbera geira og hagvöxtur
En full atvinna getur ekki skapast í ríkjum með of stóran opinberan geira, því hagvöxtur í svoleiðis samfélögum verður alltaf of lélegur til að geta knúið fram fulla atvinnu handa öllum. Ergo; lágir skattar, hóflegur lítill opinber geiri, fjölskyldu- og ættarsamfélag, plús að það sé ekki tabú þó svo ógift fólk, eða fólk sem er ekki í sambúð, eignist börn; að það reddist þrátt fyrir allt. Þökk sé fjölskylduböndum og ættarsamfélaginu. Að reyna að gera ættarsamfélagið óþarft eru grundvallarmistök. Það ætti hins vegar alltaf að reyna að gera hið opinbera sem mest óþarft. Það er það eina eðlilega.
 

Frjósemi í Þýskalandi frá 1960
Þessi tvö fyrirbæri, fjölskylduböndin og ættarsamfélagið, munu aldrei skera það mikið niður að þau hætti að virka. Það gerir hins vegar hið opinbera þegar skattatekjurnar hætta að koma inn. Og það munu þær gera (skattatekjurnar) þegar samfélagið verður gelt. Þá er ekkert eftir. Búið er þá að eyðileggja alla innviði samfélagsins frá grunni. Þá tekur Viktoríanskt samfélag við, þar sem hver er sjálfum sér næstur. 

Frjósemi í Japan frá 1960
Svo eru örugglega fleiri þættir sem spila hér inn. En nógu stór er að minnsta kosti hinn opinberi geiri í Frakklandi þar sem fólk sést á götunni með börnin sín í því langtíma massífa atvinnuleysi sem þar ríkir. Sama er að segja um mörg ríki með stóran opinberan geira þar sem frjósemishlutfall er allt of lágt. Það sama var einnig að segja um Sovétríkin. Þau voru ljóslifandi dæmi um fullkomna upplausn fjölskyldunnar og afnám ættarsamfélagsins. Svartnættið í faðmi hins gjaldþrota opinbera varð algert. Samfélagið dó og er ennþá að deyja. 

Hin svo kölluðu "velferðarsamfélög" eiga sífellt á hættu að breytast í dópsölu ríkisins fyrir stjórnmálamenn. Ekki er hægt að komast út úr dópsölunni né neyslu þegnana aftur. Ríkið blæs út, hagvöxtur, nýsköpun og loks frjósemi stöðvast og hverfur. 
 
Eina óendurnýjanlega náttúruauðlind Evrópusambandsins, að því er virðist, er fólkið sjálft. Það er að hverfa. Árið 2050/60 munu flest börn heimsins - í einu landi - að líkindum fæðast í Bandaríkjunum og ekki í Kína. Í hvorum markaðnum vilt þú, Ísland mitt kæra, vera þátttakandi? Svartnætti eða ekki. To be, or not to be í orðsins fyllstu merkingu. Er ekki kominn tími til að einhver sjónfrár sé settur á ný í útkíkk á þjóðarskútunni, sem greinlega er að sigla í vitlausa átt. Austur er kolröng stefna. 
 
Fyrri færsla
 

Írland - Finnland - Grikkland - Þýskaland - Lettland - Litháen - Eistland. Svo eru það Spánn - Portúgal - Ítalía. . . og Gylfi

 
Evruhagkerfi Írlands á langri niðurleið 
 
Það sem Gylfi veit ekki 
 
1. Írland ennþá á leiðinni niður og á heljarþröm

Írska hagstofan kynnti á fimmtudaginn fyrstu niðurstöður mælinga á frammistöðu írska evruhagkerfisins á síðasta ári. Árið 2009 í heild kom út með 7,1 prósent samdrætti í landsframleiðslu og 11,3 prósent samdrætti í þjóðarframleiðslu. Þetta er mesti samdráttur á einu ári í sögu Írlands, segir hagstofan. Á síðasta fjórðungi 2009 féll landsframleiðsla Írlands um 5,1 prósent miðað við sama tímabil á árinu 2008. Samdráttur landsframleiðslu á milli þriðja og fjórða ársfjórðungs 2009 var 2,3 prósent, þannig að samdrátturinn heldur áfram á Írlandi. Á síðustu 11 ársfjórðungum hefur hagkerfið haldið áfram að dragast saman alla ársfjórðunga nema einn. Samtals á þessu tímabili er 13,2 prósent af írska hagkerfinu horfið; hagstofa Írlands | Børsen
 
Þá vitum við eftirfarandi

2. Við vitum að ERM landið Lettland sem tengt hefur mynt landsins fasta við evru hefur sett nýtt heimsmet í efnahagshruni. Í skýrslu Center for Economic and Policy Research í Washington í febrúar kom fram að afleiðing gengisbindingarinnar sé sú að heimsmet í hruni landsframleiðslu nokkurs ríkis, síðan sögur hófust, er nú verið að setja með 30% hruni landsframleiðslu Lettlands inni í ERM-pyntingarklefa Evrópusambandsins. Samdrátturinn í landsframleiðslu Lettlands á þremur árum verður yfir 30%. Þetta er meira en landsframleiðsla Bandaríkjanna féll í stóru kreppunni frá 1929-1933 | Mánudagur 15. febrúar 2010
 
3. Við vitum að finnska hagstofan gerði grein fyrir árinu 2009 í heild þann 1. mars. Landsframleiðsla Finnlands féll um hvorki meira né minna en 7,8% á árinu í heild. Þetta er mesta hrun í landsframleiðslu Finnlands á einu ári frá því að mælingar hófust árið 1975. Í frægu finnsku kreppunni 1991-1993, þegar Finnland upplifði erfiða bankakreppu samhliða hruni Sovétríkjanna, þá féll landsframleiðsla Finnlands "aðeins" um 6% á árinu 1991 þegar verst lét. Til að fá fram tölur um svipað hrun og varð á árinu 2009, þurfa Finnar að leita aftur til áranna 1917-1918. Þetta er hin svo kallaða finnska leið sem mikið hefur verið í ríkisfjölmiðlum á Íslandi og kynnt þar sem fyrirmynd fyrir Ísland | Þriðjudagur 2. mars 2010
 
4. Við vitum að Grikkland er orðið gjaldþrota í evrum inni í Evrópusambandinu. Alþjóða Gjaldeyrissjóðurinn er á leiðinni þangað. 
 
5. Við vitum að það er hægt að hafa svo kallaðan sterkan gjaldmiðil í veikum hagkerfum. Það sjáum við á Japan og evrusvæðinu. Þetta eru tvö veikustu hagkerfi heimsins og sem einnig munu þjást mest næstu árin, áratugina og aldirnar - þ.e íbúar þessara hagkerfa.

6. Við vitum líka að gjaldþrotahætta ríkisjóða í Evrópu er hærri hjá þeim löndum sem hafa ekki sína eigin mynt. Þetta vitum við núna.

Ekkert af þessu virðist viðskiptaráðherra Íslands vita. Hann hlýtur að lifa og anda í lokuðu ERM-herbergi inni við sundin blá. Já, hann er heppinn að búa á Íslandi, því framtíð íslenska hagkerfisins var að minnsta kosti öfundsverð þegar hann settist sæll og glaður í ráðherrastól viðskiptaráðuneytisins. Þetta tilfelli er greinilega verra viðureignar en nokkurn tíma hefur mælst frá upphafi. Hvað gerðist?

Írland - Finnland - Grikkland - Þýskaland - Lettland - Litháen - Eistland. Svo eru það Spánn - Portúgal - Ítalía. . . og Gylfi - sterkasti hagfræðingurinn í evru-líkkistunni 
 
Hve mikið meira þurfum við að vita? Hvenær verðum við loksins upplýst? 
 
Eftirmáli
 
Furðufugl virðist sitja á í fuglahreiðri fyrrverandi viðskipta- og bankamálaráðherra Íslands. Einn og vel einangraður í musteri forvera síns. En fyrirrennari Gylfa var þó miklu verri. Hér eru samt tveir þungavigtarmenn Samfylkingarinnar komnir saman í eitt - og útkoman er núll. 

Merkilegt hvað 0,1% er miklu betra en núllið hann Gylfi. Það er líka furðulegt að Bandaríkjamenn skuli ekki hafa svona Gylfa og Björgvini til að bjarga sér eftir að mynt þeirra, Bandaríkjadalur, hefur misst 95% af verðgildi sínu gagnvart sumum gjaldmiðlum heimsins, eftir að hann sem betur fór var tekinn af gullfæti. Svona gullfótur er núna að trampa myntbandalagslönd Evrópusambandsins í spað.  

Endirinn á framsögu ráðherrans varð sá að hagfræðingar Seðlabanka Íslands enduðu inni á salernum bankans til að komast hjá því að þurfa að pissa í buxurnar af hlátri fyrir framan viðskiptaráðherra Íslands. Það tókst rétt svona sæmilega. Dapurlegt og sennilega satt; MBL
 
Fyrri færsla
 

Evruþátttaka hefur djúpfryst ítalska hagkerfið

 
Hagvöxtur síðustu 9 ár 
 
Er Evrópujökull að myndast?
 
Þið munið öll eftir hinum sjúka manni Evrópu (e. the Sick Man of Europe). Frá 1990 varð Þýskaland hinn sjúki maður Evrópu. Sameining Þýskalands kostaði mikið og hagvöxtur varð ömurlegur. Hefur þetta batnað núna? Nei Þýskaland er ennþá fárveikt. Meðalhagvöxtur á ári í Þýskalandi hin síðustu 10 ár er næstum enginn, eða 0,2-0,5 prósent á ári síðustu 9-12 ár. Þetta er þá tæplega 30% af hagkerfi evrusvæðis, sem ennþá er fárveikt.

En það eru fleiri sjúklingar sem liggja á öldrunardeildinni. Ítalía er alveg meðvitundarlaust hagkerfi. Ekkert bifast á Ítalíu. Skegg- og hagvöxtur í ítalska hagkerfinu er alveg hættur og hárin fara bráðum að draga sig inn undir húðina og hverfa. Frá árslokum 2001 til ársloka 2009 hefur ítalska hagkerfið vaxið um það bil 0,0000%. Þetta er verra en Japan og er þá mikið sagt. Ítalía er rúmlega 17% af evru hagkerfinu. Þá höfum við 17+30 eða um það bil 47% af evruhagkerfinu sem er orðinn jökull.

Nú fer Þýskaland fram á að restin af evrusvæði setji frystivélarnar í gang og frysti sig niður í þýsk-ítalska jöklakerfið. Þetta er kölluð aðlögun. En hve skemmtilegt verður að fylgjast með þessu náttúrufyrirbæri. Ég mæli með pistlinum á Financial Times Alphaville, sjá slóð hér að ofan.

Neikvæðir raunstýrivextir á Spáni
Byggingarbólan á Spáni hefur forðað Spáni frá jöklafrosti. Ástæðan fyrir því að bólan varð til á Spáni sést vel hér á mynd Edward Hugh; neikvæðir raunstýrivextir seðlabanka Evrópusambandsins á Spáni. Segið svo að vaxtavopnið virki ekki !
 
Írland er svipað, þ.e. rjúkandi rústir eftir ranga stýrivaxtastefnu seðlabanka Evrópusambandsins, með 7,1 prósent samdrætti í landsframleiðslu á árinu 2009 og 11,3 prósent samdrætti í þjóðarframleiðslu. Þetta er mesti samdráttur á einu ári í sögu Írlands, segir írska hagstofan  Á síðustu 11 ársfjórðungum hefur írska hagkerfið haldið áfram að dragast saman alla ársfjórðunga nema einn. Samtals á þessu tímabili er 13,2 prósent af írska hagkerfinu horfið 
 
Meira efni og fréttir hér í glugganum á tilveraniesb.net 
 
Fyrri færsla 
 

ESB, evran og friður

Eurokrataþvættingur
 
Í frétt Bloomberg, sem ég skrifaði um í gær, kom fram að Martin Feldstein álítur að sameiginleg mynt komi ekki í veg fyrir ófriðar- og styrjaldarhættu á milli þeirra landa sem nota myntina. Þetta hefur lengi verið mitt álit líka. Ef menn hugsa dýpra þá munu þeir alltaf komast að þeirri niðurstöðu að það eina sem hindar ófrið og styrjaldir er öflugt lýðræði. Lýðræðisþjóðir fara ekki í stríð við aðrar lýðræðisþjóðir. Það gera þær bara ekki. Fundnar eru lausnir. En þær geta þó þurft að heyja hernaðarlega baráttu við andlýðræðisleg öfl, þ.e. berjast fyrir varðveitingu lýðræðis.
 
Þess vegna er það að mínu mati þvættingur að halda því fram að tilkoma Evrópusambandsins hafi stuðlað að og varðveitt frið í Evrópu. Það er lýðræðið sem hefur gert það, ekki ESB. Hinsvegar hefur ESB og Brussel á margan hátt gert sitt ýtrasta til að grafa undan lýðræðinu í Evrópu. Nú er einnig að koma í ljós að Evrópusambandið er að verða frystikista efnahagsmála. Hagsæld, velmegun, massíft atvinnuleysi og ömurleg frjósemi eru að frjósa föst og þekja Evrópu með ís. Hvar endar þetta? Með nýjum ófrði? 
 
Færslan í gær
 

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Gunnar Rögnvaldsson
Gunnar Rögnvaldsson

Búseta: Ísland.
Reynsla: 25 ára búseta í ESB og fyrirtækja-rekstur í DK/ESB frá 1985 til 2010. Samband:
tilveraniesb hjá mac.com

Ég er hvorki skráður á Facebook, Twitter, Linkedin né á neinum öðrum "félags-vefjum". Aðsetur skrifa minna er einungis að finna hér á þessari síðu og á tilveraniesb.net og í blöðum og tímaritum

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband