Leita í fréttum mbl.is

Ástæður stríðsins og stríðslok

FRUMFORSENDUR

Úkraínustríðið er ágætis dæmi um hvað gerist þegar fullveldi lands er gert að pólitískum söluvarningi. Fyrir 10 árum skrifaði ég þetta:

"Þegar fullveldi og sjálfstæði ríkja verður óverjanlegt (e. indefensible) þá er mikil hætta á að þetta tvennt breytist smám saman í nokkurs konar pólitískan söluvarning. Að fullveldið og sjálfstæðið breytist þá í pólitíska "skiptimynt" og sogist inn á kauphallargólf hinnar pólitísku elítugræðgi hins pólitíska hagkerfis sem orðið er tröllrisavaxið"

Fullveldi Úkraínu getur aldrei orðið eins mikið og fullveldi Bandaríkjanna, eða Íslands, svo lengi sem samband okkar Íslendinga vestur um haf er heiðskýrt og tært. Og þarna á ég við þær landfræðilegu staðreyndir sem annars vegar eru umgjörðin um fullveldi Úkraínu, og hins vegar Bandaríkjanna og Íslands. Úkraína er ekki eyja. En Bandaríkin og Ísland eru hins vegar eyjur í veraldarhafinu, bæði landfræðilega og pólitískt. Þau eru bæði eyríki því Kanada er tappi Bandaríkjanna í norðri og Mexíkó er enn sem komið er bara Mexíkó og verður það svo lengi sem það gengur ekki í vanhelg bandalög fjandsamleg Bandaríkjunum

Vegna skorts á land- og náttúrufræðilegum landamærum Úkraínu er það aðeins vopnað hlutleysi á borð við svissneska módelið sem tryggt getur Úkraínu þolanlegt fullveldi. En til að svo geti orðið þarf Úkraína þjóðarsamstöðu og þjóðarsjálfstraust sem elur af sér sterkar ríkisstjórnir. Slíkt er ekki að finna í Úkraínu og verður þess utan aldrei að finna í því landi, því þjóðin þar er ekki ein þjóð heldur samsuða af þjóðarbrotum sem innbyrðis eru ósammála

Hafið í huga að útgáfa pappíra á borð við sjálfstæðisyfirlýsingar búa hvorki til þjóðir, sjálfstæði né fullveldi ríkja

Í erfiðum aðstæðum tryggði til dæmis Finnland lengi vel þolanlegt fullveldi sitt með vopnuðu hlutleysi í skjóli þjóðarsamstöðu sem ól af sér sterkar ríkisstjórnir sem ábeking þess. En vegna þess að Finnland gerðist útópískur kjáni eftir fall Sovétríkjanna þá breyttist fullveldi þess í pólitíska "skiptimynt" og sogaðist inn á kauphallargólf hinnar pólitísku elítugræðgi Evrópusambandselíta, sem reka kauphöll með fullveldi landa Evrópusambandsríkjanna. Og þar selja ókjörnar þær það lægstbjóðendum sem borga með lægsta sameiginlega nefnara sem til er í heiminum. Finnland er því á 28 árum orðið tannlaus skiptimynt á því að vera í Evrópusambandinu, en það gekk í sambandið 1994 og er í dag pólitísk skiptimynt fá- og vanvita ESB-elíta. Sömu og jafnvel hlutfallslega enn verri sögu er að segja um það ríki sem áður var Svíþjóð

Sergei Lavrov utanríkisráðherra Rússneska Sambandsríkisins hefur rétt fyrir sér þegar hann segir að þjóðir og lönd þeirra hafi full frelsi til að velja sér bandamenn í varnarmálum. En hann hefur líka rétt fyrir sér þegar hann segir að þjóðir og lönd þeirra hafi ekki rétt á því að auka þjóðaröryggi sitt á kostnað þjóðaröryggis annarra ríkja. Þ.e. þjóðir geta ekki aukið þjóðaröryggi sitt með því að minnka þjóðaröryggi annarra þjóða. Dæmi: A) Úkraína getur ekki aukið þjóðaröryggi sitt á kostnað þjóðaröryggis Rússlands. B) Mexíkó og Kanada geta ekki aukið þjóðaröryggi sitt á kostnað þjóðaröryggis Bandaríkjanna, með því að ganga í kínverskt Kyrrahafsbandalag og láta Kína um varnarmálin, því slíkt myndu Bandaríkin aldrei líða. Og trúið mér þegar ég segi að Bandaríkin munu ekki tapa stríði í Mexíkó við þannig aðstæður frekar en að Rússland mun tapa stríði í Úkraínu

ÁSTÆÐUR STRÍÐSINS Í ÚKRAÍNU

1) Árásir Kænugarðstjórnarinnar í sjö ár á þann hluta eigin þjóðar sem er rússneskur. Enginn forseti Rússlands getur setið áfram í embætti sínu án þess að aðhafast neitt í því máli. Gerði hann það, yrði honum sturtað, samstundis. Og trúið mér þegar ég segi að rússneska þjóðin mun alltaf geta losað sig við leiðtoga sína, sé það á annað borð vilji hennar. Rússland rekur hvorki rússneskt né kínverskt sovétríki í dag. Þann rekstur sjá Kína og Norður-Kórea um. Og ennfremur: ég hugsa að fáum sé eins illa við Sovétríkin sálugu eins og Vladímír Pútín forseta Rússlands, því það gekk einmitt út á að tortíma ölu því sem rússneskt var. Pútín er fyrsti maðurinn í langan tíma sem gerir Rússum kleyft að vera Rússar í Rússlandi, sagði Aleksandr Solzhenitsyn, en hann var fram til dauðadags hrifinn af Vladímír Pútín forseta. Pútín er fyrst og fremst maður hins almenna og óbreytta Rússa

Forsetinn sá hefur sagt að hrun Sovétríkjanna hafi verið mestu geopólitísku ófarir aldarinnar sem leið. Þar á hann við að 30 milljónir Rússa lentu þá utan landamæra hins nýja Sambandsríkis Rússlands. Þetta er auðvitað ekki rangt ályktað hjá Pútín, því einnig Þjóðverjar eiga sín djúpu sár í þessum efnum og þau svíða enn og gætu jafnvel farið að taka sig upp á ný úr þessu

2) NATO-brölt og NATO-væðing Kænugarðsmanna. Munið það sem ég skrifa hér fyrir ofan um það að ætla að auka þjóðaröryggi sitt á kostnað þjóðaröryggis annarra ríkja

3) Moskva var farin að álíta Bandaríkin og ESB sem snarbilaðar stærðir, jafnvel alveg-úrkynja, því þau stóðu fyrir valdaráni í Kænugarði 2014. Og í kjölfar kosninganna haustið 2020 stóðu þau fyrir valdaránstilraunum í Hvíta-Rússlandi. Hið sama eða svipað reyndu þau í Kasakstan síðasta vetur. "Þetta er snarbilað lið" hefur valdastéttin í Rússlandi líklega hugsað um Bandaríkin og Evrópusambandið. Og hún hefur rétt fyrir sér að því leytinu að Evrópusambandið er eitt greinilegasta dæmið um ofsa-bilað fyrirbæri mannkynssögunnar, því þar virkar ekkert. Ekkert! Og allir sem sjá vilja, sjá hversu Demókrata-ríkisstjórn Joe Bidens er bilað fyrirbæri, en hún hefur setið við vafasöm völd frá því í janúar 2020. Kjör hennar reyndu meira að segja 21 ríki Bandaríkjanna að kæra til hæstaréttar

ÞAÐ HÓFST SVONA

Stríðið hófst líklega með því markmiði Rússa að hræða Kænugarðsstjórna til samninga við rússneska sjálfsstjórnarmenn í austurhlutum Úkraínu. En málið var hins vegar það að Rússar hugðust fara heim að því verki loknu. En það gekk hins vegar ekki upp því rússnesku sjálfsstjórnarmennirnir í austri sögðu: "ef þið ætlið að fara heim aftur og skilja okkur eftir á valdi Kænugarðsmanna, þá verðum við allir drepnir. Leynilögregla Kænugarðs mun koma og slátra okkur öllum. Samþykkið okkur sem hluta af Rússlandi. Þannig að ef þið ætlið heim aftur, þá munum við ekki berjast með ykkur." Þetta breytti markmiðum stríðsins að miklu leyti, frá Moskvu séð, og Rússar tóku loksins silkihanskana af

Ýmislegt annað hefur einnig runnið upp fyrir rússneskum stjórnvöldum eftir að stríðið hófst og sem þau gerðu sér ekki grein fyrir. Til dæmis það að Úkraína væri svona mikið á valdi Bandaríkjanna og NATO, eins og raun ber vitni. Og að forseti Úkraínu sem hlaut kosningu undir slagorðinu "friður við Rússland", var allur annar en hann hafði látið uppi. Rússland hefur því fljótlega, eftir að innrásin hófst, komið auga á að það er ekki kjörinn forseti Úkraínu sem er við stjórn í landinu, heldur er honum stjórnað af öðrum og að slíkur þjóðarleiðtogi er því ósamningahæfur. Og allir vita nú hverjir þessir "aðrir" eru. Svona held ég að markmið stríðsins hafi breyst eftir að það hófst. Ég get í hlutarins eðli ekki vitað þetta fyrir víst, en þetta er það sem ég held

Það versta sem gat gerst fyrir alla aðila málsins gerist því miður einnig og mjög hratt; NATO, sem er Bandaríkin að mestu leyti, plús skjálfandi Evrópusambandið, gerðu í buxurnar með viðbrögðum sínum og fljótlega rann það upp fyrir rússnesku valdastéttinni og efri-lögum þeirrar þjóðar, að Rússland átti ekki lengur í stríði við Úkraínu, heldur átti Rússland í stríði við Bandaríkin og NATO. Jafnvel fyrst og fremst. Og þetta þýddi að hver sá forseti Rússlands sem líta myndi undan í þeirri baráttu væri algjörlega sjálfhættur sem forseti Rússneska Sambandsríkisins, immed! Út með hann og alvöru harðjaxl inn í staðinn! - hefði verið hrópað

Hér er ekki tekin svo kölluð "siðferðileg" afstaða og þessi skrif mín eru ekki væll um hver og hversu "vondur" eða "góður" hinn eða þessi málsaðili sé í þessu ólukkunnar máli. En ég tel hins vegar orð mín hér sannari en sú falsfréttaherferð sem vestrænir fjölmiðlar hafa í bráðum heila fjóra mánuði kokgleypt úr börkum Hvíta hússins, Pentagons og Brussels. Næstum allt sem þaðan hefur komið hafa verið lygar um gang stríðsins. Rússneski herinn mun ekki tapa stríði í Úkraínu frekar en Bandaríski herinn mun tapa stríði í Mexíkó

EN OG EN

En - frá því að stríðið braust út hefur það margt breyst í afstöðu Rússa að ég er kominn á þá skoðun að Rússland áliti að ekki sé hægt að gera neina samninga við Vesturlönd. Að þeim sé ekki lengur treystandi til að halda gerða samninga. Þess vegna held ég að Rússland muni taka alla Úkraínu yfir. Ekki til að stjórna henni beint allri, né til að framfleyta þá komandi fátækum vesturhluta hennar, heldur til að sjá til þess að landið allt í hverri mynd sem það kann að verða, sé "vinveitt" eða í það minnsta hlutlaust gagnvart Rússlandi. Þetta má gera með ýmsum hætti, en of langt mál er að koma inn á það hér í þessari grein. En Rússar álykta sennilega frá og með nú að útilokað sé að fullvalda Úkraína verði neitt annað en Natostan, alveg sama hvað. Og að þeir hafi fengið meira en nóg af slíku standi um aldur og ævi. Svona hefur Kænugarðsstjórninni tekist að farga því fullveldi landsins sem fáanlegt var

OG SÍÐAN ER ÞAÐ HIN SJÁLFGEFNA STÆRÐ

Annað sem einnig er undirliggjandi hér í þessu máli, eru grundvallar-þjóðaröryggismál Bandaríkjanna til langs tíma litið: en þau eru að ekki skuli ná að myndast ein samstæð heild sem ræður meginlandi Evrópu og sem gert gæti samninga eða samruna við Rússland, en einmitt á þeim nótum hefur viss vængur stjórnmála Evrópusambandselíta verið

Þó svo að flestir bandarískir stjórnmálamenn séu ekki meðvitaðir um það, þá er þessi grundvallarstefna eða þetta grundvallarstef Bandaríkja Norður-Ameríku alltaf á sjálf-stími (e. auto pilot) án þess að þeir taki sérstaklega eftir því. Þetta stef er bara þarna, og hrekkur alveg ósjálfrátt í fiðlugírinn við réttar aðstæður, án þess að stjórnmála- og embættismenn geri sér sérstaklega grein fyrir því. En það var einmitt þessi langtíma grundvallarstefna í þjóðaröryggismálum Bandaríkjanna sem knúði á um þátttöku þeirra í Fyrri- og Síðari-heimstyrjöldinni á meginlandi Evrópu. Það var alls ekki góðmennska sem knúði þau til þess. Lönd eiga ekki vini, þau eiga hagsmuni, eins og Charles de Gaulle sagði. Bandaríkin horfðu á Bretland brenna án þess að aðhafast neitt. Og nú segja sumir að Bandaríkin eigi að fara í stríð fyrir Úkraínu. "Er þetta bilað fólk" hugsar Kreml. "Er þetta alveg snarbilað fólk þarna á vesturlöndum? Man það ekki neitt?"

En einmitt Stóra-Bretland hefur sömu hagsmuni og Bandaríkin í þessum efnum: þ.e. að koma með öllum tiltækum ráðum í veg fyrir að myndast geti eitt samhangandi veldi á Evrópuskaganum sem skagar út úr móðurlandi Rússlands og sem byggt gæti flota til höfuðs Fimm augum (Stóra-Bretland, Bandaríkin, Kanada, Ástralía og Nýja Sjáland) sem öll eru eyríki, og ráða því hver fær og fær ekki gera innrás hvar og hvenær sjóleiðina

EKKI Í BOÐI LENGUR

Lygn hefur því Evrópa streymt til Helvítis frá því að Evrópusambandið var stofnað til höfuðs Bandaríkjunum 1958. Nú situr skjálfandi meginland Evrópu í forstofu þess og heldur jafnvel að Rússland muni líða bandarísk kjarnorkuvopn í því sem einu sinni var Finnland!

Athugið að Rússland er fyrst og fremst landherveldi og Bandaríkin eru fyrst og fremst flotaherveldi. Finnland er ekki lengur Finnland, greinilega, hljóta Rússar að hugsa. Og Rússar þurfa hvorki að sigla til Helsinki né Odessa frekar en þeir vilja. Landleiðin er fær landherveldum. Til dæmis landleiðin um Mykolaiv til Transnistríu sem lokar Odessa af úr norðri - og bíða svo

En Pax Americana er ekki lengur í boði fyrir þá sem nú hýrast og vola í forstofu sjálfskaparhelvítis Evrópusambandsins. Of seint er að ætla að njóta þess sem á nefi meginlandsins eitt sinn stóð. NATO var með orðum Ismay lávarðar stofnað til að: 1) halda Rússum úti úr því sem þá var Vestur-Evrópa, og 2) að halda Bandaríkjunum inni í Evrópu, og 3) að halda Þýskalandi niðri. Allar þessar forsendur eru nú horfnar. Bandaríkin eru farin heim og Þýskaland ræður að mestu á meginlandi Evrópu og Rússar eru ekki inni í Vestur-Evrópu

Svo lengi sem samband eyjunnar Íslands vestur til Washingtoneyju er heiðskýrt og tært, er Ísland fullvalda ríki því þá er fullveldi okkar Íslendinga verjanlegt. Annars ekki. Svo einfalt er það

ÞJÓÐHÁTÍÐARDAGUR ÍSLENDINGA 17. JÚNÍ 2022

Á Ströndum

Mynd: Horft yfir til Skagastrandar frá Ströndum

****

Gleðjist því kæru Íslendingar þann 17. júní. Gleðjist yfir því að vera sjálfstætt og fullvalda eyríki í Norður-Atlantshafi, sem í gagnkvæmu bandalagi við fullvalda Bandaríki Norður-Ameríku gat þannig aukið þjóðaröryggi sitt án þess að gera það á kostnað þjóðaröryggis annarra ríkja

Fyrri færsla

Boris ekki á leið út


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mjög góð greining. Hvað á að gera við rúv með allar þessar falsfréttir og hálfsannleik sem þar að auki kostar landsmenn gífurlegar fjárhæðir?

Kristinn Bjarnason (IP-tala skráð) 17.6.2022 kl. 08:59

2 identicon

Bestu þakkir fyrir pistilinn.

Gleðilegan þjóðhátíðardag, 17. júní 2022.

Símon Pétur frá Hákoti (IP-tala skráð) 17.6.2022 kl. 08:59

3 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Þakka ykkur fyrir Kristinn og Símon Pétur.

- og já, gleðilega þjóðhátíð!

Gunnar Rögnvaldsson, 17.6.2022 kl. 12:57

4 Smámynd: Ingólfur Sigurðsson

Áhugaverður pistill. Ályktanir þínar um ástæður Rússa eru mun meira sannfærandi en svarthvíti og barnalegi áróðurinn í RÚV: "Pútín er vondur, við erum góð."

Það eina sem ég er ekki viss um að sé rétt í þessu er sjálfstæði Íslands. Kannski erum við eins sjálfstæð og við getum verið undir vernd Bandaríkjanna og NATÓ, en við erum eins ófrjáls og við getum verið andlega. Þjóðin sem barðist fyrir sjálfstæði og fékk það 1944 er ekki lengur til. Þjóðin í dag er þrælkuð þjóð af femínískum þrælslundaráróðri ESB, þannig eru ungu kynslóðirnar. Flestir aðrir hlýða því valdi, sem núverandi ríkisstjórn er ágætt sýnidæmi um.

Landið er að sökkva ofaní fátækt og eymd Evrópusambandsins á meðan Kína, Indland, Afríka, Rússland og Bandaríkin dafna, en Bandaríkin að vísu tæplega, á meðan þar er Biden og Demókratar við stjórn. Vissulega er góðæri enn á Íslandi, en framtíðarmyndin hlýtur að vera dökk fyrir hinn vestræna heim, sem er á niðurleið.

Kínverskir peningar eru orðnir áhrifamiklir í Bandaríkjunum, samkvæmt sumum fréttum. Um leið koma kröfur kínverskar um eftirlit með heimsbyggðinni á vesturlöndum í gegnum Facebook, Google og öll þessi risafyrirtæki. Við erum að stefna inní kínverskt eftirlitskerfi á heimsvísu, sem minnir mest á söguna 1984 eftir George Orwell.

Trump var undantekningin sem sannar regluna. Forsetar Bandaríkjanna hafa verið alþjóðavæðingar og ESB sinnar flestir.

Það sem ég hef sagt við aðra á Netinu segi ég hér. Ef Rússland sigrar tel ég það mögulega jákvætt. Það sem heimurinn þarf er mótvægi við Hollywood sem er nokkurskonar Vatíkan heimsmenningarinnar í dag, með sáraeinföldum og barnalegum boðskap, sem stjórnar hugum æskulýðsins og forheimskar hann, og aðra með. 

Ef Rússland verður það sem Pútín vill, mótvægi við Vesturlönd, þá er von til þess að málsmetandi fólk eins og til dæmis á Íslandi fari að hugsa, hætti að hlýða í blindni eins og fólk gerði á miðöldum þegar kirkjan var allsráðandi.

Það þarf tvo eða fleiri sterka póla til að sjálfstæði í hugsun vakni hjá fólki. Það er ekki nóg að trúa RÚV, "Við höfum alltaf rétt fyrir okkur, ekki hinir". 

En pistlarnir þínir eru alltaf góðir Gunnar, og maður sér ekki eftir að lesa þá.

Ingólfur Sigurðsson, 17.6.2022 kl. 13:18

5 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Þakka þér fyrir djúpur og hugsandi Ingólfur að vanda.

Muna að passa sig á KGB á Íslandi - undir meðal annars rekstrarstjórn DDRÚV í Austur-Berlín Reykjavíkurborgar.

Kveðja

Gunnar Rögnvaldsson, 17.6.2022 kl. 13:32

6 Smámynd: Ragnhildur Kolka

Gleðilegan Þjóðhátíðardag, Gunnar og þakka þér fyrir góðan pistil. Fullveldið á alltaf að vera til umræðu á þessum degi,en því miður sá engin forustumaður sjálfs Sjálfstæðisflokksins ástæðu til að fjalla um það á síðum Moggans í dag.

Takk aftur. 

Ragnhildur Kolka, 17.6.2022 kl. 16:22

7 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Þakka þér fyrir Ragnhildur.

Já það er víst þannig með verklausu flokksforystu heilagra EES-ritninga. Þar er allt skrifað fyrir hana í útlöndum.

Kveðjur

Gunnar Rögnvaldsson, 17.6.2022 kl. 16:57

8 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Sæll Gunnar og allir gestir þínir, nú hreppti ég einskonar annan í sautjanda júní með því að lesa vel heimaverkefnin mín.Gleðilega þjðhátíð. 

Helga Kristjánsdóttir, 18.6.2022 kl. 15:00

9 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Þjóðhátíð.

Helga Kristjánsdóttir, 18.6.2022 kl. 15:00

10 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Þakka þér fyrir Helga og sömuleiðis.

Kveðja

Gunnar Rögnvaldsson, 18.6.2022 kl. 19:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Gunnar Rögnvaldsson
Gunnar Rögnvaldsson

Búseta: Ísland.
Reynsla: 25 ára búseta í ESB og fyrirtækja-rekstur í DK/ESB frá 1985 til 2010. Samband:
tilveraniesb hjá mac.com

Ég er hvorki skráður á Facebook, Twitter, Linkedin né á neinum öðrum "félags-vefjum". Aðsetur skrifa minna er einungis að finna hér á þessari síðu og á tilveraniesb.net og í blöðum og tímaritum

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband