Leita í fréttum mbl.is

Í skuggamynd Sovétríkjanna

USS George H.W. Bush (CVN-77) sigldi út Solentsund frá Portsmouth á þriðjudaginn, áleiðis norður fyrir Skotland á Saxon Warrior heræfinguna. Langt er síðan að bandarískt flugmóðurskip hefur sést svo norðarlega á Atlantshafi. Heimahöfn CVN-77 er Norfolk, Virginíufylki

Það fer lítið fyrir þeim sviðum eða málefnum sem Bandaríkin og Rússland myndu geta unnið saman að, ef þau vildu. Svo ef þau hafa fátt eða jafnvel ekkert mál til að vinna saman að, hvers vegna ættu þau þá að vinna saman? Þetta er ekki spurning sem á eingöngu við um þessi tvö ríki. Flest ríki hafa um aldur og ævi þrifist vel án þess að vinna saman. Að vinna saman er engin skylda. Og samvinna getur hæglega breyst í plágur

Og samvinnugrundvöllur Bandaríkjanna og smáríkislegs Kína féll að mestu um sjálfan sig um leið og Sovétríkin hrundu. Þau lögðu þeim tveim ríkjum til mikilvægasta samvinnugrundvöllinn. Þeirri innlögn stjórnaði Richard Nixon. Hrun þannig samvinnugrundvalla tekur vissan tíma, en hrun hans er orðið augljóst mál nú, nema að Kína litla leggi Norður-Kóreu inn á þann tóma völl, sem mun ekki verða af, meti ég stöðuna rétt. Áhrifavald Kína nær ekki svo langt að það geti lagt Norður-Kóreu inn. Það er mönnum að verða ljóst, þ.e. að Kína er fyrst og fremst loftbelgs ríki, í alþjóðamálalegum skilningi

Það er hlaupin mikil óðaverðbólga í hugtökin samvinna, samvera og samfélag. Sérstaklega á svo kölluðum "samfélagsmiðlum", því þar fer engin samvera fram né heldur nein samvinna. Þar sitja menn einir úti í horni með hvert sitt samfélag með sjálfum sér og reyna að tryggja sig gegn því að vera áfram úti í því horni sem þeir þar með eru búnir að festa sig í, með því að vera á þeim. Þeir þora varla lengur að anda að sér súrefni af ótta við að taka það frá "öðrum". Og að anda því út aftur sem kol-eitthvað, jafngildir orðið fastasetu í rafmangsstólum hinna ímynduðu samfélaga. Félaga sem hvergi eru til nema úti í fésbókar-fangaklefum speglasalanna um ímyndað sam-sam-sam-sam-sam. Þetta er arkitektúr ömurleikans og hann smitar af sér samisma, sem orðin er hrein plága

Það er samt hægt að skilja Rússland án þess að sam-isma það. Rússland er svo stórt og strjálbýlt ríki að engin leið er að halda því saman nema með ofstjórn og gerræði. Það er landafræðin sem skilgreinir stjórnmál Rússlands og henni verður ekki breytt. Pútín forseti Rússlands hefur unnið hreint kraftaverk miðað við það land sem hann tók við. Á fyrri helming valdatíma hans sögðust flestir ungir Rússar ætla að mennta sig og vinna að því að ná langt í lífi sínu innan atvinnulífs landsins. En svo hljóp hin efnahagslega velgengni frá Pútín og tók sér frí. Flest ríki lenda í því. Blessuð efnahagslega velgengnin er enn í fríinu og óvíst er hvenær hún snýr aftur til landsins, - sem lifir lífi sínu fyrst og fremst á orkusölu sem það ræður engu um verðið á. Og verðið það er of lágt til að fríi hinnar efnagaslegu velgengni ljúki. Ungrómurinn í Rússlandi í dag stefnir því fyrst og fremst að því að ná langt í lífi sínu sem trúir og dyggir þjónar föðurlandsins, innan hersins og öryggisþjónusta Rússlands. Skilst þetta? Já auðvitað skilur maður þetta, því þetta er svo algerlega mannlegt. Fyrirmyndin er ekki lengur sú sama. Hún er ekki lengur ríkidæmi, kampavín og kavíar vegna velgengni í atvinnulífinu, heldur er hennar nú leitað á þeim stöðvum sem efst eru í huga rússneska ungdómsins. Og Rússar berjast betur því fátækari og svengri sem þeir eru. Það er hollt að muna það

Þetta er ekki neinum að kenna. Þetta er einungis tilveran eins og hún hefur alltaf verið og verður alltaf. Allir neyðast til að skokka þá braut sem sagan stóra og landafræðin sem mótar hana stikar út handa hverjum og einum í þessum heimi. Rússland er land þar sem allt snýr öfugt og allar ár renna á vitlausa staði. Rússar eru óheppnir með landafræðina sína og við því er ekkert að gera. Öryggisþarfir Rússlands munu vegna landafræðinnar alltaf rekast á nágrannaríkin, sama hver er við völd í landi þeirra og sama hver er við völd í öllum öðrum ríkjum veraldar. Það eina sem Rússar þurfa að skilja, en munu þó aldrei skilja, er að allir nágrannar þess hafa einnig sínar eigin öryggisþarfir, sem þeir verða fyrst og fremst að hugsa um. Og þeir munu heldur ekki skilja öryggisþarfir Rússlands á sama hátt og Rússar gera. Um þetta atriði getur aldrei orðið nein samvinna. Ekki frekar en samvinna kattar og músar getur snúist um sameiginlega hungursneið. Skák verður aldrei samvinna - það er bara þannig

Kemur því Intermarium, sama hvað hver segir. Washington er með það á hreinu. Ekki einn millimetri verður gefinn eftir. En það er hins vegar vel hægt að lifa með fastfrosin átök. Það er hægt. Skriðdrekar hafa þá sögulegu kosti eða ókosti að þeir frjósa oftast fastir í langan tíma þar sem þeir stoppa. Og standa þar kjurrir, þar til ný staða myndast. Þannig er það bara. Ekkert "sam" getur breytt því. Skákin verður leikin áfram sem skák, sama hvað hver segir

Fyrri færsla

Rafmagnsknúið fávitahæli


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Gunnar Rögnvaldsson
Gunnar Rögnvaldsson

Búseta: Ísland.
Reynsla: 25 ára búseta í ESB og fyrirtækja-rekstur í DK/ESB frá 1985 til 2010. Samband:
tilveraniesb hjá mac.com

Ég er hvorki skráður á Facebook, Twitter, Linkedin né á neinum öðrum "félags-vefjum". Aðsetur skrifa minna er einungis að finna hér á þessari síðu og á tilveraniesb.net og í blöðum og tímaritum

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband