Leita í fréttum mbl.is

Zelensky: "Úkraína verður hlutlaus"

Austrian State Treaty 1955

Mynd: Þessi ríkissamningur Austurríkis við "nýtt hlutlaust" Austurríki kom öllum erlendum herjum burt úr því ríki, þar með talið her Sovétríkjanna, árið 1955. Enginn séns er því á að Austurríki verði nokkru sinni NATO-ríki. Aðeins veruleikafirrtir kjánar láta sér detta slíkt í hug í þeim geopólitísku staðreyndum sem Austurríki býr við í sínum hluta heimsins. Hvers vegna tóku menn undir geggjunarhugmyndir Úkraínu um NATO-aðild í ljósi geopólitískra staðreynda hennar á jörðu niðri? Það væri fróðlegt að vita

****

FIMM VIKUR

Fyrir þremur vikum sagði forseti Úkraínu að landið "geti aldrei gengið í NATO"

Líða síðan tvær vikur og nú segir forsetinn að Úkraína verði "hlutlaust ríki"

Næsta melding –af því að samkvæmt tístkofafréttum vesturlanda sem halda á sér hita með rússnesku gasi er Úkraína jú að vinna stríð við Rússneska herinn– verður sennilega sú að forsetinn tilkynni að ekki sé víst að núverandi landfræðileg tilvist Úkraínu haldi og að óvíst sé því hvar í landinu landið verði áfram Úkraínuríki

SOVÉT-FJÖLMIÐLAR

Á sama tíma eru í hálfsovéskum fjölmiðlum vesturlanda keyrðar fréttir af því hversu vonlaus Rússneski herinn sé í hernaðaraðgerðum innan núverandi landamæra Úkraínu, þ.e. innan þeirra landamæra sem enn er látið líta út fyrir að séu óhagganleg, en hafa samt öldum saman færst fram og til baka. Það eina sem næstum er öruggt í Evrópu er það að landamæri ríkja húrrast fram og til baka - öldum saman

Hvað segir þetta okkur um hina hálfsovésku fjölmiðla vesturlanda. Er virkilega einhver munur á þeim fjölmiðlum og systurfyrirbærum þeirra í Sovétríkjunum sálugu? Ekki sýnist mér það þegar til dæmis síðustu forsetakosningar Bandaríkjanna eru teknar fyrir, þar sem annar frambjóðandinn var falinn fyrir kjósendum, af hinum hálfsovésku fjölmiðlum vinstrisamsteypunnar þar, og einnig þegar eftirmáli kosninganna 2016 þar vestra er skoðaður. Ég get að minnsta kosti ekki séð neinn mun á þeim og Sovét-Pravda undir Leoníd Bresnjev - og hið sama á að miklu leyti við um kollega þeirra í því sem kallað er "Evrópa". Síðan er það náttúrlega einnig sakamálasagan af hinu endalausa Glæpaleiti hér heima

INNRÁSIN OG RÚSSNESKI HERINN

Hvernig varð sú fréttabylgja vesturlenskra sovétmiðla til sem sagði að innrás Rússa inn í Úkraínu ætti að ganga hratt fyrir sig. Hvernig varð sú fréttabylgja eiginlega til? Hún er að minnsta kosti heimasmíðuð í smiðju hinna vestrænu og sem einmitt eru að klúðra flestum sínum málum vestan landamæra Úkraínu núna - þökk sé meðal annars vernduðum framjóðendum fjölmiðlanna beggja megin Atlantsála - til dæmis undrabarninu Merkel frá DDR og Joe galematís Biden

Ekkert bendir til að Rússar hafi gert ráð fyrir að innrásin myndi ganga hratt fyrir sig. Þeir völdu þá strategíu í byrjun að þynna liðsaflann og teygja hann yfir rúmlega þúsund kílómetra langa víglínu í stað þess að þykkja og þétta liðsaflann og þrýsta honum djúpt inn í landið á ákveðnum og afmörkuðum stöðum. Með því að þynna liðsafla framvarðarlínunnar vissu þeir vel að hættan á bakárásum (e. ambush) myndi aukast. En markmið Rússa er fyrst og fremst að tortíma hernaðargetu Úkraínu. Tveir þriðju hlutar ökutækjataps Rússa hafa verið frá þannig einingum Úkraínuhers sem Rússum yfirsást þegar þeir kembdu landið og lentu því á bak við víglínuna og börðu Rússa í bakið. En dæmigerð herdeild (e. brigade) upp á til dæmis fimm þúsund manns myndi í djúpþrýstisókn fá til dæmis 12 kílómetra breiða víglínu sem verkefni fyrir sig, með það markmið að fara 15 kílómetra á dag, já þannig þétt uppstilling mun ekki lenda í bakárásum. En ef sama herdeild fær hins vegar það verkefni að þrýsta sér fram á til dæmis 35 km breiðri víglínu, og með það markmið að fara 15 kílómetra á dag, já sú hersveit mun óhjákvæmilega verða fyrir bakárásum og missi ökutækja. En það eru einmitt ökutækin sem Rússneski herinn á meira en nóg af - á bæði beltum og hjólum

Mín skoðun er sú að innrásin átti aldrei að ganga hratt fyrir sig því helsta markmið hennar er einmitt að afvopna Úkraínu, því þetta er ekki landvinningastríð. Rússar fínkemba því Úkraínu og lenda í vandræðum hér og þar, en slíkt var auðvitað ávallt með í reiknidæminu frá upphafi. En markvisst tortíma Rússar herjum Úkraínu og áhrifin sjást: 1) NATO-aðildin fór út um gluggann þann 16. mars og 2) um helgina 27. mars kom að Úkraína verður hlutlaust land. Lesist: hernaðargeta okkar er farin og við getum á engan hátt stöðvað neitt eða komið í veg fyrir eitt né neitt

HLIÐARDAGSKRÁR MYNDAST

En í millitíðinni hefur hins vegar það gerast sem ávallt gerist í stríði: Hliðardagskrár myndast. Og nú þegar eru að minnsta kosti tvær til þrjár slíkar komnar hálfar af teikniborðinu og í framkvæmd: 1.) eða hin fyrsta er sú að Bandaríkjunum og vissum hluta Evrópu er að mestu sama um sjálft fólkið í Úkraínu. Þau reyna allt hvað þau geta til að framlengja stríðinu á kostnað fólksins í landinu, því sú hliðardagskrá hefur myndast að reyna að fá stjórnvöld Úkraínu til að draga stríðið á langinn til að blæða þannig óvart sjáfum sér en þó fyrst og fremst Rússlandi út og koma forseta þess frá völdum. Þetta er eins konar krónísk yfirnáttúrutrú heimskra manna sem halda að heimurinn allur sé langi-sandur í Írak

Meðulin til þessa eru áframhaldandi vopnasendingar og að láta forseta Úkraínu messa yfir löggjafarsamkundum vissra ríkja vesturlanda. A) Bandaríska þingið fékk til dæmis Perluhafnarmessuna. B) Breska þingið fékk Churchillmessuna. C) Knesset Ísraels fékk Helfararmessuna og D) Þýska þingið fékk "aldrei-aftur"-messuna. Réttu Zoom-nóturnar eru spilaðar fyrir hvert land fyrir sig - með fjarstýringu. Þetta tryggir áframhaldandi vopnasendingar á meðan fólkið á jörðu niðri í Úkraínu er notað sem staðgenglar fyrir hliðardagskrána sem Joe Biden glopraði út úr sér á föstudaginn var; Að koma Rússlandsforseta frá og leysa Rússland upp að innan. Eins konar yfirnáttúrulegri NATO-galdragulrót er enn dinglað framan í Zelensky forseta, en hún er úr lofti, skiljanlega. Samt, já samt, hefur enginn herafli NATO-ríkjanna barist gegn alvöru andstæðingi síðan í Kóreustríðinu 1950. Allt síðan þá voru málamyndastríð, sandgöngur og úlfaldaferðir gegn ónýtum herjum, eða þá tapstríð gegn Víetnömum, þ.e. málamyndastríð, en ekki kerfislega mikilvægt stríð eins og nú geisar í Úkraínu og er fyrirfram tapað, því Rússland er annað af tveimur kjarnorkuvopna-heimsveldum jarðar

ÓHAGGANLEGA HAGGANLEG

2) Um það bil fimm til átta prósentur af íbúum Úkraínu hafa yfirgefið landið á síðustu fimm vikum. Mest konur og börn. Á síðustu tíu árum fyrir stríð höfðu hins vegar milljónir manna til viðbótar flúið Úkraínu vegna óaldar og spillingu. Fyrir stríðið núna voru tvær milljónir Úkraínubúa búsettar í Póllandi. Þar vinna Úkraínumenn þau störf sem brottfluttir Pólverjar unnu áður en þeir flúðu Pólland. Hluti af landsvæði Úkraínu var áður landsvæði Póllands. Um er að ræða Galesíu og Volhynia, þar sem Úkraínumenn frömdu fjöldamorð á 50 til 100 þúsund Pólverjum á síðustu öld. En svo seint sem 2017 lenti Úkraínu og Póllandi saman vegna þessara fjöldamorða Úkraínumanna á Pólverjum. Þá setti pólska ríkisstjórnin það í lög að bannað væri að afneita þessum fjöldamorðum, því pólsku MW-hreyfingunni og UPA Úkraínu hafði lent saman. Því tók ríkisstjórn Úkraínu afar illa og safnaðist mannfjöldi fyrir framan pólska sendiráðið í Kænugarði til mótmæla. Minnismerki um pólsku fórnarlömbin í Úkraínu voru skemmd og vandalíseruð og grafreitur og leiði pólsku fórnarlambanna í Lviv voru að sama skapi skemmd og eyðilögð. Þarna er ekki allt sem sýnist - hvorki í dag né í gær 

Ef landamæri Úkraínu taka breytingum á næstunni, þá er náttúrlega ekki alveg útilokað að Pólverjar fái aftur það land sem þeir höfðu. Þetta er ekki út í hött Hróa, því sumir landafræðikennarar í Þýskalandi nota enn þau landakort við grunnskólakennslu sína sem sýna þýska ríkið áður en Pólland fékk sinn hluta til baka úr því. Já landamæri Evrópu eru náttúrlega fyrst og fremst pólitískt fyrirbæri. Þau eru reyndar ekkert annað. Þess vegna máttu 12 milljónir Þjóðverja gjöra svo vel að yfirgefa heimili sín og þramma fótgangandi inn fyrir ný landamæri Þýskalands í lok Síðari heimsstyrjaldar. Það fólk fékk ekki neina sérstaka aðstoð, eins og Platestínumenn hafa kyrjað út í 50 ár. En þessir landflótta Þjóðverjar og afkomendur þeirra eru kjósendur í Þýskalandi í dag, einkum og sér í lagi eftir að DDR-landamæri átthaga Angelu Merkels voru lögð niður - síðast. Þeir sem halda að landamæramál Evrópu endi einhvern tíma, vaða í algjörri villu undir viðstöðulausum þokulúðrablæstri hins ólögmæta Brusselbands

STERKASTA BANDALAGIÐ

Gengi RUB - EUR -ISK - TRY gegn USD

Mynd: gengi rúblu, evru, krónu og tyrkneskrar líru gagnvart Bandaríkjadal síðasta hálfa árið, eða til og með í dag, þann 31. mars 2022. Eru þetta efnahagslegar refsiaðgerðir vesturlanda gegn evru eða líru? Hvort skyldi það nú vera?

****

Rússneska rúblan er á ný og að mestu komin á þann stað sem hún var gagnvart Bandaríkjadal fyrir stríð. Það er hún vegna þess að sterkasta strategíska bandalag norðurhvels jarðar er Rússland-Þýskaland. Olaf Scholz kanslari og Vladímír Pútín forseti hafa gert með sér samkomulag um að Þýskaland borgi fyrir orkuna í evrum og um leið er séð til þess að Gazprom fái greiðslurnar í rúblum. En án rússneskrar orku þyrfti Þýskaland að afiðnvæða hið vanskapaða hagkerfi sitt algjörlega

Gengisfall rúblunnar gagnvart dal er á skrifandi stund fimm prósentur en gengisfallið gegn evru er ekkert því evran er beintengd rúblunni og hefur því fallið líka. Er þetta ekki yndislegt. Þýskaland ríður um heiminn á evrubrotnum bökum landa Suður-Evrópu og borgar Rússum fyrir orku með bakverkjum þeirra

Hið reglubundna óregluverk heimsins (e. world disorder) heldur áfram þrátt fyrir forsæti forseta Rússlands yfir Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna á sjálfum innrásardegi hans inn í Úkraínu. Gat þetta orðið betra? Það efast ég um

Það eina góða við þessar "alþjóðastofnanir" Vesturlanda er það að þær halda þeim örvita mönnum sem þar dinglast um gangana burtu frá því að vera að flækjast fyrir þar sem hlutirnir í heiminum gerast. Barnagarður er sennilega réttnefni á þessum svo kölluðu "alþjóðastofnunum" eftirstríðsáranna

Fyrri færsla

Zelensky: Úkraína mun aldrei geta gengið í NATO


Bloggfærslur 31. mars 2022

Höfundur

Gunnar Rögnvaldsson
Gunnar Rögnvaldsson

Búseta: Ísland.
Reynsla: 25 ára búseta í ESB og fyrirtækja-rekstur í DK/ESB frá 1985 til 2010. Samband:
tilveraniesb hjá mac.com

Ég er hvorki skráður á Facebook, Twitter, Linkedin né á neinum öðrum "félags-vefjum". Aðsetur skrifa minna er einungis að finna hér á þessari síðu og á tilveraniesb.net og í blöðum og tímaritum

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband