Leita í fréttum mbl.is

Mattis hættir hjá Trump

James Mattis varnarmálaráðherra er á förum úr ríkisstjórn Donalds Trump. James Mattis semur greinilega ekki við Trump, eða öfugt, og skoðanir þeirra í varnarmálum fara ekki saman. Ástæðan að sögn dagblaða á borð við til dæmis Wall Street Journal, er sögð vera brottför Bandaríkjahers frá Sýrlandi, sem Trump fyrirskipaði í fyrradag. Þar eru tvö þúsund bandarískir sérsveitarmenn með stuðningi frá lofther og sjóher. Mattis var búinn að segja að hann myndi ekki hætta sjálfur og að forysta hersins mætti aldrei setja sig upp á móti kjörnum fulltrúum fólksins, þ.e. fólkinu sem herstjórnin á að vernda. Mattis hinn fyrrverandi hershöfðingi, er þó ekki æðsti yfirmaður hersins, heldur er hann settur varnarmálaráðherra Bandaríkjanna

Trump forseti lýsir því nú yfir að með Bandaríkin í forystuhlutverki hafi Ríki íslams verið sigrað. Hann hafði lofað bandarískum kjósendum þessum sigri og honum sé náð. Markmiðinu hafi verið náð. Bandaríkin dragi sit því hér með út. Pólitískir andstæðingar Donalds Trump (vinstrihreyfing glóbalista => imperíalistar) með lyklaboð, síma og tístforrit í hönd, skrifa að fjarlæga verði forsetann úr embættinu fyrir að draga Bandaríkin út úr hernaðarátökum í Sýrlandi, hvorki meira né minna. Hvers krafist verður er Trump á næstunni dregur Bandaríkin út úr Afganistan, eftir 17 ára viðurvist, getur varla orðið annað en krafa um umsvifalausa opinbera aftöku hans

En þó svo að borgarastyrjöldin í Sýrlandi og upprisa Ríkis íslam hafi grasserað á dyraþrepum Tyrklands, en ekki á dyraþrepum Bandaríkjanna, þá hefur Tyrkland ekki viljað -né heldur pólitískt séð getað- blanda sér of mikið í málið, fyrr en nú. Og það er sennilega það sem fær Bandaríkin til að segja bless við helsta bandamann sinn í þessari baráttu; Verndarherlið Kúrda. Segja sumir að hér séu Kúrdar hengdir út á snúru, sem skotmark fyrir Tyrkland, því að tyrkneska ríkisstjórnin hefur stimplað Verndarherlið Kúrda sem hryðjuverkasamtök er starfi þvers yfir landamæri Tyrklands, Sýrlands og Íraks. Á því landsvæði ásamt í vesturhluta Írans, líta Kúrdar á sig sem 30 til 45 milljón manna þjóð. Stærsta landsvæði þess sem Kúrdar segja að sé Kúrdistan, liggur þó í Tyrklandi, þar sem 20 milljónir Kúrda búa

Líklegt má telja að Trump hafi gert samning við Tyrklandsforseta um að hann fái að vissu marki að berjast gegn Kúrdum, en þó bara að vissu marki. Fari hann yfir þann þröskuld þá falli Bandaríski hamarinn og verndarhönd Bandaríkjanna yfir Tyrkjum sem NATO-landi, sé þá ekki í sambandi við símalínu til hvíts húss

Bandaríkin geta ekki stöðvað ris Tyrklands lengur, því að það og Íran eru einu löndin sem koma til greina sem heimshlutaáhrifavald í Austurlöndum nær og þar með upp Balkanskaga. Borið saman við Íran, þá er nýtt Tyrkjaveldi skárri kosturinn. Betra sé að hafa Tyrkland sem bandamann, en sem andstæðing. Þarna geta þá Tyrkir, ásamt Ísrael og Sádi-Arabíu, haldið Íran í skák með baktryggingu Bandaríkjanna. Og Tyrkland er hér með látið um að halda þeim herskáum öflum sem stóðu að upprisu Ríkis íslam niðri. Bandaríkin hafa hér sennilega gert taktískt úrlausnarsamkomulag við Tyrkland um áframhaldið, þar sem baráttunni við liðsafla Ríkis íslam er að mestu lokið. Tyrkland verður vörður. Kúrdar tapa hér að vissu marki, en gangi Tyrkir of langt gegn Kúrdum, þá taki Bandaríkin á ný upp sitt tímabundna bandalag við þá. Fulltrúi Bandaríkjanna í Sýrlandi sagði í ræðu sinni í Atlantic Council á mánudaginn, að Bandaríkin hafi ekki og geti ekki haft varanlegt samstarf við ekki-ríkis einingar

Mér finnst þó ólíklegt að Sýrland sé aðalástæðan fyrir afsögn bandaríska varnarmálaráðherrans. Mig grunar að um stærra mál sé hér að ræða og það sé Evrópa og NATO-aðild ESB-ríkja sem sinna ekki umsömdum skyldum sínum í varnarbandalaginu. Trump, að ég held, er staðráðinn í að taka það mál lengra, því Rússland er á tröppunum og gæti farið að hugsa sig til frekari hreyfinga. Ég spái því að á næsta ári muni Trump ganga harðar að ESB-ríkjunum vegna NATO og sérstaklega Þýskalandi vegna viðskiptamála. Þýskaland er með stærsta viðskiptahagnað nokkurs ríkis í heiminum og hann er tvöfalt hærri en sáttmálar ESB leyfa. Og svo er það WTO. Munu Bandaríkin yfirgefa þá stofnun? Það voru Bandaríkin sem stofnuðu til GATT 1947 (Alhliða samkomulag um tolla og viðskipti), sem síðar leiddi til WTO 1995 (Alþjóða viðskiptastofnunin)

Hlutabréfin í fjármálaflaggskipi Þýskalands, Deutsche Bank, héldu áfram að hrynja í gær og féllu um meira en sjö prósent. Þau kosta aðeins 6,94 evrur í dag, en kostuðu tæplega 90 evrur í janúar 2007. Þetta er 92 prósent hrun á þvi  tímabili, og 60 prósent hrun á þessu ári. Og ekki lagast verðið á olíu fyrir Rússland, frá þeirra bæjardyrum séð

Og svo er það staðan varðandi Kína og Norður-Kóreu. Sýrlands-ákvörðun Trumps skilar sér umsvifalaust sem fyrirvaralausum hreyfingum á pólitískum jarðskjálftamælum þar. Ef Trump getur gert þetta, þá getur hann líka gert (okkur) hitt, fyrirvaralaust, hugsa þeir. Þarna er engin bandarísk hersveit fyrirsjáanlegrar friðþægingar á ferð.. ..stimplast inn í bakhöfuð þeirra. Sjáið bara tollamálin miðað við sama tíma fyrir aðeins ári síðan

Fyrri færsla

Trúverðugleiki Trumps og Fed-seðlabankans


Bloggfærslur 21. desember 2018

Höfundur

Gunnar Rögnvaldsson
Gunnar Rögnvaldsson

Búseta: Ísland.
Reynsla: 25 ára búseta í ESB og fyrirtækja-rekstur í DK/ESB frá 1985 til 2010. Samband:
tilveraniesb hjá mac.com

Ég er hvorki skráður á Facebook, Twitter, Linkedin né á neinum öðrum "félags-vefjum". Aðsetur skrifa minna er einungis að finna hér á þessari síðu og á tilveraniesb.net og í blöðum og tímaritum

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband