Leita í fréttum mbl.is

Jæja, nú er Ísland svo að segja komið inn í Evrópusambandið.

Hvernig líður ykkur? Er þetta ekki dásamlegt? Við erum loksins komin með verðbólgu sem er svo lítil að hún er minni en í ESB. Er þetta ekki dásamlegt?

Atvinnuleysi hjá okkur fer að jafnast á við atvinnuleysi eins og það hefur verið samfleytt í Evrópusambandinu síðustu 25 árin. Þó ekki alveg eins mikið. ER þetta ekki dásamlegt! 

Atvinnumarkaður okkar fer að nálgast eymdina á atvinnumarkaði ESB-landa. Fleiri hundruð manns sækja um að fá að stýra sama kústskaftinu. Svo munu opinberir besservissar finna upp óendanlega marga skóla sem kenna fólki að stýra kústskötum og um fram allt munu háskólar sem kenna fólki að sækja um vinnu sem er ekki til spretta upp eins og gorkúlur. Fleiri og fleiri fá vinnu við að kenna öðrum svona vandasöm verk. Því verður hagvöxtur sá sjaldgæfi evrópski fugl sem verpir einu eggi hvert árþúsund í birkihreiðrið á tómu höfði fjármálaráðherra.

Við erum líka komin með nýjan ESB-legan undirklassa af fólki í land okkar sem er í litlu eða engu sambandi við samfélagið. Talar hvorki né skrifar en kann þó skiltamál. Þetta er fólkið á vegunum í Evrópu. Hinn nýi undirklassi ESB sem á hvergi heima og er alltaf fátækur en hefði átt að vera heima hjá sér við að byggja upp landið sitt eftir gereyðingu síðustu sósíalista Evrópu. Heimaland undirklassans verður því alltaf fátækt.
 
Fólkið var flutt hingað inn þegar það vantaði svo fólk sem kunni það sem við vorum of menntuð til að geta. Svo þegar atvinnan fer aftur þá fer þetta fólk á hérlendar atvinnuleysisbætur og er svo sett í skóla og fær vinnu við að bora í nefið á hinum sem hafa ekki neitt annað að gera en að kenna fólki að sækja um vinnu sem er ekki til. Svo kemur ný uppsveifla og þá vantar meira fólk því þá eru allir orðnir svo ofmenntaðir í nefborun að þeir geta ekki unnið. Þá þarf að flytja inn enn meira fólk. Og svona gengur þetta koll af kolli þangað til enginn framleiðir neitt nema eyðublöð, alveg eins og í Evrópu. Það er svona sem menn leggja hvatann að hagvexti framtíðarinnar, ekki satt? Með því að klippa hvert annað sama þó sköllótt séum. Aftur og aftur.    

Svo hækka skattarnir alveg eins og í Evrópusambandinu. Heilbrigðiskerfið fer að marra í krónísku kafi því skattatekjur frá hinni nýju eins strokka vél hagkerfisins eru krónískt of litlar til að halda uppi öllum eyðublöðunum og kústskaftaskólunum. Áður var þessi vél hagkerfisins V8 og gat allt. 

Svo er skattað enn meira og meira því atvinna verður alltaf minni og minni og svo endum við með því að velferðarsamsteypan sem samanstendur af opinberum starfsmönnum, ellilífeyrisþegum, atvinnuleysingjum, fólki á bótum og bóta bótum er orðin svo stór að hún telur 75 af hverjum 100 kjósendum. Þá er orðið úti um allar breytingar til hins betra því enginn getur keppt við dópsölu ríkisins á kosningadögum og sem sýgur tekjur sínar upp úr vösum þeirra fáu sem vinna og deilir þeim út til þeirra sem eru fastir á dópinu í velferðarsamsteypu hins opinbera.  

Þá er þetta allt loksins orðið alveg eins og í Evrópusambandinu. Eins og í himnaríkjum dópsölu sósíaldemókrata. Þá mun nú verða gaman.

Svo þarf bara að kála sjávarútveginum, landbúnaði og byggingabransa og þá erum við að fullu komin alveg inn í Evrópusambandið, hjá Kínverjum Evrópu, sem heita Þjóðverjar. Himnar helvíta sósíaldemókrata opnast þá öllum og menn æla ævilangt. En þá er allt orðið of seint. Ó ríkisgjaldþrot, hvar ertu? Og þetta er allt saman gratís. Enginn getur keppt við dópsölu stjórnmálamanna. Rúðubrot ríkisins. 

Suckers!
 

Friður loksins kominn á í Evrópu. ESB óþarft

Hvað höfum við? 

Jú, Bandaríkin eru farin. Þau fóru heim. Eitt síðasta verk Bandaríkjamanna í Evrópu var þó að koma Sovétríkjunum algóðu vandlega fyrir á ruslahaugum sögunnar. Úr því fæddist Evrópusambandið sem er dóttir EEC, sem áður var gift franskbrauðinu EF og sem Danir héldu að væri svínabandalag. Nú er allt þetta orðið nýtt Viagraveldi í smíðum.

ESB fékk svo það verkefni að koma í veg fyrir að sá friður sem Bandaríkin höfðu skaffað þessum 500 milljón manns í ESB myndi fuðra upp. Fjöldamorð í Bosníu komu því fljótt og gamlar minningar um útrýmingarbúðir góðseminnar í Evrópu glöddu hjörtun svo ákaft í aðalstöðvum Viagrastofnunar Brussels, að þar lá við enn meiri lömun en þeirri sem þó fékk slyttið til að tolla framan á burðarvirkjum friðarbrandaralagsins þar. Því næst var Kosovo stolið frá Serbum.
 
Nú, rétt í gær kom svo skyndilega í ljós að bestu vinir svína- og friðarbandalags ESB reyndust vera 20 einræðisherrar á tröppum Trípólís. Ó afsakið, hvað segirðu, leið fólkinu ekki vel? Hafði bara ekki tekið eftir því. 

Bandaríkjamenn eru því komir aftur í heimsókn í aðalstöðvar Viagrabandalags Evrópu. Því miður komust Junker flugmóðurskip Lúxemborgar ekki til hafs, því það lá fallin spýta í læk á leið til sjávar. Svíar eru enn heima að hugsa sig um og þýskir eru of hræddir og gamlir til neins. Frakkar reka lestir og Ítalía er upptekin við barnaverndarmálefni á æðstu stigum.  

Svo er Grikkland orðið friðsamlega ríkisgjaldþrota eftir 29 ár í ESB. Írland er víst líka orðið því sem næst gjaldþrota eftir ofurskammt af Viagra. Svo er Portúgal við það að verða tilbúið í gjaldþrotið. Hagkerfi Lettlands hvarf, því sem næst. Það gekk alla leið í ESB. Eistland er þó rétt komið andvana inn í forstofu burðarvirkisins. 
 
Svo er það Alþjóða Gjaldeyrissjóðurinn. Hann er  kominn varanlega til ESB og sér þar um 5-6 lönd sambandsins, og svo allt ESB líka. Björgunarsjóðinn fræga. Dollarar. Nei, hann heitir ekki Marshall. Hann heitir EU-BANKRUPT-ZONE.

Allt er því vel. Stórríkisdraumar Evrópumenna eru enn á lífi og óskaddaðir. Þeim langar svo, þeim langar svo. Nýr blár Viagra fáni með hlandgulum stjörnum blaktir nú við húna í fullkomnum friði. Sovéski fánalitur Samfylkingarinnar hefur því verið settur í útrás. 

PS: Á meðan ég man. Ríkið, það íslenska, verður að muna eftir því að greiða Færeyingum það sem við skuldum þeim áður en við förum í ríkisgjaldþrot Icesave og ESB. Ég vil ekki að skuldir óreiðumanna okkar lendi á fjölskyldu okkar í Færeyingum. Þessu verður að muna eftir á meðan við eigum svona mikla peninga.

Bloggfærslur 1. mars 2011

Höfundur

Gunnar Rögnvaldsson
Gunnar Rögnvaldsson

Búseta: Ísland.
Reynsla: 25 ára búseta í ESB og fyrirtækja-rekstur í DK/ESB frá 1985 til 2010. Samband:
tilveraniesb hjá mac.com

Ég er hvorki skráður á Facebook, Twitter, Linkedin né á neinum öðrum "félags-vefjum". Aðsetur skrifa minna er einungis að finna hér á þessari síðu og á tilveraniesb.net og í blöðum og tímaritum

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband