Leita í fréttum mbl.is

Átakanleg blinda eða forheimska Evrópusambandssinna?

Því er oft haldið fram af ESB-sinnum að Evrópusambandið snúist um samvinnu þjóða hinnar styrjaldarhrjáðu og þreyttu Evrópu. Já þreytt er þessi heimsálfa sem nú hnignar hraðar en hagstofustáss Brussels nær að tilkynna almenningi í löndum sambandsins. Að allt þetta bákn sem rakið er hér að neðan snúist bara um samvinnu. Eins konar samvinnu, samyrkju, samskotum eða sameiginlegu hinu og þessu. En sem á endanum, ef ESB fær að ráða, mun auðvitað enda með samruna og þögulli eyðni þjóðareinkenna Evrópu í faðmi nýrra kynslóða. Nýrra kynslóða sem aldnar hafa verið upp í vöggu áróðursherdeila Evrópusambandsins. Fjármagnið til áróðurs er þar óendanlegt.
 
Veikastir fyrir áróðri Evrópusambandsins eru nýjar kynslóðir sem þekkja ekki neitt annað en þann massífa ESB-áróður sem þeim er kenndur frá blautu barnsbeini. Skyldumyndin af góðgerð ESB sem límd er í formi búmerkis ESB föst upp á veggi við allar mjólkurkistur og eplakassa á öllum þeim barnaheimilum Evrópusambandsins sem náðarsamlegast hafa fengið leyfi hjá Brussel til að deila út ókeypis ESB-eplum eða niðurgreidda ESB-mjólk (innflutt bannað) handa börnum. ESB er nefnilega svo gott. Ætlast er til að unga kynslóðin muni þetta þegar hún vex úr grasi þjóðríkisins og inn í ESB-baunagras Evrópusamrunans. Munið mín kæru börn eftir ESB-merkinu á vegginum við eplamjólkina sem varð að koma alla leið frá Brussel því landið þitt var orðið svo ofur-sjálfstætt á veru sinni í ESB.      

Þessu sama var þó - og alveg fram í rauðan dauðann - haldið fram um flest þau ríki sem á sínum tíma tilheyrðu Sovétríkjum Evrópu. Þar - samkvæmt öllum Fylkingarmönnum, flestum Samfylkingarmönnum og undantekningarlaust öllum kommúnistum í ytra byrði þáverandi lygavefstóls stjórnmála- og menningarelítu Evrópu - átti allt að vera svo gott í þessu sambandi ríkja kommúnista í Austur-Evrópu. Þegar valdinu nakta var beitt með kúgun, aftökum, pyntingum og útrýmingu, þá kallaðist það á vesturlandi menningarelítu Evrópu að verið væri, alveg rétt í þessu, að tryggja friðinn í Evrópu - og reyndar heiminum öllum. Tryggja friðinn! Þetta fékk maður að heyra þegar nánar var spurt til tíðinda. Alltaf var þetta alveg að koma, árangurinn var bara rétt handan við hornið hvassa.

Aðferðirnar í Evrópu hafa verið mýktar í dag. En að öðru leyti eru hvatirnar og áróðursaðferðirnar ennþá svipaðar. Lýðræðinu skal ennþá drekkt í Evrópu. Og alltaf er útópían við það að ganga upp og árangurinn er ávalt rétt handan við hornið endalausa, sem smá saman breytist í grátmúr. Nú seinast hafa menn skyndilega uppgötvað að myntbandalag Evrópusambandsins getur því miður ekki gengið upp nema að ríkisfjárlög hinna svo kölluðu ofur-sjálfstæðu ríkja sambandsins verði sameinuð og sett undir vald ókjörinna Evrópusambandsmanna Brussels, eða í það minnsta, að aðalstöðvar sambandsins verði settar sem æðsti dómari yfir því hvernig skattatekjum ríkjanna skuli varið hvað varðar mikilvægustu útgjaldaliði ríkissjóðs. Þið vitið kæru lesendur; skattatekjurnar eru þeir fjármunir þegnana sem í flestum löndum sambandsins nema allt að helmingi þjóðartekna í ríkjum sambandsins. 

Þegar betur er að gáð, munu allir sem hafa viljann til að sjá og skilja, að þarna er bara um að ræða sára einfalt innvortis valdarán ESB í dulargerfi samvinnunnar. Fullveldinu og sjálfstæðinu er stolið og það skorið undan þjóðunum í smá skömmtum. Það fer svo í farveg niðurfalls og eyðist. Hornsteinninn er holaður með reglugerðum og skrefum sem þjóðfélagslega er ógerningur að vinda ofan af aftur.  

Hefur þú einhvern tíma séð svo kallaða "samvinnu" þjóða sem krefst eftirfarandi atriða?: 

  • Hertra og hærri tollamúra gegn umheiminum
  • Eigin myntar
  • Afnám réttar þjóðríkja til að gefa út sína eigin mynt
  • Skilyrðislausrar þvingunar til að hætta útgáfu eigin myntar og skyldu til að taka upp mynt sem þú hefur ekkert um að segja
  • Eigin seðlabanka
  • Undirgangast vaxta- og peningapólitík erlends seðlabanka sem leggur efnahag lands þíns í rúst, þ.e. ef þú heitir ekki Þýskaland eða Frakkland.
  • Eigin dómstóla og löggjafar sem er æðri löggjöf svo kallaðra "fullvalda ríkja ESB" á æ fleiri sviðum
  • Óteljandi áróðursherdeilda sem einnig ráða yfir fjölmiðlum
  • Þings og þingmanna
  • Forseta og utanríkisráðherra
  • Eigin stjórnarskrár
  • Eigin lögreglu
  • Eigin komandi hervalds
  • Rétt til að nýta auðlindir annarra þjóða
  • Réttar annarra þjóða til að kjósa sig til auðæfa annarra landa
  • Fána
  • Þjóðsöng
Hér er ekki um samvinnu að ræða. Hér er verið að stofna nýtt ríki: sambandsríki Evrópu, USE.  
 
Eftir 25 ára búsetu og atvinnurekstur í Evrópusambandinu hef ég þetta að segja kjánum Íslands, sem nú eru að reyna að notfæra sér hræðslukastið sem kom þeim svo afar heppilega þegar illa reknar fjármálastofnanir hrundu á Íslandi:

Það er núna sem ferlið á að stöðva. Það er of seint að stoppa öll ferli sama hvaða nafni þau nefnast þegar inn í Evrópusambandið er komið. Þá væri, hægt en bítandi, Ísland okkur glatað. Þetta er ekki pakkaleikur. Landið okkar er í húfi.
 
Tengt
 
 
Fyrri færsla
 

Bloggfærslur 17. ágúst 2010

Höfundur

Gunnar Rögnvaldsson
Gunnar Rögnvaldsson

Búseta: Ísland.
Reynsla: 25 ára búseta í ESB og fyrirtækja-rekstur í DK/ESB frá 1985 til 2010. Samband:
tilveraniesb hjá mac.com

Ég er hvorki skráður á Facebook, Twitter, Linkedin né á neinum öðrum "félags-vefjum". Aðsetur skrifa minna er einungis að finna hér á þessari síðu og á tilveraniesb.net og í blöðum og tímaritum

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband