Leita í fréttum mbl.is

Nauðungaruppboð í Danmörku - september

Nauðungaruppboð húsnæðis í Danmörku í september 2010 
 
Í september fóru 422 fasteignir á nauðungaruppboð í Danmörku. Talan er árstíðaleiðrétt. Annars hefðu nauðungaruppboðin á pappír dönsku hagstofunnar verið 451 talsins (DST)

155.000 íbúðir standa tómar í Danmörku. Um er að ræða bæði fjölbýli og sérbýli. Hver þriðja eign selst á lægra verði en hún var keypt á. Meðalsölutími allra eigna er um 8-10 mánuðir. Á Norður-Sjálandi selst annað hvert hús með tapi. Þar eru dýrustu eignir landsins. 

Eignalaust ungt fólk

Um 40 prósent húsnæðiseigenda undir 35 ára aldri í Danmörku skulda meiri peninga í fasteign sinni en hægt er að selja hana á. Alls er hver fimmti fasteignaeigandi í Danmörku eignalaus (staða 22/04/2010). Mörg ár munu líða þar til hægt er að komast út úr þessum festum. Fari allt á versta veg mun skuldari verða eltur uppi með rest-skuldina þar til yfir lýkur. Þess ber auðvitað að geta að Danmörk er í Evrópusambandinu og er norrænt velferðarsamfélag, stundum. Þar fást líka vínarbrauð. Allir Danir vita að ekkert verður gert þeim til aðstoðar, því Danmörk er jú í Evrópusambandinu - og getur því ekkert gert. Nánari upplýsingar (krækjur) um danskan húsnæðismakað er að finna í viðhengdri skrá neðst í þessari færslu. 
 
Nauðungaruppboð á mánuði í Danmörku 1979 til 2010 
 
Svona er að vera í ESB
 
Í samfleytt 5 ár voru nauðungaruppboð í Danmörku yfir 1400 í hverjum mánuði. Þetta var á árunum 1988 til 1992. Þið hafið eflaust ekki heyrt neitt um þetta. Þarna lækkaði húsnæðisverð um 40 prósent. Í samfleytt 6 ár voru nauðungaruppboð yfir 1000 talsins í hverjum mánuði í þessu norræna velferðarríki. Það voru árin 1988 til 1994.
 
Stýrivextir, verðbólga og atvinnuleysi í Danmörku 1978-2008 
 
Þarna var verðbólgan um það bil eitt til þrjú prósent en stýrivextir voru iðulega nálægt 8-10 prósentum. Þeim var fjarstýrt frá útlöndum. Allt sem gat farið á hausinn fór á hausinn. Engum datt í hug að það yrði gert neitt neinum til hjálpar. Enda var það ekki gert. Svoleiðis er ekki gert í norrænum velferðar samfélögum né í ESB. Atvinnuleysi var 9-12% í samfellt 14 ár. Það er einmitt svona sem það er að vera í ESB. Eiginlega má segja að Íslendingar séu núna að upplifa í fyrsta skiptið hvernig það er að vera í Evrópusambandinu. 

Hvernig kemur maður í veg fyrir nauðungaruppboð?
 
Jú, með því að eiga ekki neitt. Með því að vera öreigi. Það er galdurinn. Á ekki neitt, gerði ekki neitt, sá ekki neitt og heyrði ekki neitt. Það borgar sig svo vel í mörgum löndum ESB þar sem svo fátt borgar sig lengur. Enda er það það sem Þjóðverjar gera. Þeir eiga ekki neitt. Svíar eignast heldur sjaldnast neitt. Þegar meðalsænskur deyr á hann um 40.000 SEK. Svona er það að þora ekki að hætta fé sínu í norrænum velferðarsamfélögum og í ESB.
 
World’s Most Risky Sovereign Debt 3Q 2010 
 
ESB verðtrygging og "Evrópuvextir" (ekki til) Össurar Skarphéðinssonar
 
ESB verðtrygging Össurar fer þannig fram að þú skuldbreytir lánum þínum að meðaltali á þriggja ára fresti, eða jafnvel oftar í sumum löndum ESB. Þú færð sem sagt nýtt lán í stað þess gamla. Í hvert skipti koma til nýir vextir til eins, þriggja eða fimm ára í senn og það kostar oft mikið að komast út úr þeim gömlu. Bætist sá kostnaður við nýjan höfuðstól. Í hvert skipti myndast sem sagt nýr höfuðstóll og skuldbreytingar kostnaður leggst einnig við hann. Þessum kostnaði græða lánafyrirtækin mikið á. Svona virkar þessi verðtrygging. Þú eignast oft bara skuldir því verðin lækka eða þá að laun þín lækka því ESB-atvinnuástandið er oftast svo slæmt. Eða þú missir bara vinnuna til langframa - færð aldrei aftur vinnu á æfi þinni.  

Svo er líka til önnur verðtrygging. Verðtrygging skatta og verðtrygging mikils atvinnuleysis. Þar sem svo fáir eiga neitt því lífeyrissjóðir í ESB eru oft ekki til, eða litlir, þá er þessi útgjaldaliður hagkerfisins skattafjármagnaður. Bótagreiðslur til almennings eru oft dýrtíðartengdar. Því þolir ESB ekki neina verðbólgu án þess að ríkissjóðir þess fari hreinlega á hausinn. Níðþung framfærslubyrði ríkissjóða er því svo að segja verðtryggð. Skattar þar með líka. Fólkinu í ESB er ávalt tryggt hátt og langvarandi atvinnuleysi. Stjórnvöld Evrópusambandslanda sjá fyrir því. Í Þýskalandi eru engin lágmarkslaun til. Fjórir af tíu áhættusömustu ríkissjóðum heimsins eru nú í Evrópusambandinu. Ísland er ekki á þessum topp 10 lista. Vaxtakrafa fjárfesta endurspeglar þessa áhættu á hverjum tíma (bls. 2 vaxtamismunur á evrusvæði 6. október umfram þýska vexti og áhættumat CMA 3.ársfj. 2010). 
 
BIS Demographic impact on housing 
 
Í nýrri greinagerð hagfræðinga Bank for International Settlements (BIS) er gert ráð fyrir að húsnæðisverð í Þýskalandi og Spáni muni lækka um 75% á næstu 40 árum. Þetta vita þýskir líklega mæta vel, innra með sér. Enda hefur raunverð þýskra fasteigna fallið um 20% frá aldamótum. Engin fasteignabóla hefur verið í gangi í Þýskalandi. Þessi 75% lækkun til viðbótar bíður þeirra. Í Danmörku er "aðeins" gert ráð fyrir 35% lækkun á næstu 40 árum. Það sem ræður þessari þróun er öldrun samfélaga Evrópusambandsins. Þar mun ekkert borga sig næstu hundruð árin. Ekkert. (BIS)
 
1000 gjaldþrota verslunargatan í Japan 
 
Svona líta sumar verslunargötur úr í öldrunarhagkerfum. Myndin er frá bakhlið gjaldþrota verslunargötu í einu fremsta öldrunarhagkerfi heimsins; Japan - og er fengin að láni úr greininni: þúsund gjaldþrota verslunargatan. Óðaöldrun (e. hyper ageing) hinna barnlausu samfélaga Þýskalands, allrar Suður-Evrópu, allrar Austur-Evrópu, Eystrasaltsríkja og Japan er ekkert grín. Hver vil fjárfesta í deyjandi eignum?
 
Úr þættinum dauði Evrópu í dr.dk 

Svona lítur niðurrif þriggja miljón þýskra íbúða út. Glæsileg þróun í hinu útflutningsháða öldrunarhagkerfi Þýskalands. Myndin er úr þættinum "dauði Evrópu" sem sýndur var danska sjónvarpinu í fyrra. Hin eina óendurnýjanlega náttúruauðlind Evrópusambandsins er að deyja: fólkið í ESB. Mikið verða þingkosningar spennandi í svona samfélögum þar sem 70 prósent kjósenda verða komnir yfir sextugt. Um helmingur kjósenda í Þýskalandi eru orðnir sextugir nú þegar. 
 
Þýskaland; öldrun samfélagsins 
 
Þýskaland; öldrun samfélagsins
 
Þýskaland; öldrun samfélagsins 2 
 
Tengt efni
 
 
Fyrri færsla
 
 

Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Bloggfærslur 14. október 2010

Höfundur

Gunnar Rögnvaldsson
Gunnar Rögnvaldsson

Búseta: Ísland.
Reynsla: 25 ára búseta í ESB og fyrirtækja-rekstur í DK/ESB frá 1985 til 2010. Samband:
tilveraniesb hjá mac.com

Ég er hvorki skráður á Facebook, Twitter, Linkedin né á neinum öðrum "félags-vefjum". Aðsetur skrifa minna er einungis að finna hér á þessari síðu og á tilveraniesb.net og í blöðum og tímaritum

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband