Leita í fréttum mbl.is

Lifandi land - Ísland

Jæja kæru lesendur

Þá tók þessi Ísalandsferð mín enda. Ég var sem sagt á Íslandi í 10 daga og kom aftur heim í kotið í fyrra gær.

Höfnin í Reykjavík 

Lifandi land - Ísland 

Þetta var ákaflega ánægjuleg ferð. Það sem sló mig mest var hið virka, öfluga, ríka og fjölbreytta mannlíf á Íslandi ásamt almennum áhuga Íslendinga á sveita- lands- og alþjóðamálum. Á Íslandi er ennþá "allt hægt" í hugum fólksins, sem betur fer segi ég. Mikil og virk umræða er meðal nánast allra Íslendinga um lýðræðið, stjórnarfar, þjóðarhag og stöðu Íslands í hinu stóra alþjóðlega samfélagi. Hér eiga Íslendingar að mínu mati "heimsmet", eins og í svo mörgu öðru. Lýðræðið er virkt á Íslandi því það er lítil sem engin fjarlægð á milli þjóðarinnar og hinna kjörnu fulltrúa hennar. Sama gildir um embættismannakerfið. Nánast allir sem ég talaði við höfðu mikinn og jafnvel brennandi áhuga á atvinnu- og samfélagsmálum og ekki skorti fjölbreytt viðhorf. Einnig er vídd umræðunnar það mikil á Íslandi að fyrir venjulegan ESB-búa - sem er vanur því að geta aðeins kosið um, eða haft áhrif á, þau fáu málefni sem ennþá eru á valdi þjóðþinga þeirra - er víddin svo mikil að hann myndi ekki skilja nema hluta af þeim málefnum sem fullvalda Íslendingar takast á um.  

Menningarlíf Íslendinga virðist einnig vera afskaplega virkt og fjölbreytt. Flestir Íslendingar eru virkir í menningarstarfi á einn eða annan hátt og framboð menningar er stórt og fjölskrúðugt. Söngur og tónlist, leiklist, bókmenntir, raun- og félagsvísindi blómstra. Ísland á sennilega "heimsmet" í kaffihúsamenningu og það er sláandi hversu hugmyndaflug Íslendinga er frjálst og óheft ennþá. Allir eru "í einhverju". 

Útför í kjölfar útrásar 

Maður tók einnig eftir að 5 ára leiðtogi þjóðarinnar hafði látið lífið í stórkostlegu hjartastoppi. Það voru víst of margar útlenskar makkarónur fljótandi í blóðinu hjá honum. Útför hans fór ennþá fram þegar ég fór frá Íslandi. Sem afleiðing virðist ákveðið tómarúm ríkja á vettvangi leiðtogamála á Íslandi. Hérna á ég að sjálfsögðu við herra fjármálageira sem dó á haustmánuðum og sem verið er að jarðsyngja að hætti Corleone. Þið vitið, þessi geiri sem hreif svo mörg okkar á ákveðnu tímabili og sem við héldum að væri "kominn til að vera". Mennirnir og leiðtogarnir sem gátu gengið á vatninu og breytt því í vín og góðar vísitölur. Allt átti að vera komið til að vera: hlutabréfaverð, olíuverð, hráefnaverð, fasteignaverð, glóbal warming, Kína, ESB, og hvað eina. Rykið féll því óhindrað á okkar gömlu hefðbundnu leiðtoga og landsfeður. Núna hiksta því og hósta okkar rykföllnu fyrrverandi leiðtogar upp gömlu ryki og eru að reyna ná áttum á ný. Þeir gera sér alls ekki ennþá grein fyrir því að sviðið er tómt ennþá og að það er beðið eftir þeim. Kaktusar feykjast þar um í andblæstri frá almúganum - heyballs. Hvar eruð þið? Eruð þið hræddir? Eftir að eini núlifandi virki leiðtogi þjóðarinnar, Davíð Oddsson, var lögsettur út úr Seðlabankanum af sjálfu Alþinginu með aðstoð barnaverndar, þá er enginn við lengur. Það er á tali hjá næstum öllum - píbb bíbb bíbb bíbb. Þeir eru núna að hringja í leiktjaldadeildina, föðrunarmeistarana og kunna sig ekki lengur sem þeir menn sem þeir voru. Þeir eru hræddir við að hafa skoðanir því þeir hafa þær engar og eru oftast jafn allsberir og þeir sem liggja í kistunum, - eru hræddir við að vera menn með skoðanir. En þér að segja, er varla von á öðru? Ég spyr. 

Ég fór á tvo fundi hjá Heimssýn og vil ég nota þetta tækifæri til að þakka innilega fyrir þessa skemmtilegu fundi. Fólk kom oft langar leiðir að - einnig úr sveitinni.

Tjörnin í Reykjavík 

Borðaði vel

Það var mikil lukka að fá saltkjöt og baunir á sprengjudag og ekki voru nú rjómabollurnar neitt slor á bolludeginum heldur. Einnig skaust ég tvisvar í mat niður á BSÍ (Umferðarmiðstöð) í Reykjavík og fékk mér svið með rófu- og kartöflustöppu (stranglega bannað í ESB) og svo í seinna skiptið fékk ég uppáhaldsmatinn minn, lambakótilettur í raspi með feiti, rabbabarasultu og Ora baunum. Konan fékk sér fisk enda miklu hollari manneskja en ég. Maðurinn við hliðina á okkur var að borða kjöt í karrí. Ég játa hér með að ég er ekki mikill makkarónumaður. Þarna ræddu menn einnig pólitík og efnahagsmál beint fyrir framan gamla Farmall traktorinn. Þarna liggja leiðir til allra átta á Íslandi      

Jæja   

Það verður skortur á verðbólgu í mörgum löndum á næstunni. Mikill skortur. Enginn vill fjárfesta í neinu sem stöðugt er að falla í verði. Enginn vill kaupa neitt núna sem fæst ódýrara seinna. Enginn vill eiga neitt sem sífellt tapar verðgildi => sell now! Það er því hætta á að við sjáum miklar og stórar gengissveiflur víða á næstunni.

Næsti póstur mun fjalla um e-málin, að venju

Takk fyrir kæru Íslendingar og takk fyrir kæra Ísland. Þú ert lifandi land. Sama hvað á gengur!  

Fyrri færsla:

Hörðustu evrusinnar í Evrópusambandinu missa móðinn, en bara ekki á Íslandi

Forsíða þessa bloggs 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Haraldur Hansson

Kröftug lesning að vanda. Takk fyrir fínan spjallfund á mánudaginn, hann var ekki síður hressandi en vænn sviðakjammi eða saltkjöt og baunir.

Haraldur Hansson, 5.3.2009 kl. 20:07

2 Smámynd: Ragnhildur Kolka

Missti af þér, en vona það gangi betur næst.

Við gengumst Noregi á hönd í lok febrúar og rauður bjarminn leikur nú um landið. Ef við eigum aftur að sjá til sólar þarf að kalla alla hendur upp á dekk. Upplýsingar þínar úr landi hinnar hnignandi evru eru ómetanlegar.

Ragnhildur Kolka, 5.3.2009 kl. 20:48

3 Smámynd: Þorsteinn H. Gunnarsson

Takk fyrir skemmtilegan pistil. Ég vissi af þessum fundi en komst ekki. Já kreppan er að aukast og það harðnar á dalnum en við reynum að standa okkur. Við höfum ýmsa möguleika sem betur fer. Hitaveita kemur í stað kolaleysis. Í síðustu kreppu fór hún amma mín niður á bryggju til að fá í soðið. Ætli þeir hafi ekki einn skuttogara í hverjum fjórðungi til að veiða í soðið ef harðnar í ári. Þetta er matarkista hérna. Kveðja

Þorsteinn H. Gunnarsson, 5.3.2009 kl. 20:50

4 Smámynd: Haraldur Baldursson

Sæll Gunnar. Fundurinn með Heimssýn var afskaplega góður og skemmtilegur. Sérstaklega gaman að sjá hversu vel þessi frjói hópur góðs fólks hefur fylgst náið með frábærum pistlum þínum. Vonin er ekki dáinn á Íslandi og við munum sína heiminum hvernig frjáls þjóð getur af eigin krafti getur stokkið tilbaka aftur á fæturnar. Hrakspár snillingarnir finna sér þá bara eitthvað nýtt til að hallmæla...

Haraldur Baldursson, 5.3.2009 kl. 22:30

5 identicon

Ágæti Gunnar, það var ánægjulegt að kynnast þér og vera með á þessum frábæra fundi Heimssýnar á Kaffi Rót – menn gátu varla hætt að ræða þessi mikilvægu mál fyrr en langt var liðið á þriðja tímann. Kæra þökk fyrir þitt framlag þar sem hér á vefnum þínum. Farvel heim á leið, en haltu samt áfram að vera sami trausti Íslendingurinn.

Jón Valur Jensson (IP-tala skráð) 5.3.2009 kl. 23:56

6 Smámynd: Sveinn Tryggvason

Hressandi frásögn. Takk fyrir.

Sveinn Tryggvason, 6.3.2009 kl. 10:07

7 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Kærar þakkir fyrir góðar kveðjur og innleggin.

.

Rakst á umfjöllun um þessa hér frétt í dönsku viðskiptablaði - þetta er smávegis á léttu nótunum :): 6 Reasons To Move To Iceland (danska útgáfan af fréttinni: Derfor skal du flytte til Island )

Kveðjur

Gunnar Rögnvaldsson, 8.3.2009 kl. 18:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Gunnar Rögnvaldsson
Gunnar Rögnvaldsson

Búseta: Ísland.
Reynsla: 25 ára búseta í ESB og fyrirtækja-rekstur í DK/ESB frá 1985 til 2010. Samband:
tilveraniesb hjá mac.com

Ég er hvorki skráður á Facebook, Twitter, Linkedin né á neinum öðrum "félags-vefjum". Aðsetur skrifa minna er einungis að finna hér á þessari síðu og á tilveraniesb.net og í blöðum og tímaritum

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband