Leita í fréttum mbl.is

Banki Lehman bræðra hverfur af vettvangi samkeppninnar

Stærsta gjaldþrot mannkynssögunnar fór fram í gær. Hin 158 ára gamla bankastarfsemi Lehman bræðra er nú hætt að vera til. Hlutabréfamarkaðir trúðu ekki á verðgildi eigna Lehman Brothers Holdings Inc og neituðu að skjóta inn meira fé. Hið sama gerði seðlabanki Bandaríkjanna. 25.000 manns missa vinnuna. Flest störf Lehmans munu tapast í Bandaríkjunum og 6.000 munu hverfa í Evrópu, þar af 4.500 störf í London

Staða eignasafna fjármálageira heimsins er undir stöðugri endurskoðun markaða. Það er afar erfitt að setja rétt og raunhæft verð á eignir fjármálafyrirtækja við ríkjandi aðstæður. En allir aðilar markaða krefjast stanslaust endurmats á eignastöðu allra, og krefjast að fá að vita hver sé með Svarta Pétur á hendi.

En því verkefni má í raun líkja við aðstöðu húseiganda sem er skipað að selja húseign sína fyrir kvöldmat sama dag. Hvert er markaðsverð eignarinnar? Undir svona þrýstingi er "rétt" markaðsvirði fasteignarinnar nánast ekki neitt. Þetta er aðstaða fjármálafyrirtækja í dag og hún er ekki öfundsverð. Þessvegna er svo erfitt að stilla upp kröfum um að geirinn "geri hreint fyrir sínum dyrum" og komi með "raunhæft" mat á eignasafni sínu. Því hver mun raunveruleikinn verða? Það veit enginn

Eitt er þó víst. Hvarf bankastarfsemi Lehman bræðra af vettvangi samkeppni á fjármálamörkuðum mun þýða að þeir sem eftir sitja á markaðinum munu þurfa að glíma við minni samkeppni en áður. Fyrir vikið mun hagur þeirra vænkast hraðar og þeir munu fá betra aðgengi að fé. En svo mun samkeppnin aukast aftur - en þó ekki einum degi fyrr en hagur þeirra núlifandi hefur vænkast á ný

Taugakerfi kapítalismans er hlutabréfa- og fjármálamarkaðirnir. Þetta taugakerfi er alltaf mjög viðkvæmt og ef það virkar ekki vel þá mun heldur ekki neitt annað virka vel meðan á leiðréttingu stendur. Það er í gegnum þetta taugakerfi að fyrirtæki nútímans og framtíðarinnar munu sækja sér fjármagn til að geta búið til velmegun í þjóðfélögum okkar, og til að geta keppt á mörkuðum nútíðar og framtíðar. Það sem markaðirnir eru að upplifa í dag er svo einstakt að það mun varla koma fyrir á meira en 100 eða jafnvel 1000 ára fresti. Við lifum því á einstökum tímum kæru Íslendingar

En markaðirnir eru samt að leiðrétta sig og munu einnig ljúka því erfiða verkefni. Enginn er hér of stór til að falla. Svo mun lífið halda áfram, taugakerfið komast í samt lag aftur og skjálftinn mun stoppa

Fyrri pistill

Frjálst fall skoðana á efnahagsmálum 

Viðauki - mestu föll síðustu 30 daga á gjaldeyrismörkuðum

AUD/USD -10.35 % ástralskur dalur gagnvart BNA dal

AUD/JPY -7.57 % ástralskur dalur gegn yen

EUR/USD -7.22 % evra gegn BNA dal

GBP/USD -6.63 % pund gegn BNA dal

NZD/USD -6.54 % Nýja Sjálands dalur gegn BNA dal

EUR/JPY -4.35 % evra gegn yen

CHF/JPY -4.09 % svissneskur frank gegn yen

GBP/JPY -3.73 % pund gegn yen

CAD/JPY -2.37 % kanadískur dalur gegn yen

EUR/GBP -0.68 % evra gegn pundi 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Gunnar Rögnvaldsson
Gunnar Rögnvaldsson

Búseta: Ísland.
Reynsla: 25 ára búseta í ESB og fyrirtækja-rekstur í DK/ESB frá 1985 til 2010. Samband:
tilveraniesb hjá mac.com

Ég er hvorki skráður á Facebook, Twitter, Linkedin né á neinum öðrum "félags-vefjum". Aðsetur skrifa minna er einungis að finna hér á þessari síðu og á tilveraniesb.net og í blöðum og tímaritum

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband