Leita í fréttum mbl.is

Spurt og svarað: Fyrst allt er svona gott á Íslandi, af hverju eru þá allir að kvarta!

Hún Ásta sem er að fara í sumarfrí spurði mig þessarar spurningar hér á blogg Eyþórs Arnalds.

Ég svaraði henni Ástu okkar svona 

Af því að flest er afstætt Ásta. Íslendingar hafa undanfarin mörg ár upplifað einstaka tíma. Tíma mikils framgangs og mikillar velmegunar sem á sér fáa líka í heiminum. Það er erfitt að gíra sig niður. Þetta er því smá afvötnun og hún er stundum sársaukafull. Svo þegar meðferðin hefst, þá fara Íslendingar að rífast sín á milli. Þeir kenna hinum og þessum um allt á milli himins og jarðar og finnst til dæmis sárt að komast ekki í nema þrjár utanlandsferðir á sama árinu. Þeir reyna einnig veruleikaflótta og finna stundum hinar og þessar leiðir fram hjá timburmönnunum, þ.e. þeir fara að sjá ofsjónum og sjá oft "þriðju" leiðina eða jafnvel "fjórðu" leiðina út úr fráhvarfseinkennunum.

Svo eru Íslendingar einnig gæddir þeim góða kosti að þeir halda alltaf að allt sé betra í útlöndum en heima hjá þeim sjálfum. Þetta er nokkuð góður kostur að hafa því það forðar Íslendingum frá því að falla ofaní þá gryfju að halda alltaf að allt sé best heima hjá þeim sjáfum, eins og allir halda hér í landi, Skandinavíu og í mörgum löndum ESB. Þetta tryggir nefnilega að Íslendingar séu manna duglegastir að vinna í garðinum sínum, enda hefur hann stækkað mikið miðað við alla aðra garða í heiminum. Uppskeran er mikil.

En það er samt sárt þegar það koma ormar úr görðum annarra og éta hluta af uppskerunni. Til dæmis olíu og hráefnaormar og svo útlendir peningarormar. Þá verða Íslendingar reiðir. En þetta eru samt bara virkir vöðvar frelsisin sem eru að vinna sitt starf hjá frjálsum Íslendingum og sem eru sífellt starfandi. Íslendingar sætta sig ekki við hvað sem er því krafturinn og sjálfsbjargarviðleitnin sem þeir náðu sér í sjálfir árið 1944 er svo sterk og hefur virkað svo vel að hann hefur gert þá að þriðju ríkustu þjóð í Evrópu á mjög skömmum tíma.

Svo halda þeir einnig að íslenska krónan, sem hefur gert þá svona ríka, sé einnig orðin ormétin og farin að mygla. En krónan er al saklaus, það vita flestir nema Íslendingar sjálfir, því hún hefur ekki gert neitt af sér. Það eru hinsvegar þeir sem hafa notað hana sem hafa ollið þeim kalí-bruna sem kom í garðinn núna í vor. Þeir báru aðeins of mikið á í garðinum síðustu þrjú vor. En þetta mun allt lagast og er reyndar nú þegar farið að lagast dálítið. Svo munu koma ný blóm í garðinn á næsta ári.

Svona hefur þetta alltaf verið á því Íslandi sem hefur mótað og meitlað þjóðina í gengum þúsund ár. Þetta er ekkert venjulegt land og fólkið sem býr í þessu landi er heldur ekkert venjulegt fólk. Þetta skilja þó aðeins örfáir í hinum görðunum í nágrenninu og þeir skrifa því oft heim til barna sinna um þetta skrýtna fólk þarna í efsta garðinum, og sem hefur númerið Ísaland

Ég óska Ástu góðs og ánægjulegs sumarfrís.  

Eftirmáli og formáli

Einu sinni kom út bók sem bar titilinn Þriðja Augað. Ég las hana þegar ég var táningur. Þessi bók var bull. En núna voru Íslendingar að finna upp nýjan titil á þessa bók. Þeir kalla hana núna fyrir Fjórða Augað. Og þessi titill var ekki hugmynd Lobsang Rampa. Nei hugmyndin er alíslensk. Hún er þessi: að taka upp gjaldmiðil annars lands án þess að ganga í landið og það strax. Og alveg án þess að fá illt í magann. En þá vil ég benda augnlækninga- og leiðamönnum á eftirfarandi:

Ef þið væruð með evru núna skv. Björns Bjarnar-leið eða X, Y eða Z leið (sama hvort þið væruð með í ESB, Noregi, Sviss, Danmörku, Bandaríkjunum, eða ekki) þá sæti Ríkisstjórn Íslands núna á erfiðum fundum við að undirbúa þær refsiaðgerðir fyrir heimili og fyrirtæki sem alltaf þarf að viðhafa til að ná niður verðbólgu og þenslu í hagkerfum sem hafa misst stýrivaxtavopn og peningastjórn sína til annarra landa. Til dæmis væri hægt að hækka tekjuskatta og fjármagnsskatta, hækka skatta á láglaunafólk og lækka persónuafslætti, setja á 100% eða 180% skráningargjöld á nýjar bifreiðar, setja lúxusskatta á matvæli og vörur sem stjórnmálamenn hafa ákveðið fyrir þig að séu "óþarfa vörur". Banna viss útlán og afborgunarlán hjá peningastofnunum. Í stuttu máli: að finna upp allt sem þarf til að stoppa þessa neyslugleði, fjárfestingar og framkvæmdir. Allt saman til þess að ná niður þessari verðbólgu! Og þetta mun bitna jafn illa á þeim sem hafa hagað sér skynsamlega og þeim sem hafa hagað sér minna skynsamlega í peningamálum. Þá myndu nú Íslendingar fyrst fá alvarlega illt í magann og finnast þeir verða ormétnir. Atvinnuleysi væri þá orðið að hagstjórnartæki og Íslendingar myndu fara á kassann í massavís. Og svo þegar það þarf að örva fjárfestingar, atvinnu og neyslu aftur þá er það varla hægt lengur og Ísland verður fátækara og mun dragast meira og meira afturúr eins og ESB er einmitt að dragast afturúr efnahag Bandaríkjanna og Íslands. Öll dýnamík og sveigjanleiki horfinn. Þá væruð þið loksins komin á kassann.

Þið gætuð ekki haft neinn fjármálageira að ráði á Íslandi ef þið væruð með evru svona eins og Björn Bjarnarson og fleiri nefna eða eru að tala um. Hann þyrfti því að flytja úr landi, alfarinn. Stórframkvæmdir væru óframkvæmanlegar undir svona nýlendu peningastjórn. Og svo þyrftuð þið að fara út og kaupa evrur (eða eitthvað annað) á gengi dagsins fyrir tugi milljarða króna til að dreifa í umferð í  peningakerfinu í stað ISK - og það væri einungs stofnkostnaðurinn - allt hitt sem myndi fylgja á eftir væri eitt risastórt vandamál. Þá væri Ísland orðið nýlenda á ný. Til hamingju. Afkomendur ykkar munu varla fara út í þann kostnað að kaupa ramma til setja utanum mynd til að hengja upp á vegg af svona kjánum. Stoppistöð vanþakklátra er greinilega alltaf að verða stærri og stærri. 

Ég vil leyfa mér að benda á eftirfarandi staðreyndir

Sumir á Íslandi halda að núna sé eitthvað að ske á Íslandi sem þeir kalla "efnahagsvandi okkar". Ég vildi ekki óska ykkur að þetta sé aðeins efnahagsvandi ykkar. Svo illgjarn er ég ekki. Næstum öll lönd þurfa einnig að kljást við afleiðingar alþjóðlegrar hráefnaverðbólgu, olíuverðbólgu, og alþjóðlegrar fjármálakreppu.

Nú er ESB ekki gjaldmiðill, því þá væri ESB úthrópað sem verandi "gjaldþrota" og "handónýtt", og það af ESB-sinnum sjálfum. Það sem einkennir algerlega umræðuna á Íslandi er gjaldmiðill Íslands, krónan, ISK. En menn þurfa að hafa eftirfarandi í huga þegar þeir dæma sjálfstætt Ísland sem verandi gjaldmiðil.

Seðlabanki Íslands á hrós skilið fyrir að vinna vel undir krefjandi kringumstæðum síðan krónunni var sleppt á frjálst flot árið 2001. Menn eiga eftir að skilja þetta mikið betur seinna. Það er ekki hægt að segja annað en að það séu undur og stórmerki að krónan skuli hafa haldið þetta vel undir eftirfarandi kringumstæðum. Margir hafa greinilega meiri trú á að Ísland muni spjara sig betur í framtíðinni en sumir hafa trú á á sjálfu Íslandi.

1) Krónan er gefin frjáls árið 2001. Íslendingar kynna gjaldmiðil sinn fyrir umheiminum. Kynning hans er í umsjá nýlega alþjóðavædds fjármálageira Íslands. Síðast þegar þetta skeði í Evrópu þá var það evra sem var kynnt fyrir umheiminum og hún féll álíka mikið eða yfir 30% án nokkurra sýnilegra framfara, ávinninga, aukinna fjárfestinga eða framkvæmda. Hún féll bara. Þeir voru ekki að byggja virkjanir eða fjárfesta hér í EvruLandi ef einhver skyldi halda það. Áður en þessi kynning á krónunni fór af stað vissi enginn hvað ISK var. En núna er ISK í öllum fréttum og er kominn í hóp þeirra gjaldmiðla sem greinendur og fjármálastofnanir fjalla um á hverjum degi erlendis.

2) Heill nýr atvinnuvegur Íslendinga leit dagsins ljós, sem er alþjóðavæddur fjármálageiri og sem skilaði fyrsta íslenska fyrirtækinu innná NASDAQ-OMX-100 listann - þ.e. Kaupþing Banki er núna eitt af 100 stærstu fyrirtækjum á þessum lista.

3) Stærsta fjárfesting Íslandssögunnar fór fram.

4) Alþjóðlegt lánsfé var ódýrara en nokkurntíma áður síðan krónan var sett frjálst fljótandi. Fjármálageiri Íslands notaði tækifærið til að hamra járnið meðan það var heitt. Nú er það hinvegar að kólna.

5) Svæsin alþjóðleg olíu- hráefna- og matvælaverðbólga hefur ríkt núna í tvö ár.

6) Vesta alþjóðlega fjármálakreppa heimsin síðan 1930 hefur núna ríkt í 12 mánuði.

Þetta er all nokkuð nokkuð afrek hjá Seðlabanka Íslands að halda utanum þetta án þess að ver hafi farið. En traust gjaldmiðla er langhlaup og ekki spretthlaup. Eftir þessa kreppu mun krónan verða HERT KRÓNA. Það er augljóst. Ef allir ætluðu að skipta um gjaldmiðil undir svona kringumstæðum þá væru allir gjaldeyrismarkaðir lokaðir, alltaf. 

Hefði evra staðist allt þetta? Er einhver sem trúir því í alvöru ? Nei og aftur nei, alveg örugglega ekki. Núna er evran hinsvegar allt allt of há fyrir útflutning frá ESB og það á sennilega að fara að taka hana í karphúsið aftur, og það alvarlega í þetta skiptið.

Sjálfstætt Ísland er ekki króna og ESB er ekki gjaldmiðill og alls ekki GaldraPappír

Framhald: nánar, og af sannfæringu, er fjallað um Galdrapappíra og ESB á bloggi forstjóra Brimborgar, Agli Jóhannssyni: Ísland og Lettland: Áhugaverður samanburður í ljósi evru umræðu - ég mæli með þeirri lesningu. 

Skrásett vörumerki : GALDRA PAPPÍR © 2008 einkaleyfi Hans Haraldsson - gengisfelling óheimil án leyfis Deutsche Bundesbank- meðalvextir samfylkingar í esb gilda


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Gleymdu ekki félagi að Íslendingar eru skuldugasta þjóð í heimi. Þessi mikli rembingur um ríkidæmi er innantómt blaður. Það sem að okkur vantar eru fleiri og traustari stoðir undir íslenskt hagkerfi svo fólk og fyrirtæki geti gert langtímaplön. Víðtæk samstaða er um að skipta út krónunni og flestir hallast að því að reyna upptöku evrunnar, með eða án aðildar að ESB.

Gunnlaugur B Ólafsson, 14.7.2008 kl. 06:26

2 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Sæll Gunnlaugur.

Já ég veit að þú vilt ekki trúa á tölur alþjóða stofnana um efnahag þjóða, við höfum rætt þetta áður, og þú vilt heldur ekki skilja að allar þjóðir skulda erlendis og eiga oft eignir erlendis á móti skuldum, nema kanski Norður Kórea og Kúba. Ef þú skilur ekkert í hagstærðum, eins og þú hefur sagt við mig sjálfur, af hverju ertu þá að tala um þær?

Þessar stoðir sem þú ert að tala um, eru það sömu stoðir og Danir voru að tala um hér í Danmörku gær? Stoðin þín, eða hækjan, evran, sem núna er búin að kosta Dani um 100.000 atvinnutækifæri á undanförnum fáum árum eingöngu af því að gengi dönsku krónunnar, sem er beintegnt fast við evru, er núna í sögulegu hámarki ALLRA tíma. Danir telja sig nú hafa misst tekjur og velmegun sem svarar til 100.000 tapaðra atvinnutækifæra eingöngu vegna bindingar við evru allra síðustu fáu árin. En 50% af útflutningi Danmerkur fer til landa utan Euro-Zone og þau lönd eru ekki beintengd evru. Það er semsagt heimur fyrir utan stoðina/hækjuna þína. Eins og þú kanski veist þá féll Danmörk inn í kreppu í síðustu viku.

Ég veit að það þýðir lítið að ræða þetta við ESB-sinna. Það er alveg nákvæmlega sama hvað komið er með af rökum og staðreyndum um ESB, það prellar allt af ykkur eins og vatnið af nýju gæsinni í austri í gamla daga. Trúin ein virðist bera hug ykkar, eins og svo oft áður. Fyrst var það Austrið og svo var það velferðarríkið og uppreisnin frá miðju. Allt saman gjaldþrota nú.

Historisk stærk kronekurs

Bestu kveðjur

Gunnar Rögnvaldsson, 14.7.2008 kl. 07:27

3 identicon

Sæll Gunnar

Þú svarar ekki Gunnlaugi, ert bara með skæting út í hann, þú ættir að skammast þín !!!

Þú veist ekkert,kannt ekkert, haltu þig bara á þinni Danskri mottu.

Íslenskur almenningur er löngu orðinn hundleiður á þessu ástandi.

Okkur vantar ekki kvartvita sem hefur búið í 23 ár erlendis til að segja okkur hvernig við höfum það!!!

Leifur (IP-tala skráð) 14.7.2008 kl. 11:54

4 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Sæll Leifur


Það er þá eins gott að þið gangið aldrei í ESB ef skoðanir af erlendri grundu skyldu falla illa til jarðar á Íslandi. En það er einmitt það sem ég óttast að þær myndu gera ef Ísland gengi í ESB, eða myndi taka gjaldmiðil ESB á leigu í nokkra sólarhringa. Til dæmis skoðanir frá vissum mönnum í Frankfurt og jafnvel frá Brussel. En þá væri það því miður of seint, pillan yrði þvinguð niður í maga allra Íslendinga hvort sem þeim líkaði bragðið eða ekki, og einnig í þinn maga Leifur.

Það er ekki von á góðu þegar ESB fer að leita að hallamálinu undir teppunum í Fjármálaráðuneyti Leifs.

Við höfum aðeins áhuga á . . . evrrrunni! You can keep the rest Mr. Frank in Furt!

Gunnar Rögnvaldsson, 14.7.2008 kl. 12:56

5 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Já ég gleymdi víst að koma til móts við Leif um að "svara" Gunnlaugi þeirrar spurningar sem hann spurði ekki: skuldir hverfa ekki við að ganga í ESB. Annars væru allir í ESB skuldlausir og það eru þeir ekki.

Opinberar skuldir ESB eru miklu meiri en opinberar skuldir Íslands, sem hluti af þjóðarframleiðslu. Miklu miklu meiri.

Gunnar Rögnvaldsson, 14.7.2008 kl. 14:57

6 identicon

Sæll vertu Gunnar.

Ég er þér afar þakklátur fyrir þín vel orðuðu og upplýstu skrif um lífið í EB. Sérstaklega fyrir ábendingar þínar um hinn efnahagslega veruleika þar, fyrst og fremst grundvallaðar á eigin skýrslum frá EB "sjálfu". Hafðu ekki áhyggjur af þessum Leifi, lýsingarorð hans lýsa aðeins honum sjálfum, því "sannleikanum verður hver sárreiðastur".

Hins vegar virðist mér að ástæður séu að verða til þess að hafa verulegar áhyggjur af "hugsanlegum" umsnúningi í EVRU og EB málum nokkurra lykilmanna Sjálfstæðisflokksins undanfarnar vikur, og maður spyr "hvar ertu Davíð"?, með þína skörpu greind og þín heilbrigðu, opinskáu og sterku viðhorf, láttu heyra í þér.

Gunnar.

Vinsamlega haltu áfram að rekja sannleikann um EB fyrir okkur Íslendingum.

Kveðja

Guðm. R. Ingvason

Guðm. R. Ingvason (IP-tala skráð) 14.7.2008 kl. 15:03

7 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Ég þakka ykkur, Guðm. R. Ingvason og Jurgen, fyrir góð orð til mín.

Gunnar Rögnvaldsson, 14.7.2008 kl. 16:07

8 Smámynd: Baldur Fjölnisson

Skuldapappíraframleiðsla er langmikilvægasta starfsemi hér eins og annars staðar á vesturlöndum og bankakerfið byggist öðru fremur á því að sækja skammtímafjármagn til lágvaxtasvæða og endurlána það til langs tíma. Slíkt kerfi má augljóslega alls ekki við lækkandi gengi gjaldmiðils sem það starfar við. Fáir eru jú nógu vitlausir til að fjárfesta í fallandi gjaldmiðlum.

Allt efnahagslíf gengur fyrir olíu og þess vegna er lífsnauðsynlegt að vera með gjaldmiðil sem hækkar gegn dollar þar sem verðmyndun olíunnar fer fram í dollar - sem vel að merkja er einn alveikasti gjaldmiðill heimsins. Þannig skattleggur gjaldþrota bandar. hagkerfi heimsbyggðina. Skuldasöfnun þessa gjaldþrota kerfis hefur einmitt byggst á olíuviðskiptum (og reyndar verslun með aðra málma og matvæli og hráefni) og olíuframleiðsluríkin keypt bandar. skuldapappíra. En öll skím ganga sér til húðar á endanum og flóttinn frá dollar er greinilega enn að herða á sér þó dollarinn sé við 40 ára botn. Góðar stundir.

Baldur Fjölnisson, 14.7.2008 kl. 20:09

9 Smámynd: Baldur Fjölnisson

Dollarinn er einn alveikasti gjaldmiðill heimsins eins og ég sagði og fátt sem hefur fallið gegn honum. Ef frá er talið Zimbabwe, Miðbaugs Gínea, Írak og önnur álíka skríparíki þá er það Indland, Indónesía, Pakistan, Suður Kórea, Suður Afríka og Ísland.

Heimild: Netútgáfa The Economist.

Baldur Fjölnisson, 14.7.2008 kl. 20:13

10 identicon

æji,

Jósep Húnfjörð (IP-tala skráð) 15.7.2008 kl. 00:09

11 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Já, æææji, segi ég einnig. Baldur er alveg búinn að gleyma. Gleyma síðasta stóra falli evru. En það er samt ágætis hugmynd Baldur að kaupa hluti á meðan þeir eru á lágu verði. Eins og til dæmis allar útflutningsvörur frá BNA og ferðamannaþjónustu þeirra. Nema að maður sér bearish eða Björn að atvinnu og kaupi hlutina dýra til að græða á falli þeirra. Um það bil 7% af öllum aðilum á mörkuðum eru Birnir eða bearish. Ég gæti trúað að Baldur sé einn af þeim. Þessvegna ráðlegg ég Baldri að kaupa allt frá ESB og þá einnig evrur. Því allt frá ESB getur einungis fallið héðan í frá. Allt frá BNA getur ekki fallið mikið meira. Svo best er fyrir Birni að gleyma öllu um BNA og snúa sér að ESB. Láttu okkur Nautin eða bullish um BNA . . . tik tak tik tak

Ég mæli með grein minni um Gullna Hliðið.

Greining Jyske Bank síðasta föstudag: Evra er ekki há vegna þess að hún sé góður gjaldmiðill sem byggir á sterkum hagstærðum evru-landa. Hún er há vegna þess að Bandaríkjadollari hefur verið lágur - Gullna hliðið að lokast?

Kveðjur

Gunnar Rögnvaldsson, 15.7.2008 kl. 02:31

12 identicon

Sæll Gunnar

Ég vil biðja þig Gunnar afsökunar á ummælum mínum, þau eru ósæmileg og óafsakanleg en voru tilkominn vegna annarra skrifa þinna sem vöktu eld í blóði mínu.

Mistök fyrri efnahagsstjórnunar voru meðal annars ráðstöfun bankanna, til hverja þeir voru ráðstafaðir og hvernig þeir voru ráðstafaðir.

Í fyrsta lagi er hagkerfið lítið og gjaldmiðill fallvaltur sem gefur einkavæddum bönkum, Íslenskum sem erlendum færi á að leika sér með gengið (ekki segja mér að það sé ekki hægt) Þannig það hefði verið gáfulegra að tengja krónuna við annan gjaldmiðil áður en bankarnir voru ráðstafaðir og meðan árferði var gott.( Hvernig ætlar þú að verjast atlögu gegn Íslensku krónunni ? Erum við í það góðri aðstöðu og höfum við það fjármagn að verjast atlögunni og þá hversu mikið fjármagn ? Við þurfum auðvitað að vita það ef við ætlum að halda í krónuna hversu mikill fórnarkostnaðurinn er !!! Eða er það kannski málið að fáir einstaklingar fái að leika sér í Matador sér til fullnægju á kostnað almennings og útflutnings-fyritækja ? )

Í öðru lagi voru bankarnir ráðstafaðir til einstaklinga sem höfðu ekkert vit á bankarekstri nema þá helst að hafa tekið lán í þeim, aðeins unnið í ölgeiranum eða migið utan í Framsóknarflokkinn og það segir allt í hvernig ananaslýðveldi við búum í ! ( Rökstyddu þetta án þess að segja mér hve glæsilegir og ósnertanlegir þessir einstaklingar eru en kannski ertu bara sammála þessu )

Í þriðja lagi, fyrst þessi ráðstöfun átti sér stað átti ríkið að halda eftir einhverum eignarhluta fyrir sig bæði til tryggingar ef dæmið gengi ekki upp, þetta var jú tilraunastarfsemi og með það fyrir augum að fá þá einhverjar aura út úr þessu þótt litlir væru.

Mesti glæpurinn var auðvitað að láta verðtrygginguna fljóta með ráðstöfun bankanna, með því var bönkunum gefinn sá lausi taumur ábyrgðaleysisins, því sama hvernig ástandið í þjóðfélaginu yrði þá myndu bankar aldrei tapa, þeir veðsettu verðtrygginguna og fengu betra lánshæfismat, það tók sjálfsagt tíma að sannfæra þá sem að lánshæfismatinu stóðu enda Evrópuland sem átti í hlut en það tókst á endanum. Verðtryggingin átti jú alltaf að vera tímabundin en skítt með það, við búum nú einu sinni á Íslandi og svona ganga hlutirnir fyrir sér hér og fórnarkostnaðurinn lendir ekki jafnt á öllum eins og hann ætti að gera, nei hann lendir á grunni og stólpum samfélagsins, fjölskyldum og útflutnings-fyrirtækjum. Það er jú sú eining sem framleiðir hin raunverulegu verðmæti en ekki fyrirtæki sem framleiða pappír sem einn daginn geta verið einhvers virði annan einskisvirði... en hver er framleiðnin ?

Það er sorglegt til þess að vita að vita að á fáum árum höfum við Íslendingar gjörsamlega tapað áttum, skattheimta hefur aukist um tug prósenta á almenning á meðan hafa skattar verið að lækka á fyrirtæki umtalsvert, hvar er sanngirnin ? Gjaldtaka hefur aukist meðal annars í heilbrigðisgeiranum það eitt að foræðisaldur barna var hækkaður í 18 ára aldur hafði í för með sér aukin kostnað en ríkið kom ekki við móts við fjölskyldur, veit að fyrirtæki í landinu hefðu ekki liðið þá kostnaðarhækkun og hvað er fjölskylda annað en smækkuð útgáfa af fyrirtæki.

Græðgin ein hefur hefur leitt okkur í þær villigötur sem við erum í dag og það er kannski það sem vandamálið snýst um, veikgeðja þjóð og þá veikgeðja mynt ? Einhverstaðar hlýtur þetta að endurspeglast.

Ný kapitalismi er gjaldþrota við sjáum það ekki og viljum ekki sjá það, en ég vona að við vöknum áður en það er of seint.

Það vekur forvitni mína Gunnar þar sem þú ert í fyrirtækjarekstri í Danmörku af hverju þú flytur ekki þína þekkingu til Íslands til að reka fyrirtæki við þetta árferði, okkur vantar svo sannarlega þannig mann ? Með von um að svör þín verði greinargóð.

Heiðrum kenningar Adams Smith föður kapitalismans.

Leifur (IP-tala skráð) 15.7.2008 kl. 03:35

13 Smámynd: Agný

Ég ætla að leyfa mér að vera nokkuð mikið sammála síðasta skrifara...

Ég er svo sem ekki sjálf neitt lærð í þessum hagfræði geira en mér sýnist nú á öllu að það skifti litlu máli þegar á stjórnun þjóðarskútunnar er litið.. Sú skúta er löngu orðin lek og ætti að parkera hið snarasta í slipp.....

En í sambandi við það hvað vissir ráðamenn okkar almúgans eru mótfallnir því að ganga í ESB...getur ástæðan ekki verið sú að þá meiga ekki lán vera með verðbætur? Leiðréttið mig þið sem vitið betur...

En ef þetta er rétt þá tel ég þetta dæmi eitt og sér vera nóg ástæða hjá sumum...

Svo annað...getur ástæðan fyrir því að meiri hluti íslendinga er svona f.......ligeglad að við eigum jú síðast þegar ég vissi Skandinavíu met í að bryðja "gleðipillur" ... Prozac (sem segir að vísu inni á doctor.is að sé ekki lengur selt hér...heheh...nei  rétt er það að vísu ..ekki undir nafninu Prozac..heldur bara undir nafninu á virka efninu sem gerir Prozac að því sem það er...þó svo að fleiri pillur beri nafngiftina "gleði"pillur...)  Heimsmet áttum við í notkun Ritalins árið 2005 ..hver staðan er núna ætla ég ekki að fullyrða  en held að hún sé óbreytt.....

Þannig... við fullorðna liðið bryðjum ( að vísu ekki ég..) "mind controlling" lyf ( "mind overtaking" vil ég að vísu kalla það..) ...en krakkarnir "mind easing" lyf... eða "cosy drug eins og margir kalla það... þæginda lyf fyrir okkur foreldrana og þá sem koma almennt að uppeldi barnanna okar.....

Það verður fróðlegt að sjá..vona ég hinum megin grafar frá...alþingismennina eftir ca 15 ár sitjandi með róandi spíttið sitt Ritalin á borðinu ...engin hætta á einhverjum framí köllum þá...Kanski ekki falleg sýn sem ég hef á Íslandi hinu hreina, fagra og náttúruvæna.....en kanski mál til komið að fara að nudda sandinn úr augunum...

Ja...mín sýn er sú (eftir að ég nuddaði sandinn úr augunum)  að þá muni Ísland ekki lengur þekkjast úr lofti fyrir fallegu jöklanna sem blasa við ef að heiðskírt er heldur álverin sem mun blasa við allstaðar...þá mun Ísland heldur ekki heita Ísland ..heldur "Ál" landið ..."hið mikla"...þá mun ekki vera sungið lagið ,, lax og aftur lax....það eina sem þú hugsar um er bara lax og aftur lax....

Nei þá mun það vera þetta... ..

...þu hugsar ekki um neitt nema ál og aftur ál... sumar konur munu þá kanski bera nafni "Ál"gerður ..en ekki "Val"gerður því það mun verða sett sama sem merki við það  hjá hinni  merku mannanafnanefnd...Eigum svo öll góðan krónu dag...

Agný, 15.7.2008 kl. 04:57

14 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Sæll Leifur og allt í góðu lagi með fyrra innlegg þitt. Ég er ýmsu vanur :)

Ég skal reyna að svara spurningum þínum

Stærð gjaldmiðils og stöðugleiki þeirra

:: Árið 1992 var breska bundið sprengt út úr myntbandalagi ESB. Þetta skeði á einum degi. Pundið féll um 15% í aðför. Seðlabankar ESB gátu ekkert gert, og áhuginn á að koma Bank of England til hjálpar við þrautvarnir voru heldur ekki stórar því þeir vissu að þeir hefðu engan séns. Síðan þá hefur Bretum aldrei dottið í hug bindast einum eða neinum gjaldmiðli eða myntbandalagi. Enginn stenst spákaupmenn og þeir munu alltaf laðast að t.d. fast-gengis-bandi og myntbandalögum eins og mý á mykjuskán. Þeir munu setja upp stórar bjarnargildrur og blása hausinn af hvaða seðlabanka sem væri. Það er vonlaust verk að verja gjaldmiðla yfirhöfuð, og alls ekki þess virði. Það er betra að gengið gefi eftir og taki skortstöðumenn með sér í fallinu og skeri undan þeim.

:: Sama ár eða í október 1992 þurfti sænski seðlabankinn að hækka stýrivexti sína upp í 500% til að verja einhliða bindingu sína við EMS (fyrirrennari ecu og evru). En það var vonlaust. Bindingin var felld niður og sænska krónan féll um 10-15% á augnabliki. Siðan þá er áhugi Svía á bindingu enginn.

:: Árið 1999 var evra sjósett. Hún féll næstum strax gagnvart dollar. Fallið hélt áfram alveg fram að í ágúst 2001, með mörgum stórum upp og niðursveiflum. Fallið náði 30% gagnvart dollar. Á þessu tímabili reyndu bæði seðlabanki ESB og sá ameríski að koma evru til bjargar með aðgerðum í markaði þ.e. með uppkaupum (intervention). En það var eins og að hella vatni í sjóinn. Ekkert gagnaði.

:: Síðustu ár hefur hinsvegar dollari fallið töluvert gangvart evru og evra hækkað gangvart dollar. Fallið er enn meira en á sokkabandárum evru.

:: Á mörgum seinustu árum hefur íslenska krónan aðeins sveiflast 3% meira gangvart evru en dollari gerði. En svo kom fjármálakreppan og felldi gengi krónunnar og eingöngu vegna vantrausts sem er tilkomið með of hröðum vexti íslenska fjármálageirans og þar af leiddu vantrausti. Og engu öðru.

Þú verður að afsaka en ég get alls ekki séð samhengi á milli stærðar gjaldmiðils og gengi hanns. Því stærri sem gjaldmiðillinn er því stærri eru upphæðirnar og því fleiri eru að paufa og pukrast á mörkuðum þessa stóru gjaldmiðla, og aðgengi að fjármagnsfossum þeirra er mikið. Hér í Danmörku gefur gengið stundum eftir við stórar sölur og kaup einstakra fyrirtækja eins og til dæmis seinustu uppkaup Carlsberg á fyrirtæki í Bretlandi. Í gær hækkaði dollar vegna stærstu uppkaupa á fyrirtæki í sögu dollars og sem fór fram i reiðufé.

Núna spá svo sumir að evran muni verða tekin í karphúsið aftur og þá fyrir alvöru. Ástæðan er misræmi og sprungur í sementinu á milli hagkerfa ESB. Það verður fróðlegt að fylgjast með því. Spáð er miklu falli evru. Það er gott fyrir útflutningsfyrirtæki í ESB en slæmt fyrir neytendur.

Það er ENGIN patent-lausn til

Besta leiðin til að tryggja hagstætt og stöðugt gengi er að hafa fíleflt efnahagslíf með lága skatta, og að ríkið skuldi sem minnst og að umsvif þess séu sem minnst. Að þessi efnahagur hvíli á TRAUSTUM grunni og sé vel rekinn. Svo þarf að hafa járnbentann Seðlabanka með 10 metra þykkum granítveggjum sem er grár fyrir járnum af nýtískulegum gereyðingarvopnum, og sem er stjórnað af grimmum, ógnvekjandi og "vondum" mönnum sem hlusta ekki á vol og væl í hinum og þesum bankatítlum, kaupmönnum, neytendum og þrýstihópum út um allann bæ. Einungis þannig er hægt að hafa mynt sem er sæmilega stöðug. Það sparkar enginn í svona mynt nema maður sjálfur. En að byggja upp traust á gjaldmiðlum er langhlaup og ekki spretthlaup. Eftir undangengnar og núverandi þrengingar mun íslenska krónan verða HERT KRÓNA. Hún þarf að sanna að hún klári sig í gegnum kreppur. Íslenska krónan hefur ALDREI fallið á vantraustinu einu eins og evran gerði. Það hafa alltaf verið ákveðnar átsæður.

Varðandi bankana

Sjálfur held ég að íslenskir bankar séu að minnsta kosti eins vel reknir eins og erlendir bankar, og jafnvel enn betur. En auðvitað geta þeir hafa gleypt of stórann bita erlendis. Það hefur skeð áður hjá öðrum. En þeir eru í það minnsta jafnvel fjárvæddir og þola að sumu leyti enn meiri áföll en erlendir bankar. Þeir hafa jú þurft að sanna sig á enn meira og betur en allir aðrir bankar. Enginn þeirra hefur þó þurft að fá áfallahjálp enn sem komið er, og umheimurinn er búinn að staglast á vantraustsyfirlýsingum í samfleytt 3 ár um hversu lélegir og illa reknir íslenskir bankar eru. Endalausrar rugl og áróðursgreinar um íslenska banka hafa núna verið birtir í öllum blöðum um allann heim í mörg ár. En þeir eru allavega ekki komnir á hausinn eins og Bear Strearns, Northern Rock, Roskilde Bank og fleiri, og þeir hafa ekki verið meðal þeirra banka sem núna hafa þurft að afskrifa 6-700 milljarða dollara á slæmum lánum. Ég hef enn fulla trú á íslenskum bönkum. Ég get ekkert skrifað um einkavæðingu bankana á sínum tíma því ég þekki hana ekki.

Skattheimta

Já skattar á launum eru ennþá næstum sögulega háir horfi maður til hagsögu Íslands. Það þarf að lækka skatta á launum. En ef fyrirtækin fá ekki lága skatta þá flytja þau bara annað eða loka eða nenna ekki að sýna neinn hagnað. Heimsvæðingin sér fyrir því.

Verðtrygging

Já hana þarf að afnema í skerfum þegar verðbólga er komin niður. Hún firrir stjórnmálamenn ábyrgð. Hún er koddi og skemmir verðmyndun og aðhaldssemi. Það verður vel hægt að gera það þegar öldurnar lægja. En þá þýðir ekki að flytja hana yfir í kjarasamninga og greiðslur úr ríkiskassa því þá mun hún bara verðtryggja skattana í staðinn.

Ríkið

Flest sem ríkið er að fást við er hægt að gera betur í einka og sjálfseignarrekstri sem þegnarnir geta átt og stýrt. Ríkið og hið opinbera kann ekkert að fara með peninga. Það vita allir sem skoða söguna. Mikilvægasta og frómasta hlutverk ríkisins er að vernda líf, limi og eignir þegnana. Reka lög og réttarkerfið og reka og skaffa grunnvaxtarskilyrði fyrir atvinnulífið. Þessu hafa ríkin í ESB gleymt og eru þessvegna að dragast aftur úr t.d. Bandaríkjunum. Þau eyða peningunum í vitleysu og allir þegnar í ESB eru hættir að geta ímyndað sér að neitt geti átt sér stað nema með hjálp Ríkiskassans og kassa ESB. Þetta er dóp fyrir fólkið. Það hættir að geta sjálft og embættismennirnir ofmetnast og halda að þeir séu orðnir hinir nýju prestar í kirkju Kassans. Ríkið og Kassarnir er nýja kirkjan í ESB.

Ég sjálfur

Ég þurfti því miður að reka fyrirtæki hér undir ofurskilmálum Þýska Seðlabankans árin 1989-1997. Ég missti mikið og varð illa úti. Markaðurinn var gersamlega steindrepinn af háum stýrivöxtum erlendis frá. Neyslan á mínum markaði var einfaldlega algerlega steindrepin og áföll á gjaldeyrismörkuðum ollu mér miklu tapi. Atvinnuleysi fór uppí 12% ár eftir ár. Allir bankar voru lokaðir og hvergi hjálp að fá. Það tók mig mörg mörg ár að ná mér á strik aftur. En síðan þá er mitt motto: ekki færast of mikið í fang i einu. Vera þolinmóður. Smátt er einnig ágætt, bara það sé vel rekið og skili hagnaði. Sé arðvænlegt, það er númer eitt. Hraður vöxtur er áhættusamur og mjög mjög svo erfiður viðfangs. Ekkert er auðvelt og því stærri sem markaðurinn er því erfiðari er hann.

Ég vona að þetta svari þínum spurningum

Bestu kveðjur

Gunnar Rögnvaldsson, 15.7.2008 kl. 08:11

15 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Sæl Agný

Já lífshamingjan og geðið er mikilvægt. Svo vissulega. En allt þetta mun allavega ekkert batna við að ganga í ESB, svo mikið er víst. Það er mikilvægt að halda tengslum við sína fortíð og fortíð þess lands sem er manns eigið land. Því annars fer manni að líða eins og íbúa á hótelherbergi sem hefur týnt öllum farangri sínum. Maður missir tengslin við lif sitt. Það vantar jarðsambandið við fortíðina. Glugginn inn í það sem var, og sem maður bjó og lifði saman með. Lífsgildin og hefðir.

Kveðja

Gunnar Rögnvaldsson, 15.7.2008 kl. 08:35

16 Smámynd: Baldur Fjölnisson

Dollarinn er mjög dýr ennþá enda rís allt gegn honum núna og hefur raunar gert árum saman nema skeinipappír einstaka ávaxtalýðveldis. Ég skal ekkert útiloka að það verði kauptækifæri í honum þegar hann hefur fallið um nokkra tugi prósenta í viðbót.

BIS (eins konar yfirseðlabanki heimsins) er núna að impra á þeim möguleika að lánshæfi bandar. ríkisins verði færð niður sem auðvitað er löngu tímabært þar sem það er gjörsamlega fallít. Þá vill IMF fara í allsherjar rannsókn á bandar. seðlabankanum og starfsháttum hans og raunar bandar. fjármálakerfinu eins og það leggur sig. Þetta eru ákveðnir og mjög alvarlegir fyrirboðar og menn geta náttúrlega hunsað þá sem fyrr. Það er þeirra val. 

Baldur Fjölnisson, 15.7.2008 kl. 15:56

17 Smámynd: Baldur Fjölnisson

"""Fed Chairman Bernanke is currently testifying before the Senate Banking Committee.  He noted the significant downside risks to growth, while also expressing increased inflation risks.  However, the Fed expects growth to pickup as the housing market bottoms and for inflation to tame as global growth slows.

Bernanke commented on the plan to prop up Freddie Mac (FRE 4.72, -2.37) and Fannie Mae (FNM 6.96, -2.80), saying that the size and importance of the GSEs justifies the actions. 

Addressing spiking commodity prices, the Fed believes that the increases in crude oil prices (roughly 100% over the last year) are due to tight supply and increases in demand, not from speculation.  Bernanke said that if it was speculation, one would expect to see an increase in inventory levels -- which is the opposite of what is actually occurring.

Bernanke said the weakening dollar has contributed to the rise in crude prices.  He said it is too difficult to assess how much of an impact it has, since the more imported oil we buy sends money overseas, which weakens the dollar.  Bernanke feels the trade deficit is largely to blame for the dollar's decline."""

briefing.com 15/7 2008

Baldur Fjölnisson, 15.7.2008 kl. 16:08

18 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Takk Baldur, ég horfði á Bernanke live á Bloomberg. Því var að ljúka. Hann var að minnsta kosti ekki ásakaður um að vera forstjóri GS í þetta skiptið. Frammarir :)

Gunnar Rögnvaldsson, 15.7.2008 kl. 16:19

19 Smámynd: Baldur Fjölnisson

Ég geri ráð fyrir að Bernanke verði rekinn á næsta ári og eigendur FED á Wall Street skaffi næsta stjóra úr sínum röðum.

Baldur Fjölnisson, 15.7.2008 kl. 16:40

20 Smámynd: Baldur Fjölnisson

Það sem pressar dollarann niður er:

1. Gengdarlaus hallarekstur ríkissjóðs. Sjóðurinn hefur verið rekinn með halla sem nemur 20-30% af tekjum hans núna í 8 ár samfleytt og ekkert sem bendir til breytinga þar á næsta áratuginn amk. Bandaríkin eru föst í tveimur töpuðum og endalausum stríðum í Írak og Afganistan og á leið í fleiri töpuð og endalaus og enn kostnaðarsamari stríð. Á þessum 8 árum hafa skuldir ríkissjóðs BNA vaxið um 70% og nema núna um fjórföldum árlegum tekjum sjóðsins, möo hann er algjörlega fallít fyrir lifandis löngu. En þetta er bara toppurinn á ísjakanum. Þeir hafa áratugum saman hirt alla söfnunarsjóði vegna lífeyris og sjúkratrygginga opinberra starfsmanna og skilið eftir ríkisskuldabréf í staðinn. Gengisfall og verðbólga og gervivextir gera síðan það drasl smám saman að engu. Þannig er núna ófjármögnuð hola í ofangreindum málaflokkum upp á tugi trilljóna dollara, 20-30X núverandi tekjur ríkissjóðs, sem mun skella yfir á næstu 20-30 árum. Þeir viðurkenna sjálfir fúslega að þeir þurfi að hækka skatta strax um amk. 60-70% til að byrja að dekka þessa risaholu. Gúglið David Walker comptroller general of the united states í þessu sambandi. David er fyrir nokkru hættur sem ríkisendurskoðandi BNA en er enn að tjá sig um þessa alvarlegu stöðu.

2. Botnlaus vöruskipta- og viðskiptahalli. Þrátt fyrir hrun dollarans flytja Bandaríkjamenn enn inn um 40% meira í dollurum talið en þeir flytja út. Dollarinn þarf því augljóslega að falla um tugi prósenta enn til að draga úr þessum halla.  Raunar fer megnið af peningalegum sparnaði plánetu þesarrar í að dekka þennan tröllvaxna hallarekstur bandar. hagkerfisins sem ég hef hér lýst. Þetta er þróun sem gengur ekki til lengdar og hefur verið að valda sívaxandi óróa og óstöðugleika í efnahagslífi heimsins og mun án efa valda enn frekari terror hollywoodsjóum og enn tryllingslegri stríðslygum en við höfum séð í seinni tíð. Þetta er kerfi sem er löngu komið að fótum fram og bregst við því á klassískan hátt með terror og stríðum og fasisma.

Góðar stundir. 

Baldur Fjölnisson, 15.7.2008 kl. 17:51

21 Smámynd: Baldur Fjölnisson

Þetta er eiginlega ólýsanlegt en mjög varlega áætlað nema heildaskuldir í bandar. hagkerfinu þegar tekið er tillit til holunnar sem ég nefndi að ofan yfir 100 trilljónum dollara það samsvarar 7-8X vergri þjóðarframleiðslu landsins og tvöfaldri núverandi heimsframleiðslu. Sé litið framhjá téðri holu nema heildarskuldir hagkerfisins samt 50-55 trilljónum dollara eða fjórfaldri vergri þjóðarframleiðslu og jafngilda nokkurn veginn vergri heimsframleiðslu. Eins og ég tók fram að ofan hefur megnið af peningalegum sparnaði plánetunnar farið í að halda þessarri fallít vitleysu gangandi.

P.S. Talan hundrað trilljónir lítur svona út: 100.000.000.000.000

Baldur Fjölnisson, 15.7.2008 kl. 18:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Gunnar Rögnvaldsson
Gunnar Rögnvaldsson

Búseta: Ísland.
Reynsla: 25 ára búseta í ESB og fyrirtækja-rekstur í DK/ESB frá 1985 til 2010. Samband:
tilveraniesb hjá mac.com

Ég er hvorki skráður á Facebook, Twitter, Linkedin né á neinum öðrum "félags-vefjum". Aðsetur skrifa minna er einungis að finna hér á þessari síðu og á tilveraniesb.net og í blöðum og tímaritum

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband