Leita í fréttum mbl.is

Gullna hliðið lokast - gengishrun evru yfirvofandi ?

Greiningadeild gjaldeyrismarkaða hjá Jyske Bank spáir að evra muni til að byrja með falla um það bil 15% gagnvart dollar fram að áramótum.

 

Jyske Bank er einn stærsti banki Danmerkur og greiningadeild þeirra á sviði gjaldeyrismarkaða þykir ein sú besta.

 

Jyske Bank telur að í fyrsta skipti í sögu evru muni aðilar á gjaldeyrismörkuðum ganga sérstaklega harðneskjulega til verks við að fella evru. Ástæðurnar eru þessar, segir greiningadeildin:

 

  • Evra er ekki há vegna þess að hún sé góður gjaldmiðill sem byggir á sterkum hagstærðum evru-landa. Hún er há vegna þess að Bandaríkjadollari hefur verið lágur.
  • Ef athyglin fer að beinast að Evrópu vegna þeirrar vaxtargildru sem ESB er í  og því ójafnvægis sem nú er á milli hagkerfa ESB og evru-landa, þá munu markaðirnir fara út í að sannreyna evru sem gjaldmiðil.
  • Greiningadeildin sér vaxandi vandamál í hagkerfum evru-landa. Suður Evrópa sé að fara inn í kreppu og hafi því alls ekki gott af þeirri stýrivaxtahækkun sem ECB kom með í gær, en þá hækkaði bankinn stýrivexti evru um 0,25 prósentur.
  • Athyglin mun beinast meira og meira að þeirri togstreitu sem er á milli hagkerfanna á bak við evru.  Menn munu fara að krefjast þess að þeir fái meiri áhættuþóknun þegar þeir kaupa gríska ríkispappíra en þegar þeir kaupa þýska ríkispappíra. Þessi spurning ætti yfirhöfuð ekki að koma upp í myntbandalögum segir Jyske Bank. Aðilar í markaði munu í auknum mæli beina athygli sinni að þessu misræmi.
  • Ofaní mikinn halla á greiðslujöfnuðum landanna í Suður Evrópu þá berst Norður-Evrópa í bökkum með efnahag og hagkerfi sem keyra á felgunum. Þetta eru hagkerfi sem áður fyrr voru álitin stöðug.
  • Þessvegna álítur Jyske Bank að það muni ekki líða á löngu þar til gjaldeyrismarkaðirnir munu fara að undirbúa sig undir að Evrópa muni falla ofaní öldudal, og að sú lægð muni kalla á lækkun stýrivaxta.
  • Evrópskir bankar eru til dæmis í mun meiri hættu frá undirmálslána-kreppunni en amerískir bankar séu því þeir hafa einfaldlega fjármagnað stærsta hlutann af þessum lánum, eða samtlas 900 milljarða dollara - Púnktur 

Heimild: Euroen på vej mod nedtur over for dollar

 

Mín skoðun:

Það var einmitt það. Ég mun núna, yfir helgina, fara í það að skoða kosti og galla þessa máls og þá með það fyrir augum að við tilkynnum umheiminum að við munum strax fara í það að undirbúa okkur í að redda þessum málum og munum því umsvifalaust koma efnahag ESB til bjargar. Hvað sagði ég ? Við reddum þessu! Er það ekki?

 

Uppfært kl. 19:31 

Skoðun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á framtíðarhorfum Íslands var birt í dag:

1. Íslenska hagkerfið er auðugt og sveigjanlegt. Tekjur á mann eru meðal þeirra hæstu og tekjuójöfnuður einna minnstur í heiminum. Vinnu- og framleiðslumarkaðir eru opnir og sveigjanlegir. Stofnanir og umgjörð stefnumótunar eru öflugar og skuldir hins opinbera eru mjög litlar. Eftirtektarverð stjórnun á náttúruauðlindum landsins hefur gert Íslandi kleift að auka fjölbreytni hagkerfisins og stuðla að sjálfbærni. Í ljósi þessa eru langtímahorfur íslenska hagkerfisins öfundsverðar

 

Þetta álit sendinefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins 2008 var birt í dag. Á vefsetri Seðlabanka Íslands (það er að segja Seðlabanka Íslenska Lýðveldisins) er að finna: Lauslega þýðingu. Álitið á ensku: IMF Concluding Statement July 4, 2008


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Árni Gunnarsson

Það var einmitt. Mín skoðun er sú að enginn gjaldmiðill bjargi vestrænum ríkjum frá aðsteðjandi kreppu. Gjaldmiðill einn og sér stýrir ekki neyslu fólks. Græðgi spákaupmennskunnar keyrir upp neysluhyggjuna með þrotlausum gylliboðum og elur á ábyrgðarleysinu með rándýrum auglýsingum. Þetta er reynslan hér á landi og stjórnvöld hafa ekki reynst vera búin þeim vitsmunum sem þurfti til að bregðast við með aðhaldi í útrásarbrjálseminni. Það var á valdi ríkisstjórnar og seðlabankans að koma böndum á bankana og afstýra þeirri kreppu sem þeir nú eru lentir í og reynast svo ekki færir um að leysa án aðstoðar þjóðarinnar.

Það ætti að vera öllum ljóst að ábyrgðarlaust bull um inngöngu í önnur myntbandalög eru ekki lausn. Þær aðstæður eru ekki fyrir hendi og svosem ekki í sjónmáli. Íslenskir kratar verða reyna að koma sér í vinnu á íslenskum kontórum.

En það eru að vísu ægileg vonbrigði ef svo er komið að ekki sé lengur skjóls að leita í hinum stórevrópska náðarfaðmi.

Árni Gunnarsson, 4.7.2008 kl. 16:41

2 Smámynd: Guðmundur Jónas Kristjánsson

Takk fyrir  afar fróðlegt innlegg hér Gunnar. Samt kemur þetta alls ekki á óvart.
Einn gjaldmiðill  og sömu vextir fyrir jafn ólík  hagkerfi og eru á öllu evrusvæðinu
getur aldrei gengið upp, og allra síst þegar kreppir að. Enda vörðuð fjölmargir
fjármálafræðingar við þessu þegar evran var sétt á flot.

Guðmundur Jónas Kristjánsson, 5.7.2008 kl. 14:52

3 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Ég þakka ykkur Árni og Guðmundur fyrir innleggin


Já, spákaupmennskan - hún hefur alltaf fylgt okkur og mun alltaf gera það. Stundum keyrir hún verðin upp, stundum keyrir hún verðin niður, og stundum tryggir hún stöðugt veðlag ef það ríkir sæmilegt jafnvægi í framboði og eftirspurn og þegar verðmyndun er frjáls. En mikilvægasta hlutverk hennar er þó að tryggja fyrirtækjum og mörkuðum fjármagn og vörur. Ef enginn stundaði spákaupmennsku þá væri t.d. hægt að kaupa og selja allt í ríkisreknum verslunum fyrir þjónustu, vörur, hlutabréf, fjármagn og vinnuafl. Framboðið yrði svona zirka eitt stórt núll því veðmyndunin væri ekki frjáls. Bændur myndu t.d. ekki nenna að framleiða vörur ofaní svona skíta markað.

Einhver sem vill t.d. kaupa og selja hlutabréf í apótekum eftir klukkan 18:00 á kvöldin á föstu verði? Þá væri nú ekki gaman kæru félagar. Og svo mundu allar vörurnar og fjármagnið þar á eftir leita inn á svartan markað sem enginn hefði hinn minnsta möguleika á að stýra með lögum og reglum um viðskipti og góða viðskiptahætti. Þá er ég nú hræddur um að blessaður verðbyrgillinn okkar myndi sprengja okkur í tætlur inni í einni stórri ofurverðbólgu.

Það þarf helst að hætta að ákalla ríkið þegar markaðir fara í tímabundið geðvonskukast. Við getum alveg sjálf og eigum að gera sjálf. Ríkið á ekki að taka ábyrgðina frá okkur eða frá fyrirtækjum. Með réttinum til að græða pening fylgir hinn ófrávíkjanlegi réttur til að tapa penginum og jafnvel fara á hausinn. Það verður að vera þannig.

Varðandi bankana og Seðlabankann þá er mikilvægt að muna að: eitt frómasa hlutverk allra seðlabanka er að vera banki fyrir bankana. Það er ekki bara hægt að taka það hlutverk alvarlega á sólskinsdögum.

Öll fyrirtæki eiga eitt sameiginlegt: þau hafa öll upphaf og endi. Fjarlægðin á milli þessara tveggja púnkta í tíma og rúmi, mun algerlega ráðast af getu fyrirtækjanna til breytinga og aðlögunar að nýjum aðstæðum. Og ég þekki fáa sem eru eins aðlögunarhæfir og snöggir til að framkvæma erfiðar og mikilvægar breytingar eins og íslensk fyrirtæki. Evrópubúar standa gapandi og vita ekki hvaðan á þá stendur veðrið þegar þeir vinna með íslenskum fyrirtækjum. Flestir þeirra fá taugaáfall eftir aðeins nokkrar vikur. Menn eru ekki vanir svona krafti hér í ESB. En þetta segir meira um Evrópubúa en það segir um Íslendinga.

Ég hef fulla trú á íslenskum fyrirtækjum og einnig á íslensku bönkunum. En auðvitað getur eitthvað mistekist og mun einnig mistakast.

Þegar ég horfði aftur á bíómyndina 2001 Space Odyssey um daginn, en þessi bíómynd var gerð árið 1968, þá sló það mig að næstum allt sem höfundur sögunnar, Arthur C. Clarke, hafði spáð fyrir um framtíðina í þessari bíómynd hafði ræst, nema eitt mikilvægt atriði: jú - Pan AM fór á hausinn! Hverjum hefði dottið það í hug árið 1968? Engum.

Holur í veginum

Finnst ykkur ekki að Bandaríkin ættu að taka upp evru? Dollar hefur jú fallið svo mikið gagnvart evru, eða var það öfugt? Það ætti einhver að segja Bandaríkjamönnum þeim frá þessum möguleika - fliss.

Já það verður fróðlegt að fylgjast með málum ESB og gjaldmiðli þess á næstunni. Svona í leiðinni - Greining Straums var að spá bankagjaldþrotum í Danmörku. Hverjum hefði dottið ÞETTA í hug ?

Straumur: Dansk bank-krak lige om hjørnet

Bestu kveðjur

Gunnar Rögnvaldsson, 5.7.2008 kl. 22:22

4 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Jón takk fyrir innleggið - en því miður - evra er ekki galdrapappír. Hún er einungis gjaldmiðill.

En það mætti hinsvegar segja að þetta hér fyrir neðan séu galdrar - eða - í það minnsta miklir töfrar. Þessir töfrar fóru fram akkúrat 20 árum áður en evra kom á markaðinn og féll með braki og bestum um 30%. Við sem ræðum stjórnmál höfum gott af að sjá smá raunverulega töfra, svona annaðslagið

Töfrarnir hennar Ólivíu :).

Gunnar Rögnvaldsson, 10.7.2008 kl. 16:57

5 Smámynd: Guðrún Sæmundsdóttir

Takk fyrir þennan fróðleik og ekki var verra að sjá eina af mínum uppáhaldssöngkonum

Guðrún Sæmundsdóttir, 15.7.2008 kl. 23:25

6 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Þakkir Guðrún


Já hún er einnig eitt af mínum uppáhöldum, hreint ógleymanleg :)

Kveðja

Gunnar Rögnvaldsson, 16.7.2008 kl. 08:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Gunnar Rögnvaldsson
Gunnar Rögnvaldsson

Búseta: Ísland.
Reynsla: 25 ára búseta í ESB og fyrirtækja-rekstur í DK/ESB frá 1985 til 2010. Samband:
tilveraniesb hjá mac.com

Ég er hvorki skráður á Facebook, Twitter, Linkedin né á neinum öðrum "félags-vefjum". Aðsetur skrifa minna er einungis að finna hér á þessari síðu og á tilveraniesb.net og í blöðum og tímaritum

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband