Leita í fréttum mbl.is

Leikurinn í Kína að verða búinn

Apollo 11 Saturn V  - Bandaríki Norður Ameríku 16 júlí 1969

Mynd: Apollo-11 á skotpallinum árið 1969. 64 milljón hestöfl. Enginn annar en Bandaríkjamaður hefur tekið sér frí frá Jörðu á öðrum hnetti

****

Í síðustu bloggfærslu kom Sigurður Antonsson í heimsókn og minntist á Kína - og eftirfarandi eru hugleiðingar mínar um það mál. Nýjasta tiltak kínverskra stjórnvalda virðist samkvæmt frétt Reuters á fimmtudaginn vera það að banna eigi fréttir frá útlöndum í Kína, sérstaklega frá Vesturlöndum og flest afþreyingarefni þaðan. Höfum við séð þetta áður? Já það höfum við

Í Kína er leikurinn að verða búinn fyrir vesturlensk fyriræki. Eins og eldri en pelagjafamenn muna, þá geisaði kalt stríð við Sovétríkin áratugum saman. "Heimsveldi mannvonskunnar" voru þau á endanum kölluð, og var það meira en réttnefni á Sovétríkjunum og þeim isma sem þau stóðu fyrir. Og hollt er að leiða hugann að þeim nýju ismum sem eru að festa sig í hugum fólks í dag. Má þar nefna umhverfisisma sem allur kemur frá þeim vinstri væng stjórnmála sem aðhylltist Heimsveldi mannvonskunnar hve mest síðast. Svo hér þurfa menn að vera á vopnuðum verði

Kalda stríðið kostaði Bandaríkin ofboðslega fjármuni. Það var þó ekki sjálfgefið að það stríð skyldi yfir höfuð vera háð, né hvað þá unnið. Um tíma reyndu "sérfræðingar" í Bandaríkjunum að segja við bandarísku þjóðina að Sovétríkin væru komin til að vera og að Bandaríkin yrðu að sætta sig við tilvist þeirra, völd þeirra, áhrifa- og hernaðarmátt, sem á tímabili taldi 12 milljón manns undir vopnum og hafði 200 herdeildir miðandi á Vestur-Evrópu. En bandaríska þjóðin vildi það ekki. Hún vildi ekki sætta sig við Sovétríkin og lokaði fyrir þennan boðskap sérfræðinganna, fyrst og fremst vegna Guðleysis Sovétríkjanna og alls þess vonda sem þau stóðu fyrir. Afstaða bandarísks almennings gegn Guðleysi mótaðist ekki af krónum, aurum né viðskiptum, heldur af siðferðislegum ástæðum

Ný útópía svipaðs sérfræðingaveldis varð til á ný þegar múrinn féll og hún var sú að halda það að Kína myndi verða eitthvað annað en öflugt Guðlaust (sovét)ríki, væri það fóðrað á nógu miklu fé og viðskiptum við Vesturlönd. Það tók einungis vissan tíma að komast að þeim erfiða og kalda sannleika, að slíkt myndi aldrei gerast. Nú er að renna upp fyrir bandarísku þjóðinni, sem er Kristni-trúaðasta þjóð Vesturlanda, að hún var göbbuð. Sífelldur straumur frétta af ofsóknum kínverskra stjórnvalda á hendur Kristnum og útlegð manna úr opinberu lífi og samfélagi vegna hverskyns trúarskoðana í Kína, eru að blasa meira og meira við bandarísku þjóðinni. Sérstaklega þeim stóra hluta þjóðarinnar sem býr ekki í glóbalista-mannþyrpingar-bólunum tveimur við norðaustur-ströndina og suðvestur-ströndina. Það er að segja; allt meginland Bandaríkjanna hefur fært ofboðslegar fórnir vegna útskipunar atvinnulífs til Kína og þar á undan til Japans. Detroit lítur í dag út eins og Hirosima gerði 1945, á sama tíma og vissir hlutar Kína við sjávarsíðuna í suðri líta út eins og Detroit leit út árið 1945

Bandaríkin hjálpuðu Evrópu, Japan og Suður-Kóreu að komast á fætur á ný eftir Síðari heimsstyrjöldina. Og þau höfðu ekki ásælst né tekið land neinna þjóða þó svo að þau stæðu þá sem sigurvegarinn. Slík framkoma gagnvart hinum sigruðu hafði aldrei áður sést í sögu mannkyns. Bandaríkin vildu einfaldlega ekki verða heimsveldi

Það var þetta fólk sem kaus Trump. Það er búið að fá nóg og það segir; við fórnum ekki meiru af Bandaríkjunum fyrir hvorki Kína né bandarísk fyrirtæki í Kína. Þetta verður að stoppa og við verðum að tæknivæða okkur út úr þessu hér heima, eins og þegar við fórum til tunglsins í Apollo-11 prógramminu. Það krafðist 400 þúsund verkfræðinga. Við getum sjálf. Við höfum allt sem til þarf, en við þurfum pólitíska forystu á borð við þá sem byggðu Bandaríkin upp eftir borgarastyrjöldina sem lauk 1865. Þess vegna er Donald J. Trump forseti Bandaríkjanna núna

Risaeðlan Bandaríkin er að vakna. Síðast þegar hún sló halanum til, var það vegna Spútnik. Sovétríkin hentu Spútnik í hausinn á Bandaríkjunum og fengu hið gerræðislega Apollo-11 svar í haus sinn til baka og gátu ekkert annað gert en blaffrað eftir það sem blautur þvottur á forhertri Lenín-snúru í sovétvindum og þornað upp að innan og steingerst. Öllu var umbylt í Bandaríkjunum, menntakerfinu líka. Svarið var algerlega hrikalega massíft

Ég er orðinn nokkuð sannfærður um að tímar bandarískra tæknifyrirtækja í Kína séu brátt á enda og hið sama gildir um hagkerfi WalMart í Kína, sem er sjötti hver gámur sem fer frá landinu. Leikurinn er að verða búinn

Þetta snýst ekki bara um botnlínur fyrirtækja. Heldur snýst þetta um líf fólksins í Bandaríkjunum. Þau þola ekki meira af glóbalisma sem fór úrskeiðis. Forsendan fyrir frjálsum viðskiptum á milli landa var alltaf sú að viðskiptajöfnuðir milli landa væru í jafnvægi. Sú forsenda er heldur betur brostin, áratugum saman, og það er ekki bara Kína sem verður tekið fyrir, heldur Þýskaland líka, Japan og Suður-Kórea og Mexíkó

Þetta sem Reuters skrifaði á fimmtudaginn um að Kína væri að undirbúa bann á fréttum frá útlöndum, ásamt erlendu skemmtiefni, kemur ekki á óvart. Xi forseti Kína veit að landið hans er við það að renna inn enn eitt upplausnarferlið vegna innvortis mótsagna, eins og svo oft áður hefur gerst í sögu Kína þegar sjávarsíðan opnar sig gagnvart erlendum áhrifum og auði frá umheiminum og innlandið er ekki þátttakandi í því. Þá rifnar landið í sundur og splittast upp í landshluta sem falla frá og inn í önnur ríki. Kannski tekst honum að hindra upplausn Kína. En kostnaðurinn við það verður hrikalegur. Hann verður líklega eins konar ný Norður-Kórea á -vonandi- mýkri nótum fyrir alla íbúa Kína

Fyrri færsla

Google-KGB gæti aðstoðað


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Og hvernig mun Kína svo reyna að bregðast við þessum nýju aðstæðum. Peninga- og fjármál landsins eru í molum og það er enn sem komið er rétt svo að stjórnvöldum tekst að halda fjármálakerfinu gangandi með þétt vaxandi einræði, þvingunum, eignaupptökum og fjármálalegum hernaði á fólkið í landinu. Ekkert má útaf bera innanlands sem þurrkað getur út það litla svigrúm sem Kína hefur í utanríkismálum. En þau snúnast núna um að opna nýja markaði með valdi og ógnunum í formi peningalegra dósaupptakara sem landið hefur alls ekki efni á né burði til að standa við. Flest það sem kínversk yfirvöld lofa öðrum löndum til að fá tilslakanir, hefur landið ekki staðið við og getur einfaldlega ekki staðið við. Þau loforð eru því blekkingar. En leikurinn stigmagnast og getur orðið hættulegur. Og þá hafa fórnarlömbin engan til að hringja í nema Bandaríkin. En þau kosta frá og með nú.

Bandaríkin hafa ofnæmi fyrir efnahagslegri hnignun og upplausn innanlands hjá sér og þau líða slíkt ástand ekki. Þá afstöðu geta þau leyft sér að hafa vegna hins mikla svigrúms sem þau hafa í utanríkismálum. Og það er það sem er að gerast núna.

Þýskaland hefur hins vegar ekkert svigrúm í utanríkismálum og verður því að berja niður allt innanlands til að glata ekki því svigrúmi.

Gunnar Rögnvaldsson, 23.9.2018 kl. 13:07

2 Smámynd: Sigurður Antonsson

Íslenskir kommúnistar hugnast ekki fyrir sinn litla fingur fara undir hnífinn hjá læknum með vott af hagnaðarhugsun. Þeim hefur tekist að úthúða smáatvinnurekendum á öllum vígstöðum. Ögmundarhugsunin var skýr, hleypum ekki einum Kínverja inn á okkar yfirráðasvæði. Kínversk norðurljósaskoðun var gerð ótrúverðug en rekstramaður landareigna frá ESB samþykktur. Óttinn við að missa áhrif kemur hvergi skýrara í ljós.

Í Kína er það engin synd að skila hagnaði. Það er skilyrði númer eitt. Í Afríku blómstrar útrás þeirra. Allt að hundrað iðngarðar hafa risið í ólíkum Afríkulöndum sem veita hundruðum þúsunda íbúum störf. Kína óskar þess að innlendum takist að reka verksmiðjunar fyrr eða síðar. Þeir segja að sama ástand iðnaðar ríki í Afríku og var í Kína um 1970.

Á Íslandi var Marshallþróunaraðstoð frá USA sett í kaup á togurum og áburðaverksmiðju eftir stríð með fáum skilyrðum. Kommúnistar á Íslandi hafa alla tíð óttast erlenda tækniaðstoð. Framsókn og Sjálfstæðisflokkur eru haldnir vantrú á íslenska efnahagstjórnun og selja áburðar- sement og járnblendiverksmiðjur þegar þeir komast í stjórn. Afleiðingin er að hér hefur enginn stóriðnaður orðið til í eigu landsmanna vegna bágborinnar stjórnunnar. Flugfélögin hafa treyst á erlenda fjármögnun, en hún getur einnig brugðist. Sprotafyrirtæki sem tekist hefur að koma á legg eru einnig seld útlendum með ríkisstyrktum stuðning, háskólatækniþekkingu. Lífeyrissjóðir, hluthafahópar launamanna og atvinnurekenda hafa enga burði til að eiga hlut í álveri eða Silicon verksmiðju. Berjast til þrautar og ná árangri? Næstum allt fjölmiðlaumhverfið á Íslandi er á bandi einhvers óskilgreinds kommúnisma. Ríkisrekið "bankalýðræði" með háum vöxtum og greiðslum til ríkisins. Nánast kínverskt einokunarvald fjölmiðla í garð frjáls atvinnurekstrar. Í Kína er hagnaðarvon ekki fordæmd. Séríslenskt fyrirbrigði miðla sem treysta á að stærsti hluti tekna þeirra komi frá einkarekstri sem þeir úthúða. Miklar þversagnir

Má vel vera eins og þú segir að Bandaríkjamenn finnist að nú sé nóg komið með fjárfestingar í Kína, efla skuli innlenda framleiðslu. Kaupmáttur almennings í USA hefur ekki aukist verulega á undanförnum áratugum, þrátt fyrir að þeirra stórfyrirtæki hafi haft meirihluta tekna utanlands. Athyglisvert er að með utanríkisstefnu Trump hafa þeir náð árangri, halda einræðisríkjum í skefjum án hernaðaríhlutunar. 

Utanríkistefna Kínverja hefur örvandi áhrif á gang mála, t.d. í Grænlandi og Afríku. Of mikill hræðsla við samninga er ekki til eftirbreytni. Taka má lítill skref í einu og þjálfa unga menn í alþjóðlegu samstarfi. Setja takmörk en ekki fá Kínverja inn í fyrirtæki með erlendum leiðum eins og í járnblendi. ESB er tollabandalag en einnig uppspretta samvinnu í Evrópu. Hið góða við ESB er að þeir kaupa okkar vörur hæsta verði, en innflutningur til Kína er lítill.  Nema í ferðamannatekjum, á sama tíma og Evrópumönnum fækkar.

Rússlands efnahagsstærð er á við Kaliforníuríki og Ítalíu. Það fær mikla umræðu sem stafar af hernaðartilburðum, árásarstefnu og útvíkkun. Auk þess er almenningi haldið við fátækramörkin með lögregluvaldi og ríkisreknum fjölmiðlum.

Hreintrúarstefna Kínverja og mismunun trúarhópa er ekki aðalorsök þess að Bandaríkin eru að draga sig í land, heldur að laun og kaupmáttur er að hækka mjög hratt í Kína. Meiri kröfur til mengunarvarna. Einnig það að Kínverjar geta verið mjög harkalegir gagnvart erlendum fyrirtækjum og starfsmönnum þeirra. Þar finnst mér röksemdir þínar athyglisverðar, umræða sem ekki á sér stað annarsstaðar að ég best veit.

Sigurður Antonsson, 23.9.2018 kl. 14:25

3 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Takk fyrir þetta Sigurður

Það er tvennt sem menn gleyma oft í sambandi við Bandaríkin.

1. Styrkur Bandaríkjanna felst í millistéttinni og hún heitir "We the people". Það er hún sem háir þær baráttur sem háðar eru á erlendri grund og það er hún sem fjármagnar bæði fælingarmátt og hernaðarstyrk Bandaríkjanna um allan heim. Eitt stykki af öllu strategískt mikilvægu kostar hana minnst milljarð dala. Að hafa milljónir bandarískra hermanna staðsetta hinum megin á hnettinum til að verja til dæmis Evrópu áratugum saman, var hlutur sem krafðist þess að bandaríska þjóðin stæði saman. Slík samstaða næst ekki nema á grunni sameiginlegra siðferðilegra markmiða. Þú veist að múrinn féll fyrir hendi sameiginlegs konserts kirkju og ríkis.

2. Þegar Sovétríkin komu undan kommúnistajöklinum þá var hagkerfi þeirra ekki 18 prósent af heiminum eins og áratugum saman hafði verið boðað. Það var aðeins 6 prósent. Það var aldrei sú efnahagslega stærð sem menn héldu. Kína er eins. Það er ekki sú efnahagslega særð sem menn halda í dag. Það miklu minna. En jafnvel terror-ríki eins og Sovétríkin (og sem Rússland er á leið með að verða) og sem Kína er einnig á leið með að verða, hafa áhrif á heimsvísu. En þau hafa bara ekki þau áhrif sem flestir óska eftir. Stefna Bandaríkjanna í Kína-málinu valt lengi vel á krónum og aurum. En menn skyldu ekki vanmeta þá staðfestu og þær fórnir sem Bandaríkin eru viljug að færa þegar málin fara að snúast um annað en krónur og aura. Þá er þeim alveg sama hvað sú barátta kostar, hún skal vinnast, óháð krónum og aurum.

Kína er eins og er, undir verndarvæng bandaríska flotans á Kyrrahafi. Kína getur flutt inn og flutt út vegna þeirrar verndar. Það sama gildur um Japan og Suður-Kóreu. En hvað ef sú vernd hættir eða minnkar. Og hvað ef Japan er sagt að bera sinn skerf eins og uppréttir menn, því án flotaverndar Bandaríkjanna hætta bæði Kína og Japan að vera iðnvædd lönd á aðeins nokkrum mánuðum og Þýskaland hættir líka að geta flutt út. Og hvað ef sambandi þessara ríkja er kippt úr sambandi við umheiminn ef Bandaríkin skyldu allt í einu þurfa að hefja viðgerðir á samskiptakerfum heimsins á jörðu niðri, neðansjávar og út í geimi. Það voru jú Bandaríkin sem sköpuðu heiminn eins og hann varð frá og með frá 1945. Alþjóðaviðskipti; fjarskipti; samskipti; ferðalög; alþjóðlegt flug; siglingaröryggi, Sameinuðu þjóðirnar; NATO; World Bank; IMF og studdu við bakið á Evrópu þar til nú. Hvað ef bandarísku þjóðinni er farið að finnast að hún sé misnotuð. Hvað þá. Hvað ef þessi gamli heimur er að falla vegna þess að Bandaríkin neita að halda honum lengur uppi. Sá er tíminn núna. Nýr heimur er því í hönnun og uppsetning hans verður ekki fjölþjóðlegar stofnanir né fjölþjóðleg viðskiptakerfi. Multilateralisminn er dauður. Þá staðreynd verða menn að horfast í augu við. Miklar breytingar eru að verða.

Kveðja

Gunnar Rögnvaldsson, 23.9.2018 kl. 17:33

4 Smámynd: Jónatan Karlsson

Hún er stundum undarleg heimsmyndin sem þú keppist við að lýsa fyrir samferðamönnum þínum. Ég verð hreinlega að nefna örfá atriði sem koma nokkuð einkennilega fyrir sjónir mínar við lestur greinar þinnar.

Fyrst fræðir þú lesendur um að nú standi til að banna fréttir auk allrar vesturlenskrar afþreyingar í Kína samkvæmt einhverri frétt Reuters og síðan bætirðu enn í og byrjar að þusa um stanslausan straum frétta af ofsóknum kínverskra stjórnvalda á hendur kristnum, en þar er þessi færsla þín reyndar lýsandi dæmi um slíkan fréttaflutning, sem á auðvitað ekki við nein rök að styðjast. Næst kemur venju hefðbundin lofræða um ágæti og fórnfýsi Bandaríkjamanna sem ég læt fylgja hér með:

"Bandaríkin hjálpuðu Evrópu, Japan og Suður-Kóreu að komast á fætur á ný eftir Síðari heimsstyrjöldina. Og þau höfðu ekki ásælst né tekið land neinna þjóða þó svo að þau stæðu þá sem sigurvegarinn. Slík framkoma gagnvart hinum sigruðu hafði aldrei áður sést í sögu mannkyns. Bandaríkin vildu einfaldlega ekki verða heimsveldi"

Þarna álít ég reyndar að flestir lesendur þínir viti ósköp vel að Bandaríkjamenn eru enn með herstöðvar og tugi eða hundruðir þúsunda hermanna á þessum stöðum, meira en sjötíu árum eftir lok styrjaldarinnar.

Ég held að þú ættir að opna hjarta þitt fyrir ráðum og hugleiðingum vingjarnlegra manna á borð við fyrrnefndan Sigurð Antonsson, sem leysti víst öll þessi ósköp úr læðingi og að lokum þá vona ég sannarlega geðheilsu þinnar vegna að illar tungur sem fullyrða (líklega með réttu) að Armstrong og félagar hafi aðeins leikið í kvikmynd á jörðu niðri, nái aldrei eyrum þínum.

Jónatan Karlsson, 23.9.2018 kl. 17:55

5 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Þakka þér Jónatan.

Það voru engin lönd innlimuð í Bandaríkin 1945. Þegar ég tala um að sigurvegarar taki lönd sem herfang vegna sigurs yfir þeim í styrjöld, þá á ég við til dæmis þegar Þýska keisaraveldið tók milljón ferkílómetra af Rússlandi og innlimaði tugi milljóna Rússa inn í Þýska heimsveldið með Brest-Litovsk. Eða þegar milljónir Þjóðverja misstu landið sitt og voru látnir labba heim til Þýskalands við lok Síðari heimsstyrjaldarinnar. Eða þegar Þýskaland tók Alsace-Lorraine og innlimaði það í Þýska keisaraveldið.

Bandaríkin tóku engin lönd herfangi og slíkt hafði aldrei áður gerst í sögu mannkyns, þegar um slíka stórsigra er að ræða. Það var alveg nýtt fyrir hinum sigruðu.

Kveðjur

Gunnar Rögnvaldsson, 23.9.2018 kl. 18:26

6 Smámynd: Örn Einar Hansen

Meira ruglið í ykkur ...

Þetta orðagjálfur kemur frá fólki, sem aldrei hefur búið í Kína. Kann ekki tungumálið, og almennt hefur ekkert vit á því sem gerist í heiminum.

Kína ... er ekki kommúnistaveldi, og hefur ekki verið síðan Deng Xiao Ping var við völd.

Kínverjar eru svo mikklir "kapitalistar" að slíkt finnast engin dæmi í heiminum ...

Rússar eru engir kommúnistar í dag heldur ...

Kommar heimsins í dag, er Ísland, Danmörk, Svíþjóð, Noregur ... og Sóvétveldi heimsins, er ESB.

Örn Einar Hansen, 23.9.2018 kl. 20:01

7 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Bandaríkin þurftu ekki að leggja lönd beint undir sig, heldur láta stórfyrirtæki sín komast í arðránsaðstöðu víða um heim. 

Bandaríkin græddu peningalega margfalda Marshallaðstoð með því að búa til stórfelld viðskipti við öflug Evrópuríkinsem allir högnuðust á. 

Hinar stóru bílaverksmiðjur þeirra í öðrum löndum voru dæmi um það. 

Þessi aðferð þeirra var að sjálfsögðu miklu stórmannlegri en kúgunaraðferð Sovétmanna, sem þeir beittu þótt þeir legðu hvergi beinlínis undir sig önnur lönd nema Austur-Prússland. 

Bandaríkjamenn beittu víða valdi til að steypa löglega kjörnum ríkisstjórnum frá völdum, svo sem í Íran og Chile og studdu og styðja enn ýmsar einræðis- og fasistastjórnir. 

Ómar Ragnarsson, 23.9.2018 kl. 22:19

8 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Þakka þér Ómar.

Ég sé að hið stofnanavædda DDRÚV-hatur á Bandaríkjunum hefur ekki alveg sleppt tökunum á þér enn.

Hvað sem skoðunum þínum líður hér, þá var það þannig að engin lönd voru innlimuð í Bandaríkin 1945 sem herfang þeirra sem sigurvegara. Bandaríkin virtu fullveldi og sjálfstæði allra þeirra þjóða sem þau sigruðu. Slíkt var nýtt í langri sögu mannsins og stríða. Hinn yfirþyrmandi sigurvegari tók ekkert herfang heldur aðstoðaði við að byggja lönd taparanna upp og koma þeim saman sem vinum. Slíkt afrek hefur ekkert annað ríki unnið í allri sögu mannkyns. Ef menn geta ekki virt slíkt afrek, þá eiga þeir sér litla von.

Kveðjur

Gunnar Rögnvaldsson, 23.9.2018 kl. 22:58

9 Smámynd: Sigurður Antonsson

Skilgreining Bjarna er nær lagi. Rússland er með takmarkað frjálst hagkerfi. Flokkarnir hér eru ríkisreknir og falla undir sömu stýringu og er á RÚV. Flokkarnir hafa byggt upp marxista kerfi í fjármögnun flokka. Í heilbrigðigeiranum þar sem sjónvarp og dagblöð ýta undir kröfur sem skattgreiðendur eiga að borga. Minna er lagt í forvarnir og ábyrgð á eigin heilsu.

Lífeyrissjóðir eru undir fámennisstjórn, gagnrýni takmörkuð og enginn ber ábyrgð. Herfang atvinnurekenda og verkalýðsfélaga á skylduáskrift sem tekin er af launum. Sama gildir um opinberar framkvæmdir sem fara fram úr áætlunum. Engin er látinn bera ábyrgð. Ólíkt því sem er í einkageira þar sem eignir eru teknar til uppboðs fari eitthvað úrskeiðis. Þeir sem gagnrýna er vanalega haldið úti eða refsað.

Kína er með tækniaðstoð í Afríku og víðar að fara í fótspor Bandaríkjamanna eftir stríð, heimsvæðast. Fá í staðin viðskipti frá þjóðum sem þeir koma á hærra tæknistig. Kaupmenn og námsmenn fylla jumbóflugvélar frá Afríku á leið til Peking, Sjangæ og Kanton. Breytingar sem enginn sá fyrir.

Viðskipta og verslunarmenn í hagkerfi Kínverja eru engum líkir, stöðugt á vaktinni og geta framleitt nánast hvað sem er. Ólíkir Bandaríkjamönnum og Evrópubúum sem sinna helst ekki nema stór viðskiptum.  

Sigurður Antonsson, 24.9.2018 kl. 07:21

10 Smámynd: Borgþór Jónsson

Það er ekki gott að segja hvað verður. Það eru gríðarlegar sviftingar í alþjóðakerfinu.

Það virðist sem engilsaxnesku löndin séu að einangrast,sérstaklega Bandaríkin og Bretland.

Það eina sem heldur þeim á floti núna er getan til að beita önnur ríki ofbeldi. Það gengur ekki til lengdar. Það er þegar farið að hrikta í.

Ef þeir kæra sig um að vera með,verða þeir að breyta um taktik.

Bandaríkin eru gríðarlega stórt og öflugt ríki svo þau hafa í sjálfu sér getu til að mynda eigin hagkerfi óháð öðrum eins og Sovétríkin gerðu á sínum tíma ,og eins og er virðist stefna í það. Bandaríkin haga sér að stóru leyti eins og Sovétríkin eftir stríð.

Það er líka spurning hvernig Kína þróast. Kína hagar sér að mörgu leyti eins og Bandaríkin eftir stríð,og árangurinn er nokkuð augljós.

Það er rétt að Bandarískk fyrirtæki munu á komandi árum draga sig frá Kína,og ef þau gera það ekki verður þeim hent út. Kínverjar eru nú komnir á þann stað að þeir vilja ýta undir eigin nýsköpun.Í dag eru þeir fullfærir um þetta,þeir hafa mannskapinn og fjármunina til að gera þetta.

Nú þegar er Kína orðið stærra hagkerfi en Bandaríkin og munurinn fer vaxandi. Kína er líka risi á sviði framleiðslu og að sjálfsögðu á sviði mannfjölda. 

Ég vil að lokum ávarpa miskilnig Sigurðar Antonsonar um Rússneskt hagkerfi. Það finnst mér einkennilegt að hann sjái ekki muninn á Ítalíu og Rússlandi.

Hagkerfi Rússlands er um það bil tvöfalt stærra en Ítalíu og er svipað að stærð og Þyskaland. Að nota "nominal" GDP mælt í dollurum til að bera saman ríki er algerlega út í hött. Það nær engann vegin utanum það sem skiftir máli.

Ég held a engum dyljist þessi staðreynd sem horfir á framkvæmdagetu þessara ríkja.

Að auki er Rússneska hagkerfið eitt það best rekna í heimi,en Ítalía er tæknilega gjaldþrota.

Í Rússlandi er smá saman að verða til velferðarríki sem svipar mjög til Skandinavíu. Af því að kerfið er nýtt,hefur þeim þó tekist að sneyða hjá mörgum meinlegum göllum sem hafa orðið til í Skandinavíska kerfinu. Það er skemmtilegt að fylgjast með þessari þróun. Kannski getum við lært af þessu.

Fátækt í Rússlandi er í dag minni en í Þýskalandi og töluvert minni en í Bandaríkjunum. Kaupmáttaraukning síðustu 12 mánuði mælist 8% ,en slíkt er afar sjaldgæft og hefur aðeins gerst tvisvar í sögu Íslands.

Nú hafa Rússar fengið til baka að fullu þá kaupmáttarskerðingu sem varð á árunum 2015 og 2016. Nú er leiðin aftur upp á við.

Sigurður,þú hefur afar einfalda heimssýn.

"Auk þess er almenningi haldið við fátækramörkin með lögregluvaldi og ríkisreknum fjölmiðlum"

Er hugsanlegt að lægri kaupgeta Rússa stafi af því að þjóðarframleiðslla Rússa (GDP PPP per capita) er 45% lægri en Íslendinga ,til dæmis.?

Hugleiddu þetta.

Borgþór Jónsson, 25.9.2018 kl. 11:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Gunnar Rögnvaldsson
Gunnar Rögnvaldsson

Búseta: Ísland.
Reynsla: 25 ára búseta í ESB og fyrirtækja-rekstur í DK/ESB frá 1985 til 2010. Samband:
tilveraniesb hjá mac.com

Ég er hvorki skráður á Facebook, Twitter, Linkedin né á neinum öðrum "félags-vefjum". Aðsetur skrifa minna er einungis að finna hér á þessari síðu og á tilveraniesb.net og í blöðum og tímaritum

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband