Leita í fréttum mbl.is

Konungur Bandaríkjadalur ríkir enn og fastara

Myndskeið: Bandaríkjadölum hent niður

Þrátt fyrir 40 ára samfelldar hrakspár um að konungsríki Bandaríkjadals sé að gufa upp, á ekkert slíkt sér stað í veruleikanum. Þar sannast að lítið er að marka það sem fólk segir og ættu menn frekar að fylgjast með því sem þeir og markaðir gera. Samkvæmt neytendakönnun sagðist til dæmis næstum enginn hafa keypt hljómplötu með Heino í Þýskalandi, en samt hafði hann selt meira en 50 milljón eintök í landinu. Og í Svíþjóð seldu Vikingarna fleiri plötur en Abba, þó svo að aðeins fáir segðust eiga þær. Líklegt er að Geimundur Valtýsson, BG og Ingibjörg lúti sömu lögmálum hér heima og við skulum ekki minnast á sjálfan Donald J. Trump sem enginn segist hafa kosið, því það þykir ekki nógu fínt til opinberrar frásagnar

Sem sagt, nú er Bandaríkjadalur með stærri hlutdeild í skuldbindingasafni evrópskra viðskiptabanka en evran er með. Það þýðir að öryggi er talið betra og stærra ef Bandaríkjadalur er notaður sem mynt þegar markaðsaðilar veita lán og þeir taka á sig skuldbindingar. Þá er það Bandaríkjadalur sem er myntin sem tekið er mark á frekar en allt annað í myntsafni veraldar. Einn vegur og Eitt belti Kína er nú byrjað að snúa upp á sig og mun enda sem óteljandi snærisspottar til að hengja upp skreið á turnspírur kínverska hagkerfisins sem falla mun saman í einn lágvaxinn hjall, sannið þið til - og lesið varir mínar; hjall

Hvað varðar seðlabanka veraldar þá eru þeir að auka hlutfall Bandaríkjadals í forðum sínum. Engum líkar kínversk gjaldeyrishöft til bjargar miðstýrðri gengisbindingu, pólitískar peningaskammtanir evrusvæðis og sú sívaxandi pólitíska áhætta sem orðin er krónískt vaxandi innbyggður veikleiki í myntir eins og evru og kaldri kommamynt Kína

Enginn getur hreyft litla fingur í veraldarhagkerfunum án þess að rekast á einn eða annan hátt á bandaríska hagkerfið, sem er svo yfirgnæfandi stórt og voldugt að allt sem þar gerist eða gerist ekki, hefur áhrif á alla

Ný stýrivaxtahækkun bandaríska seðlabankans mun líklega koma fyrir áramót og skattakerfisbreytingar Trumps forseta hafa getuna til að auka enn skort á dölum erlendis, því stór hluti bandarískra fyrirtækja mun þá taka hagnað sinn heim og telja hann fram þar. Samtímis er bandaríski seðlabankinn að sjúga inn það fé sem hann sleppti lausu sem fljótandi fúkkalyfi á síðustu kreppu. Hann lítur svo á að sjúklingurinn þurfi ekki lengur á lyfjagjöf að halda

Á sama tíma óttast Þjóðverjar manngerða verðbólgu úr turnspírum ECB-seðlabankans. Þeir vita sem er, að sá banki sprengdi Suður-Evrópu alla í loft upp með neikvæðum raunstýrivöxtum og þýskum peningum og óttast nú að þýska hagkerfið sé næst á sprengilista þess glataða seðlabanka heimilislausrar myntar

Í nótt hrundi Suður-Kóreanska Samsung um rúmlega fimm prósent á mörkuðum vegna lægri einkunnar frá Morgan Stanley, sem sagði að Suður-Kórea og stór hluti Asíu sé kominn of djúpt á kaf í hálfleiðara. Sá bisness er að mínu mati orðinn hálfleiðinlegur og hálfglataður, því stór hluti alls tölvunarbransa veraldar er kominn á síðasta snúning og stórkostleg töp bíða þeirra sem ráða ekki algerlega sjálfir yfir sínum platformi öllum, frá a til ö. Þ.e. bæði yfir vél- og hugbúnaði og þar með talinni hönnun og framleiðslu örgjörva. Og það gerir Samsung bara alls ekki. Fullt stopp..

Krækja, WSJ: King Dollar

Fyrri færsla

Gamaldags katalógar sendir í póstkassa fólksins á ný


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Gunnar Rögnvaldsson
Gunnar Rögnvaldsson

Búseta: Ísland.
Reynsla: 25 ára búseta í ESB og fyrirtækja-rekstur í DK/ESB frá 1985 til 2010. Samband:
tilveraniesb hjá mac.com

Ég er hvorki skráður á Facebook, Twitter, Linkedin né á neinum öðrum "félags-vefjum". Aðsetur skrifa minna er einungis að finna hér á þessari síðu og á tilveraniesb.net og í blöðum og tímaritum

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband