Leita í fréttum mbl.is

Of ungir "þingmenn"?

Þetta er athyglisverð spurning hjá Styrmi Gunnarssyni. Hann spyr hvort að þingmenn (stjórnmálamenn) okkar séu of ungir

Hverju á maður að svara. Þetta er spurning sem á fyllilega rétt á sér, vegna þess að:

Frá því að Vesturlönd drógu þá ályktun af styrjöldinni sem hófst 1914 og lauk 1945, þar sem 100 milljón manns misstu lífið af pólitískum orsökum, þá varð það niðurstaða að eitthvað nýtt yrði að koma að stjórn Vesturlanda. Og að draga þyrfti nokkrar af beittustu tönnunum úr þjóðríkjunum, sem af sérfræðingum voru álitnar skemmdar. Fallist var á að sérfræðingar yrðu úrbætandi lausn og tanntökumenn. Gengist var í að stofna apparöt sem lytu ekki pólitískum lögmálum. Sérfræðingar áttu að stýra því apparati, því þeir áttu að vera ópólitísk lausn vandmála, vegna þess að enginn þyrfti að kjósa þá. Þar með yrði það eina sem þeir áttu að gera var að vera sérfræðingar: Þeir áttu að skila árangri, þeir áttu að virka, því þeir lutu ekki neinu nema lögmálum sérfræðinnar, sama hvað á dyndi í veröldinni og sama hver kysi hvern og hvenær

Dæmi um sérfræðinga: Múrari og bifvélavirki eru til dæmis sérfræðingar. Þeir skila árangri. Þeir byggja hús sem hrynja ekki og þeir gera við bilaða bíla. Læknar gera við fólk og forritarar búa til forrit. Bókhaldari færir bókhald. Við þurfum sérfræðinga

Sameinuðu þjóðirnar voru því stofnaðar. Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn og World Bank og NATO voru stofnuð. Nýtt fjármálakerfi með jafnvel ótal greiningardeildum og hin miklu fjármálaeftirlit voru stofnuð. Seðlabankar voru fylltir upp af sérfræðingum og stjórnmálamönnum sparkað út. Þetta eru allt stofnanir mannaðar sérfræðingum út í ystu æsar. Ofan í þetta hafa svo komið hundruð annarra alþjóðlegra stofnana og samtaka sem allar eru stútfullar af sérfræðingum, eða svo skyldi maður ætla. Og enn eitt nýja heimsveldi lausnaskapandi sérfræðinga í viðbót var stofnað, stútfullt af sérfræðingum: sjálft Evrópusambandið og myntbandalag þess

En hver er svo árangurinn af þessu öllu. Jú heimurinn hangir á ný á heljarþröm eftir að sérfræðingar þessara stofnana klessukeyrðu veröldinni og Íslandi 2008. Þessi heimur skilaði því miður ekki árangri. Sérfræðingaveldið brást. Þeir voru ekki sérfræðingar

Seðlabankar voru ekki sérfræðingar, þótt "sjálfstæðir" væru. Þeir sáu ekkert, nema Davíð af því að hann var ekki sérfræðingur. Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn var ekki sérfræðingar, hann kom ekki auga á neitt. Bankar voru ekki sérfræðingar, því þeir sprengdu allt í tætlur og sjálfa sig í loft upp. Greiningardeildir voru ekki sérfræðingar. Þær og deildir háskóla greindu ekki vandann sem þær sátu á og bjuggu jafnvel til með þurri þögn sinni. Bankaráðgjafar voru ekki sérfræðingar eins og gefið var í skyn. Þeir vissu lítið í sinn haus né annarra því þeir stóluðu á aðra sem áttu að vera sérfræðingar. Fjármálaeftirlit reyndust ekki vera sérfræðingar í neinu nema í að koma auga á ekki neitt. Verkalýðshreyfingin baðaði sig í sturtu sérfræðinnar og missti vitið og hefur ekki fundið það enn. Sameinuðu þjóðirnar hafa lítið leyst af hendi, nema helst losað þá sem borga við foss peninga. Og Evrópusambandið og stofnanir þess hafa sprengt Evrópu í loft upp. Hin sprenghlægilega framkvæmdastjórn þess er ekki sprenghlægileg útaf engu. Hún sprengir, jafnvel í tætlur

Allir sem hafa sveinsbréf í einhverju hefðu þarna misst réttindin sín. Allir læknar sem skilað hefðu þessum árangri væru fyrir löngu orðnir réttindalausir og flugvirkjar sætu í fangelsi

Þannig að mjög hægt og rólega er hægt að segja að sú ályktun sem eftir 1945 kom af stað sérfræðingaveldi Vesturlanda, var að mestu leyti röng. Því þetta veldi virkaði ekki. Það skilaði ekki árangri. Þeir reyndust ekki vera sérfræðingar sérfræðingarnir

Vopnuð átök og stríð eru hafin á ný. Barist er á víðstöðvum í Evrópu og nágrenni hennar. Tannlausar þjóðir ESB-Evrópu eru vel flestar sigldar sérfræði-sligaðar í kaf og klofning og ónýt ríki eru í smíðum í rústum sérfræðinganna í ESB-Evrópu. Þeir voru nefnilega engir sérfræðingar. Þeir höfðu ekki það sem til þurfti samanber Icesave já-já-amen hópunum af glötuðum sérfræðingum sem þekktu hvorki fólkið á jörðu niðri né heldur þekktu þeir þjóðina. Þeir voru sannarlega grasasnar flestir og er það skjalfest meitlað í vitund þjóðarinnar. Hún treystir þessu fólki ekki lengur. Og sem betur fer var Lýðveldið Ísland ekki orðið tannlaus ESB-gómur samkvæmt ráðgjöf sérfræðinga, en allt var reynt og mest með svikráðum studdum sérfræðiáliti til að koma svo illu yfir okkur. En tennur lýðveldisins virkuðu, því þær höfðu ekki verið dregnar úr, og þær bitu fast frá sér. Það skipti öllu máli fyrir okkur að hafa þær, flugbeittar

En hafa stjórnmálamenn/þingmenn það sem til þarf núna? Það hafa þeir ekki ef þeir halda að þeir geti orðið "þingmenn" með aðstoð sérfræðinga og unnið pólitískt starf með aðstoð sérfræðinga sem eru ekki sérfræðingar. Stjórnmálamenn okkar verða að geta virkað og gengið einir og óstuddir og þeir verða að hafa vísdóm. Það er ekki nóg að hafa bara kunnáttu, heldur verða þeir einnig að hafa vísdóm. Og það er ekki hægt að búa yfir vísdómi ef maður er of ungur. Það er einfaldlega ekki hægt. Og svo þarf maður að þekkja þjóðina, sjálft fólkið. Þekkja hana út og inn. Það tekur tíma

Það sem við höfum í dag er sennilega sú versta staða sem heimurinn hefur séð síðan 1945. Við höfum nefnilega of marga of unga sem stjórnmálamenn í höndum sérfræðinga. Þetta er sennilega það versta sem gerst hefur síðan elítur og aðall skutu 1914 í gang, og sem endaði með 100 milljón drepnum

Það er orðin mín persónulega og því sem næst óhagganlega skoðun, að innan 10-20 ára muni Evrópa, Rússland, stór hluti Asíu, öll Mið-Austurlönd og Norður-Afríka loga svo glatt, að því ástandi muni jafnvel verða gefið nafnið þriðja heimstyrjöldin. Að mínu mati er þetta orðin þróun sem ekki er lengur hægt að stöðva. Árið 1914 voru það aðall og elítur sem réðu för. Í dag eru það sérfræðingar að allt of miklu leyti

Svo svar mitt við spurningu Styrmis er þetta. Já stjórnmálamenn okkar eru of ungir. Þeir eru reyndar varla stjórnmálamenn lengur. Við þurfum á vísdómi að halda og við þurfum á öldungaráði að halda. En munum við fá það? Nei svo sannarlega ekki, vegna þess að stjórnmálamenn okkar eru of ungir til að hafa vísdóm og þeir eru því flestir einungis talsmenn sérfræðinga, því þeir geta ekki verið neitt annað. Og það sem verra er, þeir geta ekki vitað hve vísdómur þeirra er lítill. Sérfræðingarnir vilja hafa þetta svona. Þar við mun sitja, og heimurinn fara þessa ferð hér að ofan, einu sinni enn. Þetta ríki í ríkinu þarf að rífa í tætlur

Gott að hann Trump rak lögreglustjórann. Hann gerði það af því að sá var ekki sá sérfræðingur sem hann átti að vera. Hann gerði það af því að hann hefur vísdóm til að gera það. Hann er nógu gamall til þess. Það þarf að reka fullt af fólki í heiminum. Fullt af fólki, heilan sand af fólki. Og svo mætti forsætisráðherrann okkar hætta að reyna að virka og gera sig út sem sérfræðingur. Annars verður hann rekinn, því hann má ekki vera sérfræðingur

Fyrri færsla

Pasta í súrkáli grillað í hollenska þinginu


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Þórhallsson

Jú þetta er rétt athugað.

Það er mælæðið sem að einkennir ungdóminn; allt er látið flakka með of miklum tilfinningum en það vantar meiri dýpt í umræðuna og að mál séu sett fram á meiri  myndrænan hátt en gert er.

Menn mættu horfa meira til Ara Trausta eða Þorsteins Pálssonar í ræðumennsku; þar er hugsað meira á dýptina en orðamagnið.

Jón Þórhallsson, 13.5.2017 kl. 12:19

2 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Þakka þér Jón

Bæði Ari Trausti og Þorsteinn Pálsson eru teknókratar fram í alla fingurgóma. Hvorugir eru stjórnmálamenn, hafa aldrei verið það og verða það aldrei. Þeir eru og verða ávallt bara teknókratar. 

Þeir eru það sem Samfylkingarmönnum fannst svo aðlaðandi við þá sem ráku Samfylkinguna og sem voru "þróaðir fjármálatæknifræðingar". Þessir tveir eru einungis "þróaðir stjórnmálatæknifræðingar". Enda vill þá enginn. Þorsteinn steig annarri stóru tá niður í stjórnmálin og hefur lifað á því síðan. Og Marxískt geld vegagerð Ara Trausta hins gamla kommúnista verður nákvæmlega eins. Fólk ælir á kjörseðilinn þegar það neyðist til að krossa einhverstaðar við þessa þar á. 

Þú sérð hversu erfitt er að stöðva þá þróun sem er svona vel á veg komin í heiminum Jón. Þetta endar eins og síðast. Þetta er óstöðvandi.

Kveðjur

Gunnar Rögnvaldsson, 13.5.2017 kl. 12:37

3 Smámynd: Jón Þórhallsson

Ég er kannski eingöngu að horfa til yfirvegun í talanda þessara manna frekar en þeirra stjórnmálstefnu.

Jón Þórhallsson, 13.5.2017 kl. 13:28

4 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Ég skil Jón. 

En það mál er hægt að leysa með því að láta tölvu tala. Hún nefnilega hefur óendanlegan trúverðugleika. En svo er líka hægt að spila bara Dýrin í Hálsaskógi, ef menn þreytast á trúverðugleika tölvunnar.

Gunnar Rögnvaldsson, 13.5.2017 kl. 13:33

5 Smámynd: Jóhann Kristinsson

Ég tek undir það að það er smákrakkaskríl sem er kominn í meirihluta á Alþingi og ef Kata littla í VG fær að ráða þá má búast við 16 ára gömlum þingmönnum.

Það eru allflestir sammála því að James Comey var farinn að líkjast J. Edgar Hoover, það er að segja taka sér völd sem eiga ekki heima hjá FBI, t.d. Þegar hann ákvað að ákæra ekki Hildiríði Clinton með mikilli óánægju FBI manna. Fyrir utan það, að það var ekki í hans verkahring að ákveða það hvort að Hildiríður væri ákærð eða ekki, það vald var hjá saksóknurum USA.

Kveðja frá Houston

Jóhann Kristinsson, 13.5.2017 kl. 17:08

6 Smámynd: Ragnhildur Kolka

Pæling Styrmis var góð og þín ekki síðri. Svo ég kasti mínu lóði á vogarskálina þá eru þingmenn of ungir í dag. Þeir búa ekki að neinni reynslu nema þeirri að vera í sviðsljósinu. Það gerir þá að þrösurum því þeir hafa ekki þroska til að sjá muninn á þrasi og gagnrýni. Þess vegna kjósa þeir að þrasa um "fundarstjórn forseta" því það gerir ekki kröfu um samfellda hugsun sem er undirstaða rökhugsunar.

Reynsluleysið og skortur á pólitískri sýn hefur líka dregið þann dilk á eftir sér að embættismannakerfið hefur tekið völdin. Grænjöxlum skolar inn í ráðuneytin og þar tekur starfsfólkið til við að "skóla" þá til. Tökum Gunnar Braga sem dæmi. Hann fór glaðbeittur inn í utanríkismalaraðuneytið með afturköllun ESB umsóknarinnar, sem eina stefnumál stjórnarinnar, í skjalatöskunni. Fyrr er varði var hann skilinn við konuna, kominn með ráðuneytisfrauku upp á arminn og búin að afhenda hægri hönd Össurar í aðlögunar málunum ráðuneytisstjórastólinn. Bjarni Ben fann engan hæfari til að stjórna Seðlabankanum en manninn sem frá fyrsta degi í starfi hefur misbeitt valdi sínu til stórskaða fyrir fyrirtækin í landinu. Forstjóri Landspítalans stendur í opinberum hótunum gagnvart læknastéttinni, þannig að nú vill aðeins valdaklíka stofnunarinnar starfa þar. Aðrir kjósa frekar að snúa ekki heim úr námi.

já, það er reynsluleysi þingmanna og stjórnmálanna yfir höfuð sem er megin orsök upplausnarástandsins hjá hinu opinbera sem við horfum uppá í dag.

Ragnhildur Kolka, 13.5.2017 kl. 17:10

7 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

 Hrikalega góð greining ykkar.

Helga Kristjánsdóttir, 13.5.2017 kl. 17:28

8 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Þakka ykkur Jóhann, Ragnhildur og Helga.

Sem sagt enginn hér sem mótmælir því að stjórnmálamenn okkar séu í allt of mörgum tilfellunum allt of ungir.

Ráðuneytisstjórnar og embættismenn geta ekki verið læknar stjórnmálamanna. Þeir eru ekki sérfræðingar í því þó svo að því sé stundum haldið fram. Þeir geta ekki læknað stjórnmálamenn okkar og þeir eiga heldur ekki að hafa neitt slíkt hlutverk á höndum. Hlutverk þeirra er annað. Þeir eiga að vera sérfræðingar. Og árangur þeirra er lítill og jafnvel vonlaus, eins og sést á stöðu mála í heiminum í dag.

Þessir embættismenn eru orðnir eins konar "cult" eða kynstofn, sem á ekki rétt á sér nema að hann geti sannað að hann sé þurr söfnuður sérfræðinga. Og það er hann sannarlega ekki. Hann er orðinn eitthvað annað. Það sést alls staðar.

Það er ekkert sem getur læknað of unga stjórnmálamenn af því að vera of ungir, annað en það að lifa og lifa, reyna aftur og aftur við lífið og læra á því að gera mistök miklu lengur og oftar áður en þeir reyna að verða stjórnmálamenn. Þjóðin þolir ekki að vera nálapúði fyrir reynsluleysi þeirra. Nóg er komið.

Kveðjur

Gunnar Rögnvaldsson, 13.5.2017 kl. 18:24

9 identicon

Ég tek undir þetta allt saman og er hjartanlega sammála. Að horfa yfir þingliðið er eins og að vera komin inn í einn af bekkjunum í MR, jafnvel í gagnfræðaskóla, frekar en Alþingi. Mér finnst, að það þurfi alltaf að vera einhver reynsla til staðar á þinginu, og margreyndir þingmenn jafnvel til helminga við ungliðið þar inni. Það má ekki moka allri reynslunni út fyrirvaralaust og hafa tóma viðvaninga í þingsalnum, því að það skapar einungis óreiðu og skipulagsleysi. Enda finnst mér það oftast raunin í þingsalnum í dag. Ég held það ætti að setja einhvern lágmarksaldur á þá, sem vilja bjóða sig fram til Alþingis. Svo er það líka, þegar fólk kemur inn á þingið aðeins til að vera fjögur ár og búið. Þeir, sem vilja bjóða sig fram til Alþingis, verða að gera það bæði af hugsjón og til þess að vilja vera á þessum vinnustað í a.m.k. þrjú kjörtímabil. Hins vegar er ástandið inni á þinginu og á þingfundum þannig, að ég skil vel þá, sem nenna varla að sitja þar lengur en eitt kjörtímabil, eins hundleiðinlegt andrúmsloft og er þar, og framkoma þingmanna er, svo að gömlum og grónum alþingismönnum frá fyrri tíð blöskrar, veit ég, og allir spyrja, hvað sé eiginlega að gerast þar inni. Með lækkandi aldri þingmanna, þeirri staðreynd, að fæstir þeirra "nenna" að sitja þar nema fjögur ár, og þessum eilífu uppákomum með hlaupum í ræðustólinn í tíma og ótíma út af öllu mögulegu sem ómögulegu, þá er varla von, að virðing þingsins aukist, ekki heldur ef þingmennirnir sjálfir bera ekki einu sinni virðingu fyrir sjálfum sér eða vinnustaðnum með þessarri eilífu þvælu og langdregna vaðli um fundarstjórn forseta og störf þingsins. Það verður að kenna fólki, sem vill starfa þarna inni, að bera virðingu fyrir sjálfu sér og samstarfsfólki sínu, og gera sér grein fyrir, hvar það er niðurkomið, og þar megi ekki haga sér, eins og því sýnist. Hér eins og á öðrum stöðum þurfa menn fyrst og fremst að líta til sjálfs síns og byrja á sjálfum sér, áður en þeir fara að reyna að breyta þeim lögum og reglum, sem á að fara eftir á hverjum stað. Þetta verður fólk að læra að skilja og breyta eftir því. Svo einfalt er það mál.

Guðbjörg Snót Jónsdóttir (IP-tala skráð) 14.5.2017 kl. 12:10

10 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Þakka þér Guðbjörg

Kveðjur

Gunnar Rögnvaldsson, 14.5.2017 kl. 15:46

11 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Ég neyðist til að taka það fram, vegna lélegs orðalags míns hér að ofan [að fólk kasti upp á kjörseðil með "þróuðum stjórnmálatæknifræðingum" á], var ekki beint að þeim tveimur mönnum sem Jón minntist á. Ef þetta hefur misskilist þá biðst ég afsökunar á því. Þetta var klaufalegt hjá mér.

Gunnar Rögnvaldsson, 14.5.2017 kl. 15:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Gunnar Rögnvaldsson
Gunnar Rögnvaldsson

Búseta: Ísland.
Reynsla: 25 ára búseta í ESB og fyrirtækja-rekstur í DK/ESB frá 1985 til 2010. Samband:
tilveraniesb hjá mac.com

Ég er hvorki skráður á Facebook, Twitter, Linkedin né á neinum öðrum "félags-vefjum". Aðsetur skrifa minna er einungis að finna hér á þessari síðu og á tilveraniesb.net og í blöðum og tímaritum

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband