Leita í fréttum mbl.is

Slæmir lánveitendur og fullt veldi

Forsætisráðherra Grikklands var tekinn af pólitísku lífi fyrir að nefna orðið þjóðaratkvæðagreiðslu í stað peningagreiðslu. Sárafá - já svívirðilega örfá - yfirvöld Evrópusambandsríkja hafa haft fyrir því að spyrja þegna sína að neinu er varðar ESB. Evrópusambandið er galtómt elítuverk að ofan. Fólkið hefur ekki áhuga á því og hefur aldrei haft. En fólkið er og hefur yfirleitt aldrei verið spurt að neinu er þetta mál varðar.

Allir þeir sem lánuðu gríska ríkinu peninga vissu nákvæmlega og fyrir langa löngu að hverju þeir gengu, nema einu: Þeir vissu ekki að evruaðild þýddi það sama og að verða eins konar heróín neytandi sem bundinn yrði fastur við sprautuna þegar hann ætti að hætta. Hrikalega slæmar og stórhættulegar lánveitingar fóru fram í fölsku skjóli evrunnar. Myntútgefandinn af evru vill alls ekki að dópistinn fari í fráhvörf, því þá er hætta á að sölunet hans hrynji til grunna og að upp komist um hvað fram fór. Hann vill ekki að neytandinn breytist, hætti neyslunni og verði sjálfráða á ný. Hann vill ekki að bankamaginn opnist og innyflin verði almenningi til sýnis, eins og gerðist hér í hruninu á Íslandi. Aðeins í gjaldþrotum fær almenningur að sjá inn í fjármálamagann. Sú sýn gæti riðið mörgum í Evrópu að fullu. Og sú sýn yrði síst fegurri en hún reyndist hér heima hjá okkur. 

Þess vegna hefur kanslari Þýskalands - eftir að hún fyrst lagði til de facto hernám í Grikklandi, en fékk neitun - lagt til að hin svo kölluðu "björgunarlán" til Grikklands verði lögð inn á lokaðan vörslureikning í umsjá evruríkja. Lánin eiga ekki að bjarga Grikklandi. Þau eru fyrst og fremst hugsuð sem björgun fyrir sjálft myntbandalag Evrópusambandsins. Þannig skiptir einfaldlega ekki neinu máli hvort Grikkland fari í ríkisgjaldþrot eða ekki. Yfirvöld evruríkja sem sjá um þennan lokaða vörslureikning munu samt sem áður greiða lánadrottnum (skuldabréfaeigendum) út sína peninga fari gríska lýðveldið í þjóðargjaldþrot. Þannig mun ESB hafa af Grikklandi síðasta lyfið til lækningar: ríkisgjaldþrotið.
 
Það þýðir heldur ekkert síðar fyrir nýja ríkisstjórn í Grikklandi að skipta um stefnu í umboði kjósenda landsins. Hún væri samt bundin á höndum og fótum af þeim sem sjá um þennan vörslureikning. Fari Grikkland í þrot þá greiða vörsluyfirvöld evrulanda skuldabréfaeigendum samt út sína peninga og eftir situr Grikkland fast á sprautu evruríkja, krónískt skuldbundið og krónískt gjaldþrota. 

Draga á til baka svívirðilega illa fengna aðildarumsókn Samfylkingarinnar og Vinstri grænna fyrir hönd Íslands inn í Evrópusambandið, samstundis! Þingmenn sækja umboð sitt til kjósenda á Íslandi. Steingrímur J. Sigfússon og félagar hans höfðu ekkert umboð frá kjósendum til að sækja um aðild að ESB fyrir hönd Íslendinga í skjóli öngþveitis og uppþota. Ekkert umboð. Þetta eru hrein kosningasvik.
 
Það minnsta sem hægt er að krefjast fyrir hönd nýstofnaðs lýðveldis okkar og nýlegs sjálfstæðis íslensku þjóðarinnar, er sú lágmarkskrafa að aldrei verði sótt um inngöngu í Evrópusambandið né neitt annað ríkjasamband nema að því tilskyldu að einlægur 75 prósent meirihluti þjóðarinnar hafi í samfellt 10 ár óskað eftir því samkvæmt skotheldum skoðanakönnunum óháðrar stofnunar. Að því tilskyldu má ræða málin og kannski sækja um. Síðan yrði full aðild að samþykkjast af 75 prósent meirihluta kosningabærra manna. Þetta er alger lágmarkskrafa. Og hún er fullkomlega réttmæt. Í raun ætti aldrei að leyfa þjóðum að kjósa undan sér lýðræðið. En það er einmitt það sem Evrópusambandsaðild felur í sér. 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Gunnar Rögnvaldsson
Gunnar Rögnvaldsson

Búseta: Ísland.
Reynsla: 25 ára búseta í ESB og fyrirtækja-rekstur í DK/ESB frá 1985 til 2010. Samband:
tilveraniesb hjá mac.com

Ég er hvorki skráður á Facebook, Twitter, Linkedin né á neinum öðrum "félags-vefjum". Aðsetur skrifa minna er einungis að finna hér á þessari síðu og á tilveraniesb.net og í blöðum og tímaritum

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband