Leita í fréttum mbl.is

Góðir landsfundarmenn Sjálfstæðisflokksins

Pakkaræða til landsfundar.
 
Hér er svo kölluð "pakkaræða" mín varðandi Evrópusambandsmálið. Þið vitið, þetta mál sem er og hefur verið mál málanna á Íslandi í samfellt þrjú ár. En nú er að duga, eða láta pakka sér inn!

Fyrst af öllu, og á meðan þið sitjið við borðin, vil ég benda ykkur á að kíkja í pakka Sjálfstæðisflokksins, og skoða hvað þið sjáið í honum. Þið sjáið Þingvelli árið 1944. Þarna við borðin sitjið þið í frelsinu við kræsingaborð sjálfstæðs og fullvalda lýðveldis okkar allra. Þið sjáið sem sagt fullveldi og lýðræði í íslenska pakkanum.
 
Þessum pakka Sjálfstæðisflokksins og fleirri getið þið einnig þakkað fyrir að við sitjum í stjórnarandstöðu nú. Sá réttur íslenska pakkans heitir lýðræði, og sem bendir þannig til að hér séu reglulega haldnar þingkosningar. Sársaukinn þarf þó ekki að vara lengur en í fjögur ár. Þá er kosið á ný. Og kosningaúrslitunum er ekki breytt. Nýrra kosninga er heldur ekki krafist þegar Sjálfstæðisflokkurinn tapar. Það er ekki kosið aftur og aftur þar til kjósendur gefast upp. En um Evrópusambandsaðild er hins vegar aldrei kosið um nema einu sinni, það er að segja ef það kemur já út úr þeim kosningum. Þá er aldrei kosið aftur. Aldrei.  

Og í pakkanum frá Þingvöllum er einnig 700 þúsund ferkílómetra efnahags- og fiskveiðilögsaga okkar allra, ásamt eigna- og nýtingarrétti, og um leið nýtingarréttur allra ANNARRA náttúruauðæfa Íslands. Ísland er nefnilega fullvalda ríki, sem betur fer. Það ræður sínum málum. 

Úr þessu öllu höfum við byggt upp eitt ríkasta þjóðríki heimsins á örskömmum tíma. Það er þetta sem er í íslenska pakkanum OKKAR. Tæplega ein milljón ferkílómetrar til boltra sig á; allt Frakkland, meira en hálft Þýskaland, plús fullt lýðræði, fullt sjálfstæði og mestu efnahagslegu framfarir í nokkru ríki heimsálfunnar frá styrjaldarlokum. Hvað meira viljið þið? Er þetta kannski ekki nóg fyrir ykkur? Eruð þið orðin þreytt á þessu? 

Eftir 67 kraftaverkaár frelsisins stendur íslenska lýðveldið í fremstu röð hvað varðar flest. Á aðeins 67 árum hafa vöðvar frelsisins unnið kraftaverk sín á Íslandi af fullum og óþreytandi krafti. Þetta eru aðeins tæplega sjö áratugir. Sjö áratugir. Án frelsis og fullveldis hefði þetta ekki getað gerst og aldrei orðið.   

Það er eitt mikilvægt mál sem allir á landsfundinum verða að muna; Evrópusambandið er EKKI pakki. Það er EKKI pakki. Evrópusambandið sem var í gær er alltaf orðið annað á morgun. Það er einfaldlega eðli þess. Evrópusambandið er stórpólitískt evrópskt fljót meginlandsins sem rennur áfram, en aldrei afturábak. Löndin sem eru í sambandinu fljóta bara með því. Þau eru komin í "farveg", eins og það svo oft er kallað. Evrópusambandið er orðið þannig fyrirbæri að því verður aldrei rúllað til baka, nema með vopnavaldi eða undir stóráföllum sem fá bankahrun Íslands til að líkjast skemmtigöngu á bjartasta sunnudegi allra tíma. 

Þessi staða mála var ekki í neinum pakka þegar ríkin sem nú eru í sambandinu gengu í það.

Í upphaflega kjarnapakka Evrópusambandsins, sem þá hét EB, voru upphaflega bara nokkur kol og einn stálbiti. En nú hafa kolin og stálið breyst heldur betur til hins meira og mun verra. Á dagskrá sambandsins í dag er verið að taka sjálft ríkisfjárlagavaldið og skattheimtuna af ríkjunum í skrefum. Hvorki meira né minna. Ríkjunum er sagt að þetta sé bráðnauðsynlegt því að öðrum kosti mun myntin þeirra, evra, sprengja allt sambandið í loft upp og breyta því í efnahagslega eyðimörk. Ógöngur herra Kolamola og frú Stálbita eru orðnar slíkar. Tvær ókjörnar ríkisstjórnir hafa á einni viku verið settar inn í tveim löndum sambandsins að beiðni Brussels. Þetta gerðist á einni viku. Á einni viku undir yfirskini björgunar.  

En af hverju er þetta orðið svona slæmt í ESB? Jú vegna þess að myntin sem var í pakkanum hefur stökkbreyst á innan við 10 árum, svo bráðnauðsynlegt er að taka enn frekari skref til afnáms sjálfstæðis og fullveldis ríkja Evrópusambandsins, svo þeim verði ekki af markaðnum hent úr loftbelgnum sem þau sitja öll föst og saman í. Skrefin eru orðin svo mörg inn í sæluna að ekki er hægt að hætta við neitt. Þetta hangir allt saman í lagaflækjum á 500 þúsund blaðsíðum laga og reglusetta. Þér er alltaf sagt að ekki sé hægt að stíga nein skref til baka, því þá hrynji allt hitt ofan á ríkin aftur. Skref eitt var tekið svo hægt væri að taka skref númer tvö og svo koll af kolli. Aldrei er neinn sannur meirihluti fyrir verkinu því kjósendum er alltaf stillt upp við vegg. Ef þú segir nei, þá hrapar loftbelgurinn og þú ert ekki einn í honum. Ef ef svo illa vill hins vegar til að sagt er nei, þá er bara kosið aftur og aftur þangað til þóknanleg niðurstaða kemur úr kjörklefunum. 

Þjóðir Evrópusambandsins eru hvað eftir annað látnar éta úrslit kosninga ofaní sig aftur. Kjósa aftur og aftur ef Samfylkingunni í ESB finnst ekki koma rétt út úr kosningunum. Ef eitthvað er, þá hefur ófriðarhættan aukist í Evrópu með tilkomu Evrópusambandsins. Lýðræðisþjóðir fara nefnilega ekki í stríð við aðrar lýðræðisþjóðir. En það gera hinsvegar lönd og svæði þar sem lýðræði er á undanhaldi. Lýðræðið er einmitt á undanhaldi í Evrópusambandinu. Því hefur ófriðarhættan aukist í takt við aukin völd Evrópusambandsins. Þetta er staðreynd. 

Finnland ESB net balance
Í finnska ESB-pakkanum árið 1995 var innihaldið fyrst og fremst þvinguð landfræðilegt lega Finnlands, eitt fasteigna- og bankahrun, óttinn vegna hruns Sovétríkjanna, og þess sem þar gæti gerst í framtíðinni. Finnar hlupu úr skugga Sovét og í fang ESB í hræðslukasti. Aðildin að ESB hefur kostað Finnland tæpa fimm miljarða evra frá upphafi í beinhörðum peningum. Finnland hefur aldrei fengið eina krónu frá ESB nema árið 2000 þegar landið fékk 9 evrur á mann til baka. Þær svöruðu þá til 0,03 prósenta af landsframleiðslu. Þetta er eina ár Finnlands í plús við ESB.  

Svíþjóð ESB net balance
Í sænska pakkanum árið 1995 var einnig ótti vegna nýlegs bankahruns, fasteignabólu sem sprakk og vegna misheppnaðra ríkisfjármála. Svíþjóð hefur aldrei fengið eina krónu frá ESB. Aldrei. ESB-aðildin hefur hins vegar kostað Svíþjóð 20 miljarða evrur í beinharðar greiðslur til ESB.

Í pakka Austur-Evrópu árið 2004 voru bæði landfræðileg lega landanna og pólitíski óttinn við rústir Sovétríkjanna. Eins konar draugahræðsla. Löndin flýttu sér burt af gamla áhrifasvæðinu. Og héldu að þau væru hólpin. En þau gátu ekki flúið hina landfræðilegu legu landanna. Það eina sem þau gátu var að flýja inn í ESB. 

Evrópusambandið stækkar einungis í hræðsluköstum. Óttinn er drifkrafturinn. Og nú vitum við að Grikkland er orðið ríkisgjaldþrota eftir 30 ára samfellda aðild að Evrópusambandinu og 92 miljarða beinar greiðslur frá ríkari löndum sambandsins, eins og til dæmis frá Finnlandi og Svíþjóð. Var þetta gagnlegt? 30 ár á spenanum og ekkert afgerandi hefur lagast. Fleiri lönd munu fylgja Grikklandi til grafar í ESB. Þetta er bara rétt að byrja.

Engu þessara landa myndi dreyma um að sækja um inn í Evrópusambandið ef þau nytu landfræðilegrar staðsetningar og kosta Íslands. Að vera bara land á þurru meginlandi Evrópu þýðir sjálfkrafa að vera dæmdur til að lifa tilverunni á öðru farrými hagkerfa í túnfæti annarra ríkja. ESB átti að vera neyðarlausn þessara landa. Eins konar hækja sem styðjast átti við. En sumir Íslendingar sjá hér allt aðra og furðulega götumynd. Þeir eru eins og börn sem ferðast yfir í næstu götu og sjá sér til skelfingar að næstum allir í Evrópugötu 1 til 27 ganga um með hækjur. Heim er síðan hlaupið og hrópað; "mamma mamma, ég vil fá hækjur. Allir í Evrópugötunni ganga með hækjur. Allir eru með hækjur. Allir"     

Sjálfstæðisflokkurinn hefur engan rétt til að láta stundarhræðslu rústa framtíðinni fyrir lýðveldi Íslands. Hann hefur ekki neinn rétt til að leggja til við kjósendur að þeim verði gefinn kostur á því að kjósa undan sér lýðræðið (B.H.). Sé það einu sinni gert, þá kemur það aldrei aftur. Evrópusambandsmálið er svona einfalt. Vilt þú láta kjósa undan þér lýðræðið?   

Þegar ég flutti til Danmerkur árið 1985 þá var ég að flytja til eins Norðurlandanna, en endaði hins vegar í sjálfu Evrópusambandinu. Þá sagði forsætisráðherra Danmerkur, Poul Schlüter,  mér, fjölskyldu minni og dönskum kjósendum, að hugmyndin um eitthvað sem héti Evrópusamband (Den Europæiske Union) væri steindauð. Gamla EF yrði aldrei neitt Evrópusamband.

Með slagorðinu "Evrópusambandið er steindautt" sem hugmynd, mælti þáverandi forsætisráðherra Danmerkur, Poul Schlüter, með "já" í þjóðaratkvæðagreiðslunni um "EF-pakkann" í Danmörku árið 1986. Þá var verið að búa til hinn svokallaða "innri markað". Hinn innri markaður er þó ennþá einungis kenning á blaði. Þessi ímyndaði innri markaður hefur aldrei virkað hið minnsta umfram það sem heimsvæðingin hefur haft í för með sér hjá flestum löndum heimsins. 

Poul Schlüter róaði þarna Dani með slagorðinu "sambandið er steindautt" (danska: "unionen er stendød"). Danir voru einmitt mjög svo áhyggjufullir yfir að það væri hugsanlega verið að tæla þá inn í eitthvað sem gæti endað í líkingu við "the European Union" eða "EF-Unionen". Að gamla EF gæti endað með "Evrópusambandinu" ef þeir segðu já í þessari þjóðaratkvæðagreiðslu. Þessi fullvissa Poul Schlüters um að það yrði aldrei til neitt Evrópusamband gerði það að verkum að Dönum varð rórra í þjóðarsálinni. Þeir létu því til leiðast og kusu treglega "já"

"Evrópusambandið er steindautt þegar við kjósum já á fimmtudaginn", sagði Schlüter í kosningakappræðum danska ríkissjónvarpsins, tveim dögum fyrir kosningar. Úrslit kosninganna tóku mið af þessu. Danir þurftu ekki að hafa áhyggjur af því að Efnahagsbandalag Evrópu (EF) myndi þróast í eitthvað sem gæti orðið Evrópusambandið. Því sögðu 56,2% kjósenda já. Þeir sem sögðu nei voru 43,8% kjósenda. 

Þetta var árið 1986. En svo kemur árið 1994: Það ár tekur Poul Schlüter hinn fyrrverandi forsætisráðherra Danmerkur sér sæti sem þingmaður á þingi þess Evrópusambands sem hann 8 árum áður hafði lýst sem verandi steindautt. Hann lofaði Dönum því að Efnahagsbandalag Evrópu myndi aldrei þróast í það að verða The European Union, eða neitt sem myndi líkjast því. Þessvegna var Dönum alveg óhætt að kjósa "já" í þjóðaratkvæðagreiðslunni um EF pakkann. 

Meira að segja ég horfði á manninn hann Schlüter segja þetta og ég trúði honum því ég var hlynntur þáverandi EF. En þá var ég líka álíka auðtrúa og Jón Baldvin Hannibalsson. En ég þroskaðist. Það gerði Jón Baldvin Hannibalsson hins vegar ekki. Sjúkdómur Jóns Baldvins er oft nefndur Eurosclerosis - og er ólæknandi. Öll Samfylkingin er núna smituð. Að minnsta kosti allir þeir hrunálfar sem búa svo vel á efstu hæð álfhóls Samfylkingarinnar um þessar mundir.

Allt í sambandi við Evrópusambandið fer svona fram. Kosningar eftir kosningar er kjósendum boðið uppá að samþykkja þann yfirdrátt sem fram fór á undanförnum árum vegna nútíðar og framtíðar sem stjórnmálamenn í litlum löndum ráða engu um. Kjósa um það sem búið er að gera í leyfisleysi, en sem ekki er hægt að vinda ofan af. Það er því aldrei raunverulegur meirihluti fyrir neinu því það er alltaf búið að fara fram úr því sem ESB hafði umboð til að verða í þínu landi. Þetta er kallað að samþykkja yfirdráttinn á bankamáli. Þú segir bara við bankann þinn að þú getir ekki borgað og því verði hann að hækka yfirdráttinn. 

Blekkingarleikur dulbúinna aðildarsinna Sjálfstæðisflokksins um þetta mál þarf að hætta. Og flokksforystan þarf að taka sig alvarlega á. Hún á að hætta að gefa stefnuljós í báðar áttir. Kjósendur sjá þau sem aðeins sem neyðarljós. Sem merki um að flokkurinn sé bilaður. Svart er ennþá svart og hvítt er ennþá hvítt. Þetta þarf að segja skýrum orðum ef Sjálfstæðisflokkurinn á að gera sér vonir um að kjósendur vilji kjósa flokkinn áfram, og hvað þá að menn eins og til dæmis ég, treysti sér að ganga í hann án þess að enda svo í anskotans Evrópusambandinu. Þetta málefni, ESB, er algert grundvallarmál. Öll framtíðartilvist Íslands sem sjálfstætt og áframhaldandi lýðveldi hvílir á þessu eina máli.

Staðan í ESB í dag er orðin þessi: Evruaðild hefur sett — og er að setja — mörg evruríki í varanlegt skuldafangelsi. Komið er í ljós að evran hefur að öllu leyti virkað þveröfugt við það sem lofað var frá upphafi. Hún hefur valdið örþrifamiklu atvinnuleysi alla tíð frá því að undirbúningur hennar hófst, því hún hefur jarðsett hagvöxt landa myntsvæðisins til langframa í spennitreyju miðstýringar, hafta, ófrelsis og með því að taka sjálfsvarnarvopnin af þjóðríkjunum. Sjálfsvörn þeirra er því farin. Lítið nema rusl kom í stað gömlu vopnanna. Evrusvæðið er orðið lélegasta hagvaxtarsvæði heimsins á eftir Japan.

Runnið er upp fyrir fjármálamörkuðum heimsins hversu galin sjálf hönnun myntbandalagið er og nú skilja þeir til fulls að engin leið er út úr myntinni nema í gegnum samfélags- og efnahagslegt sjálfsmorð þjóðríkja myntbandalagsins. Markaðurinn er að loka peningakassanum á evrulöndin. Það er orðið hrikalega dýrt, áhættusamt og skaðlegt að standa EKKI utan evrusvæðisins. Þetta sprengjuklára efnahagslega og pólitíska hættusvæði heimsins stendur nú næstum fullhlaðið. Markaðurinn er að reyna að búa sig undir hrun myntbandalagsins, hvort sem það verður í formi allsherjar myntsprengingar eða gereyðingar þess litla fullveldis þjóðríkjanna sem eftir er — undir yfirskini björgunar — og í kjölfarið, þar af leiddum hugsanlegum ófriði í einmitt ESB. 

Aðild að Evrópusambandinu þýðir hörmulegt afsal á fullveldi og sjálfstæði lýðveldis Íslendinga. Og enn bætist hratt við þennan lista stórfljótsins sem flaut af stað sem kolamoli og stálbiti:

  • Aðild að Evrópusambandinu þýðir að við töpum öllu fullveldi Íslands í peninga, vaxta og myntmálum. Öllu.
  • Að okkur verði skylt að leggja niður okkar eigin mynt.
  • Að við megum aldrei um alla framtíð aftur gefa út okkar eigin mynt.
  • Öllum ríkjum sem ganga í ESB er skylt að leggja niður sína eigin mynt og taka upp mynt sambandsins. Hér er ekki um neitt að velja.  
  • Aðild þýðir að við töpum öllu fullveldi Íslands yfir fiskveiðum og landbúnaði.
  • Við töpum öllu fullveldi Íslands yfir viðskiptum við umheiminn.
  • Við töpum öllu fullveldi Íslands og yfirráðarétti yfir æðstu löggjöf. Brussel hefur síðasta orðið.
  • Við töpum öllu fullveldi Íslands yfir lagasmíðum. Brussel hefur síðasta orðið.
  • Við töpum stórum hluta fullveldis Íslands yfir refsilöggjöf.
  • Við töpum næstum öllu fullveldi Íslands yfir löggjöf atvinnumarkaðar.
  • Við töpum næstum öllu fullveldi Íslands yfir viðskiptaeftirliti.
  • Við töpum stækkandi hluta af fullveldi Íslands í skattmálum.
  • Við töpum öllu fullveldi Íslands yfir utanríkisstefnu.
  • Við töpum stórum hluta fullveldis Íslands yfir varnarmálum.
  • Við töpum stærstum hluta fullveldis Íslands í innflytjenda og flóttamannamálum.
  • Við töpum stórum og stækkandi hluta fullveldis Íslands yfir ríkisfjármálum og þar með fullveldi okkar í velferðarmálefnum Íslands.
Hvað er þá eftir? Jú, rústir einar! Það eina sem þarna er eftir er lítil íslenska bóla á rassi ESB.

Snérist árið 1944 á Þingvöllum í raun og veru um þetta?
 
Góðar kveðjur úr fögrum dal
Gunnar Rögnvaldsson
- 19. nóvember 2011 
 
 
 

Í fögrum dal hjá fjalla bláum straumi

ég fríða meyju leit í sætum draumi;

það blöktu lausir lokkar um ljósan meyjar háls;

með blíðubros á munni hún byrjun tók svo máls:

"Sæludal sólar geislar hlúa,

sæludal sælt er í að búa."

 

Um brattan tind þótt blási köldum anda,

ei byljir storma dalnum fagra granda,

því honum helgar vættir með hlífðar skýla arm,

og hér er hlýtt í hlíðum og heitt við meyjar barm;

hjarta trútt hafa snótir dala,

hjarta trútt, hreint sem lindin svala.
 
Piltur og Stúlka; Emil Thoroddsen (1898-1944) - Sönglög úr sjónleiknum Piltur og Stúlka - Jón Thoroddsen (1819-1868) 
 
*************************
Heimildir
************************* 
Tvær myndir að ofan: Petr Mach, fæddur árið 1975 í Prag í Tékklandi sem þá var Tékkóslóvakía. Hér er hægt að lesa meira um Petr Mach og tilurð þeirrar heimasíðu hans sem heitir Money Go Round. Á þeirri síðu er hægt að skoða hvaða lönd hafa haldið uppi ESB og hvaða lönd hafa fengið þá peninga sem ESB tekur af öllum löndunum. Hverjir fá meira en en þeir borga og hverjir fá minna en þeir borga. Debet og kredit. Einnig bendi ég lesendum á að lesa ensku síður Petr Mach. En Petr Mach hefur unnið sem ráðgjafi fyrir forseta Tékklands Vaclav Klaus. Sjá einnig; Hverjir fá og hverjir þurfa að borga
 
 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Valgeir

Í fyrsta lagi þá er hagstjórn íslands með þeim skelfilega hætti og hefur verið undanfarin 67 ár að við fáum aldrei að taka upp evru, við getum samt gengið inn í EU.

Í annan stað eru fullveldisrök veik rök þegar hvergi í kringum okkur er hægt að sýna fram á að þjóð hafi misst fullveldi sitt við að ganga í EU. Vissulega koma tilskipanir frá EU en við þurfum nú þegar að innleiða þær ef við viljum vera aðili að EES .

En þetta er meginþorri rökhyggju þinnar - að fullveldi yfir þessu og hinu sé í hættu. Ég ætlast ekki til að fá þig til að skipta um skoðun enda er ég enginn sérstakur EU sinni en;

1. Danir eru með eigin mynt er það ekki?

2. Á ekki að henda Grykkjum út? Varla verða þeir að halda evrunni um aldur og ævi?

3. Hafa Danir, Finnar, Svíjar, misst fullveldi sitt við það að fara inn í EU? Ég sé ekki betur en þessum löndum sé stjórnað af heimamönnum og hvert land hefur sitt séreinkenni - ekki er hægt að leggja einhvern EU stimpil á þau.

4. Hvernig á EU regluverkið sem við höfum nú þegar innleitt að stórum hluta eftir að breyta einhverju fyrir okkur umfram það sem það gerir í dag.

5. Norðmenn virðast geta veitt úr sinni lögsögu án þess að spánverjar mergsjúgi þá.

Ég get bara séð einkahagsmuni fárra efnameirri einstaklinga sem rök fyrir því að við eigum ekki að fara inn. Fárra manna sem hingað til hafa fengið, óáreittir af félögum/frændum og vinum í "eftirlitskerfinu", að ausa peningum/verðmætum/auðæfum landsins í eigin vasa. Almenningur aftur á móti mun hafa allt að vinna með því að fara inn í EU enda erum við strjálbýlasta land evrópu og eftir nýjasta hrunlandsins í algerum skít fjárhagslega.

Ég vona svo að menn hugsi nú aðeins áður en þeir segja þvert nei við aðildarumsókn. Það er ekki einu sinni komin niðurstaða í það hvað við fáum og hvað ekki . Þessi endalausa kerkja og mótlæti gagnvart einhverju sem menn virðast ekki hafa neina hugmynd um nema að "fullveldið" er í hættu fær mig til að halda að EU sé málið.

Valgeir , 20.11.2011 kl. 17:51

2 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Þakka þér Valgeir

Vissir þú: að á síðustu 211 árum hefur verðbóga verið í samtals 10 ár yfir 20 prósent á ári í Þýskalandi og í 4 ár yfir 40 prósent á ári.  Svo hefur hún verið nokkur þúsund prósent þar í nokkur ár í heilum tveim tímabilum af þýskri óðaverðbólgu.

Þetta getur vel gerst aftur ef Þýskaland missir tökin á seðlabanka landsins á ný, eins og nú er stefnt að.

Svo hefur Þýskaland á þessum 211 árum orðið 8 sinnum ríkisgjaldþrota og verið í ríkisgjaldþroti í samtals 15 ár af þessum 211 árum.

Þýskaland hefur aldrei greitt neina reikninga landsins. Hvorki eftir fyrri heimsstryjörldina né heldur ekki eftir þá síðustu. Landið sem er eins konar sníkjudýr lifir á því að fella kostnað og verðlag í Þýskalandi í læstu gengisfyrirkomulagi við önnur lönd evrusvæðisins. Það stundar með öðrum orðum innvortis gengisfellingu. Þjóðverjar hafa ekki fengið launahækkun í 13 ár.

Þetta er kjarni vandamálanna á evrusvæðinu í dag. Hin löndin eru orðin þrælar í hálsbandi Þýskalands því þau eru á órjúdanlegum gullfæti með Þýskalandi. Ef þau lækka laun og kostnað hjá sér þá lækkar Þýskaland sig bara ennþá meira.

Frá því að krísan á evrusvæðinu hófst 2008 hefur Þýskaland fellt innvortis gengi þýska hagkerfisins um heil 6 prósnet gagnvart öðrum lödnum myntarinnar. 

Ísland hefur aldrei haft óðaverðbólgu og aldrei orðið ríkisgjaldþrota.

Svo nefni ég það hér í leiðinni að Þýskaland hefur einungis haft lýðræði í 65 ár. Þetta er önnur tilraun Þýskalands til lýðræðis og hún er að miklu leyti að mistakast. Sú fyrri mistókst. 

10 prósent atvinnuleysi í samfellt 30 ár getur varla talist góð hagstjórn. Er það? Þannig hafa málin verið flestum löndum sambandsins síðastliðin 30 ár.

Öll lönd ESB kvarta yfir því að hafa misst fullveldið. Sum kvarta meira en önnur. Já Danir hafa komist að því að fullveldi þeirra er farið í flestum málum og þeir eru mjög sárir en geta ekkert við því gert, því þeir ráða ekki lengur fyrir löggjöf landsins. Stærri ríki kvarta minnst því þau þurfa hvorki að hlusta á þegna sína né smærri ríki sambandsins. Þau rúlla bara yfir þau og segja fólki heima fyrir að halda kjafti, því lýðræðið er svo veikt hjá þeim. 

Það er líklega alveg sama hvaða plagg og hlutur er plokkaður af þér Valgeir, þér finnst, samkvæmt skrifum þínum, aldrei að þú hafir misst fullveldi þitt fyrr en þú situr í steininum, sviptur frelsi á sjálfsforræði. En þá er orðið of seint fyrir þig að reyna að skilja tilgang og eðli fullveldis og frelsis. 

Danir hafa sína eigin mynt. Þeir ásamt Bretlandi eru einu löndin sem hafa fengið varanlega undanþágu frá því að taka þátt í síðasta fasa af þremur í myntbandalaginu. Nýja stjórnarskrá ESB bannar allt slíkt. 

Kveðjur

Gunnar Rögnvaldsson, 20.11.2011 kl. 20:58

3 Smámynd: Valgeir

Ég skil vel að við ættum ekki að fara inn í EU ef við höldum ekki okkar sérstöðu sem fiskveiðiþjóð og yfirráðum yfir auðæfum okkar. - en við vitum ekki hvað samningurinn segir til um það mál.

Ég skil það vel að við ættum ekki að fara inn í EU ef við fáum ekki að ráða okkar málum sjálf. - En þú hefur ekki sýnt framm á að svo sé.

Ég skil það vel að við ættum ekki að fara inn í EU ef ávinningur okkar er minni enn ágóði. en við vitum það ekki.

Þú virðist svo bara henda fram fullyrðingum hér sem eru beinlínis rangar og hafa ekkert að gera með inngöngu okkar í EU að gera.

Fullt af löndum hafa farið á hausinn, þar á meðal Þjóðverjar og Japanir en þetta eru í dag ein stærstu hagkerfi í heimi. Er það tilkomið vegna þess að þessum löndum hefur verið illa stjórnað, borgað ekki skuldir sínar eða eru afætur á önnur lönd?

Óstjórn í þessu landi og sérhagsmunaplott nær langt aftur í aldir. 1944 er engin heilög dagsetning hvað óstjórn okkar ráðamanna varðar.

Vissir þú t.d. að íslenskir bankar fóru fyrst á hausinn 1907 - Íslandsbanki fór á höfuðið fyrst árið 1930.

Vissir þú að það tók Íslendinga 30 ár að krefast þess að fá 200 mílna lögsögu. Eitthvað sem mörg ríki höfðu gert í seinni heimstyrjöldinni og var viðurkennt á alþjóðavísu (þó bretar væru ósammála).

Mörg dæmi eru um stjórnleysi og vitleysu ráðamanna núverandi sem forvera þeirra - það er því alveg lágmark að ég geti treyst á það að sama hvernig landinu er stjórnað þá er þessi króna (evra) sem ég fæ í laun gjaldgeng hvar sem er en ekki ónýtur bréfsnepill með hömlur og höft sem gætu sómað sér vel árið 1960 með öllum þeim hörmungum fyrir almenning sem það veldur (þó útflytjendur græði á tá og fingri)

1. Hér á landi hefur verið óðaverbólga, þó hún jafnist ekki við Þýskaland eftir fyrri heimstyrjöldina þá hefur hún engu að síður haft skelfileg áhrif oftar en einu sinni. Ég tala nú ekki um eftir að við verðtryggðum útlánin eftir að við höfðum sett lífeyrissjóðskerfið okkar á hausinn 1979 - vel gert það. En ástandið í Þýskalandi eftir seinni heimstyrjöld var fyrst og fremst himinháum skaðabótakröfum um að kenna eins og stríðið hefði verið Þjóðverjum einum að kenna. Þjóðverjar gátu með engu mót borgað þær upphæðir til baka og byggt upp innviði landsins og því fór sem fór. Á endanum var sú vitleysa bandamanna til þess að Hitler náði fótfestu í Þýskalandi.

2. Hér á landi hefur ríkisstjórnin fellt gengið, ekki einu sinni, ekki tvisvar, heldur mun oftar, bæði handvirkt og með öðrum hætti. Hér var síðast samið um rauð strik 1991 og það var síðast 1993 sem ríkið gengisfelldi krónunna sem leiddi af sér verulega kaupmáttarýrnun fólksins í landinu, kreppu og fólksflótta

3. Atvinnuleysistölur hér á landi eru villandi. t.d. er skráð atvinnuleysi á vestfjörðum í dag 2.5% en við vitum að atvinnuleysið þar er svona lágt vegna þess einfaldlega að fólk hefur flutt annað ef það hefur orðið atvinnulaust. Sama má segja um atvinnuleysistölur yfir landið allt. Aðstæður í dag eru bara þannig að fólk kemst ekki nægjanlega hratt frá landinu til að lækka tölurnar enn meira. Miðað við að 7.500 manns séu brottfluttir umfram aðflutta síðan 2001 (þar af 700 börn) þá ættu tölurnar hér á landi að vera mun hærri. Þetta er ekki eitthvað sem margar aðrar þjóðir geta stólað á og sérstaklega ekki þjóðir eins og Þýskaland enda erum við að tala um milljónir einstaklinga en ekki 8000.

4. Að taka svo til atvinnuleysistölur þar sem meðaltalið er 10 % og segja sko þetta er slæm stjórnun er einföldun sem gengur ekki upp. Þú ert að tala um meðaltal yfir 27 lönd sem hafa um 500 milljón íbúa. Meðaltalið er í raun 9% ekki 10% en það er önnur saga. Hér er um að ræða lönd með misþróuð hagkerfi og eru sum ný inn í EU og það tekur alltaf tíma að byggja upp lönd. Til samanburðar þá er atvinnuleysi í Bandaríkjunum tæp 10% í dag og hefur verið í þrjú ár - síðan 1980 er meðaltalið í USA tæp 6%. Það tók þýskaland 20 ár að jafna sig á sameiningu en fyrst núna er atvinnuleysi þar að nálgast það sem það var í Vestur Þýskalandi fyrir sameiningu.

Atvinnuleysi í Þýskalandi er í dag 7,5% og í suður þýskalandi er atvinnuleysi mun lægra eða 4.4% En þarna átti sér stað sameining á gjaldþrota landi við eitt stærsta hagkerfi í heiminum - þú getur ekki bara þurkað það út og sagt að landinu hafi verið illa stjórnað í 20 ár.

Hvaða land viltu miða við og segja hér er vel gert. Noregur - 2,7%. Eitt ríkasta land í heimi getur ekki fengið tölunna neðar. En meðaltalið hjá þeim er 4.4% síðan 1989 í því samhengi þá er 9% ekkert svo skelfileg tala.

5. 2-3% atvinnuleysi er þess fyrir utan eitthvað sem er ekki raunhæft nema í mjög þróuðu hakerfi og allur samanburður við slíkar tölur sem aðeins örfáum sinnum hafa raunverulega sést hér á landi í gegnum tíðina er ómarktækur.

6. Hvar vorum við stödd þar til í seinni heimstyrjöldinni og hver lifði snýkjudýrs lífi af hverjum í henni og að einhverju leiti eftir hana. Hér hefur ekkert verið uppbyggt af okkur Íslendingum án utanaðkomandi stuðnings. Okkur var kastað inn í 21 öldinna með Marshall aðstoðinni og þegar við vorum orðnir of gráðugir þá þurftum við á Rússum að halda til að fá olíu og bíla og halda uppi geðsýkinni í ráðamönnum landsins. Ef það væri ekki fyrir stórkostlega rányrkju okkar á sjávarafurðum og sölu á raforku til álvera þá værum við væntanlega aftur komin í moldarkofana.

7. Þjóðverjar eru með fjórða stærsta hagkerfi í heimi. Að þeir fái einhverju ráðið innan Evrópu hlýtur að segja sig sjálft. Þeir halda Evrópu uppi en ekki öfugt. Allt tal um að þeir hafi ekki borgað skuldir kemur málinu ekki við, með sömu rökum væri hægt að saka Japani um að hafa ekki borgað "skuldir" en Japanir eru þriðja stærsta hagkerfi í heimi og hafa eins og þjóðverjar komist þangað með þrotlausri uppbyggingu og skipulagi.

8. Þjóðverjar geta ekki bara lækkað laun hjá sér eins og þú heldur fram því lífstandard og meðallaun í Þýskalandi eru ein þau hæstu í Evrópu. Vegna þess að EU gengur m.a. út á að koma fátækustu löndunum innan þess nær þeim ríkari fer megnið af uppbyggingu og fjárfestingum í innviðum EU í jaðarsvæðin. Þar með verður stöðnun hjá ríkari þjóðunum.

9. Þjóðverjar væru mun betur borgið utan EU og án Evru og það hefur marg oft komið upp að þeir dragi sig úr þessu þar sem þeirra gjaldmiðill var, áður en evran var tekin upp, einn sá stöðugasti í heiminum. Allt tal um að þeir séu eitthvað snýkjudýr á hagkerfi heimsins er töluverð öfugmæli frá landi eins og Íslandi. Þess fyrir utan þá er Þýskaland eitt helsta útflutningsland Íslendinga og hefur verið í áratugi ef sá markaður lokaðist ég tala nú ekki um EU markaðurinn í heild sinni vegna skattamála eða einræðistilburða okkar í fiskveiðimálum hvar værum við þá? Meirihluti útflutnings okkar er til EU og á meðan svo er þá verðum við alvarlega að skoða hvort okkur er betur borgið þar inni eða fyrir utan. EES varir ekki að eilífu.

En að halda því fram að við eigum bara að loka eyrum og augum fyrir EU af því að Þjóðverjar hafa farið á hausinn nokru sinnum eða að við missum sjálfstæði er ekki málefnanleg rök. Það eru heldur ekki málefnanleg rök að benda á land eins og Grikkland máli sínu til stuðnings, því Grikkir hafa falsað bókhaldið hjá sér allar götur síðan áður en þeir gengu inn í EU árið 1981. Fyrst til að fá inngöngu og svo til að fá að vera inni í EU.

Ég minni svo aftur á að vegna þess að við erum í EES þá þurfum við hvort sem er að taka upp allt þetta regluverk sem á draga úr fullveldi okkar. Hvað breytist þá í þeim efnum við inngöngu? Og með hvaða hætti hefur EU gengið á fullveldisrétt þjóða. Að þeir voga sér að skipta sér af illa stjórnuðum löndum? Hvað gerði AGS hér á landi - hefði ekki verið betra að fá hingað EU - menn?

Ég afsaka langlokuna

Með virktum

Valgeir , 21.11.2011 kl. 02:20

4 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Ég skil vel að við ættum ekki að fara inn í EU ef við höldum ekki okkar sérstöðu sem fiskveiðiþjóð og yfirráðum yfir auðæfum okkar. - en við vitum ekki hvað samningurinn segir til um það mál.

Svar; þú missir allt fullveldi yfir fiskveiðilandhegi Íslands. ESB fær full yfirumráð yfir henni og er þar æðsta löggjavarvald og handhafi þess. Þú verður bara eitt af 27 ríkjum sambandsins sem þurfa að lúta yfirstjórn Brussels, hvað þetta varðar. Ergo; þú er ekki inni í málinu. Skilur ekki hvað er í húrfi fyrir þjóðina. Þetta er UNDRIRSTÖÐUVATVINNUVEGUR ÍSLANDS.  

Gunnar Rögnvaldsson, 21.11.2011 kl. 04:46

5 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Vissir þú að það tók Íslendinga 30 ár að krefast þess að fá 200 mílna lögsögu. Eitthvað sem mörg ríki höfðu gert í seinni heimstyrjöldinni og var viðurkennt á alþjóðavísu (þó bretar væru ósammála).

Já við vorum nýlenda. Og svo erum við þar að auki smáríki sem þarf að nota 100 sinnum meira erfiði og vinnu við að standa á rétti okkar en stór ríki. Og þessu viltu að við lendum í aftur? Aftur að verða nýlenda hvað þetta mál varðar? Þú vilt að við missum þetta á gólfið á ný? 

Gunnar Rögnvaldsson, 21.11.2011 kl. 04:51

6 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

1. Hér á landi hefur verið óðaverbólga, þó hún jafnist ekki við Þýskaland eftir fyrri heimstyrjöldina þá hefur hún engu að síður haft skelfileg áhrif oftar en einu sinni.

Ísland er hvergi á lista yfir lönd sem hafa haft óðaverðbólgu. Þetta sem við höfum lent í eru smámunir miðað við raunverulega óðaverðbólgu. Við höfum að mestu einungis haft ríkidæmis- og þensluverðbólgu, vegna mikilla framfara og vegna þess hver ung þjóðin er að aldurssamsetningu. Verðbólga á elliheimilum er sjaldgæf.  

Gunnar Rögnvaldsson, 21.11.2011 kl. 04:56

7 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Ég minni svo aftur á að vegna þess að við erum í EES þá þurfum við hvort sem er að taka upp allt þetta regluverk sem á draga úr fullveldi okkar. Hvað breytist þá í þeim efnum við inngöngu? Og með hvaða hætti hefur EU gengið á fullveldisrétt þjóða. Að þeir voga sér að skipta sér af illa stjórnuðum löndum? Hvað gerði AGS hér á landi - hefði ekki verið betra að fá hingað EU - menn?

Nei Valgeir. Ekkert er fjarri sannleikanum. Við höfum tekið um innan við 10 prósent af reglum, lögum og sáttmálum ESB til okkar. Ef þú heyrir annað þá er það hreint þvaður og lygar.

Frá byrjun ársins 2000 og til loka ársins 2009 voru alls 3.119 ný ákvæði, lög- og réttarfarslegar viðbætur settar inn í EES-samninginn. Á sama tíma samþykkti og meðtók ESB 34.733 ný ákvæði, laga- og réttarfarslegar viðbætur og breytingar.

Einungis 8,9 prósent af nýjum ESB-lögum og reglum var sem sagt bætt inn í EES-samninginn. Hann er því minna en 10 prósent af fullri ESB aðild.  

 
Goðsagnir um EES-samninginn og "80 prósent" uppspuninn

"Myter om EØS" (Þýðing frá Norksu Nei til EU samtökunum)

Við þurfum að ryðja úr vegi nokkrum goðsögnum um EES-samninginn þannig að vitrænar umræður um þetta mál geti farið fram. 

Í fyrsta lagi

Við þurfum ekki á EES að halda til þess að geta selt vörur okkar erlendis. Ef EES-samningurinn yrði felldur úr gildi þá mun fyrri fríverslunar-samningur okkar við ESB sjálfkrafa taka gildi. Þetta kemur gagngert fram í EES-samningnum. Noregur mun því geta selt vörur sínar án tolla og annarra viðskiptahindrana eins og áður. 

Samkvæmt WTO-reglunum getur ESB ekki lagt hærri tolla á Noreg en á önnur lönd utan Evrópusambandsins. Lausnin í hinu svo kallaða laxastríði, þar sem ESB var skikkað til að gefa sig samkvæmt fyrirmælum frá WTO, sýnir einmitt, óháð EES-samningnum, að ESB er skyldugt til að virða alþjóðlegar viðskiptareglur.

ESB hefur engan rétt til - eða hagsmuni af - að hefja viðskiptastríð við Noreg ef við skyldum segja EES-samningum upp. Stærsti hluti vöruútflutnings okkar til ESB eru hráefni og hálfunnar vörur sem eru notaðar til frekari vinnslu í framleiðslugeira ESB-landa. Kaupmáttur Noregs er sterkur og alls ekki smávægilegur markaður fyrir ESB. Frá janúar til nóvember í fyrra fluttum við inn vörur frá ESB fyrir 267,6 miljarða norskar krónur. Ef vil lítum burt frá olíu, gasi og skipum þá var samanburðarhæfur útflutningur Noregs til ESB 187,6 miljarðar norskar krónur. 

Það væri því beint óskynsamlegt af ESB að gera nokkuð sem helst til klúðra þessum gagnkvæmu viðskiptum.

Þjónustuviðskipti okkar myndu halda óbreytt áfram án EES-samningsins. Því sjá alþjóðlegar reglur GATS fyrir, sem er þjónustusamningshluti WTO-samninga [sjá utanríkisráðuneyti Noregs hér og Íslands hér (PDF-skjal horfið?)]. 

GATS-samningurinn mun samtímis veita Noregi enn stærra alþjóðlegt ráðarúm. Til dæmis gæti þá meirihluti Stórþingsins varðveitt einkarétt Póstsins á útburði bréfa án þess að komast í krambúlag við reglur EES. 

Í öðru lagi

EES-samningurinn tryggir ekki öryggi atvinnu. ESB-dómstólinn hefur hvað eftir annað úrskurðað að réttindi sem kjarasamningar veita launþegum í landi okkar verða að víkja fyrir frjálsri samkeppni á hinum svo kallaða "innri markaði ESB" og reglum hans. Þetta er uppskriftin að sósíal-dumping sem við höfum séð mörg tilfelli af hér í Noregi á síðustu árum.

Í þriðja lagi

 

EES-samningurinn er ekki forsendan fyrir samvinu um rannsóknir, vísindi og menntun. Samvinnan á milli Noregs/EFTA-landanna og ESB hófst mörgum árum áður en EES-samningurinn kom til skjalanna með vísan til Lúxemborg-yfirlýsingarinnar frá 1984. Noregur var - alveg utan við EES-samninginn - fullgildur meðlimur af til dæmis lyfja- og heilbrigðis rannsóknum, raunvísinda- og tæknirannsóknum (SCIENCE) og umhverfisrannsóknum (STEP). Á sviði menntamála tók Noregur þátt í mikilvægustu sviðum þess COMETT (frá 1990) og ERASMUS (frá 1992) áður en EES-samningurinn kom til.

Ef við göngum út úr EES-samningum mun veigamesti munurinn þar á eftir verða sá að við erum ekki skyldug til þess að taka þátt í allri samvinnu á sviði menntunar og rannsókna (nema kjarnorkurannsókna). Við gætum því sniðið áherslurnar á þessu sviði að okkar eigin þörfum.            

Samvinnuverkefni okkar við ESB í dag eru tapsgefandi verkefni. Noregur greiðir 9 miljarða norskar krónur í aðildargjald til rammaáætlunarinnar fyrir árin 2007-2013. Nú er þetta tímabil hálfnað og samkvæmt Rannsóknarnefnd Noregs höfum við aðeins fengið tvo miljarða af þessum níu til baka.

Að lokum

EES-samningurinn er ekki "næstum því" jafngildi ESB-aðilar. Tollabandalag og viðskiptastefna ESB gagnvart þriðja landi, fiskveiðimálin, þrír fasar myntbandalagsins (EMU) og evran eru aðeins nokkur af þeim málum sem liggja alveg utan EES-samninginn. Frá byrjun ársins 2000 og til loka ársins 2009 voru alls 3.119 ný ákvæði, lög- og réttarfarslegar viðbætur settar inn í EES-samninginn. Á sama tíma samþykkti og meðtók ESB 34.733 ný ákvæði, laga- og réttarfarslegar viðbætur og breytingar.

Einungis 8,9 prósent af nýjum ESB-lögum og reglum var sem sagt bætt inn í EES-samninginn. Hann er því minna en 10 prósent af fullri ESB aðild.

Kveðjur 
Gunnar Rögnvaldsson

Sjá nánar hér: Goðsagnir um EES-samninginn og "80 prósent" uppspuninn

Gunnar Rögnvaldsson, 21.11.2011 kl. 05:03

8 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

8. Þjóðverjar geta ekki bara lækkað laun hjá sér eins og þú heldur fram því lífstandard og meðallaun í Þýskalandi eru ein þau hæstu í Evrópu. Vegna þess að EU gengur m.a. út á að koma fátækustu löndunum innan þess nær þeim ríkari fer megnið af uppbyggingu og fjárfestingum í innviðum EU í jaðarsvæðin. Þar með verður stöðnun hjá ríkari þjóðunum.

Rangt; ég held þessu ekki fram. Þetta er bara staðreynd. Það eru engin lágmarkslaun í Þýskalandi. Þessi lágu laun soga nágrannalöndin niður í niðurfall þjóðanna. Svona er samkeppnin orðin í myntbandalaginu, keppnin niður í holræsi samgélaganna. The race to the bottom.  

Lífsstandard í Þýskalandi er ekki meðal þeirra hæstu í Evrópu. Hagvöxtur í Þýskalandi er sá lélegasti í heiminum á eftir Ítaíu og Japan. Þannig hefur verið áratugum saman. Hann er horfinn og kemur aldrei aftur. Landið er orðið elliheimili þar sem 50 prósent kjósedna eru orðnir sextugir og eldri. Fátækt eykst hratt í Þýskalandi og skuldir landsins æða upp. Framtíðin í Þýskalandi er kolsvört. Þýskaland getur aldrei vaxtið aftur nema á kostnað annarra ríkja. Þeir eiga enga sterka neytendur. Spánn og Grikkland og Porútgal hafa verið neytandi Þýskalands til þrautarvarna undanfarin ár.

Gunnar Rögnvaldsson, 21.11.2011 kl. 05:42

9 Smámynd: Haraldur Hansson

Í tilefni af lið 3 í fyrri athugasemd Valgeirs eru hér nokkur nýleg dæmi um "sjálfstæði" þjóða innan ESB:

Slóvakar eru svo "sjálfstæðir" að þeir neyddust til að samþykkja ábyrgð á björgunarpakka, sem þeir hafa engin ráð á, þótt það þýddi fall ríkisstjórnarinnar.

Danir eru svo "sjálfstæðir" að þeir verða að hætta við landamæraeftirlit eftir að Merkel og Barroso reiddust og flögguðu Schengen plaggi framan í þá.

Grikkir eru svo "sjálfstæðir" að þeir biðu í þrjá daga með að hætta við að leyfa þjóðinni að kjósa um framtíð sína og velferð. Svo féll stjórnin og dyramotta frá Brussel var sett sem landstjóri.

Finnar eru svo "sjálfstæðir" að þeir fengu ekki að ráða neinu um ábyrgð sína á björgunarpakkanum og hættu við kröfu um tryggingar (sem Grikkir voru samt tilbúnir að ræða).

Ítalir eru svo "sjálfstæðir" að niðurskurðarfrumvarpið sem á endanum felldi Berlusconi var samið í Frankfurt og Brussel án þess að einn einast lýðræðislega kjörinn þingmaður Ítala kæmi þar nærri. Aftur var dyramotta frá Brussel sett sem landstjóri.

Skotar eru svo "sjálfstæðir" að þeir teljast ekki lengur strandríki og kommúnisti frá Grikklandi sér um að semja um makrílveiðar fyrir þeirra hönd.

Og þetta eru bara nokkur nýleg dæmi.

Haraldur Hansson, 21.11.2011 kl. 13:01

10 Smámynd: Valgeir

Framfarir??? Hvaða framfarir áttu sér stað milli 73-75, 81-83 ég tala nú ekki um þær framfarir sem verið hafa síðan 2004 (samtals) Árið 1973 var verðbólgan yfir 20% 1974 40% og 1975 50 %. Árið 1983 var verðbólgan yfir 80%. Er þetta ekki óðaverðbólga? Ég held að þú þurfir aðeins að skoða skilgreiningu á óðaverðbólgu áður en þú heldur áfram. Ef þú heldur að það þurfi 1000% til þá er það misskilningur. Talað er um hyperinflation ef verðbólga fer yfir 100% á þremur árum. Ekki er talað um Ísland á alþjóðavetfangi af því að við skiptum engu máli í tölfræði yfir slíkt. En bara 12% verðbólguskotið sem átti sér stað 2008-9 var slæmt - ég tala nú ekki um ef það væri þessi 45% frá 2004-2010 en vegna vertryggingarinnar þá tvöfölduðust lán á þessum tíma. Sjálfur tók ég 3.5 milljónir í lán hjá LÍN sem í dag er orðið að 5,7 milljónum þrátt fyrir að ég hafi borgað 2 milljónir af því. Hvar sérð þú framfarir í því. Er langt síðan þú bjóst á Íslandi???

Það er ótrúlegt að lesa svona tilbúnar staðreyndir "hagvöxtur þýskalands sá lélegasti í heimi"....þetta er auðvitað rangt og land sem er með 3.6% hagvöxt er ekki með lélegan hagvöxtinn þeir eru allavega hærri en Bandaríkin árið 2010. Því er líka haldið fram að of mikill hagvöxtur sé óæskilegur - þú ættir kanski að spyrja þjóðhagfræðinginn betur út í það.

Það er auk þess furðulegur útúrsnúningur hjá ykkur að Ísland hafi bara tekið upp 10% EU reglna. Lög og reglur sem við setjum eru undir áhrifum frá EU þó þau séu það ekki öll. Það er þannig með önnur lönd. Þjóðverjar t.d. höfðu ekki tekið nema um 40% (og þeir eru regluóðir) af lögum og reglugerðum sem EU setti og Frakkar ekki nema 13%.

Ef þetta er stærsta trompið ykkar þá er það hér með fallið um sjálft sig. Lönd innan EU taka ekki upp öll lög og reglur sem EU setur og í mörgum tilfellum eru þau búin að taka upp litlu meira en við Íslendingar - það er einmitt þess vegna sem innganga okkar er tekin fyrir - við erum vel á veg komin nú þegar.

T.d. er Ísland langt á undan flestum Evrópulöndum í að innleiða og framfylgja reglum um aðbúnað í slátur- og frystihúsum. Þær reglur eru samt sem áður unnar eftir tilskipun frá EU.

Eins og ég segi þá er ég ekki sérstakur EU sinni ég vill vita hvað landið fær og hver minn ágóði verður. Fyrir mér þá skiptir það meira máli að vera með stöðugan gjaldeyrir og sæmileg vaxtakjör og geta treyst því að lán sem ég tek stökkbreytist ekki í einhverju rugli. Ef við Íslendingar gætum stjórnað því sjálfir þá þyrftum við ekki að skoða EU. En þar sem við getum ekki stjórnað því sjálfir þá eigum við væntanlega ekki eftir að komast inn í EU hvort sem er því án þess náum við aldrei að uppfylla skilyrði EU fyrir inngöngu m.a. um verðbólgu, hallarekstur ríkissins ofl.

En hvert er þá í raun áhyggjuefni ykkar varðandi inngönguna?

Er það að við ráðum því hvort við tölum við AGS um hvernig við eigum að standa að ríkisrekstri hjá okkur til ársins 2020 eða? EU hefði annars verið sá aðili sem hefði "þvingað" okkur í þann harða niðurskurðapakka sem við erum núna í. Mikið sjálfstæði sem við sýndum gagnvart AGS.

Er það að við ráðum því hvernig við t.d. túlkum Schengen eða aðra alþjóðlega samninga. (við erum aðilar að sama samning og Danir voru teknir á teppið fyrir að brjóta) Við getum ekkert túlkað hann einhliða á annan hátt en önnur ríki sem samþykktu hann.

Er það að Íslenskir ráðamenn hafi sérstaklega hugsað um hag almennings í landinu undanfarin 67 ár og missa það úr höndum sínum að geta stjórnað landinu á sinn skörungs hátt með tilheyrandi gjaldþrotum, óðaverðbólgu, einkavinavæðingu og skyldleikaráðningum. (það er ekkert að því að EU lemji á puttana á löndum eins og Ítalíu sem hefur verið stjórnað af mafíósa í langan tíma og rambar á barmi gjaldþrots svona svipað og Íslandi hefur verið stjórnað)

Ég minni á að allar þær kjarabætur, fríðindi, lágmarkslaun ofl hefur almenningur þurft að sækja sér - oft með hörðum aðgerðum. Ráðamenn i landinu stukku ekki fram og settu upp á sitt einsdæmi lög um hvíldartíma eða lífeyrisréttindi. Þetta verður ekki tekið af okkur með inngöngu í EU eins og sést bara á því að þó það sé frelsi til að athafna sig á EU svæðinu þá gilda ekki sömu lög og reglur um laun, aðbúnað ofl.

Þið segið það meira að segja sjálfir, hlutirnir eru ekki allstaðar eins. Ef hlutirnir eru ekki allstaðar eins þá hlýtur það að segja ykkur að EU ræður ekki yfir löndunum. Það að það séu ekki lágmarkslaun í þýskalandi (það eru að vísu lágmarkslaun en þau ná bara til afmarkaðra atvinnuvegar) hvað kemur það EU umsókn okkar við? Það eru lágmarkslaun í öðrum EU löndum t.d. Frakklandi. Það eru engin lágmarkslaun í Sviss samt eru þeir með 8 hæðstu GDP í heiminum - Þjóðverjar eru númer 19 nokkurn veginn á sama stað og Danir.

Já ég sé það núna hvernig land eins og Þýskaland er að hruni komið eftir að hafa tekið við 4 milljón Tyrkja (1.5 milljón er enn með Tyrkneskt ríkisfang), gjaldþrota Austur Þýskaland og óteljandi Pólverja, Serba, Cróata ofl innflytjenda samtals um 15 milljón manns þá eru þeir samt með einn hæsta lifistandard í heimi. (sama hvernig þú snýrð út úr því þá er lífsstandard Þjóðverja sá hinn sami og Dana ef við mælum hann í GDP ef við mælum hann í PPP þá er hann miklu hærri hjá Þjóðverjum - Hann er meira að segja hærri ef við skoðum HDI sem er eitthvað sem ég hélt að Danir væru betri í. Quality of Life er jafnvel betra hjá Þjóðverjum sama hvaða mælikvaðri er notaður. Norræna velferðakerfið 0 - 1 Þýska módelið. Ekki það að ég vildi skipta en allt bendir til þess að þú hafir rangt fyrir þér varðandi Þjóðverjana.

Það er 3.6% hagvöxtur í Þýskalandi. Það sem toppar þetta allt er að Þýskaland er ekki einu sinni ríkt af hrávörum en samt ná þeir þessum árangri (eitthvað sem við mættum taka okkur til fyrirmyndar). Það væri fáránlegt að ætlast til þess að jafn stórt og stöndugt land eins og Þýskaland sé með miklu meiri hagvöxt.

Meðalaldur í Þýskalandi er 45 en hann er 40,42,41 í Noregi, Svíþjóð og Danmörku. (Þið búið bara til mýtur og eruð með furðulegar fullyrðingar sem ná bara ekki nokkurri átt um gamalmenni o.fl.)

Að lokum Skotland er ekki sjálfstætt land og hefur ekki verið það síðan 1707 þannig að þeir geta ekki samið um veiðar í lögsögu sem þeir hafa engan umráðarétt yfir. Bara þessi fullyrðing þín Haraldur bindur enda málefnanlegar rökræður við þig.

Það er ekkert land sem getur hegðað sér eins og það vill. Öll lönd eru bundin af alþjóðlegum samningum - Íslendingar vildu t.d. ekkert með stríðið í Afganistan að gera, samt sem áður vorum við aðili að því, studdum beint og óbeint stríðsbröltið og sendum jafnvel fólk þangað vegna þess að við erum hluti af NATO. Með töluverðum kostnaði fyrir Íslenska ríkið. Það sama hlýtur að eiga við um efnahagslegan björgunarpakka til einstakra ríkja innan EU það er búið að semja um hvernig staðið er að þessum málum og þá verða menn gjöriðsvovel að borga. Allt tal um "sjálfstæði" er bar útúrsnúningur.

En að lokum vill ég bara spyrja. Hver er raunveruleg ástæða fyrir málflutningi ykkar? Þið varpið fram einhverjum samsæriskenningum og fullveldisorðræðu. Hendið inn fullyrðingum sem eru beinlínis rangar bar til þess eins að drekkja umræðunni í einhverjum "staðreyndum" sem við nánari athugun er viljandi útúrsnúningur og í flestum tilfellum algerlega ótengdur umsókn okkar í EU.

Það er hægt að vera með og það er hægt að vera á móti. Í mínum huga er þetta einfalt. Ef samningurinn er góður þá segi ég já. Ef hann er slæmur þá segi ég nei. En þið viljið ekki einu sinni skoða samninginn og stynjið alskonar fullyrðingar upp til að afvegaleiða fólk. Hvað er að því að skoða samninginn??? Ef Írland, sem kom nú ekki vel út úr "hruninu", er ekki á leiðinni út úr EU þá get ég ekki séð að þetta sé svo slæmur staður að vera á.

OG JÁ það er hægt að hætta í EU. Það tekur bara tíma alveg eins og það tekur tíma að gerast aðili.

Ég byðst aftur forláts á langlokunni

með virktum

Valgeir , 23.11.2011 kl. 02:15

11 Smámynd: Valgeir

Afsakið en ég gleymdi að minnast á eitt. Hvaða lágmarkslaun eru á Íslandi? Eru þau ekki einmitt með sama fyrirkomulagi og í Þýskalandi?

Valgeir , 23.11.2011 kl. 02:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Gunnar Rögnvaldsson
Gunnar Rögnvaldsson

Búseta: Ísland.
Reynsla: 25 ára búseta í ESB og fyrirtækja-rekstur í DK/ESB frá 1985 til 2010. Samband:
tilveraniesb hjá mac.com

Ég er hvorki skráður á Facebook, Twitter, Linkedin né á neinum öðrum "félags-vefjum". Aðsetur skrifa minna er einungis að finna hér á þessari síðu og á tilveraniesb.net og í blöðum og tímaritum

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband