Leita í fréttum mbl.is

Stóra-Bretland flytur alla bóluefnaframleiðslu burt af lögsögu ESB

Perspektíf Þýskalands

Mynd: Hin utanríkispólitíska tilvistarsýn Berlínar breytist ekki og liggur föst. Hún er algjörlega óháð tilvist pappírsbunka-stundarfyrirbæra á borð við Evrópusambandið. Pólitískar hugmyndir manna í hinum ýmsu löndum og á milli þeirra ferðast ágætlega um borð í flugvélum í 30 þúsund feta hæð yfir jörðu. En það gera þær hins vegar ekki á jörðu niðri. Þar ná þær ekki að hagga landfræðilegum og sögulegum staðreyndum. Enginn býr, lifir né sefur um borð í flugvél núna, og ei heldur á átakatímum. Átök vinnast aðeins á jörðu niðri, þar sem menn búa, og sem éta slíkar pólitískar hugmyndir hraðar upp en þær ná að (af)myndast, nema náttúrlega þær geopólitísku - og Útópía er verður aldrei geopólitísk hugmynd

****

BURT AF HÆTTUSVÆÐI ESB

Á meðan Angela Merkel kanslari frá DDR og Emmanuel Macron Frakklandsforseti funda með Vladímír Pútín fastaforseta Rússlands um Spútník bóluefnið, þá er löglegt land Borisar Johnsons forsætisráðherra að flytja alla bóluefnaframleiðslu burt frá löndum Evrópusambandsins og yfir til Stóra-Bretlands, eftir hótanir sambandsins (lesist: Þýskalands og Frakklands) um útflutningsbann. En hvað þá með hin rússnesku [eitur] efni sem verið hafa fréttamatur mörg hin síðustu ár í Evrópu og víðar? Skyldu þau efni ekkert hafa verið rædd á fundi Pútíns, Merkels og Macrons. Eða er það kannski markmið "leiðtoganna" þriggja að skaffa þau líka. Ég spyr. Fylgja þau kannski með í "pakkanum"?

Eurointelligence hafði þetta að segja um málið í gær:

"Ursula von der Leyen’s loose talk about vaccine export bans belongs to the category of things that have an enormous long-term cost and fail to achieve anything in the short-term."

Hið breska GlaxoSmithKline mun sjá um það sem Þýskaland átti að sjá um (átöppun/áfylling/frágangur) fyrir Novovax bóluefnið og Fujifilm Diosynth Biotechnologies mun sjá um að framleiða það í norðaustur Bretlandi í verksmiðum fyrirtækisins í Teesside. Öll framleiðsla bóluefna fyrir hina síðari bresku bólusetningarumferð, sem hefst í lok sumars, mun fara fram í sjálfu Bretlandi og eiga þessar verksmiðjur að vera komnar á full afköst í september. Markmiðið er að byggja upp langtíma framleiðslugetu fyrir bóluefni innan landamæra Bretlands og sem hægt er að stóla á og séð getur landinu fyrir eigin bóluefnum, og náttúrlega flutt þau síðan út til annarra landa líka. Novovax er bandarískt fyrirtæki í Maryland í Bandaríkjunum sem þróar bóluefni. Ofan í þetta koma síðan Astra, Pfizer og Moderna

HEIMUR MANNA BREYTIST EKKI

Ég er næstum viss um að Frakkland spilar með til þess að reyna að keppa við og spilla fyrir sívaxandi pólitískum vinskap Rússlands og Þýskalands, og sem er gamalt franskt plott frá fyrri tíð um að reyna að koma í veg fyrir að Þýskaland geti haft öruggt bak í austri, ef það skyldi nú byrja að þjarma að Vestur-Evrópu á ný. Ýmislegt bendir nefnilega til þess: 1) NATO-svik Þýskalands og sem eru fordæmisgefandi fyrir þau ríki sem eru á fastri sporbraut um það. Og 2) hin nýja Molotov–Ribbentrop II gasleiðsla Rússlands til Berlínar núna (NordStream2). En um hana mun enginn umframdropi af gasi fara miðað við þær leiðslur sem nú þegar eru til staðar, en sem verða lagðar niður í Úkraínu og Póllandi, og þar með gera bæði þau ríki enn strategíkst berskjaldaðri gagnvart austri

Reyndar er Evrópusambandið sem Þýskaland er komið með í rassvasa sína núna, þegar byrjað að þjarma að Stóra-Bretlandi í vestri, Póllandi í austri, Ungverjalandi og Grikklandi á Balkanslóðum ásamt ríkjum Suður-Evrópu, plús það að Þýskaland mælist nú Ameríku-fjandsamlegasta ríki hins þróaða hluta veraldar

FYRIRBYGGJANDI ÁRÁSIR

Þessar stanslausu fréttatilkynningar um blóðtappa af völdum AstraZeneca miðast að því að spilla fyrir því bóluefni, því vel getur hugsast að Stóra-Bretland muni hætta að sjá ESB-löndum fyrir hátæknihráefnum til framleiðslu þess. Líklegt er því að ESB-Berlín-Parísar öxullinn viti nú þegar vel að það er að lokast á að AstraZeneca verði framleitt á meginlandi Evrópu, og að öxullinn neyðist því til að flytja það inn frá Bretlandi, Bandaríkjunum og t.d. Indlandi, en sem nú er bandamaður Bandaríkjanna í hinu óformlega Fjórbandalagi með Japan og Ástralíu - og þar með Bretlandi líka

Hin óhæfa Ursula von der Leyen forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins er persónulegur skjólstæðingur Angelu Merkels og það voru þær sem plottuðu saman um að láta Evrópusambandið um bóluefnamálin, en sem sambandið er algjörlega ófært um. Þessar tvær persónur hafa reyndar reynst óhæfar til flestra verka líka. Til að láta ESB um málaflokk á borð við bóluefnamál, þyrfti 7-ára sáttmálabreytingarferli til að ESB gæti slíkt - og það vissu þær vel, nema að þær séu ekki með á nótunum, sem er líklegasta skýringin, nú sem fyrr. Afar ólíklegt er að slík sáttmálabreyting hefði fengist samþykkt - nema þá undir hótunum, áframhaldandi evruógnum og spellvirkjum

PÓLITÍSK UPPLAUSN

Fylgi CDU/CSU flokksbandalags Angelu Merkels er nú í frjálsu falli og komið niður í 25 prósentur, eða á par við fylgi hins nú misheppnaða Sjálfstæðisflokks míns hér á Íslandi, með svipaða óhæfa og sísökkvandi flokksblýklossa um borð þar líka

Hinn pólitíski stöðugleiki eftirstríðsáranna er horfinn í Þýskalandi. Stjórnmálaflokkar þar eru að leysast upp og nýir að myndast í þeirra stað. Enginn veit hvað gerist næst í Þýskalandi. Og það eitt og sér er ekki góðs viti, því þegar það kviknar í Þýskalandi þá geta hlutirnir gerst mjög hratt. Til dæmis fór verðlag úr verðhjöðnun og yfir í 400 prósent verðbólgu á minna en 12 mánuðum er þýski seðlabankinn fór með landið í þrot 192x. Slíkur var hraðinn í þessu eldfima landi þá og er því miður enn, nái réttu skilyrðin fyrir þýskum steppubruna að myndast

FLÓTTINN

Fjárfestingar lýðræðislanda á lögsögu Evrópusambandsins eru nú að komast í flokk með áhættufjárfestingum í húlabúla-löndum. Hætt er því við að vaxandi löng bið verði eftir þeim í hinni mjög svo ómögulegu framtíð Evrópusambandsins. Líkurnar á að aðeins Kínverjar og Rússar hafi áhuga á fjárfestingum á lögsögu Evrópusambandsins, aukast í takt við að áhugi lýðræðislanda minnkar. Og nú er kominn nýr valkostur sem heitir frjálst og fullvalda Stóra-Bretland. Hækkar því sterlingspundið sífellt gagnvart evru og hefur gert það síðustu 12 mánuðina. En það eru fleiri lönd en Bretland sem ekki munu sætta sig við að vera lokuð inni í ESB. Íslensk fyrirtæki sem fjárfest hafa á meginlandi Evrópu munu nú þurfa að hugsa sig alvarlega um, áður en það er um seinan. Löggjafinn í ESB er óútreiknanlegur, enda hefur enginn kosið hann

Fyrri færsla

Ekki slys - og þær voru svartar


Bloggfærslur 31. mars 2021

Höfundur

Gunnar Rögnvaldsson
Gunnar Rögnvaldsson

Búseta: Ísland.
Reynsla: 25 ára búseta í ESB og fyrirtækja-rekstur í DK/ESB frá 1985 til 2010. Samband:
tilveraniesb hjá mac.com

Ég er hvorki skráður á Facebook, Twitter, Linkedin né á neinum öðrum "félags-vefjum". Aðsetur skrifa minna er einungis að finna hér á þessari síðu og á tilveraniesb.net og í blöðum og tímaritum

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband