Leita í fréttum mbl.is

Lars Christensen og hið tillærða atvinnuleysi EMU-hagfræðinga.

Fyrir mig sem bjó í dönsku hagkerfi síðustu 25 árin var það eins og að hlusta á 25 ár af ekki neinu með íslenskum undirtextum að hlusta á hagfræðinginn Lars Christensen í íslenskum fjölmiðlum. Ef lesendur skyldu ekki vita það þá hefur atvinnuleysi í Danmörku ekki farið undir þetta sjö til átta prósent nema í um það bil fimm ár af síðustu þrjátíu og þrem árum. 

En hvers vegna hefur þetta verið svona? Jú vegna þess að þar hefur aldrei mátt gera neitt sem ógnað gæti batanum sem alltaf átti að vera að koma og svo ríkisfjármálunum. Ekki má stíga á bensínið því þá er svo mikil hætta á því að ríkisfjármálin fari til fjandans og þá er allt glatað því atvinnuleysið er eini virki hnappurinn eftir í stjórntækjum hagkerfa sem hafa misst fullveldi sín í peninga- og myntmálum. 

Að hlusta á Lars Christensen eða Paul Krugman er eins og að hlusta á svart og hvítt talast við. Bandaríkjamann eru að farast af áhyggjum vegna 9 prósents atvinnuleysis þar í landi og segja að svo hátt atvinnuleysi muni eyðileggja samfélagið. 

Í Evrópu er þessu alveg öfugt farið. Þar er atvinnuleysi notað sem stjórntæki til að stýra því að eftirspurn fari nú ekki í gang þannig að fólkið í hagkerfinu passi nú áfram ofaní þýska stýrivexti, þýska peningapólitík og verði þannig ekki algerlega ósamkeppnishæft gagnvart einmitt Þýskalandi.
 
Eina hlutverk seðlabanka Evrópusambandsins og þar með Danmerkur er að halda verðlagi stöðugu. Það hefur mistekist meira en fullkomlega. Allt er sprungið í loft upp á Írlandi, Spáni, Grikklandi, Portúgal, Frakklandi, Finnlandi og víðar. Massíft aukinn launamismunur (launakostnaður) og massífar eignabólur hafa tætt í sundur hagkerfin inni í fangaklefum þeirra í myntbandalagi Evrópusambandsins. 
 
Í Bandaríkjunum hefur seðlabankinn tvöföldu hlutverki að gegna; að halda hagkerfinu í fullri atvinnu og að halda verðlagi sem stöðugustu. Þarna er regin munur á. Og fyrra hlutverkið er tekið mjög alvarlega því annars verður allt vitlaust.  

En það er einmitt vegna þessa sem myntbandalag Evrópusambandsins er að springa í loft upp. Samfélögin þola ekki meira. Þetta 30 ára massífa atvinnuleysi hefur eyðilagt Evrópu. Og það er Evrópusambandið sem hefur knúið fram þessa pólitík sem stendur fyrir eyðilegginu samfélagsins. Með fullri virðingu; þetta er það eina sem Lars Christiansen kann. Hann er EMU-hagfræðingur. Myntbandalagshagfræðingur úr ESB. Ágætur til heimabrúks. 
 
Ég ráðlegg Íslendingum að hlusta á sitt eigið brjóstvit og okkar eigin menn. Við kunnum þó í það minnsta að rífast við þá. Við tölum sömu tungu og deilum sömu örlögum. Þetta þýðir þó ekki að við getum ekki haft til hliðsjónar það sem er að gerast úti í hinum stóra heimi. 
 
Af hverju pissa íslenskir fjölmiðlar alltaf í buxnapils sín þegar útlendingur opnar munninn? Ok, ég skil; ef þeir komast ekki sjónvarpið heima hjá sér þá má alltaf reyna það íslenska.
 
Fyrri færsla
 
 

Gjaldeyrishöft bráðum innleidd á evrusvæðinu?

Samkvæmt fréttum þýska viðskiptablaðsins Börsen-Zeitung (I & II) hefur Andreas Dombret sem situr í stjórn þýska seðlabankans lýst því yfir að ríki geti innleitt gjaldeyrishöft sem síðustu varnaraðgerðir gegn flóðbylgjum fjárstrauma í ólgusjó fjármálaöngþveitis ríkja. Þetta mál, gjaldeyrishöft, hefur hingað til verið algjört tabú í Evrópusambandinu. En sem kunnugt er hefur AGS undanfarið verið að dusta rykið af tabúteppum gjaldeyrishafta á skrifborðum málalengingarskrifstofa sjóðsins. 

Skyldi yfirlýsing Andreas Dombret sækja sér næringu í þá staðreynd að fjármálakerfi evrusvæðisins eru öll í fullkomnum molum (fragmented) og að sum ríki svæðisins eru nú orðin verr sett með fjármál sín í faðmi evrunnar en sum bananalýðveldi heimsins eru með fjármál sín með einræðisherra við völdin? 

Yfirlýsing Andreas Dombret ætti kannski að skoðast með vasaljósum þeim sem eru að kvikna á Írlandi, Portúgal, Grikklandi, Frakklandi og fleiri löndum evrusvæðis þar sem hættan á flótta fjármagns er gríðarleg og þar af leiddu innflæði fjármagns annars staðar sem þvengríður fjármálakerfum á hinn undarlegasta hátt.

Í gær sagði seðlabankastjóri Írlands, Patrick Honohan, frá því að írskir bankar myndu ekki geta fengið frekari miðlungs-tíma fyrirgreiðslu hjá seðlabanka Evrópusambandsins og yrðu því að reiða sig algerlega á skamm-tíma fyrirgreiðslu.
 
Hann bætti því við að það væri ekki hlutverk seðlabanka að bjarga bönkum frá gjaldþroti. Það væri hlutverk ríkisstjórna (skattgreiðenda auðvitað). Patrick Honohan er í því perversa hlutverki að sitja einnig í bankaráði seðlabanka Evrópusambandsins, sem hann þarna var að tjá sig sem talsmann fyrir. 
 
Og AGS varar nú snillingana í seðlabanka Evrópusambandsins við því að hækka stýrivexti enn frekar. En seðlabankinn hækkaði þá fyrir nokkrum dögum, líklega til þess eins að ýta löndum Suður-Evrópu og Írlandi alveg fram af bjargbrún algers hruns. Þetta er líklega önnur heimskulegasta stýrivaxtaákvörðun mannkynssögunnar á eftir þeirri fyrri frá ECB: Heimskulegasti seðlabanki mannkynssögunnar? 

Þetta er allt svo frábært þarna á evrusvæðinu! Hið fullkomna fjármálakerfi! Og regluverkurinn maður, regluverkurinn!
 
OMG! Lánasafn Landsbankans lenti því miður og algerlega óvænt í gjaldeyrishöftum og hruni evrusvæðis. Atburðum sem aðeins geta gerst samtímis einu sinni á hverjum 10 milljörðum ára. 

Þeir sem halda að bankarekstur verði nokkurn tíma aftur eins og hann var fyrir hrun, vaða í villum vegakerfa heimsins.
 
Fyrri færsla

Bloggfærslur 12. apríl 2011

Höfundur

Gunnar Rögnvaldsson
Gunnar Rögnvaldsson

Búseta: Ísland.
Reynsla: 25 ára búseta í ESB og fyrirtækja-rekstur í DK/ESB frá 1985 til 2010. Samband:
tilveraniesb hjá mac.com

Ég er hvorki skráður á Facebook, Twitter, Linkedin né á neinum öðrum "félags-vefjum". Aðsetur skrifa minna er einungis að finna hér á þessari síðu og á tilveraniesb.net og í blöðum og tímaritum

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband