Leita í fréttum mbl.is

Lilja Norðurlanda

Það var athyglisvert viðtal við Lilju Mósesdóttur þingmann í sjónvarpi. Af hverju fannst mér það athyglisvert? Jú þar kom fram eitt sem stóð út úr; hið svo kallaða norræna velferðarsamfélag. Hitt stóð mest norður og niður.  

Mér fannst lýsing Lilju á ríkisstjórninni góð, hana þekkir hún vel. En hún virðist hins vegar ekki þekkja hið svo kallaða norræna velferðarsamfélag sérlega vel. Ef hún gerði það þá gæti hún alls ekki mælt með því sem hvorki þjóðhagfræðingur og nú sem þingmaður í hópi grænkommúnista sem berjast fyrir innlimun Íslands í Evrópusambandið og þar með afnámi fullveldis okkar í ríkisfjármálum (kassinn), peningamálum, utanríkismálum og niðurlagningu flestra annarra vopna fullvalda þjóða.   

Þrír af hverjum fjórum kjósendum í Danmörku eru á framfærslu hins opinbera (75% kjósenda). Annað hvort eru þeir opinberir starfsmenn eða þá að efnahagsleg tilvera þeirra er depóneruð í ríkiskassann, að fullu leyti eða að hluta til. Þessi kassi er smá saman að verða gjaldþrota sökum heimsmets í skattpíningu á þegnana. 

Um 800 þúsund Danir gera ekki neitt. Þessir fá ekki atvinnu og mörgum þeirra var hent út af vinnumarkaði á undaförnum 30 árum. Svo eru þar líka ein milljón ellilífeyrisþegar ofaní þessa 800 þúsund sem gera ekki neitt. Svo koma blessuð börnin sem svo allt of fáir vilja eignast í þessu norrænda velferðarsamfélagi, svo koma ofaní þetta allir námsmenn. Hverjir vinna þá fyrir danska samfélaginu? Jú, um það bil 1,3 milljón manns af 5,4 miljón þegnum danska ríkisins. Allir sjá að þetta getur ekki gengið upp. En það er bara ekki hægt að komast aftur út úr þessari norrænu dópsölu danskra stjórnmálamanna.

Hagvöxtur í Danmörku var sá fimmti lélegasti í OECD á síðustu 10 árum. Á næstu 15 árum verður hann sá næst lélegasti segir OECD. 

Danmörk hrapar neðar og neðar á skala OECD yfir ríkustu þjóðir heimsins. Mikið neðar og hratt. 

Stýrivextir, verðbólga og atvinnuleysi í Danmörku 1978-2008
Á síðustu 33 árum hefur atvinnuleysi í Danmörku bara farið undir 5 prósent í fjögur til fimm ár af þrjátíu og þremur árum. Þetta þýðir að atvinnuástand hefur verðir hörmulegt næstum öll síðustu 33 norrænu árin. Sama eða svipað er að segja um Svíþjóð og Finnland.

Á síðustu 25 árum hefur húsnæðismarkaður Danmerkur hrunið tvisvar. Verðfallið var allt að 40%. Dönsku norrænu helvítisárin frá 1986-1994 buðu dönskum heimilum stundum upp á 1400 nauðungaruppboð yfir dönskum heimilum í hverjum mánuði. Þetta var svona eða svipað árum saman. Engum datt í hug að litla putta yrði lyft fólki til aðstoðar, enda var það ekki gert. Aldrei. Íslendingar þeir sem verið er setja á nauðungaruppboð og í gjaldþrot núna ættu því að vera norrænt þakklátir, það er svona sem norræn velferðarsamfélög virka, öðru hvoru.    

Í svona samfélagi þar sem 75 prósent kjósenda eru á framfærslu hins opinbera mun virkt lýðræði aldrei þrífast. Hvern mun kjósa undan sér kassann? Mjög fáir. Það er því skiljanlegt að Danir sjálfir kalli Danmörku stundum fyrir DDR-Light. Þeir eru dópistar á framfæri dópsölu danska ríkisins. Dópsölumennirnir eru stjórnmálamenn hins norræna velferðarsamfélags. Og þeir vita það.  

Danska skattakerfið er svo flókið að enginn skilur það. Enginn launþegi getur sjálfur reiknað út sinn skatt. Réttarfarsleg niðurstaða skattamála er háð því hvar í landinu málin koma fyrir dóm, því túlkun réttarins á skattalöggjöfinni er háð stað og stund. Hún er svo flókin að enginn einn maður kann löggjöfina alla. Þeir sem eru ríkastir hafa einir efni á skattaráðgjöfum sem þrífast sem stafsstétt eins og mý á mykjuskán. Þetta eru glerísetningarmenn rúðubrjóta ríkisins. Þeir gera samfélagið fátækara því þeir eru hámenntaðir sérfræðingar sem búa ekki til neina velmegun. Þeir eru dæmi um endalaus sníkjudýr sem þrífast svo vel á rúðubrotum norræna ríkisins. Hina litlu og oft fátæku menn í skattréttinum trampar ríkið bara í duftið. Þeir koma aldrei aftur. Þeir hafa ekki efni á því.
 
Svo er stór hluti hins norræna velferðarsamfélags Danmerkur að breytast í auðn, eða það sem Danir sjálfir kalla "Undir-Danmörku". Þetta er að gerast því engin byggðastefna er í landinu og ESB þáttaka Danmerkur hefur rústað dönskum landbúnaði fyrir fullt og allt. En danskur landbúnaður hefur alltaf haft afar mikilvæga samfélagslega þýðingu fyrir alla landsbyggðina og nú er hann að deyja. Landsbyggðin deyr með honum. En Lilja Mósesdóttir heldur kannski eins og margir Íslendingar halda að Danmörk sé ráðhústorgið og strikið með Hennes Martröð. Allt Norður Jótland, öll vesturströnd Jótlands, allt Suður-Jótland, Lolland, Suður-Fjón og Suður-Sjáland eru að breytast í samfélagslega auðn í faðmi Evrópusambandsins. 

Í alþjóðlegum skoðanakönnunum segjast Danir vera mjög ánægðir með líf sitt. Það er ofur skiljanlegt því í samfélagi þar sem það skiptir engu máli hvor þú ert á kassanum eða í atvinnu, þar vita allir innst inni að þeir hafa náð eins langt og hægt er að komast. Því er best að vera bara ánægður með það. Svona eru DDR-Light ríki þangað til þau fara á hausinn. Velmegunin sem býr til velferðina handa almenningi hverfur auðvitað að lokum. 

Þetta er auðvitað allt saman mjög heppilegt fyrir norræna stjórnmálamenn. Að koma kjósendum á ævilanga dópneyslu hins opinbera. Sjónarmið vinstri afla á Íslandi eru því ofur skiljanleg. Þeir vilja auka dópsölu ríkisins. Stækka og byggja við, því þá eru þeir kosnir aftur og aftur. En þetta er því miður leiðin til fátæktar og ánauðar fyrir allan almenning. 

Að lokum: Það er ekki lengur til neitt sem heitir "norrænt velferðarsamfélag". Það dó inni í Evrópusambandinu sem græni kommúnistaflokkur Íslands og geðdeild Samfylkingarinnar eru nú að troða Íslandi inn í. Ef menn vilja norrænt velferðarsamfélag þá er hægt að finna það í sögubókum eða í Noregi. En það krefst mikillar olíu og hún mun aldrei finnast á vakt kommúnistaflokks Lilju. 

Jú það var eitt í viðbót í vitalinu við Lilju Mósesdóttur sem stóð upp úr. Hún er orðin að næstum ekki neinu. Og hún veit það. Hún er að verða einskonar Björgvin Sigurðsson, prúðuleikari Samfylkingarinnar sem sat fast á meðan hann, að eigin sögn, gat ekki gengt embætti sínu sem bankamálaráðherra sökum eign aumingjaskapar. Hann fékk engar upplýsingar, sagði hann. Hann var sniðgenginn af hinum. Af hverju sagði hann þá ekki af sér strax? Af hverju segir Lilja ekki af sér strax? Hvað er að? Ég myndi gera það. 

En ég er íhaldsmaður
 
Fyrri færsla
 
 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Gunnar.

Þetta er beitt færsla hjá þér, og ég held að Lilju væri hollt að lesa hana.

Það er ekki nóg að setja sér háleit markmið, ef framkvæmdin er þannig að smán saman vinnur veruleikinn á þessum markmiðum, og þau verða að engu.

Með fullri virðingu fyrir ykkur hægri mönnum, þá hefur ykkur ekki tekist betur til en það, að þið settuð Vesturlönd á hausinn.  Og sköpuðu jarðveg fyrir upplausn og byltingar.  Blóðsúthellingar ef fram fer sem horfir ef skuldum auðmanna verði komið á blásaklausan almenning.

Ég hef lesið ýmislegt eftir Lilju, og ég les skrif þín af athygli.  Persónulega tel ég að ef hægt væri að tengja þau saman, þá værum við komin með leiðina út úr ógöngunum, en það er vissulega aðeins mitt mat.

Allavega byggir enginn upp norrænt velferðarsamfélag með þeim aðferðum sem þú bendir svo réttilega á að hafa endað í ógöngum.  Og það byggir heldur enginn upp samfélag sem markað er af blóðugum stéttarátökum.  Það var niðurstaða Churchills eftir  langa og viðburðarríka ævi.  Og hann var ljóngáfaður mælskumaður.

Ég held því að þið Lilja hefðuð gott af því að kynna ykkur forsendur hvors annars og sjá hvort öðru hvoru ykkar tækist ekki að kveða Lilju, sem væri þess verð að vera lesin.

Lilju sem snilldin fellst ekki í gagnrýni á "hina", heldur mótun hugmyndafræði sem gengur í mannlegu samfélagi en ekki aðeins á pappírnum.  

Núna er lag Gunnar því almenningur er aftur farinn að kalla á hugmyndir, ekki útburð og úrburðarvæl líkt og íslenskir stjórnmálamenn bjóða upp á í dag.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 1.10.2010 kl. 09:23

2 identicon

Blessaður Gunnar

Mér hefur nú fundist Sjálfstæðisflokkurinn vera hálfgerður kommúnistaflokkur, með stöðug ríkisafskipti og Stalínískar stórframkvæmdir. Ég er einsog þú veist sammála þér um "Norræna velferðarsamfélagið". Við þekkjum það báðir af eigin raun.

Björn Jónasson (IP-tala skráð) 1.10.2010 kl. 13:32

3 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Þakka ykkur fyrir
 
Ómar: gott innlegg frá þér. Bendi á að Churchill var mikill íhaldsmaður. Ef við hefðum verið íhaldsmenn á síðustu árum þá værum við ekki í þessum vandræðum núna. 
 
Björn: já, það þurfti að hýða Sjálfstæðisflokkinn (og kjósendur eru reyndar búnir að því) fyrir að hafa látið ríkisútgjöldin í samstarfi við Samfylkinguna blása út í norrænar hæðir á sinni vakt . Þá var Sjálfstæðisflokkurinn ekki íhaldsafl, því miður.
 
En tilraun Sjálfstæðisflokksins til að feta í fótspor Norðmanna með nýtingu orkuauðlinda þjóðarinnar ættu menn ekki að vanmeta. Ég bendi þó á í leiðinni að fyrsta stóriðja á Íslandi, síldarvinnslan, fór af stað fyrir tilstilli einkaframtaks og seinna varð þetta einn af hornsteinum Sjálfstæðisstefnunnar. Svipað er um landbúnað að segja þó svo að hann yrði ekki dæmigerð stóriðja. 
 
Fjármálageirinn sem dó 2008 var ekki íhaldssamur, því miður. Hann var mikil daðurdúkka og taflmaður hins innri manns Samfylkingarinnar, eða - eins konar afturkreistingur frá misheppnuðum og gjaldþrota Sovétisma vinstri manna með vanvita innanborðs. Eins konar "come back" tilraun sófa komma sem urðu krónískir taparar í pólitík við fall Sovéts.  
 
Hér er smá:
 

Réttum 7 vikum áður en bankakerfi Íslands hrynur til grunna var eftirfarandi sagt á íslensku

Frambjóðandi Samfylkingarinnar 2009 

Þann 5. ágúst 2008 sagði bankamálaráðherra Íslands, yfirmaður Fjármálaeftirlitsins, viðskiptaráðherra Samfylkingarinnar og endur frambjóðandi Samfylkingarinnar, Björgvin G. Sigurðsson, eftirfarandi um bankakerfi Íslands:

"Auðvitað skortir ekki úrtölur eða þá sem telja sig knúna til að tala útrás og fjárfestingarævintýri Íslendinga erlendis niður. Þannig eru nú hlutirnir einu sinni og því er það mikilvægt nú þegar hægir tímabundið á útrásinni vegna þrenginga á erlendum mörkuðum að halda frábærum árangri þessara flaggskipa atvinnulífsins okkar ríkulega til haga. Þetta eru okkar voldugustu fyrirtæki og nokkrar af helstu undirstöðum efnahagskerfis okkar til lengri tíma". 

Gunnar Rögnvaldsson, 1.10.2010 kl. 21:51

4 identicon

Er þetta virkilega vinstri og hægri? Er þetta ekki spurning um common sense, siðferði, dugnað, frelsi og alls konar?

Björn Jónasson (IP-tala skráð) 1.10.2010 kl. 22:45

5 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Ekki alls konar Björn. "Alls konar" er ekki nothæft í neitt.

Nei, þetta er ekki bara vinstri og hægri. Inn í þetta blandast upp-og-niður; þ.e. ESB málið og það gerir alla áttavillta. En ESB málið er stærsti friðarspillir og ömurleika-generator samfélagsins.  Það stoppar alla þá lækningarvinnu sem er svo nauðsynleg núna. ESB málið er rótin að öllu því ömurlega sem er að gerast. Það hindrar lækninguna eftir áföllin og leggur lok á varnir samfélagsins. Það eyðileggur Ísland.

Út með ESB umsóknina

Út með AGS

Út með ríkisstjórnina

Sendið alla Samfylkinguna á ruslahaugana og Steingrím J. Sigfússon þar með.

Svo þarf að stokka VG upp og koma þeim í eina sæng með Sjálfstæðisflokknum. Svo þarf að fara í gömlu vinnufötin aftur.

Kosningar!    

Gunnar Rögnvaldsson, 1.10.2010 kl. 22:59

6 identicon

Hvaða Sjálfstæðisflokki?

Björn Jónasson (IP-tala skráð) 1.10.2010 kl. 23:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Gunnar Rögnvaldsson
Gunnar Rögnvaldsson

Búseta: Ísland.
Reynsla: 25 ára búseta í ESB og fyrirtækja-rekstur í DK/ESB frá 1985 til 2010. Samband:
tilveraniesb hjá mac.com

Ég er hvorki skráður á Facebook, Twitter, Linkedin né á neinum öðrum "félags-vefjum". Aðsetur skrifa minna er einungis að finna hér á þessari síðu og á tilveraniesb.net og í blöðum og tímaritum

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband