Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, september 2009

10 ára evruaðild færir Finnlandi 7,2% samdrátt og fastgengisstefna Danmerkur jafnast á við bankahrun

Úr glugganum í viku 40 
 
Miðvikudagur 30. september 2009

Uppgjör þjóðhagsreikninga í Danmörku fyrir 2.fj. 2009
Þjóðarframleiðsla Danmerkur dregst áfram saman. Hagstofa Danmerkur birti loksins í morgun tölur yfir landsframleiðslu í Danmörku á öðrum fjórðungi þessa árs. Uppgjörinu seinkaði vegna lengri frests á uppgjöri og greiðslu virðisaukaskatts. Hrunið í þjóðarframleiðslu Danmerkur varð hvorki meira né minna en 7,2% á þessum öðrum fjórðungi miðað við sama tíma á síðasta ári. Samdráttur á fyrstu sex mánuðum ársins miðað við í fyrra var því 5,3%. Þetta er næstum eins slæmt og á Íslandi en þar var samdrátturinn 5,5% á sama tímabili. Samdráttur á milli 1. og 2. fjórðungs innan ársins varð 2,6% í Danmörku. Mikið fall varð í fjárfestingum,  einkaneysla minnkaði en neysla hins opinbera jókst. Fallið í þjóðarframleiðslunni þýðir að hver einasti íbúi Danmerkur hafi tapað tæpum 20.000 dönskum krónum af tekjum því þjóðartekjur minnkuðu í heild um 105 miljarða danskar krónur. Samdráttur í landsframleiðslu Danmerkur hefur nú staðið stanslaust yfir í 6 ársfjórðunga eða frá 1.fj. 2008. OECD spáir Danmörku 4. lélegasta hagvexti af 30 löndum samtakanna frá 2011-2017. Tölur OECD segja einnig að Danmörk hafi hrapað um 6 sæti á listanum yfir ríkustu þjóðir heimsins, niður í 12. sæti og mun hrapa þar enn neðar ef þessi spá OECD fyrir 2011-2017 gengur eftir; Hagstofa Danmerkur | Cepos

Gríska blaðið Kathimerini skrifar að sökum komandi kosninga og hins pólitíska álits hafi gríska ríkisstjórnin læðst eftir krókaleiðum að dýru lánsfjármangi á markaði sem fyrst og fremst er notaður til fjármögnunar skammtímaskulda til nokkura daga eða vikna (ECP). Þetta gerði ríkið til að geta endurnýjað fjárskuldbindingar sínar og hafi þar með einnig bætt við skuldir ríksins langt umfram það sem sem látið hefur verið uppi. Þessi krókaleið kostar mun meira en hefðbundnar leiðir ríkisins að fjármagni. Lántökur gríska ríkisins eru ekki 40 miljarðar evrur á þessu ári eins og látið er uppi, heldur eru þær 59,4 miljarðar evrur. Blaðið segir að skuldastaða gríska ríkisins sé verri en upp er gefið í opinberum tölum og heilbrigði ríkisrekstrarins verra en vænst var; Kathimerini

Hagspá seðlabanka Finnlands
Seðlabanki Finnlands heggur niður væntingar og lækkar landsframleiðsluspá Finnlands alla leið niður í 7,2% samdrátt fyrir þetta ár. Engum vexti er spáð í Finnlandi á næsta ári. Bankinn hækkar þó 2011 hagspá sína fyrir landið. Þar spáir seðlabankinn 1,6% hagvexti miðað við 2010. Sem sagt, þrátt fyrir evruaðild Finnlands í öll þessi ár mun þjóðarframleiðsla Finnlands falla rosalega stórt um 7,2% á þessu ári, standa í stað á næsta ári og svo vaxa um 1,6% á þarnæsta ári. Þetta er ekki mikill vöxtur en stórt hrun. Seðlabanki Finnlands trúir að verðbólga verði svo að segja engin á næstu árum. Því er ég meira en sammála. Svo seint sem í nóvember síðastliðnum spáði OECD 0,6% hagvexti í Finnlandi á árinu 2009. Spá seðlabanka Finnlands hefur því fallið 1300% miðað við spá OECD fyrir aðeins 11 mánuðum; Bank of Finland

Útúrdúr; það er undarlegra þetta með prósentufall þjóðarframleiðslu en gengisfall myntar eða jafnvel gengisfall hlutabréfa. Gengi eins gjaldmiðils gagnvart öðrum gjaldmiðli getur ekki fallið um meira en 100% án þess að peningurinn verði að engu. Einskis virði. Enginn hefur ennþá séð neikvæða mynt. Hún er ekki til því þá væri hún skuld. En það er öðruvísi með breytingar í hagvexti, breytingarnar geta orðið neikvæður í það óendanlega á milli tímabila.
 
Fleiri stuttar fréttir í glugganum 
 
Fyrri færsla:

Óði hattarinn í Evrópusambandinu

Sannleikurinn um efnahagsmál Írlands

"Óði hattarinn sagði Lísu í Undralandi að orð hafa þá meiningu sem þú vilt að þau hafi. Óði hattarinn hefði verið eins og heima hjá sér í Evrópusambandinu því þar fær orðið “nei” þýðinguna “já” og pólitískum áróðri er básúnað út sem upplýsingum. Ef Írland kýs “nei” og hafnar þar með Lissabon sáttmálanum [nýju stjórnarskrá ESB] mun ESB halda áfram og Írland mun áfram vera hluti af ESB. En kjósi þeir já munu áhrif Írlands innan ESB verða enn minni en þau eru í dag."

Þetta er úr grein Derek Scott sem var efnahagsráðgjafi forsætisráðherra Bretlands, Tony Blair, frá 1997 til 2003. Öll grein Derek Scott úr Wall Street Journal er hér á íslensku: Sannleikurinn um efnahagsmál Írlands 

Fyrri færsla


Vika 39 | Þrjár milljónir óseldra íbúða á Spáni núna? Barroso formaður Evrópusambandsins "er spilltur"

Stuttar en oft daglegar fréttir úr Glugganum á www.tilveraniesb.net
Í glugganum birtast oft daglega stuttar fréttir
 
 
VIKA 39 2009
VIKULEG SAMANTEKT   
 
Föstudagur 25. september 2009

Ein yfirskrift G20 fundarins í Pittsburgh í Bandaríkjunum er sú að framfarir hafi orðið í sambandi við “umbætur á Alþjóða Gjaldeyrissjóðnum” (AGS) á þessum fundi. Að sögn fyrrverandi yfirhagfræðings AGS, prófessor Simon Johnson, þýða þessar umbætur aukið vægi atkvæða nýmarkaðslanda á kostnað ríkra landa. En menn ættu þó ávalt að muna að Vestur-Evrópulönd hafi yfirgnæfandi vægi í AGS og þá helst af “sögulegum ástæðum”. Simon segir að Frakkar og Bretar standi í vegi fyrir skynsamlegum umbótum á AGS og séu hræddir við að missa sæti sín í framkvæmdastjórn AGS. Simon Johnson segir að réttast væri að ganga bara hreint til verks þannig að AGS væri hreinlega flutt til ESB Brussel. Simon hefur áður sagt eftirfarandi um AGS;  “The managing director of the I.M.F. is very powerful, with a great deal of authority and discretion, and has always been a European — in effect, appointed by European governments to represent their interests". Þýðing; "Framkvæmdastjóri Alþjóða Gjaldeyrissjóðsins - sem er mjög valdamikil staða og sem veitir mikil völd og leynd - hefur alltaf verið Evrópubúi - í reynd útnefndur af ríkisstjórnum í Evrópu til að vera fulltrúi hagsmuna ríkisstjórna í Evrópu"; Baseline Scenario | Bloggfærsla

Spánn fellur í efnahagslega
Lánsfé til spænskra fyrirtækja lætur á sér standa þrátt fyrir 10 ára aðild Spánar að myntbandalagi Evrópusambandsins. Í viðtali við breska blaðið The Telegraph segir Jamie Dannhauser hjá Lombard Street Research að tölur seðlabanka myntbandalagsins sýni að 60% fyrirtækja á Spáni hafa verulega skertan eða engan aðgang að nýju lánsfé og er lánabeiðnum þeirra beinlínis synjað alveg. Dannhauser segir að Spánn eigi við svipuð efnahagsvandamál að etja og Bretland en munurinn sé hinsvegar sá að Spánn hefur ekki lengur sjálfstæða mynt eins og Bretland hefur og getur því ekki látið neina sjálfstæðra mynt undir eigin peningapólitík og gengisstefnu taka á sig versta skell kreppunnar. Blaðið heldur því fram að Spánn sé ekki í kreppu lengur heldur sé landið fallið ofan í eiginlega “depression” sem er ennþá alvarlegra ástand en það sem við í daglegu tali köllum "kreppu" - og sem mig skortir gott og lýsandi íslenskt orð yfir, því miður. 

Breytingar á útlánum til fyrirtækja á Spáni (non financial sector)
Ný útlán til heimila og fyrirtækja úr bankakerfi Spánar hafa verið fallandi eða stopp síðastliðið ár (mynd; Edward Hugh, Euro Watch). Eini geirinn á Spáni sem eykur við lántökur (skuldasöfnun) er hið opinbera sem þarf að fjármagna ríkisútgjöld og skuldir. En hvort og hvenær seðlabanki ESB mun verða neyddur til að hætta að fjármagna spænska ríkið eru ýmsir farnir að velta fyrir sér. 18,5% atvinnuleysi var komið á Spáni í júlí; Telegraph | Euro Watch 

Fimmtudagur 24. september 2009

Þróun landsframleiðslu Írlands á milli ára
Hrunið í landsframleiðslu Írlands á milli ársfjórðunga stoppaði á öðrum fjórðungi ársins miðað við þann fyrsta. Staðan á milli fyrstu tveggja fjórðunga þessa árs er því óbreytt. Á milli ára féll landsframleiðsla Írlands um 7,4% á þessum öðrum fjórðungi ársins sem hagstofa Írlands tilkynnti um í dag. Á fyrsta fjórðungi ársins hrundi landsframleiðsla Írlands um 9,3% á milli ára. Hrunið í landsframleiðslu Írlands á fyrstu sex mánuðum ársins er því 8,35% á milli ára. Sé þetta borið saman við samdrátt landsframleiðslu á Íslandi á fyrstu sex mánuðum ársins - hann var 5,5% - sést að samdráttur í landsframleiðslu Írlands var um helmingi meiri á sama tíma. Útflutningur frá Írlandi jókst um 0,2% á milli fjórðunga eftir að hafa dregist saman í samfleytt 18 mánuði. Það verður athyglisvert að fylgjast með því hvernig ganga muni að ná írska kafbátnum upp frá hafsbotni aftur; Hagstofa Írlands | Bloomberg

Landakort yfir Holland
Stærsti niðurskurður ríkisútgjalda í sögu Hollands mun verða að raunveruleika ef ríkisstjórn Jan Peter Balkenende fær að ráða. Forsætisráðherrann boðar hvorki meira né minna en 20% niðurskurð á útgjöldum hollenska ríkisins, hækkun ellilífeyrisaldurs upp í 67 ár, niðurskurð á stuðningi ríkisins til fjölskyldna og heimila, takmörkun á fjölda innflytjenda og ættingjum þeirra til Hollands. Þingmaðurinn Geert Wilders leggur til 1000 evru skatt á konur með höfuðbúnað múslíma á almannafæri. Þjóðarframleiðslu Hollands er spáð 5% samdrætti á þessu ári, 8% atvinnuleysi mun renna upp, skuldir ríkisins munu vaxa um 50% og verða 66% af þjóðarframleiðslu landsins. 

Í engu landi Evrópusambandsins var eins mikið af fólki í hlutastarfi eins og í Hollandi, samkvæmt seinustu tölum hagstofu ESB. Af öllum sem höfðu vinnu í Hollandi voru 46,8% í hlutastörfum árið 2004. Samkvæmt tölum OECD frá 2006 voru 66% kvenna í Hollandi í hlutastörfum sem gerir að verkum að fjöldi vinnustunda á hvern vinnandi þegn í Hollandi var sá lægsti meðal allra landa OECD. Árið 2006 vann hver lifandi Íslendingur að meðaltali um 1530 tíma árinu en hver Hollendingar vann aðeins 1007 tíma á því ári. Á sama ári voru hæstu jaðartekjuskattar láglaunafólks í Hollandi 55%, eða þeir fimmtu hæstu í 30 löndum OECD. Há tíðni hlutastarfa gæti hugsanlega útskýrt frekar lágar uppgefnar opinberar atvinnuleysistölur frá Hollandi undanfarin mörg ár. Eitthvað meiriháttar hlýtur að vera að fyrst skera á niður útgjöld hollenska ríkisins um heil 20%. Þar að auki þarf Holland af gæta þess að brjóta ekki í bága við reglur myntbandalags Evrópusambandsins um að halli á rekstri ríkissjóðs megi ekki fara yfir 3%; Le Monde | OECD

Interflug til fyrra himnaríkis DDR
“Þetta snýst ekki um efnahagsmálin kjáninn þinn.” Það eru aðeins nokkrir dagar til kosninga í Þýskalandi en kjósendur virðast ekki hafa áhuga á málum eins og 5 miljón atvinnuleysingum á næsta ári, ríkisskuldum yfir 80% af þjóðarframleiðslu, fækkunar ungs fólks og minnkunar vinnuafls sem mun bryðja grundvöll tekna ríkissjóðs framtíðarinnar í mél og á sama tíma gangsetja tímasprengju undir almannatrygginga- og heilbrigðiskerfinu í þessu stærsta hagkerfi Evrópusambandsins, sem eldist hraðar en nokkuð annað í Evrópu. Nei, kjósendur hafa mestan áhuga á lágmarkslaunum og að þak sé sett á laun til yfirmanna - og auðvitað á persónulegum vinsældum frambjóðenda. 

Ungir innflytjendur gætu verið partur lausnar á yfirvofandi öldrunarvandamálum þýsku þjóðarinnar, en svo er ekki því þeir innflytjendur sem koma til Þýskalands eru fjórum sinnum líklegri til að detta út úr menntaskóla, snúa sér tvöfalt oftar að glæpastarfsemi og verða tvöfalt oftar atvinnulausir en þeir innfæddu. “Við erum land sem hefur aldrei gert upp á milli innflytjenda”, segir Wolfgang Schäuble innanríkisráðherra. En er þá ekki bara kominn tími til að gera einmitt það, svona áður en allt fer á hausinn og enginn verður þar eftir til að borga brúsann?; WSJ | Á hvorn veginn féll Berlínarmúrinn?

Miðvikudagur 23. september 2009

Við Tatra fjöll
Hagnaður banka í Slóvakíu á fyrsta helmingi ársins dróst saman um helming. Hagnaður minnkaði svona mikið fyrst og fremst vegna þess að Slóvakía tók upp evru sem gerði rekstur bankana dýrari og veltan féll mikið vegna tekjumissi af gjaldeyrisviðskiptum. Efnahagskreppan kemur svo í öðru sæti segir Stefan Frimmer talsmaður stærsta banka Slóvakíu, Slovenská Sporiteľňa. Ferðamannaiðnaður hefur einnig liðið undan upptöku evru í Slóvakíu. Nágrannar með aðra mynt s.s. frá Póllandi, Ungverjalandi og Tékklandi koma síður í heimsókn eftir að Slóvakía skipti um mynt hjá sér.

Landsframleiðsla Slóvakíu dróst saman um 5,6% á fyrsta ársfjórðungi ársins miðað við síðasta ár og um 5,3% á öðrum ársfjórðungi, einnig miðað við síðasta ár. Samdráttur í landsframleiðslu Slóvakíu á fyrstu sex mánuðum ársins varð því næstum sá sami og hann varð á sama tíma á Íslandi (5,5%). Atvinnuleysi í Slóvakíu mældist 12% í júlí og var það sjötta mesta í Evrópusambandinu. Meira atvinnuleysi í júlí mældist aðeins í þessum löndum ESB - Spánn 18,5% - Lettland 17,4% - Litháen 16,7% - Eistland 13,5% - Írland 12,5%; Slovak Spectator hér | og hér | tengt: Evruþátttaka lækkar lánshæfni Slóvakíu

Rekstrarleyfi fimm grískra tryggingafélaga sem tryggja 1,2 milljón viðskiptavini í Grikklandi voru inndregin í gær. Félögin gátu ekki uppfyllt lágmarkskröfur um eiginfjármagn. Saksóknari var kallaður til eftir að eitt félagið reyndi að leysa kröfur um eiginfjármagn með 550 milljón evru gúmmítékk; Ekathimerini

Angela Merkel kanslari Þýskalands
Hinum efnahaglega örvunarpakka þýsku ríkisstjórnarinnar virðist ætla að takast að tryggja endurkjör ríkisstjórnar Angelu Merkel þann 27. september næstkomandi. En efnahagsráðgjafastofnun þýsku ríkisstjórnarinnar, IWH Institute, segir að sá bati sem örvunarpakkanum tókst að ná fram muni einmitt ekki duga til mikils annars er að tryggja sigur ríkisstjórnarinnar í kosningunum. Stofnunin segir að atvinnuleysi muni hækka hratt eftir kosningar og neysla muni dragast saman í takt við að örvunarpakkar ríkisstjórnarinnar enda líf sitt. Svo virðist sem 1,5% eyðsla þjóðartekna Þýskalands það sem af er ársins hafi keypt ríkisstjórninni 0,3% hagvöxt á öðrum fjórðungi þessa árs miðað við þann fyrsta, eftir að landsframleiðsla Þýskalands er hrunin um 6,4% (fj1) og 7,1% (fj2) á milli ára eða um 6,75% á fyrsta hálfa árinu miðað við fyrsta helming síðasta árs. 

Búist er við að örvunarpakkinn nái einnig að kreista fram 0,8% vöxt á þriðja ársfjórðungi ársins miðað við þann fyrri. Þá væri landsframleiðsla ársins í Þýskalandi ekki hruninn nema um þau ca. 6% á milli ára eins og ríkisstjórnin sjálf gerir ráð fyrir. Þetta er þó versta efnahagshrun meiriháttar lands í heiminum öllum. Engin stór lönd virðast ætla að fara eins illa út úr kreppunni eins og Þýskaland mun gera.

En nú eru örvunarpeningarnir búnir og IWH segir að næsta dýfa þýska hagkerfisins taki við (double dip recession). Fjármálaráðherra Þýskalands Peer SteinbrückFjármálaráðherrann Peer Steinbrück segir að það versta sé ekki enn búið í Þýskalandi. Um 70% allra vinnandi manna í Þýskalandi vinna hjá litlum og millistórum fyrirtækjum. Þessi fyrirtæki óttast að lánveitingar banka þorni upp eftir kosningar og að þau lendi því í lánsfjárþurrð. Samtök þýskra banka (BDB) segja að það muni taka Þýskaland 3-4 ár að ná landsframleiðslunni upp aftur eftir samdráttinn. Angela Merkel hefur áður sagt að Þýskaland þoli ekki að taka á sig meiri skuldir vegna kreppunnar því öldrunarvandamálum  þýska hagkerfisins mun bráðum slá ofaní hagkerfið af fullum þunga. "Það er ekki hægt að leggja meiri skuldir á komandi kynsjóðir því þær verða svo fámennar" sagði kanslarinn - fámennar sökum þess hve þýskar konur hafa fætt fá börn marga undanfarna áratugi; Bloomberg

Þriðjudagur 22. september 2009

Berlingske: evra bremsar atvinnusköpun
95.000 færri Finnar höfðu atvinnu í ágúst mánuði miðað við ágúst í fyrra. Atvinnuleysi mældist 8,8% í Finnlandi í ágúst og atvinnuþáttaka hafði lækkað í 68,7% sem hlutfall af heilarvinnuafli landsins á aldrinum 15 til 64 ára sem var í atvinnu. Loforð síðustu ríkisstjórnar Finnlands um að skapa 100.000 ný störf á árunum 2003 til 2007 báru þann árangur að ríkisstjórninni tókst ekki að búa til eitt einasta nýtt starf á því tímabili. Frederik I. Pedersen sem er hagfræðingur hjá danska Arbejderbevægelsens Erhvervsråd og hinn danski meðlimur í ELNP (European Labour Network for Economic Policy), sem er hugveita tengd verkalýðsfélögum í ESB, sagði í fyrra að eitt af Lissabon 2000 markmiðunum Evrópusambandsins hafi verið, og sé enn, að ESB væri orðið samkeppnishæfasta hagkerfi heims árið 2010. 

Til að svo gæti orðið þá þyrftu meðal annars 70% af öllu fólki á aldrinum 15-64 ára að hafa atvinnu. 60% af konum þyrftu að hafa atvinnu og 50% af báðum kynjum á aldrinum 55-64 ára þyrftu að hafa atvinnu. Það er ekkert útlit fyrir að þetta markmið náist, segir Pedersen. Það eru ekki einu sinni tveir af hverjum þremur, eða 66% á aldrinum 15-64 ára, sem eru í atvinnu í ESB núna. Aðalástæðan fyrir því að svona er komið, sagði Frederik I. Pedersen, er að efnahagsskilyrði voru óhagstæð árin 2002 til 2005 og þá stoppaði alveg allur vöxtur í atvinnutækifærum og atvinnu almennt. En aðalástæðan fyrir að efnahagsskilyrði urðu óhagstæð var sú að peningapólitík ECB var of hörð. Löndin þorðu ekki að gera neitt til að auka atvinnu og hagvöxt vegna þess að þau voru hrædd við að lenda í vandræðum með að uppfylla ESB-kröfuna um að það megi ekki vera meiri halli á opinberum útgjöldum en sem nemur 3% af þjóðarframleiðslu ; Hagstofa Finnlands | Helsinki Times | Berlingske

Útflutningstekjur Þýskalands drógust saman um 23,5% á fyrstu 6 mánuðum ársins miðað við sama tímabil á síðasta ári. Sala til Rússlands féll um 38,9%. Sala til Bretlands féll um 27,8% og um 26,5% til Bandaríkjanna. Sala til annarra ESB landa féll um 24,3% og um 22,7% til annarra evrulanda. Innflutningur til Þýskalands féll um 18,2% á tímabilinu miðað við síðasta ár; Hagstofa Þýskalands

Fjármálaráðherra Þýskalands, Peer Steinbrück, segir að bankakerfi Þýskalands sé ennþá í mikilli kerfislægri hættu vegna fylkisbankakerfis Þýskalands (Landesbank system) sem er í eigu fylkisríkisstjórna Þýskalands. "Það þarf að hraða enduruppbyggingu bankakerfisins"; Bloomberg

2100 miljarða evrulán til atvinnuhúsnæðis í ESB og þar af 200 miljarðar með veði í fjárstreymi atvinnuhúsnæðis (CMBS) munu reynast atvinnuhúsnæðiseigendum og lánastofnunum erfið viðureignar þegar að endurnýjun og framlengingu þessara skuldbindinga kemur. Í Bretlandi hafa aðilar markaðarins þegar vakið athygli seðlabanka Bretlands á þessu máli því mikið af lánunum eru nú þegar komin fram yfir umsaminn tíma og því lent í vanefndum í bankakerfi Bretlands. Endurnýjun lánanna í t.d. Bretlandi valda áhyggjum því útlit er fyrir að þessi hluti fasteignamarkaðar verði þar með neivætt eigiðfé fram til 2017 og í 120 miljarða punda fjársvelti; FT

Raunstýrivextir seðlabanka ESB hækka í verðhjöðnun á Spáni
Þrjár milljónir óseldra íbúða á Spáni núna? Þetta er niðurstaða eins fremsta greiningarfyrirtækis á sviði fasteigna á Spáni, R. R. de Acuña & Asociados í Madríd. Það eru 1,67 milljón íbúðir og hús til sölu á spænska fasteignamarkaðinum. Þessu til viðbótar koma 327.000 eignir í bygginu. Þessu til viðbótar koma svo 1,098 milljón eignir sem búið er að veita 53 miljarða evru lán útá, en sem eru ekki ennþá settar í gang í byggingu, en verður þó að vera lokið við innan næstu 24 mánaða, samkvæmt byggingareglum Spánar. Bankar hafa sem sagt þegar veitt 53 miljarða evru lán til byggingaverka sem eru ekki ennþá hafin. 

Raunvextir húsnæðislána hækka í verðhjöðnun á Spáni
Svo í klemmu hjá aðilum fasteignamarkaðar á Spáni - söluaðilum, bönkum, sparisjóðum og fjárfestum - eru 3,1 milljón stykki fasteignir sem allar eru að leita að kaupendum. Um 75% af núverandi byggingaverktökum á Spáni munu verða gjaldþrota á næstu 5 árum. Jafnvel sú tala er of lágt metin ef ríkisstjórn Spánar er að verða þurrausin af peningum til örvunar hagkerfisins. Þeim upplýsingum hefur þegar verið lekið að 700.000 manns munu bætast við röð atvinnulausra á Spáni í október og nóvember ef ríkisstjórninni tekst ekki að finna fjármagn til að framlengja þeim örvunaraðgerðum sem nú þegar eru komnar í framkvæmd. Sumir hagfræðingar gera ráð fyrir 25% atvinnuleysi á Spáni um næstu páska, um 30% og þar yfir við áramótin 2010/11 og óvíst er hvort talan muni stoppa þar; AFOE | Myndir Variant Perception; raunvextir húsnæðislána og raunstýrivextir í verðhjöðnun á Spáni | Tengt efni frá Variant Perception The Hole in Europe's balance sheet | eldri frétt Kranarnir á Spáni benda mest í átt að gjánni | bloggfærsla um þetta efni.

Atvinnuleysi í Svíþjóð frá 1980 til 2008
Mun ESB aðild Svíþjóðar hjálpa Svíum í kreppunni núna? Því hefur svo oft verið haldið fram á Íslandi að aðild Svíþjóðar að ESB hafi hjálpað Svíþjóð í stóru bankakreppunni þar í landi árið 1992. En þá féll landsframleiðsla Svíþjóðar aðeins um 1,3% á ári í þrjú ár. Samkvæmt fjármálaráðherra Svíþjóðar, Anders Borg, er kreppan núna versta efnahagskreppa Svíþjóðar í okkar lifitíma. Þetta sagði hann þegar fjárlög Svíþjóðar voru kynnt á dögunum. "Dramatísk aukning" verður í atvinnuleysi sem mun fara upp í 11,4% á næsta ári. Samdráttur í landsframleiðslu mun verða 5,4% á þessu ári í heild, en búist er við 0,6% hagvexti á næsta ári. En þetta er þó minni samdráttur en verður í evrulöndunum Þýskalandi og Finnlandi á þessu ári. Svo varla er hægt að segja að evruaðild hefði hjálpað Svíum hér. Sennilega hefði kreppan einungis orðið ennþá erfiðari fyrir Svía hefðu þeir haft evru sem gjaldmiðil, því sú er reynsla Finna núna í keppunni. Þar var samdráttur landsframleiðslu á fyrstu 6 mánuðum ársins miklu meiri (-8,5%) en í Svíþjóð (-6,95%) og því miklu verri í báðum löndum en á Íslandi sem er ekki með í ESB (-5,5%). Svo virðist sem atvinnuleysi í Svíþjóð (sjá mynd byggða á gögnum frá AGS) hafi aldrei lækkað verulega aftur eftir að þeir gengu í ESB í byrjun ársins 1995. Árin 1981 og 1982 starfaði ég í Svíþjóð en þá var atvinnuleysi þar um 3% og hélst svo lágt og jafnvel enn lægra frá 1980-1990, auðvelt var þá að fá þar atvinnu; Berlingske

Mánudagur 21. september 2009

Samdráttur í magni heimsviðskipta í kreppunni 1930 og núna
Saga tveggja kreppuferla. Hagfræðingarnir Barry Eichengreen og Kevin H. O’Rourke hafa tekið saman merkilegan samanburð á kreppuferlinu núna miðað við hrun stóru kreppunnar sem hófst árið 1929 (the Great Depresson). Þeir uppfæra þennan samanburð öðru hvoru. Mynd; samdráttur í magni heimsviðskipta þá og núna. Í greininni sést að ekki er hægt með öryggi að gera ráð fyrir að tímabundinn bati augnabliksins leiði til varanlegs bataferlis og að samdrætti sé þar með lokið að fullu. Stóra hrun-ferlið niðurávið í 1929 kreppunni var alls ekki bein lína niður á við. Þar komu fyrir 3-4 stórar uppsveiflur sem þó aðeins entust í 4-6 mánuði þar til hinn stóri yfirgnæfandi trend sveiflunnar niður á við náði yfirhöndinni aftur; A Tale of Two Depressions

Nei þýðir nei segir í lesendabréfi á Jyllands Posten í dag. "Af hverju er svona erfitt fyrir ESB að skilja nei." Fyrst sögðu Frakkar nei, svo sögðu Hollendingar nei við þessari nýju stjórnarskrá ESB. En svo kom ESB og lagði make-up á stjórnarskránna og gaf henni nýtt nafn, Lissabon sáttmálinn. En þetta gékk heldur ekki í gegn á Írlandi, þeir sögðu nei við smínkinu. En heldur ekki á Írlandi hlustaði ESB á fólkið. Írar eru því látnir kjósa aftur um nákvæmlega það sama . . JP

Atvinnuleysi í Þýskalandi og kosningafylgi nasista
Söguspegillinn - Wall Street Journal 16. september 1930; Dow vísitalan er 236.62 -3.72 (1.5%). Kosningaúrslit eru komin frá Þýskalandi. Flokkur þjóðarsósíalista (nasistar) fékk 107 þingsæti miðað við 12 þingsæti í síðustu kosningum. Kommúnistar fengu 76 þingsæti miðað við 54 áður. Sósíaldemókratar fengu 143 þingsæti. Þeir sem fylgdust með kosningunum eru að sögn ánægðir með að kommúnistar fengu ekki fleiri þingsæti. Róttækir flokkar virðast hafa unnið á vegna efnahagskreppunnar. Kommúnistar eru í slagtogi með Moskvu á meðan þjóðarsósíalistar eru and-lýðveldissinnar, and-þingræðislega sinnaðir, and-samfélag-þjóða sinnaðir, and-Gyðinga sinnaðir, and-kapítalistískir og aðhyllast myndun öfgafulls einræðis með sósíalistískum eiginleikum; news from 1930 blog | Mynd; atvinnuleysi og kosningafylgi nasista Brad DeLong | Músik Julian Fuhs Orchester - Tango from Berlin 1930


Morten Messerschmidt, þingmaður
José Manuel Barroso formaður Evrópusambandsins "er spilltur" segir ESB-þingmaður Dansk Folkeparti, Morten Messerschmidt. Hann segir að Barroso hafi nýlega heimsótt írska bæinn Limerick þar sem Dell Computer sagði upp 2.400 manns í byrjun þessa árs. Í ferðatöskunni hafði Barroso meðferðis ávísun uppá 110 milljón danskra króna sem hann deildi út til fyrrverandi starfsmanna Dell. Morten Messerschmidt segir að þetta hafi verið gert til þess að kaupa atkvæði í komandi kosningum á Írlandi um hina nýju stjórarskrá Evrópusambandsins. Hann segir þetta í trássi við reglur um ríkisstyrki og því ólöglegt. Messerschmidt ætlar að taka málið upp á þingi. Írar verða þvingaðir til að kjósa aftur um nýju stjórnarskránna í næsta mánuði. Samkvæmt mati Evrópusambandsins kom ekki rétt út úr þeim kosningum sem fóru fram á Írlandi síðasta sumar um nákvæmlega sama hlut. Því þurfa Írar að kjósa aftur - um sama hlutinn; dr.dk | Eldri frétt; Dell Computer yfirgefur evrulandið Írland | Grein; Valdataka Brussel
 

Úr Evru-Víetnam: Hagnaður banka í Slóvakíu minnkaði um helming og mest vegna evruupptöku

úr evru styrjöldinni í ESB - € armee gruppe süd Pz

Við Tatra fjöll
Hagnaður banka í Slóvakíu á fyrsta helmingi ársins dróst saman um helming. Hagnaður minnkaði svona mikið fyrst og fremst vegna þess að Slóvakía tók upp evru sem gerði rekstur bankana dýrari og veltan féll mikið vegna tekjumissi af gjaldeyrisviðskiptum. Efnahagskreppan kemur svo í öðru sæti segir Stefan Frimmer talsmaður stærsta banka Slóvakíu, Slovenská Sporiteľňa. Ferðamannaiðnaður hefur einnig liðið undan upptöku evru í Slóvakíu. Nágrannar með aðra mynt s.s. frá Póllandi, Ungverjalandi og Tékklandi koma síður í heimsókn eftir að Slóvakía skipti um mynt hjá sér.

Landsframleiðsla Slóvakíu dróst saman um 5,6% á fyrsta ársfjórðungi ársins miðað við síðasta ár og um 5,3% á öðrum ársfjórðungi, einnig miðað við síðasta ár. Samdráttur í landsframleiðslu Slóvakíu á fyrstu sex mánuðum ársins varð því næstum sá sami og hann varð á sama tíma á Íslandi (5,5%). Atvinnuleysi í Slóvakíu mældist 12% í júlí og var það sjötta mesta í Evrópusambandinu. Meira atvinnuleysi í júlí mældist aðeins í þessum löndum ESB - Spánn 18,5% - Lettland 17,4% - Litháen 16,7% - Eistland 13,5% - Írland 12,5%; Slovak Spectator | Slovak Spectator | tengt: Evruþátttaka lækkar lánshæfni Slóvakíu
 
Fleiri og oft daglegar stuttar fréttir hér í GLUGGANUM 
 
Við hefjum strax mótvægisaðgerðir; - til að vega upp á móti þessum neikvæðu fréttum frá Slóvakíu í Evru-Víetnam styrjöldinni í Evrópu, skulum við gera eitthvað skemmtilegt. Til dæmis hlusta og horfa á töfrana hennar Carly Simon. Hún og hljómsveit hennar spila og syngja eitt af uppáhaldslögum mínum við höfnina í Martha's Vineyard sem er lítil eyja suður af Cape Cod í New England fylki í Bandaríkjunum. Eyjan tilheyrir Massachusetts fylki. Litlu duggurnar koma þarna siglandi inn í mjúkri kvöldsólinni, kannski til að hlusta og horfa á töfra Carly Simon, og auðvitað LIVE. Þetta eru hreinir galdrar! 
 
 Eitt og tvö lög enn með Carly Simon, þú veist "Itsy Bitsy Spider" og You're So Vain
 
Fyrri færsla

Vika 38; Portúgal, Ítalía, Grikkland og Spánn föst í forarpytti myntbandalags Evrópusambandsins

Eftirfarandi eru stuttar en oft daglegar fréttir úr Glugganum á  www.tilveraniesb.net
Í glugganum birtast oft daglega stuttar fréttir. Hver vika flyst svo yfir í skrársafn gluggans á vefsíðusniði og sem PDF skrá með virkum slóðum á heimildir og myndir í fullri stærð.
 
VIKA 39 2009 
Föstudagur 18. september 2009

Þegar rykið fellur á sögubækurnar mun eftir standa að stærsti árangur Gordon Brown sem fjármálaráðherra og forsætisráðherra Bretlands var að halda Bretlandi utan við aðild að myntbandalagi Evrópusambandsins. Þar með var varðveitt full geta slökkviliðs efnahagsmála í Bretlandi, þ.e.a.s. nefnilega fullum völdum Bank of England (seðlabanka Bretlands) yfir stýrivöxtum og peningapólitík Bretlandseyja. "Hefðum við gengið í myntbandalagið árið 1999 hefðu stýrivextir í Bretlandi verið um 2% um miðjan þennan áratug. Það hefði verið eins og að hella bensíni á eldsloga húsbruna breska hagkerfisins. Kreppan núna hefði orðið miklu verri"; AEP á The Telegraph


Vísitala tímalauna á evrusvæði
Wall Street Journal segir að Portúgal, Ítalía, Grikkland og Spánn (PIGS löndin) séu föst í forarpytti myntbandalags Evrópusambandsins og standi til að sitja þar föst í litlum sem engum hagvexti um mörg ókomin ár. Þetta mun gera þeim ókleift að greiða niður vaxandi skuldir landana. Allir sem fylgst hafa með umræðum á Íslandi um Icesave skuldaánauðarpakka ESB á hendur Íslandi, vita að ef enginn hagvöxtur verður á Íslandi mun Ísland ekki geta staðið við skuldbindingar sínar. Skuldastaða PIGS landanna er slæm vegna þess að stýrivextir á t.d. Spáni voru neikvæðir í mörg ár miðað við verðbólgu á Spáni. Þetta hvatti Spánverja til að stórauka lántökur. Stýrivextir á Spáni voru neikvæðir vegna þess að þeir voru og eru enn ákveðnir í Frankfürt í Þýskalandi fyrir Þýskaland og af Þýskalandi. Skuldastaða heimila á Spáni fór upp í 130% af ráðstöfunartekjum heimilanna árið 2007, neysla bólgnaði, byggingabransinn sprakk. Eftir stendur Spánn með gífurleg vandamál gífurlegra skulda og bankakerfi sem riða til falls. Launakostnaður á Spáni er ekki samkeppnishæfur við launakostnað í Þýskalandi (sjá mynd WSJ) svo ekki er hægt að vaxa út úr vandamálunum og ekki er hægt að fella gengið því Spánn hefur ekkert gengi gagnvart Þýskalandi. Allar leiðir fyrir Spán út úr myntbandalaginu eru ómögulegar og ömurlegar. Sú svæsnasta, að yfirgefa myntbandalagið, nefnist kjarnorkusprengju-leiðin (e. nuclear option), segir WSJ í grein blaðsins; WSJ | Edward Hugh


Í athugasemdum OECD um aukið atvinnuleysi í Frakklandi segir að 600.000 manns hafi misst vinnuna þar í landi á síðustu 18 mánuðum. OECD bendir á að helstu fórnarlömb aukins atvinnuleysis í Frakklandi séu ungt fólk. Atvinnuleysi þess hóps aukist tvöfalt meira í Frakklandi en að meðaltali í þeim mögrum löndum sem OECD fylgist með. Atvinnurekendur vilja mun síður ráða óþjálfað og óreynt fólk til vinnu og ekki mun kreppan auðvelda þessu fólki aðganginn að atvinnumarkaði Frakklands. Þess er hægt að geta hér að átatugum saman hafa atvinnurekendur í flestum ESB löndum getað valið og hafnað út massíft stórum hópi atvinnulauss fólks, því atvinnuleysi hefur verið svo hátt áratugum saman. Því eru atvinnurekendur verulega ofdrekaðir og ráðningarferli nýrra starfsmanna líkist meira og meira því sem sást þegar verið var að ráða geimfara til tunglferða á sjöunda áratug síðustu aldar hjá geimferðastofnun Bandaríkjanna, NASA; OECD

Fimmtudagur 17. september 2009

Seðlabanki Danmerkur spáir að atvinnuleysi muni halda áfram að hækka allt næsta ár í Danmörku og fyrst ná hámarki árið 2011 með 180.000 manns án atvinnu. Atvinnuleysi í Danmörku var um 50.000 manns á miðju síðasta ári. Bankinn segir enn fremur að fjármálum danska ríkisins muni hraka einna mest miðað við flest önnur lönd. Svo snöggur viðsnúningur í rekstri og afkomu ríkissjóðs hefur ekki sést í Danmörku frá lokum seinni heimsstyrjaldar; Børsen

Frjósemishlutfall í ESB og EES 2007
Standard & Poor’s hótar að lækka lánshæfnismat Grikklands nema að komið verði böndum á öldrunartengd útgjöld gríska ríkisins. Frjósemishlutfall grískra kvenna er aðeins 1,36 fætt barn á hverja konu á ári og hefur þetta hlutfall verið hrikalega lágt áratugum saman. Lánshæfnismat gríska ríkisins er núna A- og er það lægsta meðal evrulanda. Yfirmaður myntbandalags Evrópusambandsins, Joaquin Almunia, krefst að ný ríkisstjórn Grikklands komi með áætlun fyrir lok október sem sýnir hvernig Grikkland ætlar að lagfæra halla á rekstri gríska ríkisins. Verði lánshæfnismat Grikklands lækkað mun það þýða að gríska ríkið þarf að greiða enn hærri vexti af lánum ríkisins en það þarf nú þegar; Kathimerini   

Velta í hótel- og veitingahúsarekstri í Þýskalandi dróst saman um 5,3% að raunvirði í júlí á þessu ári miðað við síðasta ár; Statistisches Bundesamt

Stöðugleikur ESB
Atvinnuhúsnæði og tengd lán að andvirði 50% af þjóðarframleiðslu Írlands munu nú verða sett í umsjá hins opinbera þar í landi. Þessi upphæð, 90 miljarðar evrur, eru fallnar fjárskuldbindingar og lán í atvinnuhúsnæði á Írlandi. Lánin verða tekin út úr lánabókum írskra banka og sett í umsjá hins opinbera. Bankar Írlands hafa verið að þrotum komnir hina síðustu 12 mánuði. Allir stærri írskir bankar lifa nú aðeins á náð og miskunn írska ríkisins og skattgreiðenda þess. Engin íbúðalán falla undir fyrirkomulagið að þessu sinni. Þetta eru aðeins lán tengd atvinnuhúsnæði. Búist er við að slæm staða á markaði fyrir atvinnuhúsnæði muni koma upp víða í Evrópusambandinu á næstu mánuðum og árum. 

Hlutfall atvinnuhúsnæðis sem stendur tómt í Dublin er 21% núna, borið saman við 8% í London og 10% í Berlín. Til viðbótar standa nú 35.000 nýjar íbúðir tómar í Dublin. Þessi tala hefur hækkað úr 20.000 íbúðum fyrir einu og hálfu ári síðan. Á Írlandi "gerðu stóru mennirnir mistök en litlu mennirnir eru nú látnir borga fyrir þau" segir Liam Reilly fasteignasali; Bloomberg       

Miðvikudagur 16. september 2009

Spá Standard & Poor’s gerir ráð fyrir að evrulöndin Spánn og Írland muni halda áfram í kreppu allt næsta ár. Þetta þýðir að efnahagur Spánar og Írlands mun halda áfram að dragast saman í að minnsta kosti eitt ár í viðbót. Samdráttur landsframleiðslu á Spáni hófst á öðrum ársfjórðungi 2008 og á fyrsta ársfjórðungi 2008 á Írlandi. Landsframleiðsla þessara landa mun því vera í stöðugum samdrætti í heil tvö ár (8 ársfjórðunga) þ.e. ef spá Standard & Poor’s gengur eftir. Spurningin er því hversu stór hluti hagkerfa landanna mun hverfa og hversu langan tíma mun það taka þau að bæta sér upp tekju- og atvinnumissinn - þ.e. án nokkurra möguleika ríkjanna á að hafa áhrif á stjórn vaxta- gengis- og peningastefnu í hagkerfum sínum; El Pais

Verðbreytingar á smjöri í Þýskalandi
Verðlagssjá þýsku hagstofunnar birti ansi athyglisverðar tölur yfir verðbreytingar á ýmsum vörum og þjónustu sem neytendur kaupa eða nota oft. Þar má til dæmis sjá að miðað við verðlag ársins 2005 hafði smjör hækkað í verði um 45% á seinnihluta ársins 2007 (sjá mynd) og mjólk um 30%. Árin 2007 og 2008 var mikil verðbólga hvað varðar þessar vörur í Þýskalandi (og þrátt fyrir evruaðild Þýskalands). Margir vöruflokkar eru teknir fyrir í þessari birtingu frá hagstofu Þýskalands: Destatis Price Monitor
 
Markaðsvísitala fasteigna á Spáni (peak to present)
Já, “lygar, meiri lygar og fréttatilkynningar”. Það er víst nokkurnveginn svona sem fjölmiðlar á Spáni eru að segja fréttir af fasteignamarkaði landsins segir hagfræðingurinn Edward Hugh á Spáni. Nú hefur samdráttur á fasteignamarkaði Spánar staðið svo lengi yfir að það gefur litla sem enga meiningu að bera saman 12 mánaða tölur þ.e. tölur frá ári til árs: Spain Economy Watch

Þriðjudagur 15. september 2009

Horisont - Danska ríkissjónvarpið
Danska ríkissjónvarpið fjallaði um Ísland í fréttaþættinum Horisont í gærkvöldi. Fjallað var um hvaða áhrif bankahrunið hefur haft á íslenskt samfélag. Rætt var við Gylfa Magnússon viðskiptaráðherra, Poul Thomsen frá AGS, Guðjón Már Guðjónsson og fleiri: DR Horisont | Horfa

Tveggja hraða, eða jafnvel þriggja hraða hagkerfi evrusvæðis munu valda miklum erfiðleikum fyrir stjórn peningmála á evrusvæði á næstu árum. Á meðan sum hagkerfi evrusvæðis eru að hætta að dragast saman og snúa aftur til stöðnunar kyrrstöðu eða jafnvel vaxtar, þá halda önnur hagkerfi s.s. Spánn og Írland að dragast saman og munu ekki þola þær stýrivaxtahækkanir sem þurfa að koma til handa þeim hagkerfum sem eru í öndverðum aðstæðum. Einnig er skuldastaða hagkerfa evrusvæðis mjög ólík innbyrðis svo heldur ekki það mun gera það auðveldara að troða öllum löndunum ofaní sömu skóstærð peninga og vaxtastefnu seðlabanka evrusvæðis; Bloomberg    

Þýsk ríkisskuldabréf gefin út í Bandaríkjadollurum; Þýska ríkið hefur nú útgáfu ríkisskuldabréfa í bandarískum dollurum sökum þess hve treglega hefur gengið með skuldabréfauppboð í evrum þar sem mikil samkeppni er um hylli fjárfesta á þeim markaði. Þetta er í annað skiptið í sögunni að Þýskaland gefur út ríkisskuldabréf í annarri en en sinni eigin mynt. Fyrra skiptið var á árinu 2005. Með þessu vonast þýska ríkið að höfða til breiðari hóps fjárfesta, t.d. til þeirra bandarísku fjárfesta sem vilja ekki taka á sig gengisáhættu; FT | Bloomberg

Mánudagur 14. september 2009
    
Hrun iðnaðarframleiðslu ESB
Iðnaðarframleiðsla ESB (-0,2%) og evrusvæðis (-0,3%) í júlí dróst saman miðað við fyrri mánuð. Á milli ára er iðnaðarframleiðsla í ESB hrunin um 14,7%, um 15,9% á evrusvæði og um heil 18,2% í Þýskalandi. Tafla; hrun iðnaðarframleiðslu landa ESB síðustu 12 mánuði. Takið eftir að Finnland er með næsta mesta hrun í ESB og mun meira en er í Svíþjóð sem notar ekki evru sem gjaldmiðil sinn; Eurostat

Tími2009 m07
Land% breyting miðað við sama tíma á síðasta ári
Estonia-27,9
Finland-24,2
Slovenia-20,4
Luxembourg-19,9
Bulgaria-19,0
Germany-18,2
Italy-18,2
Sweden-18,1
Latvia-17,7
Spain-17,4
Evrusvæði-15,9
Denmark-15,4
Lithuania-14,7
EU 27 lönd-14,7
France-12,3
United Kingdom-11,0
Greece-9,5
Croatia-9,1
Portugal-8,3
Norway-8,1
Netherlands-8,0
Turkey-6,3
Poland-4,6
Romania-4,5
Ireland7,1

Tölur vantar enn fyrir; Belgium, Czech Republic, Cyprus, Hungary, Austria, Slovakia. Á Írlandi hefur lyfjaframleiðsla lyft tölum iðnaðarframleiðslu í júlí miðað við síðasta ár: Hagstofa Írlands
 
Útlán bankakerfa ESB halda áfram að falla fimmta mánuðinn í röð. Útlán féllu um 25 miljarða evrur í júlí. Bankar minnka skuldsetningarhlutfall eiginfjár (gearing/leverage ratio) og draga úr útlánum. Þeir segja að það sé fallandi eftirspurn eftir lánum. Skuldabréfa útgáfa fyrirtækja (corporate bonds) féll einnig um 20 miljarða evrur; Børsen
 
Núverandi kreppa séð í sögulegu ljósi. Bandaríska hugveitan Council on Foreign Relations hefur tekið saman athyglisverðan samanburð núverandi kreppu miðað við fyrri kreppur og svo miðað við stóru kreppuna 1929 (The Great Depression). Núllásinn markar upphaf kreppunnar.

Samdráttur er í heimsviðskiptum
Sjá má að hrikalegur samdráttur er í heimsviðskiptum núna miðað við meðaltöl fyrri samdráttarskeiða frá lokum seinni heimsstyrjaldar. Rauða línan er núverandi kreppa. Það þarf víst ekki að fara í grafgötur með það að aðeins fáir munu sleppa billega frá svona miklum samdrætti i heimsviðskiptum í hnattvæddum efnahag dagsins í dag. 

Hrun fasteignaverðs í Bandaríkjunum
Verðhrun fasteigna í Bandaríkjunum. Neikvæð breyting raunverðs íbúðarhúsnæðis í Bandaríkjunum er mun neikvæðari en hún varð þar í stóru kreppunni 1929. Að mínu áliti eiga svipaðar breytingar eftir að eiga sér stað í stórum hluta Evrópusambandsins. Við í ESB fórum einungis seinna inn í kreppuna á þessu sviði markaðarins. Þess er hægt að geta hér að söluverð dýrustu íbúða í dýrustu hvefum Kaupmannahafnar hefur lækkað um 20-25% frá því að það stóð hæst í enda ársins 2006 (DST). Þetta mun svo smita út í restina af markaðinum. CFC PDFKreppan í sögulegu ljósi. Heimasíða; CFC

Tekjur eignir og skuldir á hvern íbúa BNA
Er lántökugeta neytenda komin í þrot og uppurin hin næstu mörg ár. Hafa þeir sem trúa á að aukin útlánageta fjármálastofnana muni koma okkur út úr kreppunni rangt fyrir sér? Á mannamáli: fara næstu ár í það að greiða skuldir? Er lántakandinn dauður næstu árini? The Market Ticker

 
Fyrri færsla

Hagfræðiprófessor í Eistlandi: það eina sem evran gefur er áróðursgildi

Frétt úr Evru-Vítetnam styrjöldinni fyrir botni Eystrasalts

Marge Tubalkain

Evrustríðsfréttaritainn Marge Tubalkain - hjá Baltic Euro Army Combat News - sem viðstödd er bardagana fyrir botni Eystrasalts, skrifar heim frá vígvöllum Eystrasaltsríkja: hún tilkynnir að Olev Raju prófessor í hagfræði við University of Tartu hafi sagt að evra muni ekki hafa neitt gildi fyrir efnahag Eistlands nema þá helst þessi þrenn 

  1. ok. til ferðalaga
  2. ok. til að flytja peninga frá A til B og svo jafnvel til C
  3. hafa eitthvað áróðursgildi 

og þá er allt upp talið.

Það er meira að segja pláss fyrir allt það sem prófessorinn sagði í einni til tveimur línum hér

He said that euro will make travelling and money transferring easier and gives some propaganda effect for the economy and that’s it 

 

(Professor: Euro in a year is political talk

En eigum við ekki að gera eitthvað skemmtilegra en Evru-Víetnamið, til dæmis að horfa á raunverulegu töfrana hennar Olivíu! Þeir eru a.m.k. raunverulegir galdrar!

 

Eitt lag enn með Ólivíu hér: A Little More Love  

Fyrri færsla 


Á hvorn veginn féll Berlínarmúrinn?

Hvort féll múrinn til austurs eða vesturs?

Sameinað Þýskaland líkist meira og meira hinu fyrrverandi Austur-Þýskalandi, þ.e. stjórnmálalega séð. Áður en múrinn féll vildu Austur-Þjóðverjar að allir væru jafn-fátækir. En núna vilja þeir að allir séu jafn-ríkir. Áður hét það að "eiga jafn lítið og nágranni minn". En núna heitir það "ég vil ekki eiga minna en nágranni minn".

Kosningaslagorð vinstrimanna í kosningabaráttunni í Þýskalandi núna eru þessi: "auður fyrir alla" og "skattleggjum ríka". Núna virðast bæði Austur- og Vestur Þjóðverjar hafa sameinast um að á undan frelsinu kemur jöfnuðurinn. Áður en múrinn féll tóku Vestur-Þjóðverjar frelsi fram yfir jöfnuð. En núna virðast austur & vestur sameinuð í einni stefnu: jöfnuðinum, þ.e. "ég sætti mig ekki við minna en nágranni minn".

Þetta krefst náttúrlega að það sé af einhverju að taka, því annars þyrftu menn að sameinast aftur um að að eiga jafn lítið og nágranninn í sameinuðu nýju Austur Þýskalandi

Der Spiegel grein eftir Henryk M. Broder á: Wall Street Journal - Opinion

Fyrri færsla


Valdataka Brussel. Kjósið aftur, það kom ekki rétt niðurstaða!

Að kjósa þangað til það kemur rétt út úr kosningum í Evrópusambandinu

Grein eftir Doug Bandow, Cato Institute

Þegar að Evrópusambandinu kemur, þá eru öll kosningaúrslit sem auka völd Brussel álitin sem verandi endanleg úrslit kosninga. En öll kosningaúrslit sem eru andstæð því að aukin völd séu flutt til Brussel eru alltaf álitin sem einungis tímabundin kosningaúrslitúrslit

 

Þessa grein Doug Bandow um stöðu Írlands sem smáríki í ESB er hægt að lesa á íslensku hér á tilveraniesb.net => Valdataka Brussel

 

Fyrri færsla 


Komið er 38,5% atvinnuleysi hjá ungmennum á Spáni

Something will have to give in the long run 

Atvinnuleysi ungmenna undir 25 ára aldri á Spáni nær þeirri ótrúlegu tölu að mælast 38,4% !

Almennt atvinnuleysi í evrulandinu Spáni mælist nú 18,5%. Í Lettlandi er atvinnuleysi komið í 17,4% og 16,4% og í Litháen. Bæði Lettland og Litháen eru ERM II lönd. Í evrulandinu Írlandi er atvinnuleysi núna 12,5%. Í Slóvakíu sem tók upp evru þann 1. janúar á þessu ári er komið 12% atvinnuleysi núna. Þó eru bankakerfi þessara landa ekki hrunin - ennþá

Sjá nánar allar atvinnuleysistölur fyrir öll lönd ESB hér á tilveraniesb.net => Atvinnuleysi á evrusvæði mældist 9,5% í júlí

Umboð seðlabanka Evrópusambandsins

 

Evrulandið Spánn sem tók upp þýsk/franska gjaldmiðilinn evru þann 1. janúar 1999

Smásala á Spáni hefur nú dregist saman um 10,11% frá því í nóvember 2007. Þetta er 24 mánaða stanslaust hrunferli

Bygginga og mannvirkjagerð á Spáni hefur fallið um 30,5% frá því í júlí 2006. Þetta er 38 mánaða stanslaust hrunferli

Iðnaðarframleiðsla Spánar hefur dregist saman um 33,45% frá því í júní 2007. Þetta er 27 mánaða stanslaust hrunferli. Sjá stutta spænska "peak to through" greiningu hér: P2P In The Spanish Economy

Er atvinnuleysi á Spáni vanmetið? 

Greinendur halda því fram að almennt atvinnuleysi á Spáni sé alvarlega vanmetið og muni fara í 30% fyrir árslok 2010. Einnig spá þeir því að bankakerfi Spánar muni koma af stað sinni eigin evrópsku "undirmálslánakreppu" sem mun koma flestum að óvörum: Ný sub-prime fjármálakreppa bíður evrusvæðis

Fyrri færsla


Vextir á húsnæðislánum í Danmörku munu fara hækkandi þrátt fyrir lækkandi stýrivexti í Danmörku og á evrusvæði

Danmörku 3. september 2009 

Vextir á húsnæðislánum í Danmörku munu fara hækkandi þrátt fyrir lækkandi stýrivexti vegna lækkandi verðbólgu. Það er heilsuástand fasteignamarkaðar sem hefur úrslitaáhrif á vexti. Deilt er á fjármálastofnanir hér í Danmörku en þær segja hinsvegar að stýrivextir og aðgerðir seðlabanka í markaði hafi einungis 10% áhrif á myndun vaxta á húsnæðislánum. Sem sagt; stýrivextir seðlabanka stýra aðeins 10% af verði peninga til fasteignakaupa. Það sem ræður mestum úrslitum um vexti húsnæðislána er . .  

  • ástandið á fasteignamarkaði því það eru gæði fasteignaveða
  • væntingar fjárfesta til verðþróunar á fasteignamarkaði
  • og svo einnig væntingar þeirra til greiðslugetu lántakenda í framtíðinni

. . sem skipta mestu máli um myndun vaxta á húsnæðislánum. Því munu vextir hækka: Børsen 3. september; Boligekspert dumper argumenter i renteopgør

Sem sagt kæru lesendur

vantraust2

Það er áhættumat fjármagnseigenda sem ræður vöxtum á húsnæðislánum en ekki stýrivextir seðlabanka. Áhættuþóknun (vextir og afföll) fjárfesta á skuldabréfamarkaði húsnæðisbréfa ræðst af sjálfu áhættumati þessara fjármagnseigenda. En fjármagnseigendur eru til dæmis almennir sparifjáreigendur, lífeyrissjóðir, stofnanir, sjóðir og fjármálafyrirtæki almennt. Þeir verða að meta áhættuna og stilla vaxtakröfu sína eftir þessu áhættumati. Annað væri óábyrg umgengni með fjármagn

Áhættumat og áhættuþóknun (risk premium)

PROD0000000000228683

Ef fjármagnseigendur gera ráð fyrir að fasteignaverð lækki í framtíðinni þá verða þeir einnig að gera ráð fyrir að mörgum húsnæðiseigendum muni ekki takast að selja eignir sínar og fá inn fyrir áhvílandi skuldum ef á þarf að halda (þeir peningar sem þeir lánuðu húsnæðiseigendum). Einnig verða þeir að gera ráð fyrir að margir munu missa vinnuna og ekki getað staðið í skilum með afborganir. Svona eignir munu oft lenda á uppboði. Ef ekki fæst inn fyrir áhvílandi lánum á uppboði munu þau fylgja lántaka áfram það sem eftir er æfi hans, eða þar til lánið er greitt, þ.e. ef það mun þá takast yfir höfuð að fá það allt greitt. Því munu afskriftir aukast verulega ef spár og áhættumat þessara fjármagnseigenda ganga eftir.

Raunverð húsnæðis :: graf frá Seðlabanka Íslands :: Peningamál 2/7 2008

Það eru því miður allar líkur á að spár fjármagnseigenda muni ganga eftir því ungu fólki fækkar svo hratt hér í Evrópusambandinu því svo örfá börn hafa fæðst hér marga síðustu áratugi. Svo ekki mun fasteignaverð hækka af þeim sökum, heldur mun það lækka næstu marga áratugi. Atvinnuástand versnar líka hratt og er nú svo komið að það er skollið á 38,5% atvinnuleysi á ungmenni undir 25 ára aldri á Spáni. Ekki munu þau ungmenni eiga auðvelt með að greiða af lánum né kaupa sér eigið húnsæði. Þessi ungmenni verða heldur ekki "fjármagnseigendur" sem ávaxta sparifé sitt á skuldabréfamarkaði húsnæðislána evrusvæðis.

Einnig er hætta á að framboð af fjármangi verið af skornum skammti ef vextir eru settir of lágir því enga verðtrygginguna hafa fjármagnseigendur hér til að styðjast við  

Ekkert hefur aðild að Evrópusambandinu hjálpað Danmörku 

Stýrivextir, vrðbólga og atvinnuleysi í Danmörku 1978-2008

Þess er hægt að geta hér að 75% af kjósendum í Danmörku eru nú á framfærslu hins opinbera á einn eða annan hátt. Raunverulegt atvinnuleysi í Danmörku hefur aldrei farið undir 10% frá árinu 1977. Danmörk hefur á síðustu 10 árum hrapað frá því að vera númer 6 á lista OECD yfir ríkustu þjóðir og niður í 12. sæti þessa lista á árunum 1997 til 2007. En Danmörk mun því miður hrapa ennþá neðar á þessum lista samkvæmt nýjustu spá OECD og stendur nú til að fá 4. lélegasta hagvöxt í OECD á árunum 2011-2017.

Something will have to give in the long run

Ekki er hægt að segja að veran í Evrópusambandinu eða í myntbandalaginu (EMS/ERM II) hafi hjálpað Danmörku einn einasta millimetra áfram í tilveru sinni meðal þjóðanna. Hér ganga mikilvægustu undirstöðuhlutir hagkerfisins því miður aðeins aftur á bak og niður í jörðina. Danmörk bakkar því út úr hóp ríkustu þjóða heimsins. Ég sem hef búið hér í samfleytt 25 ár veit að þetta er að stórum hluta til aðild Danmerkur að sjálfu Evrópusambandinu að kenna; sjá hér ýmislegt nánar um tilveru Dana í ESB: (Seðlabankinn og þjóðfélagið). En nú er bara of seint að gera eitthvað í þessum málunum. Það sem Danir geta þó huggað sig við er að hafa verið svo varkárir og gáfaðir að hafa aldrei að fullu gengið inn í myntbandalag Evrópusambandsins, því þaðan er ekki hægt að komast lifandi út aftur: Engin leið út úr evru aftur án þjóðfélags- og efnahagslegs sjálfsmorðs       

Tengt efni

Fyrri færsla


Höfundur

Gunnar Rögnvaldsson
Gunnar Rögnvaldsson

Búseta: Ísland.
Reynsla: 25 ára búseta í ESB og fyrirtækja-rekstur í DK/ESB frá 1985 til 2010. Samband:
tilveraniesb hjá mac.com

Ég er hvorki skráður á Facebook, Twitter, Linkedin né á neinum öðrum "félags-vefjum". Aðsetur skrifa minna er einungis að finna hér á þessari síðu og á tilveraniesb.net og í blöðum og tímaritum

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband