Leita í fréttum mbl.is

Mjög slæmur dagur fyrir Rússland í Sýrlandi

Loftárás bandaríska sjóhersins á herstöð sýrlenska flughersins var óvænt. Hún var gerð á þá herstöð sem sendi efnavopn á almenna borgara. Gera má ráð fyrir að herstöðin sé nú ónýt

Bashar al-Assad forseti Sýrlands er viðskiptavinur Rússlands. Árás hans með efnavopnum á almenna borgara er gagnslaus, frá hernaðarlegu sjónarmiði séð. Efnavopn eru lélegustu vopn sem til eru og geta snúist eins og hendi sé veifað í hönum þeirra sem nota þau

Bashar al-Assad var farinn að reikna með því sem Barack Obama sýndi af sér. Að engar rauðar línur dregnar í sand yrði staðið við. Sýrlandsforsetinn var því hér að færa sig upp á skafið. Hann setti með þessu Rússland í afar slæma klemmu. Hann sýndi heiminum að Rússland hefur ekki lengur stjórn á kúnna sínum. Honum sjálfum

Þessi forseti Sýrlands var í mörg ár viðskiptavinur Norður-Kóreu og hafði með þeim í fimm ár byggt upp kjarnorkuvopnastöð í austanverðu Sýrlandi sem flugher Ísraels lagði skilvirkt í rúst með Orchard-aðgerðinni í september 2007

Tilgangur Assads núna var að reyna að hræða þá íbúa landsins sem setja sig þvers á móti honum með því að kasta á nokkra þeirra efnavopnum. Þessi efnavopnaárás var því fyrst og fremst hugsuð sem hryðjuverk til að valda ótta og skelfingu meðal borgara landsins. Hún á að skelfa og hræða þá íbúa sem Assad veit að hvort sem er aldrei munu dá hann né hylla, hvernig sem allt fer

Flestir bjuggust við að Donald J. Trump myndi ekki bregðast við, þar sem hann hafði í kosningabaráttu sinni sett hagsmuni Bandaríkjanna sjálfra efst á sinn lista, ásamt uppbyggingar- og hvíldarinnlögn fyrir bandaríska herinn, sem háð hefur lengstu baráttu sína undanfarin 15 ár. Og engar línur hafði hann sjálfur dregið í þennan sand

Þarna var þó ekki um neitt annað að velja fyrir Donald J. Trump. Hann varð að gera það sem hann á staðnum gat gert: slá til strax með því sem hendi var næst án þess að um neinar skuldbindingar inn í framtíðina væri að ræða. Gerðu þetta ekki aftur, eru skilaboðin. En því sem hendi lá næst hafði Barack Obama að mestu komið fyrir kattarnef og því, í þessu tilfelli, fækkað möguleikum hins nýja forseta niður í aðeins einn, því aðeins þúsund bandarískir hermen eru á jörðu niðri í Sýrlandi

Þegar litið er upp að verki loknu, má segja að tilviljun hafi þarna gert bandaríska forsetanum vissan greiða. Á öxlum hans hvílir frest á frest uppsöfnuð Norður-Kórea þyngra en á nokkrum öðrum forseta Bandaríkjanna. Það skilgetna skrímsli kommúnista Sovétríkjanna er nú óðum að nálgast tvennt: að geta hæft stórborgir á vesturströnd Bandaríkjanna með kjarnorkuvopnum og að sanna sig sem verandi þeir brjálæðingar sem gera myndu slíkt sér til skemmtunar. Efinn um að staðan í Norður-Kóreu hafi náð einmitt þessu stigi, nagar nú forseta Bandaríkjanna að innan. Hvað á hann að gera?

Donald J. Trump sýndi hér að hann er fær um að taka ákvarðanir. Þungi ákvörðunarinnar féll beint á samningaborð hans og forseta Kína, sem svitnaði þegar borðið fyrir framan hann svignaði undan þunga ofureflis Bandaríkjanna. Sameinuð Kórea undir vernd Bandaríkjanna á tröppum kínverska forsetans myndi flá af honum bæði andlit og orður

Eftir situr Rússland og nagar sig í handarbök vegna viðskiptavinar sem fór illilega yfir á reikningi þess. Sá yfirdráttur mun ekki hjálpa Vladimír Pútín á versnandi heimavelli

Á meðan þetta er að gerast í túnfæti Evrópu, býr Evrópusambandið um sig í líkkistunni í gorkúlus píramída sambandsins í Brussel. En borgarastyrjöldin í Sýrlandi mun þó eftir sem áður halda áfram og ef til vill breiða á næstu árum úr sér til hins borgaralega eldfima ástands sem tilvist Evrópusambandsins hefur svo víða skapað

Fyrri færsla

100 ár síðan Bandaríkin lýstu stríði á hendur Þýska heimsveldinu


Bloggfærslur 8. apríl 2017

Höfundur

Gunnar Rögnvaldsson
Gunnar Rögnvaldsson

Búseta: Ísland.
Reynsla: 25 ára búseta í ESB og fyrirtækja-rekstur í DK/ESB frá 1985 til 2010. Samband:
tilveraniesb hjá mac.com

Ég er hvorki skráður á Facebook, Twitter, Linkedin né á neinum öðrum "félags-vefjum". Aðsetur skrifa minna er einungis að finna hér á þessari síðu og á tilveraniesb.net og í blöðum og tímaritum

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband