Leita í fréttum mbl.is

Spáð 20 ára núllvexti. Árið 1937 er afturgengið og menn hafa ekkert lært.

Verandi sjálfur íhaldsmaður, þá er sárast fyrir mig þegar aðrir íhaldsmenn krefjast að fá að berja áttavilltum hausum sínum við steina. Fólk annarra stjórnmálaskoðana gerir þetta líka, en þar er þó varla við öðru að búast og við engan að sakast nema þeirra eigin kjósendur sem eru hvorki ég né mig.

En það er þó öllu verra þegar kommúnistar breytast í póltíska transvestíta og taka það versta úr líksafni íhaldsmanna og gera að sínu eigin. Það hefur nú gerst á Íslandi: við fengum hinn pólitíska umpólunarsturlung Steingrím J. Sigfússon fjármálaráðherra, sem var og er líklega enn síðasta endurómaða öskur tröllatímabils stjórnmála Sovétkommúnismans.  

Fyrir helgina kom út í Danmörku spá fyrir danska fasteignamarkaðinn. Hún segir að stöðnun muni ríkja þar á þeim markaði næstu 20 árin. Ekkert mun hækka í verði umfram neitt og salan verður afar erfið. Sem hún reyndar hefur alltaf verið frá árinu 1985, með fáum undantekningum eins og til dæmis þeirri hérna einu, nefnilega, í fjármálabólu evrusvæðisins frá 2004-2008. Með öðrum orðum; danski fasteignamarkaðurinn verður loksins alveg þýskur.

Maður þorir varla að hugsa þá hugsun til enda hvaða afleiðingar þetta muni hafa fyrir hagvöxtinn í þessu norrrænda DDRlight-hagkerfi. Danmörk er samfélag þar sem meira en helmingur þjóðarkökunnar er étinn af hinu opinbera og þar næst kastað upp aftur af hinu opinbera. Uppkastið er alltaf blástimplað sem "samneysla" (Tryggvi Þór), alveg sama hvað mætti koma upp úr súrum sarpi hinna opinberu snillinga. Uppkastið ER bara blástimplað. Þetta uppkast er alveg laust við að þurfa að líða undir því hroðalega heiti að vera kallað einkaneysla - bæði sem orð og hugtak - og sem orðið er að einu versta klámyrði í þjóðnýttum hugum svo margra íbúa meginlands Evrópu. Omg, einkaneysla, ríkið forði okkur frá henni.
 
En óneitanlega léttir þetta tilveru þjóðnýttra þegna því þeir komast sjálfir að mestu hjá allri ákvarðanatöku. Ríkið ræður fyrir þá og tekur ákvarðanir þeirra. Stjórnmálin hafa þar með verið þjóðnýtt, því hver kýs svo undan sér ríkiskassann aftur? Og allir flokkar eru komnir inn á miðju kassans þar sem auðveldast er að detta ofaní hann og klæðast honum sem dópsalar hins opinbera við næstu kosningar. Skattgreiðendur borga þennan fatnað stjórnmálamannanna. Kassafötin og allt opinbera dópið líka.   

En er eitthvað að því að hagvöxtur verði enginn í Danmörku? Nei, ekki ef þú sættir þig við stöðnun, hnignun, niðurslit innviða, úreldingu velmegunar og velferðar (helferðar í þessu tilviki). Kúba komst næstum alveg hjá hagvexti? Þar ríkir ennþá árið 1954. 

Allur hagvöxtur í Danmörku undanfarna marga áratugi hefur alltaf að mestu leyti verið framkallaður af lántökum fasteignaeigenda þegar eignir þeirra hækka í verði. Þegar eignirnar hækka í verði er farið út og lánum breytt þannig að þau nái alveg upp í efri brún skorsteins. Ekki má myndast nein eign. Svo er hárklippingin pöntuð hjá rakara hagkerfisins. Þetta hefur haldið hagkerfinu uppi og er það næsta sem maður kemst kenningu varaþingmanns Samfylkingarinnar sem nú ætlar að klippa alla þá sem rúnir verða inn að skinninu vegna Icesave skulda íslenska ríkisins fram til ársins 2045. Og ástæðan fyrir hinni dapurlegu spá um fasteignamarkað Danmerkur, hver var hún? Jú, einmitt hinn lélegi hahahagvöxtur! Hárið vex sem sagt ekki handa rakra hagkerfisins lengur. 

En hvað gerist þegar hinir stóru árgangar fólks sem hætta á vinnumarkaði á þessu tímabili í Danmörku ætla að selja eignir sínar og flytja úr DDR-light og lifa rauðvínstilverunni á fimm fermetra terrassi í Próvance? Þá mun gamanið nú kárna. Hver á að kaupa húsin af þeim? Þetta er fólkið sem tímdi ekki að eignast börnin, sem fékk flest gratís svo og einnig fasteignaskuldir sínar heflaðar niður fyrir gólffjalirnar í verðbólgunni og skattafrádrætti vaxta frá 1960 til 1985, þegar það var að byggja sér hreiður. Hvað mun þetta fólk segja þegar það fær ekki neitt fyrir ekki neitt í Danmörku? En auðvitað hefur það þegar hugsað fyrir þessu; það leggst bara upp á risavaxið ríkið sem það bjó sjálft til. Hin örfáu og örþreyttu börn þeirra munu auðvitað borga á meðan bakið ekki brestur í skattpíningunni. Sem það mun gera og börnin því kjósa með fótunum.

Icesave er raunar eins konar afleiða þeirra stjórnmála sem áttavilltir íhaldsmenn úti í hinum stóra bólugrafna heimi kalla nú allt í einu fyrir "þensluskapandi niðurskurð" (expansionary austerity). Hagvöxtur fer af stað ef við skerum niður velferð í kreppunni, það virkar svo vel. Ríkið dregur saman seglin. Skrúfar fyrir bensínið á meðan einkageirinn er í áfalli. Hér heima er útgáfa þessara stjórnmála svona: Hagvöxtur fer af stað ef við hlöðum enn meiri skuldum á þegar ofurskuldsett ríkið, þannig að við verðum hreinlega að skera og skera og skera niður velferðina. Ha ha ha ha hah. Ha ha ha ha hah! Og menn halda að þetta virki!  

En því miður þá er stór hluti hins vestræna heims staddur í sömu sporum og hagkerfi ömmu okkar og afa var árið 1937. Menn í dag hafa bara ekkert lært af dýrmætri reynslu þeirra. Þá, í dagrenningu batans, var farið út í massífan niðurskurð því sú hagfræðikenning varð að tískufyrirbæri í seinni hluta kreppunnar miklu. Batinn steindrapst, auðvitað. En þetta er þó enn verra hér heima á Íslandi því hér hafa menn næstum alveg lokað fyrir allt bensínflæði til hreyfla hagkerfisins, jafnvel áður en það kemst í stellingar flugtaks. Þetta mun fara inn í íslensku hagsöguna sem mestu og stærstu hagstjórnarmistök nokkurn tíma. Og mistökin eru þar að auki framkvæmd af hinni svo kölluðu "hreinu vinstristjórn" sem á allt sitt undir því komið að einhvern tíma sé hægt að afsaka og sanna gangsemi hins núverandi risavaxna opinbera geira. Það var því ekki nema eðlilegt að ég spyrði sjálfan mig að því hvort ég væri geðveikur. Þetta er svo súrrealistískt. 

Hér á þessum erfiðu tímum er allt gert nema það sem með nokkru móti og yfir höfuð nokkurn tíma getur réttlætt hina tröllvöxnu stærð ríkisins. Þetta er eins hjá sumum sem eiga Jagúar inni í stofu hjá sér í Danmörku. Þeir sleppa þá við 180 prósent bílatollinn sem heitir skráningargjald, ef þeir nota ekki bílinn. Eða eins og bóndi sem á eina dráttarvél með sláttuvél en sem hann notar eingöngu til að klippa hárið á sjálfum sér - jafnvel þó nauðasköllóttur sé. 
 
Krækjur:
Fyrri færsla
 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Gunnar Rögnvaldsson
Gunnar Rögnvaldsson

Búseta: Ísland.
Reynsla: 25 ára búseta í ESB og fyrirtækja-rekstur í DK/ESB frá 1985 til 2010. Samband:
tilveraniesb hjá mac.com

Ég er hvorki skráður á Facebook, Twitter, Linkedin né á neinum öðrum "félags-vefjum". Aðsetur skrifa minna er einungis að finna hér á þessari síðu og á tilveraniesb.net og í blöðum og tímaritum

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband