Leita í fréttum mbl.is

Kostuleg Costco koma

Nú get ég ekki lengur orða bundist vegna skítkasts svo margra yfir stétt íslenskra verslunarmanna. Þeim er útstillt sem glæpamönnum. En það eru þeir ekki

Sjáið nú til góða fólk. Costco og þannig versalnir, eins og til dæmis WalMart, stunda ekki fyrst og fremst verslunarrekstur. Efst á tilvistar og tilgangslista þeirra er að pressa framleiðendur í verði. Tilvist þeirra byggir á því að pressa framleiðendur. Og út á það gengur öll tilvist þeirra. Costco er þess utan heildverslun og miðað við heildverslun er vöruverð þeirra ekkert sérstakt

Þegar manns helsta starf er að pressa framleiðendur í krafti stærðar, þá gerist ýmislegt sem ekki endilega er neytendum í hag. Þetta þarf ekki nauðsynlega að fara saman. Það er ekki lögmál. Framleiðendur geta til dæmis brugðist við með því að nota ódýrari og verri hráefni í þær vörur sem fara til svona samstæða. Og þeir gera það. Neytandinn veit ekki af þessu en kaupir samt. Hér er ég ekki að benda á neinn sérstakan því þetta hafa framleiðendur á Íslandi mátt sætta sig við um visst skeið. Svo er það hin brennandi spurning hvort að maður fái ekki bara á endanum það sem maður borgar fyrir

Spurt er til dæmis hvernig hægt sé að lækka verð á dekkjum um svo og svo marga tugi prósenta. Fyrir það fyrsta verða menn að bera epli saman við epli en ekki hnetur. Er það gúmmí sem notað er í dekkin sambætilegt? Er það hálfónýtt gúmmí frá til dæmis Kína sem verður að grjóti í kulda? Dekk eru ferskvara. Þau, seld sem óseld og notuð sem ónotuð, eru ónýt eftir fimm ár. Þá er mýktin farin úr þeim. Og dekkin eru eina sambandið sem bifreið þín hefur við veginn. Þau verða því að vera góð. Án góðra dekkja er góður bíll lítils virði

Dæmi: íslenskur dekkjasali skrifar birgi sínum og segir að Costco sé komið á markaðinn með 60 prósent lægra verð á dekkjum. Og hann segir; ef við fáum ekki betra innkaupsverð hjá þér þá munum við ekki geta selt nein dekk frá þér. Nú er úr vanda að ráða hjá birginum. Hann gerir sér grein fyrir að lækki hann ekki verð sitt til heildsölu- eða smásöluaðilans á Íslandi þá er markaður hans horfinn ekki seinna en ári síðar. Hann kemur því með tilboð sem segir að þú kæri smásöluaðili minn lækkar þig ef við lækkum okkar verð til þín. Úr getur orðið töluverð verðlækkun. En samtímis geta þeir ákveðið að hækka verð á ýmsu öðru sem fer á milli þeirra. Útkoman getur orðið meiri dekkjasala og verri þjónusta eða jafnvel engin þjónusta. Við búum jú í svo kölluðu "þjónustu-samfélagi", ekki satt, þar sem enginn hefur lengur efni á að nota þjónustuna, vegna þess hversu dýr hún er. Laun eru ekki smáræðispóstur í rekstri hér á landi. Og skattar!

Costco er ekki með neina þjónustu til að hrópa húrra yfir svo þeir geta byggt stórbragga og hent þar inn vörum á pöllum þar sem þeir segjast vera heildsali. Kostnaðurinn hjá þeim er lægri. Vilji menn versla í grafhvelfingum, þá þeir um það. Ekki skipti ég mér af því. En menn munu náttúrlega ekki nenna því nema að hluta til. Þegar æðið er svo runnið af þeim þá hættir þessi della að vera fréttnæm frétt um vel þekkta fífla frá nýrri heildsölu. Fínt að fá Costco hingað, virkilega fínt, en hvað með það! Þetta er bara Costco og þeir eru þarna til að græða peninga eins og allir aðrir, en áherslur þeirra eru einungis aðrar

Ég veit fyrir víst að íslenska verslunarstéttin er alveg ágæt. Hún er alls ekki verri en í útlöndum þar sem ég bjó í tæp þrjátíu ár. Alls ekki verri, en hins vegar að mörgu leti betri, því hér er fákeppnin minni en víðast hvar í ESB. Þetta veit ég. Þar er einokunin í dreifingarliðnum alveg skelfileg. EES hefur bundið okkur við þetta ESB-bákn og það er slæmt fyrir Ísland. Mjög slæmt

Ergo: enginn smásölumarkaður neins lands í Evrópu er eins dýnamískur og sá íslenski. Það er staðreynd sem ekki er hægt að horfa fram hjá. Hér er búið að umturna flestu á þessum markaði á meðan frostjökull ESB hefur búið til frosinn markað elíta á meginlandi Evrópu. Á meðan hafa íslenskir kaupmenn hér heima þurft að hafa sig alla við til að halda sér á baki skepnu samkeppninnar. Ekkert er hér lengur eins og það var árið 1987. Öllu hefur verið umturnað á þessum markaði. Og ekki endilega til hins betra, en umturnað samt

Svo vinsamlegast látið renna af ykkur. Sovét-Ísland er og veður bara til í ESB. Þar er manni gert skylt, með hattinn í hendinni, að biðja um rakvélablöðin við búðarkassann, því það er ekki hægt að hafa þau í hillum. Þeim er bara stolið því verð þeirra er svo Sovét-hátt

Sem sagt, eins og svo oft áður. Hér heima er ekki allt verst. Ónýta Ísland er ekki til. Það er bara til í Evrópusambandinu

Ég sakna gömlu íslensku sjoppanna, með sjaldgæfar tegundir karamella í boði á búðarborðinu - og göfugrar sálfræðiþjónustu þeirra

Fyrri færsla

OPEC ágætis dæmi um svo kölluð "samkomulög"


Bloggfærslur 12. júní 2017

Höfundur

Gunnar Rögnvaldsson
Gunnar Rögnvaldsson

Búseta: Ísland.
Reynsla: 25 ára búseta í ESB og fyrirtækja-rekstur í DK/ESB frá 1985 til 2010. Samband:
tilveraniesb hjá mac.com

Ég er hvorki skráður á Facebook, Twitter, Linkedin né á neinum öðrum "félags-vefjum". Aðsetur skrifa minna er einungis að finna hér á þessari síðu og á tilveraniesb.net og í blöðum og tímaritum

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband