Leita í fréttum mbl.is

Lítill áhugi á evru hjá atvinnurekendum í Skandinavíu

Berlingske Business skrifar hér í dag að samkvæmt könnun meðal 2.400 forstjóra fyrirtækja á Norðurlöndum, að það sé dvínani áhugi á evru sem gjaldmiðli hjá skandinavískum forstjórum. 

 

Yfir helmingur af aðspurðum dönskum forstjórum hafa lítinn áhuga á evru og segja að hún skipti ekki máli. Mestur áhugi var meðal finnskra forstjóra, en Finnland er nú þegar með evru sem gjaldmiðil. Ísland er ekki með í þessari könnun meðal forstjóra stærri fyrirtækja, en fréttin segir þó að í kjölfar nýlegrar efnahagslegrar lægðar á Íslandi sé aukin umræða um aðild Íslands að ESB og upptöku evru. Í Noregi er engin umræða í gangi um aðild að ESB og upptöku evru, og var norskum forstjórum mest sama um evru meðal allra aðspurðra forstjóra í þessum fjórum Norðurlöndum.   

 

Danir: evra vafasamt mannvirki  

 

Á meðal þeirra dönsku forstjóra sem eru andsnúnir upptöku evru vega þyngst rökin um að evra sé vafasamt mannvirki sem varasamt sé að taka upp og reiða sig á. Evran gæti þróast í verða Dönum meira til tarafala en til hagsbóta, og gæti einnig takmarkað athafnasvigrúm þeirra. Hjá þeim dönsku forstjórum sem aðhyllast upptöku evru vega þyngst væntingar um að fá að sitja við stjórnarborðið í seðlabanka evru. Flestir danskir hagfræðingar hafa náð fram til þeirrar niðurstöðu að evra skipti Danmörku ekki máli.

 

Slóð: Topchefer er ligeglade med euroen 

 

Mín skoðun

 

Það er alþekkt fyrirbæri í markaðsfærslu að um leið og neytendur hafa keypt vöru, og þá sérstaklega dýra vöru, þá fara þeir strax í gang með að sannfæra sjálfa sig um að þeir hafi gert góð kaup. Til að styrkja trú sína á að þeir hafi einmitt gert góð kaup, þá fara þeir oft að sjá ýmsa kosti við vöruna sem aðrir sjá ekki, og munu því oft mæla mæla með vörunni við aðra sem hafa hana ekki. Til þess að skapa það sem kallað er "brand-community" (vörumerkja(sam)félag) og til að viðhalda staðfestingarviðleitni þeirra sem hafa keypt vöruna þá er bráðnauðsynlegt að söluaðilar vörunnar haldi áfram að auglýsa vöruna jafnvel þó svo að engin sala sé í gangi, því þannig sjá þeir eigendum vörunnar fyrir áframhaldandi staðfestingu á að þeir hafi gert góð kaup. Ef maður sér aldrei auglýsingu fyrir vöru sem maður hefur keypt þá mun maður smásaman fara að halda að maður sé einn í heiminum með þessa vöru, og hafi verið einn af fáum sem keyptu hana, og að hún sé léleg. Þessvegna hafa Finnar ennþá mestan áhuga á evru af öllum aðspurðum í könnuninni. En þeir eru samt innst inni (smá)hræddir við hvað nágrannarnir muni gera og álykta um þá vöru sem þeir einmitt hafa keypt. Og svo er ábyrgðartíminn útrunninn og ekki hægt að skila vörunni lengur, og ekkert annað hægt að gera en að mæla með vörunni áfram. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Sæll Gunnar

Alltaf gaman að fylgjast með þér og rökfastur ertu, það máttu eiga.

Skil samt ekki hvernig þú getur borið saman hina ógnvænlegu sterku olíukrónu Norðmanna við okkar mynt, sem fallið hefur 30-40% á nokkrum mánuðum. Auðsjáanlega eru fleiri landsmenn sammála þér en mér, því samkvæmt nýrri skoðanakönnun Gallup/SI trúa aðeins 24% landsmanna og Seðlabankinn á krónuna á meðan 58% Íslendinga trúa á evruna. Sömu sögu má segja um dönsku krónuna, sem er bundin við gengi Evru og þar með líklega varin af Evrópska seðlabankanum. Við Íslendingar búum hins vegar við hina handónýtu íslensku krónu og það þýðir því miður ekki að halda áfram að bera saman appelsínur og epli líkt og þú gerir.

Verðbólgan innan evrusvæðisins var að fara yfir 4% og allir eru að fara úr límingunum, en hér er spáð 14% verðbólgu í ágúst. Vextir á íbúðalánum hér hjá Kaupþingi eru 6,05% að viðbættum þessari 14% verðbólgu.

Síðan talar þú yfirleitt um hina góðu innlánsvexti, en hver heldurðu að sé að leggja peninga til hliðar á Íslandi í dag, þegar kaupmáttur launa rýrnar um þetta 10-15 á þessu ári. Stærstur hluti landsmanna er í mínum sporum og skuldar 20 milljónir í 40 milljóna húsi og er með bílalán upp á 2-3 milljónir í viðbót. Ég er reyndar með hærri laun en kollegar mínir í Danmörku, en borga á móti hærri vexti og 25% hærra matarverð. Ég veit ekki hver stendur betur, þegar búið er að borga skattana og háa bílverðið og allt þetta, sem þú þekkir betur en ég. Ég veit að við höfum haft það gott undanfarin, en nú eru magrir tíma framundan næstu árin.

Ég er eins og þú og vil ekki þennan skandínavíska sósíalisma, en maður er nú ansi efins um að þetta sé að ganga upp eins og ástandið er í dag. Maður verður þreyttur á þessum "kreppum/niðursveiflum" á 6-7 ára fresti og síðan taka við 2-3 "stöðugleikaár" og síðan "þensla" o.s.frv. Þú þekkir þetta og ég þekki þetta.

Þú bendir alltaf á að við gætum ekki tekið þessi stóru stökk í hagvexti, sem við tókum óneitanlega frá árinu 1995 til t.d. 2004, en á þessu tímabili vorum nr. 6 hvað hagvöxt varðaði innan OECD, sem er frábær árangur og sá besti á meðal þróaðra ríkja. Árið 2005 minnkaði hagvöxtur hjá okkur en var samt aðeins hærri en á Norðurlöndunum. Árið 2006 var hagvöxtur svipaður og annarsstaðar í Skandinavíu og árið 2007 erum við orðin hálfdrættingar á við Norðurlöndin, en þá var hagvöxtur 5% í evrulandinu Finnlandi og 2,8% í norskukrónulandinu Noregi. Í ár er spáð þetta 0,0 - 0,5 % hagvexti og Alþjóðabankinn setti okkur í sinni spá í 3. neðsta sætið, en fyrir neðan okkur var Ítalía og Simbabve.

Eftir að Davíð lagaði lífskjör hér þannig að þau voru sambærileg eða betri en á Norðurlöndunum hefur hagvöxtur í raun verið svipaður og annarsstaðar nema að hann er sveiflukenndari hér.

Það sem Íslendingar vilja eru minni sveiflur og jafnari hagvöxt og menn eygja von til þess með upptöku evru. Svona einfalt er þetta í raun og veru. Ég veit að þú og nokkrir aðrir halda að við séum svo óskaplega gáfuð og dugleg að við getum haft 50% meiri þjóðartekjur en þjóðir Evrópu. Ég er raunsæismaður og trúi að við getum með svipaðri skynsamlegri efnahagsstjórn og og tíðkaðist hér allt til ársins 2004-2005 haft það betra en flestar aðrar þjóðir Evrópu. Ég sé hins vegar að við núverandi aðstæður er það vonlaust. Með upptöku evru áframhaldandi uppbyggingu, t.d. í stóriðju og skynsamlegri nýtingu auðlinda landsins, gætum við þó náð því markmiði.

Ég vil allan pakkann: mikla þjóðarframleiðslu, stöðugleika, lága vexti og lágt vöruverð - ekkert minna.

Ég trúi ekki á "dómsdagsspár" þeirra, sem halda því fram að með upptöku evru og inngöngu í ESB skelli hér á stórfellt atvinnuleysi og við þurfum að við breytumst yfir nótt allir í sósíaldemókrata og yfirtökum öll vandamál Evrópu, en enga af kostunum. 

Guðbjörn Guðbjörnsson, 21.7.2008 kl. 22:00

2 Smámynd: haraldurhar

Sæll Gunnar.

   Eftir því sem ég best veit þá er gengi Dkr beintengd við Evruna, svo ég skil alls ekki hvað þú ert að fara með að danskir forstjórar vili ekki Evru, þegar þeir hafa hana í dag bara með öðru nafni. 

haraldurhar, 22.7.2008 kl. 00:43

3 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Sæll Haraldur og takk fyrir innlegg þitt


Nú var það ekki ég sem gerði könnunina, svaraði spurningunum eða kynnti niðurstöðurnar. Ég þýddi aðeins lauslega það sem Berlingske Business skrifaði um þessa könnun.

En já áhugi á evru meðal atvinnurekenda í Danmörku hefur dvínað frá því að evra var sjósett. Í fyrstu álitu þeir að það væri lífsnauðsynlegt að taka upp evru og að það myndi auka möguleika þeirra innan ESB. En svo féll evran næstum því strax um 30% eins og sumir kanski muna eftir


Fall evru gagnvar dollar


og svo hafa danskir atvinnurekendur einnig tekið eftir því að hagvöxtur á efnahagssvæði evru hefur verið svo lítill að rangt væri að taka upp gjaldmiðil sem aðeins tekur mið af þeim eina staðnaða markaði því þetta er efnahagssvæði sem mun þýða minna og minna fyrir dönsk fyrirtæki í framtíðinni, einfaldlega vegna þess að mesti og besti hagvöxtur heimsins fer einmitt ekki fram á þessum markaði, og mun alls ekki gera það í framtíðinni. Þessvegna munu tækifærin fyrir dönsku þjóðina og fyrir danskt atvinnulíf í framtíðinni ekki liggja á efnahagssvæði evru. Og svo gera margir Danir sér einnig grein fyrir að evra er ekki góður gjaldmiðill vegna þess að gengi hennar sé hátt. Þeir vita að:


  • Evra er ekki há vegna þess að hún sé góður gjaldmiðill sem byggir á sterkum hagstærðum evru-landa. Hún er há vegna þess að Bandaríkjadollari hefur verið lágur.
  • Ef athyglin fer að beinast að Evrópu vegna þeirrar vaxtargildru sem ESB er í  og því ójafnvægis sem nú er á milli hagkerfa ESB og evru-landa, þá munu markaðirnir fara út í að sannreyna evru sem gjaldmiðil.
  • Greiningadeildir sjá vaxandi vandamál í hagkerfum evru-landa. Suður Evrópa sé að fara inn í kreppu og hafi því alls ekki gott af þeirri stýrivaxtahækkun sem ECB kom með um daginn, en þá hækkaði bankinn stýrivexti evru um 0,25 prósentur.
  • Athyglin mun beinast meira og meira að þeirri togstreitu sem er á milli hagkerfanna á bak við evru.  Menn munu fara að krefjast þess að þeir fái meiri áhættuþóknun þegar þeir kaupa gríska ríkispappíra en þegar þeir kaupa þýska ríkispappíra. Þessi spurning ætti yfirhöfuð ekki að koma upp í myntbandalögum segir til dæmis greiningadeild gjaldeyrismarkaða hjá Jyske Bank. Aðilar í markaði munu í auknum mæli beina athygli sinni að þessu misræmi.
  • Ofaní mikinn halla á greiðslujöfnuðum landanna í Suður Evrópu þá berst Norður-Evrópa í bökkum með efnahag og hagkerfi sem keyra á felgunum. Þetta eru hagkerfi sem áður fyrr voru álitin stöðug.

Það er alveg rétt að gengi dönsku krónunnar er tengt við evru í gegnum ERM II samkomulagið. Það hefur tekið Danmörku 25 ár að ná þeim stöðugleika sem um þessar mundir ríkir á milli gegnis DKK og EUR. En Danir eru samt ekki með evru og hafa sjálfstæða peningastjórn sem að hluta til byggist á þeim forsendum sem ríktu fyrir 25 árum þegar efahagur Danmerkur og ESB leit allt örðuvísu út - þ.e. þegar fastgengisstefnan var tekin upp.

Danir telja sig nú hafa tapað um 100.000 atvinnutækifærum á undanförnum örfáu árum einungis vegna þess að þessi beintenging við evru hefur þýtt að danska krónan er nú í sögulegum hæðum allra tíma, og grefur undan samkeppnishæfni atvinnuvega þeirra við alla markaði í heiminum sem ekki nota evru sem gjaldmiðil. 50% útflutnings Dana fer ekki til evru markaða.

Það er því enganveginn sjálfgefið að danska krónan muni alltaf verða tengd við evru, og sérstaklega ekki ef evra mun líða undir lok vegna þeirra atriða sem ég taldi upp þarna fyrir ofan. Danir hafa því enn möguleikann á að leggja niður bindingu við evru. Að taka upp evru myndi þýða að Danmörk væri um aldur og æfi bundin örlögum evrusvæðis. En framtíðarhorfur evrusvæðis í ljósi stöðnunar, öldrunar þegnana og skorts á ungu vinnandi fólki mun alltaf koma niður á framtíðar hagvexti evrusvæðis, og þessar framtíðarhorfur eru einmitt alltaf að verða fölari og fölari ásýndum.

Bestu kveðjur

Gunnar Rögnvaldsson, 22.7.2008 kl. 09:27

4 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Guðbjörn Guðbjörnsson skrifaði


Skil samt ekki hvernig þú getur borið saman hina ógnvænlegu sterku olíukrónu Norðmanna við okkar mynt, sem fallið hefur 30-40% á nokkrum mánuðum. Auðsjáanlega eru fleiri landsmenn sammála þér en mér, því samkvæmt nýrri skoðanakönnun Gallup/SI trúa aðeins 24% landsmanna og Seðlabankinn á krónuna á meðan 58% Íslendinga trúa á evruna. Sömu sögu má segja um dönsku krónuna, sem er bundin við gengi Evru og þar með líklega varin af Evrópska seðlabankanum. Við Íslendingar búum hins vegar við hina handónýtu íslensku krónu og það þýðir því miður ekki að halda áfram að bera saman appelsínur og epli líkt og þú gerir.


Nú var það ekki ég sem gerði könnunina, svaraði spurningunum eða kynnti niðurstöðurnar. Ég þýddi aðeins lauslega það sem Berlingske Business skrifaði um þessa könnun.

Já, þessi skrif þín eru svipuð þeim sem fóru fram á meðal íbúa á evrusvæðis þegar evran féll um 30% gagnvart dollar. Svo hér er litlu hægt að bæta við.

Norska krónan er alveg sæmilega ágætur gjaldmiðill, og mest vegna þess að hún byggir á sterkum efnahag þess lands sem hún þjónar, eins og er, eða á meðan olíuverð er hátt. En hún fór samt ekki á mis við þá óróleika sem ríktu á gjaldeyrismörkuðum árið 1992. Í september á því ári þá var fyrst finnska markið, breska pundið, og ítalska líran sprengt út úr bindingu við ECU (fyrirrennari euro). Svo í mánuðinum á eftir, nóvember, var norska krónan og sænska krónan sprengt út úr bindingu við ECU.

Eftir þetta var áhuginn á bindingu við ECU/EURO lítill sem enginn. Norska krónan varð einnig fyrir stórum árásum nokkrum árum seinna, eða 1998, þegar olíuverð féll í sögulega lægð. Forsætisráðherra Noregs, Bondevik, var þá lagður inná hvíldarheimili með taugaáfall.


Ég vil allan pakkann: mikla þjóðarframleiðslu, stöðugleika, lága vexti og lágt vöruverð - ekkert minna.

Þá er ekkert um annað að velja fyrir þig en Bandaríkin eða Ísland. Gengi íslensku krónunnar hefur til dæmis ekki sveiflast meira en 3% meira gangvart evru en dollar gerði mörg síðustu árin, eða fram á haust síðasta ár. Þó er stöðugleiki í BNA minni en í ESB því efnahagur Bandaríkjanna vex hratt fram úr efnahag ESB, svo hann er alls ekki eins stöðugur. En vextir eru þó miklu lægri í BNA en í ESB, og vöruverð og allur konstaður er einnig miklu lægri í BNA en í ESB.

Ef þú hinsvegar vill fá ESB pakkann þ.e. -

a) hátt gengi

b) hátt og mikið atvinnuleysi og háa skatta

c) hátt vöruverð og háan kostnað

d) háa vexti

e) og mjög lágan hagvöxt (stöðugleika)

og ekkert meira -

þá er ESB sennilega staðurinn fyrir þig.

Bestu kveðjur

Gunnar Rögnvaldsson, 22.7.2008 kl. 10:43

5 Smámynd: Bjarni Kjartansson

Eftir því sem ég velti þessu lengur fyrir mér, virðist eiit klárt.

Við verðum að kiomast út úr mental-block ástandinu sem hér ríkir í afar mörgu.

Leiðin út er einfaldlaga ein.

Taka upp---gjaldmiðil, sem er beintengdur, ekki Evru, ekki ÐPundi, ekki Krónu, ekki US$, ekki Jeni, heldur Svissneska Frankanum 1/1. 

EF litið er svona 20 ár aftur í tímann og skoðað hvernig sveiflur hafa verið í verðmati gjaldmiðla og Evran sett sem meðaltal af Franska frankanum og Þýska Markinu, kemur í ljós, að Svissneska sveiflan líkist mest vegnu meðaltali af verðmæti gjaldmiðla þeirra, sem við erum að skipta við í útflutningskörfunni.

Bólublásarar verða ekki ánægðir með svoleiðis aðferðir en okkur er lífsnauðsyn á, að fá stöðuleika aukinnar framleiðslu, ekki bólublásturs.  Framleiðsla þjónustu, matvöru, iðnaðarvöru, hrávöru, mannviti og því sem nefnt hefur verið Smart iðnaður.

Sá gjaldmiðill má ekki vera verðtryggður, því bankarnir okkar geta ekki staðist freistinguna að ráðast á gegni Krónu okkar, því þeri GETA það og þannig ráðið EFTIRSTÖÐVUM lána þeirra sem eru ógriddir.  ÞEtta er of mikil freisting fyrir þetta siðblinda lið og því verður að stema á að ósi íþessum efnum.

Kíktu á hverju ég hef verið að stela svona út u´m netið um hrun á Spáni og ótrúlegar hremmingar Breta.  SVo kvað ekki vera mikil ánægja vera í röðum Þjóðverja sérstaklega meðal iðnaðar-rekstrarmanna.

Miðbæjaríhaldið

Vill tvíhliða samninga við ESB um svipaða stöðu og SViss

Bjarni Kjartansson, 22.7.2008 kl. 11:02

6 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Sæll Gunnar

Þú lifir svo mikið í fortíðinni og ástandinu eins og það var 1992-2004 og gildir þá einu, hvort við erum að tala um Ísland, Noreg, ESB eða evruna.

Ástandið á Íslandi var auðvitað öðruvísi en í nokkru öðru landi á árunum 1971-1991 - hreint út sagt hræðilegt. Eftir að Davíð Oddsson og félagar voru búnir að koma skikki á hlutina upp úr 1995 blómstraði Ísland, sem aldrei fyrr. Við vorum með met hagvöxt á meðan við vorum að ná öðrum sambærilegum hagkerfum á Vesturlöndum. Flestir eru sammála um að þetta hafi verið að þakka auknu frelsi í viðskiptum, sem að hluta til mátti rekja til EES samningsins, þótt þau áhrif séu nú sennilega ýkt. Það sama upplifuðu Írar og að hluta til Spánverjar o.fl. þjóðir í kjölfar ESB aðildar.

Síðan kom kreppan árið 2002 og það kom smá bakslag, en við réttum fljótlega úr kútnum. Staðreynd er að hagvöxturinn undanfarin 3-4 ár hefur að öllum líkindum verið drifin áfram af erlendu lánsfé líkt og gagnrýnendur fyrri ríkisstjórnar sögðu. Þótt ég sé eitilharður sjálfstæðismaður, þýðir lítið fyrir mig að mótmæla þessum staðreyndum.

Spurningin er því ekki hvert ástandið var og hver hagvöxturinn var, heldur snýst þetta um framtíðina og hvort evran sé hugsanlega betri valkostur fyrir hana.

Ég lifi í dag og eins og þú man ég ástandið hér frá 1978-1995. Ég  

Ég man ekki hvort ég setti þetta línurit inn í umræðunni um daginn. 

Guðbjörn Guðbjörnsson, 22.7.2008 kl. 14:00

7 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Sæll Guðbjörn.


Þú lifir svo mikið í fortíðinni og ástandinu eins og það var 1992-2004 og gildir þá einu, hvort við erum að tala um Ísland, Noreg, ESB eða evruna


Ég lifi og bý í ESB, hef gert það í 23 ár og rekið fyrirtæki í ESB siðan 1989. Af hverju ætti ég að gleyma því sem fram hefur farið og hvernig málin eru enn þann dag í dag, sem bein afleiðing?

Ég er ekki svo vitlaus að halda að gengi gjaldmiðla sé föst stærð sem breytist aldrei eingöngu þegar það er lágt eða hátt. Ég upplifði fall evru um 30% gagnvart dollar. Ég upplifði stýrivexti í Danmörku sem voru ákveðnir af mönnum í Frankfurt. Ég upplifði þá tíma þegar mest hötuðu menn í Evrópu hétu Schlesinger eða Tietmeyer og sem bjuggu í Frankfurt í Þýskalandi. Ég veit einnig hvernig það er að fá markað sinn eyðilagaðan af hagstjón undir fastgengisbindingu sem reynir að minnka þenslu og halla á ríkisfjárlögum og viðskiptahalla með því að gera fólk atvinnulaust, með hækkun skatta, setja á refsiaðgerðir sem hindruðu neyslu, álögur og takmarkanir á peninga og bankaviðskipti, álögur á innflutning, á bifreiðar, á matvæli, á laun, á frádrætti, á fjárfestingar, á skemmtun, á gleði, á barnafólk, á orku og á nánast allt. Eyðileggingu á fasteignamarkaði með tilheyrandi nauðungaruppboðum gjaldþrotum fyrirtækja í hverri viku í mörg ár, og sem gereyddu uppsparnaði almennings. Allt til þess að viðhalda gengisbindingu við EMS og til að uppfylla stöðnunarskilmála ESB. Þökk sé þessum refsiaðgerðum er Danmörk mun fátækara land fyrir vikið því það er ekki svo auðvelt að sparka hjólunum og eyðilögðum manneskjum í gang aftur. Íslendingar hafa ekki kynnst svona hagstjórn í hagsögu nýrri tíma.

Ég er ansi hræddur um að Stórfélag Íslenskra Spá- og Smákaupmanna muni ekki verða ánægðir með tómu verslanir og bankabækur sínar við þær aðstæður. Hvað ætlarðu þá að gera ? Hvað á Ísland þá að ganga í? Í sjóinn?

Þessi tækifærissinna-skilyrði sem þú settir upp þarna fyrir ofan segja allt um þann skort á raunsæi sem virðist einkenna afstöðu þína til þessa máls, ásamt draumum ESB-sinna um paradísina í Austri. Einu sinni enn!

Ég vona að þú finnir stað sem uppfyllir þín skilyrði um:

Ég vil allan pakkann: mikla þjóðarframleiðslu, stöðugleika, lága vexti og lágt vöruverð - ekkert minna


En þú munt aldrei finna þetta í ESB.

Gunnar Rögnvaldsson, 22.7.2008 kl. 14:55

8 identicon

Það er náttúrulega þægilegt fyrir þá sem reka fyrirtæki í skjóli Evrunnar að halda því fram að annað ástand sé betra. Við sem höfum reynslu af því að reka fyrirtæki í íslenskum krónum myndum ekki óska þeim örlögum upp á okkar versta óvin.

Danir hafa verið með Evru síðan DKK var fest við Eur. Því verður ekki neitað. Þú ert því búinn að vera að reka fyrirtæki í Evruumhverfi í töluverðan tíma.

Það er svo margt sem vinnst með því að gjaldmiðill sé sá sami. Bara stærðin sjálf er gríðarlega verðmæt. Það sem fyritækjarekendur í DK sjá fyrir sér er að þeir eru í Eur umhverfi en með gjaldmiðil sem lítur öðruvísi út en stóri bróðir. Það hefur í för með sér töluverðan einsskiptiskostnað að skipta um gjaldmiðil, fyrir fólk, þjóðfélög og fyrirtæki. Það er auðvelt að skilja hvers vegna þeir hræðast þennan einskiptiskostnað í þeirri óvissu sem ríkir núna.

Svo vill ég minna á það að smáir sjálfstæðir gjaldmiðlar eru ekkert annað en tæki til að leiðrétta hagstjórnarmistökfyrir fyrir ónýta stjórnmálamenn. Það er mun erfiðara fyrir þá að leiðrétta mistökin ef að þeir geta ekki lækkað verðgildið á gjaldmiðlinum. Það sem hræðir stjórnmálamenn hér á landi er eflaust sá agi sem krafist er í ríkisfjármálum og það hræðir líka danska stjórnmálamenn með sitt skelfilega skattakerfi...

IG (IP-tala skráð) 22.7.2008 kl. 16:15

9 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Já Lotta. Þetta er svona eins og trúboðið sem var í gangi á Íslandi þegar paradísin í Austri var að auglýsa sig upp í Evrópu í gamla daga. Það er alveg sama hvaða rök er komið með, allt er betra en það sem við höfum. Við trúum á drauminn!

1) gengishrun evru 1999-2001 -> evra alltof há núna

2) staðnaður efnahagur - > lítill vöxtur

3) dragast alltaf meira og meira aftur úr Bandaríkjunum -> Lissabon 2000 dautt

4) dragast alltaf meira og meira aftur úr Íslandi

6) skattar komnir í 40% af landsframleiðslu

7) áratuga hátt atvinnuleysi sem skapar armæðu og vonleysi hjá ungu fólki

8) samfélög sem eru að breytast í elliheimili og munu ekki geta séð fyrir sér í framtíðinni þar sem aukin skattpíning og versnandi lífskjör bíða

9) hraðast vaxandi markaðir Danmerkur og flestra eru fyrir utan EUR-svæði

10) mesti og besti hagvöxtur heims er fyrir utan EUR-svæði

11) Evru-svæðið er staðnað og hefur verið það í áratugi

12) ekki hægt að reka fyrirtæki nema að gjaldmiðillinn sé risastórir.

Því miður - ESB er ekki gjaldmiðill.

- og IG veit ekki að:

99,8% af öllum fyrirtækjum í ESB eru lítil, minni og millistór fyrirtæki (SME). Þau standa fyrir 81,6% af allri atvinnusköpun í ESB. Aðeins 8% af þessum fyrirtækjum hafa viðskipti á milli innri landamæra ESB. Aðeins 12% af aðföngum (inputs) fyrirtækjanna eru innflutt og aðeins 5% af þessum fyrirtækjum hafa viðskiptasambönd í öðru ESB-landi.

ÞAÐ ER TIL HEIMUR FYRIR UTAN ESB og evru-svæði.

Gunnar Rögnvaldsson, 22.7.2008 kl. 17:10

10 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Það er náttúrulega þægilegt fyrir þá sem reka fyrirtæki í skjóli Evrunnar að halda því fram að annað ástand sé betra. Við sem höfum reynslu af því að reka fyrirtæki í íslenskum krónum myndum ekki óska þeim örlögum upp á okkar versta óvin

Já það er auðvelt. Til dæmis þá fluttu bæði Google og Yahoo sínar Evrópuaðalstöðvar frá ESB (London) og til Sviss í vor. Þú getur reynt að geta þér til um ástæðurnar. Það var ekki evra sem þeir söknuðu. Air Bus flugvélaverksmiðjurnar eru að flytja hluta starfsemi sinnar frá ESB og til Bandaríkjanna vegna þess að evra hentar þeim einmitt ekki sem gjaldmiðill því hún er svo há að allur kostnaður á evru-svæði er kominn útaf landakortinu.

Sjálfur hef ég alltaf unnið mest og best með fyrirtækjum og viðskiptavinum frá löndum utan evru-svæðis, eins og til dæmis frá Íslandi. Það er mitt sérsvið. Auðvitað er ekki gaman þegar gjaldmiðlar fara upp og niður því það þýðir að viðskiptavinir hafa ekki efni á að borga það sama og fyrr, eða að kaupið manns lækkar því það er fjármagnað með vinnu fyrir aðila sem greiða reikninga í erlendum gjaldmiðli. Ég finn t.d. sjálfur mjög vel fyrir falli íslensku krónunnar á mínu eigin peningaveski hér í ESB. Gæti alveg hugsað mér smá gengisfalls evru. En svona er þetta og mun alltaf verða. En þá er ágætt að hafa ekki spennt bogann alltof hátt. Það koma alltaf kreppur. En Ísland er einungis búið að hafa smá niðursveiflu í 5-6 mánuði.

Það verða alltaf holur í veginum

Kveðjur

Gunnar Rögnvaldsson, 22.7.2008 kl. 17:36

11 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Já ég óska Í.E. alls hins besta Lotta, og vona svo sannarlega að sá rekstur geti haldi áfram þrátt fyrir rúlluskautaferð DeCode undanfarið á NSDAQ. Stærð Bandaríkjadals og smæð krónunnar skiptir þar litlu um.

Kveðjur

Gunnar Rögnvaldsson, 22.7.2008 kl. 18:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Gunnar Rögnvaldsson
Gunnar Rögnvaldsson

Búseta: Ísland.
Reynsla: 25 ára búseta í ESB og fyrirtækja-rekstur í DK/ESB frá 1985 til 2010. Samband:
tilveraniesb hjá mac.com

Ég er hvorki skráður á Facebook, Twitter, Linkedin né á neinum öðrum "félags-vefjum". Aðsetur skrifa minna er einungis að finna hér á þessari síðu og á tilveraniesb.net og í blöðum og tímaritum

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband