Leita í fréttum mbl.is

Sviss á leið í "EES-exit" og bannfærir ESB - Miðflokkur bannar framsal

SNB

Mynd: Seðlabanki Svisslendinga, SNB

SVISS

Sviss hótaði Evrópusambandinu að gera eigur fjárfesta til heimilis í lögsögu ESB verðlausar innan lögsögu ESB

Sviss er á leið út úr "samstarfi" og sáttmálum við Evrópusambandið, nema að Brussel samþykki körfur þess. Pólitísk andstaða svissneskra yfirvalda gegn þeim afarkostum sem ESB er að setja Sviss, hefur undanfarna mánuði vaxið svo mikið, að talið er að Sviss sé á leið í eins konar brexit, eða út úr því sem greinilega er ekki "samstarf", heldur ásælni. Þannig sagði Wolfgang Munchau á Eurointelligence í fyrirsögn sinni á föstudag að:

"It is beginning to look a lot like Brexit in Switzerland"

Sviss er með samningsbundið aðgengi að hinum svo kallaða innri markaði ESB (tvíhliða EES-samningar á svissneskum forsendum) en hefur ávallt gætt þess að landið haldi sjálfstæði sínu og fullveldi, og hefur þess vegna aldrei undirfengist fjórfrelsiskröfur Evrópusambandsins að fullu. Það hefur frá 2004 tekið sér skjól fyrir vinnumarkað sinn gegn félagslegum ESB-undirboðum, og það hefur neitað að láta kúga sig þegar að efnahagslegu sjálfstæði og fullveldi kemur. Það hefur passað sitt, eins og við pössuðum okkar í sjávarútvegi og landhelgi Íslands, og það hefur ekki glutrað fullveldinu niður á öðrum sviðum. Það hefur sannarlega ekki í hyggju að glutra niður fullveldi sínu yfir nýtingu náttúruauðlinda landsins, eins og allir, nema Miðflokkur og Flokkur fólksins, eru að reyna að gera á Alþingi Íslendinga þessa dagana. En þar er á ferð samskonar barátta og í þorskastríðunum, án þess að fjölmiðlar upplýsi um það, sökum vangetu, nema þá helst Morgunblaðið

Evrópusambandið hótaði um daginn Sviss því að landið yrði útilokað frá fjármálamarkaða- og kauphallar gagnkvæmni þeirra á milli, við enda þessa árs. Sviss svaraði með því að hóta að banna viðskipti með pappíra til heimilis í Sviss, innan í lögsögu Evrópusambandsins. Öll viðskipti með þá yrðu ESB og EES-löndum bönnuð, nema í svissneskri lögsögu. Evrópusambandið gafst upp. Sviss sigraði þá störukeppni og frestur til sáttarleitanna hófst

"The impasse led to mutual threats of partial exclusion from financial markets at the end of that year. The European Commission threatened to withdraw regulatory equivalence from Swiss exchanges, to which Switzerland countered with the threat to make it illegal to trade Swiss stocks off-exchange in EU trading venues. In the end, the EU relented and agreed to Switzerlands proposed six-month stakeholder consultation, which has now run its course." - Eurointelligence

Sviss hyggst kjósa um að enda frjálst flæði fólks úr löndum ESB og EES yfir landamæri sín á næsta ári, segir Reuters. Það neitar að taka upp orkupakka ESB, sem eiga að bræða orkuinnviði Sviss fasta við Evrópusambandið. En þeir orkupakkar eru í þeim heildar ESB-pakka sem Evrópusambandið hefur nú í fjögur ár reynt að fá Sviss til að kyngja í samningaviðræðum. Ekkert slíkt kemur til greina, segja allir flokkar frá vinstri til hægri í Sviss ásamt verkalýðshreyfingu, nema flokkur viðreisnar-líberalista. Slík eftirgjöf fullveldis Sviss komi ekki til greina því hún sé algerlega óásættanleg. Fullur EES-samningur með orkupakkana þar innanborðs, komi ekki til greina

Svissnesk yfirvöld virðast því sannarlega ekki hafa misst vitið eins og orkupakka-þingmenn og ríkisstjórn Íslands, sem umgengst umboðslausa yfirríkis-stjórnarskrá Evrópusambandsins af meiri virðingu en Stjórnarskrá Íslands. En Evrópusambandið í Brussel hefur nú tilkynnt svissneskum yfirvöldum að umboðslítil þolinmæði þess sé á þrotum og að samningar landanna á milli verði ekki endurnýjaðir, vegna þess að útganga Bretlands af ESB-lögsögu hafði "styrkt samstöðu innan Brusselveldisins" gegn Sviss, í málefnum er varða Sviss. Sannleikurinn er hins vegar sá að Evrópusambandið hefur ekki lengur getu til að taka sig af málinu, sökum þess að innan þess er flest tilvistarlega mikilvægt í fullkomnu uppnámi og öngþveiti, vegna útgöngu Bretlands, og einnig vegna óleystra tröllvaxinna innri vandamála þess, og gagnvart umheiminum líka. Það er pólitískt lamað og ófært um að leysa nein mikilvæg vandamál sín. Það er að brenna út að innan. Sviss er einnig með yfir 120 viðskiptasamkomulög fyrirtækja þess og ESB-landa á milli. Þeir eru svo kallaðir "e. sectoral agreements" og eiga við um viðskiptageira

Enginn stærri stjórnmálaflokkur nema viðreisnar-líberalistar í Sviss hyggst gefa eftir. Andstaðan í öðrum flokkum og verkalýðshreyfingu landsins hefur bara aukist í takt við úrslitakostaútgáfur ESB-veldisins. Stærsti flokkur landsins er þjóðaríhaldsflokkurinn SVP með 27 prósentur atkvæða. Þar næst koma sósíaldemókratar með 18,7 prósent, svo koma líberalistar með 15 prósentur og því næst eru það kristilegir demókratar, með 12 prósent. Þannig að andstaðan við eftirgjöf er massíf og hefur aukist frekar hratt. Náttúruauðlindir Sviss eru fjöllin sem gera þetta landlæsta ríki að nær ósigrandi vígi, og sem mótað hafa löggjöf þess og þjóðarsál. Landamærin á milli lífs og dauða hafa lengi legið umhverfis Sviss. Innan þeirra hefur þjóðfrelsið verið að finna, en utan þeirra er það oft alræðið og dauðinn sem hafa ríkt. Orðstír Sviss er öryggi og stöðugleiki, sem er undirstaða þjóðaröryggisstefnu þess, sem alltaf byggist á hinu versta, eins og vera ber. Þjóðaröryggisstefnur landa verða alltaf að byggja á því versta sem getur gerst. Annars breytast þær í þjóðaróöryggisstefnur. Þegar öllu þessu verður lokið og dauðastríð ESB yfirstaðið, þá munu Lundúnir og Sviss standa áfram sem fjármálahöfuðstaðir Evrópu, eins og vera ber, því öðrum verður ekki treyst. Fullveldi, sjálfstæði, orðstír og traust eru góðar og öruggar útflutningsvörur

auðlindir íslands

ÍSLAND

Og enn stóð MIÐFLOKKUR vaktina á Alþingi Íslendinga

Svona fór varðstaða Miðflokksins fram, aðfararnótt laugardags og fram á dag. Þar stóð flokkurinn vörð á meðan aðrir þingmenn bregðast íslensku þjóðinni

föstudagur, 24. maí 2019 kl. 23:50:51

Miðflokksmenn standa enn þjóðarvaktina á Alþingi, gegn því að ríkisstjórnin fái troðið orkupakka 3 niður kok þjóðarinnar og íslenska lýðveldisins

Ríkisstjórnin berst gegn því að staðið sé á réttindum þjóðarinnar. Hún neitar að leitað sé réttar okkar Íslendinga með því að fara þá leið sem um var samið að farin væri þegar EES-samningurinn var gerður. Ríkisstjórnin er þar með að svíkja þann samning, eins og Jón Baldvin Hannibalsson bendir á í umsögn sinni

Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Framsónarflokks og Vinstri grænna neitar að gæta hagsmuna þjóðarinnar. Hún berst gegn hagsmunum okkar

Eini flokkurinn sem stendur gegn þessu gerræði á Alþingi Íslendinga er Miðflokkurinn. Og Flokkur fólksins er einnig andvígur orkupakka 3

Þingfundur stendur enn yfir þar sem Miðflokkurinn einn stendur vaktina. Fylgjast má með beinni útsendingu á vef Alþingis

laugardagur, 25. maí 2019 kl. 01:04:56

Jón Þór Þorvaldsson segir hvernig skyldi skjalið hafa litið út þegar við fengum undanþágur vegna fiskveiðilögsögunnar

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson segir furðulegt að þeir þingmenn sem tala fyrir þessu máli skuli ekki fjalla um þetta (fiskveiðar). Var að vísu tekið fyrir við samningsgerðina (EES). En Ísland hefur fengið varanlega undanþágu vegna jarðgass. Þar blasir við lausn fyrir rafmagnið. Við erum ekki tengd. Já segi ég; hvað er eiginlega að gerast hér?

laugardagur, 25. maí 2019 kl. 01:18:45

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson segir verið sé að taka upp ESB-löggjöf frá 2009. Hlutverk ACER hér á landi yrði mjög virkt, ef við kyngjum. Mun þetta að grunni til breyta hlutverki Orkustofnunar

Jón Þór Þorvaldsson segir já innleiðing mun gera það. Ný stofnun ESB yrði þá eins konar ný Orkustofnun. Okkar gamla Orkustofnun yrði allt annað. Ekki sjálfstæð nema þá fyrir hönd ESB

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson segir merkilegt að ríkisstjórn innleiði hér með lög um Orkustofnun sem þá hættir að lúta lýðræði á Íslandi, og flyst yfir til ólýðræðis ESB-stofnana

Jón Þór Þorvaldsson segir eins og umhverfi Orkustofnunar er í dag, þá uppfyllir það ekki OP3. Setja á Orkustofnun í annan ramma (yfirríkisramma). ESB veit alveg hvað það vill. Ryðja úr vegi lögum og pólitík Íslands

Karl Gauti Hjaltason segir að Orkustofnun verður þá óháð íslensku ráðherravaldi

laugardagur, 25. maí 2019 kl. 01:28:48

Jón Þór Þorvaldsson segir að ef við kyngjum þá muni þessir stjórnarliðsmenn sem hér eru að verki horfa í gaupnir sér fyrir hádegi, en svo vinna fyrir ESB eftir hádegi. Já segi ég, fjarstýrt frá Brussel. Við þá orðin eins konar nýlenda á ný. Viðurstyggð!

Karl Gauti Hjaltason segir slæmt að Proppé hafi yfirgefið þingsalinn. Í bókhaldi okkar Íslendinga sjáist nefnilega að við séum að framleiða raforku með kolum og kjarnorku. Þetta sér upprunavottun. Þetta tengist þessu máli og verðmyndun í framtíðinni

laugardagur, 25. maí 2019 kl. 01:35:46

Bergþór Ólafsson segir að aflátsbréfasala þessi bendi til þess að öll raforka innan Orkubandalags Evrópusambandsins verði sett í einn pott og svo selt úr honum. Já segi ég, kannski fáum við þá að kaupa rafmagn okkar frá ESB. Orkan okkar er þá ekki lengur orkan okkar. Hún er þá orka úr lögsögu ESB

Karl Gauti Hjaltason segir augljóst að hækkanir verði á raforkuverði. Þetta kerfi muni þýða það

Bergþór Ólafsson segir að við finnum okkur í þeirri stöðu að samkeppnisforskot okkar (hrein orka) muni renna úr okkar höndum og yfir til annarra landa. Það mun fjara út ef við samþykkjum OP3

laugardagur, 25. maí 2019 kl. 01:58:59

Þorsteinn Sæmundsson segir og vitnaði í grein Hildar Sif Thorarensen og segir að þó svo að málið sé flókið að þá erum við ekki starfi okkar vaxin hér á Alþingi ef við getum ekki útskýrt það fyrir þjóðinni, og hvers vegna við erum að gera það, en ekki annað

Jón Þór Þorvaldsson segir og fordæmir forseta Alþingis fyrir að segja að Miðflokksmenn séu að koma í veg fyrir framgöngu lýðræðis. Staðreyndin sé hins vegar sú að Íslendinga hafi ekki kosið neina þessara flokka til að gera einmitt þetta

Birgir Þórarinsson segir og vitnar í orð Steingríms J. Sigfússonar um að menn hafi verið sofandi og spurði þá af hverju við hefðum ekki fengið undanþágu frá þessu (Op1+2 skilst mér). En hér á að reyna að keyra þetta mál fram hjá þjóðinni einu sinni enn

laugardagur, 25. maí 2019 kl. 02:07:03

Ég minni lesendur á 90 ára afmæli Sjálfstæðisflokksins í dag

Þorsteinn Sæmundsson segir að Sjálfstæðisflokkurinn ætli að gefa flokksmönnum pakka í afmælisgjöf í dag: Orkupakka3. Segir að hann átti ekki von á því að dagurinn myndi marka samruna Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna yfir í nýSamfylkingu, eins og hún var fyrir 10 árum

laugardagur, 25. maí 2019 kl. 02:33:23

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson segir að svipað gildi um hina stjórnarflokkana. Þeir hafa hlaupist undan stefnu sinni

Bergþór Ólafsson segir og spyr hver verður hin raunverulega staða eftir innleiðingu OP3, sé hann samþykktur. Sviðsmyndin gætið orðið sú að sæstengur yrði kominn innan nokkurra ára, og hvernig verður staðan þá. Stjórnvöld hafi ekkert ávarpað þá mynd

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson segir að fullt tilefni sé til að gera það. (ég minni lesendur á það sem SDG benti á í tilfelli Kýpur). Það liggja fyrir umfangsmiklar breytingar á OP3, nú þegar. Þessar breytingar eru að ACER fái vald til að knýja á um tengingu við eyjar

Bergþór Ólafsson segir segir að þetta sé hlutur sem Miðflokksmenn verði að taka sig af því ekki gerir ríkisstjórnin né stjórnvöld það. Þetta er almenningi ekki boðlegt. Færiband sé í gangi án þess að sviðsmyndin sé upplýst

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson segir og nefnir svo kallað "greiðsluskjól" sem haldið var fram í Icesave deilunni (já segi ég; lýðskrum þá, og er enn) og nefnir þetta svo kallaða "memorandum of understanding" og svo kallaða fyrirvara sem þá voru kynntir. Það sama á við um svo kallaða rauðarárstígs-fyrirvara núna, sem eru einhliða. Sé OP3 viðtekinn þá mun hann gilda hér eins og hann er, en ekki eins og látið er af stjórnvöldum

laugardagur, 25. maí 2019 kl. 02:49:11

Bergþór Ólafsson ræðir um fundarstjórn þingforseta, sem neitar að tala tillit til starfsfólks Alþingis

Furðulegt segi ég: ekkert hefur heyrst úr evrusvitasjoppu Benedikts Jóhannessonar í marga daga. En í dag er evran fallin um tæp 30 prósent gagnvart dal frá því að bankbóluveisla ECB lauk með klessukeyrslu 2009, og hlutabréfin í fjármálaflaggskipi Þýskalands, Deutsche Bank, eru hrunin um 93 prósent og standa í 6,38 evrum í dag. En það er kannski skiljanlegt að Benedikt geti ekki pönkast á krónunni því ekki er bæði hægt að hafa mél í munni og blása. Í munni Viðreisnar er nefnilega orkupakki3 og þar neyðast menn því til að halda í sér andanum. Hver skyldi verða í Valhöll með orkupakka3 í dag?

laugardagur, 25. maí 2019 kl. 03:10:56

Jón Þór Þorvaldsson vitnar í ræðu Óla Björns Kárasonar þingmann Sjálfstæðisflokksins um að við gætum samkvæmni, sérstaklega þegar tillit er tekið til sérstöðu okkar. Leikreglurnar eru skýrar um EES, en hluti af þeim er að leggja stjórnskipulega fyrirvara fyrir Alþingi. Ómdeilt sé að Alþingi hafi fulla heimild til að hafna eða samþykkja að aflétta fyrirvörum. En í norska þinginu er málið annað, því þar er gert ráð fyrir auknum meirihluta

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson segir já þarna er munur á, en þrátt fyrir það (aukinn meirihluta) er beiðið eftir niðurstöðu norska stjórnlagadómstólsins því innleiðing OP3 hefur verið kærð. Ef að niðurstaða hans er sú að OP3 standist ekki stjórnarskrá, þá værum það við sem værum búin að samþykkja en þeir ekki

Jón Þór Þorvaldsson segir að þá muni verða litið svo á að öll ríkin hafi samt samþykkt og málið verða lagt fyrir ECJ og hann muni dæma eftir ESB-lögum. En það er ekki vandamál ECJ ef að ríki brjóti sína eigin stjórnarskrá. Lög ESB gildi. Ég segi; Já þetta verður svona

laugardagur, 25. maí 2019 kl. 03:26:49

Birgir Þórarinsson segir efnislega að undanþága sé sú leið sem á að fara, en það hafi ekki verið gert né sá réttur þjóðarinnar sóttur. Það sýni hegðun utanríkisráðherra, því þá hefði hann komið og sagt stoltur, hvað sagði ég, þessu var illa tekið. En hann þegir bara þunnu hljóði. Já segi ég: hér er verið að blekkja þjóðina

Jón Þór Þorvaldsson segir greinilegt að hér sé verið að innleiða OP3 án nokkurra fyrirvara

Birgir Þórarinsson segir að ráðherra hafi svarað með skætingi og gert lítið úr þingmönnum og þannig hegðun sé óboðleg. Ráðherrann sé augljóslega ráðþrota. Spurningar hafa verið lagðar fyrir ráðherra en lítið er um svör. Í stað þess er ráðist á norsku Nej til EU samtökin og norskan stjórnmálaflokk, sem ekki eru til staðar, og áburður hafi verið borinn á samtökin Orkuna okkar

laugardagur, 25. maí 2019 kl. 03:45:10

Jón Þór Þorvaldsson segir að efnislega bárust engin svör til þingmanna í gær. Notuð hafi verið mælskulist en það er samræðulistin sem sé tungumál stjórnmálanna. Þetta þyki sér miður. Haldbær rök hafi ekki komið fram

Birgir Þórarinsson segir að ekki sé verið að fara bestu leiðina. Menn reyni hins vegar að fara í hringi. Ráðherrann eyddi tíma í að fara í gegnum gögn, en spurningum hafi ekki verið svarað. Þar viðurkenndi ráðherra að hafa rætt málið þarna úti. En ekki er sagt frá neinum viðbrögðum

Jón Þór Þorvaldsson segir að akkúrat þessi ráðherra hefði ekki átt að viðhafa Viðreisnar- og Samfylkingar hegðun í þessu máli. Að hann hafi ekki kallað eftir áliti helstu manna og fari ekki rétta og lögformlega leið í málinu

Birgir Þórarinsson segir að þarna höfum við samningsbundinn rétt sem einhverjir embættismenn geti ekki setji sig upp á móti. Ástæðan fyrir þessu er óskiljanleg og að þetta sé fyrirsláttur. Einhverjir hagsmunir séu þarna að baki sem við vitum ekki um

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson segir að heimsókn ráðherranns í gærkvöldi hafi verið undarleg. Mætti til leiks án þess að flytja okkur neinn nýjan punkt í málinu. En umræðan hefur þróast mikið síðan að málið var lagt fyrir (já segi ég: og eftir UHU-límingarfund stjórnargengisins í ráðherrabústaðnum) þá kom hann með ekkert nýtt fram, í ljósi þess

Birgir Þórarinsson segir efnislega að ráðherrann geti einfaldlega ekki brugðist við því annað hafi verið ákveðið fyrirfram. Engin svör. Og hvað ef við verðum kærð

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson segir að formaður utanríkismálaráðherra hafi ekkert getað lagt fram í málinu annað en að koma fram í þætti vinar síns í sjónvarpi því sem skattgreiðendur eru neyddir til að halda uppi. Bara skætingur

laugardagur, 25. maí 2019 kl. 03:55:09

Enn stendur aðeins Miðflokkurinn vaktina fyrir Ísland á Alþingi Íslendinga

Birgir Þórarinsson segir að ekkert standi um það í EES-samningum að hann fari í uppnám sé hann notaður eins og til var ætlast. Hvers vegna er verið að halda uppi þessum hræðsluáróðri. Það verður að fást svar við því

Þorsteinn Sæmundsson segir að samningurinn segi að mönnum beri að gera sitt ýtrasta til að fara eftir honum

laugardagur, 25. maí 2019 kl. 04:02:13

Birgir Þórarinsson segir að mikill ágreiningur sé um málið. Umsagnir neikvæðar. Meiri hluti þjóðarinnar andvígur. Verkalýðsfélög neikvæð

Þorsteinn Sæmundsson segir að við ágreining beri að leiða til lykta í samræmi við ákvæði samningsins. Samkomulag verði að finnast. Hafna veður pakkanum í núverandi mynt. Lögformlegir fyrirvara verða að fást

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson segir að hér sé ætlast til að leiða í lög sem síðan menn ætlast til að séu ekki lög. Innleiða á eitthvað sem menn vilja ekki að taki gildi

Þorsteinn Sæmundsson segir hvers vegna skyldi menn leiða eitthvað í lög sem senst ekki stjórnarskrá okkar

Já segi ég; hvernig væri að sýna henni meiri virðingu en hér á að sýna stjórnarskrá umboðslauss imperíal veldis ESB. Eru menn orðnir villimenn í þessu samhengi?

laugardagur, 25. maí 2019 kl. 06:29:30

Enn stendur aðeins Miðflokkurinn vaktina fyrir Ísland á Alþingi Íslendinga

Í ræðustól er Jón Þór Þorvaldsson og talar um virkjanir og svo kallaða fjárfesta og OP3. Hann bíður fullnægjandi svara frá orkupakkagengi ríkisstjórnarinnar

laugardagur, 25. maí 2019 kl. 06:55:58

Jón Þór Þorvaldsson segir að alþjóðlegir fjárfestar sýni málinu svo furðulegan áhuga og hefur fréttaveitunni Bloomberg, að hér á eyjunni Íslandi sé nú að finna mest á græðandi fjárfestingar á öllu Vesturhveli jarðar. Já segir ég, en ESB-liðið hér á landi var búið að segja þjóðinni að hér vildi enginn fjárfesta vegna þess að við værum ekki með evru sem mynt

Birgir Þórarinsson segir að furðulegt sé að auðlinda- og viðskiptahagsmunir þjóðarinnar séu ekki teknir alvarlegar en hér komi fram

Jón Þór Þorvaldsson segir að það sé íslenska þjóðin sem eigi raforkukerfi Íslands og hafi unnið við að byggja það og það sé því hennar og hún eigi að fá að koma að þessu máli

Birgir Þórarinsson segir að lífskjör þjóðarinnar séu nátengd lágu verði á orku og góðu framboði hennar að það hafi ekki verið hugsað um að hér sé hugsanlega verið að skerða lífskjör núverandi og komandi kynslóða

Jón Þór Þorvaldsson segir að mótun orkustefnu, en sem er ekki til núna, eigi að taka mið af þessu. Lífskjörum þjóðarinnar verður að huga að. Okkar orkustefna

laugardagur, 25. maí 2019 kl. 07:28:40

Ólafur Ísleifsson segir að enginn þessara flokka sem nú tala fyrir málinu, töluðu fyrir því fyrir síðustu kosningar

Ja hérna segi ég, þeir eru umboðslausir í þessu máli - og í Morgunblaðsgrein Björns Bjarnasonar þann 24. september 2002, um fyrri orkupakka, segir að ekki megi samþykkja þá. Sækja verður um undanþágur. Hér séu nefnilega allt aðrar aðstæður en gilda um orkumál í Evrópusambandinu, segir Björn þá. Rödd Björns þá ættu þingmenn Sjálfstæðisflokksins að hlusta á núna. Halló, er ekki allt í lagi. Einhver heima?

laugardagur, 25. maí 2019 kl. 07:49:17

Karl Gauti Hjaltason segir að þetta sé fyrsta ræða hans á kristilegum tíma í dag og óskar hann því Sjálfstæðisflokknum á þessum fallega degi til hamingju með 90 ára afmælið, sem er í dag. Karl Gauti Hjaltason Miðflokksins talar um aflátsbréfasölu í raforkumálum. Við höfum innleitt þetta (að utan) og erum að selja burt hreinleikavottun orku okkar

Jón Þór Þorvaldsson segir að hann viti af tilvist þessara aflátsbréfa en þekki málið þó ekki til hlítar. En hvenær ákváðum við að selja burt frá okkur hreinleikavottun okkar sjálfra

laugardagur, 25. maí 2019 kl. 08:07:52

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson segir og segist ekki skilja þetta. Getur þá landbúnaður, til dæmis kjúklingabú sem aldrei er með salmonellu lent í því, að til dæmis ESB-kjúklingabú sem er með fullt af salmonellu, endi hið líf hins góða kjúklingabús sem er með allt sitt á hreinu á Íslandi

Karl Gauti Hjaltason segir já þetta eru lofsverðar blekkingar og sem talað hefur verið um

Já segi ég; með einu pennastriki hefur ESB ákveðið að til dæmis raforka sem framleidd er með bruna tréflísa sé co2 hlutlaus, þegar allir vita að hún er það ekki. Þetta varð svo til þess að Danir hafa skipt frá kolum yfir í tréflísar. Milljón tonn af trjáflísum þarf til að jafnast á við hálfa milljón tonn af kolum. Svona er brandarastykkið þar í boði ESB. Til dæmis þarf stöð á borð við Kárahnjúkavirkjun sennilega 2 milljónir tonna af tréflísum til að fá út 700-800 Mw

laugardagur, 25. maí 2019 kl. 08:24:10

Birgir Þórarinsson segir að málið sé vanreifað og það sé ótrúlegt að svona stórt mál fái þannig meðferð og það sé þess eðlis að utan þingsins séu menn að fara á taugum yfir því að Miðflokksmenn skuli dirfast að reyna að greina það til mergjar

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson segir að svona aðferðum við að þagga niður umræður um svo stórt mál séu til marks um það að menn hafi ekki hreina samvisku í þessu máli. Þeir vilja að sem fæstir fái nasaþef af eðli málsins og þýðingu þess fyrir þjóðina

Jón Þór Þorvaldsson segir að það sé einkennilegt að því sé haldið fram af pakkafólki að málið snúist að einhverju leyti um gegnsæi og neytendavernd. Her er um sósíalistískar aðferðir að ræða, en ekki um markaðsvæðingu og neytendavernd, eins og skilningur venjulegs fólk sé um þau mál

laugardagur, 25. maí 2019 kl. 08:33:39

Já segi ég. Rétt er sennilega að tala um þingmenn ríkisstjórnarinnar sem miðstýrðan hóp. Miðstjórn þingmanna Sjálfstæðisflokks, Framsóknar og Vinstri grænna er ekki að finna í þeim flokkum heldur utan allra flokkanna, en samt hvergi. Enginn botnar í sinnaskiptum allra þingmanna á sömu stundinni. Og enginn þeirra impraði á þessu máli fyrir síðustu kosningar. Málið er samt risavaxið mál fyrir þjóðina. Risavaxið! - og það varðar sjálfa Stjórnarskrá Íslands

laugardagur, 25. maí 2019 kl. 09:00:14

Ólafur Ísleifsson segir að það hafi orðið mikil tíðindi á Bretlandseyjum. Theresa May sé að segja af sér (já segi ég; og grét) vegna þess að hún sagði að sér hefði ekki tekist að koma vilja þjóðarinnar um útgöngu af Evrópusambandslögsögu til leiðar. En hvað mun þetta þýða fyrir okkur því Bretland er stærsti viðskiptaaðili okkar. Hvaða áhrif mun þetta hafa fyrir okkur

Jón Þór Þorvaldsson segir að ef hart-brexit verður (útganga án samnings) þá mun Bretland þurfa að reiða sig meira á þá tvíhliða samninga sem þeir hafa. Þá þarf að hugsa um EFTA. Þá mætti hugsa sér að mjög gott væri fyrir okkur að hafa ekki samþykkt OP3. Að gott væri að við hefðum þá enn fullt forræði í okkar orkumálum. Já segi ég: þar sannast að sjálfákvörðunarréttur þjóða er ófáanlegur hlutur og honum má ekki varpa fyrir róða, sama hvað er í boði

Ólafur Ísleifsson segir segir að hér sé utanríkisráðherra að beita sér fyrir grundvallarbreytingum á utanríkismálum Íslands. ESB segir, gerir og heimtar að aðgangur að markaði ESB sé veittur gegn aðgangi að auðlindum okkar (OP3). Þetta er ekki svona með viðskipti okkar við Bretland

Jón Þór Þorvaldsson segir að fyrir viku hefðum við ekki haft þessar upplýsingar

Birgir Þórarinsson segir að það eina sem okkur sé sagt að ekki þurfi að hafa neinar áhyggjur af neinu. Það er ábyrgðarhlutur að keyra svona mál og sérstaklega gegn vilja og samþykki þjóðarinnar. Þessi auðlind er í eigu allra landsmanna. Rafmang var lagt hér á alla bæi og það var þjóðfélagslegt átak. Ekki var bara hugsað um gróða

laugardagur, 25. maí 2019 kl. 09:23:06

Þorsteinn Sæmundsson segir og talar um að örlög Hitaveitu Suðurnesja séu umhugsunarveð. Almannafyrirtæki á borð við lífeyrissjóði voru hvött til að taka þátt í þessu en það gerðu þau ekki. Útlendingar gerðu það, en svo neyddust lífeyrissjóðir að kaupa þetta af útlendingum aftur, sem hirtu gróðann

Birgir Þórarinsson segir að þetta sé einmitt þessi svokallaða markaðsvæðing. Þarna hafi löggjöf ESB verið örlagavaldur. Hvernig eiginlega búast menn við að þetta verði eftir innleiðingu allra hinna pakka ESB. Er ekki kominn tími til að læra af sögunni. Horfum á þetta og frestum þessu máli. Við verðum að fara mun betur yfir þetta

Þorsteinn Sæmundsson segir að HS hafi verið burðarás á Suðurnesjum. Og helmingur eignarhluta hafi ratað aftur í eigu Íslendinga og það mál viðkemur Bláa lóninu líka. Við eigum ekki að taka áhættuna á að við missum þessi mál úr okkar höndum

Birgir Þórarinsson segir að Sjálfstæðismenn hafi selt HS-veitur sem þá var að skila sveitafélaginu 400 milljónum í arð á ári. Hvernig dettur mönnum þetta í hug. Þessi spor hræða

Gunnar Bragi Sveinsson segir um fundarstjórn forseta að vegna fundarstjórnar þessarar umræðu hafi hann orðið að afþakka boð í 90 ára afmæli Sjálfstæðisflokksins

Já segi ég; þeir einu sem standa vaktina fyrir þjóðina eru þingmenn Miðflokksins, á meðan dansað er í Valhöll á gröf hins heiðarlega kapítalisma

laugardagur, 25. maí 2019 kl. 09:45:06

Ólafur Ísleifsson segir að vegna þess að hætta er á innleiðing brjóti í bága við stjórnarskrá að þá er sagt að fyrirvari eigi að lækna það. Hvar er lögfræðilega álitsgerð um það mál að finna. Hér eiga erlendar stofnanir að fá ítök í nýtignu náttúruauðlinda þjóðarinnar. Hér er svo stórt mál á ferðinni að hér er ekki hægt að halda áfram án þess að aðvaranir séu teknar fastari tökum og meira mark sé á þeim tekið

Gunnar Bragi Sveinsson segir að í áliti Stefáns Más og co sé að finna verulegan vafa. Hvernig geta menn réttlætt að fresta því að tekin sé afstaða til þess. Menn hafa heldur ekki sagt hvernig orkupakki 4 sem er að skella á komi inn í þetta mál núna

Ólafur Ísleifsson segir að texti í nefndaráliti getur ekki haft þýðingu í þjóðréttarlegu máli. Þetta mál sýnist verða lögfræðielgur óskapnaður í alla staði. Teflt er fram einhverju sem sagt er vera fyrirvari en er það ekki. Já segi ég; spínatskellur kjötmálsins. Framsókn hlýtur að veltast um í óendanlegu gleðikasti

Gunnar Bragi Sveinsson segir að menn spyrji sig aldrei að því hvernig sé hægt að hætta við þegar lengra er komið (fleiri pakkar)

laugardagur, 25. maí 2019 kl. 10:22:07

Gunnar Bragi Sveinsson segir og flytur þrumuræðu um orkupakkaþvæluna frá ESB

Bergþór Ólafsson segir að ríkisfjölmiðillinn (RÚV) hafi ekki afl til hvorki að skoða né fjalla um þetta mál. Hann sé gagnslaust fyrirbæri

Gunnar Bragi Sveinsson segir að einkareknir fjölmiðar séu ekki öfundsverðir að keppa við það bákn. Ekkert er gert til að skoða málið niður í kjölinn. Málið er stórt og það er flókið og sýnst um framtíð Íslands

laugardagur, 25. maí 2019 kl. 10:40:13

"Bjarni valdi Fréttablaðið í stað Moggans fyrir grein í tilefni 90 ára afmælisins" segir Viljinn í dag (í gær)

Já segi ég, gott að landsbyggðin sjái hana ekki, og minni á orð Þorsteins Sæmundssonar laugardaginn, 25. maí 2019 kl. 02:07:03

"..að hann átti ekki von á því að dagurinn myndi marka samruna Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna yfir í Samfylkingu, eins og hún var fyrir 10 árum"

Já xD er kominn á Baugs-flettiblaða-veltuna fyrir 15 árum - að braska með fullveldi íslensku þjóðarinnar í auðlinda- og orkumálum. Enn meira skal lagt undir en síðast

Þingfundi án þátttöku ríkisstjórnarflokka orkupakka3 var slitið rétt í þessu og máli ríkisstjórnar Framsóknar, Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna um að framtíðarnýting auðlinda Íslendinga sé best borgið í vösum ókjörins imperíal veldis Evrópusambandsins, er frestað

Fyrri færsla

Miðflokkur 17 tíma á Alþingi gegn þríeykinu: aðfararnótt föstudags


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Gunnar og enn og aftur takk fyrir skeleggið og eljuna sem er farin að taka flestu fram sem ég hef áður verið vitni af.

Langar að benda á einn vinkil þar sem þú bendir á að "Það hefur frá 2004 tekið sér skjól fyrir vinnumarkað sinn gegn félagslegum ESB-undirboðum,".

Af mörgu slæmu er þetta einn ljótasti fylgifiskur hins frjálsa flæðis, og og stuðningur við Evrópusambandið er stuðningur við þetta.  Þess vegna var félagi Ögmundur alltaf skeptískur á EES samstarfið meðan hann var formaður BSRB, og lengi á eftir hafði hann þau áhrif að samtökin voru ekki í vasanum á ESB sinnum. Ólíkt ASÍ þegar það laut Gylfa og skrifstofunni.

Rebellarnir sem tóku yfir ASÍ gera sér grein fyrir þessu, eru á línu Ögmundar.  Það skýrir andstöðu þeirra til orkupakkans meðal annars, því hann er enn ein ógnin í hinu frjálsa flæði.

Þess vegna vonar maður að ASÍ stígi skrefið til fulls og hafni öllu tilraunum til að koma þjóðinni í Evrópusambandið, bæði beint og óbeint.  Og taki þátt í baráttunni við að koma EES samningnum á kné.

Þess vegna er það góð tíðindin að heyra að mótspyrnunni í Sviss, hún er vonandi upphaf þess sem á eftir að gerast á Íslandi. 

Því viðskipti eru viðskipti, þau eiga að vera gagnkvæm og beggja hagur, og þau eiga aldrei að hafa neitt að gera með innri mál þjóða, hvað þá fullveldi þeirra.

Fyrst að EES sinnar ákváðu að kasta stríðshanskanum í þessu máli, þá er það okkar að taka hann upp, og senda hann til föðurhúsanna, á rústum EES samningsins.

Það er þarft verkefni.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 26.5.2019 kl. 10:55

2 Smámynd: Ragnhildur Kolka

Þakka þér fyrir að standa vaktina fyrir okkur sem sofum þetta sjálfstæðisstríð af okkur og þessa fróðlegu fréttaskýringu frá Sviss. Það eru margir að vakna við vondan draum ESB.

Ragnhildur Kolka, 26.5.2019 kl. 10:58

3 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Þakka þér Ómar.

Já mikið rétt þetta með félagslegu undirboðin (social dumpung) og ratvísi hins innbyggða áttavita Ögmundar Jónassonar. Og við má bæta röðum af áttavitum þungavigtarmanna úr flestum flokkum, en sem ekki er hlustað á í Skuggahverfum lengur.

En undirboðin gilda þó ekki aðeins um vinnumarkað hins svo kallaða innri-markaðar, sem þó enn er aðeins kenning embættismanna á blaði, og hefur engan þjóðhagslegan framgang né mikilvægi fyrir nein lönd sem í honum erum.

Þessi undirboð gilda nefnilega einnig á fjármálamörkuðum og í peningakerfi evrunnar, þ.e. á evrusvæðinu og í ERM-II. Það var nefnilega þannig að þegar fjármálakreppan skall á í mars 2009 að þá hóft eins konar innvortis peninga og fjármálaleg borgarastyrjöld á evrusvæðinu og hin ótrúlegustu undirboð fóru í gang, þvert á það sem lofað var í Maastcicht-sáttmálanum, um að hann væri forsenduleg vörn eða sóttvarnargirðning gegn því að áhættutöku einkagreirans yrði smyglað yfir á herðar skattgreiðenda á myntsvæði landa með sameiginlega mynt en engan ríkissjóð. Höfunar hans, stjórnmálamenn í ESB, sögðu að einmitt sá sáttmáli tryggði þeim geira yrði aldrei leyft að þurrka mistökum sínum yfir á herðar skattgreiðenda annarra ríkja. Ég skrifaði um þetta í mars 2012, hér. Þetta gerðist svona: 

E. Hlutabréfamarkaðir byrjuðu að gefa sig

V. Hlutabréf banka- og fjármálastofnana urðu verst úti því hér var einmitt bankabóla að springa

R. "Fjármálamiðstöðin Írland" sem átti orðið mikið undir bankastarfsemi komið, horfði fyrst evrulanda á hlutabréfaverð banka- og fjármálastofnana nálgast fastfrosin blómabeð millibankamarkaðs evrusvæðis á ljóshraða. Sumir bankar áttu aðeins fjögur cent eftir niður í ekki neitt, eftir hafa fallið frá 21 evru hátindi og niður í það núll sem þeir eru enn þann dag í dag

U. Í örvæntingu — og af því að Írar vissu að þeir höfðu enga mynt né seðlapressu — þá ákvað ríkisstjórnin að gangast í ábyrgð fyrir öllum skuldbindingum innlendra banka í landinu. Þetta var örvænting áttavilltra manna og gert til að reyna að sporna við því að allir peningar færu á brott til útlanda úr bankakerfi landsins. Þetta er að sumu leyti sænska EMS-örvæntingar-líkanið frá því í nóvember 1992. En Svíar gátu þetta þá, af því að þeir áttu sína eigin mynt og seðlabanka — og gátu í kjölfarið fellt gengi sænsku krónunnar um 35 prósent til að koma hjólunum í gang á ný — og þannig varðveitt ytra lánstraust og greiðslugetu ríkissjóðs sem þurfti þá ekki, einnar myntar vegna, að þurrausast út í ekki neitt nema í atvinnuleysisbætur. Sænska ofurríkið er þó ekki, nú 27 árum síðar, alveg komið út úr bönkunum enn

S. Við þetta minnkaði fjármagnsflóttinn frá Írlandi nokkuð og hrun hlutabréfaverðs fjármálastofnana landsins hægði dálítið á sér

V. En við þetta hófst ofsafenginn fjármagnsflótti frá þeim evruríkjum sem gáfu ekki út auknar ábyrgðir handa sínum bönkum. Hlutabréfaverð þeirra féll hraðar og hraðar. Fjármagnsflótti úr löndum þeirra jókst og jókst, þannig að eiginfé bankanna tók að gefa eftir og nálgast lögleysu

A. Þá kom ríkisstjórn Austurríkis sem peningalegur klæðaumskiptingur út úr skápnum og gekkst í auknar ríkisábyrgðir fyrir sínu bankakerfi

Ð. Þar með voru fordæmin sett á myntsvæðinu og þau ríki sem gengust ekki í auknar ábyrgðir fyrir sínum bankakerfum, gátu valið um að horfa á hlutabréfaverð fjármálastofnana sinna keyrt niður í jörðina og peningana yfirgefa landið - þ.e. flýja til þeirra evrulanda sem buðu betri ábyrgðir - eða að öðrum kosti hósta upp þeim ábyrgðum sem þeim af bjálfum í Brussel hafði verið sagt að aldrei myndu þurfa að koma til. Löndin væru jú í "skjóli" stærstu fljótandi peningavitleysu heimsins; þ.e. í myntbandalagi Evrópusambandsins og seðlabanka þess. Þeim hafði verið sagt að sóttvarnargirðing Maastrichtsáttmálans myndi koma í veg fyrir að áhættutöku einkageirans væri smyglað svona yfir á herðar skattgreiðenda (ríkissjóðs). En nú er Maastrichtsáttmálinn sem sagt brotinn í spón og orðinn að gjalli á 20 ára afmæli sínu.

I. Þarna geisaði eins konar innvortis fjármálaleg borgarastyrjöld á milli evruríkja. Ríkin yfirbuðu hvert annað með ábyrgðum til þess að reyna að sporna við fjármagnsflótta og hruni hlutabréfaverðs fjármálastofnana í sínu landi, hvert fyrir sig. Svona er að vera á hættusvæði

Ð. Danska ríkisstjórnin, sem síðar varð að láta undan þrýstingi, kom frekar seint út til að veita aukna bankaábyrgð. Og í þeirri fréttatilkynningu sem danska ríkisstjórinn sendi frá sér, voru nokkrir frekar óljósir punktar um það winding-up company (hluti af Finansiel Stabilitet) sem átti að taka sig af föllnum bönkum undir líkfylgd ERM-II fyrirkomulagsins. Þetta varð til þess að Danske Bank í mars 2009 var aðeins hársbreidd frá því að verða lagður í rúst með þeim 30 krónum sem eftir voru af 230 króna hlutabréfaverði bankans. Danmörk er í ERM II og því bundið á báðar fætur og hendur. Hún varð að hlýða hjörðinni til heljar, því annars væri hætta á gengishruni og þá myndi umsaminn svo kallaður gagnkvæmur "ERM-II stuðningur" frá ECB-seðlabanka Evrópusambandsins gufa upp eins hratt og hann gerði gagnvart seðlabanka Bretlands, haustið 1992. Ný fréttatilkynning var því send út í hasti til að reyna að róa markaði, hindra fullkominn fjármagnsflótta úr landinu og þurrð. Nú er svo komið að fjórum björgunarpökkum hefur verið hent til bankakerfis Danmerkur og sá fimmti er í smíðum. Því góði minn, Þýskalandið sjálft hefur nefnilega varið einum stærsta hluta landsframleiðslu allra evruríkja til bjargar sínu eigin bankakerfi. Þýskaland ræður alltaf í praxís. Og þú fylgir eftir sem ESB hundur

Þegar þarna var komið sögu, er peningagólfið á myntsvæði ECB-seðlabankalings evrusvæðis orðið að eggjaskurn. Það er orðið svo þunnt að hundrað þrjátíu og sex tommu snjóþrúgur þurfti að panta fyrir hættuför bankastjórnar ECB út á það. Einn maður, stuttu síðar, stóð þó af eigin sannfæringu nægilega uppréttur til að geta náð því að kasta af sér þvaginu yfir lotnar axlir kanslara Þýskalands, Angelu Mekel. Hún fékk í kjölfarið hárþurrku að gjöf frá Braun. Þetta var Axel Weber seðlabankastjóri Þýskalands, sem síðan gekk út og hætti af beinum viðbjóði. En vatn hans situr þó enn á sínum stað.

Þetta var og er enn þannig, og ekki öðruvísi.

Kveðjur

Gunnar Rögnvaldsson, 26.5.2019 kl. 13:31

4 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Þakka þér góðar kveðjur Ragnhildur

Sendi mínar bestu til þín

Gunnar Rögnvaldsson, 26.5.2019 kl. 13:32

5 Smámynd: Eggert Guðmundsson

Takk fyrir að rita niður fundinn svona samviskulega Gunnar.

Það má vera með ólíkingum að Forseti Alþingis sjái ekki sóma sinn í að stöðva þessa næturfundi.

Það kom fram í máli Jóns Þórs Þorvaldssonar að Miðflokksmenn hafi ekki fengið hvíld frá vinnustað sínum í 42 klst samfleitt !!!!

Er þetta boðlegt af Forseta Alþingis, Steingrími J. Sigfússyni og þá einnig af samþingmönnum Miðflokksins.

Það er engin virðing borin hvíldartíma þessara þingmanna sem eru að reyna afstýra stórslysi í ákvörðunartöku að mínu mati.

Samþingsmenn þeir sem eru aðhlyntir þessu framsali á fullveldi í gegnum þennan Orkupakka 3, geta ekki einu sinni verið í þingsal og reynt að komi þeim sjónarmiðum sínum fram og sín rök sem mögulega geta sannfært Miðflokksmenn og aðra landsmenn sem fylgst með umræðum þeirra að næturlagi um að þetta sé áhættulaust.

Það er engin furða að ekkert traust sé borið til þessarar stofnunar sem Alþingi er.

Eggert Guðmundsson, 26.5.2019 kl. 16:12

6 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Flottur pistill Gunnar eða meir greinagerð um Sviss.

Ég hef alltaf verið hrifin að stjórnarfari Svisslendinga en það hafa þeir framyfir Ísland að þar leifa menn sér að elska sitt land og sína það kallað þjóðarstolt og þing dagbókarfærslur frá Alþingi en þær eru gulls ígildi.

Það er sorgleg staðreynd að við búum við stjórnarfar hér á Íslandi sem aðeins finnst í Brussel.

Valdimar Samúelsson, 26.5.2019 kl. 19:27

7 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Þakka þér Eggert.

Vel á minnst, hjá þér:

"föstudagur, 24. maí 2019 kl. 08:33:56

Birgir Þórarinsson segir að starfsmenn Alþingis hafi sagt að lykillinn að því að endurheimta traust þjóðarinnar á Alþingi sé að finna hjá stjórnmálamönnum"

Alþingi er stjórnmálamenn, þingmenn. Þeir eru Alþingi, svo já það sem Birgir nefndi þarna er rétt. Og eins og við sjáum þá er þessi HRYLLINGUR orkupakkamálsins ekki til að bæta það. Ljóst er að taka verður EES-samninginn af stjórnmálamönnum okkar. Það er alveg orðið ljóst. Þeir þola ekki umgengni við hann.

Kveðja

Gunnar Rögnvaldsson, 26.5.2019 kl. 19:36

8 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Þakka þér Valdimar Alaskafari.

Já þvílík sorg að sjá þetta vera að gerast aftur, eftir hildarleik síðustu 12 ára.

Kveðjur

Gunnar Rögnvaldsson, 26.5.2019 kl. 19:39

9 Smámynd: Jón Frímann Jónsson

Þetta er svo vitlaust að ég held að þú þurfir að tala við lækni og fá lyfseðilskyld lyf við þessu sem er að hrjá þig. Heimildir þínar eru einnig eitthvað bull sem enginn tekur mark á.

Jón Frímann Jónsson, 26.5.2019 kl. 19:40

10 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Takk fyrir lesturinn og heimsóknina Jón.

Kveðjur

Gunnar Rögnvaldsson, 26.5.2019 kl. 20:26

11 Smámynd: Benedikt Halldórsson

Takk fyrir mig.

Benedikt Halldórsson, 27.5.2019 kl. 00:39

12 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Þakka þér Benedikt.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hafði nokkuð rétt fyrir sér. 

"föstudagur, 24. maí 2019 kl. 03:58:24

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson segir að skoðanakönnun sýni að breski Íhaldsflokkurinn hafi fengið 7% og Verkamannaflokkurinn 13% en Brexitflokkur Nigel Farage 37% í þeim kosningum sem núna fara fram til Evrópuþingsins, en hverra kosningaúrslit verði haldið leyndum þar til þær í öllum löndum ESB eru búnar. Hvað segir þetta okkur?"

Breski Íhaldsflokkurinn fékk 8,7%, Verkamannaflokkurinn fékk 14% og hinn rúmlega eins mánaðar gamli Brexit-flokkur Nigel Farage fékk 32%

Kveðjur

Gunnar Rögnvaldsson, 27.5.2019 kl. 08:06

13 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Og í fyrsta skiptið frá lokum Síðari heimsstyrjaldar er þýski SPD-sósíaldemókrataflokkurinn ekki stærsti flokkurinn í einu helsta höfuðvígi sínu, Bremen.

Þýski SPD-flokkurinn virðist vera á leið í gröfina og CDU-flokkur Angelu Merkel fylgir fast á eftir. Í Þýskalandi er AfD flokkurinn nú stærri í tveimur fylkjum, þ.e. í Brandenburg og Saxlandi, og eftir daginn í gær er rétt svo að CDU merji að vera stærri en AfD í Thuringia.

Gunnar Rögnvaldsson, 27.5.2019 kl. 08:44

14 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Á Ítalíu sópaði þjóðarsinnaður Lega flokkur Salvini að sér 35 prósentum atkvæða. Fólk stendur höggdofa eftir þann jarðskriðusigur.

Í Frakklandi sigarði flokkur Marine Le Pen flokk Emmanuels Macron, naumlega. Þykir nú ljóst að aðeins tvö pólitísk öfl eru í Frakklandi. Þjóðarsinnar og óþjóðarsinnar. Í rúst hefur flokkur Les Republicains verðið lagður. Hreyfing sósíalista (Mitterrand-flokkurinn) liggur hins vegar í algerri rúst.

Í Póllandi sópaði PiS ríkisstjórnarflokkurinn að sér 46 prósentum atkvæða.

Í Ungverjalandi tók Viktor Orban rúmlega meirihlutann til sín, eða rúmlega 52 prósentur.

Í Austurríki sigarði íhaldsflokkur Sebastian Kurz. Fékk 35 prósentur.

Niðurstaðan í Danmörku, Hollandi og Finnlandi er meira blönduð.

Frekar ljóst er að ríkisstjórn Þýskalands út á við er fallin og í upplausn. SPD hefur framið sjálfsmorð saman með CDU. En upplausn hennar mun þó fara þannig fram að þar verður áfram hangið á horriminni og pólitískt lamað Þýskaland er því á faststeyptri leið inn í pólitískt öngþveiti, og svo stjórnleysi. Allir valkostir til stjórnarmyndun eru vonlausir. Það eina sem Þjóðverjar munu reyna að hugga sig við er það, að í þessum kosningum hafa möguleikarnir á að þýskur maður verði næsti bankastjóri ECB-seðlabankans, því að púðurtunnan sú, er á leið inn í upplausn líka.

Líkurnar á að næsti forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins verði teknókratinn Christine Lagarde hafa aukist verulega. Það mun svo tryggja áframhaldandi getuleysi ESB við lausn þeirra vandamála sem fyrir liggja, og sem eru óleysanleg fyrir þjóðir Evrópu á meðan ESB er enn á lífi.

Gunnar Rögnvaldsson, 27.5.2019 kl. 09:50

15 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Á Spáni eru niðurstöðurnar aðrar. Þar vinna vinstrimenn á, en um leið hefur Spáni sennilega verið hent af Þýsk-franska öxli Lotharingia, sem gæti hæglega haft þau áhrif að Spánn verður að stóla á klúbb Miðjarðarhafslanda, til að vega upp á móti áhrifum bandalags nýrra Hansakaupmanna í norðri, sem eru undir forystu Hollands og eru Eystrasaltslöndin, Svíþjóð og Danmörk, og sem hafa bundist samtökum til að verja sig, eftir að helsti bandamaður þeirra, Stóra-Bretland, er að öðlast frelsi til að sigla frjálst á höfum heimsins á ný, sem Nýja kapítalista-skipafjélag James Onedin, þar sem vindurinn er, og blæs frjáls.

Gunnar Rögnvaldsson, 27.5.2019 kl. 11:13

16 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Bendi lesendum á að enn standa þingmenn Miðflokksins vaktina á Alþingi Íslendinga og ræðir orkubandalags-pakka Evrópusambandsins númer 3, sem við verðum að hafna. Þingmaður Pírata, Helgi Hrafn Gunnarsson, hefur einnig látið til sín taka í umræðum í kvöld. Hægt er að fylgjast með og horfa umræðuna á sjónvarpsrás Alþingis og á vefsíðu þess.

Gunnar Rögnvaldsson, 27.5.2019 kl. 20:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Gunnar Rögnvaldsson
Gunnar Rögnvaldsson

Búseta: Ísland.
Reynsla: 25 ára búseta í ESB og fyrirtækja-rekstur í DK/ESB frá 1985 til 2010. Samband:
tilveraniesb hjá mac.com

Ég er hvorki skráður á Facebook, Twitter, Linkedin né á neinum öðrum "félags-vefjum". Aðsetur skrifa minna er einungis að finna hér á þessari síðu og á tilveraniesb.net og í blöðum og tímaritum

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband