Leita í fréttum mbl.is

Með kveðju frá Rússlandi

Olíuverð og rússnesk stjórnmál

Mynd: tímaritið Economist. "Olíuverð og sovésk/rússnesk stjórnmál". Nánar hér

****

Það er greinilegt að fyrir dyrum í Rússlandi standa stórir og alvarlegir hlutir. Rússland skildi nafnspjald sitt eftir í Salisbury í Bretlandi um daginn, til að tryggja hamrandi fréttaflutning og aðgerðir sér í útvortis óhag, en innvortis í hag. Á rússneska nafnspjaldinu stóð: svona fer fyrir þeim Rússum og fjölskyldum þeirra sem svíkjast undan merkjum á næstu mikilvægu árum. Við erum að skrifa reglubókina upp á nýtt, þar sem gömlum óskrifuðum reglum er hent út. Það er að okkar mati nauðsynlegt því svo mikið og stórt stendur fyrir dyrum á næstu árum. Á komandi árum berst Rússland fyrir tilvist sinni í núverandi mynd. Við stöndum afar illa. Okkur hefur mistekist að umbylta hagkerfinu, við erum enn að mestu í vösum afla sem við sjálfir ráðum engu um; þ.e. heimsmarkaðsverði á olíu, sem Bandaríkjamenn hafa rústað með enn einni af sinni nýju fjandans tækni. Almenningur er í sívaxandi mæli að missa þolinmæðina og trú hans á framtíð landsins er orðin mjög slöpp, miðað við bóluárin þegar olíuverð fór hækkandi í samfellt 15 ár. Undanfarið höfum við einungis haft efni á lyklaborðsaðgerðum í utanríkismálum og einni lágvöru-hersýningu í Sýrlandi. Ef olíuverð hefði ekki tekið upp á því að byrja að hrynja í september 2013 og fara fram af brúninni sumarið 2014, þá hefðum við haft efni á meiru. Við hefðum þá haft meiri peninga á milli handanna til að senda út í jaðra sambandsríkisins (stuðpúðana) og við hefðum þá sennilega nú þegar haft efni á Úkraínu, undir okkar formerkjum. Tveir þriðju hlutar ríkisfjárlaga okkar komu frá orkugeiranum

US Exports of Crude Oil - Thousand Barrels per Day - October 2017

Mynd: Olíuútflutningur Bandaríkjanna, þúsundir tunna á dag: Banabiti OPEC og félaga. Um leið og olíuverð hækkar koma bandarískir olíubrunnar on-line og þrýsta því niður á ný. Og break-even kostnaðarmark þeirra fer sífellt lækkandi

****

Allir menn vita að um leið og Vladímír Pútín komst til valda árið 2000, þá breyttist Rússland og varð nokkuð samt við sitt gamla á ný. Það varð á ný hart og stjórnmálin urðu harðneskjuleg. Á komandi árum verða tónarnir sem frá Rússlandi koma, mjög svo harðir. Mikið liggur við og þeir sem svíkja það stóra prógramm sem við erum við það að gangsetja, já, svona fer fyrir þeim. Þetta tilkynnist hér með öllum. Rússland er og verður alltaf harðbýlt land og ríki, haldið saman af KGB-stofnunum

Og nú er loftið líka að fara úr Kína. Það mun hjaðna eins og Japan hjaðnaði frá því að vera 17 prósent af heimshagkerfinu 1989 og niður í sex prósentin sem það er í dag. En Japan stendur þó betur að vígi en Kína, því það hefur ekki þúsund milljón fátæklinga hagandi um háls stjórnvalda, sem ofaní kaupið byggja allt sitt á einræðisvaldi

Rússland et. al. eru þrjú misheppnuð ríki sem komin eru með eilífan forseta sem er sonur sólarinnar: Rússland, Kína og Norður-Kórea. Þvílík þrenna maður

Fyrri færsla

Pólland kaupir bandarískt Patriot-eldflaugavarnarkerfi


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Mikið til í þessu hjá þér.

Það má búa til eftirfarandi kenningu með þvi að nefna líkindi: 

Stalín tryggði völd sín með því að hræða sem flesta og til þess að vera öruggur lét hann til öryggis drepa miklu fleiri en þurfti. 

Pútín getur haft þetta öfugt, passað sig á því að drepa eins fáa og unnt er að komast af með, en valið þá þannig, að hvert óupplýst morð verður aðvörun til andófsfólks og "svikara", til "skræk og advarsel." 

Hver um sig getur hugsað: Fyrst hann lét drepa Skripal, sem var lítils virði, hvað þá um mig?  Fyrst hann notaði taugaeitur á Skripal, hvernig get ég varist öllum þeim fjölbreytilegu aðferðum sem fyrrum KGB maður þekkir?

Með þvi að hafa drápsaðferðirnar fjölbreyttar og sýna fram á að andófsfólk er hvergi óhult í heiminum frekar en Trotskí var á sínum tíma, virkar fælingaraðferðin fullkomlega. 

Ómar Ragnarsson, 3.4.2018 kl. 17:32

2 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Þakka þér Ómar.

Já það er víst einhvernvegin á þennan veg sem þú lýsir hér, sem þessar "forvarnir" munu virka á mannfólkið í Rússlandi á komandi árum.

Kveðjur

Gunnar Rögnvaldsson, 3.4.2018 kl. 18:40

3 Smámynd: Borgþór Jónsson

Rússland er mikilvægt land og stórt.Það er því afar merkilegt hvað þú ert illa að þér um þetta stæðsta ríki Evrópu.

Rússland er eini stóri olíuframleiðandinn sem getur rekið sig á 40 dollara olíuverði.

Saudar þurfa að minnsta kosti 70 dollara. Gjaldeyrissjóðurinn þeirra fuðrar nú upp eins og bensíntunna.

Fracking dæmið er álíka vonlaust fyrirbæri. Það þarf 80 dollara til að komast af. Það er eins og Bandaríski ríkissjóðurinn ,skrimtir áfram á síauknum lánum. Frackingiðnaðurinn hefur aldrei skilað eigendum sínum krónu ,samt er nuna eingöngu unnið á gjöfulustu svæðunum.

Þeir geta ekki einu sinni séð sjálfum sér fyrir gasi. LNG skipin koma nú siglandi í halarófu frá Yamal skaganum með nauðþurftir handa Bandarískum gasnotendum. Til að núa salti í sárin lestaði Putin persónulega fyrsta gasfarminn til Bandaríkjanna. Þetta er í raun eins og gamanleikrit. Bostonbúar orna sér nú við gas frá LNG stöð í Rússlandi sem Bandaríkjamenn gerðu bókstaflega allt sem í þeirra valdi stóð til að koma í veg fyrir að yrði til. Og fyrsti gasfarmurinn frá stöðinni fer einmitt til Bandaríkjanna og er afgreiddur af Putin persónulega. Þetta sýnir glögglega að áhrif Bandaríkjanna eru að fjara út. Enginn tekur lengur mark á þeim ,nema litlar eyþjóðir.

Bandaríkjamenn hafa enga möguleika á að keppa við Rússa á þessum markaði ,nema með hervaldi. Það verður hinsvegar sífellt erfiðara að gera út herinn ,af því hann er allur á lánum. Bæði tækin sjálf og rekstrarkostnaðurinn. Bandaríski herinn er hættur að vera arðbær.

Vissulega var hersýning Rússa í Sýrlandi ekki hástemmd,aðeins nokkrar herþotur og loftvarnakerfi,en hún sendi samt Bandaríkjamenn öfuga út úr Miðausturlöndum. Bandaríski herinn situr nú einangraður í Sýrlandi og vakir yfir örfáum hryðjuverkamönnum í algeru tilgangsleysi. Þeir hafa þurft að horfa aðgerðarlausir á meðan Rússar útrýmdu milljarða dollara hryðjuverkaher sem þeir voru búniir að koma sér upp. Þar fór mítan um yfirburði Bandaríska hersins. Það þurfti bara nokkur sett af loftvarnaflaugum til að stoppa hann. Sumt af hergögnum hans er sennilega nothæft í stríði,en mannskapurinn er hinsvegar til einskis nýtur.

Bandaríski flugherinn sem stendur nú aðgerðalaus á flugvöllum víðsvegar um Miðausturlönd reyndist ekki fær um að gera neitt. Það hefði ábyggilega verið hagstæðara fyrir þá að semja við Flugfélag Íslands um að henda niður þessum örfáu sprengjum sem þeim tókst að henda niður áður en Rússarnir komu og sögðu þeim að hafa sig hæga.

Eitt er samt rétt hjá þér í þessari greiningu,þó þú skiljir að sjálfsögðu ekki hvað þú ert að segja.

Það er að á næstu árum munum við sjá harðari tón frá Rússum,og það er þegar byrjað.

Skriptal málið er ágætt dæmi um þetta.

Það sem Bretar ætluðu sér með að eitra fyrir feðgininum ,var að reka málið á sama hátt og þeir gerðu þegar þeir eitruðu fyrir Litvinenko um árið. Þeir ætluðu að reka þetta með kjaftasögustíl ,þannig að það mætti spinna gróusögur árum saman ,en sýna aldrei nein gögn máli sínu til stuðning. Þannig gætu þeir kjamsað árum saman á gróusögum og illmælgi um Rússa ,út í eitt. Svo þegar þeir eitra fyrir næsta Rússa,gætu þeir svo rifjað upp gamlar lygar ,máli sínu til stuðnings. Þetta er nú smá saman að renna út í sandinn ,af því að Rússar þvinguðu Breta til að blanda alþjóðastofnunum inn í málið. 

Líklega mun þessi stofnun bjarga Bretum frá mestu skömminni með því að gefa út loðna yfirlýsingu,en skömm þeirra mun engu að síður verða öllum ljós. En þetta verður samt til þess að þeir heittrúuðustu geta í þykistunni sagt við sjálfa sig að Bretar gætu í draumheimum haft rétt fyrir sér. 

Borgþór Jónsson, 3.4.2018 kl. 19:31

4 identicon

Þetta er nokkuð rétt lýsing.  Við hana má bæta því sem fram kom í sjónvarpsmynd í kvöld:  Gríðarlegri spillingu í kringum Pútín og félaga.  Og þá meina ég gríðarlega.

Nánast eini leikurinn í stöðunni hjá Pútín er að gerast það sem hann í raun er:  Einvalds keisari í Rússlandi og nota svo Lénsskipulag sér til stuðnings.  

Íbúar Rússlands eru um 140 miljónir.  Þar af lepja 100 miljónir dauðann úr skel.  Ca 10 miljónir hafa það nokkuð gott/mjög gott, en restin ca 30 miljónir eru "millistétt" með þetta 800-1400 dollara á mánuði í tekjur.  Kennaralaun í Rússlandi 2016 voru um 180 Evrur á mánuði.  Fátæktin er raunveruleg og áþreifanleg fyrir þá sem búa við hana.  Stór hluti af íbúðarhúsnæði er í raun óíbúðarhæfur.  Raki og mygla bara lítill hluti af vadnamálinu.

Ég er búinn að fara þarna austur 12 sinnum, frá því um 2000.  Það er ágætt fyrir þá sem hyggjast "hasla sér völl" í viðskiptum þarna að horfa aftur á myndina á RUV og hafa þessa ofangreinda tölfræði í huga.

Guðmundur R Guðmundsson (IP-tala skráð) 3.4.2018 kl. 21:55

5 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Þakka þér kærlega fyrir Guðmundur.

Þessi þáttur var jafnlélegur og flest annað sem DDRÚV sýnir um alþjóðamál.

Það var KGB sem stóð fyrir framkvæmd Glasnost og Pútín var einn af þeim sem þá viðleitni leiddu. Glasnost snérist um að KGB-menn voru orðnir sannfærðir um að Sovétríkin væru á svo hallandi fæti gagnvart Vesturlöndum, að þau væru komin fram úr því að vera umbætanleg, og þyrftu í raun á enduruppsetningu að halda. Og til þess sárvantaði beinhraða erlenda peninga og einnig erlendar fjárfestingar, sérstaklega í tækni. Ekki má gleyma því að aðalmiðstöðin gegn Kommúnistaflokknum var í Leníngrad og þar var Pútín einn af þeim sem þann flokk vildi dauðan.

Ef að Pútín á að hafa verið spilltur þá var það vegna þess að leikreglunar í Sovétríkjunum og einnig í rústum þeirra (e. transitional state economy) voru svo hroðalega og gerspilltar að lögmæti yfirstjórnar landsins var orðið ekkert gagnvart borgurunum. Hér er Pútín sem hvítskúraður engill í samanburði við það flokksapparat sem við var að etja.

Þessi vestræna árátta að gera Vladímír Pútin að andskotanum sjálfum er jafn glórulaus þvættingur og sá sem borinn er á borð fyrir okkur um Donald Trump. 

Rússland er og verður Rússland með sína siði, hefðir og venjur. Landið verður aldrei Wisconsin frekar en Afganistan verður það. Ef Pútín hefði orðið fyrir bíl fyrir fimm árum síðan, þá hefði það engu máli skipt, forsetinn sem væri við völd í dag væri að gera það nákvæmlega sama og stjórnvöld Rússlands eru að gera í dag.

DDRÚV er að verða verra en Pravda var á Sovéttímanum.

Kveðjur

Gunnar Rögnvaldsson, 3.4.2018 kl. 22:27

6 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Þegar Sovétríkin féllu, þá féllu margar mikilvægustu stofnanir landsins í leiðinni. Hið pólitíska kerfi féll saman undir Yeltsin. Skipulögð glæpastarfsemi og þjóðríkis-ræningjar áttu leikvöllinn, ofbeldi varð daglegar venjur og öngþveiti réði ríkjum. Moskva var að tapa stríðinu í Téténíu. Í kringum 1998 féll efnahagskerfi landsins, sem var á brauðfótum, loksins saman og gífurleg áföll dundu yfir. Læknar og kennarar fengu ekki laun og heilbrigðiskerfið var bókstaflega í öndunarvél. Rafmagn varð meira segja lúxusvara fyrir þær stofnanir og fólk króknaði úr kulda innandyra. Það fólk sem gat, flúði landið í faraldri og allir óskuðu sér burt. Allir vildu allt í einu læra ensku til að komast burt. Framtíðarvonir Rússa í sínu eigin landi voru brostnar. En árið 2005 hafði Pútín snúið þessari þróun við og Rússar fengu aftur trú á landinu sínu. Söguna síðan þá, þekkja flestir.

Nú hefur velmegunin tekið sér frí frá Rússlandi einu sinni enn og hver veit hvað gerist næst. En það veður að minnsta kosti ekkert í líkingu við það sem gerðist á tímabilinu frá 1987 til 2000. Við skulum að minnsta kosti vona ekki. En Rússland verður ávallt Rússland og því þarf að mæta af festu, þegar það á við. Og það á við einmitt núna.

Gunnar Rögnvaldsson, 3.4.2018 kl. 23:11

7 Smámynd: Borgþór Jónsson

Guðmundur ,ég held að þú þurfir að fara að minnsta kosti 12 sinnum í viðbót til Rússlands áður en þú öðlast lágmarrks þekkingu á þessu samfélagi.

Það væri fróðlegt að vita hvar þú færð þessa tölfræði.

Það er um 20 milljónir manna sem búa við það sem er  kallað fátækt í Rússlandi. Það er býsna há tala,svipað hlutfall og í Bandaríkjunum. Það er athyglisvert í þessu sambandi að Bandaríkin er eitt auðugasta ríki heims,en Rússland er í millitekjuflokki.

Launin sem þú nefnir eru mjög há fyrir Rússland. Einstaklingur með 1400 dollara á mánuði gæti tæknilega séð haft þjón.800 dollarar eru ágæt laun.

Það er ekkert til sem heitir "kennaralaun í Rússlandi".

Fyrst þú hefur komið þarna svona oft,hefurðu kannski tekið eftir að landið er hroðalega stórt. Það er líka mjög margbrotið.

Laun eru mjög mismunandi eftir landshlutum,og líka laun kennara.Þeir eru nefnilega ekki á launum frá ríkinu og laun þeirra fylgja því, því sem gerist almennt á þeirra svæði.

Ég þekki tvo Rússneska kennara ,annar býr á einu af fátækustu svæðum Rússlands,Siberiu, en hinn býr í iðnaðarborginn Perm. Hvorugur þessara kennara hefur 180 evrur í laun. Sá í Siberiu hafði 332 evrur í laun,en er nú kominn á eftirlaun og fær 210,5 evrur í eftirlaun. Það er hroðalega lágt,en hún kemst samt sæmilega af.

Kennarinn í Perm hefur ca 375 evrur í laun ef ég man rétt.

Laun eru almennt hærri í Moskvu og öðrum stórborgum í Evrópuhlutanum,en lægst í Suður Kákasus og norður Siberiu.

Það er alltaf erfitt að bera saman þjóðfélög og ekki síst svona gerólík eins og Ísland og Rússland.

Þó við séum moldrík,er samt sumt Rússum í hag.

Rússneka ríkið er  líklega það auðugasta á jörðinni.Líklega auðugra en það Kínverska.

Það er líka afar lítið skuldsett. Þjóðin í heild er líka mjög lítið skuldsett og einnig Rússneskir einstaklingar. Þarna er verið að tala um sem hlutfall af launum,eða sem hlutfall af GDP. Hlutafall íbúa í eigin húsnæði er með því hæsta sem gerist,töluvert hærra en á Íslandi til dæmis. Eiginfjárstaða Rússa er hlutfallslega miklu betri en Íslendinga af því þeir skulda hlutfallslega miklu minna í húsnæðinu en við gerum,og lausaskuldir eru miklu lægri.

Þetta hefði McCin og Merkel mátt hugsa út í þegar þau ákváðu að setja efnahagsþvinganir á Rússa. Það er nánast ógjörningur að kúga þjóð til hlýðni sem er í þessari stöðu. Ekki síst þegar hún á eins mikla gjaldeyrissjóði og Rússland á.Og ekki síst þegar fórnarlambið hefur jafn mikinn jákvæðann viðskiftajöfnuð og Rússland hefur.

En það virðist vera að skilningur vestrænna ráðamanna á Rússlandi sé ekkert meiri en þinn. Ótrúlegt hvað við höfum vanhæfa stjórnmálamenn.

Einhverntíma sagði Hitler ,efislega þetta, þegar hann var að skipuleggja Barbarossa.

Við þurfum bara að sparka upp hurðinni og hreysið hrynur saman eins og spilaborg.

Hitler var ekki sá fyrsti og ekki sá síðasti sem sparkar í Rússnesku úthurðina.Nú hafa höfðingjarnir okkar ákveðið að gera það ,og bíða nú með vaxandi óþreyju eftir að eitthvað gerist. En Rússland er sjálfbærasta land Evrópu og eitt það best setta fjárhagslega. Okkar mönnum tekst ekki einu sinni með öllu þessu brambolti að stöðva hagvöxtinn í Rússlandi nema tímabundið.

Svona fer þegar menn eru farnir að trúa eigin lygi,eins og Hitler forðum daga.

Borgþór Jónsson, 4.4.2018 kl. 03:13

8 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Mig grunar samt a Putin viti hreinlega ekki hver leggur inn á reikninga hjá honum né hver gerir hvað. Rússland sem önnur lönd í Asíu og Afríku ganga á mútukerfi og það getur engin breytt því. Ég veit mýmörg dæmi í mínu fagi á þessum slóðum að það þýddi ekkert að tala við hið opinbera nema semja fyrst en það var alltaf peningakit með í ferðum.

Ég man eitt sinn þá var ég beðin að fara $US 50.000 í brúnum bréfpoka á ákveðið hótel, þetta var 1977 til 1995  eða svo allaveganna mútur eru opinber partur af þessum þjóðfélögum og 50.000 dollarar  voru miklir peningar á þessum tíma.

Valdimar Samúelsson, 4.4.2018 kl. 15:53

9 Smámynd: Örn Einar Hansen

Ekkert af þessum ritum þínum eru rétt.  Og hvað varðar olíu útflutning Bandaríkjanna, þá er hún engan veginn rétt.  Bara skammsýni, og trúgirni.

"Of course, not everyone agrees that U.S. shale is gaining on Saudi Arabia. In fact, some observers and industry insiders argue that shale will never be able to compete with Saudi oil on an equal footing due to production costs. Some insist that what the shale producers are doing right now is creating a bubble by increasing production on the back of rising debt. The bubble, they warn, will soon burst and take many of them down."

Með öðrum orðum, olíu framleiðsla kanans er "blaðra".  Þær eru ansi margar "blöðrurnar" sem kaninn hefur skapað, og allar sprunið.  Sìðast 2008, sem sökkti nánast Íslandi.

Örn Einar Hansen, 4.4.2018 kl. 19:00

10 Smámynd: Örn Einar Hansen

Og, hað varðar fyrsta ritið þitt ... þá er það á haus.

Örn Einar Hansen, 4.4.2018 kl. 19:01

11 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Bjarne,! Gunnar ef ég má. Bjarne það er ógninni að olíu sem Trump er búinn að gefa grænt ljós á en það svæði er rétt austan við Prudhoe bay olíusvæðið og það eru mörg svoleiðis svæði og svo í suður Alaska í rétt utan við strandlengjuna hjá Homer. Alaska er stærsta olíulind USA.https://en.wikipedia.org/wiki/Prudhoe_Bay_Oil_Field

Valdimar Samúelsson, 4.4.2018 kl. 22:11

12 Smámynd: Örn Einar Hansen

Valdimar, það breitir engu. Vinnsluaðferðinn er miklu dýrari ... hvað sem þessu líður. Eins og efnahagsfræðingar og þeir sem þekkja til benda á.  Hér er verið að "dumpa" verðinu, og safna skuldum til að reyna að klekkja á Rússum. Og sama hvað kaninn framleiðir mikið, þá neytir hann enn meira ... sem þýðir að selji hann á undirverði, þá tapar engu að síður ...

Enginn leið út úr málinu, annað en enn ein bólan sem springur. Hvort maður svo taki rússann með sér er annar handleggur.

Örn Einar Hansen, 5.4.2018 kl. 10:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Gunnar Rögnvaldsson
Gunnar Rögnvaldsson

Búseta: Ísland.
Reynsla: 25 ára búseta í ESB og fyrirtækja-rekstur í DK/ESB frá 1985 til 2010. Samband:
tilveraniesb hjá mac.com

Ég er hvorki skráður á Facebook, Twitter, Linkedin né á neinum öðrum "félags-vefjum". Aðsetur skrifa minna er einungis að finna hér á þessari síðu og á tilveraniesb.net og í blöðum og tímaritum

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband