Leita í fréttum mbl.is

iPhone-X sagan, "sérfræðingar og markaðir"

Uppgjör Apple H/F kom í gærkvöldi eftir lokun markaða og það var það besta í sögu fyrirtækisins. Ég hlustaði samviskusamlega á opinn símafund almennings-hlutafélagsins, eins og ég hef gert frá upphafi. Þetta fyrirtæki er ekki bara venjulegt fyrirtæki því það stendur ekki bara fyrir "bréfi", heldur heilum flokki eigna (e. asset class) á markaði og er í dag líklega verðmætasta fyrirtæki á plánetu okkar

Staðfestist nú hér að í þessum -og því miður flestum öðrum efnum- vita fjölmiðlar nákvæmlega ekkert um mörg þau mál sem þeir fjalla um. Þeir apa bara apið upp eftir öðrum öpum; þ.e. sérfræðingaveldi veraldar

iPhone X var vinsælasti síminn allan þann tíma sem hann var til sölu á síðasta ársfjórðungi, þvert á það sem stendur í frétt Mbl hér að neðan og einnig í flestum öðrum fjölmiðlum veraldar. Hverja einustu viku sló hann sölumetið á öllum mörkuðum. Hann var til sölu frá og með í nóvember, og það var ekki fyrr en eftir sex vikna harða reið að Apple hafði tekist að anna pantana-biðröðinni sem myndast hafði í vefverslun þeirra. Viku fyrir jól varð iPhone X svo fáanlegur í verslunum og allan janúar hefur hann verið söluhæsti síminn sem fyrirtækið er með á boðstólum

Þessi sími er að grunni til of fullkominn og tæknilega nýstrálegur til að greinendur skilji það. Nema náttúrlega að leikur þessara svo kölluðu "greinenda" sé sá hinn sami og hann hefur verið flest árin sem nýir símar frá Apple hafa komið á markað. Sá leikur hefst með því að (1) svo kallaður "viðskiptafjölmiðill" í Asíu (til dæmis Nikkei - Asian Review) kemur með "frétt" (fake news) um að íhlutaframleiðandi fyrir Apple sé að skera afhendingar til Eplisins niður um helming, vegna þess að hann seljist ekki. Þar næst (2) sýpur allt Wall Street umstangs-umhverfið hveljur til að tala bréfin í Apple niður, svo að (3) þeir geti lánað þau ódýrar til að selja þau til að koma þeim enn neðar. Svo reynast fréttir fjölmiðlanna nær undantekningarlaust rangar og Apple kemur með uppgjör sem sýnir að enginn fótur var fyrir neinu, og þá (4) hækka bréfin fljótlega aftur (eignahluturinn í fyrirtækinu) og orðróma-versmiðjan selur lánsbréfin með miklum hagnaði. Þetta er ferli sem endurtekið hefur sig eins og klukka frá og með árinu 2013, en þá varð hún reglubundið tikk-takk þvaður

En staðreyndin er sú að nær allir "greinendur" hafa aldrei skilið Apple sem fyrirtæki og þeir munu aldrei gera það, enda er það hið eina raunverulega hlutverk sannra tæknifyrirtækja að þau skilji ekki nokkur maður. Það er svo, vegna þess að þau eru einmitt trú sjálfum sér við það að vera harðkjarnatæknifyrirtæki og ekkert annað. Þau halda ekki fyrirlestra út um bæ og borg um hve snjöll þau eru. Og þau eru sem minnst að troða sér fram í aulapressu veraldar. Borða bara sínar kleinur og afhenda áratug eftir áratug nýjungar sem varla neinum manni hafði dotti í hug að þau myndu koma með. Um leið og greinendur skilja tæknifyrirtæki þá þýðir það, að þau eru þar með hætt að vera sönn tæknifyrirtæki

Þegar Apple opnaði fyrstu verslun sína árið 2001, var hlegið innilega að þeim af greinendum sem fjölmiðlar apa sitt ap upp eftir. Í dag er velta verslananna meiri en velta allrar miðasölu á kvikmyndir og leikhús (box office) í öllum heiminum. Vörulína Apple í verslunum fyrirtækisins byggir á aðeins sex vörum sem fyrirtækið framleiðir. Tölvur, tölvusímar og handtölvur og dóti í kringum þau

Apple var síðast bandarískra tæknifyrirtækja til flytja hluta framleiðslunnar til útlanda, því þeir trúðu á Bandaríkin og bandarískt vinnuafl. En þegar "allir" eru komnir þangað út, þá vandast málið samkeppnilega séð fyrir þá sem eru þar ekki. Það kæmi mér ekki á óvart ef að Apple yrði fyrst til að flytja framleiðsluna að mestum hluta til heim á ný - og nýstárgera hana einu sinni enn, því verksmiðjur þeirra í Bandaríkjunum voru einmitt mjög svo nýstárlegar þegar þær voru að mestu leyti þar

Við lifum á óöld sérfræðinganna og veldis þeirra sem klessti veröldinni í að því er virðist óbætanlega klessu árið 2009. Frá 1945 til 2009 tókst þeim að brenna veröldina svo af, að lítil von er til að heimurinn rétti úr kútnum með þeirra aðstoð. Þetta stóð sérfræðinga tók við af gamla aðlinum og kóngaveldinu, eftir að stutt hlé hafði verið á áhrifaveldi þess frá og með bresku iðnbyltingunni og fram til 1945, sem er hátímabil sjálfsákvörðunarrétts þjóða í mannkynssögunni. Eftir heimstyrjöldina var vegna fips, fums og gepólitískra atburða, ákveðið að "sérfræðingar" þyrftu að koma að stjórn heimsins því stjórnmálamönnum hafði fipast. En þetta var dellukenning sem átti við engar staðreyndir að styðjast. Nú hefur þetta sér-fræðingaveldi náð svo langt, að í stað þess að hringja í aðalinn sem yfirsmekksdómsvald yfir lýðnum, þá er hringt í örvita og einskis nýtt sálfræðingaveldi og næringar(skorts)fræðinga til að komast á klósett eða til að forða fólki frá því að deyja úr hræðslu við eitt hárfínt bein í fiski. Fólk er almennt orðið svo lamað af hræðslu að það er gangandi taugahrúgald í tískufötum

Ameríski draumurinn á meira að segja undir högg að sækja. En hann gerði konum til dæmis kleift að lita hárið sitt bleikt ef þeim sýndist svo, án þess að vera gert skylt að hringja fyrst í hirðina til að fá staðfestingu á því að slíkt væri þeim heimilt. Evrópa saup hveljur og kennir Ameríkönum um að hafa troðið inn á sig hamborgunum, pítsum, bleiku hári og stærri brjóstum. Allt saman fyrirbæri sem komust við illan leik til Evrópu, eftir að yfirdómaraígildi kóngaveldis álfunnar í formi menningar(fá)vita og sérfræðinga var spurður álits um hvort slíkt mætti. Bandaríkjunum var að sjálfsögðu skítsama um hvað evrópskir álfar átu og gerðu. Þeir átu bara sína kleinuhringi í hring og héldu áfram að lita hárið bleikt, stækka brjóstin og háma í sig óætið. Þeir höfðu frelsi til þess. En Ameríkönum kennir samt Evrópa um allt, eftir að öll álfan hafði beiðið í hlægilegri 30 ára biðröð eftir leyfi menningar- og sérfræðingaveldis álfunnar til að fá sér einn hamborgara

En þetta veldi er að hrynja í dag. Sérfræðingarnir reyndust ekki vera sérfræðingar. Þeir eru einungis enn ein nýju föt gamla keisarans. Miklar breytingar eru því í vændum þar sem rífa þarf heiminn upp úr forarsvaði sérfræðinnar. Og mun það í sumum löndum jafnvel leiða til blóðugra byltinga, því óefnið er orðið svo mikið að enginn hagvöxtur getur lagfært misþyrmingu sérfræðingaveldisins á þjóðum Vesturlanda, þar sem millistéttin og neðri millistéttin var skilin ein eftir á fjóshaug alþjóðavæðingar og esb. Rúllustiginn upp í lífi þessa fólks var tekinn úr sambandi og þrep-1 þess stiga var með henni gert að lífslöngu refsistigi á krataforheimskandi, andþjóðlegu og framfarabanvænu altari líberalismans

Fyrri færsla

Odda-samsteypan þolir ekki hálaunaða íslenska kúnna


mbl.is Telur að Apple hætti framleiðslu á X
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Gunnar.

Ég les eiginlega út úr þessari færslu að þú eigir hagsmuna að gæta gagnvart Apple.

Eigir annað hvort hlutabréf, eða hafi tekjur af því að ráðleggja fólk að kaupa Apple vörur.

Eða þú ert Eplasérvitringur.

En seinni hlutinn, réttmætar skammir þínar gegn auðræðinu er núna, sem og alltaf áður, mjög skemmtilegar aflestrar.

Þú minnir mig alltaf meir og meir á gúrúinn okkar Hriflunga, Hriflunginn sjálfan.

Hann hafði kannski ekki alltaf rétt fyrir sér, og stundum ekki mjög oft.

En það var unun að lesa skrif hans, þó í mínu tilviki hafi það gerst á bókasafninu, áratugum seinna.

Það flýr enginn skapadóm sinn Gunnar.

Það er bara þannig.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 2.2.2018 kl. 17:54

2 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Þakka þér Ómar.

Öllum sem ég tala við ráðlegg ég að kaupa Morgunblaðið, því það eru mínir hagsmunir, af því að ég myndi eiga erfitt með að þola Moggalaust land. Ég vil að Mogginn lifi. Og ég ráðlegg einnig öllum að kjósa Sjálfstæðisflokkinn, þér líka, af því að sem kjósandi hef ég hagsmuna að gæta í landi mínu. Og þó svo að hvorki Moggi né Sjálfstæðisflokkurinn séu fullkomin  fyrirbæri eins og ég er ófullkominn, þá kýs ég þá nú samt. Því til eru þeir sem miklu og mun verri eru en þeir. Og þá vil ég ekki.

Enn og aftur þakka ég Mogganum fyrir að fá að blogga hér. Já, ég hef sem sagt hér hagsmuna að gæta. En það geri ég hins vegar ekki sem dauður maður. Það eru mínir hagsmunir að lifa. Og allir sem lifa hafa hagsmuni og þeir sem gera slíkt að einhverju dirty eru með því að sinna sínum hagsmunum en ekki mínum.

Kveðjur

Gunnar Rögnvaldsson, 2.2.2018 kl. 18:12

3 Smámynd: Ómar Geirsson

Jamm, nett skautað frá Eplatengslunum, en eigi skal ég vanvirða ráðin um Moggakaupin, er reyndar ekki kaupandi, og meira að segja þá var fjárhagurinn svo aumur, hvað mig varðar, að ég þurfti að sætta mig við að konan segði upp áskriftinni, fyrir nokkrum árum.

Var því Moggalaus í næstum 2 ár, en öll él birta upp um síðir, og ég fékk helgaráskrift, og þar með fasta helgistund að lesa Reykjavíkurbréf Davíðs.

Svo lauk því þegar strákarnir mínir gerðust blaðaburðadrengir, reyndar með góðri hjálp pabba síns, og þá fæ ég Moggann í kaupbæti.

Þetta með að kjósa Sjálfstæðisflokkinn, er mótsögn, svona miðað við skammir þínar á auðræðinu og glóbalvæðinguna.

En hver þarf sinn djöful að draga.'

Ég er svo heppinn að tilheyra útdauðri tegund stjórnmála.

Dreg því enga djöful hvað það varðar.

En að vilja lifa, og lifa af harmageddon frjálshyggjunnar, það er sameiginlegt áhugamál.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 2.2.2018 kl. 19:31

4 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Æi Ómar

Nú held að opið á kassanum þínum sé að verða svo þröngt og flókið að þú komist ekki lengur ofan í hann sjálfur.

Af hverju heldur þú að mið- og lægra launaðar stéttir Vesturlanda séu að hætta að kjósa Sósíalemó-Kratakirkju alþjóðavæðingar, ESB-yfirríkis og sérfræðingaveldis sem pólitískt gjaldþrota verkalýðshreyfingar þeirra studdu til valda til að kúga fram fullveldis- og efnahagslega uppgjöf þjóðríkja þeirra. Þetta fólk kýs Trump og Brexit; Íhaldið. Það vill komast af fjóshaug sérfræðingaveldis líberalistanna (sósíaldemókrata).

Gunnar Rögnvaldsson, 2.2.2018 kl. 19:48

5 Smámynd: Ómar Geirsson

Þú veist greinilega ekki hvað ég er nettur Gunnar.

Og ekki skal ég gera lítið úr andófi fjöldans við frjálshyggjunni, og hvað þá afneita samsekt kratismans, enda finnst mér fátt skemmtilegra en að fá fréttir úr sæluríki fjórfrelsisins og tengja þær við hina meintu félagshyggju Samfylkingarinnar.

En mikið má allur fréttaflutningurinn útí danaveldið hafa verið á óskiljanlegri dönsku ef þú tengir fjórfrelsið og alþjóðavæðinguna við hugmyndafræði jafnaðarmennskunnar Gunnar.  Og ég get alveg svarið það á meðan þú varst í burtu, þá dó Geir Hallgrímsson, reyndar var búið að setja hann af áður, en hann er síðasti íhaldmaðurinn í formannsstól Sjálfstæðisflokksins, veit reyndar ekki hvar Bjarni yngri er fyrir utan hagsmunagæslu, en þeir sem eru þar á milli, það er Þorsteinn, Davíð og Geir, eru allir úr Eimreiðarhópnum, svo ég vitni í Wikipedíu;

"Eimreiðarhópurinn var hópur karla kenndur við tímaritið Eimreiðina sem boðaði hugmyndir frjálshyggju á Íslandi á áttunda áratugnum. Margir meðlimir hópsins urðu seinna meir áhrifamiklir í íslensku þjóðlífi og sem dæmi um það má nefna að þrír meðlimir hópsins, Þorsteinn Pálsson, Davíð Oddsson og Geir H. Haarde urðu seinna formenn Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherrar Íslands. ".

Þeirri frjálshyggju sem ég spáði fyrir ákaflega mörgum árum þegar ég varðist atlögum bretavinnumanna á vinstrikantinum, að yrði veginn af borgaralegu íhaldi eða nánara tiltekið krisilegum íhaldsmönnum.

Og í skrifum þínum hef ég upplifað birtingarmynd þess spádóms, það er hér á Íslandi.  "Ja, þetta vildi ég sagt hafa", hef ég oft sagt við sjálfan mig þegar ég hef gefið mér tíma til að lesa pistla þína.

Og ef við víkjum aftur að uppreisn fjöldans, þá var Brexit ekki leitt af Íhaldsflokknum, heldur Breska sjálfstæðisflokknum, UKIP og Trump fór gegn valdaklíku Repúblikanaflokksins.

Hugmyndafræði frjálshyggjunnar hefur hins vegar gegnsýrt hefðbundna hægriflokka í allavega þrjá áratugi, og á því er engin undantekning á Vesturlöndum. 

En gagnsókn íhaldsmanna er hafin Gunnar, skrif þín eru til marks um það.  Og það má vel vera að þið leggið undir ykkur Sjálfstæðisflokkinn á ný, og ekki græt ég það að vera spámaður í mínu föðurlandi.  Og það má vel vera að þú teljir að Sjálfstæðisflokkinn illskástan, jafnvel skástan, en það er þá ekki út frá þeim sjónarmiðum sem þú telur hér upp að ofan.

Og það veistu, því ekki eru allar fréttir á dönsku.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 2.2.2018 kl. 22:20

6 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Það er mikilvægt Ómar að gera sér grein fyrir því að það voru tvær stjórnmálahreyfingar, annars vegar Íhaldsmanna og hins vegar Líberalista (kratar), sem um tíma sameinuðust sem sameignlegt afl geng alræðisöflum heimsálfanna Evrópu og Asíu. Stjórnmálaafl Íhaldsmanna varð til á 15. öld en stjórnmálahreyfing Líberalista varð til á 18. öld og þar með urðu til tvær andstæðar fylkingar í vestrænum stjórnmálum. Bandaríkin og Bretland eða veldi engilsaxneskra varð til sem þingræðislegt lýðræði undir merkjum Íhaldsmanna. Evrópa þróaðist hins vegar að miklu leyti (dæmi franska byltingin) undir merkjum Líberalista, sem trúa á úníversal regluverk að forskrift heimsvelda sem plagað hafa heiminn alla tíð, þar sem hið forna Ísraelsríki var ein af undantekningunum og síðar ein helsta fyrirmynd Íhaldsmanna þegar að uppbyggingu þingræðislegs lýðræðis kemur.

Á engu tímabili var Sjálfstæðisflokkurinn eins og stjórnmálaflokkar meginlands Evrópu. Hann hefur aldrei viljað gefa frá sér hugmynd Íhaldsmanna um sjálfstætt og fullvalda Ísland = þjóðfrelsisafl um sjálfsákvörðunarrétt þjóða. Hann hefur aldrei aðhyllst það sem líberalistar aðhyllast, það er að segja veldi á borð við Evrópusamband sem er heimsveldi úníversalista umhverfis þá hugmynd að úníversal laga- og regluverk eigi að ráða yfir þjóðum og þjóðríkjum, en ekki þjóðin sjálf.

Þú ert að rugla saman frelsi einstaklingsins, frelsi til atvinnu og viðskipta sem hefur verið það frelsi sem Sjálfstæðismenn hafa barist fyrir. Við urðum aldrei Evrópuisma og útskipunar atvinnulífsins til annarra landa á altari Líberalismans að bráð, og við höfum þrátt fyrir allt komist einna best frá alþjóðavæðingunni með því að ráða okkur sjálf. Bankaveldið var ekki í þökk Sjálfstæðisflokksins, en það hefði getað kostað okkur fullveldið. Það var dæmigert sósíaldemókratískt útópíuverk og bein afleiðing aðildar Íslands að EES samningum sem á skömmum tíma varð eins og öll fjölþjóðafyrirbæri enda: stjórnlaust fyrirbæri sem þjóðríki ráða varla við.

En af því að margir voru hættir að sjá og skilja muninn á Íhaldsmönnum og Líberalistum þá eru margir stjórnmálaflokkar orðnir of grumsaðir í höfðum margra. En ekki mér.  

Gunnar Rögnvaldsson, 2.2.2018 kl. 23:06

7 Smámynd: Ómar Geirsson

Í sjálfu sér Gunnar er fátt um svör þegar menn líta silfrið svo mismunandi augum að Hannes Hólmsteinn er orðinn krati og þeir Hayek og Friedman tilheyri sama hagfræðiskóla og Marx og Engel, en hvað um það, skrifræðið er jafngamalt manninum og því með öllu ofmælt að það sé frönsk uppfinning.

Og ekki er ég alveg viss að ef íbúar hins forna Ísraels ríkis könnuðust við lýsingar þínar á því ríki, en það er alltaf gott að hafa eitthvað idol nógu langt í burtu, og þá ekki verra að það sé líka í tíma.

Og ekki skal ég gera ágreining um hina sterku rót þjóðlegrar íhaldsmennsku í Sjálfstæðisflokknum, held því reyndar sjálfur fram að það sé mikill misskilningur hjá Davíði Oddssyni að halda að hann sé frjálshyggjumaður.  Að mínum dómi, þó Eimreiðarmenn kynni það á annan hátt, þá er Þorsteinn Pálsson sá eini af þessum formönnum sem var hreinn frjálshyggjumaður, hinir misskildu Hannes og héldu að þeir væru frjálshyggjumenn fyrst að þeir aðhylltust þetta meinta frelsi sem þú lýstir.  Áttuðu sig ekki á því að það var snertiflötur frjálshyggjunnar við borgarlegan kapítalisma.

En það breytir ekki hugmyndafræðinni sem unnið var eftir, hvorki hjá Sjálfstæðisflokknum, breska íhaldsflokknum eða kristilegum demókrötum í Þýskalandi, svo ég nefni þrjá borgaralega íhaldsflokka með sterkar rætur í vestrænni kristilegri menningu.

Og til að halda því fram Gunnar að bankakerfið hafi verið í óþökk Sjálfstæðisflokksins þarf maður að hafa verið langt í burtu, ég var hins búandi hér  og veit því betur.

Varðandi útvistun starfa, þá eru ekki svo mjög margar atvinnugreinar á Íslandi sem er hægt að útvista, en þar sem það var flötur á því í iðnaði þá var það gert, síðan megum við ekki gleyma því að öflugasta útvistunin er óheftur innflutningur á vörum sem keppa ekki við innlendar á samkeppnisgrundvelli.

Að tala gegn slíkum innflutningi, og tala gegn alþjóðavæðingunni, á þeim forsendum sem þú hefur gert Gunnar, hef ég hreinlega ekki heyrt aðra íhaldsmenn sem eiga sér skjól í Sjálfstæðisflokknum, gera.

Og þó til þess þurfi að teikna skegg á Friedman og breyta Hannesi í krata, þá er mér gott sama.

Íhaldsmenn verða að átta sig á muninum sem er á þeim og frjálshyggjumönnum.

Því það er jú sjálft lífið sem er í húfi.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 3.2.2018 kl. 08:23

8 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Ein birtingarmynd þess sem hér er talað um er að kratarnir Viðreisn eru farnir úr Sjálfstæðisflokknum. Það er eitt ágætis dæmi um þann skilnað sem er að eiga sér stað hjá þeim sem við hér tölum um á Vesturlöndum. Kratar eru og verða Líberalistar. Og það eru heldur ekki til neitt sem heitir líberal Íhaldsmenn, heldur aðeins Íhaldsmenn og Líberalistar. Annað hvort, en ekki bæði.

Verkið Frakkland eftir byltinguna, er til dæmis eins og það er vegna þess að það er verk Líberalista sem trúa á úníversal reglusett fyrir allt mannkyn. Það sama gildir um Evrópusambandið og Sovétríkin. Frakkland er á sinni fimmtándu stjórnaskrá og fimmta lýðveldi, vegna þess að kenningar Líberalista ganga ekki upp þegar þær eru notaðar í mannaheimum. Þess vegna hrundu Sovétríkin. Þau eru ekki lengur til. Það óríki var úníversalreglu-ríki og imperíal-ríki í anda Líberalista. Þýskaland er líka imperíal-state-hönnun í ákveðnum neikvæðum tilgangi og verður aldrei lýðræðisríki.

Það er ekki til neinn úníversal-maður, heldur aðeins þjóðir með sögu og hefðir og þær mynda hina pólitísku grundvallareiningu í veraldarhafinu og munu alltaf til enda tímans gera það. Þá kenningu finnur þú aðeins í Gamla testamenti biblíunnar og hún kemur úr Ísraelsríki hinu forna og það gerir aðskilnaður valds einnig, ásamt pólitísku lögmæti (accuntability) gagnvart borgrunum. Og aðeins Vesturlönd hafa það rit, engin annar hluti heimsins hefur hann. Þess vegna er restin af veröldinni eins og hún er = þ.e. ekki eins og Vesturlönd. Þetta er svo mikilvægt að skilja, því án þess skilur maður hvorki Vesturlönd né veröldina. Þú skilur greinilega ekki veröldina eins og hún er, heldur ertu fastur í kreddum og hugmyndarugli líberalista kl 13-14 eftir hádegi, en ert svo fastur í moldvirði eftir kvöldmat.

Hannes Hólmseinn er fræðimaður. Hann er líka Sjálfstæðismaður og Hannesi hefur aldrei dottið í hug að fylgja Líberalistum eftir inn í ofríki þeirra í Evrópusambandinu. Hann er Repúblikani og það segir flest. Maður litla mannsins. Davíð Oddsson, líka maður litla mannsins, vildi ekki að bankakerfið, loksins laust úr höndum pólitískra afla, myndi enda á höndum fárra sem gætu misnotað það á ný. Líberalistar komu í veg fyrir að vilji Davíðs næði fram að ganga. Og þannig er það. Við eigum þessum báðum mikið að þakka.

Restin er fís, íslenskt pólitískt moldvirðri, dægurþras og kreddur.

Og svo fyrir utan það Ómar þá hafa "hagfræðingar" yfirleitt aldrei gert sér grein fyrir þjóðinni sem pólítískri grundvallar-stofnun mannkyns, heldur hafa þeir alltaf reynt að láta fræðiheim sinn líta þannig út að kjarninn sé hagfræðilegs eðlis, og að utan á þeim kjarna hangi þjóðin. Þetta er hins vegar alveg þveröfugt. Hagfræðin, já þjóðhagfræðin sjálf, hangir á Þjóðinni sem berandi pólitískri grundvallar stofnun heimsins, en ekki öfugt. Ég hef ekki enn hitt þjóðhagfræðing sem veit neitt að ráði um þjóðina sem pólitískan hornstein veraldar, og að menn hafi fyrst og fremst skyldur gagnvart sinni þjóð, en ekki þjóð annarra. Enda hafa fæstir þeirra gert sér grein fyrir mikilvægi Gamla testamentisins í myndun Vesturlanda.

Vesturlönd eru Vesturlönd vegna þess að þau höfðu Gamla testamentið. Og ef þú tekur Biblíuna út úr Vesturlöndum þá hætta þau að vera Vesturlönd og verða eitthvað annað. Björgunarbátar þjóðar Gamla testamentisins eru landamæri þjóðríkis þeirra, fullveldið, sjálfsákvörðunarréttur og sjálfstæði: þ.e. Sjálfstæðisflokkurinn

Amen

Gunnar Rögnvaldsson, 3.2.2018 kl. 10:16

9 Smámynd: Ómar Geirsson

Merkileg guðfræði hjá þér Gunnar, en guðsútvalda þjóð klofnaði í 2 ríki, og aðeins annað hélt hinu forna nafni.  Síðan breiddist siðurinn út og áður en uppreisn gyðinga byrjaði í Austurrómverska ríkinu þá er talið að þeir hafi verið um það vil 20% íbúanna.  Hvernig þeir hefðu þá getað tekist á við kosneptið um guðsútvalda þjóð, eitt ríki eða mörg??, fengu þeir aldrei að takast á við, því þeim var því sem næst útrýmt í allri orrahríðinni.  Það þróast nefnilega allt Gunnar, og þannig séð er hugmyndin um Bandaríki Evrópu ættuð frá Bandaríki Norður Ameríku. Svipað var reynt í áraga frelsisbaráttu Suður Ameríku, þar voru sterk öfl sem vildu bandaríki spænskumælandi íbúa álfunnar.  En út frá staðháttum gekk það dæmi ekki upp.

Ég er sjálfur þjóðarsinni en hins vegar veit ég að margir gegnheilir íhaldsmenn eru global og það sama gildir um marga liberal og sósíal, það er viðhorf fólks til þjóðríkja versus stærri ríkisheilda tengist þannig séð ekki meginstjórnmálahreyfingum liðinnar aldar.

En það sem ég átti við með að íbúar Ísrael hins forna hefðu ekki alveg kannast við lýsingar þínar, er eins og Gamla bókin segir skilmerkilega frá, þá voru stjórnarhættir þar ákaflega liberal eins og þú kýst að kalla reglu og skrifræði.

Síðan veit ég ekki hvort það er betra að kalla Hannes krata og teikna skegg á Friedman, eða afneita alfarið stjórnmálaskoðunum Hannesar og láta eins og hvorki Friedman eða Hayek hafi verið til.

Og í ljósi harðvítugra deilna conservative og liberal á nítjándu öld, til dæmis í Bretlandi, þá er skrýtið að láta eins og þetta sé einn og sami hluturinn, og að liberalið hafi verið sósíal.  Sérstaklega þar sem sósíalið kom inn sem þriðja aflið, og varð að lokum höfuðandstæðingur borgarlegs í halds, en liberalið eða frjálshyggjan hvarf að mestu leiti næstu áratugina.  Eða þar til mennirnir sem þú kannast ekki við, endurnýjuðu hugmyndafræði hennar á eftirstríðsárunum.

En hver segir að fólk eigi alltaf að hugsa í kössum, og mér er sama hvaðan gott kemur Gunnar.

Ég nýt þess í botn að lesa skrif þín, hvort sem það eru skammir um Evrópusambandið, eða núna nýverið þar sem þú gerir upp við frjálshyggjuna, hvort sem þú kannast við hana eða ekki.

Megi þróttur penna þíns endast sem lengst.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 3.2.2018 kl. 12:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Gunnar Rögnvaldsson
Gunnar Rögnvaldsson

Búseta: Ísland.
Reynsla: 25 ára búseta í ESB og fyrirtækja-rekstur í DK/ESB frá 1985 til 2010. Samband:
tilveraniesb hjá mac.com

Ég er hvorki skráður á Facebook, Twitter, Linkedin né á neinum öðrum "félags-vefjum". Aðsetur skrifa minna er einungis að finna hér á þessari síðu og á tilveraniesb.net og í blöðum og tímaritum

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband