Leita í fréttum mbl.is

Spánn sýnir klær og skerpir

Katalónía vill burt úr Spáni - en fær hún það?

Það viðrar ekki vel á Spáni þessa dagana frekar en gert hefur frá því að sérfræðingar Evrópusambandsins klessukeyrðu landinu 2008. Spánn er ekki Grikkland og er það ekki neikvætt meint hjá mér, því allir vissu alltaf að Grikkland er og verður Grikkland. Það átti engum að koma á óvart

En Spánn. Já en Spánn! Það land fór í einu og öllu eftir ríkistrú ESB-kirkjunnar og rak hvorki sig né neitt sitt með fjárlagahalla og skuldaði ekkert sérstakt. Landið var notað sem fyrirsæta á áróðursskiltum ECB-aukaseðlabanka Þýskalands, ásamt Írlandi

En svo kom árið 2008 og landið var lagt í rúst í evrum. Sparifé þýskra fyrirtækja, eiginfé, sem flutt hafði verið frá þýskum heimilum með því að gera hlut þeirra í landsframleiðslunni svo lítinn að krónísk undirneysla drap þýska hagkerfið innvortis, já því fé var pumpað til Spánar í svo miklu magni að það sprengdi Spán í loft upp með innflæði sem nam 30 prósent af landsframleiðslu þess

Þýsku fé var beinlínis þrýstilofts-þrýst inn á Spánverja. Tilgangurinn var að koma sparifé þýskra fyrirtækja í vinnu --sem þýsk heimili gátu ekki unnið vegna lágra launa/kaupgetu-- með lágum og undir-beltis lánastöðlum og í staðbundnum neikvæðum evru-raunstýrivöxtum, til að skapa þannig eftirspurn eftir þýskt framleiddum vörum frá Þýskalandi. Spánn varð ein samfelld rjúkandi evrurúst og atvinnuleysi er algerlega gerræðislegt, þó svo að það sé ekki enn 26 prósent, heldur er það 17 prósent og tæplega 40 prósent hjá ungu fólki. Sem sagt, enn ein evru-brunarústin með sótsvarta eða jafnvel enga framtíð, miðað við stöðuna áður en landið fór á evruhvolf

En hvað hefur þetta með Katalóníu að gera? Jú, það að vera Katalóníubúi er að vera af katalónsku þjóðerni, því þetta sjálfstjórnarhérað á Spáni er skilgreint sem þjóð. Sú þjóð er þjóð. En þessi þjóð vill bara ekki lengur vera í annarri þjóð. Hún vill ekki vera spænsk. Hún vill fá að stjórna sér sjálf og vera sjálfstætt og fullvalda ríki

Katalónía stendur fyrir 20 prósentum af landsframleiðslu Spánar og fjárlagahalli hennar er undir einu prósenti. Þetta er eitt ríkasta og iðnvæddasta hérað Spánar og það sjálfstæðasta. Og það er vandamál sem ríkisstjórninni í Madríd geðjast ekki að

Halda átti þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæði Katalóníu 1. október næstkomandi, en líklega mun lítið verða úr henni. Spænska lögreglan lagði í fyrradag hald á 10 milljón kjörseðla, kjörgögn og sjálfa kjörskránna með þeim rökum að gögnunum sem notuð voru til að búa til kjörskránna, hefði Katalónía stolið frá spænska ríkinu. Lögreglan stormaði skrifstofur, handtók heimastjórnarmenn og sendi í gær fimm þúsund lögreglumenn í viðbót út á götur Katalóníu

En ekki nóg með það. Heitt varð á þinginu í Madríd er þingmenn Katalóníu fá þessar fréttir að heiman, þeir móðgast eðlilega illa og til munnlegra skylminga kemur og þeir yfirgefa þingið í reiði. Ganga út. Á eftir þeim öskruðu þing og ríkisstjórnamenn; "og komið ekki aftur"

Yfirmaður spænska hersins sagði 2014 að hann myndi handhefja spænsku stjórnarskrána jafnt í Katalóníu og Afganistan. Þetta fór ekki vel niður. Stjórnarskrárdómstóll Spánar hefur úrskurðað fyrirhugað þjóðaratkvæði Katalóníumanna ólöglegt. Og þannig mun einnig brátt fara fyrir þeim ríkjum sem halda áfram að vera í Evrópusambandinu. Þannig handjárnum verður að sjálfsögð laumað inn í "umbætur" á stjórnarskrá Evrópusambandsins og öll útganga gerð ólögleg

Fari sem horfir, mun þessi krísa fara upp á næsta þrep og út á götur Katalóníu. Hún er reyndar komin þangað nú þegar, og einnig út á margar götur Spánar. Næstu þrep krísunnar gætu svo legið út í alla ríkisstjórn Spánar, þingið lamast, evrubankar á brauðfótum springa, peningaskömmtun tekin upp eins og í Grikklandi, eða þá að krísan í síðasta enda myndi rusla evrunni um koll og rústa flóttamannabúðum ríkra útlendinga á grafarbökkum og loka ferðamannaiðnaði niður og þar með gera alla Evrópu norðan Sahara að einum stórum no-go-zone fyrir þá sem er annt um líf og limi sína og sem kallast erlendir ferðamenn. Þetta gæti sem sagt jafnvel endað með borgarastyrjöld á Spáni - og víðar. Byrjunin lofar að minnsta kosti ekki góðu. Fyrstu spínat-spor Madríd sjást nú þegar það vel

Hvað skyldi gerast næst, nú þegar ESB og evran hefur klippt og rakað púðurþráðinn svona stuttan á öllu Spáni árum saman. Getur ESB komið í stað Franco? Er það mögulegt?

Gauksklukka Samfylkingaflokka slær hér einn Össur enn. Viðreisn trekkir upp svarta framtíð og evrugaukshreiðrið galar enn. Svo slær klukkan Benedik eitt og Benedikt tvö. Gúkk gakk, gúkk gakk

Það sem hægt er að segja með miklu öryggi um Evrópu í dag er þetta: Evrópusambandsfáninn sem slefar sig út um svo marga glugga meginlandsins, stendur nú fyrir aðeins þessu:

1. Pólitískum óstöðugleika

2. Efnahagslegum hörmungum

3. Áframhaldandi pólitískum óstöðugleika og áframhaldandi efnahagslegum hörmungum

4. Og öllu sem þessu fylgir. Þetta er orðinn einn stór pakki pakks

Kemur ný Franco og reddar þessu, eða mun evrustaðgengill hans halda? Hvað gerist næst?

Fyrri færsla

Hefur Angela Merkel eyðilagt Þýskaland og kannski Evrópu líka?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Gunnar

Það sem gerist næst er að Anarkistarnir taka landið aftur og halda áfram þar sem frá var horfið frá 1939.

Sigþór Hrafnsson (IP-tala skráð) 23.9.2017 kl. 23:40

2 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Þakka þér Sigþjór.

Nú hefur Madríd víst bætt í og komnir eru 17.000 lögreglumenn til Katalóníu, sem hún hefur sent. Það verður fróðlegt að sjá hversu langt Madríd ætlar að ganga og hversu mikið vald hún ætlar að nota.

Misþyrming ESB á Spáni með samþykki ríkisstjórna í Madríd, hefur ekki farið vel niður í íbúa Katalóniu sem ásaka Madríd fyrir að mergsjúga þá með sköttum undir niðurskurðahnífaveldi Berlínar.

Það fer um ESB-menn í til dæmis París, því ef Katalóníu verður hleypt úr þá mun Korsíka sennilega láta verða af því að yfirgefa Frakkland.

Yfirvöld, hver sem þau kallast, eru því líkleg til að viðhafa sömu röksemdafærslu og látin er ganga yfir Bretland: þ.e. að reyna að sýna þeim sem hugsa slíkt hvað bíður þeirra ef þeir skyldu fá rangar  hugmyndir.

Og svo er þeim öllum sagt að þeir muni aldrei komast inn í ESB, en sem ESB er að reyna að hindra að Bretland komist úr.

Og nú hefur ESB-Rannsóknarrétturinn verið sendur til Póllands, til að kveða niður það sem eftir er af sjálfstæðri hugsun og til að særa úr þær hugmyndir sem Pólverjar hafa fengið um ESB, þ.e. að Pólverjar sætta sig ekki við að hafa komist hálfdrepnir út úr einu Sovétríkinu til þess eins að vera nú komnir inn í annað slíkt. ESB hótar nú að bannfæra Pólland.

Það hitnar í kolunum út um alla Evrópu.

Kveðjur

Gunnar Rögnvaldsson, 24.9.2017 kl. 01:03

3 identicon

Þakka svarið Gunnar.

Ég held að stóra myndin sé sú að eftir allt of langan tíma af taumlausi alþjóðahyggju, þá er viðbragðið að horfa innávið og byggja frekar á því, Usa, Uk, Katalónía... Þetta er í raun fullkomleg eðlilegt viðbragð við alþjóðahyggu sem hefur farið langt úr böndunum.

Ætli valdstjórnin á Spáni sýni okker ekki að hún er jafn hrædd við Anarkistana og Framkó og allir hinir sem börðust þarna. Ég sá innleg þitt um aukið lögreglulið.

Sigþór Hrafnsson (IP-tala skráð) 24.9.2017 kl. 02:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Gunnar Rögnvaldsson
Gunnar Rögnvaldsson

Búseta: Ísland.
Reynsla: 25 ára búseta í ESB og fyrirtækja-rekstur í DK/ESB frá 1985 til 2010. Samband:
tilveraniesb hjá mac.com

Ég er hvorki skráður á Facebook, Twitter, Linkedin né á neinum öðrum "félags-vefjum". Aðsetur skrifa minna er einungis að finna hér á þessari síðu og á tilveraniesb.net og í blöðum og tímaritum

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband