Leita í fréttum mbl.is

Dauðs kattar hoppið

Í heimi hlutabréfa heyrast stundum undarleg tungumál. Þið vitið, lesendur góðir, heilbrigður hlutabréfamarkaður er staður eða markaðstorg þar sem atvinnulífið sækir sér fjármagn til að fjárfesta því í atvinnustarfssemi. Byggja upp, bæta, þróa nýjar vörur og þjónustu og til að keppa á mörkuðum við öll hin fyrirtækin. Þannig skapast ný atvinnutækifæri. Fátt gott mun gerast á meðan hlutabréfamarkaðir heimsins eru í losti. Þeir eru taugakerfi kapítalismans. Þeir fá líkama kapítalismans til að dansa góða valsa eða til að sprikla óstjórnlega ef og þegar lost ná niður í mænu.

En þegar hagkerfið er allt á klósettinu eftir að hafa fengið eitraða peninga í magann frá bönkum sem voru eins konar sturtuklefar fjármagns - þ.e. svona Landskaupþings bönkunum sem glömpuðu eins og kattaskítur Glitnis gerði svo ákaft í tunglsljósinu við gömlu höfnina í Reykjavík, og þar sem Íslandsálagið fræga var búið til - þ.e.a.s þegar fyrirtækin í stað þess að sækja sér fjármagnið beint til almennings, eða til fjárfesta á þeirra vegum, sóttu það í bankana og þá oft sem hlutafé frá bönkunum sjálfum - já - þá hafa fyrirtækin það ekki gott og þú sem launþegi átt á hættu að missa þína dýrmætu atvinnu. En atvinnan þín færir þér launin góðu til kaupa nauðsynjar og lúxus af einmitt fyrirtækjunum sem búa til varninginn sem þig vantar og vantar ekki, en hefur samt ekki efni á eftir að þú ert búinn að missa vinnuna.  

Vinnan þín býr í leiðinni til tekjur ríkissjóðs Íslands. Þetta er mikilvægt að muna. Þar inn koma tekjuskattar þínir, launatengd gjöld frá fyrirtækjum, virðisaukaskattur, tollar og fjármagnstekjuskattur af fjárfestingum og sparnaði. Það er sem sagt atvinnustarfsemin sjálf sem býr þannig til tekjulindir ríkissjóðs. Það er hún ein sem býr til greiðslugetu ríkissjóðs og þar með lánstraust ríkissjóðs. Það er því atvinnustigið sjálft sem allt stendur og fellur með. 

Án hagstæðs gengis og eigin stjórnar í vaxta og peningamálum þorna þessar tekjulindir ríkissjóðs frekar hratt upp vegna þess að hjól atvinnulífsins stöðvast þá og skila of litlu í kassa ríkisins - og ríkið verður því smá saman gjaldþrota eins og við erum að sjá í evrusvaðinu hjá Evrópusambandinu.

Þegar dæma á hæfni ríkissjóða til að taka á sig ný lán til að eyða þeim um efni fram í taprekstur ríkissjóð, til endurnýja gömul lán eða til að fjármagna stórar fjárfestingar, þá horfir markaðurinn á atvinnustigið og myntina í landinu. Eiga tekjulindir ríkisins á hættu að þorna upp vegna þess að menn missa þar vinnuna vegna þess að landið hefur vonlaust gengi því það hefur ekki sína eigin sjálfstæðu mynt lengur? 

Annað spilar líka hér inn. Til dæmis spila skuldir ríkisins inn. Hefur ríkið tekið erlend lán til að sturta þeim niður í salernin í stjórnarráðinu? Ríkið mun ekki fá neinar skattatekjur af því að kveikja í peningum, eða með því að nota þá í ekki neitt nema til að fylla upp í skólplagnir undir ráðherrastólum. Það myndi Icesave gera. Þeir peningar myndu ekki skila neinu nema engu. Eina leiðin til að láta þá peninga skila einverju inn í hagkerfið væri að kveikja í þeim. Þá fengist að minnsta kosti hiti á meðan logar í seðlunum. Arinstæðin í stjórnaráðinu væru tilvalin. Svona væri hægt að halda hita á mörgum ráðherrum í langan tíma engum til gagns en öllum til ógagns.    

Eftir mikið hrun á hlutabréfamörkuðum er stundum talað um dauða köttinn sem hoppar (e. a dead cat bounce). Átt er við að jafnvel dauðir kettir hoppi í loft upp ef fall þeirra sé nógu hátt. Þetta gerist oft eftir áföll. Þegar hlutir hafa hrunið mikið. Þá koma svona skammvinn hopp.  

Það sem við sjáum í Þýskalandi núna er t.d. skopp hins dauða kattar segja m.a. Wolfgang Munchau og Poul Krugman hér um hagvaxtartölur Þýskalands á fyrri hluta ársins. Hrun landsframleiðslu og útflutnings Þýskalands varð svona hrikalegt á síðasta ári. Þess vegna hoppaði dauði Þýski kötturinn um daginn og jarðskjálftamælir þýsku hagstofunnar heldur eðlilega að þetta sé hagvöxtur. En þetta er því miður bara dauði þýski kötturinn sem hoppaði. Wolfgang segir líka að úrverkið í tifandi vetnissprengju evrusvæðis gangi fyrir 12 ára stanslausri innvortis sníkjudýra-gengisfellingu Þýskalands í garð hinna evrulandanna sem eru með þeim í hinu harðlæsta gengisfyrirkomulagi handjárna myntbandalags Evrópusambandsins - og sem þau komast ekki út úr aftur. Áfram og örugglega tifar þetta gereyðingarvopn Evrópu; myntbandalag Evrópusambandsins. Innvortis ójafnvægi (e. imbalances) er þar svo hrikalegt.  

Það sem við sjáum á Íslandi núna er ekki dauðs-kattar-hopp hagvaxtar Jóhönnu og Steingríms, því undir þeim, þ.e. Jóhönnu og Steingrími, mun kötturinn aldrei ná að skella á jörðinni. Jörðin gefur einfaldlega sífellt eftir því landið okkar er að sökkva í sæ undan kattastóði Jóhönnu og Steingríms. Heilt stóð af dauðum köttum falla því svo stanslaust hratt að maður er að ærast af viðsnúningum þeirra í loftinu. Það var því ekki að undra að Hagstofa Íslands sýndi okkur ekkert nema neikvæðan spíral getuleysis ríkisstjórnar Jóhönnu og Steingríms á föstudaginn. Viðsnúningurinn mikli reyndist bara vera venjulegt kattabreim í Skjaldborgarhúsi Íslands; stjórnarráðinu. Þar ráða kommar í þurrkví og stækju.
 
 
Fyrri færsla
 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Ásgeir Bjarnason

Skemmtilegasti texti eins og venjulega!

 Þetta er náttúrulega bara algjör skandall.  

Stærri en 3% mínus í botninum á stjórninni meira en ári eftir hrun.

Skandall, skandall, skandall! 

Ekki kæmi það manni á óvart að lausnin væri að loka stofnuninni sem segir þennan sannleika...

Jón Ásgeir Bjarnason, 6.9.2010 kl. 09:37

2 Smámynd: Jón Ásgeir Bjarnason

Eða eins og skandinavarnir segja;

Kattastrófa.... Katastrof.....

Jón Ásgeir Bjarnason, 6.9.2010 kl. 09:38

3 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Þakka þér fyrir Jón Ásgeir. Botninn er ekki hér í Borgarfirði, svo mikið veit ég. 

Gunnar Rögnvaldsson, 7.9.2010 kl. 00:43

4 Smámynd: Júlíus Björnsson

Er minnkandi eftirspurn frá EU langstærsta innkaupa aðila Íslands ekki í samræmi við eigin útflutningsmátt hans?

Ég sé ekki betur en USA ásamt Asíu hafi betur en EU með Rússum.

Eftir Lissabon munu Þjóðverja hafa misst ekki af sínum möguleikum að flytja út til USA. Hvað ætlar einangruð EU að gera í framtíðinni?

Júlíus Björnsson, 8.9.2010 kl. 00:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Gunnar Rögnvaldsson
Gunnar Rögnvaldsson

Búseta: Ísland.
Reynsla: 25 ára búseta í ESB og fyrirtækja-rekstur í DK/ESB frá 1985 til 2010. Samband:
tilveraniesb hjá mac.com

Ég er hvorki skráður á Facebook, Twitter, Linkedin né á neinum öðrum "félags-vefjum". Aðsetur skrifa minna er einungis að finna hér á þessari síðu og á tilveraniesb.net og í blöðum og tímaritum

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband