Leita í fréttum mbl.is

Tillögur til breytinga á Mbl.is | Engin bylting hér

MOGGAÚTGÁFAN Á NETINU - HTTP Þ.E. HYPERTEXT-FORMIÐ

Þar sem ég gefst næstum upp þegar ég sé forsíðu mbl.is og sný mér of oft á hina hliðina og aðhefst ekkert, þá eru hér nokkrar breytingartillögur um skipan hennar. Svona myndi ég hafa Moggavefinn ef ég ætti hann. Þessa flipa myndi ég hafa:

Fréttir: – þar undir væri: Ísland og Útlönd á tveimur flipum

Pólitíkin: – stjórnmál (íslensk)

Hagkerfið – Ísland, Útlönd

OMG: – allir vita hvað það er

Vikan: – samkeppni við besta blaðið (Vikuna)

Séð & heyrt: – ekta slúður

Hrunið: – brestandi bólur og bólutengd þvæla

Góða fólkið: – CO2 og grenjandi fólk

Bannorðið: – allt sem er bannfært og bannað

Smáauglýsingar: – tilkynningar og auglýsingar frá stjórnmálaflokkum

Tímasóun: – RSS-straumur frá keppinautunum (þá þarf maður ekki að fara þangað)

OMG yrði vinsælt og myndi hitta í mark. Vikan gæti orðið vönduð deild um aukna ediknotkun, húsráð, tertur, smurbrauð og dramatík. Séð & Heyrt vita allir hvað er. Óþarfi er að láta gott slúður fara til spillis. Þarna væri það allt, veðurspár og fréttir af veðrinu líka. Hrunið: gæti einnig orðið vinsælt, því þar myndi allt sem er að hrynja, á einn eða annan hátt, verða birt. Dæmi: ferðamannabólan. Fylgishrun flokka, sérstaklega Ríkisútvarpsflokksins. Ófærir vegir. Fólk sem fær ekki það sem það heimtar og tekur það bara frjálsri hendi, o.s.f.v. Góða fólkið: þarf varla að kynna sem þá lofttegund sem það er. Þarna yrði allt sem kostar aðra mikið en mig ekki neitt, og þar með talinn væri næstum allur vinstrivængurinn. Bannorðið: þar væri allt sem er bannað, sem er mikið. Og einnig þeir og það sem verið er að bannfæra þá og þá stundina, og listi yfir bannfærðar persónur og málefni, sem eru mörg. Hagkerfið: þarf ekki að kynna frekar og allir þekkja Stjórnmálin

Það vantar sennilega Sveitina eða Hektarann, því 200-mílur er mjög gott

Reglur um útlit sem menn verða að muna. 1) Þó svo að Apple og Microsoft breyti útliti sinna vefsetra og viðmóti í stýrikerfum, þá ætti aldrei að fylgja þeim breytingum né heldur þeim grafísku- og uppsetningar- straumum sem þar koma fram. Góð og notadrjúg vefhönnun er það sem bæði þessi fyrirtæki hata, þau lifa nefnilega á breytingum og að ekkert virki. Ekki herma eftir þessu rugli sem þannig verður til sem afleiða niðri á hönnunarstofum, sem að eðlisfari eru að minnsta kosti jafnlatar og blaðamenn. 2) Og vinsamlegast athugið að vefhönnun er í dag lægst launaða aukastarf sem hægt er að hafa. Þess vegna eru flestir vefir svo gott sem ónothæfir. Dæmi: flestir fjölmiðlar, Seðlabankinn, Hagstofan, bankar. 3) Ekki fylgja tískusveiflum bjána í rifnum gallabuxum sem halda að heimurinn sé iOS, fésbókar-forum í glamúrbúningi, athyglissjúkdóms-tíst eða insta-blekkingar. Takið vefinn jafnalvarlega og prentmiðilinn. Út með allar rifnar gallabuxur

Sjónvarp og útvarp er búið að vera sem fjölmiðill og alveg sérstaklega sem form á fjölmiðli. Sjónvarpskjárinn sem samkomustaður er búinn að vera, nema til að hofa í eldinn (afþreying). Það er hið ritaða mál á bæði prent- og dílaformi sem er framtíðin

****

 Fjarverslun sem hluti af smásöluverslun  WSJ 27 nóv 2019

Mynd: WSJ í gær: Fjarverslun sem hlutfall af heildarsmásöluverslun

ENGIN BYLTING HÉR

Ég get bara alls ekki séð þessa "byltingu" í smásöluverslun vegna internetsins sem allir eru búnir að vera að tala um síðan 1997. Þegar Freemans var upp á sitt besta hér á Íslandi voru þeir með 25.000 - 35.000 pantanir á ári í kringum 1988-1990 og Samtök verslunar höfðu miklar áhyggjur "af þróun póstverslunar". Ofboðslegar áhyggjur. Ofan í það eina fyrirtæki komu svo öll hin póstverslunarfyrirtækin, þannig að um 70-100 þúsund pantanir á ári var að ræða í bara tískufatnaði. Þegar ég rannsakaði hefðbundna póstverslun á þessum tíma versus "e-commerce" sem 10 árum síðar var "að koma" (þ.e.: mail order via pixel format), þá var hún á bilinu 2-8 prósent af heildarsmásölu í flestum löndum. Danmörk var mjög mjög lágt, Svíþjóð betri, Bretland og Frakkland enn betra, og Bandaríkin best. Ef teknir eru bílavarahlutir og tölvunartengdir hlutir frá, þá hugsa ég að ekkert hafi breyst miðað við áður. Þetta sést vel á myndinni frá greiningardeild hins kanadíska Scotiabank. Ergo: um er einungis að ræða enn eitt sölugasið vegna tæknibreytinga í kynningaraðferðum (e. technological transformation in sales presentation methods)

Hvernig mun þetta koma út í banka- og fjármálageiranum? Ég trúi ekki öðru en að þróunin verði á svipuðum nótum; Bankar breyta kúnnaviðmóti yfir á dílaform (e. pixel-mode). Ergo: bankar breytast, en ekki sjálf bankauppskriftin (e. the concept of banking). Hér þurfa menn að halda höfðinu köldu og ekki láta blekkast af gasorðinu "fjártækni"

Gömlu póstverslunarfyrirtækin urðu hluti af því sem kalla má "fjarverslun", þar sem bæði prentformið og dílaformið ríktu samhliða um tíma. Mörg hinna gömlu fyrirtækja gátu ekki verið með bæði formin í gangi samtímis, því póstverslun er einstakt verslunarfyrirkomulag, þar sem fyrirframgreiddur kostnaður er geigvænlegur, áður en ein króna kemur inn í kassann: þ.e. vöruþróun, trend-greiningar, samningar um innkaup og framleiðslu, ljósmyndun, grafísk hönnun, pappírsinnkaup, prentun, bókband, póstdreifing og beinar auglýsingar. Bara þessir kostnaðarliðir svara til þess að hefðbundin smásöluverslun þyrfti að byggja nýtt verslunarhúsnæði við hástræti tvisvar á ári, áður en ein króna kemur í kassann. Og þar sem allt í prentaða búðargluggunum þarf að vera til á lagar í sex mánuði. Sem sagt: "up front" kostnaður er ofboðslegur í hefðbundinni fyrsta flokks póstverslun. Þess vegna var það hálsbrjótandi fyrir þessi fyrirtæki að ætla að innleiða fjarverslun á stafrænu formi samhliða prentforminu, því sú tækni (dílatæknin) er enn dýrari en sú gamla

Að tengja kannski 10 til 15 risavaxin mainframe-backend færslukerfi hefðbundinna póstverslana sem afgreiða tvær til fjórar milljónir pantana úr eigin vöruhúsi á viku á háannatíma (sem koma inn í gegnum síma og póst) við HTTP-portið þ.e. við internetið, þ.e. við gagnvirkt pixel-viðmót, var hreinlega oft ekki mögulegt. Allt nýtt þurfti til. Þarna í hefðbundnum póstverslunum var um ein flóknustu tölvukerfi sem til eru að ræða. Engin hefðbundin verslunarmiðstöð þarf að vita kúnnanúmer, nafn og heimilisfang á hverjum einasta kúnna að hverju einasta smjörstykki eða rennilás sem hún selur. Og að taka á móti hálfri milljón símtala á dag og meira að segja borga fyrir þau, er ekki á færi hverra sem er. Það var því ekki tilviljun að tölvudeild hefðbundins póstverslunarfyrirtækis á borð við Freemans var staðsett rétt hjá tölvuháskólanum í Leeds. Þýska Ottó sem til dæmis þurfti 40 þúsund blaðsíður til að kynna vöruúrval sitt á tvisvar á ári, virðist hins vegar vera að takast umbylta öllu hjá sér yfir í "live on-line" starfsemi. En sú starfsemi er ekki eins skemmtileg og sú gamla, því hún verður vélræn eins og við færiband, og það mun draga andann úr viðskiptunum. Enginn tími er fyrir neinar "locations" við ljósmyndatökur með fyrirsætum. Flest fer fram innanhúss og spenningurinn minnkar því vertíðarbyrjunar-spenningurinn hverfur (e. season-start)

Aðeins þau hefðbundnu póstverslunarfyrirtæki sem áttu sand af eiginfé gátu gert bæði í einu og lifa enn. En þegar upp er staðið þá er fjarverslun ein erfiðasta grein smásöluverslunar sem til er. Hún krefst þess að allt sé tvöfalt betra en hjá hefðbundnum verslunum; þ.e. þjónusta, verð, hraði, tækni, markaðsfærsla, réttindi og dreifing. Ekkert af hinum nýju fyrirtækjum á sviði fjarverslunar geta gert það fyrir kúnnana sem gömlu fyrirtækin gátu. Engin þeirra ætla að nota lifandi manneskjur til að þjónusta kúnnana. Líf þeirra verður því stutt. Og um leið og þau verða arðvænleg þá drepast þau, því þá sjá fjárfestar hversu hagnaðarvonin er ofboðslega lítil og hlaupa öskrandi burt. Þarna spila nýju föt keisarans best á meðan þau eru ný, og enginn er búinn að átta sig á nektinni

Fyrri færsla

Fá Rússadindlar Íslands aldrei nóg?


Bloggfærslur 28. nóvember 2019

Höfundur

Gunnar Rögnvaldsson
Gunnar Rögnvaldsson

Búseta: Ísland.
Reynsla: 25 ára búseta í ESB og fyrirtækja-rekstur í DK/ESB frá 1985 til 2010. Samband:
tilveraniesb hjá mac.com

Ég er hvorki skráður á Facebook, Twitter, Linkedin né á neinum öðrum "félags-vefjum". Aðsetur skrifa minna er einungis að finna hér á þessari síðu og á tilveraniesb.net og í blöðum og tímaritum

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband