Leita í fréttum mbl.is

Vandamálin á Kóreuskaga í hnotskurn

Í reynd er erfiðasta vandamálið ekki sjálf Norður-Kórea. Það mál er að sjálfsögðu mjög slæmt, en verra er að það er Suður-Kórea sem allt snýst um, ef ráða á niðurlögum þeirrar bráðu hættu sem heimshlutanum og jafnvel veröldinni allri stafar af Norður-Kóreu

Norður-Kórea á nokkuð voldugan bandamann og hann heitir Kína. Hernaðaráætlun Norður-Kóreu gengur út á að þrýsta Bandaríkjaher burt af Kóreuskaga og þar með að raska valdahlutföllunum sér í hag og láta síðan tímann vinna með sér við að sameina Kóreu undir merkjum einhverskonar Norður-Kóreu. Og þarna renna hagsmunir Norður-Kóreu og Kína saman í eina allsherjar geopólitíska fullnægingu

Suður-Kórea hefur hingað til neitað að samþykkja hernaðarlausn sem leggja myndi veldi Norður-Kóreu í gips og fatla, með því að kjarnorkuvopnaáætlun hennar sé endanlega stöðvuð. Þarna er Suður-Kórea að vinna gegn trúverðugleika Bandaríkjanna í heimshlutanum og sem eru eina aflið er verndað getur heimshlutann gegn síseytlandi, æ meira umfaðmandi og ömurlega neikvæðum ógnaráhrifum einræðisríkis Kína. Þetta er sérstaklega ógnvænleg þróun fyrir Japan, því ef Bandaríkjunum er þrýst af Kóreuskaga, þá stendur ekkert lengur á milli Japans og annars vegar Kína og Norður-Kóreu. Miklu fleiri ríki í heimshlutanum eru einnig í hættu, ef valdahlutföllin raskast Bandaríkjunum verulega í óhag. Höfin í heimshlutanum verða ekki lengur örugg. Og enn sunnar eru Ástralía og Nýja Sjáland, sem hugsa sitt. Öndunarfæri beggja eru Kyrrahaf, þ.e. þau eru utanáliggjandi. Japan þarf til dæmis að flytja á þessum höfum inn öll hráefni sem það notar og svo skipa öllu út sömu sjóleiðir

Bandaríkin eiga afar erfitt með að vaða yfir vilja núverandi ríkisstjórnar Suður-Kóreu og hefja einhliða eyðileggingu á kjarnorkuvopna-apparati Norður-Kóreu, því höfuðborg Suður-Kóreu er í gíslingu stórskotaliðs Norðursins. Varnarmálaráðherra Bandaríkjanna hefur þó gefið til kynna að hægt sé að komast hjá borgaralegu mannfalli, þó svo að Bandaríkin grípi til vopna til þess einhliða að vernda þjóðaröryggi sitt óháð öllu öðru, sem er frumskylda hvers einasta þjóðkjörins forseta er þar situr, sama hvaða nafni hann nefnist. Úti er um þann forseta sem hættir sér of langt í þolinmæði vegna eins bandamanns sem stendur í vegi fyrir þjóðaröryggi Bandaríkjamanna. Og hernaðargeta Bandaríkjanna til að glíma við þetta mál er margföld. Hún er þarna til ráðstöfunar í einmitt svona málum

En það er meira. Suður-Kórea mun snúa sér í átt til Kína ef Bandaríkin missa þolinmæðina eftir lausn án ofbeldis. Og þar með gengi draumur Norður-Kóreu í uppfyllingu án þess að hún sjálf hafi þurft að lyfta litla fingri til að koma brottför Bandaríkjahers af Kóreuskaga í kring. Sunnar svitnar Japan vegna þessarar hættu og þróunar mála í ógæfuátt fyrir sig. Japan er því að vígbúast vegna þess að það efast meira og meira um að nógu öruggt sé að vera einungis undir varnarregnhlíf Bandaríkjanna, fyrst þau standa og geta lítið aðhafst vegna ríkisstjórnar Suður-Kóreu. Bandalag Suður-Kóreu og Bandaríkjanna er komið í verulega hættu

Allt hjal um þýðu vegna íþróttaleika er svæsin veruleikafirring. Þeir skipta hér engu máli og eru fullkomið sjónarspil eins og flest annað hingað til í þessu máli

Á meginlandi Evrópu er svipaður undirliggjandi valdahlutfallaleikur í gangi og þar er stóri óvissuþátturinn Þýskaland. Því landi hefur nú allt í einu dottið í hug að líta ekki lengur á Úkraínudeiluna sem verandi í djúpfrosti. Hvað gengur Þýskalandi til, spyrja menn. En sú spurning er einungis framkomin vegna fávísi. Þýskaland hefur alltaf verið og er enn algerlega óútreiknanleg stærð í Evrópu. Enginn veit í reynd hvar landið stendur. Þarna mun einnig hættuleg þróun valdahlutfalla verða, eins og sú sem við sjáum í Suðaustur-Asíu. Landmassi EvrópuAsíu og Austurlanda nær er að brotna upp. Það er að segja: Austurhvel jarðar er allt að riðlast, nema Indland. Spennið beltin

Fyrri færsla

Bandarísk verðbólga í Íran?


Bloggfærslur 4. janúar 2018

Höfundur

Gunnar Rögnvaldsson
Gunnar Rögnvaldsson

Búseta: Ísland.
Reynsla: 25 ára búseta í ESB og fyrirtækja-rekstur í DK/ESB frá 1985 til 2010. Samband:
tilveraniesb hjá mac.com

Ég er hvorki skráður á Facebook, Twitter, Linkedin né á neinum öðrum "félags-vefjum". Aðsetur skrifa minna er einungis að finna hér á þessari síðu og á tilveraniesb.net og í blöðum og tímaritum

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband