Leita í fréttum mbl.is

Hverjir eru hagsmunir Kína á Kóreuskaga ?

Tungulipur taparinn Bill Clinton flytur "framework" ræðu sína 1994. Hangir hann nú í "ramma" hennar á vegg "alþjóðasamfélagsins", sem ekki er til

- SUNNUDAGUR -

Númer eitt: Að viðhalda þeim aðskilnaði sem er. Að Kórea sé áfram tvö ríki, suðurs og norðurs. Það er eina lausnin sem Kína álítur að tryggi sig gegn völdum sameinaðrar Kóreu. Kína vill ekki samkeppni á lægsta þröskuldinum sem til er inn í það ríki sem Kína er í dag, þ.e. yfir Yalufljótið. Þetta gildir einnig um sameiðana Kóreu undir völdum Pyongyang, sem er höfuðborg Norður-Kóreu í dag. En sérstaklega og hve ákafast gildir þetta um sameinaða Kóreu undir völdum Seoul, höfuðborgar Suður-Kóreu, sem nýtur lífsnauðsynlegrar verndar Bandaríkjanna. Kína vill alls ekki sameinaða Kóreu. Hvorki undir völdum Pyongyang né Seoul. Kína vill því fyrst og fremst sundraða Kóreu

Tvö: Að viðhalda þeim stöðugleika sem er innanlands í Kína núna og sem viðhaldið er með auknum terror og ofsóknum gegn þeim sem fengið hafa viss aukin völd í suðurhlutum landsins vegna viðskiptaopnunar sjávarsíðunnar við umheiminn. Xi Jinping einsræðisherra Kína er að herða og dýpka einræði sitt yfir Kína og koma öllum þeim völdum fyrir kattarnef sem ógnað geta alræði Kommúnistaflokksins. Allir loftfimleikar á stuðara-landamærum Kína og Kóreu, með tilheyrandi gusum fólksflutninga frá 80 milljón manna fólksfjölda Kóreuskaga, myndi ógna viðkvæmu stöðugleika-ógnarveldi kínverska Kommúnistaflokksins í landinu núna. Afleiðingarnar gætu hæglega orðið ófyrirsjáanlegar, eins og sést til dæmis í Evrópu

Þrjú: Að viðhalda viðskiptasamböndum við Suður-Kóreu, Bandaríkin og Japan. Ef útflutningur Kína kemst á hættusvæði, er hætt við að kommúnistaríkið falli saman því svo fáir í Kína hafa efni á að kaupa það sem framleitt er í landinu. Einkaneyslan í öllu Kína er ekki mikið meiri en einkageiri franska hagkerfisins spyr eftir á hverju ári. Kína lagði af stað í þessa för með núll einkageira í landinu. Allt hagkerfið var eign ríkisins. Sú vonlausa upphafsstaða eins hagkerfis mun elta það um aldur og ævi og halda því vansköpuðu til enda tíma þess undir alræði. Jafnvel steinaldarhagkerfi hafa náttúrlegan einkageira er þau leggja af stað í þróunarferð

Vandamál Kína er í hnotskurn þetta: Fyrst að fólkið í landinu fær aldrei frelsi sitt, þá verður að reyna fóðra það á peningum, en samt ekki of miklum, því þegar fólkið á annað borð hefur fengið næga peninga, þá heimtar það venjulega frelsið sitt. Fólk lifir ekki á peningum einum saman. Kommúnistaflokkurinn þarf því að halda einum skildingi -eins og glampandi kattaskít í tunglsljósi- á löngu skafti fyrir framan nef fólksins, en sem það nær þó aldrei, - svona eins og evrupenings-flokkurinn Viðreisn gerir í Norður-Kúbuveldi Samfylkingaraflanna hér á Íslandi

Veldi Kína svipar á margan hátt til veldis Sovétríkjanna og Rússlands. Umhverfis Han-valdamiðju landsins liggja þeir stuðarar sem vernda eiga valdamiðjuna gegn umheiminum. "Kragann" er hægt að kalla þessa stuðara. Hann umlykur Han-Kína. Fari þeir, þá hrynur Kína. Þessa stuðara þarf að fóðra með vissu fé á sem lengstu skafti, en helst engu frelsi. Og sjá verður enn fremur til þess að eina opið sem Kína hefur gagnvart umheiminum, sjávarsíðan, missi flest þau völd sem hún fékk með gróða frá erlendum fyrirtækjum, sem staðsettu (þræla) búðir sínar þar. Það er það sem Xi einræðisherra Kína er í gangi með núna. Að tortíma þeim völdum sem fylgdu þeim auði sem skapaðist við sjávarsíðuna, en helst án þess að brenna peningana. Hann gerði þá því bara sem mest upptæka. Á kommúnistamáli heitir þetta að "uppræta spillingu". Þeir sem höfðu þannig fengið viss völd til að standa uppi í hárinu á Kommúnistaflokknum, eru ekki meir

Fjögur: Að halda utanaðkomandi öflum burtu frá Kóreuskaga. Það getur Kína ekki nema með því að reyna stanslaust að grafa undan Bandaríkjunum um allan heim. En þau hafa gætt lífs og lima Suður-Kóreu frá og með árinu 1950. Þessi deila opnar á ný glugga fyrir neðanjarðar-borveldi Kína gagnvart Bandaríkjunum. Í þeim borkjarna eru einnig borvélar Rússlands og Evrópusambandsins. Takist Kína að grafa undan Bandaríkjunum, eru Japan, Suður-Kórea og Filippseyjar komin í útrýmingarhættu og öll Asía mun springa í loft upp. Þetta vita Bandaríkin mjög vel, því þau tryggja þjóðaröryggi og siglingafrelsi þessara ríkja. En þetta stangast á við viðskiptahagsmuni Kína og því verður Peking að reyna halda einhverskonar nagandi jafnvægi í kröppum línudansi Kommúnistaflokksins á eldlínunni, en sem slitnað getur eins og hendi sé veifað

Fram til þessa hefur Norður-Kóreu tekist að leika heimsveldi undir stjórn valdastéttar sem á engan sinn líka í þessum heimi. Leiðtoganum tókst að efna til samkomu við stórt borð þar sem Norður-Kórea kúgaði Bandaríkin, Suður-Kóreu, Rússland, Japan og Kína til að líta á sig sem jafningja. Þessi sex lönd sátu því saman við sama borð þar sem fimm þeirra reiddu þar af hendi það lausnargjald sem leiðtoginn setti upp. Bein útsending til hinnar sveltandi þjóðar Norður-Kóreu sannfræði hana um að leiðtogi hennar væri þrátt fyrir allt mesti, stærsti, snjallasti og virtasti leiðtogi veraldar. Um alla hungurmorða norður kóreönsku þjóðina fór því 20 megatonna gæsahúð af stolti. Leiðtogi hennar fékk allt, en Chamberlain Bandaríkjanna, Japans, Suður-Kóreu, Rússlands og Kína, fengu ekkert. Nú er komið að næstu greiðslu. Borgið, annars sprengi ég líka Pólland. Tékkóslóvakían í maga mínum var bara forrétturinn að forréttinum. Hæ Íran!

Ekki er hægt að segja annað en að hið gamla norður-kóreanska hvíldarheimili fyrrverandi samfylkingarlegra forsætisráðherra Norðurlanda, sé að standa sig

Í Hvíta húsinu situr ekki beint tungulipur maður núna. Hvað ætlar hann að gera? Það er það sem öllu máli skiptir, en ekki það sem hann segir

Þetta er mikilvægt, því ef Kína tekur líka upp viðskiptalíkan Norður-Kóreu, þá þurfa Bandaríkin að koma sér á ný upp þeim 32 þúsund kjarnorkuvopnum sem Kalda stríðið krafðist, því Sovétið hafði 40 þúsund. Kína er og verður aldrei annað en kínverskt sovétríki. Það mun aldrei laga sig að veröldinni eins og hún er, heldur alltaf leitast við að aðlaga og draga hana að sér

Vont er vel skilgreint í Heilögum ritningum Vesturlanda. Hollt er að muna það, því kvöldlestrartími baðstofulífs þjóðar fer í hönd,- eftir berjatínslu og réttir. Rússland hefur þess bók, en Sovétríkin höfðu hana ekki. Kína mun aldrei opna hana

Fyrri færsla

Íslendingar fleyta tólg til minningar um fallna forfeður sína


Bloggfærslur 13. ágúst 2017

Höfundur

Gunnar Rögnvaldsson
Gunnar Rögnvaldsson

Búseta: Ísland.
Reynsla: 25 ára búseta í ESB og fyrirtækja-rekstur í DK/ESB frá 1985 til 2010. Samband:
tilveraniesb hjá mac.com

Ég er hvorki skráður á Facebook, Twitter, Linkedin né á neinum öðrum "félags-vefjum". Aðsetur skrifa minna er einungis að finna hér á þessari síðu og á tilveraniesb.net og í blöðum og tímaritum

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband