Leita í fréttum mbl.is

Bandaríkin eru að hefja feril sem stórveldi heimsins

Ávarp Donalds J. Trump til bandarísku þjóðarinnar 12. desember 2017. Þjóðin og þjóðríkið er það sem mestu máli skiptir, segir forsetinn hér óbeint. Það er þjóðin og þjóðríkið sem er pólitíska frumstærðin í heiminum, en ekki alþjóða- "hitt eða þetta" fyrirbærið

****

Undrabarnið

Nýlega tilkynnti Xi Jinping einræðisherra Kína að landið ætli sér að vera orðið stórveldi eftir tæplega 50 ár. Þetta sagði hann á allsherjandi ráðstefnu kínverska kommúnistaflokksins á Kína í október. Loftið seig hljóðlaust úr flestum Kínadellumönnum Vesturlanda, er einræðisherrann upplýsti þá algerlega fyrirvaralaust um að Kína væri ekki enn orðið stórveldi. Þeir héldu nefnilega það. Ganga þeir menn nú í hugsunum sínum um á múrnum langa og brosa mjótt. Einræðisherrann sagði líka að Kína yrði heldur ekki herveldi fyrir en eftir 35 til 40 ár. Og hann sagði jafnframt að efnahags- og hagvaxtarlíkan landsins væri búið að vera. En hann sagðist samt ætla að reyna að bjarga landinu með því að búa til eitthvað annað en endalaust framboð af ódýru vinnuafli, með nýju einræði. Flytja þarf nú flesta fjármuni til í ríkinu til að komast hjá uppreisn tæplega þúsund milljón fátæklinga. Og að sjálfsögðu lét hann samtímis alla vita að hann einn -já hann einn- gæti komið þessum "áætlunum" um kring, en þyrfti til þess algert einræðisvald. Þetta mun reynast landinu mjög erfitt -svo ekki sé meira sagt- og að sjálfsögðu mistakast eins og flest það sem kommúnistar taka sér fyrir hendur. Tímabundið héraðslegt herveldi verður Kína því líklega orðið eftir 40 ár, næst á eftir Japan, eða rétt áður en það rennur sömu leið og öll önnur sovétríki renna; út í sandinn

Gamalt nýtt

Rússland er nú að syngja sína síðustu nýju daga. Ástandið þar er að verða sama eðlis og skömmu fyrir upplausn Sovétríkjanna. Efnahagurinn er slæmur og rússneska fólkið er byrjað að missa þolinmæðina. Það er að verða þreytt á því að þurfa að láta sér nægja að lifa á hersýningum Kremlverja í Austurlöndum nær. Fólkið vill fá gömlu góðu dagana til baka, er hátt olíuverð byggði upp nýtt hagkerfi undir stjórn hins elskaða Vladímírs Pútín forseta. En það verð mun ekki koma aftur. Sá mikli maður vann þá kraftaverk mikið, en nú blæs að honum flest mjög á móti. Rússland er því komið í þraukum-þorrann-gírinn aftur og erfiðir tímar eru framundan. Efnahagslegar refsiaðgerðir Vesturlanda eru ábyrgðarlaus hlutur sem naga mun göt á handarbök þeirra landa er fram líður. Þau skilja þá ekki af hverju þau voru svona heimsk, því aðþrengt Rússland er stórhættulegt land fyrir heiminn allan. En svona er mannkynssagan, full af misviturlegum gjörðum - og öfugt

Sértrúarsöfnuðurinn

Evru-hrópið í Evrópu er nú að þagna. Ekki er lengur kallað til bæna fimm sinnum á sólarhring við altari evrunnar, því sviðið hefur hún flest hár af höfðum sáttmálaríkjanna sem mynda Evrópusambandið, nema Þýskalands. En þar er samt síðasti skórinn við það að falla af efnahagnum. Þýskaland er nú statt á sama vegakafla og Japan rétt fyrir hrunið 1989. Þá voru hagtölurnar fallegar mjög, nema þær sem lutu að arðsemi og þar með bankakerfinu. Það var þá þegar í steiktum molum og á barmi gjaldþrots, þó svo að hagvöxtur væri ágætur, en hann var bara allur tapsgefandi. Já, stórfenglegur taprekstur kemur líka fram sem flottur hagvöxtur, þar til talið er upp úr sparibauknum. Þýskaland er þar, að telja núllin og bankarnir vobbla. Það er verið að opna niður í gjánna sem áratugaviss kreppa í Bandaríkjunum á næsta ári er að búa til fyrir landið. Evrópusambandið er í rusli og getur ekki lengur haldið Þýskalandi uppi. Bretland er að lokast. Og Kína er búið að vera um aldir. Rússland hangir á oddhvössum nöglunum og Tyrkland lítur ekki vel út. Hver á að kaupa útflutninginn af Þýskalandi, sem nemur helming landsframleiðslu þess? Að minnsta kosti ekki Sádí-Arabía. Helmingur landsframleiðslu er súrrealistísk hlutfallsleg stærð hjá einu meiri háttar hagkerfi veraldar, miðað við allt áður þekkt í þessum heimi. Heimurinn er að læsa klónum um þýskan efnahag. Útflutningsháða Þýskalandið er algerlega hjálparvana og ósjálfbært í alla staði. Það getur ekkert og krónísk vanneysla er þar orðin stofnanavædd, þökk sé skipulagsbreytingum kratans Gerhards Schröder sem breyttu Þýskalandi í láglaunaland og fluttu sparnað heimilanna yfir til fyrirtækja landsins sem síðan kveiktu í Suður-Evrópu með honum - og þar á undan vegna sameiningar-blindu Helmuts Kohl. Og nú eru þýsku stjórnmálin að leysast upp. Þýskaland á ekki nema nokkur ár eftir undir bara rétt svo tæplega þolanlegum stjórnarháttum. Þar er allt pólitískt kolsvart framundan. Algerlega kolsvart. Og já, fjármálakerfi landsins lifa í hinum pólitíska heimi, hvort sem þeim líkar það líf betur eða verr - og enginn þjóðríkislegur eldveggur mun halda þeim bruna á einum stað, því sá veggur liggur á evru-altarinu, steindauður. Þar mun loga glatt og Þýskaland breytast í nýtt framköllunarherbergi stórkostlegra geopólitískra breytinga, til hins verra, einu sinni enn

Hráolíuútflutningur Bandaríkjanna í september 2017 - þúsundir tunna á dag

Mynd: Hráolíuútflutningur Bandaríkjanna í september, þúsundir tunna á dag

Réttingaverkstæðið

Nú hefur Donald J. Trump verið forseti Bandaríkjanna í næstum ellefu mánuði. Hann var kjörinn vegna þess að hann var ekki stjórnmálamaður og vegna þess að hann talar ekki eins og pólitísk öndunarvél. Í ellefu mánuði hefur honum tekist að móðga Sjibbóletta veraldar svo gróft, að þeir dyraverðir viðtekinnar rétthugsunar vita ekki enn hvaðan á þá stendur veðrið úr hinni gömlu Bilblíu Trumps, þó aðallega úr Gamla testamentinu: þ.e.a.s. að þjóðin og þjóðríkið er mikilvægasta stofnun mannkyns. Örvæntingarfullt túmúltast Sjibbólettarnir því hoppandi og skoppandi um á þeim öldum sem forsetinn veldur, og reyna að halda sér á pólítísku floti með því að hlusta á ný og gömul samkomulög úr Sjibbóletta-turnspírum kenndum við hina eða þessa borgina, helst staðsettri á meginlandi tapranna. Trump sparkar nú út hverja útópísku Sjibbóletbeygluna af annarri af Lýðveldi Bandaríkjanna. Þær urðu til þegar menn héldu að heimurinn væri frelsaður að eilífu eftir fall Sovétríkjanna og tilurð Evrópusambandsins, frá 1991 fram til 2008. Og þær beyglur eru margar og djúpar. Ískra mun réttingaverkstæði Trumps því hátt í henni veröld. Sjibbóletta-gengi veraldar mun varla þekkja sig í heiminum eftir átta ár með Trump sem verkstæðisformann. Þagna því þeir, eða farast

Aldir Bandaríkja Norður-Ameríku eru að renna upp - og fimm hundruð ára valdatímabili Evrópu er hér með lokið. Þar er ekkert sem á heimsvísu skiptir máli lengur. Lýðveldi Bandaríkja Norður-Ameríku mun fara hroðalega og ómjúkt í taugarnar á mjög mörgum á næstu árum. Sumum mun finnast veldi þeirra hart. Já, eftir útópíutímabilið mikla mun það koma mörgum fyrir sjónir sem verandi einmitt hart. Rétta orðið er hins vegar, raunsætt. Hitt var afbrigðilegt

 

Ávarp Donalds J. Trump til þjóðanna í byggingu Sameinuðu þjóðanna, september 2017. Einn mikilvægasti boðskapur sem þar hefur verið fluttur

(Ræðutextinn)

****

Fyrri færsla

Ríkið hefur ekki vit á þessu


Bloggfærslur 13. desember 2017

Höfundur

Gunnar Rögnvaldsson
Gunnar Rögnvaldsson

Búseta: Ísland.
Reynsla: 25 ára búseta í ESB og fyrirtækja-rekstur í DK/ESB frá 1985 til 2010. Samband:
tilveraniesb hjá mac.com

Ég er hvorki skráður á Facebook, Twitter, Linkedin né á neinum öðrum "félags-vefjum". Aðsetur skrifa minna er einungis að finna hér á þessari síðu og á tilveraniesb.net og í blöðum og tímaritum

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband