Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, október 2009

Valdis Dombrovskis forsætisráðherra Lettlands herðir þumalskrúfurnar á AGS og ESB

Úr glugganum í viku 41 
 
Miðvikudagur 7. október 2009
 
Valdis Dombrovskis forsætisráðherra Lettlands er samkvæmt heimildum BBN í gangi með lagabreytingu sem á að takmarka aðgang lánadrottna (sem að mestu eru erlendir bankar) að eignum húnsæðislántakenda í Lettlandi sem eru umfram þá fasteign sem veðsett er fyrir lánunum. Ef þetta verður mun það þýða að bankar munu ekki geta gengið að eignum lántakenda umfram þá fasteign sem veðlánin hvíla á. Þetta er að sögn Lars Christensen hjá Danske Bank ákveðinn mótleikur gegn þeim mikla þrýstingi sem Alþjóða Gjaldeyrissjóðurinn og Evrópusambandið beitir ríkisstjórn Lettlands, því þetta mun þýða mikil töp fyrir þá erlendu banka sem stóðu fyrr um 80-90% af útlánum í Lettlandi síðustu mörg árin - þ.e. skyldi landið neyðast til að fella gengi lats gagnvart evru. Valdis stillir hér með þumalskrúfurnar á AGS og ESB á snaraukinn þrýsting. Þetta er meira en hægt er að segja um baráttuvilja og ákveðni vissrar ríkisstjórnar sem núna situr lömuð í hræðslubúri miklu norðar og hugsanlega einnig neðar í plánetu okkar; BBN | Børsen

Hagvöxtur í Finnlandi á milli mánaða miðað við fyrra ár
Hagstofa Finnlands tilkynnti í morgun að þjóðarframleiðsla Finnlands féll um 11,6% í júlí miðað við sama mánuð á síðasta ári og um 1,5% frá því í júní á þessu ári. Myndin (hagstofa Finnlands) sýnir þróunina mánuð fyrir mánuð á milli ára (YoY). Samdrátturinn virðist því halda áfram í Finnlandi svo ekki er ólíklegt að spá seðlabanka Finnlands um 7,2% samdrátt á þessu ári muni standast. En bankinn lækkaði hagspá sína fyrir Finnland í síðustu viku. Þar spáði seðlabankinn engum vexti í Finnlandi á næsta ári en 1,6% hagvexti árið 2011; Hagstofa Finnlands

Þriðjudagur 6. október 2009

Danmörk mun ekki uppfylla inntökuskilyrðin inn í myntbandalag Evrópusambandsins næstu árin og því telur Lars Løkke Rasmussen forsætisráðherra litlar líkur á að það gagni neitt í bráð að halda nýja þjóðaratkvæðagreiðslu [já eina ferðina enn!] um það sem Danir sögðu nei við árið 2000. Þá sögðu Danir nei við því að skipta dönsku krónunni út með evrum. Tapið á ríkisfjármálarekstri landsins verður einfaldlega of stórt. Danmörk er því ekki velkomin í evruregluna núna; DI | tengt efni; Dönsk peningamálastefna hin síðustu 10 ár í ljósi efnahagsmála Evrópusambandsins og EMU
 
Fleiri stuttar fréttir í glugganum 
 
 
Fyrri færsla

Búrhænsni Evrópusambandsins sögðu já á Írlandi núna

Guði sé lof fyrir efnahagshrunið á Írlandi 

Það kom já út úr búrhænsnunum á Írlandi núna. Þetta er því endanleg niðurstaða. Endanlega endanleg. Ef það hefði komið nei hefðu Írar þurft að fara inn í búrin á ný og kjósa aftur. Þökk sé hrundum efnahag og ónýtri mynt Írlands kreistist út eitt blátt egg vegna mikils súrefnisskorts í hænsnabúrunum undanfarið. Eggið verður svo spælt í grísafitu á pönnu í Brussel 

Þegar að Evrópusambandinu kemur, þá eru öll kosningaúrslit sem auka völd Brussel álitin sem verandi endanleg úrslit kosninga. En öll kosningaúrslit sem eru andstæð því að aukin völd séu flutt til Brussel eru alltaf álitin sem einungis tímabundin kosningaúrslitúrslit 


 

Leiðari fyrir búrhænsni

Næsta skref forsprakka Evrópusambandsins sem vinna skattfrjálst á of háum launum í eina heilaga heimalandi sambandsins í Brussel, hlýtur að verða það að bráðnauðsynlegt sé að takamarka enn frekar völd og áhrif ríkisstjórna og stjórnmálamanna í aðildarlöndum sambandsins - og það sem allra allra fyrst. Takmarka völd heimilanna. Þeim rökum mun verða beitt að ekki gangi að ríkisstjórn eins lands steli atvinnutækifærum frá hinum löndunum með því að múta fyrirtækjum í heimalandi sínu til flytja störfin heim aftur þegar efnahagurinn brennur. Það sé náttúrlega ekki samþykkjanlegt að gera fyrirtækin háð svona lyfjagjöf eða hvatningu. Og svo er það náttúrlega ömurlegt að gera löndin háð fyrirtækjum sínum, það væri nú aldeilis voðalegt.

En bíddu aðeins. Var það ekki einmitt þetta sem Neelie Kroes samkeppniskommisar ESB sagði við Financial Times á föstudaginn? Jú reyndar. En það er einmitt þetta sem ESB gengur útá. Það gengur út á að leggja niður þjóðríki Evrópu í smá skömmtum. Í stað þeirra á að koma eitt stykki nýtt Sambandsríki Evrópu, United States of Europe. Þar mun sjálf sambandsríkisstjórn USE ráðskast enn meira með líf og limi þegnana, fyrirtækja þeirra og svo skammata áburði á milli héraða sem áður voru sjálfstæð ríki. En hvað með innflytjendastefnu ESB? Af hverju er í lagi að múta fólki til að flytja á milli landa og þá sérstaklega frá þeim löndum sem þurfa mest á sínu eigni fólki að halda við að byggja upp lönd sín eftir gereyðingu kommúnismans í Austur Evrópu? Eftir gjaldþrot áætlunarbúsakpar Moskvu í 45 ár. Er það í lagi? Er það bara í lagi vegna þess að það fæðast svo fáir nýjir skattgreiðendur í þeim löndum sem ráða öllu í ESB? Á sama tíma vill Brussel stoppa skattasamkeppni á milli landanna. Á hverju meiga löndin þá keppa sín á milli? Burtflognum hænum?

En hvað með Kína? Af hverju hættir ESB þá ekki að versla við kommúnistana í ríkisreknu Kína? Og hvað þá með fylkisríkisstjórnir Bandaríkjanna, sem lokka fyrirtæki til sín með skattaafslætti. Þarf ekki að stoppa þetta?

Verpið

Eiga þegnar Evrópusambandsins, sem bráðum fá hina nýju stjórnarskrá Brussel dregna yfir hausinn á sér eins og múldýr án kosningaréttar, að verða einu heimilislausu þegnar þessa heims? Bara svo þeir í Brussel geti haldið áfram að fá há laun og komist hjá því að greiða skatt í samtökum sem væri búið að loka ef þau væru lögleg? Og hvað með hinn risastóra hagnað á viðskiptajöfnuði Þýskalands við umheiminn? Eigum við að fjármagna þetta hrikalega ójafnvægi Þýskalands við umheiminn inn í rauðan dauðann? Hvernig væri að kaupa eitthvað af okkur hinum?

Hver bað um Evrópusambandið? Enginn. Enginn nema Brussel. Þetta er ennþá allt upp á gamla mátann hér í Evrópu. Eina byltingin hér sem kom neðanfrá, frá fókinu sjálfu, var hrun kommúnismans. Allt hitt kom að ofan, beint í hausinn á okkur. Það er því ekki undalegt að búið sé að banna gömlu ljósaperurnar í ESB. Það gæti nefnilega kviknað á einni þeirra aftur. FT; Kroes warns EU over ‘stealing’ car jobs

Fyrri færsla


mbl.is ESB fært um að hlusta á fólkið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vaxandi áhugi á gjaldþroti spænska, ítalska og þýska ríksins

Úr glugganum í viku 40 
 
Something will have to give in the long run
Velta á afleiðumarkaði fyrir t.d. tryggingar gegn greiðslufalli ríkissjóða eða hin svokölluðu CDS (afleiður skuldatrygginga eða e. credit default swaps) er kominn í gang á ný. Að þessu sinni fer áhugi fjárfesta hraðast vaxandi á pappírum sem tengjast greiðslufalli ríkissjóða landa Vestur Evrópu. Mestur áhugi er t.d. vakinn á greiðslufalli ríkissjóða Ítalíu og Spánar. Það er einnig vaxandi áhugi á gjaldþroti Þýskalands. Fjárfestar hafa minnkandi áhuga á að veðja á greiðslufall ríkissjóða landa eins og t.d. Tyrklands, Brasilíu, Úrkaínu og álíka nýmarkaðslanda. Þar hefur því velta með svona pappíra minnkað mikið. Þessi vaxandi áhugi fjárfesta tengist ört vaxandi halla á rekstri ríkissjóða landa Vestur Evrópu. Fjárfestar minnast bankahrunsins á Íslandi og vita vel að margir ríkissjóðir landa Vestur Evrópu hafa gengist í gífurlega miklar ábyrgðir fyrir skuldbindingum illra stadda bankakerfa sinna. Pappírar svona ríkissjóða sem halda bankakerfum síum á lífi í faðmi ríkisins eru því að eitrast í hugum fjárfesta. Þeir reyna nú að tryggja sig í auknum mæli.

Áhugi á t.d. greiðslufalli ríkissjóðs Íslands ætti ekki að vaxa meðal fjárfesta nema að íslenska ríkið gangist í ábyrgð fyrir vissum hlutum eins og t.d. Icesave - því bankakerfi Íslands er jú búið að fara á hausinn. Hin bankakerfin eiga það eftir, kannski. Það væri ekki sérlega viturlegt að endurtaka gjaldþrot íslenska bankakerfisins í nýjum leikbúningi sjálfs ríkissjóðs Íslands því það eru skattgreiðendur á Íslandi sem fjármagna fatakaup ríkisins. 

Það hefur sennilega heldur ekki bætt skap fjárfesta að stór halli á fjárlögum evrulanda mun ekki auka á lífslíkur evru-myntarinnar því einmitt stöðugleikasáttmálinn sem kenndur er við hollenska bæinn Maastricht segir að jafnvægi í ríkisrekstri sé forsenda myntbandalagsins. Þessu ætlar t.d. Frakkland að gleyma alveg á næstu árum með því að sprengja fjárlög franska ríkisins um 8,5% í loft upp og litlar líkur eru á að sá halli lagist næstu mörg árin. Þetta verður fröken Angela Von Merkel ekki ánægð með. En hvort hinn ofvirki herra G1, Nicolas Sarkozy, hafi einbeitingarhæfileika til að hlusta á rökfasta fröken Merkel, efast ég um; FT Deutschland | Les Echos

Undirliggjandi þættir 0,3% hagvaxtar í Þýskalandi á 2.fj. 2009
Undirliggjandi þættir hins “tölfræðilega” 0,3% hagvaxtar sem náðist í Þýskalandi á milli 1. og 2. fjórðungs ársins voru þessir. Vöxturinn náðist með því að (a) ganga á óseldar birgðir (–1.9%) sem hrannast höfðu upp sökum hrunins útflutning á fyrri fjórðungum og sem búið var að framleiða í þjóðfélaginu á fyrri fjórðungum [ munið hina stóru þýsku ríkisstyrki sem greiða hluta launa starfsmanna fyrirtækja - Kurzarbeit - og sem fær þýsk fyrirtæki til að framleiða þar áfram þó svo engin eftirspurn sé ] og (b) með bættum nettó-útflutningi sem náðist með því að útflutningur hrundi minna á milli fjórðunga (-1,2%) en innflutningur sem hrundi massíft (-5,1%). c) Auka útgjöld ríkisins um 0,4% og (d) hvetja einkaneyslu áfram um 0,7% með því (sennilega) að borga skattgreiðendum peninga með peningum skattgreiðenda til að henda bifreiðum sínum svo þeir gætu keypt sér þær nýju bifreiðar sem til voru í endalausum röðum á lager í Þýskalandi. Þökk sé peningum skattgreiðenda sem greiddu hluta launa til framleiðslu þessara bifreiða sem fóru á lager. Einfalt?
 
Ef þú sérð aldrað fólk í nýjum bílum í Þýskalandi þá veistu hvað hefur gerst. Ef þú sérð ungt fólk í strætó þá veistu að það átti engan bíl til að henda. Þessum góðu fréttum um "efnahagsbatann" í evrulandi hafa fjölmiðlar Evrópu nú stönglast stanslaust á vikum saman. "Ríkið" bjargar þessu; Hagstofa Þýskalands | tengt; á hvorn veginn féll Berlínarmúrinn?
 
Fleiri stuttar fréttir í glugganum
 
Fyrri færsla:

« Fyrri síða

Höfundur

Gunnar Rögnvaldsson
Gunnar Rögnvaldsson

Búseta: Ísland.
Reynsla: 25 ára búseta í ESB og fyrirtækja-rekstur í DK/ESB frá 1985 til 2010. Samband:
tilveraniesb hjá mac.com

Ég er hvorki skráður á Facebook, Twitter, Linkedin né á neinum öðrum "félags-vefjum". Aðsetur skrifa minna er einungis að finna hér á þessari síðu og á tilveraniesb.net og í blöðum og tímaritum

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband