Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2009

2009: Nú hefst annus horribilis Evrópu. Gáttaþef Ingibjargar og flökt forsætisráðherra

Útvortis verður innvortis. Kommissar Ímat Úrmat þefar gáttir

Þeir sem vita sér nefi lengra vita að það ár sem fer í hönd ásamt þeim næstu árum sem þar á eftir koma munu verða áratugur horribilis í Evrópusambandinu. En á meðan nef stjórnmálamanna er svona langt þá geta þeir í hlutarins eðli ekki séð fyrir endan á því. Það er nefnilega orðið svo alltof alltof langt. Útrás fyrir vonbrigði annus horribilis utanríkisráðherra Íslands fer því miður öll fram innan ríkis núna. Utanríkisráðherrann er orðinn innanríkisráðherra eftir að annus öryggisheimsveldis Íslands varð að horribilis í útrásaræði utanríkisráðherra Íslands til Nýju Jórvíkur. Forsætisráðherra Íslands er því miður einungis orðinn dyravörður í gáttaþefi Ingibjargar Sólrúnar til Brussel. Nýja Jórvík brást og nú er það því Brussel sem utan- og innanríkisráðherrann vill að verði hið nýja tómstundargaman hennar og flokks hennar. Þetta má íslenska þjóðin því miður þola eftir allt sem á undan hefur gengið

Það er átakanlegt að lesa áramótaávarp utanríkisráðherra íslenska lýðveldisins, Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, þar sem hún segir frá því að hún hafi gersamlega brugðist sem þáttakandi í markaðinum. Hún kennir ekki sjálfri sér um eigin kjánaskap. Nei, hún kennir markaðinum um óvit sitt. Einnig fer hún með staðlausa stafi um málefni Írlands í ávarpi sínu. Í því tilefni bendi ég á fyrri grein mína: (CEPR: Hrun íslenskra banka: ófært og gallað viðskiptalíkan)

En ég get sagt utanríkisráðherranum, sem greinilega á ekki að tjá sig um efnahagsmál, eftirfarandi: þetta er lækningin væna mín! Það er svona sem markaðurinn leiðréttir sig. Kreppa er lækning. Markaður er nefnilega markaður. Hann er staður og stund þar sem kaupendur og seljendur eiga viðskipti sín á milli og á því verði sem þeir semja um. Er utanríkisráðherrann að segja hér að sjálft markaðsverðið hafi ekki virkað? Að það hafi verið rangt? Eða er hún að segja að kaupendur hafi kanski verið fífl, nema kanski að það hafi verið seljendur sem hafi verið fíflin?

Ef maður, af mikilli staðfestu, kaupir allt á uppsprengdu verði og úr samhengi við mögulega innbyggða arðsemi fjárfestinga sinna, þá er alveg með réttu hægt að kalla mann fífl. Dæmi: þeir sem skilyrðislaust setjast inná dýrustu veitingastaði heimsins einungis af því að þeir eru þeir dýrustu - og sem skilyrðislaust kaupa og drekka allt það dýrasta af því sem er dýrast - og einungis vegna þess að það er dýrast - já, þá er með sanni hægt að kalla svona þátttakendur markaðarins fyrir fávís fífl. En það þýðir samt ekki að markaðurinn hafi brugðist. Þú baðst um inngöngu á dýrasta staðinn, þú baðst um dýrsta réttinn og þú baðst um dýrustu vínin - og þú fékkst þau. Markaðurinn afhenti þér vörurnar. Það var ekki markaðurinn sem brást. Það var hinsvegar heili þinn og skynsemi þín sem brást, því allt þetta sem þú baðst um var hægt að fá fyrir brot af því verði sem þú greiddir, ef þú hefðir ekki verið svona mikill kjáni sem bara varð að sveifla um sig með seðlunum til þess eins að sanna sig. Seðlarnir komu úr bönkunum og kostuðu nánast ekki neitt því framboð kjánaskapar var svo mikið

Ástæðan fyrir því að útrásaræði Samfylkingarinnar til Nýju Jórvíkur fór á hausinn var sú að svo yfirgnæfandi nóg hafði Samfylkingin af ódýrum seðlum skattgreiðenda á milli handa sinna. Banki Samfylkingarinnar borgaði, þ.e. skattgreiðendurnir litla Gunna og litli Jón. Þessi útrás var keyrð af sama skorti á vitsmunalegri greind, vitsmunalegri nýsköpun eins og gandreið nokkurra íslenskra athafnamanna um smásölumarkaði Evrópu - fjármögnuð af einkabönkum þeirra. Núna eru bæði Samfylkingin og bankarnir gjaldþrota

En hvað gerist svo í kjölfarið á gjaldþrotinu?

Jú,- nú er það flökt stjórnmálamannanna sem tekur við. Á fagmáli eru svona sveiflur kallaðar flökt (e. volatility) eða óstöðugleiki. Flökt og óstöðugleiki stjórnmálamanna virðist því miður vera miklu meiri og miklu stærri en flökt íslenska gjaldmiðilsins hin síðustu 7 ár á hinum frjálsa markaði sem utanríkisráðherrann segir nú að sé ónýtur? Hefur þetta þá smitandi áhrif á gengi gjaldmiðilsins? Það mun ég koma inná seinna

. . og hver ræður á Íslandi núna?

Hver ræður á Íslandi núna eftir að bankarnir og klapparar þeirra hættu að ráða og stýra Íslandi? Jú, nú er það ESB málið sem á að breiða yfir algeran vanmátt ríkisstjórnarinnar í eigin húsi. Það er nefnilega svo að kjána- og óvitaskapur ríkisstjórnarinnar svipti hana stýri á eigin skútu. Nú er það Alþjóða Gjaldeyrissjóðurinn (IMF) sem hefur stýrið og völdin, skiljanlega. Forsætisráðherra og utanríkisráðherrann, sem í raun er innanríkisráðherra, eru einungs valdalausar skopparakringlur sem snúast í kringum skútuna uppi í þurrkví. Þau eru núna að íhuga hvort það eigi ekki að henda vélinni fyrir borð svo skútan megi fljóta aftur þegar þau seint og síðar meir taka við henni úr höndum IMF. Einnig íhuga þau hvort ekki væri ráðlegra að hætta alvöru útgerð og skrá áhöfnina á skítalaunum undir hagkvæminsflaggi Panama eða ESB um allan aldur og eilífð. Það sem áður hrjáði hið íslenska bankakerfi sem Evrópusambandið kom á hausinn með hjálp nokkurra Íslendinga með stórmennskubrjálæði úti í Evrópusambandinu, það er núna í skuggalega miklum mæli einnig farið að hrjá ríkisstjórnina. Hún er það sem á fagmálinu er kallað flöktandi, eða volatile - og því verulega hættuleg. Ríkisstjórnin heldur að hún geti breytt yfir vanmátt sinn með því að fara að tala um málefni sem eru utan verkahrings hennar og sem alls ekki eru til í stjórnarsáttmála hennar. Hún heldur að fólk sé fífl og gleypi við gömlu táfýlu fötum nýja keisarans í Evrópu

Alþekkt nema á Íslandi? 

Ég hef alltaf vitað að það sem þingmaður breska íhaldsflokksins, Daniel Hannan, skrifar í grein sinni í Morgunblaðinu í dag um Ísland og Evrópusambandið sé hárrétt. Ég veit það vegna þess að ég er búinn að búa hér í Evrópusambandinu í 25 ár og sunda viðskipti og rekstur hér sem Íslendingur samfleytt frá því árið 1989. Það hefur alltaf verið litið niður til okkar Íslendinga af embættismönum Evrópusambandsins. Þeir eiga sér þá ósk heitasta að þessi þyrnir þarna í norðrinu stígi nú loksins niður af hvíta hestinum til okkar hér í framtíðarríki fátæktarinnar, Evrópusambandinu. Það getur nefnilega ekki verið að neinn geti þrifist svona vel án Brussel. Það gengur bara ekki. Einfaldasta leiðin til að tryggja Ísland gegn hagsæld er nefnilega að fá Ísland með í Evrópusambandið. Þá þurfa Brussellingar nefnilega ekki að horfa uppá þetta fyrirmyndar fordæmi þarna hátt uppi á hestinum í norðrinu í félagsskap frænda okkar Norðmanna

En það er leið út úr lömunarveikinni. Hún heitir Vinstri Grænir og Sjálfstæðisflokkur í nýrri ríkisstjórn. Ísland hefur ekki þörf fyrir að afsala sér landi og lýðræði voru. Enga þörf fyrir það og enga löngun til þess. Svo miklir aumingjar erum við ekki ennþá orðnir af öllu góðærinu - því góðæri sem því miður reyndist hallæri fyrir sterka og góða almannaheilli, öllum til heilla. Hallæri hins sterka ramma um almannaheill og öryggi landsins. En hvernig má annað vera þegar utanríkisráðherrann er á flippi og skynjar ekki þær hættur sem beinast að öryggi landsins. Öryggismálin virti hún að vettugi

Klofinn flokkur

Sjálfstæðisflokkurinn er orðinn margklofinn flokkur. Er kanski kominn tími til að flokkurinn gangi í sig sjálfan aftur? Það er alls ekki hægt að horfa framhjá því að hornsteinar flokksins hafa raskast það mikið að vörumerki flokksins er nú að ganga honum úr greipum yfir til Vinstri Grænna. En það er allavega eitt sem ég er búinn að gera upp við sjálfan mig. Eins mikill harðlínu kapítalisti sem ég er, þá mun ég fram í rauðann dauðann frekar kjósa vinstrimenn á borð við Vinstri Græna heldur en að ljá atkvæði mitt flokki sem mun setja það á stefnuskrá sína að ganga í Evrópusambandið og þar með leggja niður það Ísland sem við þekkjum ásamt velferð þess. Ekkert getur orðið verra fyrir Ísland en að breytast í Ítalíu norðursins eða í Nýfundnaland vestursins. Ekkert!

Páll Skúlason

Að lokum

Ég mæli eindregið með að sem flestir horfi og hlusti á viðtal Evu Maríu við Pál Skúlason fyrrverandi háskólarektor hér: 

http://dagskra.ruv.is/sjonvarpid/4454024/2008/12/28/

Hlustið vel og vandlega á það sem Páll segir. Takið eftir notkun hans á nýsköpunarhugtakinu og á orðunum almannaheill og stofnanir.

 

Fyrri pistill: Enginn vildi evru - eða hvað?

Forsíða þessa bloggs 

Af tilefni sendi ég Ingibjörgu Sólrúnu mínar bestu bataóskir í hennar persónulegu heilsufars baráttu 


« Fyrri síða

Höfundur

Gunnar Rögnvaldsson
Gunnar Rögnvaldsson

Búseta: Ísland.
Reynsla: 25 ára búseta í ESB og fyrirtækja-rekstur í DK/ESB frá 1985 til 2010. Samband:
tilveraniesb hjá mac.com

Ég er hvorki skráður á Facebook, Twitter, Linkedin né á neinum öðrum "félags-vefjum". Aðsetur skrifa minna er einungis að finna hér á þessari síðu og á tilveraniesb.net og í blöðum og tímaritum

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband